Sá í fréttunum í dag að eftir tapleikinn gegn Birmingham um daginn varð Rafa þreyttur á að bíða eftir að Hamann skrifaði undir nýjan samning við Liverpool, og dró samningstilboðið til baka. Hamann fékk í kjölfarið þau skilaboð að svona seinháttur yrði ekki liðinn, næstu umræður um framlengingu myndu ekki eiga sér í stað fyrr en í fyrsta lagi í apríl og að í millitíðinni yrði hann að gjöra svo vel og sýna í verki hversu mjög hann vill vera áfram. Hamann brást við með því að eiga frábæran leik gegn Leverkusen á miðvikudag og mun vonandi halda því áfram.
Ég hef svo sem ekki mikið að segja um þetta, utan þessarar einu, einföldu setningar sem brennur á mér: Þetta eru hárrétt viðbrögð hjá Rafa … en af hverju í ósköpunum gerir hann þetta ekki líka við Stevie Gerrard???
Það sitja greinilega ekki allir jafnt til borðs, því miður. Ekki furða þótt Stevie telji sig vera yfir klúbbinn hafinn, þegar hann fær svona sérstaka drottningarmeðferð. Það eina rétta í stöðunni væri að heimta það að hann annað hvort skuldbindi sig með yfirlýsingu núna strax, eða þá að hann verði settur á sölulista um leið og tímabilinu lýkur. Það væri það eina rétta.
Þá langar mig að benda fólki á enn eina frábæru greinina eftir Paul Tomkins, sem er einfaldlega besti Liverpool-penninn á netinu í dag: Why Liverpool Will Win The Champions League!
Tomkins gerir tímabilinu okkar hingað til frábær skil í þessari grein og setur síðan fram sínar ástæður fyrir því af hverju við gætum farið lengra í Meistaradeildinni. Hann dregur upp samanburði við Liverpool-liðið vorið ’88, sem tapaði óvænt fyrir Wimbledon í úrslitaleik FA Bikarkeppninnar, og svo Arsenal-liðsins í fyrra sem tapaði óvænt seinni leiknum gegn Chelsea á Highbury í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Í báðum tilfellum þoldi það lið sem var talið miklu, miklu, miklu, miiiklu líklegra til að sigra ekki álagið og hrundi undir þunga væntinganna. Tomkins vill meina að í ár geti það verið okkur í vil að fá lið eins og Chelsea eða Juventus, sem voru ólíklegri aðilinn í sínum einvígjum í 16-liða úrslitum (gegn Barca og Real Madríd) en myndu skyndilega standa í þeim sporum að það byggjust allir við sigri þeirra.
Eftir að hafa lesið þessa grein líst mér hreint ekkert svo illa á að fá Chelsea í 8-liða úrslitum. Í fyrra höfðu þeir þegar tapað fyrir Arsenal í bikarkeppninni og báðum deildarleikjunum, og Arsenal-liðið var að spila svo vel að menn töldu gjörsamlega óhugsandi að Chelsea myndu vinna þá á Higbury. Sem var einmitt það sem gerðist.
Í ár eru Chelsea þegar búnir að vinna okkur þrisvar. Þeir eru líka búnir að eyða einhverjum 250m punda síðustu 20 mánuðina í leikmenn, Abramovitsj situr uppí stúku og heimtar sigur í Úrvals- og Meistaradeild fyrir snúð sinn og við vitum sem er að ef við drægjumst gegn þeim myndi fjölmiðlaumfjöllunin sennilega snúast um það hversu illa við myndum tapa fyrir þeim. Þetta eru einu tvö ensku liðin eftir og því yrði öll athyglin á Bretlandseyjum á þessu stóra einvígi, og það myndu hreinlega allir afskrifa okkur, þ.m.t. stór hluti Liverpool-aðdáenda.
Sem myndi einmitt setja okkur í svo góða stöðu. Við gætum tapað 2-0 á Anfield og 4-0 á Stamford Bridge án þess að valda vonbrigðum. Það væri einfaldlega ekki búist við neinu öðru af okkur en að steinliggja fyrir Maureen & The Golden Boys.
En ímyndið ykkur á móti hversu mikil pressa yrði á þeim bláklæddu frá London að sigra þessa rimmu. Ímyndið ykkur hjartsláttinn hjá þeim þegar þeir gengju undir “This Is Anfield”-merkið og út á snarbrjálaðan heimavöll okkar, vitandi að það heimta allir að þeir sigri.
Ég sé þá fyrir mér lamast undan slíkum þrýstingi, rétt eins og Arsenal lömuðust í fyrra. En þið?
Er samt ekki munurinn á Gerrard og Hamann sá að Hamann var í samningaviðræðum við Liv. og á ekki eftir mikinn tíma af samningnum en ekki Gerrard. Það væri asnalegt ef allir leikmenn sem væru orðaðir við önnur lið væru sífellt að skuldbinda sig við Liv. við fjölmiðla. Ekki myndi maður gera það í sömu stöðu, annað mál er draga það að skrifa undir nýjan samning.
Kv,
BFI
p.s. Ég vil ekki chelski strax, frekar í úrslitum. Við fáum PSV bara svona til að segja ykkur það.
Eins og staðan er í dag þá eru allir að segja að LFC sé eitt af surprise liðunum í 8 liða úrslitunum og það virðast koma raddir víðsvegar um heim um að við gætum unnið þennan blessaða bikar. Málið er að við erum ekkert í svipuðum sporum og t.d. Danir er þeir unnu evrópukeppnina forðum eða Grikkir sem hreinlega var mígið yfir af því að þeir áttu ekki séns í bikarinn. Það eru svo margir sem eru að spá LFC sigri í CL að við erum í raun ekki neitt “surprise” lengur. Annars tel ég að Rafa sé með allt á hreinu varðandi taktíkina í evrópu en þarf að taka til heimafyrir til að við komumst framvegis í CL.
Alveg sammála BFI hérna, mér finnst þú skjóta ansi hátt yfir markið þarna Stjáni. Staða Steven Gerrard samningslega og Didi Hamann er alveg svart og hvítt, annar á 3 mánuði eftir af sínum og hef verið að stalla það að skrifa undir samning sem hefur legið á borðinu fyrir hann.
Hinn á 2 ár og 3 mánuði eftir af sínum, og þar hefur enginn samningur verið á borðinu, eða samningaviðræður í gangi. Ég sé bara ekkert sem myndi bæta stöðuna hjá okkur eins og hún er núna, að krefja Steven um svar. Við þurfum svo sannarlega á honum að halda í fullum gír fram á vorið, þá þarf að berja í borðið og láta hann taka ákvörðun varðandi framtíðina. Við græðum akkúrat ekkert á því að fara út í það rugl núna, núna þarf eingöngu að einbeita sér að því að klára þá leiki sem eftir eru í þeim keppnum sem við erum í.
Ég er bara ósammála þér með það Steini, því miður. Ef hann hefði haldið kjafti í allan vetur þá væri þetta ekkert vandamál. En hann hefur komið með yfirlýsingar, sumar illa tímasettar en allar niðurrífandi fyrir móralinn í liðinu. Heldurðu að leikmennirnir hafi ekki gengið inná völlinn gegn Olympiakos meðvitaðir um ‘dulda hótun’ Gerrards á blaðamannafundi kvöldið áður?
Þetta er fyrirliðinn okkar og hann sagðist þurfa að endurskoða framtíð sína ef við dyttum út … einum degi fyrir leik! Það kallast ekki að vera fyrirliði og peppa liðið sitt upp, það kallast að vera egóisti sem telur sig yfir liðið hafinn.
Með öðrum orðum, orð Gerrards hafa sært okkur í vetur og jafnvel kostað okkur nokkra leiki, þar sem hann hefur bæði sett of mikla pressu á sjálfan sig sem hann getur aldrei staðið fyllilega undir og þá hefur hann valdið taugatitringi innan liðsins, sem skilar sér í frammistöðunni á vellinum.
Það sjá þetta allir sem hafa horft á liðið í vetur, líka hörðustu Gerrard-stuðningsmenn.
Málið er bara það að af því að hann er ‘mögulega’ að hugsa um að fara, þá þorir enginn að segja neitt. Ekki heldur þegar, rétt fyrir leik sem að hann átti að sitja hjá vegna leikbanns, hann sagðist ekki hafa trú á því að við gætum unnið Meistaradeildina. Rafa leiðrétti þau orð hans, en þurfti að fara mjög fínt í það.
Gerrard er að verða eins og hundleiðinlegi frændinn sem maður hatar og vill ekki eyða fimm mínútum af ævinni með, en maður leggur það á sig að fá hann í heimsókn og þola hann fram yfir páskana … af því að hann á peninga og þegar sumarið kemur vonar maður að hann hrökkvi uppaf og skilji eftir væna summu í arf. Gerrard er að skaða klúbbinn tilfinningalega, eftir sum af ummælum sínum í vetur, með hverjum deginum sem líður án þess að hann lýsi því yfir að hann ætli að vera áfram.
Ekki það að margir myndu trúa honum – Owen sagðist ætla að skrifa undir og var farinn innan við viku seinna – en það myndi allavega vera byrjunin. Við verðum að átta okkur á því að það var ekki endilega það að hann var næstum því farinn til Chelsea síðasta sumar sem gerði marga af hans hörðustu stuðningsmönnum brjálaða út í hann. Það var í góðu lagi, hann íhugaði það og ákvað svo að vera kyrr, sýndi hollustu á meðan Saint Mike sveik okkur.
Það sem gerir menn brjálaða er að síðan hann ákvað að verða kyrr hefur hann legið yfir Rafa Benítez eins og lítið óveðursský sem segir … “eitt tímabil, vinna titla, annars er ég farinn” … í sífellu. Það er óþolandi að hugsa til þess að Rafa skuli þurfa að vinna við þær aðstæður, nóg þarf hann að kljást við annað.
Þannig að já, að mínu mati getur Gerrard alveg þagað og spilað vel þangað til í vor og síðan ákveðið sig. En þá munu menn líka alltaf vita að ef hann verður kyrr í vor er það vegna þess að hann sér sinn hag í því að vera kyrr. Ef hann myndi taka af skarið núna og segjast ætla að gefa Rafa lengri tíma til að koma liðinu á toppinn myndi það sýna að hann væri að hugsa um ást sína á klúbbnum. Á því er munur.
Við getum líka hugsað þetta svona: Jamie Carragher er alveg nákvæmlega jafn metnaðargjarn og Steven Gerrard og gæti gengið inn í hvaða lið sem er á Englandi (og flest í Evrópu) eftir yfirstandandi tímabil. Ef Chelsea og fjölmiðlavélin færu af stað að reyna að krækja í Carragher, hvað heldurðu að yrði það fyrsta sem myndi gerast? Hann myndi segja þeim að grjóthalda kjafti og spara sér fyrirhöfnina, hann sé ekkert á förum því hann vilji miklu frekar vinna Chelsea í rauðri treyju.
Hann er Liverpool-maður fyrst og fremst, team player. Ef Gerrard væri það líka myndi hann sanna ást sína á liðinu og lyft óveðursskýjunum af Rafa og strákunum núna strax með því að segjast ekki vera á förum.
Ef hann bíður þangað til í sumar er ég ekkert viss um að ég vilji hafa hann áfram. Í alvöru. Einn besti knattspyrnumaður í heimi í dag og erfitt að fá hans virði fyrir 30 millur … en fótbolti snýst um meira en getu. Það þarf að vera á hreinu svo að augljóst sé hver setur reglurnar, hver ræður, að Liverpool FC lætur ENGAN koma svona fram við sig eins og Gerrard hefur gert.
Og hana nú! 🙂
Jæja Stjáni minn 🙂
Alltaf gaman að smá rithasar 😉 Mér finnst þú þarna hlaupa hring eftir hring í kringum grautinn. Hérna kom dramað:
“Það sitja greinilega ekki allir jafnt til borðs, því miður. Ekki furða þótt Stevie telji sig vera yfir klúbbinn hafinn, þegar hann fær svona sérstaka drottningarmeðferð. ”
Bottom line-ið er að samningur Didi er að renna út eftir 3 mánuði og þar voru menn í samninaviðræðum. Það eru engar samningaviðræður í gangi við Stevie.
Ég er hartanlega sammála þér með sumar yfirlýsingarnar hjá Stevie, og oft hafa þær verið afar illa tímasettar. Þessi tvö dæmi eru bara einfaldlega ekki sambærileg og því engin drottningarmeðferð í gangi. Það hefur nú reyndar verið svo að orð hans hafa verið tekin og snúin oft úr öllu samhengi, sem dæmi er þetta þar sem þú talar um að hann hafi sagt að Liverpool gæti ekki unnið CL. Þar til dæmis var um viðtal að ræða sem tekið var upp löngu áður, en ákveðið að birta það á þessum tímapunkti, og þar meira að segja talaði hann ekki beint um að hafa ekki trú á Liverpool í keppninni, heldur að aðrir væru líklegri.
Auðvitað væri það ósk okkar allra að hann kæmi fram núna og segðist ætla að committa sig félaginu um ókomna framtíð. Ég er þó viss um að það gerist ekki, og ég er ekki viss um að ég vildi stilla honum upp við vegg og láta hann taka ákvörðun um það á þessum tímapunkti tímabilsins, hann hefði þurft að gera það mun fyrr. Á þessum tímapunkti tel ég mikilvægast að einbeita sér að þeim verkefnum sem framundan eru, og gleyma Steven Gerrard um stund, fá hann í sitt besta form og reyna að klára tímabilið á sem bestan hátt.
Ég skil reyndar það sjónarmið engan veginn að ef allt gengur upp, hann verður afar ánægður, skrifar undir nýjan langtímasamning og ákveður að framtíð sín sé hjá félaginu, að þá séu menn ekki vissir um að menn vilji það? So sorry, bara næ ekki þessum hugsunargangi. Við þyrftum alltaf að fá replacement fyrir hann, halda menn að menn fái mann í sambærilegum gæðaflokki sem væri þá meira committed? Held ekki.
Ég hef oft verið pirraður og brjálaður út í ummæli og skort á ummælum frá honum. Mér finnst engu að síður menn vera orðnir ansi hreint ósanngjarnir í hans garð. Það er orðið alveg sama hvað hann segir, eða segir ekki, menn rísa upp á afturlappirnar og blóta honum í sand og ösku. Rafa vinnur með drengnum á hverjum degi, það eru fáir leikmenn sem leggja jafn hart að sér á æfingum og hann, og á öllum þessum tíma þá hefur hann einnig verið að gefa sig allan í þetta inni á vellinum. Hann lenti reyndar í lægð núna eftir áramótin, eins og reyndar margir aðrir í liðinu, en ég efast ekki um það eina sekúndu, að á meðan hann klæðist rauðu treyjunni, þá leggur hann sig allan fram fyrir félagið.
Ef við eigum að hætta að láta okkur varða leikmenn liðsins af því að þeir pæli ekkert í sínum eigin hagsmunum, heldur bara ástinni á Liverpool, þá værum við líklega bara með einn leikmann í okkar herbúðum. Restinni gætum við þá hent. Ég er reyndar pottþéttur á því að sá sem kemur næst Carra í ást sinni á Liverpool er einmitt títtnefndur Steven Gerrard, þó svo að hann sé að spá mikið í eigin hag líka.
Ég er reyndar eins og þú, kominn langt út fyrir argument-ið sem upphaflega var. Þ.e. að Rafa væri ekki að tríta menn eins, Didi vs. Stevie. Það er bara einfaldlega svo langt frá því að vera svipuð aðstaða uppi og því ekki um það að ræða að verið sé að raða mönnum upp við sitthvort borðið.
Og habblaha
😉
Djöfullinn sjálfur Steini… það gengur ekki að rífast við svona málefnalega menn! Geturðu ekki komið með skítkast eða eitthvað, svo að ég geti staðfest yfirburði mína í þessum umræðum? :tongue:
Ég held svei mér þá að þetta sé bara eitt af því sem við verðum að vera sammála um að vera ósammála yfir. Því miður.
Eitt samt: það skal ekki sagt að ég sé búinn að vera að dissa Steven Gerrard í vetur. Ég hef reynt að halda mig á hlutlausu nótunum eins lengi og ég get og passaði mig að gagnrýna hann eins lítið og ég gat frameftir … en eftir tapið gegn Chelsea var það bara ekki hægt lengur. Ég er ekki að tala um frammistöðu hans í leiknum, ég er að tala um allt hitt … eins og það að hann skyldi sitja “einn útundan” í grasinu eftir leik, niðurbrotinn án þess að nokkur maður kæmi að hugga hann … fyrr en Mourinho kom. Þessi sjón, sem og nokkrar aðrar í þeim leik, urðu til þess að ég gat ekki setið á mér lengur. Það var svo augljóslega eitthvað að.
Síðan kom frammistaðan gegn Newcastle, þar sem hann var ekki að spila illa. Hann bara nennti þessu ekki. Það var augljóst. Og þá varð ég reiður! Jú, hann var frábær á miðvikudaginn en við vissum alltaf að hann myndi ná að rífa sig upp og gera sitt í stórleik í Meistaradeildinni.
Spurningin núna er: verður hann jafn kraftmikill gegn Blackburn í næsta leik og hann var gegn Leverkusen – eða fáum við að sjá Newcastle-Gerrard aftur? Ef hann verður út um allan völl að rífa menn áfram og búa til hluti gegn Blackburn og svo Everton, eins og hann var gegn Leverkusen, skal ég ánægður taka til baka ummæli mín um hann síðustu vikuna.
Ef Newcastle-Gerrard snýr hins vegar aftur í næsta deildarleik þá tel ég orðið nokkuð ljóst að hann er ekki að spila illa í deildinni vegna leiklægðar, heldur vegna áhugaleysis.
Vona samt að ég hafi rangt fyrir mér, vona það innilega.
Þannig að ég stend við allt sem ég hef sagt. Gerrard hefur eyðilagt helling fyrir sér og liðinu í vetur og þótt rökræða megi hversu miklum skaða hann hefur valdið er ljóst í mínum huga að hann hefur allavega ekki hjálpað málunum með þessum ‘duldu hótunum’ sínum.
Sjáum hvað gerist gegn Blackburn. Vonandi sjáum við Leverkusen-Gerrard þar, ekki Newcastle-Gerrard.
Hann þorir ekki öðru en að sína sitt rétta andlit í næstu tveim leikjum. Hann veit af mér á áhorfendapöllunum og ég get sko sparkað fast í rassgöt þegar það á við :biggrin: