Það er afar langt síðan ég hef verið eins fúll yfir því að tímabilið í enska boltanum hafi tekið enda, við vorum í bullandi baráttu um titilinn og spiluðum það vel síðustu þrjá mánuðina að maður hafði það á tilfinningunni að við þyrftum bara nokkra leiki í viðbót til að klára dæmið. Þ.e. eftir að við hættum að leggja stund á jafntefli þá fórum við að rústa nánast öllum sem við kepptum við, og ef við þurftum endilega að gera jafntefli þá var það 4-4 jafntefli! Nú tekur við langt sumar sem skiptist í uppgjör á síðasta tímabili í margskonar myndum, vangaveltum um hverjir fara/hverjir koma og svo í júlí/ágúst förum við að grafa upp stöðvar/bari sem sýna alla æfingaleikina okkar…..og í kjölfarið byrjar ballið aftur.
En það sem mér finnst aðeins öðruvísi núna miðað við oft áður undanfarin ár er að núna vonast maður eftir því að breytingarnar verði í lágmarki. Liðið hefur verið á stöðugri uppleið undir stjórn Rafa, við höfum farið frá því að vera 37 stigum á eftir Chelsea þegar Benitez kom í að vera komið framúr þeim og einungis nokkrum sentímetrum frá United. Það á tiltölulega skömmmum tíma og mun minni pening. Í dag er hryggsúlan í liðinu gríðarlega sterk, hefur verið saman í ágætlega mikinn tíma, er á mjög góðum aldri og hefur alltaf verið að styrkjast eitthvað smá.
Það er líklega best að dæma framfarirnar á þessu tímabili með því að líta á hvað gerðist á leikmannamarkaðnum fyrir síðasta tímabil, þá líkt og nú höfðum við gríðarlegar væntingar og fannst ekki vanta mikið uppá liðið okkar, kalt mát hjá mér er að leikmannakaupin síðasta sumar klikkuðu að mestu leyti illa og því vantaði okkur þetta örlitla extra uppá til að vinna titilinn (fá þessi 4 stig sem uppá vantaði). Segið það sem þið viljið um Berbatov, okkur vantaði þennan 30.m punda mann “á bekkinn” þegar Torres meiddist.
Skoðum þetta:
Leikmannakaup fyrir síðasta tímabil:
Robbie Keane – frá Tottenham Hotspur, £20.3m
Andrea Dossena – frá Udinese, £7m
Diego Cavalieri – frá Palmeiras, £3m
David N’Gog – frá Paris St Germain, £1.5m
Philipp Degen – frá Borussia Dortmund, Frítt
Albert Riera – frá Espanyol, £8m
Samtals = £39.8m
——————————————————-
Leikmannasölur:
Peter Crouch – til Portsmouth, £11m
John Arne Riise – til Roma, £4.5m
Scott Carson – til West Brom, £3.75m
Anthony Le Tallec – til Le Mans, £1.1m
Harry Kewell – til Galatasaray, Free
Danny Guthrie – til Newcastle, £2.25m
Steve Finnan – til Espanyol, £1m
Samtals = £23.6m
Í janúar seldum við svo Robbie Keane (án þess að gefa honum alvöru séns á að sanna sig) og komum því nokkurnvegin út á sléttu hvað leikmannakaup varðar. Ef einhver af þessum sem komu hefðu nú getað eitthvað smá, svona í ætt við nýleg kaup eins og Torres, Mascherano, Sktel, Agger o.s.frv. þá held ég svei mér þá að það hefði dugað. Riera var reyndar fínn en ef hann verður ekki mun betri á næsta tímabili þá verður það hans síðasta á Anfield. Hinir skiptu byrjunarliðið ekki máli, allavega ekki á jákvæðan hátt *hóst* Dossena *hóst*
En mig langar aðeins að fara yfir hópinn okkar og flokka hann aðeins niður með mið af næsta tímabili, hverjir gætu farið og hverjir mega alls ekki fara, bara fjalla smá um hvern og einn leikmann sem skiptir mjög miklu upp á næsta tímabil…………
Pepe Reina: Einu sinni var ég nokkuð viss um að Sander Westerveld væri alveg save með markvarðarstöðuna hjá okkur, þá voru keyptir tveir markmenn sama daginn! Seinna var ég nokkuð viss um að Dudek færi hvergi……..en núna er ég alveg viss um að Pepe Reina sé gjörsamlega ómissandi í þessu liði og fer hvergi næstu ár, hreint frábær markvöður sem er bara óheppinn að vera uppi á sama tíma og Iker Casillas og þar að auki líflegur karakter utanvallar. Ætti að eiga a.m.k. tíu ár eftir í boltanum og vonandi verða ellefu af þeim hjá Liverpool.
Jamie Carragher: Ég myndi frekar tippa á á að það fari að rigna í Egilshöllinni í sumar heldur en að Carra fari frá klúbbnum í ár. Mikilvægi Carra innanvallar fer að minnka ef allt er eðlilegt, líkt og gerðist jafnt og þétt hjá Hyypia. En ef við erum að horfa fram á næsta tímabil með Carra sem nokkurskonar þriðja kost í miðvörðinn þá erum við í afar góðum málum aftast. Ég á reyndar alveg eftir að sjá Carra sætta sig við það að vera einhver þriðji kostur og held nú að hann verði með flesta leiki fyrir klúbbinn þegar upp verður staðið á sama tíma að ári. Það ætti líka að lengja hans feril hjá Liverpool töluvert að hann er hættur í landsliðinu sem vanmat alltaf hans hæfileika og karakter hvort sem er. Utanvallar er hann jafnvel ennþá mikilvægari sem segir sitt um karakterinn, og það eru fáir meira hungraðir í að vinna EPL….Steven Gerrard er þar með talinn.
Daiel Agger og Martin Skrtel: Eins og staðan er akkurat núna virðast þeir vera framtíðarmiðverðir Liverpool FC næstu árin. Þeir eru báðir á mjög góðum aldri fyrir miðverði og hafa báðir fengið að aðlagast boltanum á fínum hraða, núna er það þeirra að grípa tækifærið. Þar sem Agger hefur núna loksins skrifað undir samning eru engar líkur á að þeir fari neitt í sumar, en ég er hinsvegar persónulega ekki alveg nógu sannfærður um að þeir verði miðverðir okkar næstu árin. Þeir eru auðvitað afar góðir en fyrir mér er hvorugur þeirra er eins góður og Sami Hyypia!
Agger er auðvitað allt önnur týpa af leikmanni og ég á reyndar von á að hann verði hjá okkur lengi, en Skrtel þarf að bæta sig töluvert til að sannfæra mig. Sérstaklega vil ég sjá hann sterkari í loftinu, bæði í okkar vítateig og eins andstæðinganna. Næsta tímabil verður mjög stórt fyrir Skrtel, daninn held ég að sé öruggari með sína stöðu þar sem hans hæfileiki er fágætur hjá miðverði.
Alvaro Arbeloa: Arby er svo mikil Benitez týpa af leikmanni að ég gæti trúað Rafa sofi með mynd af honum við rúmið sitt. Hann getur spilað báðar bakvarðarstöðurnar og eflaust miðvörðinn ágætlega líka. Á þessu tímabili aðlagaðist hann deildinni mjög vel og var afar traustur í hægri bakverðinum, stöðu sem hann þurfti nánast einn að sjá um allt tímabilið. Undanfarin ár höfum við haft Steve Finnan í þessari stöðu og nánast ekki tekið eftir honum, Arbeloa tók við keflinu og er á margan hátt ekki ósvipaður. Afar traustur varnarmaður, les leikinn vel og hefur meira að segja bætt sig stórlega sóknarlega.
Það er þó helst þar sem uppá vantar hjá honum. Fyrir síðasta tímabil var keyptur leikmaður til að vega upp á móti takmarkaðri sóknargetu Arbeloa, en sá kappi hélt að hann hefði verið keyptur til að fylla skarð Harry Kewell……sem hann gerði reyndar fullkomlega og það fyrir minni pening.
Fabio Aurelio: Á þessu tímabili sýndi Aurelio afhverju Benitez hefur haft svona mikið álit á honum í gengum tíðina, loksins náði hann meira en fimm leikum í röð án þess að meiðast og þá kom í ljós þessi fíni vinstri bakvörður. Hann er fínn varnarlega og öflugur sóknarlega með afar góðan vinstri fót. Það er þó frekar vont að þurfa að treysta á Aurelio, sem er heldur ekkert að yngjast. Sjálfur vil ég þó að hann verði áfram á næsta ári og skiptist á með Insua í vinstri bakverðinum.
Emiliano Insua: Frábært efni og líklegasti maðurinn í mörg ár til að taka skrefið úr varaliðinu yfir í að vera lykilmaður í aðalliðinu um ókomin ár.
Javier Mascherano: Í því leikkerfi sem við spilum er JM algjör lykilmaður, þegar hann er í stuði þá gerir hann varnarlínuna nánast óþarfa. Það er engin tilviljun að Maradonna dýrki gaurinn og hafi hann sem bæði fyrirliða eins besta landsliðs í heimi og fyrsta mann á blað þegar farið er yfir byrjunarliðið…………………..þetta er sama lið og Messi spilar með!
Mascherano hefur þann ókost að vera alls ekki eins góður sóknarlega og hann er varnarlega en þó virðist hann hafa bætt þá hlið hjá sér afar mikið á síðasta tímabili, líklega hefur það bara tekið hann tíma að venjast því hvað hann fær lítinn tíma á boltann á Englandi, það hafa flestir aðrir lent í þessu líka.
Steven Gerrard: Besti leikmaður í heimi og á hátindi ferilsins undanfarin ár. Það er afar gott að fá sumar án vangaveltna um að Gerrard sé á leið í einhver olíufyrirtæki frá Rússlandi. Þarf að hvíla sig vel í sumar og taka lýsið sitt á hverjum morgni til að ná öllu næsta tímabili.
Xabi Alonso: Ótrúlegt en satt þá virðumst við aftur vera að sigla inn í sumar þar sem Alonso er sterklega orðaður við brottför frá bítlaborginni. Orðum þetta svona, ef við seljum Alonso og vinnum ekki titilinn þá er ég nú þegar kominn með ástæðuna fyrir tapinu, 12 mánuðum fyrir lok næsta tímabils.
Það er Alonso sem lætur Liverpool liðið tikka og getur stjórnað leiknum alveg eins og herforingi. Xabi hefur átt frábært ár bæði í landsliði og hjá Liverpool og stungið rækilega upp í vitleysingana sem efuðust um hann fyrir ári síðan. Fyrir mér var Alonso besti leikmaður ársins hjá Liverpool og það er ekki séns í helvíti (né hinu megin) að Barry eða þesskonar ullarhattur komi til með að fylla skarðið sem Alonso myndi skilja eftir sig. Frændur hans úr mið miðju spænska landsliðsins kannski, flestir aðrir, nei takk.
Lucas: Ég held að mjög margir hafi verið eða séu allt of óþolinmóðir gagnvart Lucas. Hann hefur ekki komið inn í deildina með neinum látum og raunar held ég að þetta sé leikmaður sem sé allajafna ekki með nein svakaleg læti. En þó að þú sért valin bestur í Braselíu þá er það samt gríðarlega stórt stökk fyrir 20 ára tappa að flytja til Englands, fara í enska boltan og keppa við menn sem þetta lag var samið um (ath: að það hafi verið breytt Momo í no more er á mörkum þess að vera of gott).
Ég held og vona að Lucas verði áfram hjá okkur, hann hefur fengið ágætis slatta af leikjum og þetta tímabil ætti að hafa reynst honum gríðarlega mikilvægt til að þroskast í mjög góðan leikmann. Það er allavega engin tilviljun að hann spili fyrir landsliðið sitt, sem allajafna er talið vera sæmilegt landslið.
Dirk Kuyt: Það hefur nú aldrei verið neitt leyndarmál að ég hef ekki hrifist af hæfileikum Deadly Dirk, þó ég fýli karakter hans í ræmur. Sem sóknarmaður hefur hann að mínu mati verið alveg hræðilegur og stundum bara fyrir á vellinum. En í þeirri stöðu sem hann hefur eignað sér á hægri kannti hefur hann m.a. verið að vinna mig yfir á sitt band. Síðustu tvö tímabil hefur hann endað með mjög góðum endaspretti og í ár hefur hann einfaldlega verið einn af okkar bestu leikmönnum. Kuyt er ekki fljótur, ekki leikinn og alls ekki með gott first touch en þegar hann fær smá tíma í grend við markið þá er hann stórhættulegur, bæði er hann markheppinn og eins getur hann alveg fundið samherja í grend við markið, enda leitun að óeigingjarnari leikmanni.
Þegar ég sagði að Rafa væri líklega með mynd af Arbeloa við rúmið sitt þá er ég ekki frá því að hann leyfi Kuyt að sofa á milli af og til. Hann fer afar snemma á blað þegar byrjunarliðið er valið og afar sjaldan tekinn úr því. Hann er búinn að skrifa undir nýjan samning og í þetta skiptið er ég bara alls ekki ósáttur við það, hefði verið frekar ósáttur hefði hann verið seldur meira að segja. Í ár hefur það líka unnið með honum að Liverpool fór að pressa lið ofar á vellinum og sækja mun meira, ásamt því að Hollendingurinn hefur bæði aðlagast enska boltanum betur og þessari nýju stöðu sinni.
Yossi Benayoun: Runner up í “sigurvegari þessa tímabils” hjá Liverpool á eftir Xabi Alonso. Eftir áramót fórum við loksins að sjá þann leikmann sem við keyptum frá West Ham og fórum að sjá þann kappa sem við mættum í úrslitum FA Cup fyrir nokkrum árum. Það var eins og margir hafi verið á móti Benayoun frá upphafi, hann er ekki stórt nafn, var ekki dýr og var bara í litla West Ham. Eins vegna þess að hann var hugsaður sem replacement fyrir hinn gríðarlega vinsæla Luis Garcia.
Fyrsta tímabil ísraelans hjá Liverpool gerði ekki mikið til að vinna aðdáendur yfir á sitt band þó gagnrýnin hafi á stundum ekki alveg verið sanngjörn. Byrjun þessa tímabils var heldur ekki neitt æðisleg og í janúar var rétt svo búið að selja hann til Rússlands. Þess í stað sagði Rafa honum að hann fengi meira að spila og með auknu sjálfstrausti og sæti í byrjunarliðinu varð hann einfaldlega besti leikmaður Liverpool eftir áramót. Hann spilaði stórvel og var frábær í nokkuð frjálsu hlutverki fyrir aftan fremsta mann, þ.e. hann kemur mikið inn miðju frá kanntinum og þegar hann er í svona stuði þá getur hann skapað mikinn usla hjá hvaða vörn sem er.
Það þarf kannski ekki að koma svo mikið á óvart en það tók Yossi ca eitt og hálft tímabil að aðlagast og byrja að sína sitt rétt andlit hjá Liverpool!Sá Benayoun sem kláraði þetta tímabil er t.a.m. mun betri (í Englandi) heldur en Luis litlli Garcia.
Svo er Benayoun líka bara svo sætur :p
Albert Riera: Það er nú ekki svo jákvætt að segja eftir þetta tímabil að Berti hafi verið sá besti af þeim leikmönnum sem komu fyrir tímabilið. Riera er ekta vinstri kanntur og gefur alveg nýjan möguleika í þeirri stöðu. Rafa hefur lengi leitað að svona leikmanni, Kewell var auðvitað nógu góður en bara ekki heill, Mark Gonsalez var ekki að virka, Riise/ Aurelio eru meira bakverðir og Leto mátti ekki spila. En í Riera held ég að við séum komnir með leikmann sem Benitez sé sáttur við, hann getur varist ágætlega, er ágætlega stór og fínn skallamaður og sóknarlega er hann mjög leikinn og með góðar fyrirgjafir.
Það kæmi mér gríðarlega mikið á óvart ef Riera verður seldur í sumar, jafnvel þó að David Silva kæmi til okkar, enda ekki alveg sambærilegir leikmenn. Frekar held ég að Berti kallinn verði áfram og ég yrði nú ekki mikið hissa ef hann færi að finna sig mikið betur á einhverju stigi næsta tímabils……..eftir að hafa fengið rúmt ár til að aðlagast. Menn eins og Robert Pires, Henry o.m.fl. gátu ekki mikið á sínu fyrsta ári…… :p Ef hann nær stöðugleika og setur smá kraft og ákefð í sinn leik þá verðum við með frábæran leikmann innan skamms.
Fernando Torres: Þegar það er almennt nokkuð viðurkennt að meiðsli eins leikmanns séu aðalástæða þess að lið vinni ekki titilinn þá er nokkuð ljóst að sá kappi er helvíti mikið góður og fáránlega mikilvægur í liði sem inniheldur yfir 30 leikmenn. Heill Fernando Torres hefði útvegað 4 stigum fleira og klárlega breytt nokkrum jafnteflum í sigur. Það eru leikmenn eins og Torres sem skilja á milli í leikjum þar sem “minni” lið koma á Anfield og pakka í vörn. Hann var ekki í formi, tæpur eða meiddur í flestum af þeim rúmlega 20 leikjum sem hann spilaði í ár og skoraði samt slatta…….guð hjálpi andstæðingum Liverpool þegar hann er heill.
Hann var að semja við Liverpool fyrir stuttu til næstu 5-6 ára, það er skulum við segja mikið betri fréttir heldur en ef við fengjum endalausar fréttir af risatilboðum frá Man City, Real, Chelsea o.s.frv. því fáir mótmæla þegar Torres er sagður vera besti sóknarmaður í heimi.
–
Þetta var svona létt yfirferð yfir aðalliðið okkar, engan af þessum mönnum vil ég missa frá Liverpool. En til að klára þetta skulum við kíkja yfir restina:
Ryan Babel: Ég er einn af þeim sem hefur alveg hellings trú á Ryan Babú, hann hefur alla þá hæfileika sem prýða þurfa nútíma sóknarmann. Hann er fljótai heldur en Torres, er þræl skotviss og getur auðveldlega tekið menn á þegar sá gallinn er á honum. Engu að síður hefur hann átt afar erfitt með að aðlagast þeim litla tíma sem hann fær á boltann í Englandi og þeirri gríðarlegu vinnu sem allir leikmenn sem spila þurfa undir stjórn Rafa Benitez þurfa að skila í hverjum leik. Á þessu tímabili virkaði hann með lítið sjálfstraust og út úr stöðu, það litla sem hann fékk í raun að spila. Mitt mat er að Babel eigi að fá eitt tímabil í viðbót á Anfield (í það minnsta), þetta tímabil gæti hafa reynst honum nauðsynlegt til þess að taka næsta skref og ná að aðlagast Liverpool. Hæfileikarnir eru klárlega til staðar.
Eins var það í tenglsum við Babel sem ég var hvað mest ósáttur við Benitez í ár (er það vanalega ekki). Þegar Torres meiddist þá fannst mér Ryan Babel vera eini raunhæfi kosturinn upp á topp, enda Keane og Kuyt hvorugur með sýnishorn af þeim hraða sem Torres og Babel hafa. Þar fyrir utan er ég ennþá á því að Babel sé bara betri striker (þ.e.a.s. sem fremsti maður) heldur en bæði Keane og Kuyt. En í stað þess að leggja traust sitt á Babel var hjakkast í hvert jafnteflið á fætur öðru með Keane/Kuyt frammi.
Hollendongurinn fékk samt vissulega sinn skerf af tækifærum í ár, en ég er á því að ef hann fær almennilegt traust þá fyrst förum við að sjá hvað hann getur í raun og veru, hann á allavega nóg inni og það vil ég sjá nýtt á Anfield.
Eins gleymist stundum þegar talað er um þetta ár hjá Babel að EM og ÓL trufluðu undirbúning hans gríðarlega mikið fyrir mótið og hann var alltaf skrefi á eftir, hann fékk bara ekkert frí í sumar. Mascherano var í sömu stöðu og þurfti nú að fá ansi marga sénsa í byrjunarliðinu áður en hann fór að sýna sitt rétt andlit.
Vangaveltur um kaup á David Silva eða sambærilega leikmenn vinna samt ekki með Babel sem líklega fer frá klúbbnum ef keyptur verður Silva týpa af leikmanni.
Andrea Dossena: Fyrir mér en hann ennþá fullkomlega óskrifað blað, þarf greinilega meiri tíma til að aðlagast og miðað við að hann var alveg dottinn út úr myndinni í lokin þá held ég að dagar hans gætu verið taldir. Eina sem vinnur með honum er að hann er yngri en Aurelio…………því það er enginn að fara spila meira í þessari stöðu heldur en Insua.
Það er svo auðvitað erfitt að horfa fram hjá byrjun hans hjá klúbbnum sem var spaugilega hræðileg, hann var eins og stytta í bakverðinum, svipað gáfulegur og Igor Stephanovs. En hann vann á og endaði nú á að sanna fyrir fólki að þrátt fyrir allt þá er Dossena klárlega maðurinn.
Hef ekki hugmynd um hvort hann verði áfram og það skiptir í raun litlu, en ég hafði nú mun meiri væntingar til nýja bakvarðarins okkar heldur en þetta fyrir tæpu ári síðan.
Degen: Talandi um bakverði sem stóðu alls ekki undir væntingum!!! Degen hefur verið meiddur í 2-4 ár, nuff said.
David N´Gog: Ég held að Rafa hafi gríðarlega miklar væntingar til N´Gog og komi til með að leggja mun meira traust á hann næsta tímabil. Raunar held ég að það verði ekki lagt mikið púður í að kaupa striker þar sem frekar verði treyst á Torres með N´Gog sem back up (ásamt Kuyt/Babel).
Þetta er strákur sem skoraði mikið sem unglingur, bæði fyrir félagslið og að ég held unglingalandslið, hann er stór, mjög fljótur og virðist henta vel í enska boltann. Hann fékk nokkuð mikið af tækifærum í ár og nýtist sú reynsla honum vonandi vel fyrir næsta tímabil. Það væri æði að sjá svona pjakk springa út hjá Liverpool og það væri gaman að sjá ungan og efnilegan frakka springa út á Anfield, nóg hefur það nú verið reynt.
Voronin & Pennant & Intjande: Pennant er farinn á Bosman held ég. Hvað Voronin varðar þá held ég að við höfum ekkert við hann að gera á Anfield og tippa á að hann verði seldur í sumar…….og Intjande var gleymdur og grafinn þar til hann hneykslaði á minningarathöfninni um daginn
El Zhar: Hef litla trú á að hann verði mikið lengur hjá okkur, hann er ekki alslæmur leikmaður, held bara að hann sé ekki nógu góður fyrir Liverpool og verði kominn í Championship deildina innan skamms.
Cavallieri: Það bara getur ekki verið gaman að vera varamarkvörður á eftir Pepe Reina………reyndar bara getur ekki verið gaman að vera brassi og enda sem markvöðrur. Hann fer samt ekki fet tippa ég á. ;p
Nemeth, Spearing, Plessis, Pacheco, Kelly og Darby eru síðan allt tappar sem ég yrði ekki hissa á að sjá í júlí og ágúst og jafnvel eitthvað þegar líður á nýtt tímabil.
Svona met ég þetta akkurat á þessum tímapunki, við þurfum ekki mikið held ég og mikilvægara held ég að sé að halda því sem við höfum fyrir. Fjölhæfur og duglegur leikmaður sem myndi styrkja okkur sóknarlega væri vel þeginn (Tevez, Silva…….) einhver sem fyllir það skarð sem Keane átti að fylla og nýr hægri bakvörður sem getur sótt er must, það er ekki hægt að treysta á þennan Degen aftur. Einnieg vantar cover í miðvarðarstöðuna sem ég held þó að verði fundið innan félagsins.
Flottur pistill. Maður er farinn að verða mjög forvitinn um hvað gerist í sumar. Vona bara það besta.
áhugaverð lesning….en varðandi svefnherbergi Rafa, þá held ég að Insúa sé að fara frá því að vera í barnarúminu í það að fá sitt eigið herbergi.
En að öllu gamni slepptu, þá finnst mér algert aðalatriði að breyta ekki hryggsúlunni (Alonso) og byggja áfram í kringum hana. Eins held ég að sú staðreynd að liðið hafi verið í baráttunni þangað til í lokin eigi eftir að reynast okkur vel og skerpa á liðinu næsta tímabil.
Haha stöðu Insua held ég að erfitt verði að lýsa betur :p
Eins og margir hér, Stevie og fleiri segja þar á meðal ég, það þarf bara 2-3 leikmenn. Johnson sem dæmi, stórkaup í Silva og hugsanlega Owen og jafnvel Juninho frítt. Allavega fyrstu 3 leikmennina. Ég vill ekki sjá Rafa selja Dossena,Alonso,Riera,Babel,Degen,Voronin og kaupa þennan,hinn,hinn,og þennan og hinn og hinn og það verður bara einn hinn sem getur eitthvað og við endum í 3-4 sæti og nánast aftur á byrjunarreit. Við erum með feykigott lið sem þarf bara örlítin neista með í viðbót sem ætti að finnast í 2-3 leikmönnum sem styrkja liðið og jafnfram bekkinn líka. Oft á tíðum í vetur var Hyypia okkar besti maður á bekk(með fullri virðingu fyrir höfðingjanum) að við vissum vel að t.d. í 0-0 að El-Zhar væri ekki að fara að tryggja 3 stig. Hann kom samt aftur og aftur inná og ekkert gerðist. Ég vill gæði í sumar og titla eftir 1 ár !.
Svakalega dapurt að hafa eytt tæpum 40 millj. punda í leikmenn fyrir síðasta tímabil og í raun bættu þessir menn liðið ekkert, Riera átti nokkra rispur annars kom ekkert frá þessum mönnum. Sem betur fer stigu nokkrir “gamlir” leikmenn upp, sérstaklega Xabi og Benayoun, og gerðu þetta að góðu tímabili. Vonandi að kaup sumarsins eigi eftir að gera eitthvað meira fyrir okkur næsta vetur.
ég segi einfaldega: Takk fyrir mig!
Það sem er aðalatriðið í þessu er hversu mikla peninga Rafa fær til að kaupa leikmenn? Þarf hann að selja til að kaupa?
Ef allt er eðlilegt þá getur hann haldið t.d. Babel en samt keypt nokkra dýra leikmenn. En líklegt gæti verið að hann þyrfti t.d. að selja Babel og Dossena (sem má mín vegna fara með tilkomu Insúa) til að kaupa leikmenn eins og Silva og Tevez.
Þetta stefnir í skemmtilegt “Silly Season”
Það er náttúrulega ekki hægt að taka svona færslu alvarlega með svona basic staðreyndarvillu.
Meira að segja ungabarn veit að Argentína er BESTA landslið í heimi, ekki eitt besta.
Fyrir utan það, mjög góður pistill 😉
Góður pistil en…
auðvita er maður ekki samála öllu.
-Dirk Kuyt er minn maður og hann skilar sínu í þessu liðið. Þrátt fyrir að spila úr stöðu en hann er búinn að tryggja okkur ófástigin.
-Ryan Babel er maður sem maður hálf vorkennir, jú hann er rétt tvítugur
og efni mikið en hann er bara en of sjálfelskur en hann á sína spretti,
ég held að sjálfselskan kemur frá því að þurfa að horfa á leikinn af bekknum og fá að koma aðeins inn á þegar 20 mín eru eftir og þá er greddan orðin því lík að hann ætlar að gera allt sjálfur.
-Kaup og sölur
-Keane verður alltaf umtalaður en mér fannst hann vera með hjartað á réttum stað en Rafa vildi ekki nota hann. Og ég hef grunn um að kaupverðið hafi verið ýkt þar sem oft eru kaupskilmálar árangursbundnir og efa ég um að við höfum tapað miklu á honum. Enda harður Liverpool maður í hjarta.
Komandi kaup?
Owen- nei.. hann er ekki lengur “Boywonder” sem skoraði öll góðu mörkinn hér í olddays, hann er bæði hægari og “meiddari” þannig að það yrði alltof mikil áhætta að taka hann aftur, nema bara til að geyma hann á bekknum.
Það væri gaman að sjá eitthvert stórt nafn koma í sumar til að styrkja hópinn en við erum bara ekki keppnishæfir við hina Olíupenningana.
Við þurfum að fá einhvern góðan upp úr unglingastarfinu það er okkar raunhæfi kostur.
Ég vildi fá einhvern þýskantrukk til að trukkaboltanum upp kantinn. Okkur vantar bara breidd, með örðum orðum okkur vantar betri menn á bekkinn og í vissar stöður.: )
Sæmilegur samantektarpistill.
Vil bara benda mönnum á að Liverpool þarf að skerpa sinn leik meira en menn virðast halda ef við ætlum að verða meistarar næsta tímabil. Chelsea munu bæta sinn leik mikið og viskínefur mun hreinsa vel út á Old Trafford og kaupa sterkari miðjumenn. Þessi lið munu kaupa stórstjörnur og bæta gæðin í sínum leikmannahóp.
Liverpool mun ekki taka 12 stig af 12 mögulegum tvo ár í röð gegn Man Utd og Chelsea. Munurinn er því ekki 4 stig (heldur c.a. 6-12 stig). Liverpool vantar stöðugleika og meiri gæði ofar öllu. Stöðugri vörn sem missir ekki stjórn á leikjum og enda í 4-4 jafntefli útaf einstaklingsmistökum. Eiga miðju og sóknarmenn sem geta búið til og nýtt færi gegn hvaða liði sem er, jafnvel þó þeir séu þreyttir eða smá meiddir.
Það verður að mínu mati alls ekki nóg að bæta bara við David Silva, Mikael Owen(nota Ngog meira) og sókndjörfum hægri bakverði. Jafnvel þó Torres og Gerrard haldist meira heilir. Á þessu tímabili stigu Benayoun, Kuyt og Alonso upp þegar G&T skorti.
Á næsta tímabili munu ofurtvíeykið okkar spila meira og hinir treysta meira á þá og bíða smá eftir að þeir geri hlutina. Þeir verða stífdekkaðir og þá þurfum við hraða heimsklassa miðju og sóknarleikmenn sem geta nýtt sér svæðin sem myndast. Benayoun í toppformi tekst það kannski já en Kuyt, Alonso hafa ekki hraðann og Silva skortir líkamlegan styrk til að vinna sig frá varnarmönnum.
Það sem ég er að reyna ropa útúr mér er að við þurfum Plan B og C ef G&T og hápressuvörnin okkar er ekki að virka. Ef við verðum of flatir og lið ná að loka miðjunni þá þurfum við að geta farið í 2 manna sóknarlínu og til þess þurfum við líkamlegan sterkan striker og góðan skallamann. (Owen og Ngog eru ekki svarið, né eru þeir öruggt source af mörkum ef Torres meiðist).
Við leystum þetta í lok tímabilsins með því að koma liðum á óvart og ýttum bakvörðunum og kantmönnum mun ofar en þau munu finna lausnir á því fyrr eða síðar.
Við þurfum að stórbæta Liverpool liðið og fá fleiri matchwinnera til okkar. Öll kaup Benitez verða að bæta liðið sem fyrir er og vera leikmenn sem skila afköstum allan veturinn. Við höfum ekki efni á að bíða eftir að menn eins og Babel, Dossena o.fl. sýni loksins alvöru getu. Þetta með Ryan Babel er vandræðamál. Ef hann væri frábær gegn litlu liðunum en slappur gegn stórliðum eða öfugt þá liti málið kannski öðruvísi út. En í vetur var hann jafn slappur og áhugalaus gegn öllum liðum í Englandi. Leikmaður sem tekur sífellt kolrangar ákvarðanir gegn botnliðum og verstu varnarmönnum deildarinnar hlýtur að þurfa fara sama hversu hæfileikaríkur hann var síðan á Eiðum ´64.
Deildin á nýafstöðnu tímabili var verulega slöpp og ekki vel spiluð, flest botnliðin reyndu vart að spila fótbolta gegn toppliðunum (verra en undanfarið ár) og Man Utd vann því þeir höfðu stærsta og jafnbesta hópinn af leikmönnum, ekki af því að þeir spiluðu besta fótboltann.
Næsta tímabil verður enn meiri samkeppni og þá munu gæðin skipta mun meira máli. Arsenal verður líka sterkara. Liverpool þarf að finna leikkerfi í sóknarleiknum sem skilar bæði mörkum í stórleikjum og gegn litlu liðunum. Stöðugt og ofurhratt miðjuflæði. Verða ruthless og drepa lið í fyrri hálfleik og þora að bakka yfir þau í þeim seinni.
Við þurfum 2.0 upgrade af Liverpool FC. – 1.1.1 mun ekki duga næsta tímabil. Taka stóra skrefið sem gerir okkur aftur að besta liði Englands og Evrópu. Allar traustu undirstöður til þess eru til staðar núna. Smávægilegar breytingar munu þó hugsanlega bara duga til að vinna CL en ekki Englandsmeistaratitilinn.
Ef við lítum á kaupin seinasta sumar þá eru það þrír menn sem áttu að labba beint inní hópinn, Keane, Riera og Dossena. Restin eru ódýrir menn sem var varla hægt að gera væntingar til. Riera stóð fyrir sínu og verður að teljast ágætis kaup. Hann er engin stórstjarna en skilar stöðuleika sem Babel sárvantar. Dossena byrjaði illa (understatement of the year), en lendir svo í því að bæði Insuna og Aurelio eiga gott tímabil. Þannig að segja heilt yfir að hann hafi verið flopp er hálfur sannleikur.
Þá er komið að Keane, ég held að menn séu að miskilja mikið með þau kaup og af hverju þetta gekk ekki upp.
Hér eru nokkrar staðreyndir:
1) Ef Liverpool borgar 15-20M fyrir leikmann þá er hann hugsaður sem byrjunarmaður. Getum ekki leyft okkur 30M Berbatov á bekkinn með Tevez (35M total) og Nani (16M) við hliðina á sér.
2) Benitez er ekki mikið fyrir 4-4-2 svo að þó að hann detti í það kerfi af og til er nokkuð ljóst að það yrði aldrei Plan A. Reyndar spilar enginn stórklúbbur það kerfi lengur.
3) Allt sem Benitez gerir er útpælt, hann kaupir menn með sérstakt hlutverk í huga. Þeir geta sumir passað í fleirri en eina stöðu, en það er 100% að Keane átti aldrei að vera hugsaður sem lone striker á toppnum. Hann er bara ekki þannig leikmaður.
4) Augljóslega er Torres ósnertanlegur, svo að í 4-2-3-1 kerfi var Keane aldrei hugsaður á toppinn, nema kannski ef Torres meiðist. Reyndar efast ég um það líka, þess vegna keypti hann Ngog.
5) Það að Parry hafi keypt hann án þess að Benitez vildi hann er kjaftæði. Þetta er ekki þannig klúbbur, og Benitez hefði labbað í burtu. Vandinn var að Benitez vildi annan mann sem priority, Barry kallinn (kem betur að því fyrir neðan)
6) Það að Benitez hafi fryst Keane á bekknum í mótmælaskyni eða til þess að prove a point, er tómt kjaftæði. Benitez blandar ekki tilfinningum í liðsval, hann velur alltaf besta liðið hverju sinni (með tilliti til næsta leik og allt það).
7) Upphaflega planið var klárlega að fá Barry og Keane inn, og Alonso út, einnig hefði Riera heldur ekki komið nema vegna þess að Barry datt upp fyrir.
Síðasti punkturinn er lykillinn að því að Keane gekk ekki upp. Reyndar var hann í raun doomed um leið og Barry kom ekki.
Barry átti að koma á 18M = byrjunarliðsmaður. Alonso út og enginn Riera. Miðjan átti að vera Mascherano og Gerrard, með Barry og Kuyt á köntunum. Svo átti Keane að vera í holunni með Torres frammi. Ég man að seinasta sumar sagði Gerrard að Benitez hefði sagt við hann að hann mundi vera á miðjunni á 2008-09 tímabilinu. Vandinn við að hafa Gerrard á miðjunni er að hann er meira heftur sóknarlega, en vegna þess hvað Barry er meira afturliggjandi þá hefði Gerrard getað svindlað meira, og Barry sitið eftir. Svo hefði Dossena í bakverðinum séð um að halda breidd á vinstri væng (ef Barry væri að kovera svæði inná miðjunni), enda mjög sókndjarfur.
Svo kemur Barry ekki, og Alonso verður því eftir. Benitez fær þá Riera í staðinn, sem er alvöru kantari (ólíkt Barry). Þetta gerir það að verkum að Alonso er ennþá á miðjunni og Gerrard fer uppí holuna enda ekki erfitt að velja á milli hans og Keane. Svo er Riera á kantinum sem gerir það að verkum að Dossena á að sitja aftar, sem virðist henta honum herfilega. Á einu bretti verða tveir menn, Keane og Dossena ónothæfir í byrjunarliðið, bara vegna þess að Barry kom ekki. Þess vegna var Benitez svo pirraður útí Parry.
Þetta reyndist samt smá blessun, því að Alonso vaknaði af dvala og átti frábært tímabil, og Gerrard komst að því að hann er betri í holunni en á miðjunni sem er ótrúlegt, ég hélt að hann gæti ekki orðið betri.
Það að Benitez hafi selt Keane í Jan og bara tapað 2-4M á honum var mjög snjallt. Keane er að eldast og um leið og það kom í ljós að Gerrard er framtíðarmaður í holunni fyrir aftan Torrez, þá er Keane kominn á bekkinn. Hann er bara of dýr til að vera á bekknum, Liverpool hefur ekki Russian oil money, eða Manu peninga.
Semsagt, Keane átti aldrei neina von eftir að Barry inn – Alonso út datt upp fyrir. Besta transfer síðasta sumars var að Alonso fór ekki:)
Svenni
http://www.skysports.com/story/0,19528,11095_5359192,00.html
Eitthvað segir mér að það verði erfitt að halda í Alosno…
…. þó svo að það ætti að fást góður peningur fyrir “besta sendingarmann” í boltanum
Þetta er rétt hjá Sölva nr.9, það duga ekki einhver nokkur smákaup í sumar. Við þurfum þessa tvo svokölluðu matchwinnera og helst ekki selja neinn af þeim sem spiluðu leik í deildinni i vetur…Dossena? Vörnin okkar er góð, þannig er það bara, svo sókndjarfur kanntari og kannski einn striker ættu að skila miklu. Fyrir mér mætti þá Riera fara (miklu frekar en Babel). Svo virðist Benitez líka vera byrjaður að ‘rafalutioner’ academíuna sem er vital upp á framtíðina þar sem við höfum ekkki sambærilegan pening á við Chelsea og ManU. auk þess sem ég efast um að margir hér inni væru til í að Liverpool væri keyptur af einhverjum moldríkum þriðja heims glaumgosa. Við bara verðum að fara að vinna þessa deild….
Nr. 11 Eyþór. Það sem maður bíður eftir núna er að Alonso ropi því út úr sér að hann sé ekkert á förum, og drepi þar með málið.
Við ættum að hafa sýnt þessum pappakössum ágætlega í vetur að Liverpool er mikið langt frá því að vera lakara lið heldur en Real Madríd og ef eitthvað er þá ætti straumurinn að vilja fara í hina áttina frekar.
Eða eins og Benayon segir svo skemmtilega:
“The good thing is, I have been playing more, and I hope it continues that way. To be honest, it could be Real Madrid knocking on my door, and I would still rather stay at Liverpool four more years.”
Perez má hoppa þanngað sem sólin ekki skín…….já eða einbeita sér að því eitt sumar að reyna að kaupa CRonaldo :p
Barry kominn í viðræður við Man City. Sjá td BBC.
Vonandi kaupa City bara Barry strax í dag, þá hefur Rafa engan arftaka fyrir Alonso. En hvernig lýst mönnum á þennan Kleber sem liðið á að hafa boðið í 6 milljónum punda ?
Slir félagar
Góður pistill og ég sá engar staðreyndavillur í honum. Bæði Spánn og Brasilía eru með betra landslið en Argintætan 😉
Það er nú þannig
YNWA
Halda Alonso, kaupa Silva og kaupa hægri bakvörð. Er ég sá eini sem finnst fáránlegt hvað G.Johnson er verðlagður hátt? Ég veit að hann er góður en hann er ekki 15 millu maður, frekar fá einhvern aðeins ódýrari og eyða pening í stöður sem virkilega þarf að styrkja, ekki backup!
Væri alveg til í að gefa þessum Kleber séns ef hann er svipuð týpa og Torres, þ.e. hraður, teknískur og markheppinn og getur spilað einn frammi.
Ég get ekki betur séð að við kaupum ekkert í sumar…. félagið á hausnum!!
Fínn pistill Babú, en er algjörlega ósammála því að Keane hafi verið seldur án þess að fá alvöru séns á að sanna sig. Þvert á móti þá fékk hann sénsinn trekk í trekk í trekk, var ekki að gera sérstaka hluti og svo fór hann alveg með þetta með attitjúti sínu á æfingasvæðinu. Það var bara ein leið eftir fyrir hann: ÚT.
Ég er sammála mörgum hérna, það þarf ekki að bæta miklu við, 2-3 gæðaleikmenn á kostnað þeirra sem hafa verið á útláni (eða ekki spilað) og svo Keane. Martin Kelly verður okkar fjórði miðvörður og svo þurfum við tvo leikmenn sem gætu brotið upp leiki. Mér finnst myndin hjá Sölva vera ansi hreint dökk. Góð hápressa er eitthvað sem er fáránlega erfitt að eiga við og ég sé ekki hvers vegna við ættum ekki að geta þróað þetta áfram hjá okkur.
Hvaða vesen var Keane með á æfingasvæðinu ?
Ég á nú erfitt með að dæma hvað gekk á á æfingasvæðinu, en miðað við að hann fékk bara hálft tímabil til að sanna sig hjá Liverpool, spilaði oftar en ekki einn sem fremsti maður eða kom inn af bekknum og fékk þar að auki ekki að þróa sóknardúett með Fernando Torres þá segji ég já, hann fékk ekki neitt svakalega mikinn séns hjá Liverpool. Cruoch, Kuyt, Moriantes, o.fl. hafa nú fengið mun meiri séns heldur en þetta og sýnt mun minna. Það má líka taka inn í myndina að hann var að spila í frekar nýju hlutverki, hjá mikið stærri klúbbi en hann var í með mjög aukna pressu á sér.
En það má vel vera að salan á honum í janúar hafi verið rétt, en það sýnir þá bara hversu vitlaus þessi stóru kaup voru fyrir tímabilið…….og miðað við fjölda jafntefla og leikja án Torres þá er ég á því að einmitt þarna hafi tímabilið hjá okkur að miklu leiti farið í súginn. 20.m.p. maður á að skila meira af sér og allajafna er nú gefið leikmönnum með slíkan verðmiða séns á að sanna sig. M.ö.o. þá held ég að keane hefði alveg getað plummað sig hjá Liverpool, en sökum aldurs féll hann held ég einfaldlega bara á tíma.
Af sömu ástæðu er ég afskaplega lítið spenntur fyrir Gareth Barry og óttast að hans ferill hjá Liverpool yrði gríðarlega svipaður þeim sem Keane átti.
Annars sammála SStein um að líklega verður Kelly bara sem 4. miðvörður og eins með að pistill Sölva sé frekar svartsýnn…..kerfið var að virka gríðarlega sterkt á þessu tímabili, sérstaklega í lokin þegar jafnteflin urðu sjaldséðari. Byggja ofan á þetta kerfi áfram og halda áfram að bæta segi ég.
Stórskemmtileg lesning þetta allt saman
Hvernig lýst ykkur samt á að fá Pranjic?
Ég er með skiptar skoðanir á þeim sem orðaðir hafa verið við vinstri stöðuna, Barry og Silva. Silva er dýr og samkvæmt “fréttum” vill ekki koma. Þar að auki gæti han þurft aðlögunartímabil en það þarf Barry ekki. Barry er ekki þessi pjúra kantmaður sem ég hefði viljað en gæti auðvitað hjálpað helling til inn á miðjunni sem og leyst af meiðsli.
Benitez hefur sagt að hann ætli ekki að selja lykilmenn, en samt sem áður sagði hann ekki fyrir svo löngu að “allir” væru til sil sölu ef boðið væri nógu hátt í þá. Ég vil alls ekki sjá Alonso fara, og tel að Babel ætti að fá séns í 1 tímabil enn, spila honum meira og gera hærri kröfur til hans.
Mikið hefur verið talað um að okkur vanti framherja sem backup en ég hef fulla trú á að Babel og Ngog geti leyst Torres af í meiðslum. Alla vega vantar okkur að mér finnst meira hægri bakvörð og vinstri kant.
Glen Johnson er ágætis kostur en ég viðurkenni að ég er skeptískur á að hann slái í gegn með rauðu.
Barry í læknisskoðun hjá City núna.
Það þarf að skoða þessa ást Babu á Keane og Babel sem báðir fengu meira en nóg af sénsum. Því miður voru þeir nánast alltaf lélegir þegar þeir spiluðu.
Þegar þú tekur ekki sénsinn í klúbbi eins og Liverpool þá ertu bara seldur. Þetta er ekkert flókið! Það er nóg af öðrum leikmönnum sem eru betri og kunna að taka sénsinn.
Þetta með að spila mönnum úr stöðu er líka kjánalegt…hvað leikmenn eins og Kuyt eða Benayoun? Ekki væla þeir þó þeir séu að spila “úr stöðu”. Þeir gera bara það þeir eru beðnir um og gera það vel. Þannig leikmenn viljum við hjá Liverpool en ekki leikmenn sem alltaf þarf að réttlæta að séu í raun betri en þeir sýna.
Barry að undirgangast medical hjá City samkvæmt Goal.com.
Svo mikið fór fyrir Meistaradeildardraumum hans.
Verð nú að segja að ég hef aldrei verið hrifin af þeirri hugmynd að fá Barry á kostnað King Xabi (já mér finnst hann eiga þá nafngift skilið).
En miðað við alla þá sem eru bendlaðir við vinstri kanntinn hjá okkur er ég hrifnastur af því að fá Pranjic, Sessegnon eða manninn sem við eigum ennþá og Benitez er með hörku álit á, Leto.
Pranjic átti flott tímabil en eins og margir held ég að hann gæti átt smá erfitt með aðlögunina frá hollensku yfir í ensku deildina.
Sessegnon er maður sem get víst spilað báða kanta, holuna og þolananlegan second striker.
Hann var ekki fyrsti kostur PSG fyrren að hann ýtti Rothen útúr liðinu og hefur spilað alveg ágætisbolta. Wenger hefur víst líka lengi haft augstað á honum.
Leto er soldið óskrifað blað enn þann dag í dag. Átti fína spretti með Olympiakos í vetur þangað til að hann reifst hörkulega við þjálfarann.
Samt hafa Benitez og þjálfarateymið óbilandi trú á drengnum en það skilar sér ekki alltaf í frammistöður á vellinum (samanber Gonzales).
Mín spá: Ef Leto fær atvinnuleyfi keppast hann og Riera um vinstri kanntinn í vetur ef ekki verður Sessegnon hlutskarpastur útaf fjölhæfni sinni.
Júlli
Ef ég man rétt þá var nú Benayoun bara hreint ekki sáttur við sína stöðu hjá liðinu! Varðandi Keane þá var ég nú ekkert himinlifandi með hann, vildi samt hafa þessi 20.m.p. kaup okkar til loka tímabils frekar heldur en ekki neitt!!! Annars fór ég alveg yfir hvað ég var að meina í kommenti nr. 21.
Hvað Babel varðar er ég bara ekkert sammála að hann hafi fengið meira en nóg traust og hafi ekkert getað. Eins er ég á því að hann eigi meira en nóg inni sem ég vil sjá nýtast hjá Liverpool. Finnst þessi skoðun mín nú ekki vera neitt sem þurfi að skoða sérstaklega.
Staðfest Barry farinn til City !
http://www.mcfc.co.uk/default.sps?pagegid={DBD12D53-8346-431D-A04F-5D0F8664DE80}&newsid=6633718
Djöfull er ég feginn að þetta Barry mál er úr sögunni.
Mér líst vel á þennan Kleber frá Cruzeiro. Góða tækni, góð skot og kann svo sannarlega að klára færin. Skásta myndbandið sem ég fann.
http://www.youtube.com/watch?v=Ikd0NSve6iw&feature=related
Barry er augljóslega að springa úr metnaði … vildi komast frá Villa í klúbb sem spilar í CL …. og fer svo í klúbb sem er ekki einu sinni í UEFA keppninni á næsta ári.
Sami metnaður og hjá Robinho … fita seðlaveskið sem mest.
Held að þetta hafi ekkert með eitthvað metnað fyrir Cl að gera Mummi. hann er klárlega að hækka verulega í launum og sættir sig við 5-8 sæti síðustu árín sín í boltanum mín skoðun. Annarrs er ég fegin að þetta Barry mál er úr sögunni fyrir mér er hann á sama level og Lucas og ég segi aftur mín skoðun 🙂 hann var aldrei að fara bæta byrjunarliðið eitthvað stórkostlega ef eitthvað var þá hefði hann getað eyðilagt frekar en bætt það 😉 eina sem ég væri til í að sjá koma núna í sumar væru annahvort Van det Vart eða Snejder frá Real Madrid. og svo Nafnanna 2 frá Valencia þá væri ég sáttur með gluggan. er samt ekki að gera neinar vonir eftir að hafa séð skuldastöðunna versna allverulega síðasta árið hjá liverpool :S
Ef að Alonso á að fara til Real madrid þá vil ég alls EKKI fara að fá Heinze frá þeim heldur vil ég fá Van Der Vaart og Sneijder frá þeim í skiptum og kannski borga þeim smá.
Við erum EKKI að fá Gabriel Heinze, þessi frétt var uppspunin hjá fjölmiðlum.
Ásmundur væri nátturlega snilld að fá þá báða Van der Vart og Snejder en ég er samt ekki hrifin af því. ástæðan er sú að þeir ná afskaplega illa saman og eru víst ekki miklir vinir. sem er nátturlega fáranlegt miðað við að vera frá sömu borginni og koma frá sama félagsliði. það var talað um það í spáni að stór ástæða af hverjum þeim gekk svona illa í vetur er vegna óleysanleg ágreings milli þeirra :S en þeir hljóta að fatta það fyrir rest að samvinna þeirra gæti verið rosaleg ef þeir myndu slípa sverðinn 🙂
Kannast ekki við að ég hafi verið svartsýnn. Tók það einmitt fram í lok pistilsins að við værum örstutt frá því að verða besta lið Englands og Evrópu. Vorum það líka 2002 undir stjórn Houllier (varnarsinnaðra lið reyndar) en hann tók þá kolrangar ákvarðanir í leikmannakaupum sem bættu liðið ekki.
Þessvegna er ég hálf sjokkeraður að heyra menn tala um kaup á Owen, Pranjic, Silva, sókndjörfum hægri bakverði og bíða enn eitt árið eftir því að Babel springi loksins út. Þessar breytingar hefðu dugað á nýafstöðnu tímabili EN MUNU EKKI DUGA Á ÞVÍ NÆSTA því Man Utd og sérstaklega Chelsea eru komin með hungrið aftur og verða mun betri. Ekki gleyma því heldur að Liverpool datt snemma úr ensku bikarkeppnunum á meðan Man Utd og Chelsea fóru lengra og við gátum því einbeitt okkur eingöngu að deildinni. Einnig eyddu Man Utd mikilli orku í HM félagsliða. MUNURINN ER ÞVÍ MEIRI EN 4 STIG. – – Ég vil alls ekki lesa pistla hérna í janúar 2010 um af hverju Liverpool sé 5-10 stigum á eftir toppliðinu, undrun á að Xabi Alonso sé ekki jafngóður og síðasta tímabili og af hverju okkur tekst ekki enn að vinna litlu liðin nógu reglulega…
Ég skrifaði pistla hér í október um að Liverpool þyrfti að hafa stórt forskot í kringum áramót og yrðu síðan að gera 1-2 leikmannakaup í janúar til að vinna deildina. Við náðum 8 stiga forskoti á tímabili en þvert á móti var Keane seldur í janúar og enginn keyptur í staðinn. Síðan sáum við forskotið hverfa strax eins og dögg fyrir sólu þegar orkulevelið datt niður hjá leikmönnum eftir stöðuga hápressuvörn fram að áramótum(jafnvel Kuyt var orðinn þreyttur á tímabili). Hápressan virkar alltaf í stórleikjum og við getum unnið með henni hvaða lið sem er, hvar sem er, en við getum ekki haldið henni út heilt tímabil og þurfum þess vegna Plan B og C. Ég hef stungið þar t.d. uppá að spila 3-5-2 á sumum útivöllum. Taka meiri áhættur varnarlega til að minnka hlaupin á miðjunni og sækja meira á útivöllum. Minnka þannig líkurnar á jafnteflum gegn litlum liðum og venjast því betur að stjórna leikjum og opna varnir. (þú færð nefnilega 3 stig fyrir sigur og tap, en bara 2 stig fyrir 2 jafntefli).
Ég er ekki að tala fyrir stórfelldum breytingum á leikmannahópnum. Við verðum að viðhalda hryggjarsúlunni og halda í þá liðsheild og miklu reynslu sem býr í liðinu. Það tekur tíma að komast inní varnarfærslur Benitez og því verða nýjir leikmenn að vera mjög agaðir, fljótir að hugsa og smellpassa inní hópinn strax frá byrjun. 1-2 heimsklassa matchwinnerar eru alger must kaup. Ekki fallnar stjörnur eða fleiri efnilegir leikmenn.
Annars er ég að horfa mikið á LFC TV núna og það er verið að sýna marga leiki frá 2004-2008. (Top 100 leikir á valdatíð Rafa Benitez) Breytingin á Liverpool á þessum tíma er ótrúleg. Maður sér svart á hvítu hversu miklu rusl liði Benitez tók við og hversu langtum skipulagðara og betra það er í dag. Samanburður t.d. á Djimi Traore vs Aurelio, Igor Biscan vs. Mascherano og Milan Baros vs. Torres gjörsamlega æpir á mann.
Ég bið eigendurna í guðana bænum að gefa Benitez allt það fjármagn sem hann biður og meira til, til að koma í veg fyrir þann glæp gegn mannkyni að Man Utd nái fleirum meistaratitlum en Liverpool. Ef Rafa vill 50m punda þá redda þeir 80 kúlum. Rafa veit hvað hann er að gera og hvað þarf til. Kaup sumarsins verða að vera fá en mjög stór og bæta heildarmynd og byrjunarlið okkar töluvert (Rafa hefur talað um þetta). Við eigum að vera tala um kaup á Ribery, Tevez, Etoo, Higuain, Valencia, Roque S. Cruz, Aguero, Iniesta, Lennon, Villa o.fl. Raunhæfum og góðum kostum fyrir stórlið eins og Liverpool, eða sterka leikmenn sem kunna á ensku deildina og þurfa ekki aðlögunartíma. Ekki “spenna” okkur upp á kaupum á minni spamönnum eins og Owen og co.
Áfram Liverpool.
Kaup í sumar sem ég vil sjá eru ; Glen Johnson, David Silva/(&)Villa, Nuri Sahin, Raul Albiol.
Menn sem ég vil sjá burt og það strax ; Itandje, El Zhar, Babel eða Riera(ekki pláss fyrir báða), Lucas, Voronin.
Ég væri sáttur með þetta í sumar.
Steven Gerrard sammála mér. Við þurfum að bæta leikmannahópinn VERULEGA til að ná titlinum af Man Utd.
http://www.visir.is/article/20090602/IDROTTIR0102/382385319/1056
Bæting milli ára, smálagfæringar hér og þar og kannski 1 bikar er alls ekki option næsta tímabil, því það nýafstaðna voru vonbrigði sama hvað menn segja. Leikmenn í sama gæðaflokki og Torres er eina leiðin frammávið.
Já, einmitt. Hvaða leikmenn eru það nákvæmlega sem eru á lausu og í sama gæðaflokki og Fernando Torres?
Leikmenn í sama gæðaflokki og Torres eru Gerrard, Messi, Kaka, Xavi og Ronaldo. Ronaldo er ekki að koma til Liverpool, Kaka kostar væntanlega einhverjar 70 milljónir punda og við eigum ekki þann pening, Messi er einfaldlega ekki til sölu (ef hann væri það þá væri það fyrir stjarnfræðilega upphæð) og það sama má segja um Xavi. Þá stendur eftir Gerrard, og við eigum hann 🙂
SSteinn Gleymir Iniesta hann er verða einn besti knattspyrnumaður evrópu í dag í sinni stöðu, Eiður sagði í einu viðtali að boltinn væri límdur á honum og hann hefði komið honum mest á óvart þegar hann byrjaði á sínum tíma hjá Barcelona. En alla vega Iniesta er minn maður í Barcelona þó þetta lið sé bara rugl mannað í dag en þá getur liverpool þetta allveg líka 😉 bara ef við drullumst að fara gera sama unglingastarf og er á Barcelona.
Hvernig líst mönnum á Yuri Zhirkov á vinstri kantinn ? Mér fannst hann hörku öflugur á EM í fyrrasumar.
SSteinn og Einar. Ég er ekki að tala um að kaupa rándýrar stórstjörnur. Torres var ekki besti striker heims þegar hann var keyptur til Liverpool.
Hann var hinsvegar keyptur á 20m + og ætlað að vera framtíðarstriker liðsins. Dagar þess að kaupa sóknarmenn á free transfer og vona það að fallnar stjörnur eða meiðslahrúgur haldist heilar eru liðnir. Liverpool er orðið það rosagott lið í dag að nú kaupum við byrjunarliðsmenn annars er það bara stöðnun.
Gæði munu skipta meira máli en breidd á næsta tímabili. Öll toppliðin munu klára litlu liðin vel og innbyrðis leikir topp4 munu ráða úrslitum um hver verður meistari. Mini CL þar sem besta liðið með flesta matchwinnera sigrar.
Zhirkov er afburða leikmaður sem yrði frábær kaup fyrir Liverpool. Getur spilað bæði í vörn og miðju og hefur gæðin sem þarf á hæsta leveli. Við höfum hinsvegar 3 bakverði fyrir og Rússarnir í Chelsea munu ávallt yfirbjóða okkur. Enginn séns að fá hann.
Iniesta er einn allra besti leikmaður heimsins í dag. 2 núverandi Evrópumeistaratitlar og það hvernig hann labbaði framhjá miðjumönnum Man Utd að vild sýnir það. Hann er akkúrat týpan af leikmönnum sem við eigum að vera eltast við. Er ekki stórstjarna en algjör gæðaleikmaður.(svipað og Torres var).
Þetta er nú alltaf mikið lottó Sölvi, það voru fullt af efasemdamönnum þegar Torres var keyptur og aðrir kostir taldir betri af mörgum. Það er alltaf erfitt að spá um svona fyrirfram, en ég tók þessu hjá þér sem Torres klassa eins og Torres hefur spilað hjá Liverpool, og svoleiðis klassi er bara ekki á hverju strái og kostar óhemju pening. Auðvitað munu menn reyna að veðja á leikmenn sem menn telja að geti gert svipaða hluti og þess vegna held ég að Rafa sé með Silva efstan á sínum óskalista. Ég veit alveg hvernig minn óskalisti hljómar ef ég ætti að velja þrjá kosti sem einhver smá möguleiki væri á ef nægir peningar væru fyrir hendi:
David Silva
Franck Ribery
David Villa
En það eru akkúrat engar líkur á því að við höfum fjárráð til að versla þessa menn. Ég er einnig á því að við neyðumst til að kaupa enska leikmenn og þar eru þrír sem standa upp úr sem gætu nýst okkur afar vel, en að sama skapi myndi það kosta mjög háar fjárhæðir að ná þeim á Anfield:
Glen Johnson
Ashley Young
Aaron Lennon
Í besta falli vonast ég eftir einum leikmanni úr hvorum flokki.