Man United á morgun!

hyypia_vs_nistelrooy.jpgHvað getur maður eiginlega sagt eftir síðustu tvo-þrjá daga? Eftir slappan en mikilvægan sigurleik gegn Watford horfði ég á United ná jafntefli á Stamford Bridge, og síðan hófst Morientes-rússíbaninn sem lauk loks í dag með því að hann var kynntur á blaðamannafundi. Það var mikill léttir að sjá hann í Liverpool-treyjunni. 🙂

En nú tekur alvara lífsins aftur við, bæði fyrir okkur og Moro. Á morgun er það Man U – liðið sem við elskum að hata. Eins og er eru þeir 7 stigum á undan okkur í deildinni og því er málið ekkert flókið: allt annað en sigur gegn Man U þýðir nánast enga möguleika á að ná 3. sætinu, segi ég og skrifa. United tapa ekki 7 stigum meira en við á seinni hluta tímabils, hvað þá 10 stigum. Þannig að jafntefli er í raun alveg jafn slæmt og tap. Sigur hreinlega verður að vinnast!

En svo er það náttúrulega stóra spurningin, hvernig stillir Rafa upp byrjunarliðinu á morgun? Verður Morientes í byrjunarliðinu? Þá heyrði ég eitthvað um að Steve Finnan væri kannski meiddur, en ef við gerum ráð fyrir að hann sé heill þá tel ég næsta víst að liðið verði svona:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Núnez – Gerrard – Hamann – García

Morientes – Baros

Ég set Núnez í liðið fram yfir Traoré (þá væri Riise á kanti og García hægra megin) af því að ég sé það sama og allir aðrir: Núnez er besti fyrirgjafamaður okkar ásamt Gerrard, og Morientes verður í fokking teignum til að skalla þessa bolta á markið!

Ef Morientes er hins vegar ekki í liðinu tekur að mínu mati líklega bara Pongolle hans stöðu og við höldum okkur í 4-4-2. Og völtum yfir þá!!!

Samt gæti orðið spennandi að sjá hvað gerist ef Finnan er meiddur. Þá gæti Benítez t.d. stillt vörninni svona upp:

CARRAGHER – PELLEGRINO – HYYPIÄ – RIISE

Það gæti alveg gerst að bæði Pelle og Moro spili sína fyrstu leiki fyrir okkur á morgun. Það yrði að vissu leyti áhugavert og spennandi!

Nú, United-liðið hefur held ég verið taplaust í 13 leikjum í röð núna í öllum keppnum, sem er mjög góður árangur (aðeins Chelsea verið lengur taplausir) og því tel ég bara kominn tíma á að þeir tapi leik. Þeir einfaldlega verða að tapa, og þeir munu tapa.

MÍN SPÁ: Ég er ekki vanur að vera borubrattur eða öruggur með mig fyrir stórleikina en í ljósi þess að Morientes mun vera í liðinu eða á bekknum á morgun, sem eykur enn á spennu stuðningsmanna Liverpool á Anfield, til viðbótar við þá spennu sem skapast venjulega þegar við spilum við United – þá muni þurfa eitthvað rosalega mikið til að stöðva Liverpool á morgun. Okkar menn eru tilbúnir, þá hungrar í sigur í þessum leik – um það efast ég ekki. Og því held ég að við sigrum!

Og ég myndi ekki veðja á móti því að Morientes skori á morgun. Eigum við ekki bara að segja 2-0 sigur, eitt í hvorum hálfleik? Baros í fyrri hálfleik og Morientes í þeim seinni, annað hvort sem byrjunarliðsmaður eða undir lokin sem varamaður? Jújú, það er ágætis spá held ég bara! 😀

Ein athugasemd

  1. Ef Finnan er meiddur þá er bara að setja Carragher í hægri bak til að stoppa Giggs og síðan Traore í miðvörðinn með Hyypia!

Morientes og framtíðin

Moro og Pelle byrja inná!