Hvað í fjandanum hefur breyst? – og vangaveltur um það hvort við vorum á lyfjum síðasta sumar

Í sumar – rétt áður en tímabilið byrjaði þá settum við á kop.is saman spá um niðurröðun liðanna í ensku deildinni í ár. Mín spá leit svona út:

1 – Liverpol

2 – Chelsea
3 – Man U
4 – Arsenal

Semsagt, ég bjóst við að Liverpool myndi taka titilinn. Loksins! Eftir öll þessi ár. Ég var ekki 100% viss um þessa spá mína, en ég hafði samt nægilega mikla trú á þessu liði. Til upprifjunnar þá hafði deildin vorið áður endað svona:

1 – Manchester United 90 stig – 28 unnir, 6 jafntefli, 4 töp. +44 mörk.
2 – Liverpool 86 stig – 25 unnir, 11 jafntefli, 2 töp. +50 mörk.

3 – Chelsea 83 stig – 25 unnir, 8 jafntefli, 5 töp + 44 mörk.

Það voru nokkrar ástæður fyrir því að ég taldi að Liverpool gæti unnið upp þetta 4 stiga gat á Manchester United og haldið sér fyrir ofan Chelsea á sama tíma.

1. Manchester United höfðu selt Cristiano Ronaldo, án efa þeirra besta leikmann. Þeir höfðu einnig misst Carlos Tevez, sem reyndist þeim oft dýrmætur. Í staðinn höfðu þeir fengið Antonio Valencia og Michael Owen. Engum dettur í hug að halda því fram að þetta hafi ekki verið gríðarleg veiking á liðinu.
2. Chelsea höfðu litlu breytt, en nokkrir leikmenn þeirra voru kannski orðnir smá þreyttir – Ballack t.d. 33 ára. Þeir virkuðu einnig ekkert alltof vel á mig á síðasta tímabili og auk þess voru þeir að byrja með nýjan þjálfara, sem óvíst var hvernig myndi standa sig í ensku deildinni. Arsenal höfðu svo selt bæði Toure og Adebayor.
3. Ég taldi að Liverpool hefði verið óheppið að klára ekki deildina árið áður. Manchester United hafði tryggt sér sigra á síðustu stundu í leikjum þar sem þeir voru síðri aðilinn, en mér fannst aftur á móti Liverpool hafa tapað alloft stigum í leikjum þar sem þeir voru miklu betri aðilinn. Það sem ég man í fljótu bragði eftir voru 4-4 leikurinn gegn Arsenal, þar sem við vorum miklu betri, Hull 2-2, Stoke á Anfield og 0-0 leikurinn gegn West Ham.
4. Ég taldi leikmannaskiptin síðasta sumar ekki vera svo slæm. Við þurftum að selja Xabi Alonso, en hann fór fyrir góðan pening og í staðinn kom Aquilani, sem átti að geta verið sterkur kostur. Kannski ekki jafnoki Alonso, en maður sem ætti með tíma að vera jafn sterkur og hann. Og Arbeloa fór og Glen Johnson kom í staðinn sem ég taldi að myndi styrkja liðið.

Allt þetta taldi ég benda til þess að Liverpool gæti gert raunverulega atlögu að titlinum. Svo bættist við sú staðreynd að við þurftum ekki að fara í undankeppni CL, sem að sparaði okkur 2 leiki um haustið þannig að okkar menn ættu að geta komið extra tilbúnir í baráttuna í byrjun tímabils.

En strax frá fyrsta degi var ljóst að eitthvað var að (og í raun bar undirbúningstímabilið þess merki líka). Við töpuðum strax fyrsta leiknum í deildinni og núna sitjum við uppi nokkrum dögum fyrir jól með lið sem er í 8. sæti deildarinnar, fyrir neðan lið einsog Birmingham – búnir að vinna 8 leiki, gera 3 jafntefli og tapa 7 leikjum. Sem þýðir að við höfum tapað 27 stigum. Einsog Trausti benti á í kommentum við síðustu leikskýrslu þá töpuðum við í fyrra 28 stigum. Þannig að þegar deildin er rétt tæplega hálfnuð þá erum við nærri því búnir að tapa jafnmörgum stigum og allt tímabilið í fyrra. Við erum dottnir útúr Meistaradeildinni þar sem við spiluðum ekki einn einasta góðan leik og við erum dottnir útúr deildarbikarnum. Við eigum enga möguleika á enska titlinum (erum 14 stigum frá efsta sætinu) og erum heilum 8 stigum frá fjórða sætinu.

Er það furða að maður spyrji: Hvað í andskotanum gerðist?

* * *

Mér leiðist að rífast endalaust um Rafa Benitez. Menn eru alltof gjarnir á að skipta sér í lið, með og á móti, og fyrir vikið verður umræðan um fótbolta oft einhæf. Dálítið einsog íslensk umræða um pólitík þar sem menn eru með/móti Davíð og öll umræða miðast út frá þeim punkti.

Þeir sem eru mest á móti Benitez litu á 2. sætið í fyrra sem undantekningu. Þeir kröfðust þess oft á síðasta tímabili að hann yrði rekinn og þeir voru tilbúnir að rifja þær kröfur upp um leið og liðið byrjaði að ströggla á þessu tímabili (og í raun margir á undirbúningstímabilinu líka). Ég hef hins vegar séð í þessu liði síðustu 5 ár alltaf eitthvað nýtt og betra. Ég hef séð nánast stöðuga framför á spilamennsku liðsins, sem að náði einhvers konar hámarki síðasta vor þegar að liðið vann lið einsog Real Madrid, United og Aston Villa leikandi létt.

Það lið sem vann United 1-4 á Old Trafford var með Skrtel í miðju varnarinnar og Lucas-Mascherano á miðjunni, sem og Dirk Kuyt og Albert Riera á köntunum. Þetta var í raun sama liðið og hefur verið að spila í flestum leikjum okkar í ár. Samt eru þessi lið einsog svart og hvítt.

Ég er á því að Rafa Benitez hafi ekki orðið lélegur þjálfari á þessum síðustu 4 mánuðum. Það hefur enginn farið úr þjálfarateyminu og eigendamálin hafa verið nokkuð róleg, þannig að maður hlýtur að spyrja sig hvað hafi breyst og hvað hafi klikkað. Ég hef verið að hugsa þetta undanfarna daga og hérna eru mínar tilgátur.

* * *

1. Lykilmenn hafa brugðist. Hefur Steven Gerrard átt einn góðan leik í ár? Hvað með Carragher? Það sem við sögðum alltaf að væri kosturinn við Liverpool var gríðarlega sterk mæna í liðinu: Reina – Carra – Mascherano – Gerrard – Torres. Þetta var mænan í liðinu og hún var í heimsklassa. Allir þessir leikmenn hafa hins vegar brugðist í ár. Gerrard hefur ekkert getað sem bendir til þess að við hefðum fyrir hálfu ári kallað hann besta miðjumann í heimi. Carra hefur virkað 36 ára en ekki 31 árs. Reina hefur verið mistækur, Mascherano byrjaði tímabilið afleitlega og Torres hefur verið mikið meiddur auk þess sem hann hefur virkað úrillur.

Þessir menn hafa einfaldlega brugðist allir sem einn.

2. Lucas – Mascherano miðan hefur ekki virkað. Þetta er kannski það sem menn hafa einblýnt á hvað mest. Ég hef varið Lucas mikið, en á móti kemur að hann er enginn Xabi Alonso. Hann skilar boltanum frá sér á réttan mann oftast, en ef hann á að vera okkar aðalmaður á miðjunni, sem að dreifir spili (af því að Mascherano er ekki sá maður) þá er Lucas alltof hræddur við að taka áhættu. Hann gefur aldrei langar sendingar, hann leitar alltof oft aftur á völlinn og svo framvegis. Ég man að þegar að Aquilani gaf eina langa sendingu í sínum fyrsta leik þá langaði mig að standa upp og klappa. Ég er á því að Lucas og Mascherano séu báðir verulega góðir leikmenn. En saman í liði passa þeir ekki..

3. Aquilani kaupin. Aquilani mun vonandi hafa tækifæri til að sanna sig, en það er augljóst að hann var mun verra meiddur en menn töldu í upphafi (hverjum svo sem það ranga mat er að kenna) og þegar næstum eru komin jól þá hefur hann engin áhrif haft á þetta lið. Umtalið um setu hans á bekknum hefur svo verið afskaplega leiðinleg.

4. Aukaleikarar hafa brugðist. Sérstaklega fyrri hluta tímabilsins í fyrra var Albert Riera að spila frábærlega. Sama má segja um Dirk Kuyt og Benayoun var okkar besti maður eftir áramót. Þessir leikmenn hafa algjörlega brugðist. Dirk Kuyt hefur skorað mörk, en annars verið afskaplega misjafn. Yossi, sem hefur flakkað á milli staða í liðinu, hefur verið gríðarlega misjafn, þó hann hafi verið einn okkar skásti maður í vetur einfaldlega vegna þess að allir hinir hafa verið svo lélegir. Riera hefur varla spilað. Babel hefur varla spilað og þegar hann hefur spilað hefur hann ekkert sýnt.

5. Bakverðirnir hafa brugðist. Rafa hefur gefið Insúa mikil tækifæri og hann byrjaði vel, en undan honum hefur fjarað. Aurelio hefur verið meiddur og fáránlega misjafn þegar hann hefur spilað. Johnson byrjaði frábærlega en hefur lítið sýnt síðustu vikur. Dossena hefur ekkert gert.

6. Miðverðirnir hafa algjörlega brugðist. Í fyrra þegar að við vorum með frábæra vörn þá voru það aðallega Carra og Skrtel sem spiluðu. Þeir voru báðir mjög góðir. Skrtel hefur hins vegar algjörlega brugðist í ár og mistök hans kostað okkur mörg mörk. Carra hefur verið lítið skárri. Á tímabili virtist vörnin skána þegar að Agger og Carra fengu að spila saman, en það fjaraði undan því fljótlega.

Vörnin hefur verið svo slöpp að ég man ekki eftir öðru eins frá því að við vorum að glíma við menn einsog Phil Babb í vörninni.

Við höfum fengið á okkur 2 eða fleiri mörk gegn eftirfarandi liðum: Aston Villa (2), Tottenham, Bolton, West Ham, Chelsea, Fulham (3), Birmingham, Man City, Arsenal og Portsmouth. Þetta eru 10 leikir. Meirihluti leikja í deildinni – með hreinum ólíkindum. Og þessi arfaslaka vörn hefur valdið því að Rafa hefur þurft að breyta áherslunum, sem hefur m.a. sést í því hversu heftur Glen Johnson hefur verið fram á við að undanförnu. Vörnin er rót þessa lélega gengis á tímabilinu.

7. Crouch – Barry – Keane – Alonso – Aquilani. Planið sumarið 2008 hjá Benitez var að kaupa Gareth Barry og Robbie Keane og selja Peter Crouch og Xabi Alonso. Það misheppnaðist. Plan A var hent útum gluggann, Plan B klikkaði og Plan C hefur misheppnast.

Plan A: Crouch og Alonso
Plan B: Barry og Keane
Plan C: Aquilani.

Þannig að í stað þess að vera með enskan landsliðsframherja og Xabi Alonso eða enskan landsliðsmiðjumann og Robbie Keane þá erum við með meiddan Aquilani. Ég held að það detti engum í hug að halda því fram að við séum betur settir í dag. Við hefðum án efa getað nýtt okkur Crouch í vetur.

Ngog hefur verið *eini* bjarti punkturinn í vetur (getur einhver bent mér á fleiri?) en okkur hefur samt sem áður vantað annan framherja.

8. Mistökin hans Benitez: Benitez hefur haldið alltof mikilli tryggð við Dirk Kuyt, hann hefur reynt endalaust áfram með Lucas – Mascherano á miðjunni. Og hann hefur ekki lagað vörnina. Þetta eru allt hlutir sem ég tel Benitez bera höfuðábyrgð á. Og hann hefur ekki unnið bug á slæmu sjálfstrausti liðsins. Liðið hefur virkað hugmyndalaust og kraftlaust.

9. Sjálfstraust. Þetta er kannski stærsta málið. Liverpool í fyrra trúði því að þeir gætu unnið alla leiki. Þess vegna tókst þeim að snúa töpuðum leiki uppí unna. Í vetur höfum við lent undir í 9 leikjum. Við höfum tapað 7 þeirra og gert eitt jafntefli.

Beisiklí ef að mótherjarnir komast yfir þá er leikurinn búinn. Ef að Liverpool kemst yfir þá eru nánast meiri líkur en minni á að liðið hætti að spila og hitt liðið komist inní leikinn. Meistaradeildin var t.a.m. orðinn brandari hvað þetta varðar þegar að við töpuðum þrisvar niður nánast unnum leik.

Sjáfstraustið hjá þessu liði er ekki neitt og það smitar út frá sér. Ég hef til dæmis enga trú á þessu liði. Á laugardaginn var ég í flugi þegar að Portsmouth leikurinn var í gangi. Þegar ég sendi sms á Kristján til að spyrja um úrslitin þá átti ég í raun alveg von á tapi. SMS-ið frá Kristjáni var samt svo lygilegt að ég trúði því varla, en samt þá kom það mér nánast ekki á óvart. Liverpool hefur ekki átt skilið að tapa öllum leikjunum sem þeir hafa tapað í vetur. Nei, til að byrja með þá vorum við að spila betur – vorum til að mynda betri en Villa en töpuðum samt. Svo komu tapleikir þar sem við vorum óheppnir (strandboltinn og allt það) og uppúr því hafa töpin orðið að vana. Alveg einsog sigurleikir geta orðið að vana, þá er ekkert sjálfstraust í þessu liði núna. Við yfirspiluðum Arsenal gjörsamlega og ég var sannfærður um sigur. En svo kemur eitt klúður hjá Glen Johnson og þá hrynur liðið. Menn hugsa með sér “æ, ekki aftur” og hengja haus. Engin trú á sjálfum sér eða samherjunum.

Það hefur verið pínlegt að horfa uppá þetta. Ég sagði oft í fyrra þegar ég var búinn að bóka tap, að það var gott að leikmennirnir hefðu meiri trú á sjálfum sér en ég á þeim, því þeim tókst oft að snúa vonlausri stöðu uppí sigur. En í ár virðast leikmennirnir vera jafnfljótir að gefast upp og ég geri fyrir framan sjónvarpið.

Ég veit ekki hvernig liðið vinnur sig útúr þessu. Sigrar gegn Manchester United og Everton hjálpuðu ekki neitt. Endurkoma leikmanna einsog Torres hjálpar ekki neitt, þegar liðið leikur vel í smá tíma hjálpar ekki neitt. Ekkert virðist hjálpa og núna höfum við ekki unnið tvo leiki í röð í deildinni síðan í september. Allt drápseðli vantar, við náum aldrei að komast í tveggja marka forystu og klára leikina.

* * *

Það er ekki laust við að maður fyllist smá örvæntingu núna rétt fyrir jól yfir stöðu Liverpool. Ég sé ekki hvað á að gera. Rekum Rafa segja einhverjir, en ég sé enga kosti spennandi í stöðunni. Ef að fréttir um peningastöðu Liverpool eru svo réttar, þá eykst vonleysið. Var það virkilega svo að Matthew Upson og Stevan Jovetic voru of dýrir fyrir Liverpool síðasta sumar? Verður það ekki að teljast líklegt að þeir hafi einhverju bætt við þetta lið?

Hvað ætla eigendur liðsins að gera núna? Hvaða árangur sætta þeir sig við og hvernig ætla þeir að ná honum? Mun stjóri liðsins fá einhvern pening í janúar? Mun það einhverju breyta? Hvað með næsta sumar? Munum við spila á Anfield áfram, eða á einhvern tímann að byggja nýjan völl?

Þessir síðustu mánuðir hafa verið þeir erfiðustu síðan að við upplifðum síðustu mánuði Gerard Houllier. Stjórinn og stjórnin verða að ákveða hvað þau gera í sínum málum. En á meðan að það gerist er alveg ljóst að leikmennirnir sem spila fyrir okkur verða að drulla sér af stað. Eru þeir virkilega ekki nógu góðir til að vinna Wolves og Portsmouth jafnvel þótt að *ég* stæði við hliðarlínuna? Ég hefði haldið það. En þeir verða þá að byrja að sýna það. Gerrard, Carra, Torres, Mascherano, Yossi, Riera, Agger, Kuyt, Johnson og co eru allir landsliðsmenn. Þeir kunna þetta alveg og þeir hafa sýnt það á stundum að þeir geta allir verið frábærir leikmenn.

Ég ætla að vona að þeir njóti jólanna og komi svo til leiks eftir jól og hætti að gera okkur aðdáendum lífið leitt.

Ég mun styðja Liverpool þótt þeir detti niður í þriðju deildi. En mikið afskaplega er þetta samt erfitt og leiðinlegt þegar að ástandið er svona.

76 Comments

  1. Algerlega frábær pistill Einar Örn. Sá besti hér alveg svakalega lengi.

    Skrifa uppá hvert einasta orð og ergi engann með að lengja málið. Perfecto og 11 í einkunn af 10 mögulegum!!!

  2. Frábær pistill. Takk fyrir hann Einar.
    Vona að allir í herbúðum Liverpool frelsist um jólin af þessum minnimáttardjöflum og finni sitt rétta eðli, komi svo með drápseðlið í alla leiki eftir hátíðarnar. Þá geta þeir og við stuðningsmenn hugsanlega bjargað stoltinu, því það er nánast það eina sem við erum að spila uppá núna eftir síðustu mánuði.

    YNWA

  3. Tek undir þetta varðandi sjálfstraustið, þetta er eins og svart og hvítt milli tímabila. Leikmenn á síðasta tímabili sem brugðust við marki með þeim hætti að fara og taka miðjuna sem fyrst til að geta bætt fyrir mistökin eru nú eins og þeir vilji bara yfirgefa völlinn sem fyrst, því leikurinn sé tapaður. Einnig þetta væl í dómaranum, var algjörlega út í hött hvað það var mikið verið að nöldra í honum sérstaklega í síðasta leik.. engin furða að þeir séu að spila illa þegar öll þeirra einbeiting fer í að tuða í honum. Alveg sama þó dómarinn sé í ruglinu, það er engin afsökun fyrir atvinnumann í fótbolta, ekki í tuði.

  4. Frábær greining. Ég held að það sé þó helst þrennt af þessu sem þú nefnir sem eru aðalosakirnar og þær skrifast að hluta á reikning Benítez:

    Slök vörn. Allt of margir leikmenn hafa spilað í vörninni. Hugsanlega var það of geyst hjá Benítez að ætla Insúa að spila, kannski hefði verið betra að nota Dossena framan af tímabili, leyfa Insúa að fá einn og einn leik. En Carragher og Skrtel hafa spilað mjög illa, hverju sem um er að kenna og þá hefur Johnson fjarað verulega út, líklega vegna meiðsla.

    Miðjan. Lucas og Mascherano hafa ekki valdið því hlutverki sem þeim er ætlað. Benítez hefur gefið þeim endalaus tækifæri og leikurinn gegn Portsmouth var til að mynda fyrsti leikurinn í haust sem Lucas var ekki í byrjunarliði.

    Meiðsli. Þegar talað er um að það sé eðlilegt að Man Utd. tapi 3-0 á móti Fulham vegna þess að öll vörnin er meidd hjá þeim, þá hafa nú einhver töpin í haust átt að vera jafn eðlileg. Lykilmenn hafa verið mikið meiddir og eins og Maggi kemur inn á í kommentum við síðasta pistil þá virðist Benítez hafa ætlað að gambla á þunnan hóp en fleiri heimsklassa leikmenn. Það hefur ekki gengið upp vegna mikilla meiðsla og veikinda.

    Fjórði mikilvægi parturinn er síðan óstöðugleiki aukaleikaranna, Kuyt og Benayoun sér í lagi.

    En frábær greining á vandanum. Maggi, þú ættir kannski að kópera síðasta kommentið þitt hingað inn. Mjög gott innlegg líka.

  5. Þessi pistill segir allt um þetta tímabil! Frá A-Ö, ég hugsa að það ætti að senda meistara Benítez hann í jólapakka, hann gæti lært margt á því að lesa hann, eru ekki sæmilega lipur í spænsku Einar?

  6. Í vor misstum við einn besta miðvörð Liverpool sögunnar þegar Sami Hyypia fór til Leverkusen. Vissulega kom hann ekki mikið við sögu á síðustu leiktíð en getur verið að þessi sterki finni hafi haft sterk áhrif í klefanum og á æfingum??? Ég veit að þetta er langsót en Þetta er hugmynd.

  7. Tek undir orð Magga í kommenti eitt, sem þýðir að ég tek auðvitað heilshugar undir það sem Einar segir í pistlinum. Gjörsamlega skrifað eins og út úr mínu hjarta.

    Er og verð alltaf Púllari þar til ég dey…!

    Takk fyrir þennan pistil, Einar!

  8. Það er eitt í þessu sem vantar. Síðasta sumar var farið í miklar uppsagnir & breytingar og hátt í 20 manns sem höfðu unnið hjá Liverpool FC í fjölda fjölda ára látnir fara. Það ásamt fleiri skipulagsbreytingum hjá félaginu hafa orðið þess valdandi að starfsmórallinn þar er enginn. Það eru því ansi margir starfsmenn í dag hjá félaginu sem myndu hætta samdægurs ef þeir hefðu annað starf til að fara í.

    Þetta er eitthvað sem flestir leikmenn vita af og hjálpar auðvitað ekki.

  9. nr 4 # skrítið að heyra þig segja að kuyt sé AUKALEIKARI !!!!! maðurinn er klárlega í öllum plönum hr benitez og er samkvæmt manninum sem stjórnar þessu liði alls enginn aukaleikari .

    Flottur póstur einar 🙂 alltaf gaman að lesa góða pistla hérna á kop.is

  10. Frábær pistill, það er engu við þetta að bæta og maður verður bara að voan að Guð og góðir menn verði okkur hliðhollir eftir jólasteikina… maður skildi halda að héðan i frá væri bara hægt að fara upp á við, en samt er maður farin að efast þegar maður sér áhugaleisið leik eftir leik. En ég er eins og þú Einar ég er og verð ávalt Púlari og vonandi verður þetta upp á við hér eftir…

  11. Ívar Örn. það var á móti Wigan sem Lucas var ekki í byrjunarliði. Hann var mættur aftur á móti Pompey.

  12. Frábær pistill og góð greining á stöðunni.

    Hef engu við þetta að bæta og ég mun líka styðja liðið þó það falli langt niður en þetta er dapurlegt ástand.

  13. Góður pistill og enn betri vangaveltur….
    Málið er að öll “topp 4.liðin” hafa veikst milli tímabila.
    Varðandi Liverpool er vandamálið að síðustu 10 ár hafa þeir eytt of miklum peningum í að kaupa rétt meðalgóða leikmenn.
    Torres er ein af fáum undantekninum frá þessu.
    Annars líta unglingarnir vel út hjá poolurum þetta árið , væri ekki
    reynandi að byggja á því !!! Ef peningar eru vandmálið á Anfield þá
    ættu þeir að selja Gerrard meðan eitthvað fæst fyrir kappann…

  14. það yrði allgjör mistök að láta Benitez fara því að hann hefur sýnt það að hann er heimsklassaþjálfari, ég spái því að þessi 5 ár sem að hann er buinn að vera sé bara partur af 20 ára prógrammi, hann á eftir að vera í nokkuð mörg ár í viðbót.

  15. Mjög góður pistill og í raun engu við að bæta nema þá komment frá Inga T um Sami Hyypia, held að hans sé sárt saknað hvað varðar sálrænu hliðina.
    En hvað er til ráða ?? Hef ekki hugmynd um það.
    En eitt veit ég og það er það að ég mun alltaf styðja Liverpool

  16. Getur verið að æfingaplan Gerrards sé þannig sett upp að hann komi til með að vera á toppnum í sumar þegar að England leikur á HM? þannig að í dag er hann á botninum og komi svo rísandi í lok tímabils ? getur þetta verið… ef svo er þá er það soldið fúlt.

  17. Frábær pistill – átakanleg lesning.

    Sömuleiðis, ansi athyglisverður punktur hjá Mumma varðandi uppsagnirnar í sumar.

    Hvað er annars hægt að gera? Hvernig getum við rifið þetta upp?

  18. Frábær pistill, og svo mikið til í þessu öllu saman. En ég er búin að vera á þeirri skoðunar síðan fyrir síðasta tímabil að það eigi að reka Benitez, að vísu var ég auðvitað efins eftir að við náðum síðan 2 sætinu. En það sæti gefur okkur ekki neitt á þessu tímabili, og í dag er ég ennþá meira á því að Benitez sé komin á endastöð með þetta lið. Því miður, er það bara að koma í ljós núna.

  19. Tek undir allt saman sem Einar kemur inná. Hef tönglast á því að helsta vandamálið sé sjálfstraustið, því miður nær liðið sér aldrei á strik þrátt fyrir 1-2 sigra þá kemur þriðji sigurleikurinn aldrei. Það er bara staðreynd að miðlungsleikmaður með mikið sjálfstraust skilar meiru en stórstjarna án nokkurs sjálfstraust.

    Helsti styrkleiki Liverpool undanfarin ár hefur verið varnarleikur liðsins og þá meina ég alls liðsins. Því miður er hann í molum í dag, þrátt fyrir að liðið leiki með tvo varnarsinnaða miðjumenn og jafnvel bakverði í kantstöðum.

    Einn punktur sem ég myndi vilja koma einnig að er að Liverpool liðinu skortir tilfinnanlega meiri breidd. Aukaleikararnir sem hafa verið að koma af bekknum Eccleston, Voronin, Spearing, El Zhar og Degen eru einfaldlega ekki nægjanlega sterkir í ensku úrvalsdeildina. Myndi þó vilja sjá hvernig Pacheco myndi spjara gegn þeim bestu. Aldur skiptir engu ef getan er til staðar.

    Nú þegar Mascherano fer í 4 leikja bann verður forvitnilega hvernig Benitez leysir það. Það tryggir væntanlega Lucas sæti í byrjunarliðinu í næstu leikjum, en ég myndi gjarnan vilja sjá liðið fara í 4-4-2 með Aquilani og Gerrard á miðjunni eða þá sama taktík með sömu mönnum á miðjunni og Pacheco fyrir aftan Torres.

    Annað er að það vottar ekki fyrir leikgleði í leik liðsins, vissulega fylgifiskur þess að illa gengur en það breytir því ekki að menn eiga að geta haft gaman að því að spila fótbolta. Það fór virkilega í taugarnar á mér að liðið skildi ekki fagna markinu sem þeir skoruðu gegn Fiorentina og gaf liðið þá skýr skilaboð til tugþúsunda áhorfenda á vellinum að þeim væri skítsama hvort þeir ynnu eða töpuðu þeim leik. Það sem ég er eiginlega að reyna að segja ef leikmenn hafa ekki gaman af því sem þeir eru að gera, hvernig eiga þá aðdáendur liðsins að geta haft gaman að því að horfa á liðið??

  20. Frábær pistill.

    Sammála 99% af þessu. Hef samt eilítið meiri trú en Einar á að þjálfaraskipti myndu laga ástandið.

  21. Það væri réttast að láta Sherlock Holmes kanna málin hjá Liverpool.

  22. Frábær pistill. Þú kemur inná lykilatriði Einar þegar þú kallar út svokallaða mænu liðsins. Vissulega er Rafa ábyrgur gagnvart genginu og töp eins og það sem við sáum á laugardag skrifast alltaf að ákveðnu marki á stjórann.

    Það er hins vegar staðreynd sem við getum ekki flúið að ákveðnir leikmenn eru að bregðast trausti stjórans. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að það séu ekki leikmenn eins og Lucas og Insúa, sem eru að reyna sitt besta en eru of ungir/máttlitlir til að geta betur en þetta. Ég er að tala um þá sem eiga að geta verið klassa ofar en þeir hafa verið í vetur, og hafa margoft sýnt það: Reina, Carra, Agger, Aurelio, Mascherano, GERRARD, Kuyt, Torres. Það er erfitt að ætla Johnson að koma sér fyrir í nýju liði, eða Ngog eða Insúa að rífa þetta upp á sínum aldri, þegar lykilmenn eru ekki nálægt sínu besta.

    Það hefur einfaldlega ekki gerst í tíu ár að við höfum spilað fyrstu rúmlega fjóra mánuði tímabilsins án þess að fá einn týpískan „Gerrard-leik“, þar sem fyrirliðinn okkar einfaldlega tekur yfir og klárar leikinn fyrir okkur. En í ár hefur þetta gerst. Hann er aðeins með fjögur mörk, var kominn yfir tíu stykki á sama tíma í fyrra þrátt fyrir meiðsli, og virðist hvorki geta ráðið úrslitum af miðjunni eða úr holunni.

    Hér er hægt að tala um ábyrgð þjálfarans, eða sjálfstraust, eða heppni, eða ýmsa hluti, en á endanum snýst þetta um það að reyndir leikmenn eiga að geta varist hruni í spilamennsku þegar aðeins blæs á móti. Við vinnum Wigan-leikinn og byrjum betur en Portsmouth en af því að markið kemur ekki strax og þeir spyrna á endanum á móti hrynur allt hjá okkar mönnum. Það ætti ekki að gerast hjá reyndum mönnum eins og Gerrard, Carra, Agger, Kuyt, Mascherano og fleirum, en gerist samt, trekk í trekk í vetur.

    Eins og þú segir, þá má Rafa bæta margt hjá sér og vonandi eru menn að skoða af alvöru hvernig hægt er að byrja að laga hlutina sem eru að þessu liði strax í janúar, en í millitíðinni er kominn tími til að þessir lykilmenn sem eru að þéna fleiri milljónir í vikulaun fyrir að vera leiðtogar þessa liðs standi upp og spyrni aðeins á móti. Það hefur einfaldlega ekki gerst enn.

  23. Ég vakna hvern einasta dag og hugsa “Þetta er nú bara fótbolti!!”. Það virkar ekki. Ég næ ekki að ljúga að sjálfum mér.

    Góður pistill Einar.

  24. Þetta er frábær pistill og ég tek undir það sem höfundur kemur inná…

    Það voru blikur á lofti strax á unditbúningstímabilinu – Hver var stærsti munur á Liverpool liðini 08/09 og fyrri ár ? Mér fannst það vera leikgleðin, never say die andinn skilaði ansi mörgum stigum í hús. Nú er sagan önnur, andleysið er jafnáberandi og hið gagnstæða var á sama tíma í fyrra.

    Eitthvað hefur komið uppá, það bara hlýtur að vera. Ég las ágætan þráð á ynwa þar sem menn voru að beina spjótum sínum að Gerrard. Einn besti leikmaður sem hefur spilað fyrir Liverpool FC og er um marga góða að velja á milli – en ég bara verð að setja spurningarmerki við leiðtogahæfileika hans á þessum tímapunkti. Hann virðist ekki nenna þessu, síðast þegar við “ströggluðum” eins og við gerum núna, var á síðasta tímabili Houllier – þá dróg Gerrard okkur einn síns liðs í CL, við þurfum á því að menn eins og hann stígi upp – hætti í fílu og fari að sína smá hungur – annars gera þeir farið í Monaco.

  25. Það sést langar leiðir að Gerrard er leiður og áhugalaus. Liverpool er með svokallaðann “stjörnufyrirliða” og menn hljóta að leita mikið til hans á erfiðum tímum, maðurinn á að gefa fordæmi á vellinum og drífa aðra leikmenn liðsins áfram. Gerrard er sennielga búinn að átta sig á því að draumur hans mun ekki rætast, hann mun aldrei lyfta dollunni fyrir Liverpool.

    Ég held að þetta vonleysi hjá GERRARD hefur gríðarleg áhrif á liðið.

    Frábær pistill.

  26. Góður pistill Einar og ég er líka nokkuð sammála nr. 24 og 25. Án þess að ég vilji segja nokkuð slæmt um Gerrard, búinn að vera minn uppáhaldsleikmaður frá því að hann byrjaði að spila fyrir Liverpool, að þá er hann kannski ekkert svo sérstakur fyrirliði. Hann er oft ansi fljótur að setja hausinn niður í bringuna og maður sér hann ekkert oft vera að öskra á eða hvetja samherja sína áfram. Hans stærsti draumur er að vinna deildina og núna sér hann það að Liverpool á mjög mjög mjög langt í land með að komast nálægt því. Hans styrkur sem fyrirliði er sá að þegar hann spilar vel og líður vel að þá fylgir liðið með, þegar Gerrard brosir að þá brosa liðsfélagar hans einnig. Gerrard er hjartað í liðinu og í augnablikinu er hjartað ekki að funkera rétt.

  27. Miðað við að Sami Hyypia búinn að spila 16 af 17 deildarleikjum Leverkusen liðsins á þessu tímabili, þá þarf ekki að koma á óvart að Leverkusen er jólameistari í Þýskalandi.

  28. Fínn pistill.

    Eitt sem má velta vöngum yfir, þegar verið er að vega og meta hvort reka eigi stjórann eða ekki. Og það er sá punktur sem KAR og fleiri hafa bent á; að lykilmenn eru að bregðast stjóranum. Eru ekki að rífa sig upp, og eru að spila undir getu. En hvað þýðir það í rauninni ? Sumir gætu litið á það sem afsökun til handa Benítez (þið vitið hvað ég meina), á meðan enn aðrir, gætu einmitt sagt; Rafa er þá búinn að tapa búningsklefanum, og þá er þetta búið.
    Ég var úti í Liverpool, fyrir stuttu, og sá Arsenal leikinn. Þegar ég var að spjalla við vini mína og kunningja, sem dýrka og dá þetta lið, alveg eins og við… Þeir stóðu við bakið á Rafa, meðan klúbburinn gerir það, en þeir voru flestir sammála um, að ef Rafa Benítez sé búinn að tapa búningsklefanum.. þ.e. nær ekki lengur til manna eins og Gerrard, Carra og svo fr, þá sé þetta því miður búið hjá honum. Það þarf ekki endilega að gera hann að verri stjóra, og þarf ekki endilega að vera honum að kenna. En ef leikmennirnir skíta uppá bak trekk í trekk, og fara ekki eftir því sem hann segir…þá verður það því miður hann sem þarf að fara, en ekki þeir.

    Mér fannst andrúmsloftið breytast talsvert eftir Arsenal leikinn. Hörðustu menn voru komnir með bakþanka. Menn voru efins. Enginn er með töfralausnina, og hún þarf ekkert að felast í því að reka stjórann. En það varð mér ljóst að eftir Arsenal leikinn, þá urðu margir efins.

    Ef Rafa er búinn að tapa búningsklefanum, þá verður hann að fara,því miður. Ef hann hefur ennþá traustatak á búningsklefanum, þá ættum við að fara að vinna leiki… það hlýtur að vera…

    Insjallah…Carl Berg

  29. Bendi bara á Livorno, Napoli, Palermo og Roma á Ítalíu á þessu tímabili sem rekið þjálfara sína. Það hefur heldur betur skilað sér.

  30. Ég held að lykilatriði í þessu sé mórallinn. Hann er víst mun verri nú en áður innan leikmannahópsins. Guðlaugur Victor kom inn á það í viðtali í Moggnum um daginn.

    Aðeins eitt af möru samt. Glæsilegur pistill.

    Svo er hérna athyglisverðar setningar frá Guillem Balague, hvort sem menn trúa þessu eða ekki: “I know for a fact that Mourinho is very well informed about the financial situation at Anfield: he knows that in order for Liverpool to compete at the top in the wealthiest league in the world, new investment is needed but there is nothing on the horizon. Consequently, it is neither an attractive proposition nor an option for Jose.

    Liverpool has no money for January transfers, so Rafa’s target is to get key players – Gerrard, Torres and Aquilani – fit enough to contribute in a run of matches: allowing him to play his first choice team and notch up the four or five consecutive wins that will silence the critics.”

    Hann talar eins og Jose eigi bara að taka við þessu. Og að við kaupum ekkert í janúar.
    http://www.guillembalague.com/blog_desp.php?titulo=Why%20I%20am%20backing%20Benitez&id=382

    Hérna segir hann aftur á móti að sér finnist líklegt að Liverpool bjóði í Mata einhverntíman.
    http://www.guillembalague.com/rumores_desp.php?id=251&titulo=On%20Mata%20and%20Liverpool

  31. Það er alveg pottþétt að benitez var ráðinn af Man Utd til Liverpool 😉

  32. Pistill #30 er vísun í þann mann sem mest tengist alheimsboltanum utan Anfield og er einmitt sá sem gott er að lesa ef að maður vill fá alvöru “inside scoop” um liðið okkar.

    Mourinho hefur aldrei tekið að sér starf nema að vera viss um að eiga peninga til að kaupa þá menn sem hann vill, enda þarf hann þess alls ekki, hann einfaldlega getur valið úr störfum. Hann hefur m.a. sagt að hann vilji prófa að þjálfa í Þýskalandi áður en hann hættir, og þjálfa portúgalska landsliðið. Ég hef alveg trú á því að hann verði við stjórnvölinn hjá Bayern Munchen fyrr en seinna.

    Hin staðreyndin er auðvitað að við getum ekkert keypt í janúar nema við seljum og því stendur það eftir að:

    A) Lykilmennirnir okkar verða að hysja upp um sig og sýna það hvers vegna verið var að gera við þá svakalega langtímasamninga.

    B) Öll orka starfsmanna félagsins þarf að sýna fram á það að félagið sé góður kostur fyrir fjárfesta að koma að því.

    Þetta tvennt er lykilatriði svo að Liverpool verði samkeppnishæft 2012 – 2013 og 2016 – 2017. Auðvitað þarf að skoða þátt Rafa í því en hann hefur lagt traust sitt í hendur góðra knattspyrnumanna sem eru að bregðast. Ég veit að það þýðir oft að þjálfarinn fýkur, hversu sanngjarnt sem það er, en sá nýji mun ekki spila leikina, hann mun leggja traust sitt í sömu hendur. Þær hendur hafa ekki verið að virka vel.

    Svo ætla ég að leyfa mér að verja hér menn eins og Ecclestone og Spearing. Það er auðvitað fáránlegt að segja að þeir eigi ekki séns út frá því hvað við höfum séð til þeirra. Ecclestone lítur afar vel út meðal jafnaldra og í varaliðum, m.a. gegn mönnum sem United telja framtíðarsnillinga og Spearing mun allavega skila okkur milljónum í kassann. En þeir leysa ekki vanda liðs sem vantar sjálfstraust.

    Þar þarf “mænan” í liðinu að standa uppúr!

  33. Flottur pistill Einar.

    Fyrir tímabilið sá ég ekki Liverpool vinna deildina miðað við það hvernig sumarið spilaðist. Rök mín fyrir því er þau að leikmannahópurinn veiktist. Í sumar fóru frá liðinu fjórir leikmenn (tel Keane með) sem spiluðu stórt hlutverk í því að Liverpool náði öðru sætinu. Í staðinn fyrir þá komu leikmenn sem ekki eru jafn góðir nema jú Johnson. Mín tilfinning var og er sú að Chelsea vinni deildina þetta árið. Þeir voru eina liðið af topp fjórum sem styrkti sig milli tímabila auk þess að ráða til sín einn besta stjórann í boltanum.

    Varðandi tímabilið núna, þá vil ég meina að meiðsli og brotthvarf leikmanna sé stærsta vandamál liðsins og ástæða þess hversu ílla gengur. Á sama tíma í fyrra þegar Liverpool var í efsta sæti deildarinnar höfðu Alonso, Arbeloa, Keane og Riera spilað nánast hvern einasta leik. Þrátt fyrir að Keane hafi ekki náð sér á strik spilaði hann engu að síður 16 af 19 leikjum liðins á þessum tímapunkti. Brotthvarf Alonso varð miklu meira vandamál en nokkrum manni óraði fyrir. Hann var augljóslega heilinn á miðjunni og spil liðsins fór að mestu í gegnum hann. Kaup sumarins á eftirmanni Alonso algjörlega klúðruðust eins og þetta lítur út í dag. En það eru ekki bara Alonso sem fór, margir gleyma því að með honum fór Arbeloa sem er að mínu mati er betri varnarmaður en Johnson. Það hlítur að hafa áhrif á vörnina þegar hún missir leikmann sem búinn að spila með henni í einhver 3 ár og kann taktíkina upp á 10. Það er ekki að ástæðulausu að hann er í dag fastamaður í Real Madrid. Svo er það Riera sem spilaði stórkostlega fyrir liðið á fyrri hluta síðasta tímabils. Að mínu mati hefur Liverpool saknað hans mikið enda er sköpunin fram á við ekki mikil. Auk þess kemur hann með meiri hæð og styrk inn í liðið. Þarna erum við með fjóra leikmenn sem léku eins og áður segir nánast hvern einasta leik. Þrír af þeim voru að spila frábærlega á þessum tímabunkti. Það augljóslega munar um þessa leikmenn þegar horft er til árangurs í deild þetta tímabilið.

    Ofan á þetta er meiddist Skrtel í fyrsta leik og hefur ekki verið líkur sér eftir það. Og Aurelio meiddist í sumar og hefur spilað fá leiki af þeim sökum. Svo eru menn að velta fyrir sér afhverju liðið er að fá svona mörg mörk á sig. Gæti skýringin verið sú að þeir þrír leikmenn sem skipuðu sterkustu varnarlínu liðins á síðasta tímabili hafa ekkert spilað saman á þessu tímabili vegna sölu og meiðsla? Mín tilfinning er að svo sé.

    Kv
    Krizzi

  34. Held sjálfstraustið hafi farið þegar Man Utd vann enska deildina í seinasta tímabil og að Liverpool sé að lenda í því sama og Keflavík lend í þessari tímabil að hafa misst deildina frá sér í seinasta tímabil og það bætir ekki á því að Liverpool gat unnið sá 19 en Man utd jafnaði þeim með því 18 og varð því sigursælasta lið í ensku deildinni með Liverpol

  35. Frábær pistill hjá Einari eins og svo oft áður þegar hann opnar á sér þverrifuna. Fannst bara hálf erfitt að lesa þetta svona rétt fyrir jól en sannleikurinn er sár og við verðum bara að taka honum. Maður reynir að hætta að hugsa um þetta en því miður er það bara ekki hægt svo það eina sem maður getur gert er að vona það besta en því miður er bara ekki bjart framundan, líkleg ENGIR peningar til svo liðið verður ekki styrkt og maður er hræddur um að trúðarnir taki tilboði í Torres uppá 50-70 mills ef það kemur til að grynnka á skuldum. Hvar endar þessi klúbbur þá ef það gerðist og hugsanlega fleiri vildu fara í kjölfarið??? ætla ekki einu sinni að hugsa þá hugsun til enda….

  36. Góðir punktar Kristján, Hjalti, Carl Berg og krizzi. Hvað ertu að tala um Maggi, samkeppnishæft lið 2012-13 og 2016-17?

  37. Það sem ég er að meina með samkeppnishæfu liði þessi tímabil er í raun að það verður að koma fyrirtækinu á þann stall að geta verið samkeppnishæft til lengri tíma. Auðvitað skiptir máli að hrökkva í gang núna en stóra málið tel ég vera að það þarf að breyta fjármagnsflæðinu í kringum liðið þegar ljóst er að City er að bætast í hóp auðveldanna, og jafnvel fleiri lið eins og Villa og Tottenham.

    Við getum ekki reiknað með að við höldum sessi í topphópnum, hvað þá stefnt að toppsætinu nema að starfandi stjóri geti styrkt liðið með mönnum sem eru í alvöru klassa.

    Ég held að vonleysi Gerrard og jafnvel Torres sé til komið m.a. af þeim ástæðum að ekki virðist möguleiki á að fá alvöru styrk til liðsins. Hvort sem það er nú sanngjarnt hjá þeim eða ekki!

  38. Lið á að byggjast uppá 11 einstaklingum, Ekki bara nokkrum leikmönnum og það er alveg fráleitt að vera kenna Gerrard eða Torres um gengi liðsins. Það er voða erfitt að spila vel ef að hinir 9 leikmenn liðsins eru með allt niðrum sig ásamt framkvæmdastjóranum. Stjórinn velur liðið og treystir á leikmenn og ef þeir eru ekki að standa sig einsog Kuyt, Lucas, Insua og fleiri. Afhverju heldur hann þá endalaust áfram með þá í byrjunarliði? Afhverju prófar hann ekki aðra menn. Og hvað var málið á móti Porsmouth, með Dossena sem lítið hefur spilað á leiktíðinn á vinstri kanntinum. það þarf nú engan sérfræðing til að sjá það út að Porsmouth er lið sem hefur fengið lang flest mörk á sig í deildinni, en samt er hann með bakvörð í kanntstöðu? Hvað vakir fyrir manninum?

  39. “Ef að fréttir um peningastöðu Liverpool eru svo réttar, þá eykst vonleysið. Var það virkilega svo að Matthew Upson og Stevan Jovetic voru of dýrir fyrir Liverpool síðasta sumar?”

    Ef að lið neyðist til að kaupa kost Ö, Kyrgiakos, þá er ég hræddur um að þetta séu réttar fregnir.

  40. Sælir,

    var nauðsynlegt að kaupa varnarmann? Þetta Kyrgiagos dæmi er að mínu viti sóun á peningum. Það er nú bara í góðu lagi að vera með þá þrjá Agger, Carra og Skrtel. Nota svo Ayala til að fylla upp í. Ungu mennirnir verða að fá leiki.

  41. Ég sakna sami Hyypia alveg griðarlega. Hann var mjög mikilvægur í fyrra og ekki síður í stóru leikjunum. Held að nærvera hans á æfingum og í búningsherberginu hafi verið griðarlega mikilvæg.

    Við misstum heimsklassa leikmann og fengum ekkert í staðinn því Aquilani hefur bara verið meiddur. En hann á vonandi eftir að koma sterkur inn eftir áramót.

    Síðan hefur Gerrard verið langt frá sínu besta. Ásamt Dirk Kuyt og jafnvel Yossi Benayoun.

  42. já er búinn að heyra af þessum fundi á að vera klukkan 11 viet samt ekki hvort það sé eitthvað til í þessu

  43. Sælir félagar

    Góður pistill hjá Einari en í rauninni kemur ekkert nýtt fram í honum. Því má segja að þetta sé góð samantekt á því sem margir hafa verið að benda á undanfarnar vikur. Gott að fá það á einn stað.

    Hins vegar finnst mér Einar skauta dálítið framhjá hlut Rafa í ástandinu. Hlutverk hans er stærra en svo að það sé afgreitt í einni til tveimur málsgreinum. Rafa leikur stærsta hlutverk einstaklings í gengi liðisins. Bæði þegar vel gengur og eins þegar illa gengur. Enginn einn maður ber þar meiri ábyrgð.

    Því finnst mér vanta greiningu, í pistilinn, á hlut Rafa í stöðunni. Ég veit að það er og verður bara kremlólógía en það er samt eitthvað sem menn verða að skoða líka.

    Mér datt í hug þegar ég las þessa samantekt að leikmenn væru búnir að missa trúna, að Rafa væri búinn að “tapa Klefanum”. Einhvern veginn var það tilfinningin sem ég fékk við lesturinn. Johnson hefur farið aftur, Lucasi hefur ekki farið fram (honum getur varla farið aftur) Masca og Gerrard hengja haus, Carra heldur ekki einbeitingu, Torres er sínöldranndi, Johnson þorir varla fram fyrir miðju, Insua hefur farið jafnt þétt aftur í haust en lofaði góðu á síðasta tímabili, afar takmörkuð endurnýjun í inkomum og innáskiptingum leikmanna o. s. frv. Leikskipulag nánast geirneglt. En athugið, tími innáskiptinga hefur færst til???

    Þetta síðasta segir ef til vill ekkert um klefann en er mjög skrítið. Menn eins og Carra, Kyut og Lucas alltaf inná. Ef til vill vegna þess að þeir eru tryggir hvað sem á gengur?

    Hvað segir þetta um klefann og trú leikmanna á stjóranum? Segir þetta eitthvað um samskipti leikmanna og stjórans?

    Ef svo er og ef það segir að klefinn sé tapaður þá er ekkert í stöðunni annað en Rafa fari, því miður. Ég hefi beðið eftir því í allt haust, og trúað því, að taflið snerist við. En ekkert gerist. Þetta versnar bara ef nokkuð er.

    Því má ekki bíða öllu lengur með að gera breytingar. Það verður einfaldlega að setja mönnum, leikmönnum og stjóra, tímamörk. Setja þeim fyrir að vinna leiki eða Rafa verði rekinn. Þá er ábyrgðin komin á liðið líka og spurning hvort þeir vilja berjast fyrir stjórannum sínum, hvort þeir vilja hafa Rafa og hvort þeir styðja hann.

    Það er nú þannig.

    YNWA.

  44. PS.
    Ég hitti íslenskan þjálfara á dögunum sem sá Liverpool – Arsenal. Hann sagði að hann hefði ekki séð betur en leikmenn Liverpool skorti þrek, líkamlegt þrek til að klára leikinn????

    Sel það ekki dýrar en ég keypti en segi frá þessu í framhaldi af #43 Mansins að austan.

    YNWA

  45. Maður er að pikka upp slúður um að Bellamy vilji losna frá Man.City. Það er gæi sem ég myndi vilja sjá aftur í Liverpool-treyju. Alltaf fílað hann.

  46. Aðeins hvað varðar þetta slúður um fréttamannafund kl 11 í fyrramálið, þá var Paul Tomkins víst búinn að staðfesta á twitter-síðu sinni að það væri gabb. Sel það ekki dýrar en ég stal því.

  47. Aðeins út frá því sem Sigurkarl (nr. 47) kom inn á; ég hef stundum verið að velta þessu fyrir mér í haust þar sem mér finnst vanta alla snerpu í leikmenn. Þeir eru eins og langhlauparar oft á tíðum en snerpuna vantar. Er sami þrekþjálfari hjá liðinu og sl. leiktímabil? Einhver sem veit það?

  48. Góður punktur. Minnir að Klingsmann hafi kommentað á snerpuna, og ef maður pælir í því, hver í liðinu gæti tekið menn á á sprettinum?? einu sem mér dettur í hug eru Torres og johnson kanski. Þetta er bara of þunglamalegt lið. Svo má líka minnast á hvað Benitez hugsar um fótbolta sem of mikla stærðfræði, líkt og vitleysingurinn Pennant minntist á. Sést kanski vel á hvað glen johnson er steinhættur sínum hættulegu rispum upp kantinn enda eiga kantmenn ábyggilega ekki að fara svona langt útúr stöðu :/ Gæti líka útskýrt hvað Kyut heldur sinni stöðu í liðinu vel… hann gerir það sem lagt er fyrir hann, þá er bara spurning hvað sé lagt fyrir kantmenn hjá þessu liði þegar bakverðir eru fyrsti kostur í þær stöður??? Svo veit maður aldrei hvort leikmenn séu búnir að missa trúna á kallinum í brúnni… þeir hafa jú tilfiningar eins og við stuðningsmennirnir 🙂

  49. Rafa hefur fengið að breyta klúbbnum alveg eftir sínu höfði og ég held að hann sé orðinn ósnertanlegur þarna. Hann er búinn að raða öllum í kringum um sig og hefur allt stjórnskipulagið í hendi sér. Sé það rétt að hann hafi komið því í kring að reka fólk með langa starfsreynslu til þess að koma sínu fólki að, er ljóst að það fer ekki vel í þá sem eftir sitja. Þá eru menn ekki tilbúnir í brjálæðið sem þarf stundum til að halda hlutunum í gangi. Þetta er sálrænt atriði sem þarf að hafa í huga í umgjörðinni og skiptir miklu máli.

    Hitt er að ég held að Rafa sé búinn að tapa klefanum. Ég veit ekki alveg hvenær það gerðist en það er ljóst að brotthvarf manna í sumar hefur haft gríðarleg áhrif. Reynsluboltar fóru og amlóðar hafa komið í staðinn.

    Klúbburinn stendur því frammi fyrir því vandamáli held ég, að keisarinn er ósnertanlegur en leikmennirnir trúa ekki á hann. Ekki fer keisarinn út á völl og þar með þarf keisarinn nýtt blóð sem trúir á hann. Ekki getur eigandinn dregið upp seðlabúnt þannig að ….. það eina sem getur skeð er að það verða stórar hreinsanir á Anfield, mænan fer í burtu og kallinn byrjar með “nýtt fimm ára plan”.

  50. Ég hef látið mér duga að lesa commentin hérna,mörg eru góð og það mjög góð.Ég hef reynt að sannfæra mig að ÞETTA ER BARA FÓTBOLTI og það er afsökun sem ég ættla að halda mér við,svona til að friða sjálfan mig og eitt er öruggt og lífið heldur áfram þótt Liverpool gangi ekki sem best,og það kemur annað tímabil eftir þessu tímabili.

  51. Þeir sem eru að spá í snerpunni há Torres, mig minir að ég hafi lesið það einhverstaðar í haust að hann hefði fengið spes lyftingarprógram til að styrkaja fæturnar og með því myndi snerpan hjá honum minka eitthvað…en á móti kæmi að hann myndi ekki lenda í sömu meiðslum og hann hefur strítt við síðustu ár (í lærinu að mig minnir).

  52. Ég er að horfa á gamlann leik sem er verið að sína á LFC TV (tímabilið 2007/2008 gegn Everton á útivelli)…þegar Neville tekur markvörslu ársins eftir skot frá Lucas 😉 ) Þá vorum við með menn einsog Sissoko, Finnan, Hyppia, Riise og Voronin (og Babel á hægri kanti). Þegar ég ber saman spilið á spili liðsins í þessum leik og svo hvernig liðið hefur verið að spila frá því í haust hef ég tekið eftir því að í þessum leik er mun meira um stutt spil á meðan að liðið núna spilar mun lengri bolta og er með meiri þversendingar. Í liðinu núna eru nær sömu leikmenn og þá fyrir utan Finnan (höfum Glen), Hyppia (höfum Agger), Voronin (Höfum Torres) og svo erum við núna að nota Aurelio/Dossena/Yossi vinstra megin (Riera hefur verið það mikið meiddur að hann telst varla með á núverandi tímabili). Ég hefði talið að það lið sem er að spila núna sé mun betra í að spila boltanum stutt og í fæturnar heldur en það lið sem við höfðum fyrir ca 2 tímabilum síðan en samt sem áður virðist liðsskipanin vera að A) bomba boltanum fram (Kick and hope????) eða taka þversendingar frá miðju yfir á hinn kantinn. Er þetta taktík frá Benitez eða eru þetta leikmennirnir sem spila þetta sjálfir?

    Ég hef ávalt haft trú á því að Benitez sé maðurinn til að leiða liðið til 19,20,21 etc. deldartitils Liverpool en jafnvel ég, sem tel mig vera “gallharðann Benitez mann” fer að efast um hvort hann hafi A)næga stjórn á liðinu og B) sé að velja rétta taktík fyrir það lið sem hann hefur undir höndum.

    Ef ég væri Benitez (Þessa stundina óska ég þess stundum enda hef ég veirð ósammála Benitez með liðsuppstillinguna í “nokkrum” leikjum í vetur) myndi ég nýta næstu fjóra leiki til að prófa Gerrard-Masch miðju í 4-4-2 og vera með tvo sóknarmenn. Mér er nokk sama þótt það sé Torres og Kuyt eða Torres og N´gog… og jafnvel Babel eða þá jafnvel Voronin believe it or not, því ég tel að með því yrði sóknarþungi liðsins svo mikill að fá ef nokkur lið gætu staðist sóknir Liverpool. EN, það byggist á því að A)liðið pressi og pressi og pressi og gefi andstæðingunum engann frið og B) við spilum sem lið en ekki hópur af einstaklingum.

  53. Sælir Poolarar. Sammála flestu í þessari annars frábæru grein. Ég persónulega vill Rafa burt jafnvel þó það “gæti” haft nokkrar slæmar afleiðinar á liðið. Ég vill meina að margir ef ekki flestir af þessum fáu Spánverkjum séu hjá liðinnu vegna Rafa. Rafa þykir/þótti mikill snillingur á Spáni vegna árangurs hjá Valencia. Flestir landsliðsmenn bera mikla virðingur fyrir honum vegna góðs árangurs en þessi virðing virðist dafna.

    Þetta er að sjálfsögðu mín skoðun eins og flest skrif manna hér. Liverpool varð ekki spænsk nýlenda útaf engu. Rafa á höfundarrétt á því en hvað gerist ef hann fer? Ég vill ekki ímynda mér það. Torres, Aurelio og Riera verða ekki sáttir og það eiga flestir að vita. Það verður verk nýs knattspyrnustjóra að ráða fram úr því.

    Btw. Ég er að fýla skrif Sigkarls hér á blogginu og vill hann sem næsta nýja penna hér!!

    Kv. Steven

  54. Ég er ekki viss um að spánverjarnir fari þótt RB fari, en það sem mér finnst að, er sendingageta manna sé í slæmum málum og eins er það með að skjóta á rammann(sér í lagi að hitta á hann) og að leikmenn sé að vinna saman en ekki að bíða eftir að Torres eða Gerrard taki af skarið, menn virðast hafa misst trúnna á sjálfumsér, en annars góður pistill frá Einari Erni

  55. Áhugaverður punktur Sigkarl, mér hefur stundum fundist þetta líka en ég hef nú trú á því að þetta komi til vegna meiðslanna sem menn hafa verið að berjast við. Hrossalegkökuaðferðin virðist eftir allt saman ekkert hafa haft svo góð áhrif. Ég hef enga trú á því að vísindamaðurinn Benítez láti menn komast upp með að vera í lélegu formi svona að öllu jöfnu. En meiðslin spila sína rullu þegar 3-4 menn inni á vellinum eru í basli með þau.

  56. Eftir nokkur ár munu menn tala um hryllinginn rétt áður en Benitez fór og kraftaverkið sem þáverandi þjálfari hafi unnið við að hreinsa upp þær brunarústir sem Benitez skildi eftir sig í formi Kuyt, Babel, Dossena, Lucas og fleiri toppmanna.

  57. Djöfull ! Kristján Atli stal víst sönnum uppl. af Paul Tomkins……

    Var að vona að ég myndi vakna við góðar fréttir og Benítez væri farinn.
    Hugsaði um það í rúminu í örugglega hálftíma áður en ég drullaðist á lappir.

    Sem sagt hversu mikið ég hlakkaði til næsta leiks með Kuyt og Lucas kannski á bekknum en ekki pottþétt í liðinu.
    Gerrard að spila sinn besta leik. Ungu strákarnir Pacheco, Eccleston, Dalla Valle í hópnum. Eftir innkomu Pacheco um daginn kemur hann ábyggilega ekki við sögu aftur á tímabilinu. Típískur Benítez….. ( Ennþá að hugsa ) Carragher sýnir að hann á 1-2 góð tímabil eftir. Glen fer fram yfir miðju aftur. Benayoun mætir aftur. Babel gerir ekkert og er seldur. Skrtel endurtekur síðasta tímabil. Kaffi og ristað brauð með smjöri og osti og kavíar. uhhhh ok…… Eitt enn. Sjálfstraustið hjá liðinu kemur aftur !

    Draumórar !

    Áfram LFC !!!

  58. Ef að Benitez fengi 80-100 milljónir punda í janúarglugganum þá yrði ég fullviss að við myndum enda í topp 4. Það er alveg óþolandi að þurfa horfa upp á það að hann þurfi að selja leikmenn til þess að fjármagna önnur kaup. Ef við ætlum að gera alvöru atlögu að titlinum þá þurfum við að spreða á sannfærandi hátt. Ef það hefði verið gert í sumar þá værum við ekki í þessari stöðu sem við erum í dag.

  59. Mér finnst Arnar ekki málefnalegur… Segir bar einhverja vileysu og sér ekki dökku hliðarnar á málunum.

  60. Frábær samantekt hjá þér Einar. Eins og vanalega þá klikka pennarnir hérna ekki.

    Þetta er allt dapurlegt, 8 sæti og alltof mörg stig í þetta blessaða 4. sæti sem menn sækjast eftir. Ég verð að viðurkenna að ég deili ekki bjartsýni Rafa um að við munum ná þessu blessaða 4. sæti. City að fá mjög góðan þjálfara, Aston Villa og Tottenham virðast ekki vera að gefa neitt mikið eftir og Birmingham hefur 40 milljónir punda til að kaupa nýja leikmenn. Svo er bara nokkuð gefið að Chelsea, United og Arsenal taki efstu 3 sætin. Þannig AÐ við erum í neðsta sætinu af þeim 5 liðum sem munu koma til með að berjast um þetta 4. sæti. Erum veikan hóp þessa stundina með nákvæmlega ekkert sjálfstraust og við erum búnir að tapa 7 leikjum, hálft tímabilið ennþá eftir. Það er nokkuð ljóst að við erum ekki að fara að vinna alla leikina sem eftir eru þótt Lucas vilji meina að það sé það sem þarf að gera, réttilega.
    Svo koma fréttir núna sem koma svosum ekki á óvart. Rafa þarf að selja í janúar til að kaupa. hmmmmmm. Þeir leikmenn sem nefndir eru, eru reyndar leikmenn sem ég vil losna við. Babel, Voronin, Degen og Dossena. Hverju sem því líður þá erum við í stórkostlegum vandræðum, því verður ekki leynt ! ojbara og neitakk…… plíííííísssss efnahagskreppa hættu og olíubarón komdu og kauptu okkur. Mér er alveg sama hvaðan þú kemur 🙂

    YNWA

  61. Hvernig er hægt að keppa við svona vitleysu. Chesea hefur 55 millur til að eyða í janúar. Við þurfum að selja menn til að kaupa eitthvað.

    Klúbburinn er því miður bara orðinn meðal klúbbur í ensku deildinni með mikla sögu. Við vinnum ekki titil aftur fyrr en einhverjir alvöru peningar koma inn í klúbbinn.

  62. Er ekki bara eitt vandamálið af mörgum að enginn veruleg samkeppni hefur komið í formi leikmanna. Leikmenn sem voru kannski að spila yfir getu á síðasta tímabili er bara komnir í kósý fíling. Halda kannski að þeir þurfi ekki að hafa eins mikið fyrir hlutunum?

  63. Sé ekki betur en að meistarinn sé þarna að taka undir það sem svo margir hafa verið að segja hér á spjallinu.
    Það eru leikmennirnir sem þurfa að fara að girða sig í brók.

  64. Ég hef ekkert blandað mér í þessa umræðu vegna anna.

    Allavegana, það er svo sem ekki mikið sem þarf að svara. Kannski einna helst að takmarkið með þessum pistli var ekki að vera einhver varnarræða fyrir Benitez. Ég vildi bara fá að skrifa um eitthvað annað en Rafa. Hann á sök á fulltaf hlutum, en það er fáránlegt að liðið geti ekki klárað lið einsog Portsmouth.

    Nákvæmlega það sama og t.d. Torres er að segja í viðtalinu sem menn eru að benda á hér. Leikmenn geta ekki skýlt sér á bakvið Benitez eða eigendur, þeir verða einfaldlega að gera betur. Stjórnin og stjórinn eiga að klára sín mál, en á meðan verða leikmennirnir að gera eitthvað líka.

  65. Mjög góður pistill…finnst hann engu að síður aðeins og svartur. Ég er t.d. ósammála um að Torres hafi brugðist algjörlega. Hefur verið mjög mikið meiddur en samt hefur hann skorað 10 eða 11 mörk. Benayoune hefur heldur ekki algjörlega brugðist, hann hefur á misgóða leiki, en verið einn af bestu mönnunum. Aðrir hafa að mestu leyti klikkað…veit reyndar ekki með Reina.

    En sjálfstraustið vantar algjörlega og ef okkar menn fara ekki að taka sig saman í andlitinu sé ég ekki annað en að þeir tapi bæði fyrir Villa og Totenham…og þá meistaradeildin farin á næsta ári.

  66. Legg til að við prjónum handa þeim ullarnærbuxur, lopasokka og hlýraboli – ALLT ÚR ÍSLENSKRI ULL og sendu þeim það virrkar :c)

    …bara til að legga mitt á vogarskálarnar, hef sagt það legni og segi enn, ÞIÐ HLUNKAR SEM ERUÐ MEÐ MILJÓNIR Í LAUN ÆTTUÐ AÐ SKAMMAST YKKAR FYRIR FRAMMISTÖÐU YKKAR Á VELLINUM. Ég heimta slátrun þann 26.12.09 og mér er nokk sama hvort þið fáið ykkur… hvað sem er fyrir leikinn, þið sýnið okkur bara hversu mikklir aular þið eru ef þið getið ekki unnið síðasta leikinn á árinu og komið svo saddir, sælir og vel skeindir í fysta leikinn á nýja árinu 2010 með ennnnnnnþá meiri hörku og fjöri, ekki bara að við eigum það skilið sem aðdáendur heldur allur HEIMURINN Á ÞAÐ SKILIÐ – VIÐ ERUM FLOTTASTA FÓTBOLTA FÉLA Í SÖGUNNI – MEIRA EN MARGIR AÐRIR GETA SAGT.

    Hef verið stuðningsmaður og aðdáandi LIVERPOOL frá 5 ára aldri og það kemur sko ekkert annað til greina, ef ég þarf að fara að láta sjá mig á Anfeild þá verðu það bara að vera svo, stefni á völlinn á nýju ári með pompi og prakt.

    Kæru Liverpool vinir og vinkonur, ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári – megi R A F A vera með ykkur um hátíðirna.

    Avanti Liverpool – R A F A – http://www.kop.is

  67. Ég hef verið bjartsýnn að ná 4. sætinu hingað til. Nú fyrst er það að breytast. Gerrard þunglyndur og sjálfstraustið fjarri. Svo rak ég augun í það, mér til mikillar skelfingar að hópur Tottenham (sem dæmi) er ekki síðri en okkar. Því er ég skíthræddur við þetta tímabil og ansi hreint svartsýnn á framtíðina.

    Pistillinn er flottur. Mér sýnist tvennt verða að gerast öðru fremur:
    1. ná topp fjögur. Fá þannig seðla og tilgang fyrir stjörnur okkar að stefna á meitaradeild og ná að lokka einhver nöfn til okkar.
    2. Fá nýja eigendur og aftur, fá þannig SEÐLA.

    Því miður að þá snýst þetta allt saman um seðla. Rafa eða ekki Rafa er tómt mál að tala um ef enginn peningur er til. Mourinho myndi ekki sigra heiminn á Anfield með kaupmátt á við Íslending. Án penings taka aðrir klúbbar fram úr okkur fyrr en seinna. Því miður.

    Áfram LFC

  68. Mig langar bara að koma því að hérna að þið sem eruð að skrifa pistla hérna eigið heiður skilið fyrir hvað þið eruð góðir pennar…. ég kem daglega hér inn og les það sem menn eru að segja en set ekki endilega eitthvað inn bara til að setja það inn. Mér finst umræðan hér stundum einkennast af einhverskonar skítkasti á milli manna, (má vera að um sé að kenna slöku gengi okkar manna sem veldur pirringi hjá mönnum) en held þó að við verðum að virða skoðanir annara, enda viljum við að okkar skoðanir séu virtar… Þessi pistill hér að ofan er að mér finst hreint mjög vel skrifaður og má pistla höfudur vera stoltu af honum… Ég kemst ekki hérna inn fyrr en eftir jól og langaði bara að kasta kveðju á ykkur alla og óska ykkur Gleðilegra Jóla og hafið það sem allra best…

    Áfram LIVERPOOL

  69. Flott grein en svarið sem enginn virðist sjá er samt það augljósasta. Liverpool náði alltof mörgum stigum á síðustu leiktíð miðað við getu. Ég nenni nú ekki að fara yfir alla leiki síðustu leiktíðar en leiktíðin byrjaði svona:
    1.leikur: Sigur á Sunderland úti 0-1 þar sem L´pool skorar á 83 mín, þeir fengu alveg færi til að komast yfir en sigurinn stóð ansi tæpt.
    2.leikur: Heimasigur gegn Boro, Mido kemur þeim yfir á 70mín. Carragher á skot á 85.mín sem er á leið í innkast þegar hann fer í belginn á Pogatetz og inn. Gerrard skorar svo á 92mín. Mjög tæpt, ósannfærandi og algjör heppni.
    3.leikur: 0-0 gegn A.Villa úti, L´pool að mínu mati stálheppnir að stela stigi.
    4.leikur: 2-1 sigur gegn United, nokkuð góður leikur en heppnin með L´pool. Eitt sjálfsmark og rautt spjald á United landaði sigrinum.
    5.leikur: 0-0 gegn Stoke á heimavelli. Vorum óheppnir með dóm sem hefði breytt leiknum.
    6.leikur: 0-2 sigur á Everton úti, þarna hefði Carra átt að fá á sig víti, man því miður ekki á hvaða stigi í leiknum.
    7. leikur: 2-3 sigur úti á City. Þeir komast 2-0 yfir en fá rautt á sig og L´pool sigrar. Það þurfti rautt spjald á mótherjann til að landa þessu.
    8. 3-2 heimasigur á Wigan. Þeir eru 1-2 yfir þegar þeirra maður fær rautt spjald. Það þurfti rautt spjald ámótherjann til að landa þessu.

    Fyrir utan þetta spilaði Liverpool 9 x hluta af deildarleikjum manni fleirri.

    Liverpool tapaði ekki leik gegn Chelsea, Man Utd eða Arsenal, þar af fullt hús gegn Chelsea og United. 12 stig þar sem ekkert lið getur reiknað með að staðaldri.

    Það sem ég er að reyna að segja er að mínu mati endaði Liverpool síðustu leiktíð með 10-14 stigum meira en geta þeirra sagði til um. Erfitt að mótmæla því núna því þó svo að liðið hafi misst Alonso, þá missti United Tevez og Ronaldo og Arsenal seldi Adebayor og Toure. En aðeins eitt þessra liða er að spila bæði lélegann, leiðinlegann og árangurslausann fótbolta.

Portsmouth 2 – “Liverpool” 0

Ársverðlaun 2009 … eða þannig