Þá er komið að síðustu umferðinni þetta tímabilið. Þegar flautað var til leiks s.l. ágúst spáði ég liðinu 4-5 sæti. Ég var alveg harður á því að eftir brotthvarf Klopp væri lægð í kortunum og var byrjaður að undirbúa mig fyrir að þurfa að vera þolinmóður og gefa nýjum manni tíma til þess að vaxa í starfi. 10 mánuðum seinna erum við tæpum sólahring frá því að lyfta þeim stóra í 20 skipti! .Þvílíkur tími til þess að vera Liverpool stuðningsmaður!
Form og fyrri viðureignir
Þessi lið hafa mæst….. nei. Ekki séns. Rétt eins og liðið síðustu vikur þá er ég ákaflega slakur fyrir þessum leik og hef ekki nokkurn áhuga á að velta því upp hvaða formi þessi lið koma inn í einvígið og hvernig síðustu leikir hafa farið. Ég held að leikmennirnir séu á svipuðum stað, þó þeir myndu aldrei viðurkenna það. Liverpool er að koma eftir að hafa fagnað í góðar 2 vikur núna á meðan að leikmenn Palace eru eflaust ennþá að fagna bikarsigrinum gegn City! Það er eina formið sem skiptir mig máli.
Það sem ég er meira að velta fyrir mér er hvernig lyftir Virgil bikarnum? Tekur hann stepp dansinn áður en hann lyftir honum, trítlar í góðar 5-10 sec áður en hann lyftir og honum og allt gjörsamlega tryllist á vellinum?
Ég get ekki beðið!
Crystal Palance
Gestirnir eru með nánast sitt besta lið. Í vörnina vantar þó Guehi sem er frá vegna meiðsla og hinn bráðefnilegi miðjumaður (sem er orðaður við okkur þessa daganna), Adam Wharton, verður að öllum líkindum frá eftir að hafa fengið heilahristing í sigrinum gegn City.
Liverpool
Hjá okkar mönnum er staðan í raun betri, ef eitthvað er. Gomez er kominn til baka svo að öllum líkindum verður það eingöngu Mac Allister sem verður frá, en það er nú bara til þess að gefa kauða verðskuldað frí. Ég ætla að skjóta á að Slot stilli þessu svona upp:
Alisson
Bradley – Konate – Virgil – Robertson
Gravenberch – Jones
Szobo
Salah – Diaz – Gakpo
Spá
Ég held að menn vilji, þrátt fyrir allt, ná sigri á svona degi. Völlurinn verður gjörsamlega trylltur og ég neita að trúa öðru en að það komi mönnum yfir línuna. 2-0 sigur þar sem að Salah skorar (loksins) bæði. Ég spá því líka að þessi fari á loft í lok leiks og að stemmningin verði engu lík!
Það er ekki svo langt síðan sem maður hélt svei mér þá að maður myndi aldrei fá að upplifa þetta. Njótum þess, það er aldrei að vita hvenær við fáum tækifæri til þess næst (2026!)
Þar til næst.
YNWA