Heimsókn í býflugnabúið

Segja má að seinni hluti tímabilsins hafi byrjað í síðasta leik þegar okkar menn léku sinn 20. leik á tímabilinu. Frestunin gegn Everton gerir það að verkum að liðið á enn eftir að spila við hina bláklæddu nágranna sína, en er í staðinn núna búið að spila tvisvar gegn United og Forest.

Undirritaður vill fullyrða að ef okkur hefði verið boðið að vera í þessari stöðu í upphafi leiktíðar – að vera á toppnum á þessum tímapunkti með 4 stig á næsta lið og leik til góða – að þá hefðum við hrifsað það fengins hendi. En liðið er búið að gera fjögur jafntefli síðan í byrjun desember, og þess vegna væri auðvelt að líta svo á að þar séu 8 töpuð stig og liðið sé því búið að glutra niður fræðilegu 12 stiga forskoti niður í 4 stiga forskot.

Málið er samt sem áður að þannig virkar það auðvitað ekki. Þetta er ekki tímabilið 2019-2020, þegar okkar menn kafsigldu yfir deildina og töpuðu bara tveim stigum fram í febrúar. Núna er deildin jafnari, liðin eru meira í því að hirða stig hvert af öðru, og það þarf einfaldlega að mæta til leiks á fullu gasi í hvern einasta leik. Það þarf að reikna með að liðið tapi stigum, bara svo lengi sem hin liðin tapa fleiri stigum. Ef það verður reyndin í lok tímabils þá verðum við sátt og rúmlega það.

Og berst þá talið að næsta leik, þegar okkar menn skreppa suðureftir til Lundúna að heimsækja býflugurnar í Brentford, á þrælerfiðan heimavöll. Þeir voru komnir vel inn í desember þegar þeir töpuðu sínum fyrsta heimaleik, og í dag eru það bara 3 lið sem hafa haft betur gegn þeim á þeirra heimavelli: Forest, Arsenal…. og Real MadridPlymouth Argyle. Þetta er nú ekki hópur sem er svo glatt að komast inn í, en látum samt á það reyna.

Fyrri leik liðanna á Anfield í haust lauk með 2-0 sigri okkar manna, og úrslitin í síðustu innbyrðis leikjum þessara liða hafa nú almennt endað með sigri okkar manna, en þó unnu Brentford t.d. leiðinlegan 3-1 sigur í janúar 2023 – einmitt á sínum heimavelli – og svo gerðu liðin 3-3 jafntefli í september 2021.

Andstæðingarnir

Þetta er jú dönskuskotið lið eins og komið hefur fram, með baunann Thomas Frank á hliðarlínunni í 66° norður jakkanum sínum, og með Nørgaard, Jensen, Roerslev og Damsgaard alla siglandi undir dönskum fána. Nú svo er okkar maður Hákon Rafn á bekknum svona að mestu og er búinn að vera þar síðan í janúar á síðasta ári. Að lokum þá eru þeir Sepp van den Berg og Fabio Carvalho jú þarna síðan í haust þegar þeir afklæddust rauðu Liverpool treyjunum sínum og urðu röndóttir. Carvalho lítið fengið af sénsum á síðustu vikum, en Sepp öllu meira.

Þetta er eitt af þessum liðum sem hefur verið að spila bara ansi vel í vetur og náð ágætum úrslitum, sitja í 11. sæti í töflunni (fyrir ofan United) með 28 stig. Eiga kannski tæplega séns á að komast í neina Evrópukeppni, en eru að sama skapi vel fjarri allri fallbaráttu. Það þyrfti a.m.k. eitthvað mikið að breytast til að þeir myndu nálgast annað hvort þessara svæða. En eins og áður sagði hafa þeir náð fínum úrslitum á heimavelli, gerðu m.a. jafntefli þar við City í síðasta leik, og höfðu unnið Newcastle, Bournemouth og Palace heima svo nokkur dæmi séu tekin (auk fleiri leikja gegn ögn minni spámönnum). Meiðslalistinn þeirra er nú talsvert lengri en hjá okkar mönnum, en kannski ekki mikið af burðarásum fjarverandi. Þ.e. við skulum reikna með leikmönnum eins og Mbeuno, Damsgaard og Wissa á sínum stað.

Okkar menn

Byrjum á meiðslalistanum: ótrúlegt en satt þá er Joe Gomez sá eini sem er ekki leikfær, og það er enn talsvert í hann. Miðað við hvernig Slot talar, þá hljómar eins og við sjáum hann ekki fyrr en kannski í lok febrúar eða byrjun mars í fyrsta lagi. En Nunez sem var í banni í síðasta leik er aftur tilbúinn í slaginn, og það þýðir að einhver kemst ekki á bekkinn sem var þar í síðasta leik. Þá leit bekkurinn svona út: Kelleher, Tsimikas, Quansah, Bradley, Jones, Endo, Elliott, Jota og Chiesa. Það má nú frekar búast við að Nunez verði a.m.k. á bekk ef hann byrjar ekki hreinlega, og þá þarf bara að henda einhverjum af þessum leikmönnum út. Líklegast að það verði Chiesa, nokkuð ljóst að hann er tæpastur af þessum þegar kemur að spilaformi.

Svo er það spurningin hvað Slot gerir varðandi byrjunarliðið. Fyrstu 11 fengu lang flestir pásu um síðustu helgi, spiluðu jú á þriðjudaginn gegn Forest, og líklegast að hann stilli bara upp svipuðu liði og þá. Gerum samt ráð fyrir að það verði einhverjar breytingar, það kæmi t.d. ekki á óvart þó Jota byrji frammi, hugsanlega Kostas í vinstri bak, og eins mætti e.t.v. henda Curtis í byrjunarliðið. Ekki það að líklega er Grav – Macca – Szobo okkar sterkasta miðja, svo það væri ekkert út úr kortinu þó sú miðja byrji. En gerum ráð fyrir að Slot vilji rótera ögn. Samt ekki of mikið, liðið á vissulega leik á þriðjudaginn næst, en það er heima gegn Lille í CL. Það verða alveg tækifæri til að spila einhverri blöndu af A og B liðinu þar.

Semsagt, spáum þessu svona:

Alisson

Trent – Konate – Virgil – Tsimikas

Macca – Gravenberch – Jones

Salah – Jota – Gakpo

Það þyrfti samt ekki að koma neinum á óvart að sjá Robbo, Bradley, Szoboszlai, Díaz eða jafnvel Nunez byrja þennan leik. Í raun yrði maður ekkert hissa að sjá Úrúgvæjann okkar byrja, enda Brentford með líkamlega sterkt lið.

Hér er ég að gera ráð fyrir að Alisson haldi sinni stöðu í markinu. Það hefur þó verið umræða um þá tölfræði að eftir að hann kom til baka úr meiðslum þá hefur hann fengið á sig 15 skot, og af þeim hafa 9 endað í netinu. Þetta er bara alls ekkert sérstök tölfræði, sérstaklega ekki hjá markmanni af þeim kaliber sem Alisson er. Einhverjir vilja meina að hann sé ekki að treysta líkamanum jafn mikið og áður, og sé þar af leiðandi ekki að teygja sig aaaaalveg jafn langt og hann myndi kannski annars gera. Ég skal ekkert segja um þetta, nema það að lágmarka mörk fengin á sig er samvinnuverkefni alls liðsins, og ekki hægt að benda bara á markvörðinn í því samhengi. Alveg ljóst að Slot vill t.d. örugglega leggja af þennan ljóta ósið að liðið lendi undir í leikjum.

Þrátt fyrir að Brentford séu sýnd veiði en ekki gefin, þá eru okkar menn fullfærir um að skila 3 stigum í hús. Sendum nú extra góða orku til þeirra fyrir leik og hvetjum þá til sigurs – 1-3 verða úrslitin þar sem Salah, Gakpo og Macca setja mörkin.

KOMA SVO!!!!!

17 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Brentford er bara klárlega sýnd veiði en ekki gefin. Þeir eru á fínum stað á töflunni og náðu mögnuðu jafntefli í síðasta leik. Jafntefli sem sannar fyrir þeim hvers þeir eru megnugir. Það þýðir ekkert kæruleysi og ég treysti því og trúi að mínir menn geri það sem gera þarf til að innbyrða 3 stig. Nenni bara ekki að fá meiri spennu í toppbaráttuna. Varðandi byrjunarliðið þá treysti ég bara Slot og co. En klárlega er gaman að eiga nokkurn veginn meiðslalaust lið og geta t.d. átt þessa fjóra á bekk þ.e.a.s. Robbo, Bradley, Szoboszlai, Díaz. Draumurinn er öruggur og góður sigur þar sem allir ganga heilir frá borði.
    YNWA

    2
  2. Þessi vinstri bakvarðastaða er orðin smá bras, ef markaðurinn er erfiður í janúar þá mætti kannski skoða að fá Ben Chilwell á láni út tímabilið. Hann hefur spilað vel þegar hann helst heill en það gæti líka verið algjört flopp að fá hann inn þó það væri tímabundið.
    Annars langar mig líka að nefna andstæðinga okkar í City, þeir eiga hálft tímabil í smá ströggli og þá eru reiddar fram á milli 100-200 milljónir punda að öllum líkindum í janúar, lykilmönnum eins og Haaland gefnir risa samningar, mönnum eins og Walker líklegast hent út osfrv. Maður spyr sig hvernig þeir fara að þessu, en við ættum að vera í þeirri stöðu að geta eytt pening líka þó janúar sé erfiður og allt það, fyllt í þau göt sem þarf að fylla í, Slot og Liverpool eiga það skilið

    11
    • City búið að kaupa striker og tvo varnarmenn fyrir ca 115 milljón pund á síðustu dögum.

      2
  3. Jæja Jota farinn að haltra…Ef ég mætti gefa inn- og útkaupanefndinni gott ráð þá væri það eftirfarandi:

    Selja Nunez fyrir þessar 70 mills sem boðnar voru (endurtakist eftir atvikum)
    Kaupa nýjan framherja, td. þennan sem við erum að fara að mæta á morgun.

    Svona getur maður nú verið ráðagóður.

    Held það sé nú alveg kominn tími á PL sigur. Reiknum með því. Salah skorar tvö í seinni hálfleik. Alisson heldur hreinu (annars vil ég fá Kelleher aftur).

    4
  4. Og þessu alveg ótengt en ég horfði á fótboltaleik í gærkvöldi og Ghanamaðurinn Kamaldeen Suleimana verður klárlega ekki mikið lengur hjá Southampton. Þvílíkur speed merchant, svo ég sletti nú aðeins.

    5
  5. Miðað við skrif margra fyrir og eftir leikinn gegn Nottingham Forest þá hljóta margir að vera sáttir með stíg gegn Brentford líka. Þeir eru jú líka með mjög gott lið.

    Ég sætti mig ekki við neitt nema sigur og spái 2-3 sigri okkar manna þar sem Nunez gerir gæfumuninn.

    Áfram Liverpool, vinnum þessa deild, 3 stig takk!!!

    5
    • Það vantar augljóslega talsvert upp á lesskilninginn hjá þér fyrst þér tekst að skilja skrif þeirra sem þú vísar í, þannig að þeir hljóti að vera sáttir með stig fyrirfram gegn Brentford.

      Í fyrsta lagi þá var held ég enginn fyrirfram sáttur með það jafntefli. Það vildu allir sigur. Sá leikur reyndist okkur bara erfiður, við lentum snemma undir, og þessi deild er sterk. Forest er með hörkulið sem er ekkert í 3.sæti fyrir tilviljun.
      Liverpool eru drullugóðir, langt yfir væntingum flestra í ágúst, og við erum efstir bæði í Evrópu og á Englandi. En við erum ekki það góðir að leikurinn við hin liðin í topp fjórum séu bara eitthvað formsatriði. Það þarf að hafa fyrir þessum sigrum og við getum átt vondan dag eins og önnur lið.

      Alger óþarfi að hrauna yfir liðið þá sjaldan sem það gerist, það er ekkert lið að gera betur en við.

      Þýðir það að menn ljómi eitthvað með jafntefli gegn Forest ? Alls ekki. En það er heldur enginn heimsendir.

      Þess utan er Brentford í 11.sæti með 28 stig, á meðan Forest situr í 3.sæti með 41 stig, og búið að mæta toppliðinu tvisvar!!

      Svo ég endurtek að þú ert eitthvað að misskilja skrif manna ef þú heldur að menn verði eitthvað sáttir með stig gegn Brentford af því að menn voru ekki tilbúnir að vera svartsýnir og drulla yfir allt þegar við gerðum jafntefli við Forest.

      Insjallah
      Carl Berg

      11
      • Vantar upp á lesskilning hjá mér að því við lesum mismunandi í skrif fólks? Mér sýnist vanta uppá lesskilning hjá þér miðað við þitt svar.

        Eg hrauna aldrei yfir liðið eða leikmenn. Liðið er að spila yfir væntingum og er á löngum köflum að spila eins og besta félagslið í heimi. Þess vegna geri ég kröfu um sigur meðan allir eru heilir. Auðvitað mun liðið tapa stigum og þegar það gerist vill maður bara geta sagt að það reyndi sitt besta. Það sást svo á leiknum að Liverpool er miklu betra lið en Forest og áttu svo sannarlega að vinna. Jafntefli voru bara svekkjandi úrslit. Sama og, ef við gerum jafntefli á morgun.

        Insjallah

        2
      • Já já, ég ætla ekkert að vera að munnhöggvast um þetta, og vona bara að það verði góð úrslit gegn Brentford og að við báðir eigum góða helgi.

        Ég fæ bara svona “kjánahroll” þegar ég les svona setningar á borð við : þá hljóta margir að vera sáttir við stig gegn Brentford líka!

        Afhverju ætti einhver að vera það ? Brentford og Forest eru ekki beint nálægt hvort öðru í deildinni. Það er alveg eðlismunur á því að gera jafntefli við liðið í 2-3.sæti, eða liðið í 11.sæti.

        En nóg um það, fulla ferð og sækja 3 stig á morgunn. Ef það tekst ekki fer ég að hafa smá áhyggjur.

        Insjallah
        Carl Berg

        2
  6. Vissulega gæti eitt stig talist ásættanlegt fyrirfram úr þessum leik en staðan í deildinni er bara þannig að liðið má ekkert misstíga sig mikið og liðið verður að fara breyta þessum jafnteflisleikjum í sigra. Ef sigrarnir fara ekki að detta í hús þá verður Arsenal og jafnvel önnur lið fljót að koma upp að hlið Liverpool.

    Hins vegar er eðilegt að það komi eitthvað bakslag í spilamennsku yfir heilt tímabil. Það sem maður óttast mest þessa stundina er hvort að hópurinn höndli mikið leikjaálag sem er framundan. Liðið var á svipuðum slóðum í fyrra en á endanum fjaraði undan liðinu þegar leið á tímabilið. Persónulega myndi ég vilja sjá liðið bæta við sig varnarmanni fyrir loka átökin. Liðið hefur verið að leka talsvert af mörkum í síðustu leikjum og tíð meiðsli Gomez og Konate auka á óstöðugleikan í vörninni. Þá blikka viðvörunarljós í fremstu víglínu þar sem að Jota er ómögulegt að halda sér heilum og Nunez er því miður ekki að skila inn nægjanlega mikið af mörkum.

    Það er alveg klárt að liðin í kringum okkur eru að vopnast fyrir loka átökin. Í ljósi stöðunnar hjá City er klárt að önnur lið sjá að tækifærið að vinna enska titilinn er núna. Þetta er tækifæri sem mögulega býðst ekki aftur næstu árin. Það kæmi mér ekki á óvart að Arsenal komi núna með eitt eða tvö stór kaup enda sjá þeir að þetta er momentið til að fara all in. Ég vona að stjórnendur Liverpool átti sig líka á að hversu stórt tækifærið á enska titlinum er í ár. Það er allavega alveg víst að öll óvissa í samningamálum er ekki að hjálpa til að fá leikmenn til þess að fókusera á það sem skipti mestu máli og það eru viðvörunarljós að blikka sem kalla á viðbrögð. Gæti liðið til að mynda coverað mánaðarfjarveru Van Dijk?

    Þó svo að hlutirnir líti ágætlega út í augnablikinu og þá þarf ansi lítið til að hlutirnir breytist hratt til verri vegar.

    6
  7. Við skulum anda með nefinu. Þetta lið er búið að vera sturlað á þessu tímabili og það er eðlilegt að það komi dip inná milli þar sem úrslitin eru ekki alltaf þaug sem maður óskar sér.

    Helling af leikjum eftir og allt þetta tal og hjal um eitthverja titla í nóvember og desember hjá pundits og fjölmiðlum og eða stuðningsmönnum er ekkert nema kjánalegt það er ekkert lið sem vinnur deildina eða aðra bikara þá.

    Þetta er maraþon og liðið sem hefur verið allra sterkast í því er City.
    Arsenal hafa verið pretenders hingað til og ég ætla mér að leyfa mér að halda því áfram þangað til þeir vinna deildina eða meistaradeildina. Ég tel ekki bikarkeppnir með mér er sama um þessa titla þó það addi í safnið þá vill ég sjá liðið vinna deild og meistaradeild já ég veit mjög auðvelt eða hitt og heldur.
    That said er alveg hægt að segja að já við höfum líka klúðrað í lok tímabils eins og síðasta en engu að síður þá er maður ánægður með það sem Klopp og liðið afrekaði þeir unnu alla titla sem voru í boði á þeim árum.

    Vonandi kemur Slot með að gera það líka en við meigum ekki gleyma Slot er nýlega kominn og hann hefur ekki fengið að versla 1 leikmann sem hann vildi hvað eru hin liðin búinn að eyða miklu aftur ?

    City hafa verið með mikið drop í formi og eru ekki eins líklegir að koma til baka eins og áður en í stað er lið eins og Arsenal og NF að anda í hálsmálið á okkur en það ber ekki að örvænta þeir eru ekki að fara vinna alla sína leiki heldur.

    Ég vona að FSG og co styrki liðið en býst ekki við neinu í Janúar samt.
    En áfram gakk og vonandi tökum við þessi 3 stig á móti Brentford.

    YNWA !

    3
  8. Nú er að trekkja aftur í sigurhrinu og sanna að árangurinn fyrir jól var ekki bara leifar frá Klopp tímanum.
    YNWA

    1

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Nott.Forest 1-1 Liverpool

Stelpurnar mæta Brighton