Hvað er í gangi hjá okkur? Nú er búið að staðfesta að Djimi Traoré er líka meiddur eftir gærdaginn, sem gerir hann að þriðja leikmanni liðsins til að missa úr a.m.k. einn leik vegna meiðsla eftir völlinn í Mónakó. Hinir tveir voru Luis García og Josemi, sem þurfti 20 spor í höfuðið eftir áreksturinn við Patrice Evra og verður líklega ekki með á sunnudag.
MEIÐSLALISTINN er því nokkurn veginn þannig:
CISSÉ (út tímabilið) – SMICER (fram í febrúar) – BAROS (fram að jólum) – GARCÍA (í mánuð) – TRAORÉ (10 daga) – JOSEMI (a.m.k. einn leik).
Þetta eru sex menn sem væru að öllu eðlilegu í 16-manna hópnum okkar. Þar að auki erum við nýbúnir að endurheimta STEVE GERRARD og skv. nýjustu fréttum þá á ANTONIO NÚNEZ að spila með varaliðinu á morgun, þannig að það eru góðar líkur á að hann geti spilað með aðalliðinu í næsta leik á eftir Arsenal-leiknum. Þá var CHRIS KIRKLAND frá fyrstu tvo mánuði tímabilsins, TRAORÉ var líka meiddur í ágúst/september og fleira slíkt sem mætti telja.
Í hnotskurn, þá eru meiðslavandræðin okkar í vetur búin að vera hreint ótrúleg. Jafnvel þótt við teljum Núnez og Smicer ekki með, sem hafa verið frá allt tímabilið hingað til, þá höfum við ALDREI náð að stilla upp okkar sterkasta liði. Ekki einu sinni. Aldrei. Það næsta sem við komumst því, sem mig minnir, var á móti Mónakó í fyrsta leik Meistaradeildarinnar … en jafnvel þá vorum við án Traoré og Kewell var bara að spila á hálfum styrk, auk þess sem Baros sat á bekknum.
Ég vona bara að þessu fari að ljúka. Næsta mánuðinn verðum við að nota ungu og óreyndu strákana frammi, þeir Flo-Po og Mellor munu væntanlega vera í byrjunarliðinu til skiptis eða jafnvel saman, og svo fáum við Baros og García inn um jólin, Smicer í janúar/febrúar, Núnez er að detta inn í næstu leikjum og svo munum við væntanlega versla a.m.k. einn sóknarmann í janúar. Þannig að ef okkur tekst að lifa af næsta mánuðinn án þess að tapa of mörgum leikjum í þessum þremur keppnum okkar þá ættum við að vera í lagi.
Ég er enn bjartsýnn á þetta tímabil og allt það, eftir að við fáum Baros og hina inn úr meiðslum og komumst loks á almennilegt skrið eftir áramót (að því gefnu að við missum ekki fleiri menn í alvarleg meiðsli) þá er engin ástæða til að ætla annað en að við klifrum hratt upp töfluna og tryggjum okkur allavega fjórða sætið í deildinni. Ég verð að viðurkenna að ég hefði viljað að við enduðum ofar en það, en í ljósi þessa meiðslavandræða okkar held ég að það sé bara óraunhæft að ætlast til meiri árangurs en fjórða sætis. Ef við komumst aftur í Meistaradeildina að ári þá verð ég sáttur.
Gleymum því ekki að Rafa Benítez er enn að vinna með kjarnann af hópnum sem Houllier setti saman. Rafa vill eins og allir þjálfarar koma með nýja menn inn, bæði í janúar og næsta sumar. Ef við náum að sigra Olympiakos og komast inn í 16-liða úrslitin þá myndi það þýða að Benítez getur keypt þá menn sem hann vill til að styrkja liðið í janúar. Og ef við náum a.m.k. 4. sætinu í vor þá mun hann hafa fjárráð og aðdráttarafl til að laða að sér toppmenn næsta sumar. Þetta er það mikilvægasta í nánustu framtíð Liverpool FC, að vera áfram í Meistaradeildinni eftir áramót og næsta haust.
Í öðrum fréttum, þá er verið að tala um hugsanleg kaup á framherja í janúar. ITV Football segja frá því að Real Zaragoza muni krefjast 8.3 milljóna punda fyrir framherjann Davíd Villa, sem skoraði 19 mörk fyrir liðið í fyrra og er þegar búin að skora 8 mörk í ár (næstmarkahæstur á eftir Eto’o í spænsku deildinni). Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð of mikið af þessum strák, séð hann leika þrisvar eða fjórum sinnum, en hann hefur virkað ágætlega vel á mig það sem ég hef séð.
Þá er einnig verið að tala um að við gætum verið að íhuga tilboð í ítalska framherjann Andrea Caracciolo, sem er U-21s árs landsliðsmaður Ítalíu og hefur verið á skotskónum með liði sínu, Brescia, í ítölsku deildinni í vetur. Þennan leikmann veit ég ekki mikið um, en fréttin nefnir einnig að Milan, Juventus og Arsenal séu öll að fylgjast með honum … þannig að hann hlýtur að geta eitthvað.
Þannig að það er augljóst að það eru einhverjar hræringar af hálfu okkar manna á framherjamarkaðnum fyrir janúar og ég geri eiginlega ráð fyrir að nýr framherji verið keyptur strax eftir áramót, ekki í janúarlok. Ég held að menn verði komnir með eitthvað fastákveðið um áramótin, svo að hægt sé að fá framherja inn sem fyrst. Því fleiri leiki sem við leikum án þess að fá nýjan framherja inn, því verra.
En þangað til um jólin og í janúar verðum við að gera okkur að góðu það sem við höfum. Það verður eitthvað skondið að sjá liðsuppstillinguna gegn Arsenal á sunnudag, fyrst Traoré og Josemi verða ekki með verða Riise og Finnan að færa sig niður í bakverðina og þá sárvantar okkur menn á kantana. Það er of snemmt að skjóta á lið en ef ég við veltum aðeins fyrir okkur hvað við erum að sjá fram á, gæti liðið litið einhvern veginn svona út:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise
Kewell – Gerrard – Alonso – Warnock
Mellor – Pongolle
Og þá myndi bekkurinn líta einhvern veginn svona út: Dudek, Whitbread, Hamann, Biscan, Potter. Til dæmis.
Ég veit það ekki. Kannski vill kallinn endilega halda áfram að spila með Hamann á miðjunni, þótt það sé augljós að hann sé að spila hræðilega um þessar mundir. En mér finnst líklegt að hann færi Kewell niður á kant og setji guttana báða inn frammi. En við sjáum til.
Cissé, Smicer, García, Baros, Traoré, Josemi, Núnez, danski dómarinn sem á við geðræn vandamál að stríða … látið ykkur batna!
Kræst. Maður má ekki skreppa í smá ferð til Danmerkur og þá er liðið bara rjúkandi rústir.
Ég fékk þennan Monaco leik í smá sjokkum. Fyrst sá ég úrslitin og svo tók ég upp Guardian, þar sem var mynd af Garcia emjandi af sársauka.
Ég vil kalla þetta “the curse of Michael Owen”. Hugsið útí það, þetta hlýtur að hafa eitthvað með hann að gera. Hvernig í andskotanum getur hann allt í einu leikið fulltaf leikjum með Real án þess að meiðast?
Jæja, það er þó eitt jákvætt við þessi meiðsli öll. Josemi spilar ekki næsta leik þannig að Arsenal verður að endurgreiða rútugjaldið upp vinstri kantinn fyrir helgina.
Henry og Reyes eru tæpir fyrir sunnudaginn, skv. fotbolti.net
Ég þori að veðja hægra eistanu um að Henry og Reyes verði með á sunnudaginn.
HEHE. Mig hefur alltaf langað að hafa Eista i krukku. ef þeir eru með mæti ég með runnaklippurnar og kippi þessu af þér endurgjaldsláust 😉