Komnir í úrslit Deildarbikarsins!!!

watford_carragher.jpg Frábært!!! Við erum komnir í úrslitaleik á Millennium Stadium eftir tveggja ára fjarveru, og það á fyrsta tímabili Rafa Benítez og þrátt fyrir gríðarlega mikla óheppni í meiðslum í vetur. Það er frábært afrek, sama hvað hver segir! 😀 😀 😀

Vondu fréttir kvöldsins: Florent Sinama-Pongolle meiddist undir lok leiksins, aðeins þrem mínútum eða svo eftir að hann kom inná fyrir Milan Baros. Á opinberu síðunni er talað um “alvarleg meiðsli á ökkla” og ef það reynist satt, þá get ég voðalega lítið sagt. Okkar meiðsli eru hætt að koma mér á óvart – það virðist sem það meiðist einn Liverpool-leikmaður í hverjum einasta helvítis, djöfulsins, andskotans leik í vetur. Við erum ekki fyrr búnir að fá Finnan inn að Pongolle fer á sjúkralistann í hans stað. Josemi verður orðinn heill fyrir næsta leik eftir viku, eigum við ekki bara að halda smá veðmál um hver meiðist í það skiptið?

Allavega, nóg um það. Byrjunarliðið í kvöld var svona:

Dudek

Finnan – Carragher – Pellegrino – Traoré

Baros – Biscan – Gerrard – Hamann – Riise

Morientes

BEKKUR: Carson, Warnock, Potter, Pongolle, García.

Þetta var alls ekkert rosalega góður leikur hjá okkar mönnum, en hann var heldur alls ekkert slappur. Eftir þrjá tapleiki í röð þá var ég búinn að segja að mér væri sama hvernig þessi leikur ynnist – við bara yrðum að vinna hann. Ég stend enn við það. Við stjórnuðum megninu af spilinu í leiknum í 94 mínútur, þeir ógnuðu marki okkar lítið sem ekkert (þurfti Dudek að koma við boltann í kvöld? ) og við virtumst bara hafa stjórn á þessu allan tímann. Á móti kemur að við vorum ekkert að skapa neitt of mikið fram á við, það var helst þegar Morientes eða Riise komust í boltann að eitthvað gerðist, en á endanum þá fannst mér bara einhvern veginn eins og þessi leikur væri aldrei í hættu. Ég man hvað ég var stressaður þegar ég horfði á Watford-leikinn á Anfield fyrir tveim vikum, þá leið mér eins og við gætum skíttapað á hverri stundu, en í kvöld var ég bara mjög afslappaður og öruggur yfir þessu.

Fyrst ber að nefna mann sem hefur mátt þola meira en sinn skerf af gagnrýni undanfarið. Vörnin okkar stóð sig vel, en ef ég ætti að velja einn mann sem stóð uppúr að mínu mati þá væri það Mauricio Pellegrino. Loksins sýndi hann okkur til hvers hann var fenginn til liðsins – í fjarveru Hyypiä þá efast ég um að við hefðum getað fengið betri staðgengil í kvöld. Pelle spilaði bara eins og Hyypiä gerir best; las leikinn vel, vann skallabolta og lokaði sínu svæði, auk þess sem hann og Carragher héldu Heiðari Helgusyni niðri nær allan leikinn. Það hefði alveg mátt segja mér að þetta hefði verið Sami með litað hár, svo öruggur var Pelle í kvöld að mínu mati. Hann á hrósið alveg skilið og það er vonandi að menn andi aðeins rólega hvað þann argentínska varðar eftir kvöldið í kvöld.

Á miðjunni tók Benítez mjög rétta ákvörðun að mínu mati. Á laugardag gegn Southampton sást greinilega að við vorum einum manni færri á miðjunni, þar sem þeir hreinlega áttu miðjuna í þeim leik og Gerrard & Hamann gátu ekkert að því gert. Því setti Rafa Igor Biscan inn í liðið í dag til að fjölga á miðri miðjunni og það hafði tvö mjög jákvæð áhrif:

1: Við vorum jafnmargir og þeir á miðsvæðinu og gátum því keppt á jöfnum grundvelli.

2: Steven Gerrard fékk fyrir vikið meira frelsi til að fara fram á við – og enn og aftur borgaði það sig með vöxtum. Hann skoraði sigurmarkið okkar eftir einmitt svona skyndisókn frá miðsvæðinu, en hann hefði aldrei getað það ef hann hefði þurft að sinna varnarskyldunum í kvöld.

Þannig að plús í kladdann fyrir Rafa fyrir að stilla upp hárrréttu liði í kvöld, að mínu mati. Milan Baros var óvenju rólegur á hægri kantinum og það er Duane Darlington, bakverði Watford til hróss að hann gerði í kvöld það sem nær öllum varnarmönnum Úrvalsdeildarinnar hefur mistekist í vetur: hann hafði Baros í vasanum í 80 mínútur!

Hinum megin var Riise mjög ógnandi en mér fannst oft skorta upp á lokaboltann hjá honum. Hann þarf að gefa meira fyrir, sérstaklega í ljósi þess að Morientes er mættur inná teig hjá okkur og étur flestallar fyrirgjafir auðveldlega.

Maður leiksins í kvöld var svo að mínu mati FERNANDO MORIENTES, ekki endilega fyrir að skora mörk – sem er jú starf #1 hjá framherja – heldur fyrir vinnu sína fyrir liðið. Ef við vorum að komast í pláss á miðjunni eða á köntunum var það yfirleitt eftir að boltinn barst í gegnum miðjuna til Morientes, sem fann menn jafnan í svæðum. Hann var síðan grimmur inní teig og hefði með heppni getað skorað eitt eða tvö í kvöld. Þá átti hann flotta tilraun til hjólhestaspyrnu sem hefði verið flott ef tekist.

En einnig þá fannst mér Morientes vinna rosalega vel aftur á völlinn í kvöld. Það var alltaf ljóst að þetta yrði mikill baráttuleikur og að menn yrðu að vinna sína vinnu varnarlega til að vel færi, og Morientes einkenndi þann baráttuanda og þá vinnslusemi sem við þurftum að hafa í kvöld. Hann var frábær, vann vel fyrir liðið og átti síðan rosalega gott hlaup inná teiginn á 77. mínútu sem gaf Gerrard nógu gott svæði til að skora sigurmarkið. Óeigingjörn frammistaða hjá El Moro í kvöld og ljóst að hér er geysilega gáfaður knattspyrnumaður á ferð, auk þess að vera markamaskína.

AÐ LOKUM: Hvað getur maður sagt? Meiðsli, óstöðugt gengi, miklar breytingar á árinu 2004 og við erum samt komnir í úrslit í bikarkeppni. Menn geta rifist eins og þeir vilja um að þetta sé bara varabikarinn í Englandi eða plastdolla eða hvað sem menn vilja segja – staðreyndin er sú að við fórum í gegnum tvö úrvalsdeildarlið og tvö fyrstudeildarlið til að komast í Úrslitaleikinn … og við unnum alla okkar leiki á leið okkar til Cardiff í vetur. Og fengum aðeins á okkur eitt mark. Það er frábær árangur, hvernig sem á það er litið. Við slógum út ríkjandi meistara Middlesbrough, unnum sterkasta lið Tottenham á White Heart Lane með U21s árs liðinu okkar, tókum Millwall á einum erfiðasta og leiðinlegasta (og grófasta) útivelli í Englandi og loks slógum við út risabanana í Watford með tveimur 1-0 sigrum. Við erum á leiðinni til Cardiff í mars og nú er bara spurningin…

MANCHESTER UNITED

CHELSEA

Hvort liðið vilja menn fá að sjá í úrslitunum? Þau gerðu 0-0 jafntefli á Stamford Bridge í fyrri leiknum og mætast á morgun í síðari leiknum, á Old Trafford. Ég er nokkuð viss um að bæði lið munu stilla upp sínu sterkasta liði, enda þegar komið er svona langt í keppninni er sénsinn á að vinna bikarinn mjög góður.

Ég persónulega er algjörlega á báðum áttum hvort liðið ég vill fá. Ég hef oft sagt það að það er fátt jafn gaman og að vinna Man U í úrslitum bikarkeppna, en í vetur væri ég alveg jafn mikið til í að fá Chelsea. Bæði þessi lið eru langt á undan okkur í deildinni og hafa unnið okkur heima og úti í vetur – en ef við fengjum Chelsea held ég að það yrði frábært tækifæri fyrir okkar menn að sýna af hverju Steven Gerrard á framtíð fyrir sér hjá Liverpool frekar en Chelsea. Þeir vinna kannski deildina, en ef við myndum vinna þá í bikarúrslitaleik á Millennium Stadium í Cardiff, haldið þið að það myndi ekki verða til þess að Gerrard hugsi með sér: “Ég get alveg hampað dollum með Liverpool jafnt og Chelsea. Kannski ég verði kyrr bara!?”

Það held ég nú. Mér er samt eiginlega alveg sama hvort liðið við fáum – VIÐ ERUM Á LEIÐINNI TIL CARDIFF!!! 😀 😀 😀

5 Comments

  1. Verð að segja hversu frábær Morientes var í seinni hálfleik og hversu óheppinn hann var að skora ekki.

    Milan Baros lagði sig hart fram á hægri kanti, þó svo að það sé ekki hans “natrual” staða en stundum verður maður að fórna ýmsu fyrir liðið!

    Meiðslavandræði okkar eru ekki einusinni orðin fyndin lengur! Samt er þetta einn stór brandari!

    Finnan, Josemi, Garcia, Gerrard, Alonso, Baros, Pongo, Kewell, Hyypia, Kirkland, Cisse og Nunez.

    Ég held að það sé hægt að stilla upp ágætu 11 manna byrjunarliði úr þessum mönnum.

    Góður sigur, Bring on Chelsea because we have something to prove!

  2. Gott mál. Ég reyndar missti af síðustu 20 mínútunum. Mjög ljúft að okkur hafi þó tekist að skora á þeim tíma.

    Ég vil sjá Man U í úrslitaleiknum, engin spurning. 🙂

    Og gleymum því ekki, þeir sem gera lítið úr keppninni eru alltaf þeir, sem detta úr henni.

  3. Engin spurning að við fáum chelskí, það virðist allt ganga þeim í hag í vetur. Enda vil ég aldrei að manjú sigri, það er bara prinsibb sem ég lifi eftir.

    Vona að leikurinn annað kvöld innihaldi 14 rauð spjöld og slagsmál.

    Loksins smá heppni með okkur að Riley skyldi ekki dæma víti á okkur í fyrri hálfleik… Eða áttum við það ekki inni hjá honum? :rolleyes:

  4. Ég veðja 500 kalli á að Morientes brjóti sig áður en langt um líður og hann verður frá í 6 mánuði í það minnsta.

    En svona frá spaugi yfir í alvöruna að þá eru þessi meiðsli hreint út sagt FÁRÁNLEG!!!!!!!!!!!!!!!! 😡 HVAÐ HEFUR HERRA BENITES GREYIÐ GERT???? Ekki nóg með að þessi helvítis hópur sé ekki nógur góður að þá týnast út þeir bestu og líflegustu í langvarandi meiðsli! Ég mun kalla það mjög gott ef við náum 4.sætinu þetta árið. Svo sannarlega!

    PS: Hleypið svo Dalgslish og L4 inní þennan klúbb eða ég fer að gera eitthvað fáránlegt af mér!

  5. Frábært. Komnir í úrslitaleik á fyrsta tímabili Benites. 🙂

    En “auðvitað” misstum við enn einn leikmann í meiðsli og í þetta skipti Pongolle. Sem eru hrikalegar fréttir satt best að segja því hann hefur svona verið ljósið í myrkrinu þessa síðustu viku!!!! Það ætlar ekki að vera einleikið hvernig ólánið eltir okkar leikmenn þetta tímabil.
    Það skiptast svo sannarlega á skin og skúrir. Það verður ekki annað sagt.

    Ég vona bara að okkar menn nái að yfirfæra þennan sigur og traustari leik inn í leikinn gegn Charlton 1.febrúar.

    Ótrúlega mikilvægur leikur að mínu mati. Ég ætla að ganga svo langt og segja að ef við töpum þeim leik eða gerum jafntefli þá spái ég okkur 5 til 6 sætinu í ár. Við meigum ekki við því að dragast mikið meira aftur úr 4. sætinu. Eini möguleikinn ef við töpum gegn Charlton er að Everton tapi sínum leik líka!!!!! En þetta er meira svona spá en heilagur sannleikur :confused:

    Pellegrino stóð sig vel á móti Watford. Mun öruggari að sjá en áður. Enda var líka liðinu stillt upp mjög varnarlega. Sem var skynsamlegt af Rafa eftir allar hrakfarirnar undanfarið. Ég ætla að bíða áfram með að mynda mér skoðun á Pellegrino. Vill sjá hann skila sínu í PL , before I pass judgement!!

Byrjunarliðið gegn Watford komið

Craig Bellamy (uppfært)