Stór helgi framundan

Jæja, kominn tími til að ýta þessari leiðinda leikskýrslu niður. Þessi leikur er búinn, og núna hefur Liverpool tvær keppnir sem er hægt að einbeita sér að. Okkar menn eru í mjög góðri aðstöðu til að ná í bikar í þeim báðum, og nú þurfa strákarnir bara að snúa sér að því.

Tökum eftir því að ef okkur hefði verið boðið fyrir tímabilið: “Liverpool á eftir að vinna deildina, en ekkert umfram það”, þá hefðum við held ég örugglega öll tekið því án þess að hugsa okkur um. Það að vinna deildarbikarinn væri því bara stór bónus, og það að komast langt í CL hefði svo verið enn stærri bónus. Í ljósi þess hve gott liðið okkar er, og í ljósi þess hve vel liðinu gekk í CL deildinni í haust, þá hefðum við auðvitað kosið að sjá þá fara áfram í 8 liða úrslit. Það hefði líka fjölgað leikjunum sem hefðu verið í boði fyrir okkur fótboltasjúklingana. En í staðinn þá fá okkar menn örlítið meiri tíma á milli leikja í apríl og maí, og geta þá einbeitt sér enn frekar að því að tryggja sigurinn í deildinn.

Tökum líka eftir því að ef okkur hefði verið boðið að vinna deild og deildarbikar, þá hefði það óhjákvæmilega haft í för með sér að strákarnir okkar hefðu fallið úr leik bæði í FA bikarnum og CL á einhverjum tímapunkti, með öllu því svekkelsi sem því fylgir. Semsagt: staðan sem liðið er í er eitthvað sem ÖLL lið lenda í (að vera á góðum stað í 1-2 keppnum, en verri í öðrum) – nema þau sem vinna alla bikara sem í boði eru – og slíkt einfaldlega gerist ekki.

Það kemur að sjálfsögðu sérstök upphitun fyrir bikarúrslitaleikinn á Anfield South á sunnudaginn. En það er rétt að minna á að á föstudagskvöld ætla stelpurnar okkar að mæta á Anfield og spila þar gegn United í deildinni. Þetta er einn af þrem leikjum sem var alltaf planað að þær myndu spila á Anfield á þessari leiktíð; sá fyrsti var gegn City, svo kemur þessi leikur, og svo verður endað á að spila við Everton síðar í vor. Gengið á Anfield í gegnum tíðina hefur óneitanlega verið frekar slappt. Þ.e. liðið á enn eftir að krækja í stig þegar þær hafa spilað á Anfield, og fyrsta markið kom ekki fyrr en í haust í leiknum gegn City þegar Olivia Smith skoraði fyrsta markið. En eins og máltækið segir: það styttist alltaf í fyrsta sigurinn. Það yrði nú ekki leiðinlegt ef hann kæmi gegn United…? Það verður Amber Whiteley sem stýrir stelpunum okkar í sínum þriðja leik eftir að Matt Beard var látinn fara, og árangurinn er nú bara með albesta móti: tveir sigrar af tveim mögulegum, þ.e. sigur gegn Palace í deild og Arsenal í bikar, báðir á útivelli. Amber hefur fært liðið til baka í að spila 433, og hefur gefið Gemmu Bonner og Jasmine Matthews það hlutverk að vera í hjarta varnarinnar, þrátt fyrir að þær séu ekkert að verða yngri. Þær hafa klárlega sýnt að þær eru traustsins verðar í þessum tveim leikjum, en nú reynir fyrst á þær af einhverju viti.

Semsagt; við mælum með að stilla á Liverpool spila á Anfield á föstudagskvöld kl. 19:15 (Youtube linkur dettur inn um leið og liðið kemur), og svo að horfa á Liverpool spila á Anfield South á sunnudaginn kl. 16:30 í úrslitum deildarbikarsins.

Annars er orðið laust.

2 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Nei, nú hef ég séð allt! Einn Ajax varnarmaðurinn skartar sundhettu í leiknum á móti Eintracht Frankfurt. Hvað varð um gamla góða sárabindið?

    1

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Liverpool 0 – 1 PSG, PSG áfram eftir vító. (Leikskýrsla)