Liverpool 4 – 1 Ipswich

Okkar menn kræktu í frekar þægileg 3 stig með sigri á Ipswich í dag. Kop.is hópurinn væntanlega séð til þess.

Mörkin

1-0 Szoboszlai (11. mín)
2-0 Salah (35. mín)
3-0 Gakpo (44. mín)
4-0 Gakpo (66. mín)
4-1 Greaves (90. mín)

Hvað gerðist markvert í leiknum?

Þetta spilaðist í raun bara alveg eins og maður átti von á, þ.e. að okkar menn voru með völdin í leiknum og stýrðu honum nánast frá A til Ö. Fyrstu mínúturnar gengu frekar rólega fyrir sig, en eftir um 10 mínútna leik fann Konate Szoboszlai í smá opnu svæði fyrir framan teiginn, Ungverjinn tók eina hreyfingu til að færa boltann yfir á vinstri, og smurði honum svo í hornið niðri nær. Ipswich misstu svo mann af velli sem líklega sleit liðbönd í tæklingu, þetta hægði talsvert á leiknum og gerði það að verkum að uppbótartíminn varð talsverður í lok hálfleiksins. Eftir rúmlega hálftíma leik fékk svo Salah góða sendingu frá Gakpo inn á markteiginn hægra megin og skoraði þar úr færi sem ekkert mjög margir myndu skora úr. Gakpo bætti svo við þriðja markinu skömmu fyrir hlé, Grav fann Szoboszlai í auðu svæði hægra megin í teignum, skotið frá honum var varið en barst til Gakpo sem potaði inn. Þarna voru úrslitin nokkurn veginn ráðin. Í síðari hálfleik kom svo fjórða markið þegar Trent átti klassíska Trent-esque sendingu inn á teig rétt fyrir innan vítapunktinn þar sem Gakpo var á auðum sjó og skallaði í netið. Gakpo var svo tekinn af velli ásamt Szoboszlai og Gravenberch, inná komu Endo, Elliott og Nunez. Nokkru síðar fékk Danns að koma inná fyrir MacAllister, og að lokum kom Chiesa inná fyrir Díaz. Enginn þeirra náði að setja mark sitt á leikinn en Endo var þeirra sýnu öflugastur og ljót tækling á honum hefði nú líklega átt að skila sér í rauðu spjaldi á einn Ipswich leikmann en varð á endanum bara gult. Nunez var líka duglegur að koma til baka og vinna boltann, ein af hans sterkustu hliðum núorðið.
Þegar venjulegur leiktími var að líða út fengu Ipswich hornspyrnu og skoruðu úr henni, Elliott sofnaði líklega aðeins á verðinum þar og ég hugsa að bæði van Dijk og Slot verði ósáttir við að hafa ekki haldið hreinu. En 4-1 sigur staðreynd, þægilegt og 3 stig í höfn.

Hverjir stóðu sig vel?

Szoboszlai var mjög öflugur þann tíma sem hann var inná, og það er nú ekki hægt að sleppa því að minnast á Gakpo í ljósi þess að hann skoraði tvö og lagði upp eitt. Hlustendur geta valið hvor þeirra hlýtur titilinn, þeir eiga báðir gott tilkall. Grav var líka öflugur, en hann fer fljótlega að skríða inn í sama flokk og Salah og Virgil, þ.e. að maður gerir ráð fyrir að hann eigi heimsklassaleik og verður pínku fúll ef hann er ekki að sýna algjöran stjörnuleik. Konate var líka öflugur, t.a.m. með stoðsendingu, og MacAllister er gríðarlega mikilvægur í miðjuspilinu. Alisson hafði lítið að gera í 85 mínútur, en þurfti þá að verja einn stórhættulegan skalla og gerði það vel, en gat svo lítið gert í markinu. Trent og Robbo voru nokkurnveginn á pari eða kannski rúmlega það, Díaz hefur alveg átt betri daga en var ekkert slæmur. Mætti alveg fara að detta í sama gírinn og hann var í í haust samt.

Hvað hefði mátt betur fara?

Elliott hefði alveg mátt nýta þetta tækifæri betur, hann hefur átt góðar innkomur upp á síðkastið en oft verið betri en í dag. Smá áhyggjuefni í ljósi þess hve það eru í raun fáir miðjumenn sem geta komið inn fyrir Grav/Dom/Mac þrenninguna okkar, svo hann má ekkert eiga einhverja slaka leiki þegar til kasta hans kemur.

Umræðan eftir leik

Þetta var í fjórða sinn í vetur sem liðið skoraði 3 mörk í fyrri hálfleik. Öll hin liðin í deildinni hafa náð að gera þetta 16 sinnum á sama tíma. Samtals.

Baráttan á toppnum er svipuð eftir daginn eins og fyrir hann, þ.e. Arsenal vann sinn leik þrátt fyrir að hafa misst mann af velli í fyrri hálfleik. Hins vegar rúlluðu Bournemouth yfir Forest 5-0, og því ljóst að þeir verða ekkert lamb að leika við á þeirra heimavelli um næstu helgi. En okkar menn eru enn með 6 stiga forystu, með leik til góða á næstu lið, og núna eiga næstu lið einum leik minna til að vinna upp þetta forskot. Myndi okkur líða betur með meira forskot? Alveg klárlega, en svona er deildin einfaldlega.

Næstu verkefni

PSV á útivelli í meistaradeildinni á miðvikudaginn. Liðið þarf í raun bara eitt stig til að tryggja efsta sætið, en Slot vill örugglega vinna þennan leik. Virðist svosem litlu breyta hvort liðið lendir í 1. eða 2. sæti í þessari deild, það er a.m.k. klárt að liðið sleppur við umspilsleikina sem liðin í 9. – 24. sæti þurfa að fara í gegnum. Í öllu falli vill maður að hópurinn verði notaður svolítið í miðri viku, því það býður erfiður leikur gegn Bournemouth um næstu helgi þar sem suðurstrendingarnir eru heldur betur á siglingu og verða engin lömb að leika sér við.

En fögnum úrslitunum í dag, og njótum stöðunnar sem liðið er í!

25 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Eðalfínt. Allir vel drillaðir og andstæðingurinn mætti með hjartað í buxunum. Það er einmitt þessi fear-factor sem við viljum skapa (og Pep kvartar undan að hafa misst).

    Óþarfi að taka út einstaka leikmenn. Stattið skýrir sig sjálft Gaman hvað Trent nýtti plássið vel. Hársbreidd frá því að skora en átti góða stoðsendingu. Endo þessi ósungna kúlt-hetja. Danns og Eliliott hefðu mátt nýta tímann betur og Chiesa fékk of stuttan tíma að mínu mati.

    Annars var þetta yfirburðarbolti par excellance Gleymum því ekki að lið þetta vann chelsea og reyndist okkur erfitt í okkar fyrri viðureign.

    Svo er það gáta dagsins: Hvernig gat Bournmouth skorað fimm gegn þessu Nott Forestliði sem við náðum ekki að knésetja???

    8
    • Forest ævintýrið er byrjaður að leka lofti og þeir munu enda í kringum sjötta sætið.

      Annars frábær sigur hjá okkar mönnum í dag.

      5
  2. Frábær sigur og þetta var þæginlegt hjá okkar mönnum.
    Gakpo var með yfirburði og er maður leiksins.

    YNWA

    4
  3. Sælir félagar

    Afskaplega auðveldur og fyrirhafnarlítill sigur Liverpool á heimavelli sínum. Það er samt áhyggjuefni hvað miðverðir Liverpool eru ótrúlega lélegir bæði í sóknar og varnarskalla boltum. markið sem liðið fékk á sig fór yfir báða miðverðina sem voru eins og þeir hefðu blýlóð á báðum fótum. Ef mig misminnir ekki eru þessir turnar búnir að skora tvö mörk í deildinni en hafa fengiðallt að 12 hornspyrnur í leik og ekki skorað úr einni einustu. Þetta er ömuyrleg tölfræði og þeim til vansa þó báðir séu mjög sterkir í opnum leikþ En hvað um það – 3 stig og áframn gakk.

    Það er nú þannig

    YNWA

    13
    • en já það er helvíti pirrandi að miðverðirnir eru ekki 30cm hærri, þá hefði VVD líklega náð að skalla boltann frá.

      Hvað fannst þér annars um að Elliott hafi dekkað markaskorarann, en hann er jú höfðinu lægri og var ekkert að hafa fyrir því að fylgja dekkningunni eftir?

      3
    • já hefði verið gaman að taka þetta 9-0 þó ekki væri nema til þess að losa þig við pirringinn. Spurning hvort það hefði dugað.

      5
      • Ósköp ert þú neikvæður, Indriði. Heldurðu nokkuð með Man Utd? Hljómar svolítið þannig.

        8
      • Ef þér finnst Indriði neikvæður hvað finnst þér þá um Sigkarl, besta vin þinn, sem er pirraður eftir 4 – 1 leik. Einnig hefur þú sjálfur ekki alltaf verið sá jákvæðasti hérna síðustu ár Hr. Henderson.

        3
      • Kaldhæðni mín er greimilega ekki eins augljós og ég hélt. Þarf greinilega fleiri en tvær heilasellur til að átta sig á henni.
        .
        Verra er þó að vera sakaður um Man Utd stuðning.

        3
      • Ég biðst auðmjúklega afsökunar á greindarskortinum. Mín lítilfjörlega persóna hefur greinilega ekki nægan húmor. Er samt ekki frá því að þetta líti allt vel út hjá Liverpool enn sem komið er.

        4
  4. Flottur og frekar þægilegur sigur. Yfirburðir nánast allan leikinn.

    Spilamennska liðsins dalaði síðustu 10-15 mínúturnar og smá vonbrigði að halda ekki hreinu, aðallega vegna þess sálfræðilega sem það gefur leikmönnum – en svosem ekkert skrítið þegar varaskeifurnar eru nánast allar komnar inná og liðið á sama tíma farið að slaka á í stöðunni 4-0.

    Liverpool eru bestir og við njótum en langhlaupið í deildinni heldur áfram og ekkert má slaka á. Keppinautarnir eru ekkert að gefast upp.

    Að lokum:
    Wataru Endo – þvílíkur stríðsmaður! Margir hefðu farið út af á börum og svo beint upp í sjúkrabíl eftir þessa líkamsárás sem átti auðvitað að vera eldrautt spjald.

    Áfram Liverpool!

    19
  5. Harvey Elliot er góður fótboltamaður en hægur. Hann átti ekki góða innkomu því Ipswich hlupu yfir hann og sóknirnar fóru þar upp eftir að hann kom inná. Annars var þessi leikur fínn og ekkert út á miðverðina að setja. Virgil stýrir öllu uppspili og ég er svolítið hissa að lið nýtir sér ekki í meira mæli að loka á hann. Gott að geta gefið Chiesa og Danns nokkrar mínútur því við munum þurfa á þeim að halda er líður á vorið.

    2
  6. Skýrslan dottin í hús, ræðið að vild.

    Mikið er nú annars gaman að vita af leik hjá City í gangi, og vera í raun alveg sama hvernig sá leikur fer.

    9
  7. Frábær 3 stig. Menn komust vel frá þessu líkamlega. Helvíti fúlt að Wolves gátu ekki rassgat. Ótrúlega mikilvægir leikir framundan gegn Bournemouth og Everton. Báðir úti. Ef við náum að vinna þessi leiki þá lítur þetta býsna vel út. Það verður erfitt en það er það sem þarf ef menn vilja titla.

    6
  8. Frábær sigur og 3 stig er það sem skiptir öllu. Nú er miður vetur samkvæmt gamalli málvenju og þá er gott að stinga hausnum upp úr snjónum og horfa til vorsins…
    …flestallir lykilmenn í góðu standi
    …TAA er að minna á sitt besta form
    …Sly tengir saman góða leiki
    …RG ótrúlegur
    …Gakpo vá!
    …miðverðirnir malla áfram án óþarfa áhættu í sínum leik
    …Slot virkar sallarólegur
    Auðvitað er hægt að klóra sér í hausnum og hafa smá áhyggjur…
    … meiðsli á þessum tíma geta reynst afdrifarík
    …varnarmenn til vara?
    …allt of mikil sigling á MC núna
    …Arsenal er ekki sprungið
    Annars er það þannig að mér er alveg sama hvernig liðið spilar til vors bara ef það koma sigrar og helst margir titlar. Ég er titlaóður.
    Góðar stundir

    14
  9. Sælir félagar

    Hvað segjir fólk um þetta?

    “JUST NOW! Deal DONE! IS OFFICIAL! He’s in route to London Colney for his medical ahead of joining the squad! This transfer has been weeks in the making, and now it’s HAPPENING.The CANADIAN star is on the verge of donning the jersey of a Premier League giant LIVERPOOL —a move that could change everything for the club AND the player! JUBILATION in ANFIELD Agreed Fee and Shirt Number Has Been Revealed…”

    Það er nú þannig

    YNWA

    1
    • Ég myndi segja að það væri ákveðinn skalli á þessari frétt. Svona eins og eitt stykki nafn.

      4

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Liðið gegn Ipswich á Anfield