Það er komið að fyrsta leik eftir að Liverpool landaði 20. deildartitlinum. Tilfinningin venst bara ótrúlega vel og má gjarnan endurtaka sig fljótlega, þ.e. eins og eftir ár eða svo.
Það má alveg færa rök fyrir því að leikurinn á morgun skipti litlu sem engu máli. Í fljótu bragði eru það tveir hlutir sem klúbburinn okkar ætti að vera að horfa á:
a) að ná hámarks fjölda stiga út úr leiktíðinni og vinna með sem mestum mun
b) að nota þessa síðustu 4 leiki til að gefa þeim leikmönnum spilatíma sem hafa lítið spilað, hvort sem það eru aðalliðsmenn eins og Chiesa, Elliott, Endo, Quansah o.s.frv., eða varaliðsleikmenn eins og Nyoni, Morton, McConnell, Ngumoha o.fl.
Þessi tvö markmið fara ekki endilega alveg saman, enda sást það í bikarleiknum gegn Plymouth að ef of margir sem eru ekki í fyrstu 11 eru látnir byrja, þá gæti það endað með ósköpum. Og andstæðingarnir í þessum 4 síðustu leikjum eru alveg sæmilegir: Chelsea, Arsenal, Brighton og Palace. Allt lið sem geta vel unnið hvaða lið sem er í deildinni sem mætir ekki 100% í leikinn. Slot er þó búinn að gefa það út að það verður róterað, en bara spurning hve mikið. Persónulega ætla ég að veðja á að við sjáum þetta 2-4 “ný” andlit í byrjunarliðinu á morgun, einhvern af þeim sem taldir eru upp í lið b) hér að ofan.
Ég yrði ekkert hissa þó svo Slot setji stefnuna á að ná í 90 stig. Það væri á pari við nánast öll tímabilin hjá City, nema þau þar sem okkar menn voru að elta þá fram á síðasta dag og þeir urðu einfaldlega að vinna 15 leiki í röð, sem þeir auðvitað gerðu helvítin af þeim. Jafnframt langar Slot örugglega til að munurinn verði sem mestur þegar upp verður staðið, og sem betur fer eru Arsenal að hjálpa ansi mikið til eftir að hafa tapað fyrir Bournemouth fyrr í dag. Svosem ekkert skrítið að þeir séu núna með alla áherslu á seinni leikinn gegn PSG, enda er það þeirra eini séns til að krækja í bikar á tímabilinu.
Semsagt, ekki reikna með því að okkar menn taki leiknum á morgun með einhverri léttúð, það er enn verk að vinna á þessari leiktíð. Menn vilja líka klára þetta með reisn, og ekki eingöngu með þeirri reisn sem fylgir því að andstæðingarnir stilli upp í heiðursvörð við upphaf leiks.
Sem er akkúrat það sem Chelsea munu gera, og Maresca er búinn að gefa það út að þeir muni heiðra þessa venju.
Um þetta Chelsea lið er svo ekki mikið að segja. Jú þeir eru reyndar eitt af fáum liðum sem hafa ennþá að einhverju að keppa, þ.e. bæði í Sambandsdeildinni í Evrópu, og eins vilja þeir örugglega ná í Meistaradeildarsæti. Í augnablikinu eru þeir að slást við Villa og Forest um 5. sætið, og mæta einmitt síðarnefnda liðinu í lokaleik tímabilsins. Þeir hafa því að einhverju að stefna, sem getur jú bæði verið jákvætt og neikvætt. Þ.e. það getur alveg verið jákvætt fyrir Liverpool að spila við lið sem þurfa að sækja og geta ekki bara legið til baka.
Þeir eru nýkomnir úr heimsókn til Svíþjóðar hvar þeir mættu Djurgården á fimmtudaginn, og eiga svo seinni leikinn gegn sama liðið næsta fimmtudag. Þeir þurfa sjálfsagt að vera með annað augað á þeim leik varðandi leikjaálag og mínútur. Þessir tveir leikir gætu vel spilað inn í varðandi orkustigið hjá þeim á morgun, og eins hvaða leikmenn þeir geta leyft sér að láta spila í 90 mínútur. Það hjálpar þeim reyndar að hafa unnið fyrri leikinn 1-4, og eiga seinni leikinn á Stamford Bridge, svo þessi áhrif verða nú sjálfsagt ekkert svakaleg.
Nóg um andstæðingana, og aftur að okkar mönnum. Það er náttúrulega eins og að reyna að veðja á 5 rétta í Lottóinu að ætla að stilla upp liðinu, en prófum að stilla þessu upp einhvernveginn svona:
Bradley – Konate – Virgil – Tsimikas
Endo – Grav
Salah – Elliott – Gakpo
Chiesa
Það er þó tæpt að Bradley verði klár í að byrja leikinn, svo við skulum ekkert verða hissa þó Trent eða jafnvel Quansah byrji í hægri bakverði. Annars er svosem ólíklegt að Slot byrji þennan leik án þess að vera með MacAllister á miðjunni, þetta er leikmaður sem ætti að vera í umræðunni um leikmann ársins – ef ekki væri fyrir Salah. Og Virgil. Og Gravenberch. Og Allison. Já það er bæði jákvætt og neikvætt að vera í svona vel skipuðu liði!
Spáum 2-1 sigri okkar manna með mörkum frá Salah og Elliott.
KOMA SVO!!!
Bónus leikur: Merseyside derby á Anfield kl. 11 í fyrramálið
(Hint: þau ykkar sem hafið engan áhuga á kvennaliðinu getið hætt að lesa núna)
Við sem erum hvað lengst leidd í Liverpool sértrúarsöfnuðinum munum svo taka forskot á sæluna með því að fylgjast með stelpunum okkar spila gegn Everton kl. 11 í fyrramálið. Jafnframt verður þetta lokaleikur þeirra á Anfield í vetur. Fyrsti leikurinn gegn City tapaðist, en þar skoraði Olivia Smith þó fyrsta mark okkar kvenna á Anfield. Næsti leikur var svo gegn United um miðjan mars, og þar var bölvuninni aflétt því stelpurnar okkar unnu magnaðan 3-1 sigur á liði United. Það er ekki mikið eftir af tímabilinu hjá stelpunum, og væri tilvalið að bæta sigri gegn Everton í safnið eftir tímabil sem fer nú seint í sögubækurnar nema fyrir utan þennan fyrsta sigur kvennaliðsins á Anfield.
You’re so awesome! I don’t believe I have read a single thing like that before. So great to find someone with some original thoughts on this topic. Really.. thank you for starting this up. This website is something that is needed on the internet, someone with a little originality!