Ekkert Meistaradeildar umspil

Sem betur fer var smá vit í kollinum á stjórnarformönnum liðanna í Ensku Úrvalsdeildinni og hugmyndum um umspil um 4. Meistaradeildarsætið, sópað út af borðinu. Mér fannst þessi hugmynd algjörlega galin. Það getur vel verið að það sé stimplað á þann hátt að ég segi þetta eingöngu út af því að Liverpool FC hefur verið í ströggli í vetur og eini raunhæfi möguleikinn sé þetta blessaða fjórða sæti, en ég neita því að það sé ástæðan. Þegar svona reglur eru settar, þá þýðir ekkert að vera að horfa til skemmri tíma. Það getur vel verið að Liverpool verði að spila um titilinn á komandi árum, eða hreinlega að liðið yrði neðar og þessi regla gæti komið liðinu til góða. Þetta snýst nefninlega ekki bara um stöðuna á þessu tímabili.

Margir virðast gefa sér það að þetta fjórða Meistaradeildarsæti sé bara fast fyrir England um ókomna tíð. Það eru ekkert svo mörg ár síðan að England var bara með 3 sæti. Af hverju er England með 4 sæti? Jú, af því að liðin sem hafa verið að keppa í Meistaradeildinni hafa verið að standa sig afar vel og því er sætið þeirra. Eykur það líkurnar á því að halda þessu sæti, að hleypa jafnvel liði úr 7. sætinu í keppnina? Nei, engan veginn. Og hvar ætti þá að draga mörkin, til hvers er þessi 38 leikja deild? Er hún ekki besti mælikvarðinn á liðin? Er ekki skynsamlegast að þú vinnir þér inn rétt með því að standa þig í deildinni, en ekki innbyrðis viðureignum eftir tímabilið? Það er allavega mín skoðun á þessu. Af hverju þá bara umspil um fjórða sætið? Af hverju bara liðin í sætum 4-7? Eigum við að hafa play offs fyrir öll sætin í deildinni? Eigum við að hafa play offs um Englandsmeistaratitilinn?

En það þarf ekkert að velta þessu frekar fyrir sér, sem betur fer er búið að sópa þessari heimsku hugmynd út af borðinu.

31 Comments

  1. Fullkomlega sammála. Liðið sem var í 7. sæti síðast var jafn langt frá fallsæti og meistaradeildarsæti. Það segir allt sem segja þarf í mínum huga.

  2. Sælir

    Hvernig færðu það út, að liðið í 7.sæti sé jafn langt frá fallsæti og sætinu sem er þrem sætum ofar ?

    Annars er ég sammála pistlahöfundi að öllu leyti nema einu. Ég er ekki sammála því að meistaradeildin sé besti mælikvarðinn á liðin. Það vita það allir að þetta árið er UEFA keppnin sú keppni sem er besti mælikvarðinn á liðin, og það er klárlega sú keppni sem allt snýst um 😉

    Kv, að norðan..
    Carl Berg

  3. Væntanlega er Kárinn að meina í stigum talið.

    En já, félagi Carl Berg. Rétt, átti kannski að tala um Evrópukeppnir í stað Meistaradeildar, því ein stór ástæða fyrir því að England fékk 4. sætið á sínum tíma var sigur okkar í Dortmund.

  4. Hvað segið þið um að taka upp úrslitakeppni, nýliðaval, launaþak í ensku úrvalsdeildina? Veit, þetta hljómar sósíalíst en svona erþetta í NBA.

    Ha, nei? Þið eru mikil íhaldsmenn.

  5. Ég væri reyndar alveg til í að taka upp launaþak í enska boltanum. Ég held reyndar að það sé eina lausnin til að bjarga þessari íþrótt frá glötun.

  6. Held því miður að launaþak í enska boltanum geri ekki gagn. Bilið á milli Spánar og Englands er að breikka er varðar það að laða til sín bestu leikmennina, og það út af skattamálum, verður ennþá verra og breiðara ef þak kemur á ensku deildina eina og sér.

  7. Ef það ætti að setja launaþak á eina deild þá myndi það aldrei ganga upp, það yrði þá að ganga það sama um allar deildir en auðvitað mismunandi eftir deildum. En það er eitthvað sem verður að gerast samt vegna þess að þessi lið eru öll að springa vegna þenslu í sínum skuldum.
    Ég heyrði það um daginn að liðin í Ensku deildinni skulduðu meira en liðin í Spænsku, Ítölsku og þýsku deildinni til samans.

  8. Fótbolti er vinsæll út um allann heim annað en karfa sem er aðallega vinsæl í BNA, þá meina ég að þeir allra bestu hafa bara eina deild til að stefna á að spila í.

    Í fótboltanum eru alveg 3-4 mjög öflugar deildir með gríðarlega stórum klúbbum og hellingur af stórum deildum með klúbba innanborðs sem geta gert góða hluti meðal þeirra allra bestu.

    Enska úrvalsdeildin er þ.a.l. ekki alveg sambærileg NBA og því sé ég ekki hvernig launaþak eigi að virka bara þar. En ef hægt væri að útfæra svona á einhvern hátt væri það frábært, t.d. að launavelta hjá klúbb má ekki vera meira en 50% af innkomu eða eitthvað í þá áttina.

    En varðandi efni pistilsins þá er ég gríðarlega sammála SStein og er alfarið á móti allri svona skít mix fljótfærnis reglum og breytingum a la handbolti.

  9. Já já já, sorrí, ég var auðvitað að tala um eitthvað sameiginlegt þak sem að UEFA myndi setja á til dæmis öll lið sem mættu spila í Meistaradeildinni. Veit að það myndi auðvitað ekki ganga að hafa þetta bara í einni deild.

  10. Þessi hugmynd er bara fáránleg og umræðan líka. Ef þið skoðið töfluna frá síðasta tímabili þá endaði Arsenal í 4 sæti með 72 stig og Fulham í 7 sæti með 53 stig !!!!!! Þarna er 19 stig munur og að mínu mati er það ósanngjarnt að lið sem stendur sig svo miklu verr ætti að fá tækifæri til að spila um meistaradeildarsæti. Þetta er ekki Championsship deildin.

    http://www.skysports.com/football/league/0,19540,11660_0809,00.html

    Góðar stundir.

  11. Og já, þetta er magnað kvót í Guardian:

    He and his representatives are asking to be rewarded with a long-term deal and a salary closer to the likes of Emmanuel Adebayor, Kolo Touré, Joleon Lescott and Carlos Tevez, all of whom earn in excess of £100,000-a-week.

    Erum við ekki að grínast með það að Joleon Lescott skuli vera með yfir 100.000 pund á viku? Hvaða djók er þetta eiginlega?

  12. Ekki veit ég hvernig nýliðaval ætti að koma í gegn?

    Fengu bara úrvalsdeildarlið að taka þátt í því vali og hvaðan myndu þessir nýliðar koma? Í NBA og NCL (National Commercial League aka NFL) koma nýliðarnir frá háskólaliðum en það er ekki neitt collage football í Englandi eða Spáni. Þá væri líklegt að þessir nýliðar kæmu frá neðrideildarliðum og þá fer þetta nýliðaval að vinna gegn tilgangi sínum sem er að stuðla að jöfnuði í deildarkeppninni.

    Með úrslitakeppni þá gæti það vissulega verið ægilega skemmtilegt ferli, ég neita því ekki en til hvers að hafa 38 leikja deild ef úrslit ráðast í nokkrum útsláttarleikjum? Þessi hefð er ein af þessum markaðsvæddu kapítalisma hugmyndum vesturlanda og myndu láta fótboltann snúast enn meira um peninga en hún gerir í dag.

    Með launaþak þá er það hættulegur leikur nema FIFA setji einhverja reglugerð sem skipar öllum deildarkeppnum að fara eftir sama launaþaki. Þau sem svíkja þetta fyrirkomulag fá ekki að taka þátt í neinum keppnum FIFA eða undirstofnanna hennar, á borð við UEFA og þess háttar. Ef þetta ferli yrði ekki myndu einfaldlega allir flýja deildarkeppnirnar með launaþaki og fara eitthvert annað, þá líklegast til Rússlands, Quatar og Kína.
    Hins vegar með hjálp FIFA yrði farið mikilvægt skref í að bjarga knattspyrnunni frá glötun. Það á ekki að teljast eðlilegt að miðar á úrslitaleik HM kosti á milli 1-2 milljónir króna hjá FIFA. Þetta á að vera íþrótt fyrir allra en ekki sérvalda auðjöfra sem sjálfir breyttu íþróttinni úr íþrótt fyrir almenning í íþrótt fyrir einhvers konar elítu.
    Einnig væri sniðugt að innleiða reglu að knattspyrnufélög þurfi að vera sjálfbær í rekstri sínum og lifi ekki endalaust á fjármagni frá auðmönnum sem munu draga knattspyrnuliðin með sér í drullupollinn þegar þeir fara sjálfir þangað.

  13. Með launaþak þá er það hættulegur leikur nema FIFA setji einhverja reglugerð sem skipar öllum deildarkeppnum að fara eftir sama launaþaki

    Væri ekki lang einfaldast að það væri launaþak á þáttöku í Meistaradeildinni? Þangað fara bestu liðin og menn fara væntanlega ekki útí Man City / Chelsea pælingar með lið nema með það að markmiði að taka þátt í Meistaradeildinni.

    Auðvitað er alltaf hætta á að menn fari í aðra heimshluta, en sú hætta er ekki mikil. NBA glímir við þetta sama því að sumir leikmenn kjósa að spila í Evrópu (sjá t.d. menn einsog Ricky Rubio) en það er samt aldrei risavaxið vandamál því allir vita hvar besti körfuboltinn er.

    • Ricky Rubio

    Nú ertu að búa til nöfn!!

    Og er fólk virkilega ennþá að horfa á þessa snertingalausu íþrótt? 🙂

  14. Væri ekki lang einfaldast að það væri launaþak á þáttöku í Meistaradeildinni? Þangað fara bestu liðin og menn fara væntanlega ekki útí Man City / Chelsea pælingar með lið nema með það að markmiði að taka þátt í Meistaradeildinni.

    Ef ýmsir menn hafa fjármagn til að leggja milljarða ofan á milljarða til að kaupa lið, byggja leikvanga og borga himinhá laun ætti það ekki að standa í vegi fyrir þá að endurstofna deild eins og Champions League þar sem hægt er að greiða himinhá laun.
    Þar liggur vandamálið. Núna hafa leikmenn þann hvata til að spila í CL því það á að vera æskilegasta keppnin. Í henni eru flestir áhorfendur og hæstu peningaupphæðirnar en fyrir einhverja moldríka menn, þá sömu og eru nú að ganga af fótboltanum dauðum er lítið mál að færa þennan hvata leikmanna, frá því að spila í CL í því að spila í Arabian Oil Money League eða eitthvað á þeim bænum.
    Ef ég hef lært eitthvað í lífinu hingað til er það að peningar geta keypt allt. Hvort sem það er ást, nýra, SS pylsa eða fótboltalið. Þetta er þróun sem þarf að breyta, ekki bara knattspyrnunnar vegna heldur heimsins vegna sömuleiðis.

  15. Jæja, menn skemmtilega dramatískir og hástemmdir hérna. 🙂

    Getur einhver Púlari sagt mér hver hvort kjarnorka muni stöðva hlýnun jarðar og hver sé tilgangur lífsins?
    À Ísland að fara inní ESB? Mun launaþak í enska boltanum eyða hungursneiðinni í Eþíópíu?

    Burt með Benitez. Áfram Liverpool.

  16. Kjarnorka mun að sjálfsögðu ekki stöðva hlýnun jarðar enda er það fyrirbæri sem er tilkomið vegna fjölmargra aðstæða, bæði að völdum manna og annara utanaðkomandi.
    Tilgangur lífsins er vitanlega lífið sjálft. Hver tilgangur lífsins sjálfs er hins vegar allt annar handleggur og geri ég ráð fyrir því að það fari eftir einstaklingum. Er tilgangur lífsins þíns Liverpool?
    Ísland á að fara í ESB ef ávinningur þess er meiri en fórnarkostnaður.
    Á yfirborðinu hljómar það fullkomnlega furðulega að launaþak í enska boltanum gæti eytt hungursneyðinni í Eþíópíu, en ég tel það samt mjög líklegt. Því með lækkandi kostnaði og meiri eigum auðjöfra sem spara töluvert í launakostnað myndast svigrúm fyrir þá til að fjárfesta í afrískum efnahag, það gæti leitt til eyðingar hungursneiðar í Afríku, þar með talið Eþíópóu.

    Síðasta setningin þín Burt með Benitez, áfram Liverpool er svipað og að vira spilakassafíkill með fóbíu fyrir klinki. Það stangast gegn hvort öðru því eins og staðan er nú er Benitez með Liverpool og því í allra þágu sem styðja LFC að honum vegnist vel í starfi og fái framlengdan samning.

    Hættur í bili.

  17. Hrópandi ósammála greinarhöfundi. Held að umspilið gerði þessa deild mun skemmtilegri þar sem fleiri lið ættu möguleika á að komast í djúpa vasa meistaradeildarinnar. Gæti mögulega verið stórt skref í að brjóta upp þessa fjögurra liða elítu.
    Og varðandi þetta:
    “Er ekki skynsamlegast að þú vinnir þér inn rétt með því að standa þig í deildinni, en ekki innbyrðis viðureignum eftir tímabilið? Það er allavega mín skoðun á þessu. Af hverju þá bara umspil um fjórða sætið? Af hverju bara liðin í sætum 4-7? Eigum við að hafa play offs fyrir öll sætin í deildinni? Eigum við að hafa play offs um Englandsmeistaratitilinn?”
    Hvað með neðri deildirnar? Á liðið sem lendir í þriðja sæti í fyrstu deildinni þá ekki sömu heimtingu á að fara beint upp í stað þess að keppa í umspili?

  18. Jú. Auðvitað ætti liðið í þriðja sæti í neðri deildunum að fara beint upp. Það að asnalegar reglur séu notaðar í neðri deildunum réttlætir ekki að þær séu teknar upp í úrvalsdeild líka.

    En það sem gerir umspilið enn fáránlegra í efstu deild er að í efri hlutanum þar eru lið jafnan að keppa í Evrópukeppnum, + það að langflestir leikmenn eru landsliðsmenn. Leikjafjöldinn yfir tímabilið er því rosalegur og svigrúm til að bæta við auka umspili í lok tímabils er ekkert. Skoðum t.d. lið sem fer í slíkt umspil eftir að tímabili lýkur um miðjan maí, svo er EM eða HM um sumarið og síðan þurfa leikmennirnir að byrja í forkeppni meistaradeildarinnar í byrjun ágúst. Út í hött.

  19. Lolli þú fékkst prik í kladdann hjá mér fyrir mjög svo gott svar. Verð að viðurkenna að ég frussaði bjórsopanum sem ég var með uppi í mér þegar ég las þetta. Flottur penni.

  20. Spilakassafíkill með fóbíu fyrir klinki !!! !!! !!!

    😉 Ég hló upphátt þegar ég las þenanan part.

    C.B

  21. Lolli – vúhúúú. Þú ert með svör við öllu!

    Annars hafa margir góðir punktar komið fram hér. Ég hef grun um að almennt séu ensku liðin að reisa sér hurðarás um öxl – nema sennilega Arsenal. Þeir hafa þanist út með lánabólunni og eiga erfitt með að reka sig á eðlilegum rekstrargrundvelli – með sjálfbærni. Þar af leiðir að ensku liðin munu taka dýfu á næstu 5-10 árum í Meistaradeildinni og tapa fjórða sætinu. Þá verður þessi pæling um umspil óþörf, nema ef menn myndu vilja spila um 2-3 sæti. Sem verður varla.

  22. Hvað með neðri deildirnar? Á liðið sem lendir í þriðja sæti í fyrstu deildinni þá ekki sömu heimtingu á að fara beint upp í stað þess að keppa í umspili?

    Algjörlega ekki, alveg jafn fáránleg regla í neðri deildunum, það að þetta sé fíflaregla þar, er ekki þar með sagt að sama fíflareglan eigi að færast í Úrvalsdeildina.

    Annars er Lolli svo gjörsamlega algjörlega með þetta. Spilafíkilsvísunin er bara tær djöfuls schniilllld.

  23. Fótboltinn er söluvara á markaði eins og önnur vara. Ástæðan fyrir því að meistaradeildinn var stofnuð á sínum tíma var sú að E-18 hópurinn svo kallaði hótaði því að stofna sína eigin deild ef að þau fengu ekki, það sem þeim fannst eðlileg hlutdeild í tekjum deildarinnar. Þessi hópur samanstóð af liðum eins og Liverpool, Manchester urinals, Barcelona, Real Madrid, Juventus, AC Milan, Bayern Munchen svo að einhver séu nefnd. Með öðrum orðum þetta eru liðin sem selja deildinrnar í heimalöndum sínum og meistaradeildina.

    Eins var Enska úrvalsdeildin stofnuð á sínum tíma þegar 20 stærstu klúbbarnir á Englandi hótuðu að segja sig úr FA og stofna sína eigin deild. Þessi lið voru ósátt við að þær tekjur sem sköpuðust í deildinn, sem urðu til með þeirra þátttöku, væri dreift á “sósíalískan” hátt milli hinna stærri sem smærri. Þannig er sá munur sem er á milli stóru og litlu liðanna tilkominn. Það segir sig sjálft að ef að E-18 hópurinn myndi láta verða af hótun sinni, myndu fáir kaupa áskrift að sjónvarpsstöð þar sem stórleikur umferðarinnar væri toppslagur Fulham og Sunderland. Stóru liðinn vilja fá þær tekjur sem að þau skapa.

    Hvað varðar launaþak og samanburð við NBA. Þá gæti slík deild sem stofnuð yrði af E-18 sett slíkt launaþak til að jafna samkeppni sín á milli. Slíkt þak yrði sett á þeim stað að tryggt væri að engin deild gæti keppt við það, líkt og í NBA. Ef að upp kæmi deild sem að gæti keppt við NBA sem söluvöru yrði launþakið einfaldlega hækkað til að kom í veg fyrir það. Það að setja launaþak yfir allar deildir Evrópu væri einfaldlega að gefa liðum eins og Fulham og Sundeland tækifæri á að keppa við stórliðinn sem áður er minnst á og að fá hlutdeild í þeim tekjum sem þau skapa. Þetta er eitthvað sem stórliðin munu ekki sætta sig við og því dreg ég þá ályktun að ekkert muni gerast í þeim málum.

    Áfram Liverpool

  24. Austantjaldsmaður. Bið þig afsökunar að hafa eyðilagt fyrir þig sopa af vonandi fyrsta flokks mjöði 🙂

  25. Í sambandi við launaþak á ensku deildina og eitthvað álíka hljómar það ekki svo spennandi. En menn verða líka að hafa í huga að þessi stórveldistími ensku deildarinna er ekkert sjálfgefinn og mun ekki endast að eilífu. Ég er fæddur 84 og þegar ég var að byrja að fylgjast með boltanum var ítalska deildin sú flottasta. Og þó enska deildi sé langstærst á Íslandi, Norðulöndum og fleiri vestur-evrópulöndum þá lærði ég það þegar ég kynntist fólki frá austur-evrópu og öðrum heimshlutum að sú ítalska, spænska og fleiri deildir eru vinsælli í mörgum tilvikum. Eftir 10 ár gæti landslagið í boltanum verið algjörlega breytt.

  26. Ég er reyndar algerlega sammála síðasta ræðumanni hvað það varðar, að það er alls ekkert sjálfgefið að frægðarsól ensku knattspyrnunnar skíni alltaf hærra en annarrar knattspyrnu. það er rétt að Ítalska deildin var einu sinni mun vinsælli hérna á íslandi, en þar spiluðu nú markaðslegar aðstæður talsvert inní. það er, að Stöð2 sinnti því mjög vel að sýna frá og fjalla um Ítalska boltan, á meðan sá enski sat meira á hakanum. Eins var spilaður mun einsleitari bolti á Englandi, á þeim tíma.
    Rétt er það einnig að á sumum svæðum er Enska knattspyrnan ekkert endilega sú vinsælasta. En það er engu að síður svo að Enski boltinn hefur náð gríðarlegum vinsældum um alla evrópu, en að sjálfsögðu getur allt breyst. Um þessar mundir finnst mér bara lang skemmtilegasta knattspyrnan spiluð á Englandi, en þannig var það ekki einu sinni, og ekkert sjálfgefið að það verði þannig endalaust.
    En markaðslegir yfirburðir enskrar knattspyrnu eru miklir á ákveðnum svæðum, svo þetta er ekkert að fara að breytast alveg á næstunni.

    Nú veit ég ekki hvernig þetta er hjá liðum í öðrum deildum evrópu, en ég veit það fyrir víst, að menn hafa orðið talsverðar áhyggjur af fjármálastöðu margra enskra klúbba, og spurning hvort það feli ekki í sér óhjákvæmilegar breytingar í framtíðinni. það eru margir klúbbar illa staddir og mjög margir, mjög illa staddir. Margir þeirra hafa veri reknir undanfarið eins og íslenskt útrásarfyrirtæki hreinlega.

    En hvernig er það … styttist ekki í leik, og með upphitun og öllu tilheyrandi ?

    kv, Carl Berg

  27. Ekkert varir að eilífu… Tímabil richministans í Enska fótboltanum mun að endanum líða undir lok vegna gífurlegra skuldsetninga sem mun leiða til gjaldþrotahrinu allra félagsliða í úrvalsdeildinni!
    Það er spurning hvort Rúv eða Stöð tvö fari ekki að tryggja sér ítalska eða þýska boltann aftur. Eflaust er hægt að ná mjög hagstæðum sjónvarpsréttarsamningum við forráðamenn þessara deilda þar sem það er fyrirsjáanlegt að í náinni framtíð munu vinsældir Enska boltans fara dvínandi!

Landsleikir gærkvöldsins

Wigan á morgun