Blackburn á morgun!

friedel_liverpool.jpgÞá er komið að því, enn og aftur, að við spilum leik sem við eigum til góða á hin liðin. Og í þetta skiptið spilum við á móti Blackburn. Er ég sá eini sem er hræddari við þennan leik heldur en Everton-leikinn á sunnudag???

Málið er þetta: síðast þegar við áttum leik til góða töldum við jafnan þau þrjú stig með þegar við vorum að reikna út hversu langt á eftir Everton við vorum. Nú, síðan gerðum við bara jafntefli við Portsmouth á heimavelli og skyndilega voru tvö af þeim stigum sem við höfðum gert ráð fyrir, einfaldlega “horfin”. Úps.

Í þetta skiptið erum við 8 stigum á eftir Everton, og verðum það áfram þangað til annað kemur í ljós. Ég ætla ekki einu sinni að leyfa mér að hugsa um það að mæta Everton á sunnudag, aðeins 5 stigum á eftir þeim. Vissulega gætum við verið búnir að minnka bilið niður í 2 stig um þetta leytið á sunnudag – en að sama skapi gætum við tapað þessum tveimur leikjum og verið 11 stigum á eftir Everton, og bókstaflega úr leik um 4. sætið.

Þannig að þessi leikur á morgun verður að vinnast, en eins og svo oft áður er ekkert öruggt í þessu. Ég hef horft á síðustu tvo leiki Blackburn og verð að segja að þeir eru með mjög öflugt lið sem berst vel og spilar áhrifaríkan fótbolta. Í raun má segja að þeir spili ekkert ósvipað og Everton – byggja liðið sitt upp á sterkri varnarvinnu og liðsheild og svo eru þeir duglegir að nýta færin sín. Þeir unnu jú Everton með góðri spilamennsku á Goodison Park fyrir 10 dögum, og tóku svo Leicester 1-0 um helgina í FA Bikarkeppninni. Í bæði skiptin frekar naumur sigur á pappírnum en þeir voru betri allan tímannn gegn báðum liðum, Everton og Leicester.

Þá státa þeir af manni sem ég myndi hiklaust kalla einn af svona þremur bestu markvörðum Úrvalsdeildarinnar – mann sem við létum frá okkur í staðinn fyrir Sander Westerveld á sínum tíma: Brad Friedel. Ég hristi yfirleitt hausinn yfir dómgreindarskorti okkar yfir því að láta þennan mann fara, þegar ég horfi á hann spila … svo góður er hann.

Sem sagt, Blackburn er seigt lið og þeir eru með frábæran markvörð. Þriðja ástæðan til að óttast þá er sú að þeir hafa verið ótrúlega duglegir við að meiða leikmenn okkar – ég er svo hræddur um að Morientes eða Baros eða einhver álíka ómissandi leikmaður brotni á morgun að það er ekki fyndið!

Nú, hvað byrjunarliðið okkar varðar þá er erfitt fyrir að spá. Eftir góðan sigur gegn Leverkusen fyrir viku ættu í raun allir 11 leikmenn þess leiks skilið að halda sæti sínu, en þar sem þeir Morientes og Pellegrino eru gjaldgengir á morgun og Djimi Traoré er kominn inn úr meiðslum, geri ég ráð fyrir a.m.k. tveimur breytingum á byrjunarliðinu. Held að þeir Stephen Warnock og Igor Biscan verði látnir víkja fyrir Morientes og Traoré, sem myndi gera byrjunarliðið svona:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Gerrard – Hamann – Riise

Baros – Morientes

Við höfum séð þetta byrjunarlið áður. Þetta lið myndi væntanlega stefna að því að sækja til sigurs í heilar 90 mínútur á morgun, sem við vonum einmitt að verði raunin. Finnst þetta líklegasta byrjunarliðið, þangað til annað kemur í ljós. 😉

MÍN SPÁ: Þótt ég sé skíthræddur við þennan leik leggst hann vel í mig. Við erum jafnan mjög, mjög sannfærandi á heimavelli og ég býst eiginlega við því að Blackburn-liðið, eftir tvo góða leiki í röð, sýni sitt rétta andlit og verði slappt á morgun. Þeir eru í fallbaráttu í deildinni sem segir okkur að góðæri þeirra mun ekki endast, og vonandi lýkur því á morgun. Við aftur á móti erum enn í skýjunum eftir að hafa komist í 8-liða úrslitin í síðustu viku og ættum því að mæta sterkir til leiks á morgun.

Ég held að þetta verði góður sigur hjá okkar mönnum, dettur helst í hug leikir eins og gegn Charlton, Fulham og Norwich á heimavelli þar sem við vorum betri aðilinn allan tímann og skoruðum 2-3 mörk. Vonandi verður það raunin á morgun líka.

Koma svo, áfram Liverpool! Síðast þegar við áttum ‘leik til góða’ klúðruðum við því illilega … nú má ekkert út af bera ef við ætlum að hirða 4. sætið af Everton!

Minni að lokum á að leikurinn er held ég ekki sýndur beint á SkjáEinum á morgun en þess í stað er hægt að tylla sér inn á Players og njóta vonandi sigursins með okkur hinum! 😉

9 Comments

  1. Síðan hvenær er Traore heill? Á ekki Warnock skilið að fá a.m.k. 4-5 leiki í viðbót til þess að sanna sig?

  2. Jú, ég tippa á að Kristján hafi gert mistök með Warnock/Traore. Held að Djimi sé enn meiddur.

    Algjört lágmark að hafa svona hluti á hreinu, Kristján Atli: :biggrin2:

  3. Enn varðandi markmannsmálin…..!!
    Kristján Atli þú segir:
    “Þá státa þeir af manni sem ég myndi hiklaust kalla einn af svona þremur bestu markvörðum Úrvalsdeildarinnar – mann sem við létum frá okkur í staðinn fyrir Sander Westerveld á sínum tíma: Brad Friedel. Ég hristi yfirleitt hausinn yfir dómgreindarskorti okkar yfir því að láta þennan mann fara, þegar ég horfi á hann spila ? svo góður er hann.”

    Ég er alveg sammála þér að Friedel hefur verið frábær hjá Blackburn. En við skulum átta okkur á einu að það er ekki það sama að spila í markinu hjá LIVERPOOL og hjá Blackburn. Kröfurnar hjá þessum félögum eru allt aðrar, annað liðið að halda sér í deild þeirra bestu og hitt liðið að berjast fyrir titlum á hverju tímabili. Ég er alveg sannfærður um að Dudek ætti STÓRKOSTLEGT tímabil á næsta ári ef hann yrði t.d. seldur til Birmingham. Dudek hefur mikla markmannshæfileika og hefur margsýnt það, en því miður verið heldur óstöðugur. Markmenn eru alltaf undir meiri pressu en aðrir, það er engin tilviljun að “markmannsvandræði” herja á 3 af stærstu klúbbum Englands….allir klúbbar með hæfileika ríka markverði sem því miður höndla ekki pressuna. Næsti markvörður Liverpool þarf, ásamt því að vera góður markvörður, að hafa gríðarlega mikinn andlegan styrk…..styrk á við Peter nokkurn Schmeichel!!
    Varðandi leikinn á morgun; þá held ég að við vinnum 4 – 0. Okkar menn vita um mikilvægi leiksins en Blackburn eru saddir í bili eftir að hafa komist í undanúrslit FA Cup! Svo er bara að bíða og vona að mér skjátlist ekki. YNWA

  4. Sá það hérna á sínum tíma að Traoré myndi missa af Newcastle-leiknum og Leverkusen-leiknum … las það bara þannig á sínum tíma (fyrir 2 vikum) að hann kæmi inn fyrir leikinn á morgun. Sem er náttúrulega ekkert fullvíst.

    My bad… sort of. :laugh:

  5. Jaeja Stjani,

    Madur gerir hreinlega ekkert annad thessa dagana nema ad setja ofan i thig med eitthvad 😉

    Eg verd nu samt adeins ad koma inn a thetta Friedel mal. Vid hofdum engan option a thessum tima ad halda manninum. Tha var utlendingaregla i gangi sem sagdi til um ad menn utan ES thurftu ad spila 75% leikja a samningstima sinum, annars fengu their ekki atvinnuleyfid endurnyjad. Hann var svo langt fra thvi ad uppfylla that og thvi thurfti hann ad fara. Hann var reyndar sma tima hja lidinu um leid og Sander ad mig minnir, sidasta arid.

    Annars er bara gott vedur i Liverpoolborg og sigurlykt i loftinu :biggrin2:

    erlent lyklabord og thvi ekki audskilnasti texti i veroldinni.

  6. Þetta er leikur sem verður að vinnast… og helst sannfærandi fyrir leikinn gegn Everton á sunnudaginn.

    Hvað varðar Friedel þá er það rétt… að vera markmaður hjá LFC eða Blackburn er tvennt ólíkt… og alveg á hreinu að Friedel er fínn markvörður en að mínu viti og hefur sýnt það með Blackburn. Mikið hefur verið rætt og skrifað um markmannsvandræði okkar en það virðist vera einhver sýki í gagni hjá nokkrum liðum í deildinni að eiga í vandræðum með markmenn… er ekki Shilton á lausu? hehehe

    Áfram LFC!

  7. SSteinn, gaman að sjá að þú hefur það gott í Mekku.

    Varðandi Friedel – þú þarft ekkert að setja ofan í mig. Ég vissi að það var vegna útlendingareglunnar sem hann þurfti að fara … en ef hann hefði nú bara fengið að spila 75% leikjanna sem hann var hjá okkur til að byrja með hefði þessi regla aldrei orðið neitt vandamál. 🙂

  8. he he :biggrin:

    malid er nu samt bara that ad hann fekk sin taekifaeri med lidinu og var alika otraustur og adrir markverdir hja okkur. Hann missti allt sjalfstraust thegar hann kludradi illilega a moti Man.Utd, svipad og med Dudek.

Bestu fréttir í langan tíma

Liðið komið