Liverpool – Bournemouth

Þá er komið að því, deildin hefst fyrir alvöru með opnunarleik meistaranna á heimavelli sínum. Við höfum ekki oft byrjað tímabilin sem meistarar síðustu árin og eftir sumarvertíðina á skrifstofunni er lítil ástæða til annars en fullrar bjartsýni fyrir tímabilinu. A.m.k. voru sumir Gullkastarar rækilega bjartsýnir…nefnum engin nöfn en (hóst..Sigursteinn).

Ég minni líka lesendur síðunnar á að það er allt morandi í nýjum færslum og greinum, Gullkast, Leoni á leiðinni, spá kop-verja (í tveimur bindum) og fleira væntanlegt. Kíkið reglulega við, það er alltaf eitthvað að gerast hjá okkur.

Best að byrja samt á mótherjunum, sem hafa líka gengið í gegnum töluverðar breytingar, þó eiginlega í þveröfuga átt við Liverpool – allavega enn sem komið er. Því vissulega eru enn góðar tvær vikur eftir af félagaskiptaglugganum.

Bournemouth

Það er skemmst frá því að segja að Bournemouth hafa misst fjóra af þeim öftustu fimm sem spiluðu flesta leikina á síðasta tímabili. Kepa markvörður er farinn og í staðinn hafa þeir fengið einn af varamarkvörðum Chelsea, Djorde Petrovic, sem lék reyndar mjög vel á síðasta tímabili á láni hjá Strassbourg. Að öðru leyti er frekar snúið að ráða í varnaruppstillinguna hjá þeim. Þeir gerðu 0-0 jafntefli gegn Real Sociedad í síðasta æfingaleiknum sínum og þá var uppstillingin svona:

1 D. Petrovic

3 A. Truffert – 5 M. Senesi – 23 J. Hill – 2 J. Araujo

12 T. Adams – 47 B. Winterburn (Sadi 77’) – 24 A. Semenyo – 16 M. Tavernier – 7 D. Brooks (c)(Silcott-Duberry 80’)

22 J. Kroupi (Adu-Adjei 60’).

Það má reikna með því að uppstillingin verði eitthvað á þessa leið. Ég set þetta í 4-5-1 sem er sennilegt á móti Liverpool á Anfield. Aðeins í leikmennina:

Adrien Truffert er franskur vinstri bakvörður sem keyptur var frá Stade Rennais í Frakklandi. Hann á 6 a-landsleiki fyrir Frakkland og þetta verður ekkert eitthvað grín fyrir Salah, virkar sem öflugur staðgengill fyrir Kerkez okkar.

Marcos Senesi er 28 ára gamall argentínskur miðvörður sem á 79 leiki í úrvalsdeildinni. Hann gekk til liðs við Bournemouth árið 2022. Reyndur og sterkur leikmaður sem hefur þó ekki átt fast sæti hjá Bournemouth síðustu ár, mögulega verður látið reyna á hann sem byrjunarliðsmann í vetur.

James Hill er hinn miðvörðurinn, 23 ára gamall enskur piltur sem hefur mest verið á láni frá Bournemouth síðan hann var keyptur frá Fleetwood Town árið 2022.

Hægri bakvörðurinn er síðan Julien Araujo, 24 ára mexíkóskur/bandarískur landsliðsmaður sem á fjöldan allan af yngri landsleikjum fyrir USA en á síðan 16 a-landsleiki fyrir Mexíkó. Hann kom fyrir ári síðan frá Barcelona og lék aðeins 13 leiki í deildinni.

Það er því óhætt að segja að reynsla öftustu fimm hjá Bournemouth er alls ekki mikil en ég hef grun um að þessir piltar séu harðir í horn að taka og láti ekki léttleikandi leikmenn Liverpool sóla sig í gegn.

Miðjan verður síðan að öllum líkindum mjög þétt til baka. Skoðum aðeins þá sem spiluðu gegn Orra og félögum hjá Sociedad:

Tyler Adams er þar fyrstur á blaði, fyrirliði bandaríska landsliðsins. Reyndur piltur, með 50 landsleiki og gekk til liðs við Bournemouth frá Leeds árið 2023. Hann á 55 leiki í deildinni, engin gríðarleg reynsla, en traustur leikmaður, djúpur á miðju eða hægri vængbakvörður.

Ben Winterburn (ekki skyldur Nigel) er ungur, enskur miðjumaður með 4 leiki í úrvalsdeildinni. Hann fær mögulega einhverja leiki þar sem aðal-miðjumótorarnir, Lewis Cook og Ryan Christie eru meiddir. Hann er enn í U21 hóp Bournemouth en ég myndi halda að Iraola geri einhverjar breytingar þarna til að setja meiri reynslu inn á miðjuna – kannski setur hann Adam Smith inn til að þétta hægri vænginn og setji þá Adams inn á miðjuna.

Fyrirliðinn gegn Sociedad var David Brooks – 28 ára hægri kantmaður. Það þarf síðan lítið að kynna Semenyo sem hefur reynst okkur erfiður – og Tavernier. Þeir verða helsta sóknarógn Bournemouth ásamt strikernum (ef hann spilar) Kroupi. Kroupi þessi er 19 ára franskur sóknarmaður sem mér finnst síður líklegt að byrji inn á. Hann á eitt tímabil í Ligue 1, skoraði þar 5 mörk í 31 leik fyrir FC Lorient.

Þannig að – frekar ungt og óreynt lið hjá Bournemouth. Iraola er þó ansi klókur stjóri sem kann að leggja upp leikplan. Bournemouth kom skemmtilega á óvart í fyrra – eftir erfiða byrjun – og handbragð Iraola, með hárri pressu og háu orkustigi, kom Bournemouth í öruggt sæti snemma á tímabilinu.

Liverpool

Byrjunarliðið gegn Crystal Palace var líklega mjög nálægt byrjunarliðinu sem verður gegn Bournemouth. Ryan Gravenberch verður í banni, hann spilaði ekki gegn Crystal Palace þar sem hann varð pabbi daginn áður. Það sýndi sig að hans var saknað á miðjunni. Það er líka ljóst að MacAllister er að glíma við eitthvað vesen og skyndilega er þá þessi ógnarsterka miðja okkar ekkert svo svakalega sterk. Eða hvað? Jú, Wirtz er þarna, eins eru Szoboszlai, Jones og Elliot auk Endo tiltækir. Ég held að Arne Slot sé líka að glíma við að ná réttu sóknar/varnar jafnvægi á miðjunni og það er því alveg spurning með Jones og Szoboszlai, hvort þeir séu réttu leikmennirnir með Wirtz. Af því að þeim finnst bara skemmtilegra að sækja heldur en verjast. Ég held að Szobo verði alltaf inni, orkustigið hjá honum er magnað og hann hefur spilað vel á undirbúningstímabilinu. Kannski verður Endo settur inn, mögulega verður það MacAllister eða Jones, ómögulegt að spá.

Nú, vinstri bakvarðarstaðan er líka spurningarmerki, hvort Slot láti Robbo byrja eða Kerkez. Það hefur mikið verið rætt um varnarleik Van Dijk í seinna marki Crystal Palace, hann stígur upp en aðrir fylgja ekki með. Það er að hluta til við hann að sakast, en hann er nú samt vanur því að geta stigið upp að vild og aðrir í línunni fylgja með. Þarna eru tveir nýir bakverðir sem eiga eftir að venjast og það er alveg eins líklegt að Slot taki ekki sénsinn þarna, láti duga að hafa Frimpong sem nýja varnarmanninn, en þá verður Robbo líklega látinn bíða meira og sóknarþunginn verður meiri hægra megin. Að því sögðu þá steig Konate heldur ekki upp – en kannski er þetta bara fínpússning og einbeiting sem verður vonandi í betra lagi á tímabilinu.

Annað er held ég sjálfvalið, mín byrjunarliðsspá er svona:

Nú er það spurning hvort Liverpool nái að pinna þá niður, hvort Iraola vilji treysta á skyndisóknir og föst leikatriði – sem virðist nú bara vera ágætis leið til að bíta á Liverpool, eða hvort hann vilji pressa hátt og vinna boltann ofarlega á vellinum. Ég á von á því að fyrstu 10-15 mínúturnar verði þannig, en síðan nær Liverpool tökum á leiknum en Tavernier og Semenyo verða skeinuhættir í skyndisóknum. Mér finnst alveg eins líklegt að Iraola noti einhvers konar útfærslu af 4-4-2 þar sem Semenyo og Tavernier verða víðir strikerar, reyni að toga miðverðina út í kantana því hann reiknar líklega með framsæknum bakvörðum.

Úrslit leiksins fara einfaldlega eftir því hversu heitir sóknarmennirnir verða, hvort Salah komist strax í gang, hvort Wirtz nái að sýna töfrabrögðin sín (sá á eftir að verða legend!!) og hvað Ekitike og Gakpo gera. Og hvort menn nái að stöðva skyndisóknir Bournemouth.

Held ég sé sammála Magga með Gullkastspána sína, 3-1 verður niðurstaðan, flestir sáttir eftir fyrsta leik.

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Leoni í læknisskoðun í dag

Spá kop-penna – síðari hluti