16 liða úrslit Carling Cup, sjötta árið í röð sem við þurfum að fara til London og leika þar á þessu stigi keppninnar. Fjórða árið í röð endum við keppni þar og ljóst að Wembley verður ekki áfangastaður Carlinghópsins okkar.
Rafa breytti liðinu mikið, eins og við vissum öll, skipti um leikmenn í NÍU leikstöðum frá sunnudegi, einungis Insua og Kuyt byrjuðu aftur og Hollendingurinn sívinnandi var fyrirliði liðsins í kvöld, til hamingju með það hr. Dirk.
Byrjunarlið Benitez í kvöld var:
Degen – Kyrgiakos – Skrtel – Insua
Plessis – Spearing
Kuyt – Voronin – Babel
N’Gog
Á bekknum sátu: Reina – Aquilani – Benayoun – Darby – Dossena – Eccleston – Ayala.
Klárlega sterkasta 16 liða úrslita Carling-lið okkar á ferli Spánverjans, allir leikmennirnir leikið fyrir aðalliðið og sjö byrjunarmenn landsliðsmenn sinna landa. Arsenalliðið var líka sterkt, þar stillti Wenger upp öflugri sóknarlínu, efnilegri miðjulínu og blöndu reyndra og ungra í varnarlínunni.
Enda varð þessi leikur hin ágætasta skemmtun á nokkuð fullum Emiratesvellinum.
Okkar menn byrjuðu leikinn betur. Fín sókn á 3.mínútu endaði á Kuyt sem ekki náði almennilega til boltans í góðu skotfæri á vítateigslínunni og á 9.mínútu fékk Degen dauðafæri sem hann setti utanfótar framhjá fjærhorni eftir flotta samvinnu við N’Gog. Smám saman komust þó heimamenn inní leikinn, þeir lágu frekar aftarlega en reyndu svo að sækja hratt.
Pressan þeirra skilaði sér á 19.mínútu, Andriy Voronin átti skelfilega sendingu til baka sem Fran Merida át upp og klíndi í stöngina inn rétt utan teigs. 1-0 uppúr fyrsta skoti Arsenal á markið. Ekki sanngjarnt, en staðreynd.
Sú forysta varði þó ekki lengi. Skrtel dúndraði boltanum fram á völlinn eftir 26 mínútur, Ryan Babel lagði hann með kassanum út á Emiliano Insua sem klíndi boltann utanfótar af 25 metrum í markið, óverjandi fyrir Fabianski markmann heimaliðsins. Verulega fallegt fyrsta mark Emiliano fyrir félagið, er sannfærður um að þau munu verða töluvert fleiri í framtíðinni og staðan orðin 1-1.
Þarna datt leikurinn töluvert niður, við drógum aðeins úr sóknarákafanum sem svo þýddi að Arsenal átti erfitt með að beita skyndisóknunum sínum. Þó lenti Cavalieri í töluverðum hremmingum uppúr horni í lok hálfleiksins en ekkert gerðist þar og jafnt var eftir ágætan fyrri hálfleik beggja liða.
Við hófum þann seinni vel, vorum hátt á vellinum í byrjun en eins og í fyrri var það skyndisókn Arsenal sem skilaði marki. Boltinn tapaðist á miðsvæðinu, Merida sneri á Degen og sendi á Ramsay, hann böndlaði boltanum framhjá Kyrgiakos, sem átti að gera betur, og til Bendtner sem labbaði framhjá Skrtel fáránlega létt og klíndi honum á nærhornið hjá Cavalieri. Fyrsta sókn Arsenal í seinni hálfleik og 2-1.
Næstu tíu mínútur voru taflmennska en uppúr því tóku okkar menn völdin. Menn sem engu skiluðu í fyrri hálfleik, Voronin og Babel vöknuðu og smám saman færðist meiri þungi í okkar leik. Babel átti gott skot á 65.mínútu uppúr aukaspyrnu en lagðist þá reyndar aftur til hvílu!
Tvær skiptingar er svo það næsta fréttnæma. Fyrst fór N’Gog útaf fyrir Benayoun (74.mín) og síðan Plessis út fyrir Aquilani. Mér þótti skipt fullseint og vildi fá annan útaf en N’Gog, eina sem mér dettur í hug er að Rafa sé enn að búa til sjálfstraust fyrir Babel og Voronin. Nokkuð sem ég skil en er ekki sammála. Þó má Voronin eiga það að hann var beittur í lok leiksins.
Á 79.mínútu kom svo besta færi leiksins. Voronin og Kuyt unnu vel saman og Dirk átti frábæra sendingu á Babel sem hitti boltann ekki FYRIR OPNU MARKI og reyndi ENN EINU SINNI að teygja sig í boltann með hægri í stað þess að stýra honum með vinstri. Ömurleg afgreiðsla og Ryan karlinn hlýtur að sofa lítið í nótt!
Aquilani stimplaði sig vel inní þennan leik og átt MAGNAÐA 50 metra sendingu á hlaupagikkinn Degen sem sendi hann á Voronin sem skaut af vítateig en Fabianski varði vel. Rafa ákvað svo að leyfa unglinum Nathan Ecclestone að spila síðustu sjö mínútur leiksins, tók Degen útaf. Þessi drengur hefur leikið feykivel með varaliðinu og er einn fyrir framtíðina.
Í lokin voru það svo dómararnir sem fengu fókusinn. Fyrst átti Voronin vel tímasett hlaup og var kominn í gegn þegar aðstoðardómarinn tók kolranga ákvörðun og flaggaði. Á 92.mínútu datt boltinn í teignum og Alberto Aquilani sýndi frábær tilþrif þegar hann klippti boltann í átt að marki þar sem Senderos nærri því greip boltann fyrir augum dómarans. Ekkert víti og þar með lauk leiknum. 2-1 tap og enn á ný kveðjum við þessa keppni í 16 liða úrslitum.
Heilt yfir var ég ekki neitt mjög ósáttur við leikinn. Á löngum köflum stjórnuðum við leiknum, vorum óhræddir að láta boltann ganga og pressan okkar var að virka fínt. Sóknartilburðirnir ágætir en slök nýting dauðafæra og einbeitingarleysi í fínum hálfsóknarsénsum okkur að falli þar.
Varnarleikurinn hjá liðinu átti hins vegar að vera betri og við vorum of ragir að stoppa skyndisóknir Arsenal.
Markmaðurinn Diego Cavalieri var óöruggur í þessum leik, reyndar alltaf erfitt að byrja leik á að fá á sig mark og hann var í vanda í úthlaupunum lengst af.
Hafsentaparið átti erfitt, kannski of líkir leikmenn, stórir og sterkir en ekki alltof grimmir í fótunum. Sérstaklega leist manni illa á Skrtel sem virðist heillum horfinn. Svei mér ef slakt form Carra á ekki bara rótina í slökum Skrtel! Bakverðirnir voru virkilega flottir sóknarlega en Degen átti erfitt varnarlega og flestar sóknir Arsenal fóru í gegnum hann.
Spearing átti uppreisn æru, duglegur og grimmur leikmaður sem ég er alls ekki tilbúinn að afskrifa. Plessis og hann eru hins vegar báðir varnarsinnaðir og Plessis náði ekki sömu tökum á leiknum og Jay litli.
Sóknarlínan þar fyrir framan olli manni mestum vonbrigðum. Kuyt var þó duglegur eins og alltaf og skilaði sínu. Voronin var skelfingin ein í fyrri hálfleik, með fýlusvip og skilaði engu. Hann vann sig þó inn í leikinn í seinni hálfleik og skilaði mestri hættunni okkar í lokin. Ryan Babel. Vonarstjarnan á sínum tíma er hreinlega að deyja. Ég hef reynt og reynt að bíða eftir að hann springi út en ef maður nýtir tækifærið sitt jafn illa og hann gerði í kvöld á ekki að verja mann. Spái því að reynt verði að vinna skiptidíl við Ajax í janúar þar á bæ. Ætla ekki að rífa hann niður, en þetta var einfaldlega óásættanlegt.
N´Gog hins vegar hefur átt betri daga, en er sprækur og ógnandi. Er viss um að hann verður stjarna á Anfield í framtíðinni og endurtek að ég var ósáttur við að sjá hann hverfa af velli. Ég aftur á móti held að hann geti jafnvel tekið því sem hrósi. Það er alls ekki víst að Torres spili um helgina og sennilega var verið að hvíla hann þess vegna. Engin önnur afsökun gildir!
Varamennirnir Benayoun og Ecclestone skiluðu litlu, Yossi náði ekki takti og Ecclestone var svakalega stressaður.
Alberto Aquilani. Vertu velkominn! Ætla ekki að stökkva af stað strax í lýsingarorðaflaum en þetta voru gríðarlega góðar 20 mínútur. Ekki bara sendingin ótrúlega og hjólhestaspyrnan. Hann fór strax í djöflaganginn, braut af sér, vann boltann og hljóp fram og til baka. Gott skref í endurkomuferlinu í kvöld og ég hlakka til þegar hann verður farinn að vinna með Masch/Lucas og Gerrard!
Maður leiksins. Fannst bakverðirnir okkar bestir, Degen fær mínus fyrir markið hans Bendtner og því vinnur Emiliano Insua kampavínsflöskuna frá Kop.is og mér í kvöld.
2-1 tap en ekki slæmur leikur. Næst er það Fulham á Craven Cottage kl. 15 á laugardaginn.
Myndir sem fylgja koma frá Daily Mail og Zimbio.com
Sælir félagar
Mér er andskotans sama um þennan leik. Eini ávinningurinn við að vinna hann er að láta varaliðsmenn fá leikæfingu í næstum alvöruleik. En enn og aftur sýnir Rafael Benitez óskiljanlega pólitík í innáskiptingum.
-í fyrsta lagi að skipta ekki fyrren á 76. mínútu
-í öðru lagi að taka N‘Gog útaf sem á að vera að því að manni sýnist fyrsta bakkupp furir Torres
– þriðja lagi að vera með Voronin inná allan leikinn, mann sem er fullkomlega sneyddur hæfileikum í fótbolta.
Þessi skiptingapólitík RB er stórhættuleg og ef hún hefur ekki þegar kostað okkur stig þá mun hún gera það að lokum. Maður getur orðið gjörsamlega brjálaður af að horfa uppá þetta helv…
Það er nú þannig.
YNWA
ágætis leikur, finnst við hefðum átt að fá meira út úr honum. En djöfull er Voronin vafasamur leikmaður. En áttum klárlega að fá víti þarna undir lokin þegar Sendiros ákveður að grípa boltann eftir fínan hjólhesta hjá Aquliani.
Mér fannst þessi leikur bara helv skemmtilegur á að horfa, mikill hraði og frábær mörk. Jafn leikur og sigurinn hefði alveg eins getað dottið okkar megin. Gaman að sjá Aquilani mæta fullur sjálfstrausts til leiks, held að hann eigi eftir að vera skæður. Svo áttum við klárlega að fá víti þegar boltinn gekk fram og til baka á milli handana á Senderos, en svona er lífið.
Þetta var alls ekkert slæmur leikur að okkar hálfu og þetta var nú einu sinni á heimavelli Arsenal. Babel er einfaldlega mjög lélegur, eða réttara sagt þá virðist hann bara áhugalaus. Voronin fannst mér nú skárri, maðurinn hefur klárlega gott auga fyrir spili en framherji er hann ekki.
Aquilini kom sterkur inn og lofar mjög góðu að mér finnst. En hvað var málið með lakkrísrörið þarna í vörninni, svakalega slappur drengur að mér fannst.
Mér fannst Voronin gera margt gott í leiknum en hann fór ekki að leggja sig fram að ráði fyrr en of seint. Svo er augljóst að hann vantar leikæfingu. Leikurinn var skemmtilegur áhorfs og Liverpool hefði alveg eins getað unnið. Færið sem Babel klúðraði var nákvæmlega eins og tvo faranna sem Keane klúðraði í fyrra! Af hverju notaði maðurinn ekki hinn fótinn??? Óskiljanlegt með öllu!!!
Djöfull líst mér vel á Aquilani. Alonso hvað segir maður bara. Leist mjög vel á hann í leiknum og er bjartsýnn fyrir framhaldið.
Hvernig í guðsbænum mátti Senderos grípa boltan og skrifa nafnið sítt á hann inni í teig án þess að fá á sig víti, get bara ekki skilið svona hálvitidóm.
enn einn tapleikurinn, þessir miðjumenn okkar, Spering og Plessis, eru ekki að gera sig, þeir ásamt hreiðilegum varnarleik er ástæða þessa taps. Óskiljanlegt að taka Ngog útaf, hann var eini maðurinn sem var að spila vel.
Kyriagos klárlega skárri en Skrtl í leiknum.. satt Babel átti að nota vinstri og reyndar Degen líka!
Ef það er einhver hérna inni sem kemur til með að segja að Babel, Voronin og Skrtel hafi átt góðan leik ætti að fá sér gleraugu. Ég vona að Agger meiðist ALDREI og að Skrtel spili ekki meira fyrir aðalliðið í ár. Þvílíkur sleði sem þessi maður er. Hvað er svo með þennan Voronin ?? Hann gerði nákvæmlega ekki neitt í þessum leik, var með slakar sendingar og þvílíkt lélegur. Spearing lélegur í fyrri hálfleik en skömminni skárri í þeim seinni. Degen með fína spretti en alltof alltof alltof lengi að gera hlutina og sendingin kemur alltof alltof alltof seint frá honum. Svo olli Babel mér miklum vonbrigðum í leiknum. Við létum guttana hjá Arsenal líta alltof vel út á köflum.
Aquilani lítur vel út og Insua skoraði flott mark, það er það eina jákvæða sem ég tek úr þessum leik. Og já Degen meiddist ekki (að mér vitandi allavega, skulum ekki útiloka neitt).
Ágætis leikur hjá okkar mönnum. Nokkrir punktar.
Ég nenni ekki að tjá mig um þennan leik. Þetta var gott, en þetta var líka slappt. Fínn leikur, en hegðun Voronin í fyrra marki Arsenal og seinagangurinn í Skrtel í seinna markinu fóru endalaust í taugarnar á mér. Sem og dauðafærið hjá Degen, tilraunir Voronin og Babel til að spila knattspyrnu, vítið sem Aquilani fékk ekki, o.sv.frv.
Degen og Insúa klárlega menn leiksins. Hlupu sig máttlausa í þessum leik og voru bæði okkar bestu varnarmenn og hættulegustu sóknarmenn. Plessis, Kuyt og Ngog fá einnig plús fyrir frammistöðuna, sem og Aquilani fyrir langþráða innkomu. Segjum að Spearing, Kyrgiakos og Cavalieri sleppi á sléttu. Babel og Voronin voru hins vegar í ruglinu, okkar langverstu menn í kvöld. Ef ætlunin hjá þeim var að minna Rafa á að þeir eru miklu betri en Ngog mistókst það allsvakalega.
Ég spái því að við drögumst gegn Chelsea í þessari umferð sömu keppni á næsta ári. Leikurinn verður að sjálfsögðu á útivelli. Á meðan mun Man Utd spila æfingaleik við neðrideildarlið. Það er aðeins ein keppni sem ég hata orðið að fylgjast með Liverpool spila og það er helvítis Deildarbikarinn. Ég verð orðinn langafi áður en við fáum heimaleik í þessari helvítis keppni.
Degen var hress á kantinum, en hefur Plessis ekkert skánað fótboltalega séð á þessu1 1/2 ári.. hann var í byrjunarliðinu í síðasta leiknum tímabilið 07/08 og maðurinn hefur ekki tekið neinum framförum, ath finnst mér…
Plessis fannst mér nú stórrum skárri en Spearing sem hefur aldrei hrifið mig. Allt of takmarkaður leikmaður og miðjuspilið virkar ekki vel þegar hann er með. Það má vel vera að hann sé efnilegur og ég sjái það einfaldlega ekki:-) Ég hef alltaf haft trú á Plessis sem spilar aftar á vellinum en hann þarf mun sterkari spilara með sér en Spearing.
http://www.soccerbase.com/results3.sd?gameid=562551
Það er svona langt síðan við fengum heimaleik Kristján
Er ekki vitund spældur yfir þessum úrslitum, og reyndar mjg ánægður með hversu mikið varalið þetta var. Eitt er þó orðið endanlega ljóst, Babel er verstu kaup Rafa síðan hann kom til Englands og myndi ég nota Voronin frekar ef aðeins þeir tveir væru til taks. Degen leit vel út, Ngog mjög líflegur og Aquilani lofar góðu. Semsagt nokkrir þokkalega ljósir punktar.
Þá er fyrsti titillinn runninn okkur úr greipum.
Næst gerir Lyon vonir okkar í Meistaradeildinni að engu.
Fljótlega í nóvember förum við aftur á vont run og missum af lestinni í deildinni.
Frábært! Eigum möguleika á einum bikar í ár.
Áfram Benitez.
Ágætis leikur hjá okkar mönnum margt jákvætt eins og spearing sem átti fínann leik og degen kom mér á óvart og aquilini á eftir að gera góða hluti en svo aftur á móti þá er babel skrtl voronin og plessis ekki að gera góða hluti. Skrtl verulega tæpur allan leikinn og syndi verulega dapran varnarleik í sigurmarki arsenik,plessis alltof hægur og lítið að gerast í kringum hann,babel bara virðist ekki finna neinn takt í þessum leikjum sem hann fær sénsinn í virkar áhugalaus,voronin er bara ekki í þeim klassa sem við gerum kröfu til hjá liði eins og Liverpool.Svo finnst mér þessi stefna hjá Rafa að skipta aldrei fyrr en á loka andatökum leikja alveg ótrúleg.
Mér fannst enginn vera að spila illa nema Babel og Voronin. En þeir sýndu ágætis spretti á köflum og áttu mörg góð tækifæri
Það er hætt að vera fyndið hvað Babel er mikil vonbrigði. Seljum hann til Real eða eitthvað.
skrtel er greinilega ekki með sjálfstraustið í lagi þessa daganna kall greyið 🙁 .. babel er nánast farinn í lán eitthvað annað hausinn á honum er allavega ekki hjá liverpool svo mikið er víst !!! voronin flottur í þýska boltanum þar sem hann getur dúllað sér með boltann og sent hann frá sér , en ekki klár í ensku carling cup og hvað þá úrvalsdeildina !!! .. menn hafa svo sínar skoðanir á því hvort að það sé rafa sem er búinn að eyðileggja þessa 2 leikmenn , sem að mér finnst ekki það vantar bara hjarta í þessa menn algjörlega !!! flott mark hjá insua 🙂 ágætis sprettir hjá slysó (degen) . grikkinn gerði svosem ekkert af sér en hefði samt alveg getað verið utanvallar man ekki mikið eftir því að hafa séð hann í kvöld .. plessis og spearing eru nottlega bara stráklingar óþarfi að fara meira útí það .. ngog var ég að vona að yrði sprækur í kvöld en það gerðist voðalega lítið hjá honum en er samt að hækka soldið í áliti hjá mér .. ég sá því miður ekki síðustu 15 mín af leiknum þannig að ég fékk ekki að sjá aquaman 🙁 eiginlega eina ástæðan fyrir því að ég ætlaði að horfa á þennan blessaða leik hehe … en svona í lokin þá held ég að þessi keppni sé bara algjört aukaatriði og ekkert sem við getum dæmt liðið útfrá nema kannski fýlupúkana voronin og babel og svo nottlega skrtel ….
…. og bjartsýnisverðlaun ársins fær ……
….. KRISTA!
Mér fannst liðið spila vel á köflum. Ég er aftur sammála mönnum með það að Ryan Babel og Andry Voronin voru svo slakir að hálfa væri nóg. Mér finnst það sérstaklega sorglegt með Babel því að hann á að geta betur og hefur margsýnt það í leikjum mun stærri en þennan. Insua góður, Degen fínn, gaman að sjá Aquaman en restin var annaðhvort frekar daprir eða á pari !
´Gæti ekki verið meira sama um leikinn, í sannleika sagt. Stóru fréttirnar eru þær að Aquilani er alvöru maður. Maður sá smá sýnishorn í varaliðsleiknum af sendingargetunni og maður sá enn meira í þessum leik. Kemur með hluti inn í aðalliðið sem vantar sárlega, eins og Einar minntist á – langar þversendingar sem enda á samherja en ekki uppí stúku.
Svo virðist hann hafa kjark og er hugmyndaríkur, það ásamt knattspyrnuhæfileikum, sem hann virðist eiga nóg af, er oft góð blanda.
Hlakka til að sjá meira frá Liverpool #4.
Mér finnst margt jákvætt í þessum leik og það eru merki að LFC sé að rífa sig upp. Það er ekkert verra en að tapa eins og móti Sunderland og vita það að menn lögðu sig ekki nógu vel fram og áttu skilið að tapa. Þannig var það ekki í þessum leik. Við vorum síst lakari aðilinn og áttum klárlega að fá víti undir lok leiksins en dómarinn hafði ekki hugrekki í að dæma það. Nú er bara að vona að Aquilani komi sterkur inn og Liverpool fer á flug. Síðan missa Chelsky og Arsenal marga leikmenn í Afríkukeppnina eftir áramót og Man.Utd missir Owen og fleiri í meiðsli. Liverpool tekur fyrsta sæti í febrúar byrjun 🙂
Voronin og Babel glataðir. Degen og Skrtel voru líka slappir.
Finnst ekkert skrítið að tapa leik þegar við byrjum bara með 9 fótboltamenn inn á vellinum.
Hver er lakkrísrörið í vörninni?
Til að byrja með. Mér er nokk sama um þennan deildarbikar, en …
Djöfull er ég ósammála flestu sem hefur komið hérna fram, sérstaklega pistlinum. Mér fannst við spila ansi illa, sérstaklega ef marka má að við vorum með þokkalega sterkt lið, fyrir utan miðjumennina tvo. Okkur gekk illa á köflum að koma boltanum fram völlinn án þess að þruma boltanum fram úr vörninni. Enginn af okkar leikmönnum okkar öðlaðist nokkurt auka sjálfstraust eftir þennan leik sem hinsvegar má segja um ýmsa leikmenn Arsenal.
Mér finnst skrýtið að stilla Kuyt upp í byrjunarliðinu í þessum leik. Hann er að byrja inn á í öllum leikjum með Liverpool. Einnig byrjar hann flesta ef ekki alla með Hollandi. Finnst það pínu spes, en hann meiðist aldrei og virðist sjaldan vera þreyttur.
Mér fannst Degen ömurlegur varnarlega. Greinilegt að hann heldur að hann sé kantmaður. Á köflum var ekki að sjá hann á mynd þegar Arsenal var í sókn því hann var að rölta til baka í vörnina. Þetta er fucking varnarmaður sem ekki getur varist til að bjarga lífi sínu, hvað þá marki. Kannski er maður ósanngjarn því ég vissi vel að hann er sókndjarfur sprækur flynkur bakvörður. Hann átti nokkrar ágætis spretti, en stundum þegar hann tók sprettina þá var hann ekki að sjá í vörn því hann joggaði eða rölti til baka.
Jay Spearing og Plessis gerðu ekkert merkilegt, áttu lélegar skottilraunir og sköpuðu ekkert. Sé ekki fyrir mér að Plessis verði mikið lengur hjá Liverpool.
Ryan Babel greyjið virtist aldrei líklegur til þess að skora mark. Gerði sjaldnast það rétta í stöðina, en gerði þó vel að vinna skallaeinvígið sem skapaði mark Ínsúa. Ég var að vonast til þess að Babel, Kuyt og Voronin gætu borið upp sóknarleik liðsins.
Aquilani kom inn á og sýndi að hann er góður leikmaður. Mér fannst leiðinlegt hvað hann spilaði aftarlega, sérstaklega til að byrja með, en hann fékk mjög stuttan tíma. Hann skapaði meira á 20 mínútum en Plessis og Spearing gerðu á öllu tímabilinu. Var óheppinn að fiska ekki víti þegar hann hjólhestaði boltanum í útrétta hönd Senderos. Hefði samt verið nokkuð strangur dómur.
Ansi finnst mér dapurt þegar Voronin er orðinn mest skapandi leikmaður liðsins.
Jóhannes (#28) ég hugsa að Plessis verði nokkurn tíma áfram hjá Liverpool því að fyrr í dag skrifaði hann undir framlengingu á samningnum sínum svo ég reikna fastlega með að hann sé ekki á förum á allra næstu misserum.
Ég er algjörlega sammála hverju orði hjá Einari Erni #12. Annars var þessi leikur ágætis skemmtun þrátt fyrir tapið og hefði alveg getað dottið okkar megin. Mér sýnist að Babel sé á leiðinni frá Liverpool og það strax í janúar, hann er bara einfaldlega ekki að virka.
Einhverjir að gagnrýna Plessis, mér fannst hann nú töluvert betri en Spearing. Degen átti fínan leik.
Ég botnaði hvorki upp né niður í þessum skiptingum hjá meistara Benítez. Skiptingarnar komu of seint og Babel og Voronin gvuð minn almáttugur hvað þeir voru lélegir.
Svo var auðvitað alveg ótrúlegt að það hafi ekki verið dæmt víti á Senderos.
Voronin var býsna góður (fyrir utan stoðsendingua á Merida) og Ngog var uppfullur af sjálfstrausti og það sást, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hælsendingin hans á Degen var unaður og virkilega slappt hjá Degen að ná ekki amk skoti á rammann.
Kuyt var pínu týndur í dag, því miður.
Babel var enn og aftur gjörsamlega useless og það súmmeraði sig upp í deddaranum sem hann kiksaði… Shape up or ship out.
Það vantaði smá “authority” á miðjuna og ég er hræddur um að Spearing og Plessis fá ekki léttari miðjur en þetta á móti sér með aðalliði Liverpool. Djöfull fer í taugarnar á mér hvað Spearing hreyfir sig aldrei eftir að hafa sent boltann. Hann er líka ótrúlega oft ca. meter frá þeim stað sem hann á að vera á, og það kemur honum og liðinu oft í vandræði. En hann er ungur enn.
Skrtel var býsna lélegur, en honum til varnar þurfti hann virkilega oft að covera fyrir Degen, sem var algjörlega lost varnarlega í þessum leik.
Annars alltílagi dagur, dómarnir duttu ekki okkar megin í dag en það er í fínu lagi, þá dettur vonandi einhver deildarleikurinn með okkur á næstunni. Eigum fullt af heppni inni.
Gaman að sjá Aquilani loksins, hann virkaði sprækur. Ég ætla samt ekki að fara að mæra Alonso á hans kostnað eins og sumir hérna (Lolli). Þetta voru bara 15 mínútur á móti varaliði Arsenal. Sjáum hvernig hann verður gegn sterkari andstæðingum. En þessi innkoma hans lofaði vissulega góðu.
Einar Örn:
Sammála þessu, ótrúlegt hvað svona lítill hlutur sem hafði ekki einu sinni áhrif á leikinn getur glatt mann mikið og gert mann enn spenntari fyrir endurkomu Aquilani
Það er endalaust gaman að Aquilani sé að komast í leikform. Hins vegar er ég alveg við það að missa trúna á Babel, hef gefið honum marga sénsa en honum virðist alveg fyrirmunað að spila fótbolta í Liverpool treyju. Benitez er kannski ekki búinn að gefa honum mikið af sénsum en hann er engan veginn að nýta þessa fáu sem hann fær.
Hvað segið þið, verður hann ekki látinn fara í Janúar? Ég er hálfpartinn farinn að vona það þó ég sé náttúrulega 100% viss um að hann muni blómstra hjá því liði sem svo kaupir hann 🙂
Skemmtilegur leikur,en samt sér maður greinilega að varaliðsmennirnir eru í varaliðinu for a reson. Dagen er enginn varnarmaður og þess vegna leit Skertl svona illa þegar Arsenal sótti hægra megin.
Nú skil ég betur hvers vegna Lucas á fast sæti í aðalliðinu,hvílikt og annað eins að horfa upp á þá Spaering og Pllessing (eða hvað hann nú heitir) þarna á miðjunni . Þeir eiga ekki að mínu mati langa framtið fyrir sér hjá LFC.
Babel heillum horfinn og Voronin er greinilega ekki í leikæfingu,en mér fannst hann ekki lélegur. Ngog er maður sem mér finnst meira og meira vera að sanna sig og Aculani lofar sannarlega góðu.
Númer 28 Hvað þarf til að dæma víti ef ekki eins og í lokin þegar Senderos greip boltann? Skil ekki alveg hvernig þú færð út að þetta hefði verið strangur dómur.
Jæja svona fór þetta þá í enn eitt skiptið á móti Arsenal, en ég verð að segja að ég átti nú einhvern veginn von á því að Liverpool myndu nú taka þetta enda fannst mér við eiga hættulegri færi í leiknum en einfaldlega voru menn að misnota nokkur dauðafæri.
Insua besti maður leiksins og Babel sá versti. Ég held að ég voni bara að þetta hafi verið seinasti leikur Babel fyrir Liverpool þó að það sé ekki kominn nóv, drengurinn er ömurlegur í alla staði og vægast sagt hlægilegur fótboltamaður sem virðist eiga ENGA framtíð hjá okkur.
Mér fannst að N’Gog hafi átt að klára þennan leik enda okkar næst besti sóknarmaður. Og rosalega leist mér vel á Aquilani þó að hann hafi bara fengið um 20 mín í þessum leik en það sást greinilega að þar er á ferðinni klassaleikmaður sem veit hvað hann á að gera á vellinum.
Sammála mönnum hér með Babel, ég hef nú varið hann með kjafti og klóm – en þolinmæðin er að renna út. Þú einfaldlega getur ekki verið að heimta sæti í byrjunarliðinu og spila svona trekk í trekk þegar þú færð sénsinn.
Annað mjög líkt dæmi er Benayoun í fyrra, hann var ósáttur við bekkjarsetuna í byrjun leiktíðar – en nýtti heldur betur þau tækifæri sem hann fékk. Hann steig upp og er lykilmaður í okkar liði í dag. Benayoun hafði ekki einu sinni þann stuðning eða traust sem Babel hefur meðal stuðningsmanna. Það er einfaldlega make-or-break tímabil hjá Babel, í augnablikinu er make bara fjarlægur draumur…. því miður, því potentialið er til staðar.
Annars gladdi það mig mjög, eins og aðra hérna, að sjá ítalann loksins sprikla, verður sterkt að vera kominn með hann í fullt-swing fyrir jól.
Aquilani fær boltan á miðsvæðinu sendir á Glen Johnson sem sendir fyrir á Torres mark!!!! eigum eftir að sjá þetta oft í vetur;)
Óli Haukur #29. Ég hef þá misst af því. Finnst það hreint út sagt með ólíkindum ef satt er. Mér finnst gæjinn örfætta útgáfan af Salif Diao.
það má nú alveg lána Plessis í ensku fyrstu deildina í nokkra mánuði og láta aðeins sparka smá kjark í strákinn. Allir 50/50 boltar sem hann var í fór hann í eins og versta kelling, Babel var reyndar líka þannig og Voronin líka. En samt var þetta ekkert rosalega slakur leikur hjá okkar mönnum. Ég er samt sammála því að það var algjör vitleysa hjá Rafa að skipta ekki inn á fyrr en svona seint. Hann hefði mátt henda yossi þarna inn á þegar við vorum byrjaðir að opna vörnina hjá þeim í seinni hálfleik. Aquilani leit ágætlega út, en nátturulega er ekki hægt að dæma manninn á svona stuttum tíma. En það sést alveg að Það þarf að selja Voronin og Babel, þeir eru bara alls ekki Liverpool leikmenn. Það sést svo vel á leiknum þeirra. Ekkert “passion” í leik þeirra og engin vilji til að vinna fyrir liðsfélaga sína.
Miðað við fréttir dagsins virðist stefna í að Torres og Gerrard séu í tæpum málum á móti Fulham.
http://www.lfconline.com/news/loadnews.asp?cid=TMNW&id=470145
Miðað við að svo er næst leikur gegn Lyon sem skiptir töluverðu máli spái ég því að N’Gog byrji og það hafi verið ástæða þess að hann fór útaf í gær.
Er sammála #41 að nú á að lána Plessis, og jafnvel Spearing. Þeir eru ekki alveg tilbúnir í toppdeildina og þar sem við féllum úr Carling Cup í gær fá þeir ekki margar mínútur það sem eftir lifir vetrar.
Bráðskemmtilegur leikur í gær.
Þrátt fyrir tap okkar manna verð ég að taka ofan fyrir 12 ára strákunum í Arsenal. Þeir kunna að spila fótbolta.
Insua var að mínu mati besti leikmaður okkar í gær.
Eitt verð ég þó að koma á framfæri. Mikið ósköp hlakka ég til að sjá Aquilani (staf) í næstkomandi leikjum. Það er þó eitt sem máske sýnir svo um munar að hér eru eldheitir (og bjartsýnustu) aðdáendur Liverpool að ræða saman. Strax er byrjað að hrósa Aquilani fyrir leikinn í gær. Hann á eftir að verða stórkostlegur ef allt fer vel á komandi vikum. En hann átti eina frábæra sendingu í gær. Önnur álíka fór í markspyrnu. Hann var rólegur, ekki að furða, fyrsti alvöru leikurinn í treyjunni góðu.
Frábær leikmaður sem ég hlakka mikið til að sjá meira af. En það sem mér finnst best er að við dásemu þessa einu sendinguna og baráttuþrek hans sem var að mínu mati lítið sem ekkert. Ég er hræddur um að þegar hann á eftir að skora og leggja upp ófá mörk fyrir liðsfélaga sína í komandi leikjum, eiga ófáir spjallverjar hér hreinlega fá hjartaáfall miðað við hrósið sem hann fær fyrir örfáar mínutur:)
Helgi Þ (#43) segir:
Enn og aftur, þá er þetta það sem ég þoli ekki. Við vorum ekkert að horfa á neitt krakkalið hjá Arsenal í gær. Það var ekki neinn merkjanlegur munur á reynslu liðanna í gær, utan kannski þess að Jack Wilshere er aðeins sautján ára. Ég skal (enn og aftur) útskýra þetta fyrir ykkur:
Hér er Arsenal-liðið frá því í gær:
Jack Wilshere – 17 ára (f. 1992)Aaron Ramsey – 19 ára (f. 1990)Samtals 248 ár / 11 leikmenn = meðalaldur 22.55 ár.
Hér er svo Liverpool-liðið frá því í gær:
Samtals 272 ár / 11 leikmenn = meðalaldur 24.73 ár.
Arsenal-menn stilla upp þremur leikmönnum undir tvítugu, einum tvítugum og sjö eldri leikmönnum. Liverpool-menn stilla upp tveimur tvítugum og níu eldri leikmönnum. Munurinn á liðunum er sá að Merida og Eastmond eru á nítjánda ári en Ngog og Insúa á því tuttugasta. Munar ári þar. Eini leikmaðurinn sem er því eitthvað merkjanlega yngri og óreyndari hjá Arsenal en þeir sem við vorum að nota er Jack Wilshere, sem er eitt af fáum undrabörnum enska boltans í dag og var byrjaður að spila með aðalliðinu fyrir ári síðan, sextán ára gamall. Hann kallast því varla nýliði þótt kornungur sé.
Það er einfaldlega ekki stórkostlegur munur á rúmum 22 árum og rúmum 24 árum. Bæði lið notuðu unga og efnilega stráka, bæði lið notuðu eldri varaskeifur og bæði lið notuðu aðalliðsmenn sem eru að koma inn úr meiðslum (Nasri, Aquilani). Samt er látið eins og smástrákar Arsenal hafi unnið atvinnumenn Liverpool.
Þetta fer ómennskt í taugarnar á mér. Það er einfaldlega leti af fréttamönnum og öðrum að halda því fram að Arsenal sé að spila með óreynt unglingalið, hvort sem það er þetta lið í Deildarbikarnum eða aðalliðið í deildinni, þegar tölfræðin segir klárlega annað.
vel gert kristján atli! ég nennti einfaldlega ekki að taka saman tölfræðina til að sýna fram á þetta:) óþolandi umræða að arsenal hafi stillt upp kjúklingum á móti ellismellum og reynsluboltum.
smá leiðrétting Kristján Atli, Wilshire var ekki með heldur Aaron Ramsey sem er 18 eða 19 ára 😉
getum við fengið að sá töfluna með Ramsey ekki Wilshire þreyttur á að hlusta á asenal með ungana sína
Svo sem ekki erfitt að ruglast á þeim, frekar líkir. Ég uppfærði töfluna. Ramsey er á nítjánda ári og því bættust tvö ár við heildina hjá Arsenal. Meðaltalið fór úr 22.36 árum í 22.55 ár. Og fyrir vikið eru engir mikið yngri leikmenn hjá þeim – þrír á nítjánda aldursári, tveir á tuttugasta aldursári hjá okkur.
Aðalmálið er samt það að eins og listinn yfir aldur byrjunarliðs Arsenal í gær sýnir glöggt voru þetta langt því frá krakkar eða unglingar. Þetta er leikreynt lið, jafnvel ungu strákarnir eins og Gibbs, Gilbert, Wilshere og Bendtner hafa verið að spila jafnvel stóra leiki með aðalliðinu og eru langt því frá nýliðar. Leikmaður eins og Fran Merida er ekki alveg kominn í aðalliðið hjá þeim en hefur leikið í deildarbikarnum og slíku áður (kannski svipað og Plessis/Spearing hjá okkur). Sá eini sem ég held ég hafi verið að horfa á í fyrsta skiptið hjá þeim í gær var sennilega Craig Eastmond. Á móti efast ég um að margir Arsenal-aðdáendur hafi verið búnir að sjá Spearing, Plessis eða jafnvel Ngog spila marga leiki fyrir okkur.
Það skal tekið fram að við gerð listans fór ég eftir fæðingarári leikmanna miðað við árið 2009. Var ekkert að velta mér upp úr því hvort menn eru búnir að eiga afmæli eða ekki (voru 2-3 í hvoru liði sem hafa ekki enn átt afmæli).
Er “Krista” stutt fyrir “Kristalskúla” ?
Svakaleg spádómsgáfa alveg.
Sælir félagar
Ég er sammála mönnum að það sem sást til Aquilani var ánægjulegt þó svo að ekki sé hægt að dæma drenginn út frá því. Bullið í Arnari um unglingana í Ars var íbesta falli þreytandi og í versta falli sýndi það að hann hafði ekki unnið heimavinnuna sína. Það er ömurlegt að hlusta á svona kjaftæði sinn eftir sinn og er enginn fréttamaður öðrum betri. Til dæmis Höddi Magg sem er þó púllari tekur þátt í þessum söng.
Það er nú þannig
YNWA
Svakalega ánægður með Kristján Atla og hans samantekt. Nennti ekki heldur í hana en gleðst yfir henni óumræðilega.
Er að safna saman í pistil hér um fjórða valdið, fjölmiðlana, sem eru kjánalegir á kostum og ekki síst í bulli eins og í gær.
Ákvað í hálfleik í gær að hætta að horfa á Stöð 2 og fór á netið og fann enskan þul.
Maður ætti að eiga upptökur og bera þær saman!!! Sá breski var vissulega ánægður með Merida og bakverði Arsenal en hrósaði N’Gog í hástert og taldi Insua besta mann vallarins, sagði t.d. “the future looks bright for both these clubs”. Hann hrósaði báðum liðum fyrir spilamennskuna og taldi ósanngjarnt að ekki fór í framlengingu.
Þessi séríslenska ást á unglingaliði (sem er ekki lengur málið) hans Wenger fer SVAKALEGA í taugarnar á mér og mér finnst heimildavinna íslenskra lýsenda yfirleitt fyrir neðan allar hellur og tilvitnanir þeirra í umræðu of oft uppúr Sun, NOTW og Daily Star.
Æsifréttablaðamennska með upphrópunum. Meira síðar….
Best að fara aðeins yfir þennan leik, var hreinlega mun ósáttari við að detta út en ég bjóst nokkru sinni við.
Neikvætt:
Voronin – Ég vil hann burtu frá félaginu og það sem fyrst. Hann er engan veginn með hjartað í þessu og hefur bara akkúrat engan áhuga á því sem verið er að gera. Sendingin hans í fyrra markinu bar þess vitnis og svo reyndi hann að skamma samherjana í framhaldinu.
Babel – Ó mæ, ó mæ. Held að von mín um að hann stígi upp sé hreinlega að hverfa endanlega. Skelfilegt að sjá allan þennan potential og hafa hvorki hjarta né haus í hlutina.
Kyrgiakos – Þeir sem voru að kalla á að þessi gaur ætti að koma inn í liðið fyrir Carra, þeir ættu að hugsa málið aftur. Ég varð hoppandi illur þegar hann hörfaði í eitt skipti í stað þess að setja fótinn inn. Sama gerðist svo í seinna markinu, maðurinn bakkar í stað þess að ráðast á boltann og fyrir vikið kemst Danska Dýfan einn á móti Skrtel.
Skrtel – Hvar ertu Skrtel? Please come back.
Spearing – Mér fannst hann hreinlega skelfilega slakur og það er bara akkúrat ekki neitt sem ég sé í þessum strák sem gefur til kynna að hann eigi eftir að verða PL leikmaður. Algjör meðalmaður sem er ekki góður í neinu. Í gær voru staðsetningar vondar, slök skot, rangar ákvarðanir trekk í trekk og svo oft á tíðum slakar sendingar. Nei, ég vil frekar sjá yngri hæfileikastráka úr varaliðinu fá sénsinn og senda Jay út á láni eða hreinlega selja hann ef hægt er að fá einhvern pening inn. The new John Welsh.
Rafa Benítez – Var svekktur að sjá hann þvæla Dirk út í þessum leik og svo bara þoli ég ekki hversu seint hann skiptir í þessum leikjum okkar. Hefði viljað sjá bæði Amoo og Eccleston fá sénsinn og það um miðjan seinni hálfleik.
Jákvætt:
Aquilani – Unaðsleg innkoma Aquilani, maður sá hreinlega hæfileika hans geisla af honum, þ.e.a.s. potential-ið. Greinilega kominn góðu sendingamaður og nú er bara að vonast að hann aðlagist fljótt og geti farið að setja mark sitt á liðið.
Insúa – Alveg skínandi leikur hjá tappanum. Það er orðið erfitt að gera upp á milli hans og Aurelio í bakvörðinn og svo er það orðið algjörlega ljóst að með tilkomu Argentínumannsins unga, þá eru dagar Dossena hjá félaginu endanlega taldir.
Degen – Hefur ekki spilað AFAR lengi að einhverju ráði og mér fannst hann sprækur, með gott auga fyrir spili og skemmtilega sóknarsinnaður. Það kom reyndar niður á varnarvinnunni, en ég gef honum benefit of the doubt varðandi það og held að hann geti alveg varist sé honum skipað að spila aftar.
Ngog – Strákurinn er farinn að virka bara assgoti vel á mig og vinnur á með hverjum leiknum sem hann spilar.
Pirringurinn:
Bendtner – Varð í gær Danmerkur meistari í dýfingum af 5 metra palli. Hann tók einn næstumþví Viera á þetta og dýfði sér án þess að nokkur maður hafi komið nálægt honum. Þoldi illa þennan álkulega Dana fyrir, en ekki var hann að vaxa í því í gær. Bestur með buxurnar á hælunum í gulu Pressunni eftir djamm í London.
Dómararnir: Rangstæðan sem dæmd var á Voronin var svo hrikalega slæm þar sem gaurinn var ekki einu sinni nálægt því að vera rangstæður. Ákaflega dapur dómur. Svo vítið á Senderos 🙂 Einhver hér að ofan sagði að það hefði orðið strangur dómur, wtf? Ekki eins og hann hafi verið með hendurnar þétt upp við líkamann, eða á eðlilegum stað 🙂
En ég var ánægður með leikinn per se og fannst við betra liðið í leiknum og strákarnir óheppnir að falla út úr þessum bikar, en svona er boltinn, það þýðir ekkert að gráta hann Bjössa bónda, heldur bara redda sér meiri kvóta og byrja bara að mjólka. Mjólkum bara Fulham um helgina og þá er ég sáttur í bili.
Sammála Maggi, og flottur KAR. Alveg ótrúlegt með þetta fjölmiðladæmi hérna heima, sér í lagi þegar kemur að Arsenal og ungdómi. Þvílík MÝTA.
Því miður er Arnar Björns agljörlega búinn að tapa því sem hann hafði, hann var hér í eina tíð einn allra besti lýsarinn í boltanum, en hann hefur svo sannarlega gjörsamlega tapað þeim hæfileika og tapað honum það illa að ég get hreinlega ekki með nokkru móti hlustað á hann lýsa leikjum. Hvað er til dæmis málið hjá manninum í leik á milli Man.Utd og Man.City að vera að kalla til okkar stuðningsmanna Liverpool FC? Hann og Gaupi gera það hreinlega að verkum að maður reynir allt, og þá meina ég ALLT til þess að sjá leikina með enskum þulum (og þetta snýst ekki um að finnast allt útlenskt svo flott). Mér finnst stórfínt að hlusta á lýsingar hjá Hödda Magg, Gumma Ben og Kidda K, stórfínt alveg. Hinir 2? Aldrei meir.
Ætlaði nú að fara að segja hvað ég væri sammála Ssteini. Ég sagði að það hefði verið strangt að dæma víti á það og stend alveg við það. Þetta er týpiskt dæmi með bolta í hönd eða hönd í bolta. Að mínu mati er þetta bolti í hönd. Senderos fær fast skot af stuttu færi í hendurnar. Þetta er engin ásetningur hjá varnarmanninum. Það er ansi strangt að dæma víti á það. Einhvers staðar verða hendurnar að vera. Það er ekkert hægt að ætlast til þess að allir leikmenn séu með hendurnar niður við síðurnar allan leikinn. Það bara gengur ekki upp.
Gummi Ben er besti þulurinn. Maður heyrir bara að hann er á tánum, sér ýmsa hluti á vellinum og er mjög vel að sér. Svo hjálpar líka til að hann er ekkert að öskra yfir sig þó svo að annað liðið komist yfir miðju.
SStein..ég er svo sammála þér varðandi Arnar Björns og slappleika hans og gæði Gumma og Kidda K. En Hörður Magnússon á ekki að fá að lýsa leikjum hjá Liverpool og Man U. hlutdrægni hans er svo mikil að það er varla hlustandi á manninn og hann notar hvert einasta tækifæri til þess að koma Liverpool að í útsendingunni. Til dæmis þurfti Höddi að koma uppruna leikmansins sem Gary Neville braut ía í leiknum gegn Barnsley, en sá var fæddur og uppalinn í Liverpool. Sama finnst mér eiga við um Hans Steinar í íþróttafréttum og hans álit á Liverpool (sem eru öllum kunn sem fylgjast með boltanum) hann sagði í íþróttafréttum að markið sem Leeds skoraði gegn Liverpool hefði verið fullkomlega löglegt og skildi ekki af hverju það var dæmt af, markið var réttilega dæmt af því einhver kvartviti í Leeds ákvað að koma boltanum endanlega yfir línuna þegar hann var þegar á leið í markið.
Og ég ætla ekki að byrja á Henry Birgi…….
Ég tek öllum fréttum sem þessir menn skrifa um Liverpool og Man U og leita að öðrum og öruggari miðlum til að lesa mig um liðin. Internetið hefur gefið manni frjálsar hendur og og sjálfstæðari skoðanir, því ekki lengur þarf maður að hlusta á misgáfaða íþróttafréttamenn hjá bylgjunni (vísi) og stöð 2 og halda að það sé allt satt sem þar fer fram.
Jóhannes.
Kíktu á þetta hér: http://spjall.liverpool.is/fb.ashx?m=625093
Ef þetta er ekki víti þegar Senderos setur hendurnar fyrir boltann augljóslega í þeim tilgangi að stoppa för boltans þá væri ég til í að vita hvað þú telur vera víti og hvað ekki.
Höddi hefur ekki lýst Liverpool leik síðan 2005, eða í heil 4 ár, þannig að varla telst það með 🙂
Já mér datt það svosem í hug því það er langt síðan ég hef hlustað á hann, en ég hlusta oft á hann í leikjum Man U, og ég fæ oft kjánahroll við að hlusta á hann….
Ég þakka guði fyrir það að Gummi Ben er ekki Liverpool maður:)
Gott að fá að sjá þetta svona. Ég hef aldrei sagt hérna að þetta sé ekki víti. Þetta gat nú alveg verið víti. En það væri strangt, og ég sagði það. Sjáið hvað þetta er stutt færi, þetta er bara 1 meter. Senderos hefði aldrei haft færi á að taka hendurnar í burtu. Það er bara þrumað í hendurnar á honum. Þetta er ekki ásetningur. Hann er ekkert að færa hendina þangað til þess að stöðva för boltans, það er bara bull. Hafiði þið aldrei spilað fótbolta áður. Eruð þið alltaf alveg meðvitaðir um hendurnar ykkar þegar þið reynið að blokka skot?
Sjáið alla leikmennina sem sjást þarna á mynd. Hver og einasti er með hendurnar ekki með síðunum. Það hreyfir sig engin með hendurnar fastar niður með síðunum vegna þess að hendurnar tengjast líkamsstjórn og jafnvægi okkar.
En ef þetta hefði verið dæmt víti hefði Arsenal lítið sem ekkert getað sagt. Hendurnar eru útréttar á Senderos og boltinn er klárlega á leiðinni að markinu þar sem boltinn er kominn framhjá líkama hans.
Jóhannes, það þarf ekki endilega að vera ásetningur til að dæma víti. Þótt þetta hafi gerst snöggt og hann hafi ekki getað fært hendurnar frá breytir það ekki þeirri staðreynd að hann er með báðar hendurnar úti í 90° vinkil frá líkamanum og fær boltann í þær báðar. Hann nánast grípur boltann með höndunum, ekki einungis breytir stefnu hans heldur stöðvar skotið alveg nánast eins og hann sé markvörður.
Það er víti. Hvort sem Senderos ætlaði sér það eða ekki. Punktur.
Varðandi þulina þá var ég nú ekki að bauna á þá beint þegar ég rifjaði upp tölfræðina hér að ofan. Vissulega, úr því að menn nefna það, fór það í taugarnar á mér að hlusta á Arnar Björnsson mæra ungliða Arsenal-liðsins í gær eins og þeir væru helmingi yngri en andstæðingarnir en Arnar er í raun bara að apa upp (eins og flestir aðrir) það sem breskir fjölmiðlar (og þá sérstaklega Lundúnablöðin) hafa verið gífurlega dugleg að halda fram.
Málið er bara að þessi vísa um aldur Arsenal-liðsins er orðin svo oft kveðin og svo víða að það hvarflar varla að mönnum að hún geti ekki verið sönn. Það er þess vegna sem maður hefur reynt að dreypa á þessu endrum og sinnum til að reyna aðeins að vekja athygli fólks á því að þetta er ekki satt.
Díses. Á meðan ég skrifa þetta er Hans Steinar Bjarnason í fréttum Stöðvar 2 að mæra Fran Merida sem stjörnu framtíðar af því að hann skoraði glæsimark í gær. Nefnir Emiliano Insúa svo í hjáhlaupum auk Nicklas Bendtner sem skorara hinna markanna, eins og leikurinn hafi bara snúist um undrabarnið Merida. Merida er nítján ára, Insúa er tvítugur. Takk fyrir að strika undir orð mín, Hansi.
Þetta er víti allan tímann, þarf ekki einu sinni að ræða það frekar. Hann kemur í veg fyrir skot á mark með höndunum, þær eru ekki í normal stöðu og ég held að það sé nokkuð sama hvaða dómara þú spyrð, þetta er ávallt víti.
Ég sem hélt að allir væru hættir að fá úr´onum yfir þessu blessaða unglingaliði Arsenal. Hvað er aftur langt síðan Arsenal vann dollu?!
Kristján Atli.
Þú kallar það leti í blaðamönnum að tala um Arsenal
(#44) “Arsenal-menn stilla upp þremur leikmönnum undir tvítugu, einum tvítugum og sjö eldri leikmönnum. Liverpool-menn stilla upp tveimur tvítugum og níu eldri leikmönnum. “
Þetta er einhver mesta einföldun sem ég hef séð. Hætta leikmenn að vera ungir um leið og þeir verða 21 árs? Það er hægt að hagræða langflestri tölfræði sér í hag – það væri t.d. hægt að spyrja hvort liðið hefði verið með fleiri leikmenn inn á 25 ára og eldri?
Hjá Arsenal eru þeir 2 (Silvestre og Eduardo) og hjá Liverpool 6 (Cavalieri, Degen, Skrtel, Kyrgiakos, Kuyt og Voronin). Og ef við myndum skilgreina unga leikmenn 22 ára og yngri þá eru Arsenal með 7 (Gibbs, Gilbert, Merida, Nasri, Eastmond, Ramsey og Bendtner) á meðan Liverpool eru með 4 (Insúa, Ngog, Spearing og Plessis). Og miðað við ummæli manna hérna þá þótti fáum mikið til Spearing og Plessis koma og sama hér. Og ef við myndum leyfa hinum 23 ára Ryan Babel að flokkast sem ‘ungur leikmaður’ þá virðast menn ekki geta beðið eftir því að hann verði seldur.
Síðan segirðu í #48 – “Þetta er leikreynt lið, jafnvel ungu strákarnir eins og Gibbs, Gilbert, Wilshere og Bendtner hafa verið að spila jafnvel stóra leiki með aðalliðinu og eru langt því frá nýliðar.”
Ég veit ekki hvaða stóru leiki þú ert að tala um þarna hjá Gilbert og Wilshere. Gilbert hefur spilað 2 leiki í það heila fyrir aðallið Arsenal. Fyrri leikinn árið 2006 í undanúrslitum CC gegn Wigan (þar sem hann lagði upp skallamark f. Henry) og sá seinni í gær.
Jack Wilshire hefur spilað í 12 leikjum fyrir aðalliðið. Í 8 þeirra hefur hann komið inn sem ‘late substitute’ í leikjum sem voru nánast búnir og þessir 4 leikir sem hann hefur byrjað hafa allir verið í CC.
Reyndar býr Ramsey yfir örlítilli reynslu, en hana öðlaðist hann þegar hann spilaði með Cardiff í F.A. Cup.
ég læt wikipediu duga sem heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/Kerrea_Gilbert
http://en.wikipedia.org/wiki/Jack_Wilshire
Mig langaði bara að benda þér á að þessi tölfræði þín segir kannski ekki alla söguna og að það er kannski einhver ástæða fyrir því að talað er um Arsenal sem ungt lið önnur en leti. Þú hefðir sjálfur alveg getað ‘nennt’ að fletta upp þeim staðreyndum sem þú heldur fram.
En annars er erfitt að neita því að þetta hafi verið víti….
Ég veit ekki afhverju það var ekki öll fyrsta línan þarna en hún á víst að vera svona: Þú kallar það leti í blaðamönnum að tala um Arsenal sem ungt og spennandi lið.
Magnússoninn, þú getur snúið út úr aldri liðanna eins og þú vilt en þú breytir því einfaldlega ekki að meðalaldur upp á 22.55 ár er langt því frá að vera eitthvað unglingalið. Langt því frá.
smá útúrdúr hérna svo þið getið hætt að tala um aldur leikmanna 🙂 hvað finnst mönnum um nýjasta slúðrið um david villa til liverpool eða man u ?? í ljósi þess að fréttir hafa borist af því að hugsanlega gætum við þurft að selja torres og aðra dýra leikmenn til að bjarga klúbbnum þá finnst mér þetta voðalega þversagnakennt , svo ekki sé meira sagt … er í alvöru einhver séns að villa komi til liverpool ??