Hóparnir hjá stóru liðunum

Sumarið 2025 stefnir í að verða það líflegasta á leikmannamarkaðnum frá sjónarhóli Liverpool frá því FSG keypti félagið og hin liðin hafa heldur betur ekki setið auðum höndum heldur. Skoðum aðeins hvernig hóparnir eru eins og staðan er núna og berum saman.

Liverpool 

Það hefur ekkert lítið verið talað um “ótrúlega” eyðslu Liverpool í sumar og hvað það sé nú ósanngjarnt að félagið geti keypt svona mikið á meðan önnur lið geta það ekki. Eins og staðan er núna er nettó eyðslan alveg um 110m og enn sjáum við fram á nokkuð stórar leikmannasölur. Inni í þessum tölum er auðvitað ekki tekið mið af því að Liverpool þurfti auðvitað að kaupa nýjan sóknarmann fyrir Diogo Jota sem lést! Hvet ykkur til að skoða nettó eyðslu Liverpool í samanburði við hin liðin undanfarin ár.
Mamardashvili og Woodman/Pecsi fylla mjög vel skarð varamarkmannanna Kelleher og Jaros
Frimpong kemur inn fyrir Trent sem er eina alvöru veikingin á pappír milli ára.
Kerkez er eins og staðan er núna hrein viðbót við Robertson og Tsimikas. Það er orðið nokkuð ljóst að Robbo fer ekki í sumar en spurning með Grikkjann.
Tyler Morton fór til Frakkklands og í hans stað er Trey Nyoni orðin partur af aðalliðshópnum. Eins er óvíst hvort Bajcetic verði áfram hjá Liverpool eftir sumarið í stað þess að fara aftur á láni. Ef hann nær einhverntíma að vera ekki meiddur þ.e.a.s.
Florian Wirtz er nánast hrein viðbót við hópinn frá síðasta tímabili. Harvey Elliott sér sína sæng útbreidda eftir komu Wirtz og má því líklega í lok sumars segja að hann komi í stað Elliott sem spilaði alveg 360 mínútur í deildinni í fyrra og byrjaði tvo leiki. Elliott var í 20. sæti yfir leikmenn Liverpool hvað mínútur í deildinni varðar sem er auðvitað afleitt fyrir leikmann með svo mikla hæfileika. Wirtz eykur þ.a.l. breiddina stjarnfræðilega mikið og færir menn eins og Jones einum aftar í goggunarröðinni á miðjunni.
Rio Ngumoah er stjarna undirbúningstímabilsins en hæfileikar hans voru ekkert að koma í ljós bara í sumar. Hann er það mikið efni að Liverpool var til í að selja Luiz Diaz til Bayern og er sagt ekki vilja kaupa inn leikmann sem tæki mínútur af hinum 16 ára Rio. Á sama tíma eru sagðar nokkuð áreiðanlegar fréttir að Liverpool hafi verið á eftir Barcola frá PSG sem spilar sömu stöðu og eins hafa óáreiðanlegar fréttir orðað Liverpool við Rodrygo frá Real Madríd, hann hefur verið á radar hjá Edwards og co síðan hann var unglingur og var nálægt því að ganga til liðs við Liverpool. Þannig að bíðum eftir að glugganum loki til að meta raunverulegan eftirmann Diaz.
Hugo Ekitike kemur svo inn fyrir Diogo Jota þó líklega hafi hann verið á innkaupalistanum áður en Jota féll frá. Jota blessaður byrjaði bara 14 leiki síðasta vetur sem var meira en tímabilin tvö þar á undan. Ef að Ekitike sleppur mun betur við meiðsli er því ljóst að þarna gæti verið töluverð styrking á sóknarlínunni.
Darwin Nunez var svo leyft að fara líka núna í byrjun ágúst, afhverju er Liverpool að selja Diaz og Nunez sama sumar og Jota lést? Chiesa er alls ekki neitt svar og fer líka í ágúst, Elliott er einnig nokkuð örugglega á leiðinni burt og Ben Doak er ekki svarið heldur virðist vera. Það vantar eitthvað röndótt í staðin fyrir þessa menn…
Liverpool er búið að selja eða missa átta leikmenn nú þegar og það fara mjög líklega 4-6 til viðbótar í þessum mánuði. Það er búið að styrkja liðið umtalsvert frá síðasta tímabili en samt vantar klárlega a.m.k. einn sóknarmann, helst tvo miðverði og mögulega einn á vænginn.

Man City

Man City kláraði megnið af sínum lista í janúar. Þá kom einn miðvörður í viðbót, miðjumaður, kantmaður og sóknarmaður. City keypti fyrir €220m í janúar og er komið upp í €176m núna og hafa bara selt leikmenn fyrir €33m. Hvernig er það nettó í samanburði við Liverpool 2025? Eigum við svigrúm fyrir einum Alexander Isak sem dæmi?

Trafford er líklega ekki hugsaður sem framtíðarmarkmaður og kemur líklega meira inn fyrir Ortega en Ederson, eða hvað?  Reijnders kemur líklega inn fyrir KDB en auk hans kom Gonzalez í janúar. Það hressir töluvert upp á miðjuna þó hvorugur sé nálægt De Bruyne í gæðum.  Cherki kemur líklega inn fyrir Jack Grealish og gæti stórbætt sóknarleikinn á miðjunni.

Auk þeirra eiga Savio, Marmoush og Echeverri líklega eftir að sýna mun meira hvað í þeim býr í vetur en þeir náðu eftir áramót í fyrra. City kemur pottþétt aftur í vetur með látum. Eru þeir samt að gera meira eða betri breytingar en Liverpool?

Arsenal

Eins og staðan er núna er Arsenal með ca helmingi meiri eyðslu nettó í leikmenn heldur en Liverpool og eiga eftir að bæta a.m.k. einum stórum leikmannakaupum við. Þeir eiga líklega ekki eftir að selja neitt rosalega dýra bita heldur, mögulega Trossard, Zinchenko og deadwood sem hafa verið á láni en ekki tekist að losna við. Ætli nettó eyðslan verði svipuð hjá liðunum í lok sumars? Það er magnað eftir fókusinn á leikmannakaupum Liverpool það sem af er sumri. Arteta er eins og öll sumur síðan hann tók við liðinu að fá að styrkja liðið vel og hlítur að verða undir pressu í takti við það.

Kepa fyrir Neto er mikil bæting á markmannahópnum og spurning hvort Spánverjinn slái ekki Raya út á einhverju stigi í vetur? Mosquera þéttir miðvarðahópinn sem 4-5 kostur. Zubimendi og Norgaard fylla vel skarð Partey og Jorginho þó vissulega hafi Partey verið mjög öflugur hjá Arsenal og alveg verkefni fyrir Zubimendi að fylla hans skarð. Madueke kemur eins og staðan er núna inn fyrir Sterling en ef Arsenal kaupir einn sóknarþenkjandi leikmann til viðbótar er líklegt að Madueke verði meira rotation leikmaður. Hann getur spilaði á báðum vængjum en byrjaði 25 leiki í fyrra á hægri vængnum sem er auðvitað ekki í boði hjá Arsenal, hann gæti veitt Martinelli samkeppni ef það kemur ekki stærri fiskur í ágúst í þá stöðu.

Györkeres er svo auðvitað stóra málið í sumar, hann ætti að leysa 90% af vanda Arsenal m.v. online aðdáendur félagsins síðasta vetur. Þetta er gæi sem skoraði 39 mörk og lagði upp 7 bara í deildinni síðasta vetur hjá Sporting. Ekki ósvipuð markaskorun og Darwin Nunez var með hjá Benfica tímabilið sem hann skipti yfir til Liverpool (hann kom að 30 mörkum í 24 leikjum).

Rétt eins og með Man City þá gerir maður ráð fyrir mun sterkara Arsenal liði, miðjan er mjög spennandi með Zubimendi og kannski hættulegri sóknarlega fyrir vikið. Madueke getur ekki verið verri en Sterling í fyrra og Györkeres er hrein viðbót við sóknarmannaflotann og ætti ekki að þurfa mikinn tíma til að aðlagast.

Man Utd

Sparnaðaraðgerðir INEOS (Jim Radcliff) virka helvíti hjákátlega núna í sumar þegar félagið sem endaði í 15.sæti, er ekki í neinni Evrópukeppni og getur ekki selt leikmenn nema í gegnum Hópkaup afslætti er að kaupa leikmenn hægri vinstri fyrir fullt verð og yfirbjóða Meistaradeildarlið. Var hann mögulega að ljúga um að félagið væri á leiðnni í þrot ef hann segði ekki meira og minna öðrum hverjum manni upp?

Hvað um það, eins og gjörsamlega alltaf er United heldur betur virkt á leikmannamarkaðnum. Þeir eru að stórbæta sóknarlínuna (á pappír) með kaupum á Cunha, Mbuemo og Sekso. Ekki bara það heldur eru þeir að veikja samkeppnina með því að taka bestu leikmenn Wolves og Brentford.

Á móti kemur eð aðdáunarvert að mála unga og undir öllum eðlilegum kringumstæðum mjög spennandi/söluvænlega leikmenn svo hressilega út í horn að það er nánast ekki hægt að losa þá. Utd hefur ekkert sparað í samningum við leikmenn heldur undanfarin ár sem hjálpar þeim ekki þegar kemur að leikmannasölum.

Antony (€95m) var svo toxic að hann var lánaður á síðasta tímabili og hefur ekki ennþá verið seldur í sumar. Hann er ekki beint að fara á hámarksvirði úr þessu er það? Jaden Sancho (€85m) undrabarnið virðist bara virka í þýska boltanum. Hann átti að vera með nokkuð öruggt sell on value ef þetta gengi ekki upp hjá United. Ná þeir að selja hann í sumar eða er það bara lán aftur? Garnacho eitt mesta efnið sem komið hefur úr Akademíu félagsins undanfarin ár er núna opinberlega ekki partur af plönum stjórans. Chelsea er sagt vera að kaupa hann á um €50m. Marcus Rashford var vonarstjarnan í mörg ár en er núna 27 ára kominn á lánssamningarúntinn því ekkert lið vill kaupa hann og samninginn hans hjá United. Þetta er strákur sem ætti að vera toppa núna (og er btw núna á láni hjá Barcelona sem er miklu betra lið).Núna er svo Hojlund (€77,8m) rosaefnið sem kom fyrir tveimur árum búinn að springa svo vel út hjá United að hann er sagður til sölu á um €30m eða fari á láni sem er líklegra. Zirkzee verður líklega í sama pakka næsta sumar. Það er svo ekki langt síðan enn ein vonarstjarnan (Greenwood) féll svona hressilega á no dickhead rule sem flest félög í þessum klassa reyna að vinna með að hann fór nánast gefins.

Þannig að já þessir sóknarmenn sem United eru að kaupa eru allir spennandi á pappír rétt eins og þeir sem þeir hafa keypt áður. En metum þá eftir 1-2 ár.

Annars er fróðlegt að skoða leikmannakaup United undanfarin ár svona eftir á. Casimerio kostaði €70,6m og er ennþá skælbrosandi á samningi í takti við hvað hann var góður hjá Real Madríd. Böðullinn með eldhúshnífinn (Martinez) kostnaði €57m sama sumar. (Antony kom líka þá). Mount kostaði €67m og Onana €50m. Ugarte kom árið eftir á €50m

Síðustu þrjú ár hafa United keypt leikmenn fyrir €243m, €210m og €246m. Nettó eyðsla er alltaf €110m – €220m því þeir eru vonlausir í að selja leikmenn.

Chelsea

Maður verður bara sjóveikur á að skoða leikmannahóp Chelsea og breytingar milli ára. Hato frá Ajax var leikmannakaup númer 49 undanfarin fjögur ár. Ef við heimfærum 49 leikmannakaup yfir á Liverpool er það Peter Crouch árið 2005 eða fyrir 20 árum las ég einhversstaðar.

Núna var Colwill að meiðast og því spurning hvort þeir verði ekki að kaupa miðvörð, þeir eiga bara sjö miðverði í dag sem er fjandi tæpt inn í tímabilið. Fimm af þeim komu btw núna undanfarin ár.

Það sem af er sumri er samt stóra málið kaupin á Pedro og Delap í framlínuna. Þeir styrkja líklega vel það sem Jackson bauð uppá, Pedro er sagður nokkuð erfiður karkater en hann er varla meiri trúður en Jackson. Gittens kom líka frá Dortmund en hann hljómar eins og kaup sem þeir gera á hverju sumri.

Það er óvissa með a.m.k. 12 leikmenn Chelsea sem allir eru líklegir til að fara í þessum mánuði, hvort sem það er á láni eða seldir. Samt eru 13 leikmenn nú þegar farnir í sumar! Eftir stendur samt RÁNDÝR hópur ungra leikmanna sem flestir eru á mjög löngum samningum.

Það er kannski styrkur fyrir Chelsea að stjórinn lifði tímabilið af og fær séns á að byggja ofan á það síðasta og ná kannski einhverjum smá stöðugleika.

Af liðunum fyrir neðan er Tottenham hvað helst að eiga jákvætt sumar. Frank inn fyrir Angie gæti verið spennandi skref og gert liðið þéttara. Þeir eru búnir að kaupa þrjá miðverði til viðbótar við Van Den Ven og Romero, mjög góðan djúpan miðjumann og Kudus frá West Ham og Tel sem var á láni eftir áramót. Þeir eru ekki að selja neinn sem þeir vilja ekki selja heldur.  Þetta er hópur sem verður ekkert í 17.sæti næsta vetur.

Það verður svo mjög fróðlegt að skoða breytingar hjá Newcastle í byrjun næsta mánaðar…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Æfingatímabilið á lokametrunum