Liverpool 3 – Leverkusen 1!

riise_leverkusen.jpg Við unnum Bayer Leverkusen í kvöld 3-1 og það nokkuð sannfærandi sigur. Frábært mál, og við í kjörstöðu fyrir seinni leik liðanna í Þýskalandi eftir tvær vikur. Í þessari leikskýrslu ætla ég að tala um þrjá hluti: frammistöðu liðsins okkar (erum við eins manns lið?), möguleikana fyrir seinni leikinn og Jerzy Dudek.

Ég ætla að byrja á seinasta atriðinu, eins gott að ljúka því bara af: Jerzy Dudek er ekki nógu góður markvörður fyrir Liverpool FC. Útrætt mál. Ég taldi einhverjar 4-5 heimsklassamarkvörslur hjá honum í kvöld, og á einhverjum 10-mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik gjörsamlega hélt hann okkur á floti með þremur súpermarkvörslum í röð. En svo þegar það voru 30 sekúndur eftir af viðbótartíma og við nýbúnir að auka forskotið í 3-0, þá eiga Bæjarar örvæntingarfullt skot lengst utan af velli … beint á Dudek. Og eins og venjulega, þá getur hann ómögulega klárað “auðveldu” skotin jafn vel og frábæru skotin. Hann missti boltann aulalega frá sér og Franca skoraði: 3-1 og Leverkusen-liðið eygir von fyrir seinni leikinn.

Málið er svo einfalt að það þarf ekkert að ræða það frekar: Jerzy Dudek hefur gert þetta svona fimm sinnum of oft í vetur. Hann er einfaldlega ekki nógu góður/stöðugur/traustur/yfirvegaður markvörður til að spila fyrir lið sem ætlar sér að vera í fremstu röð. Um leið og markið kom þá skiptu myndavélarnar yfir á Rafa Benítez og reiðikastið sem hann tók (fórnaði höndum, sneri sér í hálfhring og blótaði eflaust eitthvað á spænsku) sagði mér allt sem segja þarf um framtíð Pólverjans mistæka hjá Liverpool. Í stuttu máli sagt, þá er best að búa sig undir að hann fari frá Liverpool og við fáum nýjan reyndan mann inn í staðinn í sumar, til að vera þarna með Kirkland og Carson.


Næst er það frammistaða liðsins. Í fjarveru fyrirliðans okkar, Steven Gerrard, var strax jákvætt fyrir leik að sjá að Harry Kewell var mættur aftur til leiks. Benítez stillti því upp nákvæmlega eins og ég spáði:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Biscan – Hamann – Riise

Baros – Kewell

Ég sagði í upphituninni að þessi leikur myndi ráðast á því hvaða Hamann og Biscan myndu mæta til leiks, og til allrar hamingju fyrir okkur mættu þeir góðu út á völlinn í kvöld. Hamann var útum allt í kvöld og vann hvern boltann á fætur öðrum – frammistaða hans hefði talist allt að því gallalaus ef staurblindur og lélegur dómarinn frá Grikklandi hefði ekki verið sannfærður um það fyrirfram að allt sem Hamann gerði væri brotlegt og bæri að refsa með aukaspyrnu.

Biscan var engu síðri, hann fór mikinn á miðjum vellinum, barðist eins og ljón allan tímann og rétt eins og gegn Deportivo í haust þá voru einleikir hans með boltann upp miðjan völlinn stórhættulegir. Fyrsta markið kom einmitt upp úr einu slíku, þegar hann fékk boltann eftir miðjuþóf og sneri sér við, gaf í og skildi Ramelow og Freier eftir kalda áður en hann leit upp og gaf frááábæra sendingu innfyrir á García, sem kom okkur í 1-0 eftir kortér. Tónninn var gefinn og ljóst að okkar menn ætluðu sér endanlega að afsanna þá heimskulegu kenningu að við værum “eins manns lið”. Þessi eini maður sem á að vera allt í öllu hjá okkur sat uppí stúku og við yfirspiluðum þá bara samt í fyrri hálfleiknum.

García tók markið vel en hafði svo í raun hægt um sig það sem eftir lifði leik. Hann átti eina flotta stungusendingu innfyrir á Baros í seinni hálfleik og barðist rosalega vel allan tímann, en að öðru leyti hefur hann oft verið sterkari í sókninni. En hann gerði sitt, skoraði fyrsta markið sem var rosalega mikilvægt. Á hinum kantinum var Jonny Riise hins vegar í rosalegum ham – hann gjörsamlega pyntaði Bernd Schneider sem þurfti að leika bakvörð hjá Bæjurum í kvöld, og uppskar fyrir sína frammistöðu á 35. mínútu með flottu marki úr aukaspyrnu.

Enn var Paul Freier að hluta til sökudólgurinn, þar sem hann var greinilega ekki að einbeita sér að aukaspyrnunni og var illa staðsettur í varnarvegg Leverkusen. Riise var fljótur að nýta sér það og setti boltann hnitmiðað yfir vegginn og í nærhornið – óverjandi fyrir Jörg Butt markvörð Leverkusen! 2-0 fyrir okkur í hálfleik og stemningin á Players góð. 😉

Vörnin var ágæt í kvöld, en hefur oft spilað betur. Reyndar má segja að frammistaða varnarinnar hafi verið frekar tvískipt í kvöld, þar sem mér fannst vinstri hliðin standa sig miklu betur en sú hægri. Djimi Traoré tók hinn brasilíska Robson Ponte í nösina allan leikinn á meðan þeir Hyypiä og Carragher stóðu allt sem kom á miðja vörnina af sér. Hins vegar hefur Steve Finnan oft átt betri leiki: hann átti slaka sendingu til baka í fyrri hálfleik sem gaf Berbatov algjört dauðafæri sem hann skaut til allra lukku framhjá úr. Þess fyrir utan átti hann í vandræðum með Krzynowik kantmann Leverkusen, sérstaklega framan af leiknum, og var ekki jafn virkur framávið og Traoré að mér fannst. En það kom þó ekki að sök að lokum og vörnin stóð á heildina litið fyrir sínu í kvöld.

Frammi börðust þeir Baros og Kewell mjög vel og hefðu með betri klárun getað skorað sitt markið hvor í kvöld. Baros var eins og venjulega stöðugt að pressa miðverði Leverkusen, sem olli þeim miklum óróa, og hefði átt að koma okkur í 3-0 um miðjan seinni hálfleik þegar hann slapp einn í gegn (eftir frábæra sendingu frá Riise). Hann reyndi að klobba Butt en boltinn hrökk af fæti hans og framhjá. Kewell fékk eitt eða tvö góð skotfæri í leiknum, engin dauðafæri svosem, en náði ekki að setja boltann á rammann. Engu að síður þá var frábært að fá Kewell inn aftur, hann tók virkan þátt í spilinu og var hörkuduglegur í baráttunni í kvöld, það er ljóst að við höfum saknað hans mikið! Frábært að fá þig aftur, Harrý! 😉


Nú, eftir yfirburði í fyrri hálfleik og frekar taugatrekktan seinni hálfleik virtist allt stefna í 2-0 sigur okkar manna þegar við fengum aukaspyrnu á 90. mínútu. Menn færðu sig frá og það var ljóst að Didi Hamann ætlaði að negla þessu á markið, eins og hann er frægur fyrir. Eeen… öllum að óvörum – og þá sér í lagi Jörg Butt – þá skrúfaði hann boltann þess í stað yfir varnarveginn og niður í nærhornið, óverjandi fyrir Butt sem svaf á verðinum í þetta skiptið. 3-0 fyrir okkur og einvígið virtist vera svo til búið … þangað til 30 sekúndum seinna þegar Dudek tryggði að Leverkusen-menn eygja enn von um að komast í 8-liða úrslitin.


Hvaða möguleika eigum við á að komast áfram?
Að mínu mati eigum við, þrátt fyrir að fá á okkur óþarfa mark undir lokin, að gleðjast eftir kvöldið í kvöld. Ég veit fyrir víst að það voru margir Liverpool-aðdáendur skíthræddir við þennan leik og fjölmiðlarnir í Englandi voru nánast búnir að afskrifa okkur í ljósi þess að fyrirliðinn Stevie Gerrard yrði í leikbanni í kvöld. En liðið stóð fyrir sínu og tryggði okkur gott forskot fyrir seinni leikinn.

Auðvitað er einvígið langt frá því að vera búið – Leverkusen-menn þurfa bara að skora tvö mörk á heimavelli til að komast áfram og þeir eru jú þekktir fyrir að vera mikið sóknarlið. Það sást bersýnilega í kvöld, því þrátt fyrir að vera mjög slakir mestallan leikinn hefðu Berbatov og félagar hæglega getað skorað eitt eða tvö mörk í þessum leik, áður en Dudek ákvað að gefa þeim eitt ódýrt. Þannig að það skal enginn útiloka Leverkusen, þeir eru vel færir um að skora haug af mörkum gegn okkur á Bay Arena, studdir af sínum áhangendum.

Nú, við erum komnir með Harry Kewell inní liðið aftur (og Anthony Le Tallec, sem kom inná fyrir Kewell og spilaði síðustu 15 mínúturnar í kvöld) og í seinni leiknum verður Steven Gerrard aftur mættur til að stjórna málum á miðjunni. Þar að auki fengu þeir Robson Ponte og Paul Freier gult spjald í kvöld og verða því báðir í leikbanni í seinni leiknum, sem mun taka umtalsverðan brodd úr sókn þeirra.

Að mínu mati munu okkar möguleikar hvíla á því að ná að skora þetta mikilvæga mark á útivelli eftir tvær vikur. Markið sem Franca skoraði á síðustu sekúndum leiksins í kvöld vegur þungt, og ég er viss um að Leverkusen-menn telja sig hreinlega líklega til að skora 2-3 mörk gegn Jerzy Dudek eftir hálfan mánuð. Ef þeir vinna 2-0 fara þeir áfram, en ef við næðum að skora útimark og kvitta þannig fyrir mark Franca, þá verða þeir að skora þrjú mörk til að komast í framlengingu, hvað þá að ná að sigra leikinn. Þannig að ef við getum skorað á Bay Arena held ég að við förum í 8-liða úrslitin, sé okkur varla fyrir mér fá á okkur 4 mörk þótt Leverkusen-liðið sé sterkt sóknarlega.

MAÐUR LEIKSINS: Það er freistandi að útnefna þá Igor Biscan og Djimi Traoré, sem voru frábærir í kvöld, sem menn leiksins – þar sem þeir hafa báðir verið mikið gagnrýndir í sína tíð en stóðu svo sannarlega fyrir sínu í kvöld. Þá átti Jonny Riise einnig stórleik á kantinum.

En ég hef ákveðið að velja Liverpool-liðið mann leiksins, af einföldum ástæðum: það mæddi mikið á þeim í kvöld án fyrirliðans, það voru ansi margir búnir að afskrifa okkar menn án Gerrard og Morientes, og þeir þurftu bara virkilega á því að halda að sýna fólki í kvöld að við gætum vel spilað flotta knattspyrnu án Gerrard, Morientes, Alonso, Cissé, Pongolle, Mellor, Pellegrino, Kirkland og Josemi. Það hefðu ekki öll lið getað farið með svona mikil meiðsli inn í 16-liða úrslit í Meistaradeild Evrópu, og komið út með 3-1 sigur í veganesti. Þetta undirstrikar bara frábæran sigur liðsheildarinnar í kvöld að mínu mati, og gefur okkur gott veganesti fyrir seinni leikinn.

Gleðjumst, því við erum sannarlega komnir með annan fótinn inn í 8-liða úrslitin! 🙂 Vissulega á mikið vatn eftir að renna til sjávar … en Arsenal töpuðu fyrir 3-1 fyrir Bayern Munchen í kvöld og verða að berjast fyrir lífi sínu í seinni leiknum. Ég veit fyrir mitt leyti að ég er feginn í kvöld að vera Liverpool-maður, við erum í vænlegri stöðu og eins og sagt er, þá er sigurinn núna okkar og það getur enginn tekið hann af okkur nema við sjálfir.

Flott kvöld. Bring on Chelsea! 😀 😀 😀

17 Comments

  1. frábær skýrsla hjá ykkur og ég er sammála langflestu ef ekki öllu í henni. Ég vil hrósa tveimur mönnum fyrir að gera eitt sem ég kvartað yfir að þeir hafa ekki gert sem ég man eftir. Riise og Hamann skutu LOKSINS BEINT úr aukaspyrnum og þá skoruðu þeir báðir :biggrin2:

  2. Mér finnst ekki nóg gert úr því hvað dómarinn var hrikalega lélegur í þessum leik og ótrúlegt en satt þá stal línuvörðurinn senunni á köflum.

    Traore var öflugur en tilhvers var hann að renna sér í Voronin í dauðafærinu? Heppinn að fá á sig ekki víti.

    Riise maður leiksins.

  3. Það er vissulega auðvelt að láta þetta síðasta atvik skemma fyrir sér kvöldið. En aldrei þessu vant, þá kostaði Dudek okkur ekki allan leikinn, heldur gerðu hlutina einfaldlega mun erfiðari fyrir okkur í seinni leiknum.

    Við Kristján höfum svo sem sagt nógu mikið um Dudek. Hann er einfaldlega ekki nógu góður fyrir Liverpool og ég held að Rafa sjái það alveg jafnvel og við.

    En annars mjög sammála skýrslunni. Liðið stóð sig virkilega vel og enn er blásið á þetta “eins-manns-lið” kjaftæði!!! Hamann og Biscan voru frábærir í leiknum. Dómarinn var náttúrulega í tómu rugli, en það er þó ekki stórmál í mínum augum. Traore var einnig frábær í bakverðinum og Riise á kantinum.

    Hins vegar finnst mér við vera að gera of mörg klaufamistök í vörninni. Það verður að laga fyrir Chelsea leikinn.

    En þetta var samt frábært kvöld. Ég skemmti mér konunglega og enn eitt Dudek klúðrið mun ekki skemma fyrir 🙂

    Við tökum þetta í Leverkusen!

  4. Já, og kannski að benda mönnum á tvo punkta ef einhverjir skyldu vera neikvæðir í kvöld 🙂

    1. Við hefðum öll sætt okkur fyrir 3-1 ef okkur hefði verið boðið það fyrirfram einsog staðan er.

    2. Bekkurinn okkar var svona: Carson, Nunez, Le Tallec, Smicer, Potter, Warnock, Welsh. Semsagt, á bekknum voru tveir leikmenn yfir tvítugt!!! Þeir, sem voru inná vellinum eiga svo sannarlega hrós skilið!

    Ég er í góðu skapi í kvöld, þrátt fyrir að hafa eiginlega verið í sjokki strax eftir leikinn. Morientes og Gerrard verða komnir inn í leikinn um helgina, svo það er allt uppá við. Ég er sannfærður um að við komumst áfram.

  5. Góður sigur hjá okkur í kvöld. Samt ekki sammála með að við eigum losa okkur við Dudek, vil frekar Kirkland í burtu. Dudek hefur reynslu sem getur nýst okkur ef að fyrsti markmaður meiðist, (sem ég reyndar vona að við kaupum í sumar). Þá vil ég frekar Dudek en Kirkland. 3-1 sigur ætti að duga okkur í seinni leikinn ef að lykilmenn verða ekki meiddir. Úr því við erum að gagnrýna Dúdek þá má Baros fá löðrung fyrir að skora ekki allavegana 2 mörk í kvöld. Bestu menn Riise, Traore, Haman og Biscan.
    Allir góðir og við börðumst eins og ljón. Sanngjarn að velja Liverpool liðið mann leiksins. Áfram Liverppol.

  6. Flottur leikur og sannar það að við erum ekkert eins manns lið, ef að menn nenna á annað borð að berjast fyrir liðið og vinna fyrir þessum verkamannalaunum sem þeir á. :laugh:

    Annars langar mig til að koma Dúdda aðeins til varnar í markinu, þetta var nú ekki alveg eins léttur bolti og sýnist við fyrstu sýn, það sást í endursýningunni að þegar að boltinn lendir í vellinum í fyrra skiptið að þá er eins og hann fleyti kellingar en þegar að hann lendir í seinna skiptið að þá hoppar hann meira af vellinum og lendir þá aðeins ofar á kassanum á Dúdda sem reiknar með boltanum neðar en hann kom.

    Hitt er svo annað mál hvort að Dúddi er nógu góður fyrir LFC eða ekki um það ætla ég ekkert að segja en eins og Kristján Atli er fljótur til að verja Josemi að þá finnst mér ég aðeins mega til að verja Dúdda er mér finnst ómaklega að honum vegið en klárlega var hann óheppinn bæði með að “misreikna” skoppið á boltanum og svo hvar hann endaði.

    Svo maður endi þetta á jákvæðum nótum að þá verður gaman að sjá hvað þetta gerir fyrir liðið næst komandi sunnudag og einnig verður fróðlegt að sjá hvern/hverja Rafa tekur út til að koma Stevie og Nando inn í liðið aftur og hvort hann breytir því nokkuð?? :confused:

  7. Þetta er alveg rétt hjá Stjána og skil ég ekki alveg hvað menn eru að missa sig yfir þessu. auðvitað er maður hund svekktur með þetta mark en eins og Sliver bendir á átti Baros að drulla boltanum inn en ég sé menn ekki velta sér of mikið upp úr því. Hann átti klárlega að skora og hefði þá leikurinn hugsanlega farið 4-1. hver er munurinn að gera mistök sem gefa mark eða gera mistök sem verða til þess að við skorum ekki. það er ekki auðvelt að vera markmaður það er greinilegt.
    og að segja það að dudek eigi að fara er bara bull. ef hann sættir sig við að vera á bekknum þá er hann draumamarkmaður með mikla reynslu og getur varið eins og andskotinn. kirkland á að fara og það strax. hann hefur nú aldeilis fengið sín tækifæri en ekki sýnt rassgat, því miður.

    ég er sammála því að við eigum að fá okkur nýjan og góðan markmann en við skulum samt alveg róa okkur og bíða og sjá. og hefði annars ágæt umföllun um þennan leik kannski frekar átt að byrja á umföllun um frábæra liðsheild og baráttugleði fremur ein ein mistök eins af okkar bestu mönnum í þessum leik. (dúddi er minn maður)

    Og annað, kristján segir að Dudek sé einfaldlega ekki nægilega góður fyrir þetta lið. í hvaða sæti erum við?? hvar stöndum við í dag? við erum bara ekki betri en þetta og auk þess eru fleiri stöður sem þyrfti að uppfæra áður en honum yrði sparkað, hann er ekki sá versti það er alveg klárt. það væri kannski í lagi að fá hægri bakvörð hið snarasta svo ekki sé talað um almennilega hægri kantmann.

  8. Dómarinn var ekkert slakur. Hann tók og gaf mönnum vafann áður en hann flautaði á brot sem er gott mál. Við aftur á móti vildum leikinn allan tímann og fengum hann. Hinsvegar hefði 3-0 gert leikinn mun skemmtilegri svona fyrir seinni leikinn en það sem gerðist í restina var slys. Þetta skot var svo sem ekkert auðvelt þar sem að boltinn er óútreiknanlegur í þessari drullu sem þarna var í teignum. Ég meina Dudek er bara maður sem gerir mistök eins og hver annar maður en samt bjargaði hann okkkur oft í kvöld og vil ég neita að fara út í þessa umræðu að kenna honum um markið. Góður sigur sem ÆTTI að vera nóg fyrir seinni leikinn þar sem þeir missa tvo sterka í viðbót út en við fáum einn sterkan inn (eða á bekkinn ef mið er tekið af frammistöðu strákanna í kvöld). Frábært!

  9. Við kaupum bara Ewing í markið!

    Magnað, ég missi alltaf af góðu sigrum Liverpool, eini “góði” leikurinn sem ég hef séð Liverpool eiga (og unnið, ég er búinn að sjá báða Chelsea leikina) var Olympiakos. Ég hreinlega get ekki horft meira á Liverpool 🙁 :confused:

  10. Sko, munurinn á Josemi gagnrýninni og Dudek er þessi: Josemi hefur búið í Liverpool í hálft ár og spilað örfáa leiki fyrir liðið. Það er fullkomlega eðlilegt að hann fái sjens á að sanna sig.

    Dudek hefur hins vegar verið hjá okkur í fjölda ára og síðustu 2 ár hefur hann mjöööög reglulega gert ömurleg mistök, sem hafa kostað okkur alltof marga leiki.

    Kirkland, Dudek, whatever. Þeir eru báðir ómögulegir. Annar er alltaf meiddur og hinn er ein taugahrúga. Málið með Dudek eru taugarnar. Þegar það kemur fáránlegt skot, sem hann á ekki að verja, þá ver hann það af því að það er engin pressa á honum. Hins vegar þegar léttu boltarnir koma þá stressast hann allur upp. Það þekkja þetta allir, þegar þið sjálf spilið fótbolta þá vitið það að það er mun meira stressandi að vera í góðu tækifæri því þá búast allir við að maður skori, heldur en í erfiðu færi þar sem maður er ekki skammaður fyrir klúður.

    Við verðum líka að gera kröfur að menn taki svona aulabolta. Það er einfaldlega svo að markmenn eru dæmdir af mistökunum. Dudek gerir alltof mörg mistök og því verður hann að fara. Hann sýndi það í viðtölum þegar Kirkland var í markinu að hann sættir sig ekki við að vera varamarkvörður.

    En ég ætlaði ekki að fara útí þetta. Það virðast bara vera nokkrir, sem eru tilbúnir að verja Dudek endalaust útaf einhverri bjargfastri trú um að gamli góði Dudek (sem ég hélt einu sinni fram að væri besti markvörður í heimi) muni koma aftur. En hann kemur bara ekki aftur. Sá Dudek dó á HM 2002.

  11. Þetta er vissulega góður sigur þó að þetta mark þarna í lokin hafi verið algert slys og óþarfi, það er búið að kasta svo miklum skít í Dudek hér á síðunni þannig að mig langaði að tala um aðra hluti.
    Það voru aðrir leikmenn þarna sem að brugðust mjög illa og ber þar að nefna þessi tvö færi sem að Baros fékk þau gætu verið alveg eins dýr fyrir okkur eins og þessi skandall hans Dudek. Baros er leikmaður í þeim klassa að maður hreinlega krefst þess að hann nýti svona færi, reyndar skal ég viðurkenna að markmaðurinn var mjög heppinn að verja frá honum þegar hann slapp í gegn. En það var hörmung að sjá hvernig hann fór með það fyrra þegar hann skaut yfir eftir frábæra takta á vinstri vængnum.

    Ekki taka það þannig að ég sé endilega að verja Dudek, ég er á því að hann eigi ekki að vera okkar fyrsti markvörður reyndar í vetur gat ég ekki séð að Kirkland væri nokkuð betri og er mér alveg sama hvor þeirra verður varamarkvörður á næsta tímabili. Reyndar hef ég meiri trú á því að Kirkland fari hann er ungur og vill spila og síðan gerir það lítið gagn að vera með meiddan varamarkvörð.

    Það kom fram hér á síðunni einhverntíma um það bil þegar við keyptum Carson að markmenn eins Buffon og Casillas voru orðnir aðalmarkmenn sinna liða fyrir tvítugt og ef Carson er eins góður og menn vilja vera að láta þá bara spyr ég hvort að það sé ekki í lagi að reyna það hjá Liverpool líka það ætti aldeilis að gefa honum sjálfstraust. Þannig að ég er á því að í næsta deildarleik ættum við hreinlega að gefa stráknum tækifæri, ég veit ekki hvort það væri þorandi að láta hann spila í Cardiff en ég er samt viss um að menn gætu fundið ýmis rök með því.

    Flott síða hjá ykkur :blush:

  12. Frábær sigur og það án besta miðjupar heims, Gerrards og Alonso!

    Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af seinni leiknum og við vorum í raun heppnir að vera ekki búnir að fá mark/mörk á okkur fyrr í þessum leik. Það er ekki hægt að afsaka þessi mistök í markinu hjá Dúdek, því miður. Að mínu mati er þetta kornið sem fyllti mælinn og núna eigum við að nota Carsson svo framarlega sem hann er í leikæfingu.

    YNWA!

  13. Var a leiknum….frabaer skemmtun, en tad var otrulega skrytin stemmning tegar flautad var af! Tad var eins og Liverpool hefdi tapad leiknum….grafartogn a Anfield!! Tvilikt kjaftshogg ad fa tetta mark a sig. Ef teir hefdu minnkad muninn i 2 – 1 og vid svo komist i 3 – 1 ta hefdi stemmningin verid allt onnur! Tokum Chelsea i Cardiff…..verd tar ad hvetja okkar menn. Afram LFC !!!!

  14. Jammmm, manni leið pínku einsog við hefðum tapað þessu þar sem þetta kom svo snögglega og svo seint í leiknum. En ég öfunda þig ekkert af að hafa verið á þessu leikjum. 🙂

  15. OH það er svo stutt síðan ég var þarna úti að ég finn ennþá bragðið af pylsunni í sjoppunni undir stúkunni. Yndislegt að vera þarna … 🙂

Leverkusen á morgun!

Getraun dagsins