Giovanni Leoni

Þá er loksins búið að staðfesta kaup á nýjum leikmanni númer égveitekkihvað í sumar. Við höfum þó verið að bíða aðeins eftir öðrum sem kannski kemur innan tveggja vikna – eða ekki. En þetta eru fyrstu kaupin sem gengið hefur verið frá í einhverjar þrjár vikur, allt síðan Hugo Ekitike var tilkynntur 23.júlí. Sem virðist vera fyrir mörgum árum.

Hver er Givoanni Leoni?

Giovanni Leoni er hvorki skyldur Sergio Leone (sem eldri kynslóðin man eftir sem áhrifamiklum leikstjóra í svokölluðum spaghettí-vestrum) né Téa Leoni sem einhverjir kunna að muna eftir úr hinni geysivinsælu sápuóperu Santa Barbara á tíunda áratugnum. Nei, hann er fæddur í Rómarborg þann 21.desember árið 2006 og er því 18 ára gamall í nokkra mánuði í viðbót.

Eins og gefur að skilja er ferillinn hans því ansi stuttur, en hann lék með unglingaliðum Vigontina og Cittadella áður en hann fór til Padova sem átti þá meistaraflokkslið í ítölsku c-deildinni. Með þeim fékk hann eldskírn sína, aðeins 16 ára gamall, í febrúar 2023. Padova tókst að sigra þann leik 3-2, gegn AlbinoLeffe. Þetta var þó eini meistaraflokksleikurinn hans það tímabilið en eftir að hafa síðan ekki fengið tækifæri hjá Padova á næsta tímabili á eftir ákvað Sampdoria að fá hann að láni. Þeir gengu frá þeim viðskiptum 1.febrúar 2024 og út það tímabil lék hann 12 leiki og skoraði eitt mark. Það varð til þess að Sampdoria keypti hann á 1,5 milljónir €, þó aðeins þannig að hann var aðeins hjá félaginu í tvo mánuði til viðbótar því í lok ágúst sama ár keypti Parma hann. Parma er í Serie A og eitthvað hlýtur að hafa gengið á því svona viðskipti eru utan frá séð nokkuð einkennileg – hann var nýbúinn að gera þriggja ára samning við Sampdoria.

Tímabilið hjá Parma gekk síðan svona líka þrusuvel, hann lék alls 17 leiki og vakti athygli njósnara út um alla Evrópu enda sjaldgæft að svo ungur miðvörður fái tækifæri í efstu deild stórþjóðanna. Þessari athygli lauk svo loks með því að Liverpool keypti hann núna fyrir helgi fyrir 26 milljónir punda.

Leikstíll Leoni

Flestum ber saman um að Giovanni Leoni sé nútíma miðvörður af bestu gerð. Þ.e. að hann hafi alla burði til þess að verða það. Hann er 1,96 metrar á hæð, lipur með báðum fótum og sterkur í loftinu. Hann er líka óvenju sterklega byggður fyrir svo ungan pilt, helmassaður að því er virðist. Það er þó alveg ljóst að hann á eftir að þurfa að bíða eftir sínu tækifæri, hann fær kannski eitthvað að spila í Carabao Cup og Meistaradeildinni – ef Slot ákveður að rótera meira en hann gerði í fyrra – jú og ef Konate og Gomez halda uppteknum hætti síðustu ára og meiðast að einhverju ráði. Þá er vissulega stutt leið inn – nema ef Liverpool kaupir Guehi eða einhvern álíka.

Það er líka alveg ljóst að 18 ára miðvörður mun eiga í vandræðum með staðsetningar, að fylgja rangstöðulínu og að venjast tempóinu og hraðanum í enska og Evrópuboltanum, því þótt ítalski boltinn sé sterkur er hann öllu hægari en sá enski. Margir hafa líklega séð klippur af Leoni berjast við Lukaku og hafa betur, það lofar vissulega góðu því tröllið Lukaku er ekkert lamb að leika sér við. Hann verður targetaður ef hann spilar í deildinni, það er alveg klárt. Og hann verður að vera klár í það. Hann verður líka að vera tilbúinn í að gera fá sem engin mistök, því mistök eru ansi dýr í toppbaráttunni og lítið fyrirgefið í þeim efnum.

Það er því ekkert ljóst með þennan lofandi gutta, við höfum séð nokkra svona í gegnum tíðina sem við höfum viljað að festi sig í liðinu, mér dettur einna helst Sebastian Coates í hug sem keyptur ungur leikmaður, en margir fleiri hafa stigið þessi skref, að nálgast aðalliðið ungir, nú síðast Jarrel Quensah, en ná síðan ekki að festa sig í byrjunarliðinu. Enda er miðvarðarstaðan líklega ásamt markmannsstöðunni sú erfiðasta að festa sig í sem ungur leikmaður.

Þannig að – bíðum og sjáum, vonandi verður Giovanni Leoni númer 15 legend hjá félaginu, en það er síður en svo á vísan að róa með það. Hann er vissulega eitt mesta ef ekki mesta efni Evrópu í sinni stöðu og við vonum og trúum að Arne Slot og þjálfaralið hans nái því besta út úr honum sem hægt er.

3 comments

  1. Mjög spennandi kaup og ég held að við munum jafnvel fá að sjá töluvert af honum í vetur. Líkamsbyggingin er ekki ólík því hvernig Quansah er byggður, en við fengum að sjá eins og þú bendir á að mistökin mega ekki vera mörg þegar þú spilar sem miðvörður í toppbaráttuliði. Ef hann nýtir fyrstu sénsana sína vel getum er aldrei að vita nema hann verði kominn framfyrir Konate í liðinu ef hann heldur áfram að gera mistök og neitar að skrifa undir samning.

    Ég vill auðvitað fá Guehi inn líka, þó að Leon sé kominn þá er breiddin ekkert spennandi hjá okkur nema ef ALLIR haldast heilir í öftustu línu.

    1
  2. Your blog has quickly become one of my favorites. Your writing is both insightful and thought-provoking, and I always come away from your posts feeling inspired. Keep up the phenomenal work!

  3. Your blog is a true hidden gem on the internet. Your thoughtful analysis and engaging writing style set you apart from the crowd. Keep up the excellent work!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Liverpool 4-2 Bournmouth