Nottingham Forest á þriðjudag (Upphitun)

Eftir tvo bikarleiki á einni viku er komið að næsta verkefni og það er stórt. Heitasta liðið í deildinni (ásamt Newcastle reyndar) bíður okkar á City Ground á þriðjudagskvöld í deildarleik þar sem ansi margt er undir.

Form og fyrri viðureignir

Ég held ég fari alveg örugglega rétt með mál þegar ég segi að þetta sé í fyrsta skipti á leiktíðinni þar sem við komum inn í leikinn sem liðið í lakara formi en andstæðingurinn, þó stigasöfnunin sé ekki alslæm hjá okkar mönnum þá er hún einfaldlega fullkomin hjá heimamönnum sem hafa tekið fullt hús stiga í síðustu 5 leikjum (15 stig) á meðan að við höfum aðeins verið að hiksta og sótt 11 stig af 15 mögulegum eftir jafntefli við Man Utd og Fulham sitthvoru megin við sigurleiki gegn Tottenham, Leicester og West Ham.

Það er mjög forvitnilegt að skoða þessa formtöflu. Á meðan að Forest hafa haldið hreinu í síðustu 4 leikjum þá er okkur nánast fyrirmunað að halda hreinu og höfum lekið inn 8 mörkum í síðustu 5 leikjum og ekki unnið leik nema að hafa skorað fleiri en 2 mörk. Forest hafa að sama skapi tekið12 stig af 12 mögulegum á sama tíma í þeim leikjum þar sem þeir hafa skorað 2 mörk eða færri.

Það er engin krísa, langt því frá, en það er ljóst að við erum aðeins búnir að gefa eftir. Ekki bara í síðustu 5 leikjum heldur ef við skoðum formið í deildinni frá því í byrjun desember þá er ljóst að við erum búnir að fara úr því að vera í meistaraformi (hvort sem við horfum á fyrstu 12 leikina eða alla 19 sem búnir eru) yfir í að vera í stigasöfnun sem myndi skila liði 2-3 sæti í deild miðað við stigasöfnun síðustu 6 tímabil.

Auðvitað er hægt að taka punktstöðu á einhverjum tímapunkti á öllum þessum tímabilum þar sem að sviðsmyndin yrði eitthvað svipuð. Það er samt merkilegt að skoða að við erum núna, eftir 19 leiki, að ná að 2,42 stigum per leik að meðaltali (sem eru 92 stig yfir 38 leiki) sem er klárlega meistaraform. Eftir fyrstu 15 leikina (ágúst-nóvember) þá vorum við að ná 2,58 stigum per leik að meðaltali sem er nánast á pari við 2019/2020 þegar við unnum deildina með 99 stigum.

Það er þó einhverjar viðvörunarbjöllur sem hringja þegar við skoðum formið frá því í byrjun desember (frá og með sigurleiknum gegn City), síðan þá er stigasöfnunin ekki nema 2,14 stig að meðaltali í leik (sem gerir 81 stig yfir 38 leikja tímabil) sem er á pari við það að liðin í 2-3 sæti hafa verið að ná síðustu ár. Þetta er smá hökt eftir frábæra byrjun en það er alveg ljóst að okkar menn þurfa að finna taktinn aftur því í næstu 7 leikjum þá eigum við til að mynda Forest, Brentford, Bournemouth og City úti og þar getum við ekki verið að gefa 1-2 mörk í leik ef við ætlum okkur einhverja hluti í vor.

Það eru ekki mörg einvígi þar sem sagan er jafn mikil og hún er á milli þessara liða. Sagan er þó stærri og meiri fyrir stofnun úrvalsdeildarinnar en frá stofnun hennar hafa einvígi þessara liða verið alveg merkilega jöfn miðað við þann mun sem er á stöðu þessara liða yfir sama tíma.

Það sem æpir einna helst á mann þarna er aðeins einn sigurleikur okkar manna á City Ground á móti 3 sigrum heimamanna. Það er ekki beint eitthvað til þess að fylla mann bjartsýni fyrir þennan leik – í raun engin af þessum töflum hér að ofan ef út í það er farið.

Sigurleikurinn okkar á City Ground? Jú, það var eftir skallamark frá Darwin Nunez á 9 mínútu í uppbótartíma á síðustu leiktíð. Frábært móment, en jafnframt ætti það að minna okkur rækilega á það að ekkert er unnið í mars, hvað þá janúar.

Nottingham Forest

Það eru allir heilir hjá Nottingham Forest og enginn í banni. Fyrir utan það þá hvíldu heimamenn allt sitt lið eins og það leggur sig um helgina (sigur í FA bikarnum gegn Luton). Það er því alveg ljóst að Nuno er búinn að vera undirbúa sitt lið í rétt rúma viku daga fyrir þennan leik, þar sem þeir spiluðu ekki í deildarbikarnum eins og við og við munum alveg örugglega fá að sjá sama lið og rasskeldi Wolves á útivelli í síðustu umferð.

Liverpool

Hjá okkar mönnum er staðan í raun ekkert mikið verri, ótrúlegt en satt!

  • Gomez verður frá í nokkrar vikur og missir af þessum leik.
  • Darwin fékk gult spjald gegn Man Utd og tekur því út leikbann í þessum leik. Það verður því ekki hægt að treysta aftur á hann á lokamínútum leiksins, ef til þess kemur.
  • Konate átti víst að byrja leikinn gegn Accrington Stanley en var kippt út úr liðinu á síðustu stundu og var ekki einu sinni á bekk. Það var eitthvað slúðrað um veikindi eða meiðsli en ekkert fengið staðfest enn sem komið er. Mögulega kemur meira í ljós á blaðamannafundi Slot á mánudag.
  • Szoboszlai er kominn aftur eftir leikbann (gegn West Ham) og veikindi (gegn Man Utd & Spurs). Við höfum saknað hans en orkustigið hefur virkað lágt í liðinu, enda mikið verið keyrt á sömu mönnum.

Ég ætla að skjóta á að liðið verði nákvæmlega eins og það var gegn Man Utd, nema þá að Szobo komi inn í stað Jones, sem hefur ekki átt góða leiki í fjarveru hans. Ég er þá að gera ráð fyrir að Diaz spili aftur í þessari fölsku níu með Gakpo og Salah á könntunum og Robertson og Trent haldi sætum sínum. Þetta yrði þá s.a. svona:

Alisson

TAA – Konate – Virgil – Robertson

Gravenberch – Mac Allister
Szobo
Salah – Diaz – Gakpo

 

Spá

Ég er smeykur við þennan leik en á sama tíma temmilega bjartsýnn. Sérstaklega þar sem að við erum að koma höktandi inn í þennan leik, á völl sem hefur reynst okkur erfiður gegn heitasta liði deildarinnar. Á þessum velli, með þessa stuðningsmenn, gegn þessum stjóra og þeirra varnarleik þá getum við ekki gefið enn eitt markið og lent undir. Við þurfum að halda hreinu og ég hef alltaf trú á að við skorum mark. Þetta verður ekki auðvelt, langt því frá, en okkur tekst einmitt það. Ég ætla að skjóta á að við höldum hreinu og skorum tvö möek, eitt í sitthvorum hálfleiknum, 0-2.

Annars koma Einar, Maggi og Sigursteinn með sína upphitun og spá í næsta gullkasti sem ætti að detta inn á mánudagskvöld.

Þar til næst.

YNWA

2 Comments

Skildu eftir athugasemd

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Liverpool 4, Accrington Stanley 0 (Skýrsla uppfærð)