Samfélagsskjöldurinn á morgun

Á morgun munu Englandsmeistararnir í Liverpool spila upp á Samfélagsskjöldinn við bikarmeistara Crystal Palace á Wembley leikvanginum í London. Bæði lið spiluðu bikarúrslitaleik á vellinum í fyrra með mjög ólíkum árangir þar sem Crystal Palace lagði Man City í úrslitum FA bikarsins en Liverpool tapaði í úrslitum Deildarbikarsins gegn Newcastle. Ég held að það sé því nokkuð ljóst að Arne Slot langi mikið til að klára úrslitaleik á Wembley með sigri og byrja leiktíðina líkt og hann endaði þá síðustu – með bikar í hendi.

Auðvitað er alltaf ákveðið hitamál um mikilvæga þessara leikja, hvaða vægi þessi bikar hefur fyrir félögin og allt það en þetta er klárlega leikur sem enginn vill tapa og ómerkilegur titill eða ekki þá er það víst að Liverpool mun vilja uppfæra bikarvegginn sinn strax á mánudag og breyta úr sextán skiptum og yfir í sautján.

Staða liðana í sumar er rosalega ólík eins og staðan er fyrir leikinn. Liverpool hafa auðvitað gert töluverðar breytingar á leikmannahópi sínum og vænta má að þeir geri allavega eina eða tvær í viðbót, mögulega fleiri en kollegar þeirra frá London hafa hins vegar gert lítið sem ekki neitt, þeir hafa ekki selt neinn alvöru fastamann úr liðinu sínu og hafa bara bætt við sig að ég myndi giska á varamarkvörð og eflaust vara vinstri bakvörð. Hins vegar má nú alveg reikna með að þeir selji eitthvað úr liðinu sínu eftir leikinn og þá hugsanlega miðvörðinn Marc Guehi til Liverpool.

Þetta er mjög flottur loka undirbúningsleikur fyrir Liverpool áður en deildin fer af stað um næstu helgi þar sem Crystal Palace er hörku flott lið, með góðan stjóra og geta gert Liverpool lífið ansi erfitt á fleiri en einn veg. Þeir eru flottir í vörn og mjög beinskeyttir í skyndisóknum með leikmann eins og framherjann Mateta í fararbroddi. Föstu leikatriðin þeirra eru góð þar sem þeir eru margir ansi stórir og stæðilegir og þeir eru bæði mjög fínir í beinskeyttum sóknum og geta líka spilað úr öftustu línu og haldið bolta ágætlega með leikmenn eins og áðurnefndan Guehi sem og miðjumanninn Adam Wharton og Eberechi Eze.

Arne Slot hefur sagt að Joe Gomez sé enn meiddur og verði ekki með sem og Conor Bradley en þeir eru báðir að ná sér eftir smávægileg meiðsli. Federico Chiesa er aftur kominn í liðsæfingar og spilaði gegn Athletic Bilbao eftir að hafa misst af Asíuferðinni vegna meiðsla. Alisson er aftur með hópnum eftir að hafa fengið frí og flogið heim frá Asíu til að sinna persónulegum málefnum og í fljótu bragði þá er það held ég það eina marktækt að frétta af leikmannahópnum þessa stundina.

Mamardashvili

Frimpong – Konate – Van Dijk – Kerkez

Wirtz – Gravenberch – Szoboszlai

Salah – Ekitike – Gakpo

Ég held að Slot komi ekkert þannig séð á óvart með byrjunarliðið þar sem ég held að við höfum meira en minna séð það í seinni leiknum gegn Bilbao á mánudaginn. Stærsta spurningamerkið í mínum huga er það hvort að Mamardashvili byrji í markinu eða Alisson og ég myndi ekki missa hökuna í gólfið ef nýliðinn fengi byrjunarliðssætið þar sem Alisson missti af tveimur undirbúningsleikjum. Van Dijk virðist hafa náð sér af veikindum og ætti að vera klár í slaginn, Frimpong er sjálfvalinn í hægri bakvörðinn þar sem Bradley er meiddur og vá hvað hann leit vel út á mánudaginn. Kerkez hefur verið að spila sem vinstri bakvörður með “aðalliðinu” á undirbúningstímabilinu svo ég held að hann fái að byrja í stað Andy Robertson en mögulega gætu þeir ákveðið að velja reynsluna framyfir nýjungina í svona leik.

Gravenberch og Szoboszlai hafa litið frábærlega út á undirbúningstímabilinu og hafa spilað mikið saman og ég reikna með að þeir taki þennan leik, sérstaklega þar sem Gravenberch er í banni í fyrsta deildarleiknum. Jones hefur litið mjög vel út í sumar og Mac Allister kom seinna en aðrir inn í liðsæfingar í sumar og hefur Slot sagt að hann gæti alveg verið inn í myndinni með að byrja en spili alls ekki 90 mínútur – svo ég reikna með að þeir setji hann frekar inn af bekknum á morgun.

Salah heldur svo auðvitað sínu sæti og Gakpo, sem hefur litið mjög vel út í sumar, þykir mér sjálfvalinn á vinstri vænginn og ætli Ekitike sem átti mjög góðan leik gegn Bilbao mun leiða línuna. Virkilega sterkt byrjunarlið og á bekknum eru menn eins og Curtis Jones, Mac Allister og Rio Ngumhoa sem hefur heldur betur gripið tækifærið í sumar og gæti sett mikið líf í leikinn af bekknum.

Við sjáum hvað setur á morgun en ég er mjög spenntur fyrir þessum leik og held að þetta verði virkilega góður prófsteinn fyrir komandi leiktíð, sterkt lið Crystal Palace mun gefa allt sitt í þetta og hafa leiðir til að refsa veikleikum Liverpool svo það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þeir takast á við það og hvernig nýjir leikmenn og nýjar áherslur muni skila sér inn í alvöru keppnisleik. Vonandi sækir Slot annan bikar til að skreyta í kringum bækistöðvar félagsins og setur tóninn fyrir leiktíðina sem mun vonandi skila sér í fleiri og enn stærri bikurum.

9 comments

  1. Takk fyrir fínustu upphitun Ólafur Haukur. Fínt að fá innsýn inn í það sem Crystal Palace hefur (ekki) gert í sumar þannig að við búumst við svipuðu liði og við sáum í fyrravetur hjá þeim.

    Eitt sem ég er að spöglera er hvort Slot láti jafnvel Wirtz upp á topp sem falska níu og MacAllister á miðjuna í stað Ekitike, þannig að Szobo og Wirtz verði þá fremstu tveir. Hann hefur svo sem ekki verið sð spila þannig í sumar en ef það lengist eitthvað eftir Ísaki þá gæti þetta verið option.

    6
  2. Takk fyrir þessa upphitun. Ótrúlega gaman að fá að sjá liðið í alvöru keppnisleik viku fyrir mótið. Og þó mikið hafi breyst frá því liðið vann deildina þá gerir maður kröfu á sigur. Engar afsakanir.

    7
  3. Það verður kannski áhugaverðast að sjá hvort Guehi spili á morgun, það er a.m.k. líklegt að klúbbarnir séu að ræða saman um hann akkúrat núna.

    5
  4. Ég myndi byrja með Allison, Robertson og Mac Allistair inn á. Þetta er ekki æfingaleikur.

    Svo myndi ég byrja með Wirtz frammi.

    Það vanta núna sárlega miðvörð og meiri breydd í sóknina og eins gott að leikmannaglugginn renni ekki út í sandinn eins og hann hefur stundum gert.

    Áfram Liverpool

    4
  5. Loksins er þetta að byrja!
    Þetta verður allveg hörku tímabil!
    Ég held að það sé nokkuð ljóst að samkeppni verði meiri en í fyrra. Arsenal verða sterkir, Chelsea líklega líka. Man City koma hungraðir og hætulegir…
    Ég er spennrur !
    Annað. Ég var að skoða dagskránna hjá sýn og gat ekki séð að það sé neinn upphitunar þáttur eða neitt a dagskrá. Er það bara opnunin á tímabilinu hjá sýn ?
    Frekar lélegt, ég bjóst við veislu!

    6
  6. Jæja! þetta er að byrja í dag! á leiknum sem maður vill alltaf taka þátt í, Því hann merkir að þú vannst eitthvað á síðasta tímabili.

    Ég hefði vissulega verið meira til íað liðið myndi mæta meira tilbúið til leiks.

    Þá að Isak væri mættur og Guhie eða hvaða menn við ætlum okkur að fá í þennan hóp.
    Ég vona að við klárum okkar mál í næstu viku þótt ég sé ekki bjartsýnn á það.

    en liðið í dag mun klárlega vera samt nógu sterkt til að klára þennan bikar og við byrjum þetta Adidas era á dollu.

    2
  7. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun Ólafur Haukur. Þetta verður mjög athygliverður leikur og mun segja okkur margt um mikið breitt lið Liverpool. Allir sem spila þennan leik (nema Ekitike) hafa tekið þátt í öllu undirbuningtímabilinu ef ég man þetta rétt. Því ætti samhæfingin í liðinu að vera nokkuð góð ef ekki bara mjög góð. C.Palace liðið er mjög gott lið, vel samhæft og allir þekkja sín hlutverk. Okkur tókst að vísu að skora á móti þeim einum færri (Gravenberch) og því ætti mikið betrumbætt?!? lið Liverpool að geta klárað þennan leik með 11 menn inná. Ég trúi því.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  8. Smá pæling.

    Ég hef verið manna fegnastur að Liverpool tók ekki þátt í ruglinu með HM félagsliða í Bandaríkjunun í sumar. Nóg er nú álagið.

    Ég hef hins vegar verið að velta fyrir mér hvernig menn koma andlega undan öllu hinu sem gekk á í sumar. Hörmulegum missi Jota, breytingum á mannskap og þessum endalausu markaðsmálum. Svo fylgdi því auðvitað álag að fagna titlinum þó ég telji það nú varla með.

    Mér hefur t.d. fundist leikmenn þurfa núna að standa í endalausum viðtölum og þeir hreyfa sig varla án þess að myndavélin sé framan í þeim. Svo var ferðalagið til Asíu full vinna sýndist mér auk þess öll óvissa um hvort leikmaður sé að vera eða fara, með tilheyrandi umfjöllun í silly season, getur verið lýjandi.

    Þetta finnst mér hafa aukist mikið í sumar. Þetta allt hefur þýtt aukið álag á leikmennina okkar sem verður spennandi að fylgjast með hvernig þeir ná að vinna úr.

    Áfram Liverpool!

    4
    1. Ég ætla rétt að vona leikmenn séu jafn spenntir og ég að byrja þetta tímabil og verja titilinn. Ég held jafnframt það sé mjög hressandi fyrir alla að fá inn nýja leikmenn þó það verði ekki auðvelt að fylla í spor leikmanna eins og Trent og Diaz.

      Missirinn af Diogo Jota á að verða til þess að þjappa samfélaginu saman og vinna en harðar að árangri á öllum vígstöðvum.

      Byrjum í dag.

      Áfram Liverpool!!!

      4

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hóparnir hjá stóru liðunum

Liðið gegn Palace á Wembley