Jæja, eftir frábæra helgi í mekku knattspyrnunnar á Englandi, Liverpool-borg, er ég kominn heim og reiðubúinn að festa helgina niður á blað. En fyrst langar mig til að þakka Benna fyrir frábæra innkomu af bekknum ? hann hélt uppi heiðri síðunnar um helgina í fjarveru okkar Einars og miðað við skrif hans sýnist mér hann hafa verið hæfur til starfsins og vel það. Þá er ég meira og minna sammála öllu sem hann segir í leikskýrslunni, sem er mjög góð. Takk fyrir kóverið Benni, and don?t be a stranger in the near future… 🙂
Nú, ég sem sagt flaug til Englands á föstudagsmorgun og sneri aftur heim eftir tafir vegna veðursins í Keflavík seint í gærkvöldi, á sunnudag. Ég ætla ekki að skrifa um hverja einustu mínútu sem ég eyddi í Liverpool heldur frekar að drepa niður á áhugaverðustu uppákomum hvers dags ? bæði knattspyrnulega séð og bara frá sjónarhorni ferðamannsins. Vonandi verður þetta ekki of langt og vonandi hafið þið gaman af lestrinum. Og hefst þá ferðasagan…
[UPPFÆRT: Vegna erfiðleika/vankunnáttu koma myndirnar ekki inn í kvöld. Vonandi þó á morgun eða seinna í vikunni… -Kristján.]
FÖSTUDAGUR
Hópurinn lenti í Manchester um 12:05 á föstudegi og eftir stutta rútuferð milli tveggja borga sem virkilega hata hvor aðra (um 50 mínútur í rútu) var liðið búið að tékka sig inn á hótelið um kl. 14. Eftir það tvístraðist hópurinn, menn fóru í sínum grúppum hver í sína átt. Ég ferðaðist að þessu sinni með föður mínum ? sem ber alla ábyrgð á Liverpool-dýrkun minni ? og Hauki bróður sem er fjórum árum yngri en ég. Bara svo að þið vitið hvaða menn þið eruð að horfa á á myndunum úr ferðinni.
Það fyrsta sem við veittum athygli í borginni var hótelið okkar og nánar tiltekið staðsetningin á því. Hótelið okkar heitir Premier Travel Inn og er staðsett á stað sem er kallaður Albert Docks, eða einfaldlega Albert-höfn. Þessi staður, þetta svæði við austurbakka Mersey-ánnar er alveg lygilega flottur. Albert-höfnin er í raun bara eins og stór bygging sem nær sex hæðir upp og hefur fjórar hliðar ? en síðan er síki inní miðri byggingunni. Þannig að í staðinn fyrir ein stóran tening höfum við þess í stað eitthvað líkara hnefaleikahring, þar sem fjórir veggir umlykja stórt og mikið síki sem skipin sigldu inn í (undir fellibrú) í gamla daga og hlóðu á og af varningi sem geymdur var í húsinu. Þessu húsi hafði síðar verið breytt í íbúðarhúsnæði þannig að það hýsir nú einhver þrjú hótel, að minnsta kosti fimm bari/veitingastaði sem ég gat talið og nokkrar verslanir. Auk annarra hluta. Þetta hús er einfaldlega alveg lygilega flott og það er ljóst að þegar ég heimsæki Liverpool-borg næst þá mun ég leggja mig fram um að redda gistingu á þessu svæði, þar sem það er algjör snilld.
Næst var haldið í bæinn og þar eyddum við föstudeginum meira og minna öllum. Það er vert að taka það fram að í Liverpool-borg eru um 35,000 krár og pöbbar … og ég er nokkuð viss um að ég hafi séð um 34,993 af þeim á föstudeginum. Með öðrum orðum, við gengum fleiri kílómetra á föstudeginum og settumst inná hátt í 10 mismunandi staði yfir daginn. Við borðuðum kvöldmat á The Golden Phoenix á Hanover-stræti, sem er kínverskur staður. Mér fannst hann mjög góður nema hvað þjónustan hefði mátt vera ögn betri. En samt fínn staður. Af kránum fannst mér síðan Flanagan?s – írskur staður á nýja torginu við hliðina á opinberu Liverpool FC versluninni ? og Barracuda á Hanover-stræti standa upp úr. Barracuda er í raun bara eins og stækkuð útgáfa af Players eða álíka sportbar, og við fórum aftur þangað í gær til að horfa á Southampton ? Everton innan um heilan helling af fólki í bláum Everton-bolum. Pössuðum okkur að fagna ekki of mikið þegar Southampton skoruðu … en samlokurnar og kjúklingastrimlarnir á Barracuda eru mjög, mjög góðar með boltanum! Flanagan?s á móti er mjög einfaldur staður, gamaldags krá þar sem allt er úr viði og allt er út um allt. Það sem þessi staður hefur með sér er stemningin, en hún er engu öðru í borginni lík. Á hverju kvöldi fyllist þessi krá af Írum sem drekka yfir sig af Guinness og Bitter og syngja og dansa Riverdance-dansana sína fram eftir. Og að lenda þarna á föstudegi er bara snilld! Mæli pottþétt með að fólk tékki á þessum tveimur stöðum þegar það á leið þarna um.
Við kíktum einnig á The Cavern Club, þar sem Bítlarnir hófu feril sinn eins og frægt er orðið. Þessi klúbbur er mjög spes, þú gengur inn um dyr sem bera ekki lítið með sér og síðan niður stiga … hring eftir hring þangað til þú ert kominn einhverja 20 metra undir yfirborðið. Þessi stigagangur er allur svartur, svartir veggir og svart handrið og allt mjög dökkt og drungalegt þangað til þú kemur alla leið niður. Þar taka við svartar dyr sem liggja inn í hálfgerðan neðanjarðarhelli sem hefur verið hlaðinn með múrsteinum á sínum tíma. Þarna hófu Bítlarnir ferilinn, spilandi í litlu skúmaskoti við annan enda hellisins, sem síðan virðist teygja sig endalaust innúr til hægri. Burðararkirnar í loftinu og þykkir bitarnir sem standa niður á gólfið virðast skipta staðnum í endalaus lítil og dimm hólf sem ljá staðnum mjög sérstakan blæ, ólíkt öllum öðrum klúbbum sem ég hef séð um ævina. Það var ekki aðeins mjög fróðlegt að heimsækja þennan sögufræga stað ? sem er hálfgerður hornsteinn rokksögunnar ? heldur fannst mér upplifunin vera mjög spes líka. Ef það er eitthvað við Liverpool-borg sem er ómissandi fyrir þá sem hana heimsækja, þá er það þessi staður.
Eftir mikið bæjarrölt og smá verslun í miðbænum (Disney-búðin stendur alltaf fyrir sínu, sem og opinbera Liverpool FC verslunin) gengum við niðureftir og yfir á Albert Dock, þar sem við tylltum okkur inn á Blue Bar & Grill. Það höfðu nokkrir af vanari Púllurunum mælt með þessum stað við mig áður en við fórum út, og það var aðallega af tveimur ástæðum: af því að þetta er sagður vera einn allra besti staðurinn í Liverpool og af því að leikmenn Liverpool FC sjást gjarnan á þessum stað. Á neðri hæðinni, þar sem gengið er inn, er ofboðslega flottur og stílískur bar þar sem einn glerveggurinn vísar inn í Albert Dock-síkið og hinn vísar út á götu, en uppi er síðan alveg frábær veitingastaður. Þarna fengum við okkur nokkra lokadrykki (og skot) áður en við gengum út og fyrir hornið (bókstaflega bara 150 metrar frá Blue Bar og yfir á hótelið, enda í sömu byggingu!) og upp á hótel. Þar slakaði maður á með smá vatn inná hótelherbergi áður en farið var að sofa um 1-leytið eftir miðnætti. Frekar snemma, en við vorum búnir að vera á röltinu í einhverja 10 tíma þegar hér var komið sögu og vildum vera ferskir fyrir laugardaginn.
LAUGARDAGUR
Ég mun fjalla um leikinn sér í lok þessarar sögu, hér ætla ég bara að fjalla um það sem gerðist af viti á laugardeginum. Við vöknuðum um 9-leytið og fórum niður í týpískan ?English Breakfast? á hótelbarnum. Þaðan fórum við yfir á Bítlasafnið, sem er líka í Albert Dock-byggingunni og nákvæmlega við hliðina á hótelinu okkar, bókstaflega bara 20 skref á milli innganga eða eitthvað álíka! Þar gengum við inn um 10-leytið og skemmtum okkur mjög vel.
Safnið er mjög flott, maður fær mp3-spilara til að hlusta á hálfgerðan digital-leiðsögumann um leið og maður gengur eftir minningarstíg þessarar frægustu hljómsveitar allra tíma. Margt af því sem getur að líta þarna vissi ég fyrir, sem mikill tónlistarunnandi, en það var einnig margt þarna sem kom mér á óvart. Ég vissi t.d. ekki að John Lennon lærði upphaflega á gítar með banjóstrengjum og kunni lítið sem ekkert að spila á gítar þegar Bítlarnir hófu að spila saman. Þá vissi ég ekki að Brian Epstein, umboðsmaður Bítlanna, hefði dáið af of stórum skammti af þunglyndislyfjum. Hélt einhvern veginn alltaf að það hefði verið hjartaáfall eða eitthvað álíka, enda opinber dánarorsök sú að hann lést ?af slysförum?. En svona var fróðlegt að ganga um safnið og upplifa bæði stemninguna og nándina við ?The Fab Four? og ekki síst í ljósi þess að ég hafði heimsótt The Cavern Club kvöldið áður.
Tvö síðustu herbergin komu síðan sérstaklega mikið við mig ? John Lennon var alltaf uppáhalds Bítillinn minn og þegar ég gekk inn í herbergi sem heitir ?Through the eys of John Lennon? þá var ég í essinu mínu. Þar færðu að líta á vegg í gegnum gleraugu sem John Lennon bar á meðan hann lifði, og þegar þú lítur í gegnum glyrnurnar (hann var greinilega fjarsýnn, glerið minnkar það sem fyrir augu ber) sérðu textann við lagið ?Imagine? á nokkrum tungumálum, málað í eldrauðum og appelsínugulum litum ofaná sólbjartan bakgrunn. Einhvern veginn fannst mér þetta vera akkúrat í anda Lennon. Síðasta herbergið heitir síðan einfaldlega ?Imagine? en þar hefur verið endurskapað hvíta herbergið fræga, stofan heima hjá John og Yoko Ono þar sem hann sést spila ?Imagine? á hvíta píanóið sitt í myndbandinu við það lag. Þarna gefst mönnum smá tími til að íhuga þann ofbeldisfulla dauðdaga sem þessi talsmaður friðar og ástar hlaut, um leið og maður virðir fyrir sér teikningar Lennons af sjálfum sér og Yoko á veggnum og hlustar á þetta lag, sem er pottþétt eitt það allra besta sem hefur verið samið. Það var ekki laust við að ég kæmist við, enda hef ég persónulega alla ævi átt erfitt með að skilja hvernig menn eins og John Lennon og Ghandi gátu fallið fyrir byssuskotum á meðan Ronald Reagan og 50 Cent voru ?bara? særðir. Af fjórum þá veit ég hverjir hefðu þjónað heiminum betur með því að fá að lifa lengur. En nóg um það.
Að Bítlasafninu loknu settumst við inn í leigubíl fyrir utan hótelið og ég sagði töfraorðin: ?Can you take us to Anfield Road, please?? Bílferðin tekur rétt um 5 mínútur en völlurinn er staðsettur norður af Albert Docks og lengra inn og upp í borgina. Þegar við vorum komnir að vellinum byrjuðum við á því að ganga hringinn í kringum hann, skoða Shankley-hliðin (?You?ll Never Walk Alone?) og Hillsborough-minnismerkið, þar sem eilífi eldurinn logar. Þá verslaði ég mér derhúfu af einhverjum heimamanni fyrir utan völlinn og Hillsborough-trefil inná upplýsingastofu/verslun Hillsborough Foundation, sem staðsett er beint á móti Kop-stúkunni fyrir utan völlinn. Að lokum, eftir að hafa heilsað rækilega upp á völlinn og allt sem honum tilheyrir utanfrá settumst við inn á krá sem er staðsett Kop-megin alveg við völlinn. Þar svöluðu menn þorsta sínum og heilsuðu upp á aðra Púllara úr ýmsum áttum, enda staðurinn pakkfullur af rauðum treyjum og treflum.
Þegar klukkan var orðin um 12:30 eða svo fórum við upp að innganginum við Main Stand, þar sem fyrirmennin ganga inn í VIP-stúkurnar og leikmenn liðanna mæta í rútum við leikmannainganginn. Um klukkustund síðar mættu liðin, fyrst Fulham-rútan og svo loks Liverpool-rútan og ég náði að sjá alla leikmennina ganga inn og náði góðum myndum. Þetta er mjög afmarkað svæði og maður hefur aðeins um tveggja-metra-glugga til að líta hetjurnar augum, og ekki gerir það verkið auðveldara að flestir stökkva bara út úr rútunni og skokka beint inn í göngin. Flestir, en ekki allir. Ég hef sagt það áður og segi það aftur, að Jamie Carragher er snillingur. Hann gekk síðastur leikmanna út úr Liverpool-rútunni, stöðvaði í neðsta þrepi rútunnar og leit í kringum sig, gaf þumalinn-upp merkið og brosti og gekk síðan rólega inn í göngin … eins og einhver gangster sem er flottastur og veit af því. Carra er Legend og ég sá mjög vel bæði þarna, og síðan inná vellinum, af hverju hann er svona rosalega vel liðinn af stuðningsmönnum liðsins.
Eftir að liðin voru komin á svæðið fórum við inná völlinn, um klukkutíma og kortér fyrir leik, og fengum okkur pylsu og kók í sjoppunni undir sætunum okkar. Við vorum með sæti í Main Stand og talsvert til hægri, alveg við hornfánann þar sem Main Stand og The Kop Grandstand mætast. Það voru svona tvær raðir fyrir neðan okkur og síðan bara hornfáninn, við vorum í algjöru stúkusæti fyrir allt sem gerðist á vallarhelmingnum nær okkur, eins og myndirnar ættu að gefa mjög greinilega til kynna. Þannig að við sáum mörkin hjá Cole, Hyypiä og Baros rosalega vel sem og nær allt sem gerðist á hægri kantinum hjá García, Finnan og Baros í seinni hálfleik.
En allavega, við settumst og eyddum síðasta klukkutímanum í að meðtaka andrúmsloftið og ná myndum, bæði af okkur sjálfum og af liðinu í upphitun. Það var erfitt að ná myndum af aðalliðinu þar sem þeir hituðu upp við hliðarlínuna hinum megin frá okkur séð, en markverðirnir og varamennirnir hituðu upp beint fyrir framan okkur og ég náði frábærum myndum af þeim.
Besta augnablikið fyrir leikinn kom síðan þegar fimm mínútur voru til leiks. Þá slökktu vallarstarfsmenn á popptónlistinni og settu þjóðsöng Púllara á fóninn. Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur, það er ekkert sem jafnast á við það að standa á Anfield og syngja ?You?ll Never Walk Alone? hástöfum ásamt 47 þúsund manns! Þetta er einfaldlega yndisleg stund í lífi hvers aðdáanda liðsins, allar hendur á lofti (og margir treflar) og kórinn í fullri sveiflu! Um leið og lokalínan í laginu hafði verið sungin hófst mikið klapp og fögnuður um leið og liðin gengu inn á völlinn, fullkomin byrjun fyrir leikinn…..
…..eftir leikinn fórum við út af vellinum, en furðuvel tók að tæma hann, og eftir að hafa ákveðið að ganga niðrí bæ (það er ógerlegt að fá leigubíl eftir leik!) þá settumst við niðrí miðbæ inná stað sem heitir The Italian Kitchen og er svona léttur, ítalskur veitingastaður. Pítsan þar er frekar skrýtin, öðruvísi en maður er vanur en hún var mjög góð og kærkominn biti eftir langan dag. Síðan gengum við áfram í átt að Albert Docks í gegnum miðbæinn og komum að sjálfsögðu við á eins og tveimur krám eða svo, þar á meðal O?Neill?s sem við höfðum einnig heimsótt daginn áður. Góð krá það. Enduðum svo um tveim tímum eftir leik heima á hóteli, þar sem menn gátu hresst uppá útlitið og skipt um föt og slíkt. Íslendingarnir ætluðu að hittast á Blue Bar & Grill í kvöldmat og þangað fórum við eftir stutta, en góða hvíld. Þegar við mættum á staðinn voru nokkrir þegar mættir og við sátum á barnum niðri á meðan við biðum eftir að restin mætti. Á meðan sagði Jósep Svanur fararstjóri Liverpoolklúbbsins mér að hann hefði hitt Rafa Benítez sjálfan á leiðinni inn á staðinn, aðeins 10 mínútum áður en ég mætti sjálfur.
Nú, við settumst upp á aðra hæð við langborð og það var greinilega mikið af Íslendingum á staðnum þetta kvöldið. Maturinn var afbragðsgóður og þjónustan öll til fyrirmyndar og það var ekki að sjá annað en að menn hefðu flestir skemmt sér vel (þótt örlað hefði verið á ofurölvun hjá tveimur eða þremur, sem voru nærri því komnir í kast við útkastarana á einum tímapunkti). Á heildina litið skemmti hópurinn sér samt rosalega vel og það var ekki fyrr en um miðnættið, þegar veitingastaðurinn uppi lokaði, að hópurinn færði sig niður og hélt áfram að panta sér drykki þar. Eitt skemmtilegasta atvik ferðarinnar gerðist uppi á annarri hæðinni þegar, í miðjum matnum, við sáum þá félaga Emile Heskey og Salif Diao koma gangandi framhjá borðinu okkar. Sumir stukku til og tóku myndir en ég var því miður myndavélarlaus þegar þetta gerðist. Það var samt skrýtið að sjá þá tvo saman og svona nálægt manni, en minnti mann um leið á að þessir gæjar eiga sér líf utan Liverpool FC og þótt þeir séu nú báðir búnir að yfirgefa klúbbinn þá eru þeir greinilega nógu miklir vinir til að stunda samskipti utan vallar.
Kvöldinu lauk svo eiginlega á Blue Barnum, neðri hæðinni þar sem maður stóð frameftir við barinn við drykkju og hitti marga skemmtilega kálfa, bæði heimamenn og svo hressa Norðmenn sem vildu endilega segja okkur að Jonny Riise væri langbesti leikmaðurinn í deildinni, Norður-Íra sem voru ótrúlega ánægðir að heyra að ég hafði spilað á Mil Cup á N-Írlandi ?94, og svona mætti lengi telja. Á endanum staulaðist maður þó út af barnum og þessa 150 metra upp á hótel, þar sem menn sofnuðu vært eftir einn besta dag sem ég hef upplifað!
SUNNUDAGUR
Eftir morgunmat fórum við svo í síðasta sinn í bili upp að Anfield til að kíkja á Liverpool-safnið og svo í skoðunarferð um völlinn. Safnið er ágætt, átti samt í raun von á örlitlu meira, en það var gaman að fá að sjá alla titlana sem Liverpool hefur unnið og svona. Skoðunarferðin var síðan mjög skemmtileg, og eiginlega ómissandi, þar sem maður fékk að skoða búningsaðstöðu liðanna beggja og dómaraherbergið, sem og viðtalsherbergin og loks göngin niður á völlinn. Auðvitað lét maður taka myndir af sér snertandi ?This Is Anfield?-skiltið og svona áður en haldið var út á völlinn. Þar settist hópurinn niður í varamannaskýlunum, ég sat í sætinu sem Pako Ayesteran er vanur að sitja í við hlið Rafa Beníez, en það sæti var autt … það dirfðist enginn að setjast þar. Það sæti tilheyrir ?the gaffer?. Við fræddumst um sögu vallarins og fórum svo yfir í The Kop Grandstand, fræddumst um sögu þeirrar einstöku stúku og maður tók myndir alls staðar. Síðan var skoðunarferðinni lokið og við gengum ánægðir út á götu og kvöddum Anfield að sinni.
Eins og áður sagði þá fórum við þaðan niður á Hanover-stræti þar sem við feðgarnir þrír tylltum okkur inná Barracuda-barinn, fengum okkur að borða samlokur, franskar og kjúklingastrimla á meðan við horfðum á Southampton yfirspila Everton en missa sigur niður í jafntefli á lokasekúndunum. En við erum samt ?bara? 5 stigum á eftir Everton eins og staðan er í dag, eitt jafntefli í viðbót hjá þeim og þá eigum við möguleika á að ná þeim með sigri á Anfield í mars!
Eftir Everton-leikinn skokkuðum við niður að Albert Docks þar sem rúturnar biðu, reiðubúnar að flytja okkur út á völl. Við hlustuðum á enska útvarpslýsingu á fyrri hálfleik Chelsea og Man City á leiðinni yfir til Manchester. Við áttum flug heim kl. 19:00 en fljótlega eftir innritun varð ljóst að það yrði seinkun á fluginu heim, þar sem ofsaveður geisaði í Keflavík og víðar á fróni. Á endanum komst vélin í loftið upp úr níu og við lentum heima heilu og höldnu kl. 23:30, tæpum 63 klukkustundum eftir að vélin tókst á loft af sömu flugbraut við Leifsstöð. Þrír dagar, tvær nætur og ég efast um að maður hefði getað upplifað meira eða gert meira á þeim knappa tíma sem við höfðum í borginni. En vægast sagt þá er ég alveg heillaður ? ég heimsótti Liverpool í fyrsta sinn fyrir 7 árum síðan og þá í dagsferð, í þetta sinn var ég í þrjá daga og ég ætla ekki að láta önnur 7 ár líða þangað til ég heimsæki Anfield aftur. Og næst verð ég vonandi enn lengur ef ég get, þar sem nú veit maður hvert er best að fara og þarf ekki að nota lungann af fyrsta deginum í að læra á miðbæinn og svona. Þannig að á maður ekki bara að segja, see you next season Scouse nation? 😀
LIVERPOOL 3 ? FULHAM 1
Ath.: þegar þetta er skrifað hef ég ekki séð leikinn eða mörkin endursýnd í sjónvarpi, þótt hann hafi verið tekinn upp á spólu fyrir mig hér heima. Ég get því aðeins byggt þetta mat mitt á því sem ég sá á laugardaginn með eigin augum í mjög tilfinningaríku andrúmslofti. Það getur vel verið að ég skipti um skoðun varðandi eitthvað eftir að hafa séð leikinn á spólu í kvöld en þangað til, þá er þetta mín skoðun…
Við unnum góðan sigur á þriðjudaginn sl. gegn Charlton á útivelli. Í þeim leik lentum við undir í byrjun en þrátt fyrir það var ég ekki vitund stressaður, svo vel var liðið að leika að ég gat bara ekki ímyndað mér að við myndum ekki sigra þann leik. Á laugardaginn byrjuðum við frábærlega og maður var rétt kominn í stellingar þegar García klobbaði einhvern Fulham-mann á kantinum og negldi boltanum fyrir, þar sem Morientes skoraði það sem virtist vera ógeðslega flott mark. Ég hlakka til að sjá það endursýnt ? en völlurinn gjörsamlega trylltist við þetta mark og maður öskraði sig hásan af gleði! Eftir það vorum við með alla yfirburði í einhverjar 10 mínútur og það leit allt út fyrir að við værum að fara að slátra Fulham, þangað til þeir jöfnuðu.
Eftir því sem ég sá best ætlaði Luis García að gefa boltann á Stevie eða Igor á miðjunni en sendingin var allt of stutt, Fulham-menn komust inní hana og gáfu beint á Luis Boa Morte á vinstri vængnum. Hann var að mínu mati besti maður Fulham í fyrri hálfleik, en hvarf algjörlega í seinni hálfleik. Hér var hann samt fljótur að átta sig, hljóp að teignum hjá okkur, leit upp og gaf síðan hnitmiðaðan bolta fyrir markið. Þar var Andy Cole mættur og skallaði auðveldlega í markið. Fyrir mér eiga þrír menn saman sök á þessu marki: Luis García fyrir að gefa boltann frá sér á viðkvæmum stað á miðjunni, Steve Finnan fyrir að vera alltof langt frá Boa Morte á kantinum (menn reyndu að krossfesta Josemi fyrir sömu ?sakir? gegn Portsmouth í desember, en hafa varla minnst á Finnan eftir þennan leik … skrýtið) og síðan Sami Hyypiä fyrir að láta Andy Cole einfaldlega taka sig á sprettinum inná teig.
Sami hefur aldrei verið skotfljótur miðvörður. Hans helstu kostir hafa alltaf verið stærðin, styrkurinn, góðar tæklingar og svo loks það hvað hann les leikinn vel. Oft höfum við séð andstæðingana reyna stungubolta innfyrir vörnina okkar, framherja þeirra taka á sprett á eftir boltanum en grípa í tómt þar sem að Sami ? í stað þess að elta framherjann ? las sendinguna og einfaldlega steig fyrir hana. En eins og í Fulham-markinu á laugardag þá gat hann ekkert lesið þetta neitt, þetta var bara blátt áfram kapphlaup um það hvor þeirra yrði á undan í fyrirgjöfina og Cole vann. Þetta er akkilesarhæll Hyypiä, en þar sem hann gerir flestallt annað svo rosalega vel erum við alltaf jafn tilbúin að fyrirgefa honum. Vantar samt alvarlega fljótan varnarmann sem kóver fyrir þann finnska, þar sem Pellegrino er ekki mikið fljótari.
Eftir jöfnunarmarkið datt leikurinn niður í svona miðjuþóf. Mér fannst okkar menn vera heldur lengi að jafna sig eftir markið og í raun náðu þeir aldrei upp neinum takti aftur í fyrri hálfleiknum. Þegar flautað var til hálfleiks fann ég samt ekki neina stresstilfinningu eða neitt slíkt, mér leið allan tímann eins og við myndum koma út í seinni hálfleik og klára dæmið. Sem gerðist líka.
Seinni hálfleikurinn var spilaður að megninu til á hægri kanti okkar, beint fyrir framan mig. Luis García var ágætur í fyrri hálfleik og Finnan líka, á meðan Baros reyndi en gekk lítið. Í seinni hálfleik fannst mér þeir hins vegar fara á kostum saman á hægri vængnum okkar, þeir komust hvað eftir annað í góðar stöður fyrir fyrirgjafir sem Morientes var aldrei langt frá að nýta sér. Um miðjan hálfleikinn skoruðum við svo gott mark, á meðan Fulham-menn einbeittu sér að Morientes á teignum tók Gerrard aukaspyrnu frá vinstri sem Hyypiä skallaði óvaldaður í markið. 2-1 og leikurinn okkar. Síðan þegar einhverjar 10-12 mínútur voru eftir (held ég) áttu Traoré og Morientes góðan samleik upp vinstri hluta vallarins, Morientes fékk boltann í opnu svæði og sá strax Riise auðan og óvaldaðan á vinstri kantinum. En í stað þess að gefa strax á hann, sem hefði þýtt að Riise hefði þurft að leika á sinn mann til að komast í dauðafæri, fór Morientes beint á bakvörðinn sem átti að dekka Riise með boltann og neyddi hann þannig til að koma út í sig. Um leið og bakvörðurinn hætti að dekka Riise og fór í Morientes, gaf Morientes boltann á Riise sem var þá allt í einu orðinn dauðafrír og gat valið um annað hvort markskot eða fyrirgjöf. Riise leit upp, sá Baros koma aðvífandi á markteiginn og sendi hnitmiðaða sendingu á þann tékkneska. Milan setti boltann í netið og allt liðið kom hlaupandi yfir til okkar til að fagna. Ég náði frábærum myndum af fagnaðarlátunum mitt í öllu óðagotinu, sigurinn var í höfn!
MENN LEIKSINS: Ég er sammála því sem Benni Jón sagði að það var gott að sjá allt liðið spila vel á laugardaginn, en þó finnst mér ég verða að nefna sérstaklega fjóra leikmenn til sögunnar, og kannski einn þeirra öðrum fremur.
Fyrst, þá er ljóst að þeir Baros og Morientes verða þyngdar sinnar virði í gulli fram á vorið. Morientes er pjúra klassi og hentar Baros svo rosalega vel sem félagi í framlínunni. Baros vann og vann og vann í þessum leik, nær linnulaust, og það skilaði sér í marki á endanum. Morientes skoraði besta mark leiksins strax í byrjun, og var síðan arkitektinn á bakvið þriðja markið. Þá var það ógnandi nærvera hans í aukaspyrnunni sem gerði það að verkum að Fulham-menn hreinlega gleymdu Hyypiä í öðru markinu, þannig að segja má að sá spænski hafi átt þátt í öllum mörkunum okkar þennan daginn.
Luis García fannst mér líka vera mjög góður. Menn verða að skilja hvers konar leikmaður hann er: hann er svokallaður ?flair player?. Það þýðir að hann er hvattur til, og ber skylda til, að reyna hluti sem ekki allir myndu reyna. Ef eitt af tíu svona ?skemmtiatriðum? hans tekst í leik þá er hann búinn að skila sínu. Það virkaði gegn Charlton, þar sem García var allt í öllu í seinni hálfleiknum og bjó til sigurmarkið fyrir Riise … og það virkaði aftur á laugardaginn. Klobbinn hans og fyrirgjöf voru frábær og það eru ekki margir Liverpool-leikmennirnir sem hefðu getað leikið það eftir. Mér finnst hann þó þurfa að bæta sig enn frekar í að missa boltann á erfiðum augnablikum, enda kostaði það okkur jöfnunarmarkið á laugardag … en á heildina litið þá hefur okkur sárvantað leikmann eins og García í nokkur ár núna og hann er að mínu mati þyngdar sinnar virði í gulli.
Að lokum þá ætla ég að segja þetta hér: við höfum séð hann spila æ betur í allan vetur undir stjórn Benítez, en ég hafði bara enga hugmynd um að Djimi Traoré væri svona rosalega góður! Þegar ég horfði á hann á vellinum, sem gamall bakvörður sjálfur, þá fannst mér ég vera að horfa á mann sem ekki aðeins vann rosalega vel fram á við og var síógnandi, heldur líka mann sem var algjörlega með sitt svæði á hreinu. Hann gjörsamlega stútaði Tomász Radzinski í þessum leik og átti tvær stórkostlegar bjarganir í sitt hvorum hálfleiknum, en auk þess þá var bara einfaldlega aldrei nokkurn tímann hætta upp hægri kant Fulham-manna. Ekki í fyrsta sinn í vetur sem við sjáum Djimmy hakka hægri kantmenn, og hann hefur tekið þá betri en Radzinski, en mér fannst það bara svo áberandi þegar ég horfði á hann … hvernig hann hreyfir sig, hvernig hann staðsetur sig, hvernig hann vinnur skipulega fram á við með liðinu … hvað hann er orðinn góður drengurinn! Það kom einu sinni eða tvisvar fyrir að hann var illa staðsettur og þurfti að vinna til baka til að redda málunum, en þá kom það sér til góða að Traoré er sá varnarmaður í deildinni sem ?recoverar? best allra að mínu mati, þ.e. að ef hann missir manninn sinn frá sér nær hann honum nær alltaf aftur, hvort eð er með hraða og styrk eða með frábærum tæklingum. Djimmy var einfaldlega frábær á laugardaginn og ég sé hann fyrir mér sem fastamann í vinstri bakverðinum hjá okkur eftir þennan leik. Hann getur enn bætt sig, og ef það gerist þá hlakka ég til að sjá hann! Þvílíkur leikmaður sem hann gæti verið fyrir okkur á næstu árum ef hann heldur áfram að spila svona vel…
Þannig er það nú bara! Ég held að þetta sé meira og minna allt saman komið núna, ferðasaga upp á tæp 5,000 orð eða svo. Þetta er búin að vera frábær helgi og ég get ekki beðið eftir að fara aftur sem fyrst!
Flott ferðasaga og takk fyrir að taka eftir Djimi Traoré. Mér finnst hann sko BARA góður! Rosalega góður sko! :biggrin2:
Skemmtileg lesning, ég sé eftir því að hafa ekki planað Anfield ferð í vetur 🙁
úff….mjög góð ferðasaga…eftir svona sögu dauðlangar mann til Liverpool.
Frábær ferðasaga, og til lukku með leikinn (þetta á við um mig líka þar sem að ég er Liverpool stuðningsmaður)!!!
Klukkan er að verða 22:30, ég bíð óþreyjufullur eftir myndunum! 🙂
fín ferðasaga er svekktur að hafa ekki komist með var bókaður (en bakið klikkaði)en það kemur önnur ferð 🙂
Því miður virðist sem það verði smá bið á myndunum. Myndaalbúmið mitt er í örlitlu rugli í kvöld og vill ekki taka við nýjum myndum einhverra hluta vegna… ég er hættur að reyna í kvöld, orðinn of pirraður til að geta lagað þetta úr þessu en mun halda áfram að reyna að koma þeim inn á morgun. Því miður.
Gaman að heyra að menn hafa gaman af ferðasögunni samt… 🙂
Til hamingju með frábæra ferð og takk fyrir vel skrifaða ferðasögu. Ég sá leikinn að sjálfsögðu úr stúkunni minni, þ.e. sófanum…. 🙂
Svo hjartanlega sammála þér með leikinn. Morientes og Baros eru náttúrulega bara topptalent.
Traore er frábær í bakvarðastöðunni. Og honum virðist bara fara fram og meira fram undir stjórn Rafa.
Annars fannst mér maður leiksins vera Carragher. Þvíllíkur vinnslubolti og baráttujaxl. Hann er bara snillingur eins og þú orðaðir það Kristján Atli.
Eftir tvo síðustu leiki þá er ég farinn að trúa því að við eigum góða möguleika á fjórða sætinu.
Við eigum Birmingham 12. feb og við eigum harma að hefna. Mikið vona ég innilega að við náum að launa þeim greiðann og tökum þá á heimavelli þeirra. Það væri náttúrulega algjör snilld.
YNWA
OG ég bíð enn eftir myndum, hvurslags metnaðarleysi er þetta 😉
Annars gaman að segja frá því að félagi minn fór á sama leik og daginn fyrir leik hitti hann engan annan en El Moro, en því miður var hann ekki með neina mynd eða neitt til að fá áritun á og til að toppa allt saman gleymdi hann myndavélinni í hótelherberginu 😯 Þannig að hann tók í höndina á kappanum og óskaði honum góðs gengis á laugardaginn. Það er óhætt að segja að El Moro hafi gengið vel, flottasta skallamark skorað á Anfield síðan á tímum John Toshack!!! :biggrin:
Það er glæsilegt að heyra að þú hafir skemmt þér svona vel Stjáni minn, og vonandi að þú standir við það og látir ekki líða jafn langan tíma þar til þú kemur næst með okkur til Mekka knattspyrnunnar.
Ég verð að viðurkenna það að þú lýsir þessu alveg hrikalega vel og fékk maður snert af gæsahúð þegar maður las þetta yfir og margar góðar minningar streymdu yfir mann.
Keep up the good work