Lokaleikur tímabilsins hjá stelpunum – heimsókn í höfuðborgina

Það er komið að lokaleik þessa tímabils hjá kvennaliðinu okkar, þær eru mættar til London og taka þar á móti Chelsea sem urðu meistarar (mjög fyrirsjáanlega) fyrir nokkru síðan, Arsenal var þeirra helsti keppinautur en þegar lið tapar ekki leik í deild yfir heilt tímabil þá er erfitt að stoppa það. Og þannig er staðan í dag, þ.e. það er til nokkurs að vinna fyrir okkar konur að ná sigri í dag, því með því kæmu þær í veg fyrir að Chelsea fari taplausar í gegnum þetta tímabil. Ekki eru nú líkurnar með okkar konum, en þær stóðu þó upp í hárinu á þeim bláklæddu í undanúrslitum bikarsins fyrr í vor og það þurfti mark í uppbótartíma til að slá okkar konur úr keppni. En nóg um það.

Það er nokkuð ljóst að okkar konur ná ekki 5. sætinu eftir að Brighton unnu Arsenal í síðustu umferð, eru þar með 3 stigum fyrir ofan okkar konur og með mun betra markahlutfall. Þannig að nú snýst þetta í raun um að halda 6. sætinu, og það gæti orðið þrautin þyngri því West Ham, Villa og Everton eru öll að anda ofan í hálsmálið og gætu komist uppfyrir í töflunni með hagstæðum úrslitum í dag. Það er óhætt að segja að ef Liverpool fer frá því að lenda í 4. sæti í fyrra yfir í að lenda í 9. sæti (sem gæti orðið raunin í versta falli), þá sé óhætt að tala um vonbrigðatímabil. En leyfum leikjum dagsins að klárast áður en við förum að gera upp tímabilið.

Amber Whiteley stýrir liðinu í leik sem gæti mögulega verið hennar síðasti með liðinu, það á eftir að koma í ljós hvaða stefnu klúbburinn tekur varðandi að velja næsta stjóra. Það kemur í ljós í sumar, og gæti þess vegna komið í ljós mjög fljótlega enda er það ákveðið grunnatriði að vera með stjórann á hreinu áður en það verður farið í að sækja nýja leikmenn.

Svona stillir Amber liðinu upp:

Laws

Fisk – Bonner – Evans – Hinds

Kerr – Nagano

Smith – Höbinger – Holland

Roman Haug

Bekkur: Micah, Kirby, Clark, Matthews, Fahey, Daniels, Kapocs, Enderby

Þær Leanne Kiernan og Lucy Parry eru báðar frá vegna meiðsla. Alveg magnað að bæði kvenna- og karlaliðin séu að fara inn í sumarglugga þar sem þarf að ákveða hvort það eigi að stóla á “homegrown” hægri bakvörð sem er meiðslagjarn.

Við sjáum þær Teagan Micah, Niamh Fahey, Jasmine Matthews og Yana Daniels allar í síðasta skipti í Liverpool búning í dag, tja nema þær komi inn í fleiri Liverpool Legends leiki eins og Natasha Dowie…? Skulum ekkert útiloka slíkt.

Leikinn má sjá á Youtube eins og venjulega: https://www.youtube.com/watch?v=DDXppk-fyIQ

Það væri gaman að enda tímabilið á sigri, munum að síðasti tapleikur Chelsea í deild kom á Prenton Park í 4-3 sigri okkar kvenna síðasta vor. Nú þarf að finna svipaða geðveiki og var við lýði í þeim leik.

KOMA SVO!!!!

4 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. 0-0 í hálfleik, og eins og staðan er í augnablikinu þá enda okkar konur í 6. sæti. En það eru 45 mínútur eftir í öllum leikjum, og það eiga örugglega eftir að koma mörk sem breyta stöðunni.

  2. Vá, Man City náði ekki nema markalausu jafntefli á móti botnbotnbotnliði Southampton. Voru samt með fullskipað lið og þursinn Háland fremstan í flokki. Hvað er eiginlega í gangi hjá Pep?

    1
  3. 1-0 tap.
    Tímabilið getur ekki annað en talist vonbrigði eftir góðan árangur í fyrra.
    Liðið þarf meiriháttar styrkingu ef það ætlar sér eitthvað.
    Er Sveindís Jane ekki á lausu?

    3
    • Ég var einmitt að hugsa það sama! Framlínan má alveg við smá styrkingu, rétt eins og vörn og markvarsla.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Hvað Næst?