Hvað er eiginlega að gerast hjá Liverpool? Hvernig gat þetta lið, sem fyrir nákvæmlega ári síðan rústaði Real Madrid 5-0 í tveimur leikjum og Man Utd 4-1 á Old Trafford, hrunið svona gjörsamlega á fimmtíu og tveimur vikum? Það er erfitt að standa fyrir utan múrinn sem umlykur Anfield og Melwood þessa dagana og vita ekki nákvæmlega hvað er á seyði en ýmislegt hefur maður heyrt og annað þykist maður hafa séð út undan sér og þessi pistill er í raun tilraun mín til að skilja ástandið.
Fyrst, smá viðvörun: þessi pistill er ekki fyrir óþolinmóða. Ástandið hjá liðinu okkar í dag er ekki aðeins mjög slæmt heldur stórundarlegt og ég hef í nokkrar vikur ætlað mér að reyna að taka saman smá yfirlit yfir stöðuna til að reyna að komast til botns í því hvað er í gangi.
Þið hafið verið vöruð við. Þetta verður ekki stutt lesning. Fyrir þá sem eru forvitnir og vilja komast til botns í því hvað er í gangi í dag þá býð ég ykkur að lesa pistilinn og endilega koma með ykkar kenningar í ummælunum, ef þær eru einhverjar.
Það er engin ástæða til að fegra eða sverta það hver staða liðsins er í dag. Tölurnar tala sínu máli; í fyrra tapaði liðið fimm leikjum allt tímabilið; gegn Middlesbrough og Tottenham í deildinni, Arsenal og Everton í bikar og Chelsea í Meistaradeildinni. Aðeins einn þessara leikja, Chelsea í CL, tapaðist heima. Liðið var frábært mestan hluta leiktíðarinnar og endaði í öðru sæti með 86 stig, stigafjölda sem hefði dugað til að vinna deildina á sex af síðustu tíu leiktíðum þar áður. Aðeins ótrúlegur endasprettur Man Utd í deildinni neitaði okkar mönnum um að vinna loksins titil.
Nú, ári síðar, er staðan önnur. Eftir að meirihluti íþróttafréttamanna í Englandi hafði spáð Liverpool titlinum á komandi tímabili hófst liðið strax handa við að valda vonbrigðum með því að tapa tveimur af fyrstu þremur deildarleikjunum, detta út úr báðum bikarkeppnunum snemma og klúðra riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Eftir hvert áfallið á fætur öðru sitjum við því hér, í miðjum marsmánuði, og horfumst í augu við nöturlegar staðreyndirnar: liðið er úr leik í báðum bikarkeppnum, á í besta falli langsóttan séns á að ná 4. sætinu í Úrvalsdeildinni og stendur á barmi þess að falla út úr Evrópudeildinni líka eftir 1-0 tap fyrir Lille í fyrri leiknum.
Á síðustu leiktíð tapaði liðið fimm leikjum í öllum keppnum. Í ár hefur liðið tapað fimmtán. Og á enn erfiða leiki eftir. Eins og liðið er að spila í dag gætum við vel verið að tala um tuttugu tapleiki á einni leiktíð, eitthvað sem ætti ekki með nokkru móti að vera staðreynd hjá klúbbi eins og Liverpool FC.
Hverju er þá um að kenna? Hvernig í ósköpunum lentum við í þessari stöðu? Hvernig gat þetta lið, sem varð fyrir lágmarks leikmannabreytingum síðastliðið sumar, farið frá því að valda skjálftum um alla Evrópu (og á Old Trafford) í það að vera svo slæmt að Man Utd-aðdáendur eru hættir að stríða manni og farnir að sýna manni ósvikna vorkunn í staðinn. Hvernig gat þetta gerst? Hverju(m) er um að kenna?
Ég ætla að fara kerfisbundið yfir þetta, bæði bjóða fram mína skoðun á hverju atriði og reyna að varpa ljósi á hvað fór úrskeiðis.
Áður en ég byrja vil ég taka fram að ég er ekki og hef aldrei verið einhver sérstakur stuðningsmaður Rafael Benítez. Ég hef ávallt litið á sjálfan mig sem stuðningsmann Liverpool FC fyrst og fremst og þótt ég hafi margsinnis verið sakaður um hið andstæða þá myndi ég aldrei fórna hagsmunum Liverpool til að sjá einhvern uppáhalds stjóra eða leikmann fá sínu framgengt innan félagsins. Ég styð Rafa Benítez í hverjum einasta leik á meðan hann stýrir Liverpool en ef/þegar sá tími kemur að það sé rétt fyrir félagið að hann víki mun ég ekki hika við að viðra þá skoðun.
Ég vil biðja menn um að hafa þetta í huga þegar farið er yfir listann hér fyrir neðan. Ég er hvorki að reyna að víkja ábyrgð frá Benítez né fegra gjörðir hans, heldur einfaldlega að segja frá hlutunum eins og ég sé þá.
Ég vil taka þennan flokk fyrir einfaldlega til að koma honum frá. Það er sama hvað menn segja, það er staðreynd að Liverpool hefur verið óheppið á ýmsan hátt í vetur. Menn telja gjarnan til strandboltann margfræga í leiknum gegn Sunderland og þó liðið hafi verið grútlélegt í 85 mínútur í þeim leik eftir að fá á sig markið breytir það ekki þeirri staðreynd að fokking strandbolti skoraði mark hjá okkur. Það. Er. Óheppni. Dauðans. Þarf ekkert að ræða það meira.
En það er ekki eina óheppnin, og ef eitthvað er er strandboltinn aðeins vísir að stærri óheppni sem hefur elt okkur í vetur. Í fyrra vann Liverpool að ég held nokkuð margar vítaspyrnur, sennilega vel yfir meðaltali fyrir síðustu ár, og hlaut einnig þann heiður að vera það félag sem oftast í Úrvalsdeildinni sá andstæðingi vísað af velli með rautt spjald. Þar munaði mest um Xabi Alonso sem var svo oft fórnarlamb rauðspjaldatæklinga að það var farið að vera gangandi brandari á þessari síðu.
Í vetur er staðan hins vegar allt önnur. Xabi er horfinn á braut og með honum virðist hafa horfið samúð dómara í garð Liverpool. Það er langt því frá að ég kenni dómurum um gengi Liverpool í vetur en þeir hafa klárlega ekki hjálpað til. Í vetur er Liverpool búið að fá fæstar vítaspyrnur allra liða sér í hag í deildinni (aðeins tvær) og hefur verið meinað um einhverjar tólf aðrar sem endursýningar sýna að hefðu átt að vera klár víti skv. pistli Paul Tomkins á lokaðri síðu sinni.
Að sama skapi höfum við fengið fleiri rauð spjöld í deildinni í vetur heldur en á síðustu þremur leiktíðum á undan samfleytt. Auðvitað er hægt að tala um að sum rauð spjöldin í vetur séu réttlætanleg en ef við kíkjum á einstaka leiki – t.d. Everton-leikinn þar sem Pienaar og Fellaini sluppu með hroðatæklingar en Kyrgiakos var svo (réttilega) rekinn af velli fyrir að sýna takkana í tæklingu, þá er augljóst að dómgæslan hefur ekki verið okkur hliðholl í vetur.
Þriðja atriðið á eftir strandboltanum fræga og dómgæslu í óheppnispakka okkar í vetur eru svo meiðslin. Við vissum fyrir leiktíðina að hópurinn væri ekki eins breiður og hjá hinum toppliðunum og því byggðist mat flestra á mögulegum titilvæntingum Liverpool sennilega á þeirri von að lykilmenn liðsins gætu haldið sér tiltölulega heilum í vetur. Það hefur einfaldlega ekki ræst.
Fernando Torres og Steven Gerrard hafa, annað árið í röð, verið þrálátlega meiddir í vetur og auk þeirra höfum við saknað leikmanna eins og Glen Johnson, Daniel Agger, Alberto Aquilani, Fabio Aurelio, Albert Riera, Yossi Benayoun og nú síðast Martin Skrtel á leiðinlega löngum tímabilum í vetur. Það er einfaldlega staðreynd að Rafa Benítez hefur ekki getað stillt upp sínu sterkasta liði með alla leikmenn í leikformi í eitt einasta skipti í vetur.
Auðvitað er hægt að tala um æfingaprógramm og slíkt og alveg jafnt og með aukninguna á rauðum spjöldum hljóta meiðslavandræðin í vetur að vera ástæða fyrir þjálfarateymið að setjast niður og taka alvarlega naflaskoðun á æfingaprógrammið sitt fyrir næsta tímabil. Það er gífurleg óheppni að missa svona marga lykilmenn í meiðsli en kannski er þetta meira en bara óheppni. Kannski er þjálfaraprógrammið ekki rétt.
Og þá kemur að næsta þætti, þætti framkvæmdarstjórans. Ég ætla að biðja menn að anda rólega áður en þeir lesa þetta því eins og umræðurnar á síðunni hafa verið undanfarnar vikur verður það þáttur stjórans í þessu öllu saman sem á eftir að skipta álitum hvað mest.
Rafael Benítez er frábær framkvæmdarstjóri. Ferilskrá hans talar sínu máli og um hana rífst enginn. Fyrir nákvæmlega ári síðan hefði ég sagt að hann væri hárréttur maður fyrir Liverpool því þá var hann búinn að stjórna liðinu í fimm ár og allan þann tíma hafði liðið verið að taka stórstígum framförum. Hann hafði unnið Evróputitil, búið til lið sem var efst í evrópskum styrkleikaflokki, lið sem meirihluti íþróttafréttamanna á Englandi taldi að væri að fara að vinna titilinn á þessum vetri.
Svo fór að halla undan fæti. Sumir vilja meina að hann hafi klúðrað þessu frá byrjun með því að stilla upp rangri taktík frá upphafi tímabils og frysta leikmenn eins og Babel og nota leikmenn eins og Lucas og Kuyt. Það er að mínu mati ekki réttmæt gagnrýni því hann hóf þetta tímabil á nákvæmlega þeirri taktík sem skilaði honum svo langt tímabilið á undan. Leikmannabreytingarnar voru líka í lágmarki – í stað Arbeloa var kominn Johnson, í stað Alonso var kominn Lucas og von var á Aquilani þar inn.
Þannig að nei, hann hóf tímabilið rétt hvað taktík og leikmenn varðar að mínu mati.
Sú umræða skiptir samt litlu máli því jafnvel þótt við gefum honum það að hann hafi gert allt rétt í upphafi og leiktíðin hafi byrjað illa vegna þess að leikmenn, heppni og dómarar brugðust liðinu, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að hann getur ekki fengið neitt annað en algjöra falleinkunn fyrir þetta tímabil.
Ég viðraði strax í haust þá skoðun mína að einhverra hluta vegna væru leikmennirnir ekki að fúnkera í núverandi leikkerfi. Ég kallaði eftir breytingum hjá Benítez, sagði að hann þyrfti að sjá að það sem virkaði í fyrra væri ekki að virka núna, hverjar svo sem ástæðurnar væru, og hann yrði að reyna að finna eitthvað annað sem virkar.
Það var í október. Nú er mars, fimm mánuðum síðar, og hann er ennþá að spila nákvæmlega sömu taktíkina með sama mannskapnum. Það er engu líkara en að hann hafi frosið við hrunið hjá liðinu í haust og ákveðið að það væri best að rugla liðið ekkert í ríminu með því að reyna eitthvað nýtt.
Þess vegna, öðru fremur, erum við í þeirri stöðu sem liðið er í í dag. Rafa hefur haft 5-6 mánuði til að koma með eitthvað nýtt inn í þetta lið en það hefur ekkert gerst. Það sem gerist í staðinn er að leikmennirnir verða þreyttir á að berja höfðinu við steininn. Liðið er farið að hengja haus snemma í hverjum leik, rífast innbyrðis og svo berast áreiðanlegar fregnir af því að það sé ákveðinn hluti aðalliðsmanna Liverpool búinn að fá sig fullsaddan af Benítez.
Staðreyndin er einfaldlega sú að jafnvel þótt það sé ekki Benítez að kenna hvernig tímabilið hófst, hversu þunnskipaður hópurinn var, hvernig dómararnir hafa dæmt gegn okkur og hvernig jafnvel strandboltar hafa haft áhrif, þá er það honum að kenna að liðið er í dag að gera nákvæmlega sömu mistök og virðist hugmyndasnautt á sama hátt og það var fyrir hálfu ári síðan.
Hálft ár. Það eru næstum því eitt og hálft tímabil í íslenskri knattspyrnu. Ekki segja mér að það sé ekki hægt að breyta mörgu á þeim tíma. Það er enginn að segja að hann eigi að fara í 2-4-4 taktík með Torres, Ngog, Pacheco og Kuyt alla frammi en það er að mínu mati alveg klárt að Rafa Benítez hefur brugðist nær algjörlega í vetur.
Að því sögðu, þá kemur um gamla, góða umræðan: hvenær er nóg komið? Á að segja honum strax upp, á hann að fá að klára tímabilið eða á hann rétt á öðru tímabili til að rétta liðið við?
Mín skoðun er sú fyrst og fremst að það eigi ekki að segja honum upp strax. Ég sé ekki hvernig við getum fengið betri stjóra inn til að klára síðustu ellefu vikur tímabilsins og því sé alveg jafn gott að hann klári þær.
Það er svo sumarið sem vefst fyrir mér. Sumir, eins og Paul Tomkins, halda því fram að stjóri eigi alltaf að fá annað tímabil til að laga það sem fór aflaga, á meðan aðrir vilja helst reka eftir nokkra slæma leiki. Á sama tíma og maður reynir að ákveða hvort maður vill skipta um stjóra í sumar koma þær fréttir að eigendurnir hafi hreinlega ekki efni á að reka hann. Það er að mínu mati það versta sem gæti gerst, þ.e. að menn vilji skipta um stjóra en geti það ekki fjárhagsins vegna. Það er engan veginn uppbyggilegt umhverfi fyrir nokkurn mann að vinna í og ef það verður niðurstaðan í sumar tel ég nákvæmlega engar líkur á að næsta tímabil verði betra.
Mín skoðun er sú að ef Rafa fer í sumar mun ég ekki sjá eftir þeirri ákvörðun. Hann hefur brugðist í vetur og þarf að taka ábyrgð á því. Fari hins vegar svo að hann verði áfram vona ég að það sé af réttum ástæðum (þ.e. að eigendurnir styðji hann enn, ekki af því að þeir hafa ekki efni á að reka hann) og mun styðja hann áfram eins lengi og hann er stjóri Liverpool. Ég mun þá vona að hann afsanni hrakspárnar næsta tímabil, en um leið verður ljóst að hann fær engan veginn sömu þolinmæði frá aðdáendum ef liðið á annað svona tímabil og ég sé hæglega fyrir mér, verði hann áfram, að við verðum farnir að skrifa pistla á þessari síðu þar sem við grátbiðjum hann um að hætta áður en langt verður liðið á næsta tímabil.
Það er mitt álit á Benítez í hnotskurn: ég styð hann eins og alla sem gegna stjórastöðunni hjá Liverpool á meðan þeir gegna henni, en ég er líka á því að hann ber mikla ábyrgð á genginu í vetur. Ég styð það að hann fari í sumar að því gefnu að það sé einhver áætlun í gangi sem skili okkur betri stjóra og jákvæðara umhverfi í kringum klúbbinn því eins og staðan er í dag er umhverfið allt of neikvætt (meira um það síðar).
Það er hins vegar eitt sem er alveg ljóst í þessu: Rafa Benítez ber engan veginn einn ábyrgð á gengi liðsins. Rennum yfir næstu atriði.
Meiðslin geta undanskilið ákveðna menn ábyrgð. Við höfum t.a.m. ekki fengið jafn mikið út úr Aquilani og Johnson og við ætluðumst til vegna þess að þeir hafa verið meira meiddir en gert var ráð fyrir.
Svo eru það ungu strákarnir sem eru oft gagnrýndir, svo sem Insúa, Ngog og Babel. Ég hef gagnrýnt Babel sjálfur, látið hina meira vera, en það er staðreynd að það er ekki hlutverk ungu strákanna að bera liðið uppi, en það hlutverk hafa þeir sumir haft allt of oft í vetur. Ef vörnin t.a.m. spilar öll illa dettur mér ekki í hug að skamma Insúa því hann er sá sem þarf umfram allt stöðugleika í kringum sig. Hann er ungur. Þeir eru ungir, og eiga að vera viðbót við kjarnann frekar en hluti af honum. Þannig að við skulum undanskilja þá frá þessari umræðu …
… alla nema einn. Lucas Leiva er ungur og í vetur hefur hann í fyrsta sinn verið hluti af kjarna liðsins, þ.e. leikmaður sem leikur nær alla leiki. Ansi margir eru á þeirri skoðun að Lucas sé ekki nógu góður til að spila fyrir Liverpool en ég er ósammála því. Reyndar þori ég að ganga svo langt að lýsa því yfir að hann hafi verið eitt af fáum björtum ljósum liðsins í vetur, því á meðan allir landsliðsfyrirliðarnir í kringum hann hafa verið með hugann annars staðar, fengið á sig óþörf rauð spjöld og/eða verið með hangandi haus hefur hann alltaf barist eins og ljón fyrir málstaðinn.
Lucas er ekki hinn fullkomni miðjumaður og ég er ekki sáttur við allt hjá honum. Hann átti að vera sókndjarfari, Benítez talaði um hæfileika hans til að skora og skapa mörk þegar hann kom til liðsins og hann getur bætt sig mikið í þeim efnum. Þá skortir hann oft styrkinn til að berjast við sum af miðjutröllunum í Úrvalsdeildinni. En hann hefur margt annað sem er frábært, t.a.m. er hann með frábæran leikskilning, góðar sendingar (skoðið prósenturnar hans, þær eru hærri en hjá öðrum miðjumönnum liðsins) og eins og ég hef nefnt virðist hann bara styrkjast við mótlæti sem er góður kostur að hafa undir þeirri pressu sem menn vinna við hjá Liverpool.
Þannig að slökum aðeins á hörkunni í garð Lucas. Hann er ekki vandamálið heldur.
Að mínu mati hafa leikmenn á borð við Carragher, Agger, Skrtel, Mascherano, Aurelio, Gerrard, Riera, Benayoun og Kuyt verið vandamálið í vetur.
Of margir af þessum þaulreyndu lykilmönnum liðsins hafa einfaldlega ekki verið svipur hjá sjón í vetur. Riera var misjafn en heilt yfir góður í fyrra en hefur varla verið með í ár. Dirk Kuyt hefur verið góður og haldið uppi markaskorun liðsins í fjarveru Torres eftir ármaót en hann var einfaldlega ekki með fyrstu 3-4 mánuði tímabilsins. Benayoun, Agger og Skrtel áttu einnig erfitt uppdráttar í haust og hafa líka verið í vandræðum með meiðsli, á meðan Mascherano virtist ekki mæta til leiks af fullum hug fyrr en HM-forkeppni Argentínu var búin í október.
Fabio Aurelio fær svo Harry Kewell-verðlaun vetrarins sem leikmaður sem við höfum ekki efni á að borga laun. Allt, allt, allt of mikið meiddur, því miður.
Þá eru tveir leikmenn eftir: Jamie Carragher og Steven Gerrard. Leikmenn sem hafa verið þessu liði nær allt undanfarin ár, leikmenn sem eru gangandi goðsagnir og við getum með sönnu sagt að án þeirra hefði Benítez ekki unnið einn einasta titil með þetta lið á fyrstu tveimur árunum.
Vandamálið er að í dag er ekki árið 2005 eða 2006 heldur árið 2010. Og árið 2010 finnst mér vera að koma æ betur í ljós að ef Liverpool-liðið á að geta haldið áfram að bæta sig, hver svo sem knattspyrnustjórinn verður, þá verða þessir tveir menn að víkja.
Hvað Carragher varðar þá hef ég haft þá skoðun í laumi talsvert lengi að hans tími sé liðinn undir lok. Hann er 32ja ára gamall, það er vitað mál að hann er ekki vel liðinn af samherjum sínum vegna meints hroka. Hann á það til að ganga of langt í gagnrýni á aðra leikmenn, frægasta dæmið varð í fyrra þegar hann át Arbeloa lifandi í leik gegn W.B.A. á útivelli og úr urðu stympingar þeirra á milli. Þar gekk Carra augljóslega allt of langt í skömmunum og fljótlega eftir það voru bæði Arbeloa og Alonso farnir, og vilja sumir meina að þeir hafi viljað yfirgefa Liverpool af því að þeir höfðu skoðanir og sáu að þeir myndu aldrei koma þeim á framfæri á meðan Carra og Gerrard réðu öllu í búningsklefanum.
Í vetur hefur aldurinn svo náð Carra líka. Hann er orðinn hægur og hefur dottið niður um svona tvo gæðaflokka í spilamennsku sinni. Það er engin tilviljun að liðið hafi farið að halda hreinu og leika betur þegar hann þurfti að fara í bakvörðinn, og svo fór það að fá aftur á sig mörk þegar hann fór á ný í miðvörðinn. Að mínu mati er kominn tími til að við tökum Carra úr byrjunarliðinu og gefum honum meiri Hyypiä-rullu á bekknum, eitthvað sem ég geri fastlega ráð fyrir að hann sætti sig aldrei við (hann er þegar byrjaður að hóta því í viðtölum vegna samningaviðræðna) og þá er kannski bara alveg eins best að selja hann fyrir 3-5m punda í sumar og nota þann pening í annan miðvörð með minna egó.
Um Gerrard þarf eiginlega ekki að fjölyrða, þótt undarlegt megi virðast. Hann er þrítugur núna í maí, er enn okkar besti maður en hann verður það ekki mikið lengur sökum aldurs. Hann nýtur hins vegar svo mikillar virðingar innan klúbbsins að menn vilja meina að Rafa hafi áður viljað selja hann hæstbjóðanda en ekki getað það því hann veit að það myndi kosta hann starfið að fara gegn Gerrard. Það var frægt hér fyrir rúmum áratug þegar Ruud Gullit tók Alan Shearer út úr byrjunarliði Newcastle og var sagt upp með það sama. Ég tel að Benítez sé í svipaðri stöðu, hann geti ekki með neinu móti tekið Gerrard út úr liðinu eða sýnt honum hver ræður … því það er ekki Benítez sem ræður heldur Gerrard. Fari Benítez gegn Gerrard mun það kosta hann starfið. Slíkt hefði verið óhugsandi hjá Shankly eða Dalglish, slíkt væri óhugsandi hjá Ferguson eða Wenger.
Gerrard er orðinn stærri en klúbburinn og það er aldrei hollt fyrir fótboltalið. Hann er þrítugur og slúðrið segir að Mourinho muni reyna allt til að fá hann til Internazionale í vor. Leyfum þeim það. Mjólkum einhverjar 25-30m punda út úr þeim fyrir Gerrard og notum peninginn í tvo leikmenn sem pirra sig ekki í sífellu út í samherja sína. Gerrard hefur verið einn af svona þremur verstu leikmönnum okkar í síðustu tveimur leikjum en hann er sá eini sem hefur sést skamma aðra reglulega fyrir mistök í þeim leikjum.
Gerrard og Carra hafa verið frábærir leikmenn fyrir Liverpool en ég er að komast meira og meira á þá skoðun að eina leiðin fyrir þetta lið að halda áfram að þróast er ef þeir hverfa á braut.
Þetta verður stutt: þeir hafa logið, þeir hafa rifist innanborðs, þeir hafa gert félagið að sápuóperu og aðhlægi, þeir ógna framtíð félagsins með lélegri stjórn sinni, þeir hafa svikið Benítez um að geta styrkt hópinn í þremur leikmannagluggum í röð núna og staðan er einfaldlega sú að við erum kannski best sett með Benítez áfram því ég sé ekki hvaða annar toppstjóri gæti mögulega haft áhuga á að stíga inn í þessa sápuóperu á meðan þessir tveir eigendur eru enn við stjórnvölinn.
Staðan er einföld: hvort sem Benítez verður áfram eða ekki verður næsti vetur áframhald á sama veseninu og við höfum horft upp á síðustu misserin ef Gillett & Hicks eiga klúbbinn áfram. Það sem þarf umfram allt annað að gerast í sumar er að þeir selji klúbbinn og að í staðinn komi inn menn sem hafa fjármagn til að hefja byggingu nýs vallar og leyfa knattspyrnustjóranum (Rafa eða öðrum) að styrkja liðið.
Menn sem tala ekki bara heldur framkvæma líka.
Mæli með frábærri grein eftir Rory Smith hjá Telegraph um eigendamálin og Benítez hjá Liverpool.
Við erum hluti af vandamálinu. Auðvitað geta menn sagt hvað sem er án þess að það hafi áhrif fjarri liðinu en örvænting stuðningsmanna eftir Englandsmeistaratitli er orðin svo mikil að það er farið að smita frá sér inn á völlinn. Ég man eftir öðrum heimaleiknum í haust, gegn Aston Villa. Liðið tapaði fyrsta leiknum gegn Tottenham en rústaði svo Stoke í annarri umferð. Í þriðju umferðinni mættu Villa á Anfield og eftir að okkar menn höfðu verið í þungri sókn allan fyrri hálfleikinn skoruðu þeir fyrsta markið með heppnisaukaspyrnu.
Örvæntingin, pirringurinn og vonbrigðin í stúkunum var svo mikil að það var áþreifanlegt. Stemningin á vellinum var engin, menn voru farnir að púa á köflum og fórna höndum í hvert sinn sem liðið missti boltann.
Í þriðja leik. ÞRIÐJA LEIK!
Ekki það að ég hafi hugmynd um hvernig hægt er að laga þetta „vandamál“, þar sem örvænting okkar minnkar ekki beint með hverju árinu sem líður, en menn verða að muna að á meðan þeir eru á vellinum verða þeir að styðja liðið, og það er jafnvel enn mikilvægara að styðja liðið þegar illa gengur í stað þess að púa, dæsa og fórna höndum. Við erum ekki kallaðir gagnrýnendur, við erum kallaðir stuðningsmenn og á meðan menn geta sagt það sem þeim sýnist utan vallar finnst mér að það eigi að vera lágmarkskrafa að menn séu ekki að vinna gegn liðinu á Anfield á meðan á leik stendur. Það er nógu erfitt að vinna þennan titil án þess að hafa 45 þúsund manns á bakinu í hvert sinn sem sending nær ekki á samherja.
Paul Tomkins fjallaði um það í góðum pistli um daginn að þótt það sé brjálæði að halda því fram að enskir fjölmiðlar séu á móti Liverpool (sammála því) þá sé það staðreynd að margir íþróttafréttamenn innan fjölmiðlasamtakanna ytra séu mjög mikið á móti Rafa Benítez (sammála því).
Vandamálið er náttúrulega þá það að á meðan Rafa Benítez er stjóri Liverpool er gagnrýni á hann og Liverpool sami hluturinn. Fyrir vikið hafa fjölmiðlar ytra svoleiðis hamast á liðinu í vetur að það er ekki furða þótt menn séu farnir að kalla þá hrægamma. Bíða eftir að hræið verði andvana svo þeir geti byrjað að éta. Núa saman höndunum í eftirvæntingu í hvert sinn sem Liverpool lenda undir – „nú fæ ég sko að skjóta á Benítez“.
Rétt eins og með aðdáendurna á Anfield þá er þetta ekki beint vandamál sem hægt er að laga með umræðum á íslenskri vefsíðu, en það er vert að benda á að þetta er enn eitt atriðið sem hefur unnið (ötullega, óþreytandi) gegn liðinu okkar í vetur.
Eina lausnin á þessu „vandamáli“ er náttúrulega það að skipta Benítez út fyrir stjóra sem blaðamönnunum líkar vel við, en svoleiðis vinnubrögð myndu aldrei ganga upp. Sá eini sem þeir gagnrýna aldrei og er nógu hæfur til að stýra Liverpool FC er að upptekinn við að stýra Manchester United. Þannig að jafnvel þótt skipt verði um bæði stjóra og eigendur í sumar getum við búist við að þetta „vandamál“ haldi áfram, því hver sem kemur inn mun alltaf eiga ákveðna fjölmiðlunga sem einfaldlega líkar illa við hann.
Eins og ég sagði í upphafi pistilsins erum við ellefu vikum frá því að þessu tímabili ljúki. Ég man ekki hvenær ég upplifði síðast tímabil með Liverpool þar sem ég óskaði þess að því lyki sem fyrst en það hefur gerst í vetur. Liðið hefur tapað fimmtán sinnum og ég hef séð þá alla og óttast að þeir geti orðið allt að tuttugu áður en yfir lýkur.
Liðið mun líklega ekki ná 4. sætinu (þótt kraftaverkin geti alltaf gerst) og er ekki beint líklegt til að vinna Evrópudeildina. Líklegt er því að við sitjum uppi í vor með lið sem vann engan titil, náði aðeins inn í Evrópudeildina fyrir næsta tímabil og er á botninum móralskt séð.
Með öðrum orðum, eins mikil vonbrigði og hægt var að hugsa sér í upphafi leiktíðar.
Augljós lausn er að losa sig við neikvæðnina í kringum liðið. Brottrekstur Rafa myndi losa okkur við mikið af þeirri neikvæðni en allt myndi þá velta á því hver kæmi inn í staðinn.
Þá er ljóst, hvort sem Rafa verður kyrr eða ekki, að það verða breytingar á leikmannahópnum í sumar. Menn sem ekki hafa staðið sig verða látnir fara (mér dettur Aurelio, Riera og sennilega Babel fyrst í hug, og hver veit hverjir fleiri) og jafnvel verður Rafa eða annar stjóri hugrakkur og ræðst í algjöra andlitslyftingu á liðinu (les: bless Carra og Gerrard).
Vandinn við leikmannasölur er hins vegar sá að það er nákvæmlega ekkert sem segir að knattspyrnustjórinn fái það fé til að styrkja hópinn aftur. Kannski lendum við í því að Gillett & Hicks fá frestun á lánunum sínum, eða tryggja sér auka fjárfestir til að rétta skútuna aðeins við, svo að leikmenn verða seldir og ódýrari kostir koma inn í staðinn og liðið minnkar enn og aftur um eitt skónúmer.
Það gæti alveg gerst: Rafa verður kyrr því það er of dýrt að reka hann, Gillett & Hicks halda félaginu en eiga enn ekkert fé til að styrkja liðið, svo að við seljum 3-5 leikmenn og kaupum 1-2 í staðinn og tölum svo um að nota ungu strákana meira.
Slíkt yrði að mínu mati skelfilegt. Ef það verður raunin, ef menn selja Riera og Babel og ætla að henda Pacheco út í djúpu laugina í þeirra stað, þá fyrst mun ég örvænta.
Eins og ég sagði í yfirferðinni hér að ofan skiptir að mínu mati ekki höfuðmáli hvort skipt verður um knattspyrnustjóra eða ekki. Ef Benítez fer mun ég ekki sjá á eftir því vegna þess að hann hefur brugðist algjörlega og fær falleinkunn fyrir veturinn. Ef hann fer ekki mun ég ekki örvænta, svo lengi sem það sé á réttum forsendum.
Það eru þessar réttu forsendur sem skipta öllu máli að mínu mati: eigendamálin. Fyrst og fremst þarf að vera til staðar skipulag innan félagsins sem gerir knattspyrnustjóranum kleift að gera jákvæðar breytingar á leikmannahópnum. Hver sá sem sá stjóri er.
Þess vegna ætla ég að taka blaðsíðu úr bók þeirra sem hafa á þessari síðu gagnrýnt Rafa hvað harðast og enda þennan pistil á þeirra orðum, með mínu ívafi, því hvað svo sem verður um knattspyrnustjórann eða leikmennina þá eru tveir menn sem þurfa öllum öðrum fremur að yfirgefa félagið í sumar til að það geti enn á ný talist til fremstu liða í Englandi:
Burt með Gillett & Hicks – áfram Liverpool!
Torres sagði allt sem segja þarf – 4 til 5 heimsklassa spilara !
Frábær pistill Kristján !
Þetta er flottur pistill Kristján og þakka þér fyrir hann. Það er þó ein mótsögn í umræðunni undanfarnar vikur, að liðið hafi ekki efni á að reka Rafa en svo að það eigi að styrkja liðið í sumar með stórum summum. Það gengur ekki upp. Talið er að það muni kosta um 20 milljónir punda að reka Rafa, en hvaða ofurfjárhæðir sem eigendurnir hafa lofað hefur liðið? Ef liðið hefur ekki efni á að reka Rafa hefur liðið ekki heldur efni á að kaupa þá leikmenn sem liðið þarf til að þróast áfram. Bendir þetta því ekki til að Rafa verði ekki rekinn heldur mun hann fá almennilegan pening til leikmannakaupa næsta tímabil?
Hvað leikmennina varðar þá hef ég íhugað það í vetur hvort það væri ekki rétt að fá pening fyrir Gerrard. Hann er frábær leikmaður og án efa einn sá besti í sinni stöðu, en sá drifkraftur og vilji sem hann bjó yfir virðist vera horfinn. Það sem Kristján bendir svo á að Rafa geti ekki selt hann vegna hættunnar á að honum yrði bolað burt finnst mér vera mjög sápuóperulegt og sorglegt ef rétt reynist. Það er staðreynd að um leið og leikmaður verðu stærra en liðið hefur það slæm áhrif og því er það hlutverk stjórans hverju sinni að leysa það vandamál. Svo er spurning hvað verður um Carra. Hann hefur gefið það út að hann muni fara fái hann ekki góðan samning enda telur hann sig enn eiga nokkur góð ár eftir í boltanum, hvort það sé rétt hjá honum (að hann eigi góð ár eftir) eða ekki þá mun hann halda áfram að spila og er það mín von að hann samþykki það að spila minni rullu í liðinu næstu 2 árin og endi svo í þjálfarateymi liðsins…nú eða taki hreinlega við sem stjóri einhvern daginn.
Ég er sammála mati Kristjáns á Lucas að öllu leyti. Það sem ég tel aftur á móti útskýra pirring einstaklinga í garð hans er að hann hefur yfirtekið það hlutverk sem Xabi leysti svo snilldarlega af hendi hér en hefur ekki sýnt sömu tækni og sendingargetu fram á við einsog Xabi. Málið er hinsvegar það að Lucas var ekki ættlað það hlutverk í upphafi móts. Þegar Aquilani var keyptur var reiknað með að hann væri frá max 6 vikur en seinna kom í ljós að meiðsli hans voru mun alvarlegri og langvarandi en reiknað var með. Þar er um að kenna þeim læknum sem skoðuðu hann en ekki Rafa, enda er Rafa ekki læknir að mennt.
Ég tel að þetta tímabil sé búið. Við eigum möguleika á dollu en það þarf eitthvað meira en upprisu krists til að af því verði. Næsta sumar verður aftur á móti spennandi. Leikmenn munu koma og aðrir munu fara og svo er spurningin með stjórann hvort hann fari eða verði áfram hjá klúbbnum. Eigendurnir eru svo sérkapítuli útaf fyrir sig sem ég hef ekki nennu í að skrifa um enda eru allir á þeirri skoðun að þeir megi alveg skunda vestur um haf með sitt hafurtask og láta það vera að koma austur yfir Atlantshafið aftur.
Frábær pistill! er sammála meira eða minna hverju orði hjá þér, Kristján.
Vona bara að helvítis eigendurnir fari frá.
YNWA
Kristján Atli.
Hvað nákvæmlega er Lucas Leiva að koma með inn í þetta lið? Þú nefnir sendingartölfræði hans en fyrir mér er það of flókin tölfræði til að sanna eitthvað. Ég las það einhverntímann að Jermaine Jenas hjá Tottenham væri með betri sendingartölfræði en félagi sinn Tom Huddlestone. Það er þó alveg á kristaltæru að Huddlestone er mun betri sendingarmaður. Munurinn liggur eflaust í hvernig sendingar er verið að reyna. Jenas er með einfaldar stuttar sendingar, og oftast til hliðar eða afturábak. Huddlestone er með þannig sendingar en hann reynir líka rosalega mikið af erfiðum boltum, stungusendingum, háum sendingum, langar skiptingar á milli kanta og svo frv. Það er enginn að fara segja mér að Lucas sé betri passer en Gerrard, sama hvað einhver tölfræði segir.
Þú nefnir svo loks leiksskilning. Í hvað er hann að nota þennan leiksskilning? Til að stöðva sóknarleik hins liðsins? Er hann góður í því? (ég er að spyrja) Er hann með leiksskilning til þess að finna fullkomna stungusendingu eða til þess að tímasetja rétt hlaup inn í teig til að fá boltann? Hvar sér maður þennan leiksskilning hjá Lucas?
Fyrir mér hefur Lucas litið út fyrir að vera meðalleikmaður, sem hefur ekki sannað að hann eigi heima í Liverpool.
Öllum hlýtur að vera ljóst að breytinga er þörf.
Breytinga er þörf í leikmannahópnum. Það er spurning hvort Rafa hafi fengið næga pening til að kaupa þá menn sem hann vill/þarf, og á sama hátt spurning hvort hann hafi notað þá fjármuni rétt sem hann hefur fengið. Leikmennirni eru lítt skapandi, þeir sækja hægt og aðeins Gerrard, Torres og Benayoun virðast getað skaðað eitthvað í sókninni. Það skrifast að stórum hluta líka á leikskipulag. Rafa spilar alltaf alltaf sama kerfið. Frá fyrsta leik vetrarins (byrjuðum á tapi) hefur hann spilað einhvers konar 4-2-2-1-1 þar sem Mach og Lucas spila 85% leikja. Engir leikmenn til að bera boltann til sóknarmannsin og Gerrard, enginn hraði, engin ógnun… Og Aquilani á bekknum. Ekki til í dæminu að beyta til… squad rotation er farið að hljóma ótrúlega vel.
Við erum einfaldlega komnir í öngstræti. Ég held að við þurfum í fyrsta lagin nýja eigendur með meiri peninga. Rafa þarf að geta sannað að það er ekki honum að kenna að það eru ekki betri leikmenn í þessu draumakerfi spánverjans. Ef hann kaupir svo ranga leikmenn í kerfið og skilar ekki árangri á hann að taka pokann sinn góða.
Ef ekki koma nýjir eigendur inn í félagið verður Rafa að fara í sumar. Real væri örugglega til í að borga upp samning hans við Liverpool.
gæti ekki verið meira sammála þessu öllu !! góður pistill !
en að mínu mati var mesta klúðrið fyrir þetta tímabil að hann skyldi ekki færa Gerrard niður á miðjuna aftur ástæðan er þessi:
vandamálið í leik Liverpool á þessu ári er mjög einfalt ! í fyrra stjórnaði Alonso spili Liverpool í öllum leikjum bar bolltan upp. hann var seldur og nú stjórnar ENGINN spili Liverpool í leikjum. msacherano hefur einhvað verið að reyna en hann er bara ekki sú týpa af fótbolta manni.
Gerrard átti alltaf að fara aftur niður á miðjuna og stjórna spilinu það hefði enginn getað það betur! ég hef ekkert á móti aquilani held reyndar að hann geti orðið mjög góður á næsta tímabili en hann var of meiddur fyrir 17 kúlur.
peningarnir hefðu þurft að fara í annan senter því þar vanar okkur annan alvöru mann. ekki hélt benitez að því torres var mikið meiddur á síðasta tímabili þá gæti það ekki gerst aftur? hrein heimska ! áttum að spila 4,4,2 á þessu tímabili með Gerrard og masch á miðjunni og torres+annar eins. saman frammi!
en fyrir næsta tímabil vona ég mest eftir nýjum eigendum og að bygging á nýjum velli fari að byrja! fyrr erum við bara ekkert samkeppnishæfir við hin liðin !!!!!
Burt með Gillett & Hicks – áfram Liverpool!
flottur pistill , en ég get bara ekki verið sammála þér með lucas , og eins að láta gerrard og carra fara , ég hinsvegar styð þá hugmynd að láta carra fari á bekkinn . Það væri óðsmanns æði að láta gerrard fara og það síðasta sem vængbrotið liverpool lið þarf á að halda . einnig finnst mér að mascherano eigi meiri lof skilið heldur en hann fær fyrir sitt framlag , menn sem ég hef minnstar mætur á þetta tímabilið eru glen j, carra , skrtl,gerrard , aurelio , KUYT !!, riera , lucas allt menn sem eiga að kunna fótbolta en hafa bara ekkert sýnt …
Þumall upp á þennan pistil. Virkilega góð lesning.
Góður pistill,ég hef ekki meira um það að segja
Frábær lesning, mikil vinna lögð í hann og vel upp settur.
Ég er sammála flestu sem þar kemur fram – það kemur dagur eftir þennan dag 🙂 YNWA
Frábær pistill og er sammála honum að öllu leyti nema með Lucas. Þessi sendingatölfræði hans segir náttúrlega ekki neitt um manninn því það verður að taka það með í dæmið að örugglega 90% sendinga hjá honum eru aftur á varnarmann eða þá tveggja metra sending á næsta miðjumann. Hann þorir aldrei að reyna erfiðar sendingar. Ef að við hefðum mann í hans stöðu sem væri með hreðjar og getu (Alonso) í að senda sendingar sem sprengja upp varnir andstæðingana værum við í góðum málum.
S.s að mínu mati er Lucas alveg skelfilegur leikmaður og engan veginn nógu góður fyrir Liverpool!
En að öðru leyti er þessi pistill stórgóð lesning!
Frábær pistill, Kristján. Mér sýnist Rafa vera hræddur, þar sem allt hefur farið úrskeiðis þorir hann ekki að breyta til ef ske kynni að hlutirnir versnuðu enn meira. Maður er alltaf að bíða eftir því að hann átti sig á því að hlutirnir geta varla versnað (eða það heldur maður, þar til maður horfir á næsta leik) og geri róttækar breytingar, sem væri það eina sem gæti mögulega bjargað einhverju. Annað hvort gerist það, eða hann lyppast niður undan álaginu og breytir engu, sem væri það versta í stöðunni. Ef hann gerir breytingar, sem hafa einhver jákvæð áhrif, er ég til í að gefa honum séns. Ef ekki, er ljóst að hann hefur ekki taugar í þetta og þarf að fara.
Mjög góður pistill Kristján, og ég er sammála öllu því sem í honum stendur. Það er erfitt fyrir mig að viðurkenna það en ég er alveg rosalega sammála þér með Carra og Gerrard. Ég er eiginlega að komast á þá skoðun að þeir séu að verða meiri hindrun en ekki fyrir Liverpool að vinna titilinn.
Á meðan Liverpool á aðdáendur sem eru tilbúnir að leggja á sig jafn mikla vinnu og felst í að setja saman jafn metnaðarfullan pistil og þennan sem Kristján Atli skrifar er meira en von um betri tíð.
Að mínum dómi má rekja rót vandans til eigendanna Gillets og Hicks. Þeir eru misheppnaðir bandarískir kaupsýslumenn. Að vinna fyrir slíka menn sem eru ekkert nema loftið og lygarnar er eins og að vinna fyrir Finn Ingólfsson. Eigendafyrirkomulagið toppar síðan vitleysuna enda þýða þessi helmingaskipti í raun að löngum stundum er félagið stjórnlaust sökum ósættis eigandanna. Það er hægt að vinna fyrir skíthæla þegar vel gengur. Þegar harðnar á dalnum og menn þurfa að þjappa sér saman, berjast með það sem þeir hafa og leggja sig fram jafnvel umfram getu byrja brestirnir að bylja. Augljóst er að leikmenn bera ekki nægilega virðingu fyrir félaginu í dag. Sorglegt er að horfa á stælana í Gerrard og Carra sem eru félaginu til skammar á köflum. Þjálfarinn virðist algjörlega kulnaður í starfi og aðdáendurnir eru að gefast upp. Svona getur farið þegar stjórnunin er í molum. Forsenda þess að Liverpool komist upp úr meðalmennskunni er að eigendurnir víki fyrir gæfulegri mönnum.
Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að þróunin í Englandi, Ítalíu og Spáni sé öfugþróun. Félögin eru flest komin úr höndunum upphaflegra eigenda sem voru stuðningsmannafélögin. Ýktast er ástandið í Englandi en nær öll úrvalsdeildarfélögin eru komin í hendur útlendinga af sauðahúsi Gilletts og Hicks. Þessi gömlu og virðulegu félög hafa flest verið hreinsuð innanfrá með skuldsettum yfirtökum. Þau eru rekin samkvæmt sama viðskiptalíkani og hver önnur sjoppa á ferðamannastað. Það á að selja treyjur og trefla og græða á túrisma og braski. Átta af hverjum tíu sem mæta á leiki Chelsea eru túristar! Algengr miðaverð í Englandi er 50 pund sem þýðir að alþýða manna á enga möguleika á að stunda völlinn. Í Þýskalandi kostar miðinn 8-10 pund enda er bannað að braska með knattspyrnufélög í því góða landi.
Þetta var annars útúrdúr. Svona gengur þetta ekki lengur – það er vita allir. Gillett og Hicks munu örugglega ekki ná að endurfjármagna eignarhaldsfélagið sitt í sumar og þá fer landið að rísa á ný. Tími Rafa er samt liðinn og prímadonnurnar verða að taka til í hausnum á sér eða kveðja félagið okkar ella.
Flottur pistill og metnaðarfull skrif. Ég er sammála öllu sem þarna er skrifað og á það sérstaklega við um það sem skrifað er um Rafa, Carra og Gerrard, og svo sérstaklega eigendurna.
Y.N.W.A.
Ég á eftir að lesa pistilinn og hlakkar mikið til. Þó ég sé ekki oft sammála Kristjáni Atla þá á hann það til að vera góður penni þegar hann tekur Rafa gleraugun niður og horfir á málið með raunsægjum augum. En það er eitt sem ég hjó í sem ég vil nefna núna(kem að pistlinum sjálfum síðar í dag eða kvöld ef mér finnst þess þurfa)…Einar Örn skammaði mig fyrir að hafa “Burt með Rafa, áfram Liverpool” neðst í pósti hjá mér. Afhverju mátt þú gera það sama Kristján, en bara með eigendurna? Ekki misskylja mig, ég er hjartanlega sammála þér að þessir eigendur verða að fara, átta mig bara ekki á muninum að segja burt með eigendurna eða Rafa þegar augljóst er að báðir aðilar eru ekki að valda vinnunni sinni. ….bara pæling, annars ætla ég að lesa pistilinn á eftir og hlakkar til 🙂
Gunnar Ingi, þú hefðir kannski betur lesið pistilinn áður en þú spurðir að þessu, eða áður en þú sakaðir mig um að vera Rafajámaður. 🙄
Langur og flottur pistill nafni. Ég er sammála þér í mörgu en ekki öllu.
Fyrir það fyrsta er alveg ljóst að Liverpool mun ekki taka neinum framförum með Gillett og Hicks sem eigendur. Ef Liverpool ætlar sér einhverja hluti á næstu árum burt séð frá því hver þjálfar liðið þá VERÐA þessir eigendur selja liðið. Um leið og þeir sleppa takinu af liðinu þá fer með þeim 80% af þeim neikvæðu staumum sem hanga yfir liðinu í dag.
Varðandi leikmennina þá hefur að mínu mati Mascherano verið lang besti leikmaður liðsins 2010. Að horfa á hann spila í sínu eðlilega formi er frábært. Það mættu fleiri leikmenn fara að hans fordæmi og vakna til lífsins. En um leið og Mascherano fer að spila af eðlilegri getu inn á miðjunni sér maður án gleraugna hve slakur Lucas er. Ef við setjum gæði upp sem 10 level (10 það besta), þá væri Mascherano á 9-10 leveli á meðan Lucas næði því 5. Hann er einfaldlega mun slakari leikmaður. Flestar hans sendingar eru aftur á varnarmenn eða 2 metra þversendingar á næsta mann. Fyrir utan teig er hann aldrei líklegur til að skora með langskoti eða eiga þessa úrslita stungusendingu á leikmann. Hvað er hann búinn að skora mörg mörk í vetur? SVARIÐ er 0, eða leggja upp mörg mörk? SVARIÐ er 1. Þetta er ekki góð tölfræði.
Annar segir Torres allt sem segja þarf ef Liverpool ætlar sér einhverja hluti á næsta tímabili burt séð frá eigenda eða þjálfaramálum þá verða þeir að kaupa 5 góða leikmenn. Leikmenn sem eru betri en þeir sem fyrir eru. Þá fyrst getum við Liverpool aðdáendur haft ástæður til að vera bjartsýnir.
Krizzi
Góður pistill Kristján og takk fyrir hann.
Ég get tekið undir margt af gagnrýninni sem fram kemur að ofan en vil benda á að Hyypia fór líka. Ég vil meina að hann hafi haft stærra hlutverk í liðinu en menn hafi almennt séð og það sé að koma meira og meira í ljós. Líka, hann var frábær leikmaður og mun betri hafsent en Carrager er núna. Bara svo sá punktur komi fram. Alonso fór og enginn kom í staðinn á sama kalíberi. Arbeloa fór, sem var varnarsinnaður og við fengum mjög sóknarsinnaðan bakvörð sem var n.b. ekki nógu góður fyrir Chelsea, og hann átti að leysa allt…… Já og þessi ítali, hvað er málið með hann. Að eyða 20 kúlum í meiddan gaur sem svo fær ekki að spila!? Jæja, kannski verður hann góður á næsta tímabili.
Fergie sagði eitt sinn að LFC hefði verið að yfirperformera í fyrra og þetta væri ekki marktækt, þeir myndu koma niður á jörðina. Ég man ekki hvar hann sagði þetta, en þetta var haft eftir honum í haust. Vitanlega sem sannur aðdáandi LFC fannst mér kallinn vera með rugluna, eins og venjulega, en kannski var þatta bara rétt hjá honum, eins og margt annað.
Varðandi svo Gerrard / Carrager / Benítez ástarþríhyrninginn sem íað er hér á ofan, tel ég að það sé komin mjög mikil þreyta í það samband. Ég held að Carra og Gerrard sjái það núna deginum ljósara að með stórkostlegri underperformance sem þeir hafa sýnt í vetur, sé það næstum staðreynd að LFC verður ekki í CL á næsta ári. Það þýðir að það verður ekki eins attraktívt að koma í sumar til LFC fyrir úrvalsleikmenn. Ennfremur þýðir það mikiðtekjuap að vera ekki í CL. Ergó, það munu ekki koma neinir úrvalsleikmenn nema þá gaurar sem eru 28-32 ára á free transfer.
Ég tel það klúbbnum fyrir bestu að selja Gerrard og Carrager. Það getur ekki gengið í stjórnun að svona karakterar ráði klúbbnum. Stjórinn (Benítez) verður að ráða og menn sem ekki leggja sig fram verða að fara á bekkinn. Þó þér séu fokking fyrirliðar og ledgends hjá klúbbnum. Sjáiði bara helv… scum U! Fergie hefur alltaf látið klúbbinn ganga fyrir og …. níd æ sei mor.
Þannig að til að súmmera þetta upp:
1) LFC verður ekki í CL á næsta ári
2) Carra og Gerrard finna sér ný lið
3) Benítez heldur áfram þar sem það er of dýrt að reka hann
4) Menn sem koma verða á free transfer eða þá ungir gaurar sem menn taka sjensinn á.
5) Hryggurinn í LFC 2010-2011 verður (Reina – Skrtl/Agger – Lucas/Masch – Torres).
Mjög flottur pistill !
Hehe, já Kristján, ég hefði kannski átt að gera það 🙂
En ég er búinn að lesa og vil hrósa þér sérstaklega fyrir Rafa hlutan. Sá hluti finnst mér svakalega vel skrifaður og ég get í raun ekki á nokkurn hátt mótmælt honum. Thumbs up 🙂
Ég vil þó gagnrýna leikmannahlutan. Ég er þér algjörlega ósammála með bæði Dirk Kuyt og Lucas, hvorugur nógu góðir leikmenn og báðir verið skelfilegir ALLT tímabilið með auðvitað örfáum undantekningum. Það sem ég er þó mest ósammála er Carra og Gerrard hlutinn. Ég skil ekki afhverju þú vilt selja okkar besta mann þegar við erum að reyna taka framfaraskref. Það að Gerrard skammi menn sýnir að honum er ekki alveg saman, þó hans látbragði meigi stundum gefa annað til kynna. Og þessi Carra/Arbeloa fight í fyrra, ég var svo ánægður með Carra og vildi svo óska að ég sægi þetta í dag. Leikur sem engu máli skipti, Arbeloa gerði aulaleg mistök og keppnisskapið í Carra fékk hann til að hundskamma Arbie fyrir einbeitingarleysi. Svona viðhorf gætum við heldur betur notað í dag. Einnig hef ég aldrei heyrt að Carra sé einhver egó kóngur innan liðsins, þvert á móti og ég les MJÖG MIKIÐ er snertir liðið og þekki mikið af fólki úti sem ég er í miklu sambandi við.
Ég er engin Rafa hatari, var t.d. gríðarlega ánægður eþgar hann kom fyrst 2004. Hann byrjaði mjög vel en það sem er að verða honum að falli er hversu þrjóskur hann er. Ef hann væri að reyna og reyna eitthvað nýtt, reyna að finna lausnir og reyna að sækja stig, þá myndi ég styðja hann, jafnvel þó þetta væri ekki að ganga hjá honum. En þrjóskan er svo mikil á öllum sviðum að það er ekki hægt að styðja hann lengur.
Síðan er eitt sem ég las um daginn sem fékk mig til að hugsa sem þú nefnir ekki hérna. ÖLL tímabilin sem Rafa hefur verið hjá okkur hefur Rick Parry verið sá maður sem slær á puttana á Rafa og heldur honum við efnið(veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að orða þetta, en er með aðald gagnvart Rafa). Í vor náði Rafa að bola honum út og nú er engin sem veitir honum aðhald og hann fær að gera hlutina eins og honum sínist. Ég er alls ekki að segja að Rick Parry sé messías sjálfur en getur ekki verið að þetta aðhald sem hann veitti Rafa hafi í raun verið nauðsynlegt? Sama hvaða skoðun menn hafa á Parry(ég er engin aðdáandi, heldur betur ekki) þá vita allir að þarf fór maður með mikið og stórt Liverpool hjarta og vildi klúbbnum aðeins það besta. Sögur segja að vilji hans til að gera of mikið, taka að sér of mörg verkefni, hafi orðið honum að falli því eftir að verkefnin jukust hjá honum minnkuðu afköstin eðlilega. Það getur vel verið að þetta sé ekki á nokkurn hátt reality, en mér finnst þetta þó góð pæling. Hafði aðhald Parry ekki bara góð áhrif á Rafa og nú þegar Rafa ræður öllu er engin til að slá á puttana á honum og halda honum við efnið?
Ætla að sleppa “út með Rafa” og segja bara ÁFRAM LIVERPOOL 🙂
Frábær pistill, KAR, eins og nær ávallt 😉 Gunnar Ingi (22) – ég held að punkturinn með Gerrard og Carra sé algjörlega sannur. Gerrard hefur verið slappur fyrirliði upp á síðkastið og er alls ekki að spila vel. Ég man ekki eftir Carra svona lélegum eins og hann hefur verið þetta tímabil … ergo: algjörlega sammála greiningunni.
KAR – bjórinn sem ég er að drekka núna – hann er fyrir þig 🙂
Ef Gerrard er seldur fer Torres. (skiljanlega) Get bara ekki séð neitt jákvætt við það að selja fyriliðann frá okkur. Það er nú bara svoleiðis.
En getur ekki verið að Gerrard sé slappur því hann hefur misst trúna á Rafa, þeim hafi eitthvað lent saman eða eitthvað álíka….eitthvað sem ekki endilega hefur komist í fjölmiðla? Mér finnst allavega vera vsoleiðis stimpill á Gerrard, hann hefur misst trúna og ljái honum hver sem vill…
Ég held reyndar að Gerrard fari í sumar. Ekki vegna þess að hann sé dragbítur á liðinu (get ekki dæmt um það) heldur vegna þess að ég held að hann vilji það sjálfur. Hann er búinn að vera skugginn af sjálfum sér í vetur, pirrast auðveldlega út í dómarana og virðist áhugalaus. Ég held að hann geri sér grein fyrir því að hann á ekki mörg ár eftir og ef hann vill spila á meginlandinu þá er þetta síðasti séns. Ég spái því að hann spili á Ítalíu á næsta vetri (séns með Spán, kannski).
Frábær pistill. Ekki sammála öllu en það er aukaatriði… 🙂
Ég er þeirrar skoðunar að missir Xabi Alonso hafi verið stærri blóðtaka fyrir þetta lið en flestir þora að horfast í augu við. Hann var túrbínan á miðjunni. Varnarjaxl og playmaker í senn. Við höfum engan slíkan eftir nema kannski Gerrard. Kannski eru það búin að vera stærstu mistök Rafa að setja Gerrard ekki í hlutverk Alonso í stað Leiva. Persónulega hef ég alltaf verið þeirra skoðunar að Gerrard eigi heima í framlínunni en miðað við vandræðin á okkur í vetur þá hefði Gerrard þurft að stíga upp og fylla skarð Alonso. En þetta skrifast að mestu á þjálfarann að mínu mati.
Lucas Leiva er með góða sendingarprósentu en hann er ekki risktaker og kemst bara ekki með tærnar þar sem Alonso hafði hælana í hæfileikum. Á öllum sviðum. Selja hann í sumar.
Ég get tekið undir gagnrýnina á Carra og Gerrard. Þeir eru orðnir of heimaríkir. Það er eiginlega aðeins ein leið til að breyta því ef þeir eiga að vera áfram. Nýr stjóri. Einhvern með pung sem tuktar þá til og gerir þeim ljóst hver ræður. Ef það er ekki að fara að gerast.. þ.e. nýr stjóri þá vill ég í það minnsta sjá annann þeirra fara næsta sumar. Þó tilhugsunin um það sé eins og að reka rýting í Liverpool hjartað. Eitthvað róttækt verður bara að gerast.
YNWA
Frábær pistill og gaman að lesa skoðanir Kristjáns enda flottur penni með skemmtilegar pælingar eins og kollegi hans á ritstjórn Kop.is enda hef ég margoft lýst þeirri skoðun minni að þeir tveir bera af öllum þeim sem skrifa hérna inn í almennu hlutleysi, raunsæi og skriffærni.
Hvað varðar Gerrard þá skil ég punktinn en er ósammála honum af nokkrum ástæðum. Fyrir það fyrsta þá er Gerrard symbol leikmaður Liverpool og sá sem skilgreinir liðið og hefur gert síðasta áratug eða svo. Öll góð lið þurfa svona leikmenn og þetta gerist ekki hjá nýjum manni á einni nóttu. Þar sem enginn getur tekið við þessu hlutverki innan liðsins þá yrði þessi staða tóm hjá Liverpool. Hvað varðar knattspyrnulega getu myndum við lenda í miklum vandræðum með að fá arftaka Gerrard. Sá myndi líklega kosta 60 milljónir punda ( ekki að ég sjái hver það ætti að vera).
Gerrard er búinn að vera afburðaslakur á þessu tímabili en það hefur skýrst af fyrst og fremst meiðslum og svo að ég held almennu rugli í kringum liðið og getuleysi samherja. Það er aftur orðið þannig að alltaf er horft til hans þegar illa gengur.
Ég held að ef aðrir þættir í kringum liðið fara að færast til betri vegar þá munum við sjá Gerrard aftur uppá sitt besta og lykilmann í liðinu næstu árin. Hann á 3 ár eftir í toppformi í þeirri stöðu sem hann er í dag og svo önnur tvö sem McCallister held ég.
Það þarf að byrja á að breyta innviðum klúbbsins og umhverfi hans aftur. Ef það eru ekki til peningar þarf einfaldlega að skilgreina það vel og byggja þá upp á ódýrari mönnum og einfaldlega segja áhangandum að það sé staðan. Í þeirri stöðu sem er uppi í fótboltanum í dag er ekki óliklegt að vel rekin lið muni standa sterkust þegar fram líða stundir.
Bravó Kristján bravó! ég pældi aldrei í því að Carragher væri svona, hélt að þessi maður væri Liverpool í gegn, og myndi aldrei gera eitthvað álika til að skemma fyrir Liverpool, en gæti vel verið rétt hjá þér. Annars mjög svo sammála um Gerrard, hann hefur ekki átt toppleik í þvilikt langan tíma, og ekki EINN á þessari leiktíð, það er á hreinu.
Meiriháttar pistill KAR. Vel gert. Á þínum bestu dögum eru skrif þín algerlega á pari við það besta sem gerist í fótboltaheiminum.
En eitt stingur mig ítrekað….
Ég eyði ca. klukkutíma á dag í að lesa um liðið mitt (sorglegt ég veit). En mér hefur algerlega mistekist að finna þessar áreiðanlegu fregnir, um óánægju lykilleikmanna gagnvart Rafa.
Ég vil samt ekki gera þetta að einhverju aðalatriði. Aðalatriðið er að KAR skrifaði frábæran pistil.
Það sagt…
Þá er nú samt alger óþarfi að sitja heima og háma í sig ís beint úr dollunni og gráta það sem orðið er. Það er ennþá hellingur eftir af þessu. Eftir viku er ég sannfærður um að 4. sætið verði í seilingarfjarlægð og við komnir í 8-liða úrslit í Evrópudeildinni. Þannig bara verður það að vera…
Megum ekki gleyma því að ef (og ef og ef og ef……) við náum þessu bannsetta 4. sæti og vinnum Euroleague yrði tímabilið, árangurslega séð, betra en í fyrra, hversu vitlaust sem það nú er.
Liverpool er stærsta og merkilegasta félag veraldar!!!! Gillett, Hicks, Gerrard, Benitez, Kuyt, Lucas, Babel och så videre och videre.. breyta því ekki.
Rauður þangað til ég dauður!!!!
sammála öllu, en hefðir mátt bæta því hversu óþolandi það er þegar liðið skorar á mikilvægum augnablikum þá fagnar F****** Rafa B. ALDREI!… ALDREI!!óþolandi… EINS og honum sé alveg sama. ástæðan fyrir því að ég segi þetta er því ég stekk upp og fagna ef liverpool skorar á móti ManUtd þó ég sé eini poolarinn að horfa með öðrum ManUtd mönnum… og spila fótbolta svo ég þekki tilfinguna sem kemur þegar skorað er mark á mikilvægum augnablikum
Við verðum að senda Rafa formlegt bréf og biðja um að fagna með áhorfendu, það bætir bara stemmarann og andann í liðinu.
Sigurjón, hér er Tomkins að tala um þetta og segir: “It saddens me to say, but the impression I get – and this is purely my impression – is that Carragher and Gerrard are not fully behind Benítez, as they desperately look to achieve that elusive title towards the back-end of their Liverpool careers.”
http://tomkinstimes.com/2010/03/the-implications-of-5th-or-worse/
Að vilja selja Gerrard er sennilega eitt það heimskulegasta sem ég hef lesið á internetinu undanfarin ár. Ef að við ætlum að eiga bjartari tíma framundan þá er ekki málið að selja besta sókndjarfa miðjumann heims fyrir klink (25-30m punda er klink á leikmannamarkaðnum í dag).
Mér væri drullusama þó Gerrard myndi ríða konum allra í liðinu og míga í leðrið í bílunum þeirra, hann er betri en allir aðrir í liðinu í fótbolta og við megum ekki við því að missa okkar besta mann.
með baráttukveðju, Stefán J.
Stefán J. (#34) – Það er enginn að segja að Gerrard hafi ekki verið langbesti leikmaður Liverpool síðasta áratuginn og ég tek það sérstaklega fram í pistilinum að hann sé enn okkar besti maður. Hins vegar er það staðreynd að hann er þrítugur í vor, hefur átt í miklum meiðslavandræðum sl. tvö tímabil og virðist skv. sumum frásögnum hafa frekar neikvæð áhrif á aðra leikmenn liðsins heldur en jákvæð.
Minn ótti er sá að ef við reynum að byggja upp nýtt lið með nýjum stjóra muni yfirgnæfandi persónuleikar Gerrard og/eða Carra vera þeim stjóra fjötur um fót og hindra viðkomandi í að geta gert liðið algjörlega að sínu. Það hefur einmitt að vissu leyti gerst með Benítez, hann getur ekki haft hlutina nákvæmlega eins og hann vill því það má ekki styggja Gerrard og/eða Carra.
Mín skoðun: ef við fáum 30m punda tilboð í þrítugan leikmann sem hefur verið mikið meiddur sl. tvö tímabil og er með neikvætt hugarfar þessar vikurnar eigum við að taka því. Algjörlega. Get ekki hugsað mér réttari tíma til að selja Gerrard.
Frábær pistill.
Vel fram settur og vekur mann til umhugsunar um margt. Sérstaklega gaman að sumum af umdeildari skoðununum þarna.
Ég er sammála að Carra þarf að leika minni rullu, og ef hann sér það ekki, þá er einfaldlega ber hann ekki hag klúbbsins fyrir brjósti og þarf að víkja. Ég hef reyndar fulla trú á því að hann muni sjá að sér – hvort sem það verður í sumar eða eftir að honum verður runnin reiðin í miðverðinum hjá t.d. Hömrunum.
Gerrard vona ég hinsvegar að rétti sig við. Það er rétt að hann er ekkert að verða yngri og ef við fengjum risatilboð í hann í sumar þá yrði erfitt að neita því. Hins vegar eru ekki nema 12 vikur síðan hann og Torres voru að linka saman eins og hnetusmjör og sulta. Ég neita að trúa því að sá tími sé liðinn.
Annað varðandi mögulega sölu á Gerrard. Það að selja hann sendir mjög slæm skilaboð. Sérstaklega ef LFC kaupir ekki þeim mun fleiri og betri leikmenn. Sem ég sé síðan ekki gerast ef við seljum Gerrard.
Ef við spólum nokkrar vikur fram í tímann og sala á Gerrard yrði raunin, segjum fyrir 25 milljónir punda, sem er ekki slæm fjárhæð. Þá er nokkuð ljóst að núverandi leikmenn munu örvænta (t.d. Torres). Tilvonandi leikmenn munu hugsa sig tvisvar um áður en þeir skella sér til liðs sem var að selja fyrirliðann sinn. Lið sem komst mögulega ekki í meistaradeildina. Lið sem á lítinn pening. Lið með þokubakka á sjóndeildarhringnum. Til að bæta gráu ofan á svart þá munu aðrir klúbbar hækka verðið á öllum þeim sókndjörfu miðjumönnum (eða framherjum) sem Liverpool er orðað við, vitandi það að klúbburinn var að fá pening og er örvæntingarfullur.
Að mínum dómi eiga eigendurnir mesta sök á því hvernig staðan er núna. Þeir einfaldlega tefldu til ósigurs. Hitt er síðan annað að bæði Rafa og leikmennirnir hafa gjörsamlega brugðist í kjölfarið. Ég vona að Rafa fari að taka áhættur og að leikmennirnir taki sig saman í andlitinu. Við erum ekki að tala um einhverja random Mihajlo Bibercic hérna. Við erum að tala um landsliðsmenn og í flestum tilvikum landsliðsfyrirliða! Á tussufínum launum. Þessir menn eiga að kunna að rífa hvern annan upp af rassgatinu, eða a.m.k. sjálfa sig!
Ég hef ekki mistt af leik í vetur. Að því sögðu, þá er það eina sem ég veit er að ég höndla ekki aðra leiktíð þar sem ég vakna fyrir kl. 8 á laugardagsmorgnum (bý í Bandaríkjunum). Druslast upp á Liverpool bar sem er í svona 20 mínútna göngufæri. Í allt að 20° C frosti. Timbraður. Til þess eins að sjá Liverpool skíta á sig. Á móti Portsmouth.
For fuck sake.
Svo er ég hjartanlega sammála með Lucas. Hann er ekki frábær, en hann hefur svo sannarlega tekið framförum í vetur og á eftir að verða frábær.
12 vikur átti klárlega að vera 12 mánuðir 🙂
Kristján Atli. Ég bíð enn svars.
@ hjalti #33
Purely my impression!!!
Getgátur getgátur, getgátur…. Ekkert í hendi.
Í dag var mikið fjallað um Macleish sem næsta stjóra… Svona ef menn tala í fyllstu alvöru… Hvor er betri stjóri Macleish eða Benitez? Svona í alvöru þeir sem vilja Rafa í burtu verða að gera svo vel og svara þessu!!!
magggi (#38) – Þú fyrirgefur ég hélt þú ætlaðist ekkert endilega til þess að fá svar frá mér.
Ég held við verðum bara að vera sammála um að vera ósammála með Lucas. Hann er alls enginn heimsklassaleikmaður en af 22ja ára brasilískum landsliðsmanni er hann þegar orðinn mjög reyndur. Hann hefur að mínu mati margt til brunns að bera og þótt hann sé enginn Gerrard eða Lampard voru þeir það hvorugur þegar þeir voru 22ja ára. Ég sé aðallega í Lucas leikmann sem er góður núna en gæti haldið áfram að vaxa og þroskast og bæta sig og jafnvel orðið stjarna á næstu árum.
Varðandi stuttu sendingarnar, þá er það rétt að hann sendir yfirleitt stuttar sendingar en það þarf alls ekki að vera slæmur kostur í leikstjórnanda. Xavi Hernandez hjá Barcelona er t.a.m. sennilega besti leikstjórnandi í heiminum í dag og hann sendir nær alltaf stutta bolta frá sér. Er ekki mikið fyrir að dúndra löngum boltum á milli kanta, þó hann geti það svo sem ef þörf krefur, heldur hlutunum frekar einföldum og „smyr vélina“ eins og það er kallað.
Ég man hvernig Xavi var á sínum fyrstu árum. Það var ekki fyrr en undir stjórn Rijkaard að hann fór loks að blómstra, eða svona 23-24 ára gamall. Ég held það sé ekki fjarri lagi að líkja 22ja ára gömlum Xavi við 22ja ára gamlan Lucas. Það er ekki þar með sagt að Lucas verði heimsklassaleikmaður eins og Xavi en hann gæti það alveg.
Eins og ég segi, við verðum bara að vera sammála um að vera ósammála. Ef allt væri eins og það á að vera værum við með Aquilani og Mascherano sem lykilpósta á miðjunni (ásamt Gerrard að sjálfsögðu) svo Lucas gæti notið sín í minni rullu með minni pressu og þroskast í rólegheitunum. Það hefur háð honum í vetur að bera of mikla ábyrgð í fjarveru eða slæmri frammistöðu félaga sinna.
Bara mitt mat. Lucas er mjög góður miðjumaður í dag sem ég vona að haldi áfram að vaxa og þroskast og verða einn sá besti á Englandi á næstu árum. Ég er reiðubúinn að gefa honum þann tíma, sérstaklega ef við eigum aðra lykilmenn á miðjunni sem geta borið meiri ábyrgð á meðan.
Sigurjón, ef Tomkins segir það eru allar líkur á að það sé rétt. Það er enginn blaðamaður jafn mikið tengdur inn í klúbbinn og hann. Hann tekur svona til orða held ég til að verja sig í rauninni, hann er jú hálfgert málgagn Benítez á vefnum. Eins og sést í grein hans á heimasíðunni, um Mark Lawrenson, ver hann Benítez nánast út í eitt. Er aðeins að draga úr því núna enda ekki annað hægt.
Annars er Kristján kannski með aðra linka sem væri þá gaman að sjá líka.
Þetta var fínasti pistill hjá þér Kristján Atli.
2 punktar. Mitt mat.
1. Ég verð að segja að ég á bara ekki orð yfir sumt fólk. Vá hvað það er skrýtið hvernig sumir sjá þennan blessaðan fótbolta. Ég verð bara einhverntíman að fá að horfa á Liverpoolleik með þér Kristján Atli til að sjá hvernig þú metur það hvernig blessaður Lucas Leiva gerir hlurina inni á vellinum. Að mínu mati er það með ævintýralegum ólíkindum að þú teljir manninn vera einn af ljósu punktunum á tímabilinu. Ég er orðlaus.
2. Ég átti ekki von á að þér myndi takast að toppa punkt nr 1. Selja Steven Gerrard? Það hefur stundum verið sagt að það sé lítil þolinmæði í þessum blessaða fótbolta, en þetta slær öll met verð ég að segja. Alzheimer sjúklingar myndu skammast sín. Á síðasta tímabili átti Gerrard sitt besta tímabil fyrir Liverpool. Skoraði 16 mörk í deildinni og lagði upp helling. Ég nenni ekki að minnast á það hvað hann hefur gert tímabilið þar áður. Núan hefur allt gengið á afturfótunum. Í sumum leikjanna á þessu tímabili hefur hann hengt haus. Sem sagt, að hluta til á einu tímabili (Á EINU FOKKING TÍMABILI), hefur Gerrard átt of marga slaka leiki. Viltu henda honum strax út?? Er Steven Gerrard (STEVEN GERRARD) í alvöru (Í ALVÖRU) sá maður sem þú vilt losna við?? Ég ítreka það sem ég sagði að ofan. Ég verð að fá að setjast niður með þér einhverntíman og horfa á leik með þér. Ég er mjög forvitinn að sjá hvernig þú metur hlutina.
Annað í pistlinum var gott.
Jú rétt hjá þér Hjalti.
Ég ætla annars ekkert að stela þræðinum…
Við ræðum þetta betur seinna…
Flottur pistill og gaman að lesa það sem menn leggja svona mikla vinnu í.
ég er að öllu leiti sammála þér í pistlinum og má einnig nefna í sambandi við Gerrard og mögulega sölu á honum, að þegar Beckham var seldur frá man utd var það líklegast út af því að hann var orðinn stærri en klúbburinn. það sama finnst mér vera að gerast með Gerrard og því tel ég best fyrir liðið að skoða brottför.
einnig vil ég minnast á carragher, ég commentaði hér inn á síðuna á síðasta tímabili þegar carragher var búinn að gera einhverjar gloríur, og gaf það sterklega til kynna að hans tími væri liðinn. sterkari varnarmanna væri hreinlega þörf í LFC. það hafur svo enn betur komið í ljós á þessu tímabili með tilkomu Agger og Kyrgiakos í vörnina, enda þá fór liðið loksins að spila varnarleik sem sæmir toppliði.þeir hafa líka staðið vaktina eins og hetjur.
Uff ef við hefðum selt Gerrard til chelsea rétt eftir að við unnum meistaradeildina og mjólkað Chelsea talsvert, Hefði Alonso orðið nr 1 og stjórnað öllu ? keypt Deco/Kaka týpur(AMC) í stað Gerrads? fengið Macherano og jafnvel keypt Simao… Stundum dettur maður í ‘What if’ pakkann
Frábær pistill Kristján.
Mínir punktar.
Fínn pistill og gaman að lesa svona skrif sem greinilega eru undirbúin og athuguð áður en sest er niður og hugsanirnar settar fram.
Ég er einn þeirra sem óska þess helst að þetta tímabil væri búið svo við einfaldlega getum farið að undirbúa okkur fyrir það næsta. Ég held að Benitez verði áfram en ekki af þeirri ástæðu að það sé svo dýrt að reka hann. Bæði eigendur og Parslow (eða hvað hann heitir) hafa lýst því yfir að þessi langtímasamningur sé akkúrat gerður fyrir langan tíma og því ekki eitthvað stundaratvik sem á að breyta því. Auk þess er búið og verið að endurnýja samninga við helstu leikmenn til langs tíma og það er væntanlega gert vegna kröfu frá Benitez sem og miklar breytingar á akademíunni. Þessvegna hef ég enga trú á því að Benitez verði látinn fara í sumar nema hann kjósi að fara sjálfur. Fari svo að næsta tímabil hefjist með álíka vonbrygðum og þetta þá verður staðan gagnvart Benitez trúlega önnur um áramótin 2010/2011.
Ánægður var ég að lesa (sé rétt eftir honum haft) ummæli Torres um helgina þess efnis að hann ætlar ekki að fara þótt við náum ekki 4. sætinu. Hann færi hinsvegar ef klúbburinn nær ekki í þónokkra sterka leikmenn strax í sumar. Er líka ánægður með það sem hann hefur sagt að hann fari ekki til annars lið í Premiunni heldur frekar heim. Mundi ekki fyrir mitt litla líf vilja sjá hann í öðru liði í ensku deildinni.
Ég minni á að Liverpool gerði fyrir nokkru stærsta samning sem gerður hefur verið varðandi styrktaraðila klúbbsins á treyjurnar, 80mP til 4 ára. Það var lofað upphæðum af því í leikmannamál. Svo hefur annar hamborgarinn, sem á þennan klúbb í augnablikinu, lofað stórum upphæðum í sumar. Kjötklessurnar hafa svo sem lofað öðru og öllu fögru áður en ekki staðið við það eins og við þekkjum svo að maður er ekkert bjartsýnn á þetta en maður verður samt að vona.
Tímabilið í ár er hörmung að öllu leiti nánast. Örfáir aðilar hafa staðið uppúr sem ljós í myrkri s.s. Pepe Reina en fjölmargir aðrir leikmenn hafa séð til þess að aðdáendur fýla sig í svartri, blautri og kaldri þoku. Hvað kemur í sumar á eftir að koma í ljós en ég ætla að lifa í voninni um að það sem sagt hefur verið verði látið standa og að menn vinni hratt og markvisst að því að styrkja klúbbinn fyrir næsta tímabil. Veit að það verður erfiðara að ná í leikmenn ef við verðum ekki í CL en á móti, ég vil fá leikmenn sem vilja koma til okkar af því að liðið okkar heitir Liverpool. Það að við séum í CL er auðvitað feitur plús en má helst ekki vera fyrsta atriði.
Hvað sem verður þá held ég áfram að klæða mig Liverppoltreyjunni og rífa kjaft við sjónvarpsskjáinn þegar leikir eru.
YNWA – Áfram Liverpool !
Góðir punktar Einar Örn.
Ég er sammála þér með miðjuna. Þótt mér líki ekki illa við Lucas og vilji verja hann er ég sammála þér með það að sóknarspil af miðjunni hefur verið steingelt í vetur (og í fyrra). Aquilani hlýtur að hafa verið hugsaður sem sóknarmiðjumaður við hlið varnartengiliðsins Mascherano en það hefur því miður ekki enn gerst að við sjáum þá spila nokkra leiki saman.
Svo er kannski vert að ítreka það að ég er engan veginn að segja að við verðum að losna við Gerrard. Ég er ekki að gefa í skyn að hann sé ekki nógu góður eða neitt slíkt heldur einfaldlega að benda á þá möguleika sem geta fylgt því að selja þrítugan leikmann hæstbjóðanda og nota féð í að kaupa jafnvel tvo toppmenn í staðinn.
Góður stjóri veit hvenær rétti tíminn til að selja kemur. Wenger seldi Vieira á réttum tíma fyrir toppverð en að mínu mati seldi hann svo Henry ári of seint (og fékk aðeins 18m fyrir hann fyrir vikið). Ferguson hefur alltaf gert þetta vel, sjá sölur eins og Beckham, Van Nistelrooy og Jaap Stam. Það voru lykilmenn í liði United sem fóru fyrir toppverð um leið og Ferguson var kominn með menn sem hann vildi kaupa í staðinn.
Ef Gerrard verður kyrr og áfram fyrirliði verð ég engan veginn fúll yfir því. Hann er jú Steven Gerrard og han bara getur ekki átt annað svona tímabil. En ef við seljum hann mun ákveðinn hluti af mér fagna því líka, ég neita því ekki.
Einstaklega smekklegur pistill í alla staði. Er hinsvegar ekki á þeirri skoðun að Gerrard og Carra tími sé komin. Sammála því að spilamennska þeirra hefur dalað en lausnina tel ég ekki leynast í að selja þá.
Þar sem ég vinn með Spánverja alla daga að þá hefur mér lærst að þeir Spánverjar) telja sig bestu íþróttamenn í heiminum,.. engin hefur tærnar þar sem þeir hafa hælana. Þegar Rafa tók við liðinu sá maður ekkert því til foráttu að kaupa nokkra léttleikandi spanjóla til liðsins. En ég tel hinsvegar að þessir “nokkrir” hafi breyst í “of margir”. Mér finnst Spánverjarnir einfaldlega ekki taka hlutina nægilega alvarlega. Þeir leggja sig ekki 110% fram þegar illa gengur því þeir telja sig ekki hluta af vandamálinu.
Ummæli Fernando Torres í fjölmiðlum þar sem hann ýjar að því að hann muni fara ef liðið nær ekki 4.sætinu og ef ekki verði keyptir nokkrir “heimsklassa” leikmenn rennir stoðum undir “spanjóla” kenningu mína. Ef Torres myndi eyða meira púðri í að spila fótbolta inni á vellinum en tuð og pirring út í andstæðinginn þá skal ég hundur heita ef núverandi samherjar duga honum ekki. Hann er á launum hjá klúbbnum, ekki öfugt.
Skammtímalausn: ristilhreinsun hjá Jónínu Ben á allt liðið.
Langtímalausn: Benítez út (a.k.a. fækka Spánverjum), árangurstengja grunnlaun, selja þá sem vilja ekki sætta sig við árangurstengd grunnlaun og kaupa leikmenn sem kunna að vinna fo#$ing leiki.
Kv. frá Sverige
Yrði Fernando Torres fyrirliði ef Gerrard færi? Eða Carra?
Uff ég veit ekki. Í þessum mikla pirringi er erfitt að neita því að það sé freistandi að selja S.G en ég veit ekki hvort ég myndi meika að sjá hann í Inter treyju, hvað þá chelskíts treyju….. Nei ég held að hann þurfi bara betri og meiri mótíveringu heldur en Benni er að skaffa núna.
En bara það sem er best fyrir Liverpool.
50, hvað ef skortur á mótiveringu nær lengra en það? Er óhugsandi að hann sjái það sem er augljóst, klúbburinn á enga framtíð með núverandi eigendur og hann sér fram á að eyða síðustu árum sínum sem spilari undir klúbbi sem er á niðurleið.
@Carlito#50. Fari svo að Gerrard yfirgefi klúbbinn, þá held ég að Pepe hljóti að verða næsti fyrirliði.
Ég skil ekki menn sem vilja Jamie Carragher út eða voga sér á einhvern hátt að tala niður til hans. Það sem hann hefur gert fyrir klúbbinn er margfallt meira en Benitez hefur eða mun nokkurntíman gera. Carragher hefur óstjórnlegan sigurvilja og við þurum meira þannig, ekki minna. Ég bara trúi ekki að til séu Liverpool menn sem eru til í að láta þennan HR Liverpool fara þegar hann á slæmt tímabil en er stýrt af manni eins og Rafa Benitez.
http://www.liverpoolfc.tv/news/latest-news/kelly-my-anfield-idol
Martin Kelly believes there is no-one better for him to learn from than Jamie Carragher – and revealed how he’d love to emulate the vice-captain’s career.
Like Carra, Kelly can operate at both full-back and in the centre of defence and admits he learns something new everyday from working alongside the Kop idol at Melwood.
**”Carragher has been a massive amount of help to me,” Kelly told Liverpoolfc.tv. “He is so dedicated to the game of football and knows so much about it.
“In training every day, you learn something different from Jamie. No matter what you’re doing, he’s always helping you and it’s great for a young lad like me because I need to learn as much as I can at this level to progress.**
“Having players like him, who know so much about the game and have done so much for the club, make it just brilliant to play with him.
“The things he’s done at this club, I’d love to have a career like his. Obviously it’s definitely down to his hard work – he gives 100 per cent in training every day – but I’d love to be like him.”
It’s this dedication and knowhow that Kelly believes would make Carragher an excellent manager when he finally decides to hang his boots up.
“I think he definitely has all the attributes, but I don’t think he’d settle for anyone who doesn’t work hard in his team,” he said.
Kelly graduated to Melwood from the Academy in the summer of 2007 and has since gone on to make three first-team appearances, including a highly-impressive performance against Lyon in the Champions League last October.
The 19-year-old added: “It’s brilliant training with the first-team. It’s what you live for.
“I’ve played football since I was a lad and I wouldn’t swap this job for anything.
“Waking up in the morning and coming into training with all the star players, it’s what you dream of.”
Mín hugmynd er sú að það er engin til að slá á puttana á Rafa lengur eftir að honum tókst að bola Parry út. Hvað sem menn segja um Parry þá sá hann um að Rafa væri á tánum, var með aðhald gagnvart Rafa. Rafa er orðinn of voldugur innan Liverpool eftir að Parry fór að hann kemst upp með þvermóðsku sína og þrjósku. Þar myndi ég segja að vandamálið væri. Ekki í Gerrard eða Carragher, heldur betur ekki!
Flottur KAR. Thumbs up!
Er sammála þér varðandi Lucas, hann er einfaldlega að fá alveg óheyrilega mikla athygli vegna slaks gengi liðsins og þegar verið er að tala um álit leikmanna á einhverju vill ég benda á að Gerrard og Carragher hafa marglýst velvilja sínum og aðdáun á Lucas. Bara það eitt hversu vel þessu strákur tekur á neikvæðninni í kringum sig og hefur bætt t.d. leikbrotaþáttinn sinn í vetur segir mér að þarna er á ferðinni leikmaður sem getur nýst okkur í framtíðinni. Hann er að mínu mati verulega að líkjast Didi nokkrum Hamann í þessu liði, sá var í miklu uppáhaldi hjá mér, vann boltann og sendi stutt á næsta mann. Mikilvægur.
En ég er ekki sammála með Gerrard og Carragher. Þetta lið þarf að hafa Merseyside-sál og með því að missa þá tvo mun mjög mikið tapast af andanum í kringum liðið. Því miður er ennþá einhver tími í nýja Scousera í liðinu og ég held að við verðum að finna leiðir til að virkja þessa tvo gegnheilu Liverpoolsnillinga á ný. Gerrard er að mínu mati ennþá með alla burði í að vera besti sóknarmiðjumaður í þessu kerfi í heimi og samvinna hans og Torres vonandi smellur nú þegar El Nino virðist vera að detta í form. Fyrir utan að þessir tveir hafa gríðarlega aðdráttarhæfileika fyrir aðra leikmenn, nokkuð sem margir leikmenn hafa nefnt við komuna á Anfield. Svo að ég vill halda þeim áfram.
Eigendaþáttinn, sem og þátt Rafa, styð ég heilshugar. Hins vegar er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að liðið ákvað í fyrra að skipta um kúrs og taka upp Rafa-kúrsinn. Því velti ég alltaf fyrir mér, hvað verður um klúbbinn okkar í heild ef breytt verður um. Í öllu helv**** bullinu í kringum eigendurna var það hann sem barðist áfram fyrir félagið og afrakstur þess var að breytt var. Við brotthvarf Rafa er spurning hvað verður t.d. um Borrell, McParland, McMahon og Dalglish sem komu af hans völdum og hafa unnið verulega gott starf! Menn mega ekki vanmeta þátt Rafa í að fá þessa menn til félagsins og bara alls ekki sjálfgefið að þeir verði áfram. Sérstaklega hlakkar mig til að fylgjast með ungu mönnunum sem Borrell hefur verið að vinna með.
Svo varðandi CL og “attraction” fyrir leikmenn. Vissulega skiptir það máli! En hitt verður nú líka að skoðast að Tottenham, Aston Villa og HVAÐ ÞÁ Manchester City hafa fengið góða leikmenn, jafnvel heimsklassaleikmenn án þess að vera í þessari keppni. Þetta snýst líka um peninga og metnað!
Liverpool með góðum launum verður ALLTAF frábær kostur fyrir knattspyrnumenn!
En góður KAR – og í fyrsta sinn lengi – góð umræða!!!! Fresta upphituninni fram á kvöld til að láta þennan pistil vera efstan vel enn um sinn…
Örlítið um Steven Gerrard. Frábær leikmaður, með hjarta úr Liverpool gulli og hinn besti drengur á alla lund. Hann er stolt Liverpool borgar og scouserarnir tala um Steven af sömu elsku og Hannes Hólmsteinn um Davíð Oddsson. Og talandi um Doddsson minnir hegðun Gerrards dálítið á þann gamla foringja. Doddsson heilkennið felst í því að eigin stærð skyggir á allt annað. Þeir sem eru haldnir Doddsson heilkenninu horfa á lífið út fílabeinsturni og eru komnir úr sambandi við grasrótina.
Þegar maður horfir á Gerrard leika langt undir getu leik eftir leik fer maður að velta fyrir sér hvort hann ætti að finna kröftum sínum viðnám annars staðar? Það er stuttur í honum þráðurinn, hann pirrast út í dómarann, hendir sér í glórulausar tæklingar og er almennt agalaus á vellinum. Hvað er langt síðan maður sá Gerrard brenna af áhuga og vera sínum mönnum sú hvatning sem hann getur svo sannarlega verið ef sá er gállinn á honum?
Gerrard hefði gott af að vera kældur á bekknum en það er ekki af fara að gerast af því að þetta er sjálfur Steven Gerrard!. Rafa þorir ekki í Gerrard af því að hann veit að það kann að hafa afleiðingar. Svona er Doddsson heilkennið. Allir kóa með ofurmenninu. Maðurinn fær ekki það aðhald sem hann nauðsynlega þarf á að halda og það sér hver maður að Gerrard er að dala sem knattspyrnumaður fyrir vikið.
Þess vegna væri það besta sem kæmi fyrir Gerrard og Liverpool að hann uggötvaði sjálfur að enginn er ómissandi. Enginn einn leikmaður er stærri en Liverpool. Af Steven Gerrard er ekki aðeins ætlast til að hann mæti í vinnuna og spili fótbolta. Hann á að mæta í vinnuna brennandi í andanum til að berjast fyrir sitt elskaða Liverpool til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að hverju sinni.
Carra og Gerrard eru uppaldir leikmenn og ég veit ekki hversu margir slíkir eru í 25 manna Evrópudeildarhópnum núna. Það er verið að herða reglurnar með uppalda leikmenn og það gæti hreinlega þurft að taka tillit til þess.
Og eins og einhver sagði, 25 milljónir punda kaupa ekki endilega TVO heimsklassaleikmenn. Sérstaklega ekki í árferðinu í dag.
@54: Maggi
Já þú segir það ranga greiningu að Gerrard/Carra þurfi að fara. Vissulega þarf liðið að hafa Scouser sál í sér, en eins og þeir hafa verið að leika þá finnst mér það algjörlega vanta í leik þeirra. Ef þeirra attitjúd er farið að skemma fyrir liðinu þá verður það að gerast að þeir lagi sitt attitjúd eða þeir fari frá liðinu. Það getur ekki gengið að tveir af 11 mönnum spili með hangandi haus. Sérstaklega ekki skaparinn á miðjunni og hjartað í vörninni.
Það er punkturinn sem KAR nefnir og ég tek undir.
Þess vegna verður annað hvort að gerast, þeir girði sig í brók eða fari.
Já, en þú færð eitt stykki Joleon Lescott fyrir þann pening. 🙂
Ég trúi bara ekki að ég sé að lesa á aðdáendasíðu Liverpool að menn vilji þá félaga burt, ég bara trúi því ekki. Þetta er tryggðin og stuðningurinn….sem betur fer er þetta ekki algengt viðhorf!
Ertu sem sagt í raun til í að skipta Gerrard út fyrir Joleon Lescott Enar Örn? Jahérnahér…ekki er nú öll vitleysan eins!
Ertu að reyna að setja eitthvað met í hræsni og útúrsnúningum Gunnar Ingi? Líttu þér nær.
Afhverju segirðu það? Þetta átti ekki að vera neinn útúrsnúningur. Hann talar um að það sé hægt að kaupa Joleon Lescott fyrir þann pening sem fengist fyrir Gerrard…eða misskyldi ég?
Annars þarft þú ekki að svara fyrir Einar Örn, hann er fullfær um það sjálfur. Reynum nú að halda þessu úr sandkassanum Reynir, ég skildi Einar svona og spurði hann í kjölfarið. Nákvæmlega ekkert að því…
Gunnar Ingi #53.
Mín meining á Carragher er sú að hann hefur að mínu mati ekki þá getu til að spila í hjarta varnar Liverpool. það efast enginn um sigurvilja hans og baráttu í þágu félagsins, en hann er einfaldlega ekki nógu góður. menn mega deila um þetta lengi en þetta er mín meining.
Sjáum bara þegar Kyrgiakos kom inn í vörnina með Agger/Skrtel, þá kom alvöru barátta í vörnina og við fórum að halda hreinu. ef það sýnir ekki allt sem sýna þarf þá veit ég ekki hvað… ég er persónulega ekki fylgjandi því að selja Carra, heldur fela honum nýtt hlutverk sem varamanni. og ef hann er ekki sáttur með það má hann fara.
Ég er ekki sammála þessu Árni af þeirri einföldu ástæðu að þegar Carra var í vörninni vorum við með tvo sóknarsinnaða bakverði(Johnson og Insua) sem skildu eftir sig mikið pláss. Á þessum tíma var Masch líka að spila illa og það munar um minna þar sem hann átti væntanlega að covera það pláss sem skapaðist á bakvið bakverðina.
Þegar Carra fer úr bakverðinum og Grikinn kemur inn hefur hann Carra í bakverði með sér sem og Masch að spila vel. Þetta held ég að sé númer eitt, tvö og þrjú.
Mér finnst menn dæma Carra allt of hart hérna, en það er auðvitað bara mín skoðun. Með tímanum(næsta eða þarnæsta tímabil jafnvel) fer hlutverk hans að minnka og hann fær þetta Hyypia hlutverk.
Ég ætla að giska á að Grikinn eða Skrtel verður seldur í sumar og Simon Kjær komi inn. Hans fyrsta tímabil verður sem 3. miðvörður(hann fær samt nóg af leikjum sökum meiðslasögu Aggers) en detti svo inn sem aðalmiðvörður eftir það. Framtíðin verður svo Kjær og Agger með Carra sem backup.
Frábær pistill Kristján Atli!! burt með Gillet og Hicks og inn með fleiri heimsklassa leikmenn
p.s. væri gaman að fá David Villa 😉
YNWA
Þetta athyglisverður pistill hjá þér Kristján. Hvað hefurðu fyrir þér þegar þú segir
„ það er vitað mál að hann er ekki vel liðinn af samherjum sínum vegna meints hroka.“ og svo „ og vilja sumir meina að þeir hafi viljað yfirgefa Liverpool af því að þeir höfðu skoðanir og sáu að þeir (Xabi og Arbeloa) myndu aldrei koma þeim á framfæri á meðan Carra og Gerrard réðu öllu í búningsklefanum.“
Hér væri gott að vitna í heimildir.
Varðandi Lucas þá hef ég alltaf verið á þeirri skoðun að Lucas sé ágætis leikmaður með einhverjum öðrum sem getur spilað boltanum. Það sjá það allir að Mascherano og Lucas virka ekki saman. Sem dæmi þá hefur Aquilani átt tvær stoðsendingar á þessu tímabili og Lucas ekki neina og ekki einu sinni skorað mark þrátt fyrir fjölmörg dauðafæri.
Gunnar Ingi #64, það er einmitt málið að við höfum ekki efni á að hafa hafsenta í liðinu sem þurfa sífellt að vera bakkaðir upp af bakvörðunum. Öll stóru liðin spila með sóknarsinnaða bakverði og alvöru hafsenta.
Ég er ekki að segja að ég vilji losna við Carragher en það sjá allir að hann er kominn of nálægt endastöð. Það má greinilega sjá muninn á Hyypia, þegar fór að draga að lokum hjá honum, og Carragher að Hyypia hefur alla kosti sem að hafsent þarf að hafa þegar hann missir hraðann (les leikinn vel, er hávaxinn, frábær skallamaður og góður á boltanum). Því miður hefur Carragher einungis einn þessara eiginleika, hann les leikinn einstaklega vel, en er enginn sérstakur skallamaður og alveg hræðilegur á boltanum (ef ekki sá versti af öllum hafsentum stóru liðanna).
Barátta og hjarta koma manni bara ákveðið langt og við einfaldlega höfum ekki efni á að hafa farþega í hjarta varnarinnar.
Já, Gunnar Ingi – þú lest hugsanir mínar. Ég vil skipta Steven Gerrard út fyrir Joleon Lescott. Og helst í raun borga eitthvað þarna á milli.
Fyrirgefðu Einar minn, ég hef greinilega misskylið þig…get mér þess til að þetta hafi átt að vera kaldhæðni hjá þér þá með Lescott og ég einfaldlega fattaði það ekki….og geri ekki enn ef útí það er farið en við skulum láta það liggja á milli hluta.
Við erum nokkuð sammála Gylfi Freyr með spilastílinn, auðvitað viljum við sóknarsinnaða bakverði. En það sem ég meinti var að Carra leit illa út því bæði var hann með sóknarsinnaða bakverði(eitthvað sem hann var ekki vanur með Arbeloa) og svo var Masch að spila illa. Þegar Grikkinn kemur inn hefur hann Hr. Ábyggilegan(Carragher) í bakverði og Masch í formi fyrir framan sig og þar er stór munur á aðstæðum. Það tel ég stóran þátt í því að Grikkinn lítur vel út því hann er jafnvel verri en Carra á boltann þó vissulega sé hann öflugur í loftinu. Ef Carra spilar núna nokkra leiki með Johnson sér við hlið og Masch í formi fyrir framan sig er ég viss um að hann lítur betur út.
Menn tala eins og Carra sé bara nálægt gröfinni en hann er aðeins 32 ára. Eðlilega mun hans spilatími minnka með hækkandi aldri en það er ekki eins og hann sé á allra síðustu metrunum.
En þér og öðrum er auðvitað guðvelkomið að vera ósammála mér, enda þessi síða til að koma skoðunum á framfæri ekki til að finna þá einu réttu 🙂
Þegar ég segi að Carragher sé að verða kominn að endastöð að þá er það einungis byggt á hans frammistöðu og hefur ekkert að gera með aldur hans. Það var einmitt hluti af því sem ég sagði í fyrra svarinu að Carragher einfaldlega eldist mun verr en t.a.m. Hyypia af því að hann skortir þessa grunn-hafsenta hæfileika. Sjáðu til dæmis Dunne, Carvalho og Ferdinand, allir þeir eiga eftir að endast mun lengur á efsta stigi en Carragher.
Ég endurtek: Við höfum ekki efni á að halda áfram með Carragher sem okkar aðal miðvörð (hef einnig efasemdir um raunverulega getu Skrtel en hann hefur enn tíma til að bæta sig þar sem hann er ungur). Hann þarf augljóslega að stóla of mikið á aðra menn í liðinu (Mascherano, Lucas og Johnson) til þess að lenda ekki í vandræðum og eyðileggja taktinn í spili liðsins með vonlausum háloftasendingum upp völlinn, að ég tali nú ekki um þennan kæk að taka alltaf tvö skref aftur á bak áður en hann sendir boltann áfram.
Hann hefur þjónað félaginu frábærlega (meir en flestir sem hafa að því komið) en er einfaldlega of metnaðarfullur og trúaður á sína eigin getu að hann kemur aldrei til með að sætta sig við bekkjarsetu þar sem hann á réttilega heima í dag. Við verðum að trúa að við getum gert betur en hann.
Jæja Aston Villa og Man City töpuðu bæði 2 stigum í þessari umferð, með sigri á Portsmouth á morgun getum við hleypt meiri spennu í baráttuna um 4 sætið eftirsótta 🙂
Ég neita að gefast upp í baráttunni um Champions League!
það er rétt #71 og okkur til góðs eiga þessi lið öll eftir að mæta hvort öðru. villa-spurs-city en við erum búnir með öll þessi lið og ættum þvi að eiga léttasta programmið þau eiga öll eftir að mæta arsenal og einhvað af þeim eiga united og chelsea eftir eins og við. þannig að það er nóg eftir! verðum bara að fara að taka fleiri útisigra
40
Takk fyrir gott svar Kristján Atli. Ég skil hvað þú meinar með Xavi en finnst þó munurinn liggja í hugsunarhættinum. Xavi er alltaf leitandi að sendingu sem gefur mark og svo er hann auðvitað meistari í að stjórna tempóinu í leikjum.
Það sem mig langaði samt að vita (og var kannski ekki nógu skýrt í fyrra svari mínu) er af hverju þér finnst Lucas vera góður leikmaður. Þú nefndir sendingargetu og leiksskilning en hvernig er hann að nota þá hæfileika. Af hverju finnst þér (öðrum er velkomið að svara ef þeir eru sammála Kristjáni um getu Lucas) Lucas vera góður leikmaður?
Sælir félagar
Frábær pistill KAR og sýnir mikið hugrekki. Ég ætla ekki að deila um eitt einasta atriði í pistlinum. Ég ætla mér að styðja þau sjónarmið sem þar koma fram. Öll. Engir einstaklingar eru stærri en liðið. Og ef það eru goðsagnirnar Carra og Gerrard sem eru meinsemdin þá eiga þeir að fara burtu.
Það er nú þannig.
YNWA
Einn punktur sem ég vill koma inn á varðandi Lucas – Massa miðjuna. Hún virkar ekki á móti lélegum liðum (vantar allt creativity). En á móti Man utd….. Virkar hún svo vel að ég myndi helst vilja spila á móti Scum í hverjum leik 🙂