Stevie (+viðbót)

Mig grunar að greinin hans Kristjáns um besta miðjumann Liverpool FC hafi farið framhjá mörgum, þar sem hún var skrifuð á föstudagskvöld og upphitun fyrir Birmingham kom stuttu síðar.

Allavegana, greinin er vel þess virði að lesa. Endilega kíkið á hana og sendið inn komment ef þið hafið einhverju við að bæta:

[Besti miðjumaður Liverpool FC: (+viðbót)](http://www.kop.is/gamalt/2005/02/11/18.41.10/)

Það er orðið áberandi að stuðningsmenn Liverpool eru fúlir útí Stevie G. Ef að hann hefði komið með svipaðar yfirlýsingar og Thierry Henry kom með [í gær](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/teams/a/arsenal/4261511.stm), þá væri enginn vafi á því að við myndum allir slá skjaldborg utan um Stevie G eftir hvern leik, sama hvernig hann léki. Hann væri uppáhalds knattspyrnumaður okkar allra.

En hann er það ekki. Síðasta sumar og komment hans að undanförnu hafa gert það að verkum að við getum ekki alveg hrifist jafn mikið af honum, sama hvað okkur langar mikið til þess. Ég þori ekki að hrósa eða hrífast jafnmikið af Gerrard einsog ég myndi annars gera, vegna þess, sem hann hefur sagt í fjölmiðlum og vegna þess hvernig Michael Owen fór frá okkur ([snjöll ákvörðun](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/europe/4261231.stm), Michael!).

Það er athyglisvert að ensku blöðin telja Gerrard (surprise!) hafa verið eina manninn, sem spilaði vel fyrir Liverpool á móti Birmingham, en við aðdáendur viljum kenna honum um tapið. Ensku blöðin sjá mann, sem stendur uppúr þessu liði af meðalmönnum (sem ég er ósammála um) en við Liverpool aðdáendur sjáum fullkomlega andlausan fyrirliða, sem gerði ekkert til að rífa liðið upp.

Erum við ósanngjarnir við fyrirliðann okkar, eða á hann þetta skilið eftir þetta Chelsea/Real Madrid daður?


Viðbót (Kristján Atli): Ég hef ákveðið að nálgast komandi sumar með ákveðnu hugarfari. Undanfarið hefur mér fundist hálfgert andleysi vera ríkjandi í spilamennsku Stevie og það – umfram allt annað – er að mínu mati sterkasta vísbendingin þess eðlis að hann sé búinn að “gefast upp” á Liverpool FC. Ef hann spilar þannig gegn Chelsea eftir tvær vikur í bikarúrslitunum verður það skýrasta dæmið að mínu mati þess eðlis að hann sé farinn. Fyrir mér verður það stóra prófið, sá dagur, hvort hann mun berjast til síðasta blóðdropa gegn Chelsea eða hvort hann verður með uppgjafasvipinn í 90 mínútur þar eins og í gær.

Allavega … ég er byrjaður að sætta mig við að hann fari í sumar. Ég ætla að taka því sem öruggum hlut að hann fari í sumar … ef hann verður kyrr, þá verður það bara óvænt ánægja. En að mínu mati er hann að vissu leyti þegar farinn – andlega þ.e.a.s. – og því fyrr sem þessari helvítis sápuóperu lýkur því betra.

Ég vona bara að hann fari til Real Madríd eða AC Milan, ekki til Chelsea. Það verður sárt að sjá hann vinna leiki gegn okkur í deildinni á næstu árum, það verður það eina. Owen fór til Real og það er í lagi, mér hefði þótt það talsvert verra ef hann hefði farið til Arsenal, Chelsea eða Man U … það hefði verið of skrýtið. Þá væri ég farinn að hata Owen núna. Vill ekki þurfa að hata Gerrard næstu árin.

4 Comments

  1. “Erum við ósanngjarnir við fyrirliðann okkar, eða á hann þetta skilið eftir þetta Chelsea/Real Madrid daður?”

    Hann á þetta fyllilega skilið. Gerrard var að reyna gegn Birmingham. O.k. en hann var ekki að leiða liðið. Ég vil að Carragher taki við fyrirliðabandinu, og það ekki seinna en í gær.

    Ég er orðinn sannfærður um að Gerrard sé á förum. Og ég er líka orðinn þeirrar skoðunar að það sé ekki það versta sem gerist fyrir Liverpool.

    Ég hef það á tilfinningunni að allt þetta tal um Gerrard sé of góður fyrir Liverpool og að hann sé sá eini sem getur eitthvað hjá liðinu sé að eitra út frá sér. Þetta kann bara ekki góðri lukku að stýra.
    Liverpool hefur ekki úr ótakmörkuðu fjármagni að ráða og þess vegna þarf liðsheildin að vera sterk, númer eitt, tvö og þrjú.

    Ef til vill mun Gerrard gera samning við Liverpool næsta sumar. En hann skal þá heldur betur gera það upp við sig að hann sé reiðubúinn að standa og falla með Liverpool næstu árin. Ef hann getur ekki hugsað sér að taka áhættuna með Liverpool “no matter what” þá vil ég frekar að hann fari og finni feril sínum farveg annars staðar.

    Þetta er að verða alls herjar hringavitleysa. Það eina sem er talað um að ef við náum ekki í Meistaradeildina næstu leiktíð þá fari Gerrard. Þvílíkt andskotans bull. Það sem menn eiga að hafa áhyggjur af er að tekjurnar verða minni en ekki að hinn eða þessi leikmaður fari eða ekki fari.

    Gerrard, gerðu það fyrir mig að fara næsta sumar ef þú ert ekki ánægður og ef þú heldur að fáir ekki svalað metnaði þínum hjá Liverpool…..

    😡

  2. Sammála síðasta ræðumanni, seljum bara Stevie fyrir 35m+ og kaupum 3-4 toppleikmenn, miðju- og varnarmenn, fyrir þá upphæð, og fáum svo 1-2 ódýra baráttuhunda á miðjuna í viðbót, stráka sem eru Carra týpur, berjast og hætta aldrei fyrr en að feita konan hefur sungið 😯

    Kv Stjáni

  3. Annað mál, hvernig geta guttarnir á Sýn rifið kjaft út af beinum útsendingum Skjás 1 á enska boltanum með enskum þulum OG SENT SVO ÚT Á SÝN2 Á VIRKUM DÖGUm MEÐ ENSKUM ÞULUM FRÁ KL. 20:00, FRÁ LIVERPOOLTV OG ARSENALTV ÁN TEXTA EÐA ÍSLENSKRA ÞULA og enginn segir neitt, getur einhver bent mér á muninn, er bein útsending eitthvað minna fréttatengt efni en nokkura daga gamlar útsendingar frá einkastöðvum á Englandi?

    Kv Stjáni

  4. Hárrétt hjá þér Stjáni ! Þessi sandkassaleikur hjá Sýnar mönnum er fyrir löööngu orðin verulega þreytandi, íslensk tunga my ass !
    Nú svo verð ég líka að vera sammála þeim Einari og Jóni H, Gerrard er búinn að gefast upp og dreymir um ljúfa lífið á bekknum hjá Real við hlið Owen. Að mínu mati hefur Owen sannað að því miður eru þessir “topp” sparkarar ekki alltaf gáfaðir og gleyma sér svolítið í peninga draumum, og það er að gerast hjá Gerrard líka, hann trúir öllu bullinu sem er verið að skrifa um hann í bresku pressunni um hvað hann sé of góður fyrir Liverpool, og hann mun brenna sig á þessu, sanniði til. Sjáið bara hvernig McManaman skeit í heyið, jú jú hann “vann” titla með því að varla spila heilan leik, en er það svo stórkostlegt ? Eftir nokkur ár man enginn eftir honum sem Real leikmanni. Það er nefninega munur á að vera stór fiskur í lítilli tjörn, eða lítill fiskur í stórri tjörn !
    Annars er ég sannfærður um að við munum ná 4. sætinu, og að næsta tímabil verður betra :confused:
    Það er jú after all Liverpool attitjútið 😉

Birmingham 2 – L’pool 0

Meira um Gerrard og Patrick Ewing kenningin