Þann 23. október sl. unnum við góðan 2-0 sigur á Charlton Athletic á Anfield, heimavelli okkar, í leik þar sem þeir sáu nánast aldrei til sólar. Eftir að hafa pressað þá nærri stanslaust allan leikinn náðum við loks að innbyrða sigurinn þökk sé tveimur frábærum langskotum frá John Arne Riise og Luís García. Vonandi endurtaka þeir leikinn á morgun, þegar okkar menn heimsækja Charlton-menn á The Valley.
Það fyrsta sem vekur athygli mína fyrir þennan leik er það að við erum með jafnmörg stig og Charlton fyrir þessa umferð. Eftir 24 leiki erum við í 5.-7. sætinu ásamt Charlton og Middlesbrough með 37 stig, en við erum staðsettir efst af þessum þremur liðum þar sem við erum með talsvert betri markatölu.
Í fyrsta sinn í langan tíma þá veit ég í raun ekkert við hverju við eigum að búast á morgun. Charlton-menn hafa verið á mikilli siglingu í deildinni undanfarið en voru frekar daprir í FA Bikarnum um helgina gegn smáliði Yeovil. Við hins vegar töpuðum þrem leikjum í röð áður en við unnum Watford fyrir viku, en þar sem við höfum fengið vikufrí síðan þá er ómögulegt að segja fyrir um hvernig menn mæta stemmdir til leiks á morgun.
Ég talaði um það um helgina að meiðsli gætu gert byrjunarliðið okkar – sem og 16-manna hópinn – frekar skrýtið ásjónu á morgun. En í dag hafa borist þær fregnir að við séum að fá menn inn úr meiðslum og annarri fjarveru, þannig að kannski verður þetta ekki svo slæmt eftir allt saman? Um er að ræða Harry Kewell sem er orðinn heill eftir meiðsli, Anthony Le Tallec sem er kominn heim aftur eftir slappa mánuði í Frakklandi og loks Vladimir Smicer sem er búinn að jafna sig eftir að hafa misst úr hálft ár vegna meiðsla. Af þessum þremur verður Smicer pottþétt ekki í liðinu á morgun og varla í hópnum að mínu mati, þar sem hann hefur bara spilað einn varaliðsleik í 6 mánuði. Tony og Harry gætu hins vegar tekið sér sæti á bekknum, þótt ég eigi ekki von á að sjá þá í byrjunarliðinu.
Þá kemur Sami Hyypiä aftur inn úr meiðslum eftir að hafa misst af Watford-leiknum, á meðan Dietmar Hamann og Antonio Núnez eru í leikbanni á morgun. Líklegt byrjunarlið okkar ætti því að vera einhvern veginn svona:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré
García – Biscan – Gerrard – Riise
Baros – Morientes
BEKKURINN væri þá líklega svona: Carson (GK), Pellegrino, Warnock, Kewell, Le Tallec.
Þetta er ekki svo slæmt lið hjá okkur, þrátt fyrir öll meiðslin, er það nokkuð? Í raun og veru held ég að ef Xabi Alonso væri á miðjunni í stað Igor Biscan, þá færi þetta nokkuð langt með að vera okkar sterkasta byrjunarlið í dag? Og kannski Riise í bakvörð og Kewell á kantinn?
En allavega … þrátt fyrir gríðarleg meiðsli í vetur (sem sést best í því hvað við höfum litla breidd, flestir þessara gæja í byrjunarliðinu eru búnir að vera að spila nær alla leiki okkar undanfarið, án mikillar hvíldar) þá er það vissulega jákvætt að við náum að stilla upp liði sem er a.m.k. svo nærri okkar sterkasta 11-manna liði og raun ber vitni!
Fyrir mér er það bara ástæða til bjartsýni er við reynum að endurræsa árás okkar á 4. sætið í deildinni. 🙂
MÍN SPÁ: Ég sagði áðan að ég hefði ekki græna hugmynd um hvernig okkar menn myndu mæta stemmdir á morgun en ég held við getum verið sammála um að Charlton-menn munu sennilega mæta grimmir til leiks og ákveðnir í að berjast fyrir sigri, sem gæti reynst þeim ómetanlegur í baráttunni um sæti í UEFA-keppninni. Þannig að ég spái erfiðum leik á morgun sem við ættum að geta stjórnað og verið betri aðilinn í – en til að það eigi að takast verða lykilmenn okkar að vera í stuði (Gerrard, García, Baros, Morientes, Riise) og hver einn og einasti leikmaður liðsins verður að mæta reiðubúinn til að deyja fyrir málstaðinn.
Ég ætla að spá því að sigurinn á Watford í síðustu viku hafi verið lyftistöng og gefið okkar mönnum smá sjálfstraust aftur: Við vinnum þennan leik 3-1 og Morientes skorar loksins sitt fyrsta mark fyrir Liverpool! 😀
Svo sjáum við til hversu sannspár ég er. Vona það allavega. Áfram Liverpool!
p.s. Finnst í lagi að nefna það að þetta er síðasti leikur Liverpool áður en við spilum við Fulham á Anfield á laugardaginn næstkomandi, en ég verð einmitt staddur á vellinum til að horfa á þann leik! Það er komið að því … sjö ár síðan ég fór síðast (sá okkur tapa 3-1 fyrir United í des. ’97) en nú ætla ég aftur! Þannig að ég legg skiljanlega ofurkapp á að sjá þennan leik á morgun, og mér til mikils léttis þá er hann sýndur beint á Players, kl. 19:15 annað kvöld. Hvet alla Púllara nær og fjær til að fjölmenna í Kópavoginn á morgun, vonandi myndast smá stemning fyrir þennan leik.
Og já, ég hlakka allsvakalega til. En meira um ferðina síðar. 😉
prufa.
segi það sama og á liverpool.is, 2-1 gerrard og moro
Jæja … Morientes búinn að skora sitt fyrsta mark fyrir LFC 😀
Til hamingju með að vera fara á Anfield Kristján Atli. Hlýtur að vera alveg mögnuð upplifun.
Frábær og MIKILVÆGUR sigur á útivelli gegn sterku liði!
Ég er viss um að nú fer í hönd mjög skemmtilegt tímabil hjá Liverpool. Held að skítaleikurinn gegn southampton hafi verið botninn á þessu tímibili hjá okkar mönnum. Nú liggur leiðin bara upp á við.
Það er magnað að fara á Anfield! Ekki hægt að lýsa því með orðum.