Everton á morgun!

rooneyscream.jpgÉg veit að þetta er klisja, en leikurinn á morgun gegn Everton ER mikilvægasti leikur þessa tímabils. Á því liggur enginn vafi.

Everton eru núna með 51 stig eftir 29 leiki. Við erum með 44 stig eftir 29 leiki. Þarna skilja á milli 7 stig. Ef við vinnum morgun verður munurinn enn 4 stig, en ef við töpum verður hann 10 stig.

Eftir leikinn á morgun eiga bæði lið eftir 8 leiki í deildinni.

Ef við töpum á morgun, þá eigum við á hættu að detta niður í 8. sæti eftir helgina. Næstu þrjú lið á eftir okkur eiga öll frekar létta leiki. Bolton spilar gegn Norwich í dag, sem og Charlton gegn West Brom og á morgun á Boro leik á móti Southampton. Þau eru öll á heimavelli. Ef þau vinna öll og við töpum, þá verðum við í 8. sæti í deildinni eftir leikinn á morgun.

Þetta er einfaldlega alvara málsins. Við hreinlega verðum að vinna. [Fyrri leikurinn gegn Everton var hrein hörmung](http://www.kop.is/gamalt/2004/12/11/15.20.41/), en vonandi verður þetta betra á morgun.

Everton eiga eftirfarandi leiki eftir:

West brom (Ú)
Crystal Palace (H)
Man U (H)
Birmingham (H)
Fulham (Ú)
Newcastsle (H)
Arsenal (Ú)
Bolton (Ú)

Við eigum eftir:

Bolton (H)
Man City (Ú)
Tottenham (H)
Portsmouth (Ú)
Crystal Palace (Ú)
Boro (H)
Arsenal (Ú)
Aston Villa (H)

Það er varla hægt að segja hvort liðið er með erfiðara prógram framundan. En við getum allavegana bókað að ef við vinnum ekki á morgun, þá eigum við ekki sjens á 4. sætinu. Liðið klúðraði ansi miklu á miðvikudaginn gegn Blackburn!

Ég veit ekki hvort ég á að koma með þessa tölfræði… Eeeeeen, við höfum ekki skorað í síðustu þremur deildarleikjum. Það eru komnar 283 mínútur síðan við skoruðum síðast í deildinni, sem var mark Milan Baros gegn Fulham.

Það verður hreinlega eitthvað að gerast í sókninni á morgun. Everton eru með sterka vörn og helsti ótti minn við þennan leik er að við gerum 0-0 jafntefli, eða töpum 1-0. Ef við náum að skora, þá er ég sannfærður um að við vinnum leikinn.

Ég ætla að enda svartsýnishlutann á þessari tölfræði: Í síðustu tveimur leikjum í deildinni höfum við átt EITT skot á markið. Það er hreinasta hörmung.


Allavegana, miðað við frásögn hans Kristjáns af Blackburn leiknum, þá var Milan Baros ekki beinlínis í heimsklassa í þeim leik. Það er því spurning hvað Benitez gerir. Mun han fara aftur í 4-5-1, sem hefur reynst okkur vel í Evrópu eða halda sig við 4-4-2. Gegn Blackburn spiluðum við 4-4-2 og áttum eitt skot á markið. Gegn Newcastle spiluðum við 4-5-1 og áttum ekkert skot á markið og gegn Birmingham spiluðum við 4-5-1 og gátum ekki rassgat.

Þannig að það er engin einföld, augljós lausn. Það má þó segja að það sé lengra síðan við spiluðum vel í 4-4-2 og auk þess var útáskipting Milan Baros gegn Blackburn hálf skrítin og gefur í skyn að Benitez hafi verið verulega fúll.

Þannig að ég spái 4-5-1 og að Rafa stilli liðinu svona upp:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

Garcia – Gerrard – Biscan – Hamann – Riise

Morientes

Bekkur. Carson, Nunez, Baros, Le Tallec, Pellegrino.

Garcia var [valinn í spænska landsliðið](http://www.liverpool-mad.co.uk/news/loadnews.asp?cid=TMNW&id=212350), sem eru frábærar fréttir og vonandi fagnar hann því með því að spilal vel. Einnig er vonandi að Riise spili einsog hann hefur spilað best í vetur, því Smicer var víst hræðilegur í síðasta leik. Og loks væri það óskandi að Stevie G fengi að njóta sín með þá Biscan og Hamann fyrir aftan sig og að hann gæti skapað færi fyrir Morientes frammi.

En einsog við vitum þá er ómögulegt að spá fyrir hvaða Liverpool lið mætir. Ef góða Liverpool mætir, þá vinnum við þetta Everton lið, því við erum með miklu, miklu betri knattspyrnumenn en Everton. Ég meina, í síðasta leik, þá stillti Everton upp þessu liði: Martyn, Hibbert, Weir, Yobo, Pistone, Carsley, Osman, Cahill, Arteta, Kilbane og Bent. Myndum við vilja skipta á einhverjum þessara leikmanna?

Mitt svar er einfaldlega nei. En ef sama lið og mætti Blackburn, Southampton, Birmingham og Newcastle mætir, þá munum við tapa þessu, því það Liverpool lið er fullkomlega ófært um að skora mörk. Ef við töpum á morgun, þá verður það staðreynd að á þessu tímabili höfum við tapað tvisvar fyrir Man U og tvisvar fyrir Everton. Wayne Rooney hefði þá ástæðu til að brosa, og ekki viljum við sjá hann brosa, ha?

Ef við vinnum þetta ekki á morgun, þá eigum við ekki skilið að vera í Meistaradeildinni á næsta ári. Svo einfalt er það. Þetta lið er búið að fá alltof mörg tækifæri og hefur brugðist okkur aðdáendum alltof oft í ár. Ef liðið mætir á morgun og berst ekki fyrir sigrinum í 90 mínútur, þá eiga þessir leikmenn ekki skilið að spila fyrir uppáhaldsliðið okkar.

**Áfram Liverpool!!!**

7 Comments

  1. Ég ætla ekki að vera “Herra Neikvæður” eða slíkt en ég bara vil vara menn að vera með bjartsýni fyrir leikinn. Ég spái jafntefli eða sigri Everton í þessum leik. Ástæðan? Jú, evróputaktík Herra Benitez er ekki að virka í ensku deildinni þar sem við höfum einfaldlega ekki nógu marga leikmenn sem opna upp varnir andstæðinganna sem venjulegast liggja aftur gegn okkur og láta okkur um að sækja. Ég tel að Everton muni mæta til að verja sitt stig og láta okkur sækja og úr einni skyndisókninni munum við fá á okkur mark. Það verða fjölmörg gul spjöld og ein 2-3 rauð í þessum leik og Steven Gerrard mun fá eitt þeirra.
    Lokatölur: Liverpool 0-1 Everton.

  2. Úff maður verður bara ein taugahrúga af stressi við að lesa þetta! 😉

    En neinei, ég trúi á strákana mína. Þeir standa sig pottþétt á morgun!

    (vona ég…plís elsku góði guð…..?)

  3. Ég væri nú ekkert á móti því að hafa Martyn í staðin fyrir Dudek, Carsley eða Cahill í staðin fyrir Biscan.

  4. “Ef við vinnum þetta ekki á morgun, þá eigum við ekki skilið að vera í Meistaradeildinni á næsta ári. Svo einfalt er það. Þetta lið er búið að fá alltof mörg tækifæri og hefur brugðist okkur aðdáendum alltof oft í ár. Ef liðið mætir á morgun og berst ekki fyrir sigrinum í 90 mínútur, þá eiga þessir leikmenn ekki skilið að spila fyrir uppáhaldsliðið okkar.

    Áfram Liverpool!!!”

    Nákvæmlega eins og talað úr mínu hjarta.

    Ég er þakklátur fyrir alla góðu leikina en ég afber bara ekki meira af þessu þar sem væntingar manns svoleiðis rjúka upp og svo gengur maður um með hauspoka eftir næsta leik….

    Taugakerfið í mér bara þolir þetta ekki… 😯

  5. Þetta er hárrétt hjá ykkur að ef við stöndumst ekki þessa pressu þá eigum við ekki skilið CL sæti að ári.

    Hins vegar ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn. Liverpool liðið á svo mikið inni, það vitum við. Ég spái því að við vinnum þetta 1-0 og kóngurinn í Liverpool borginni klínir einu undir þaknetið eftir hornspyrnu! Þarna er náttúrulega að tala um Mr. Carragher! Hvað væri sætara en að fá 3 gullin stig tryggð frá honum í dag en hann er að mínu mati leikmaður ársins!

    Er að hugsa um að fara að þrífa bílinn og svona um svipað leiti og leikurinn er… :confused:
    YNWA!

  6. Ég er sigurviss og afslappaður fyrir þennan leik… Við vinnum svona 3 til 4 – núll og spilum okkar besta leik á tímabilinu…. hvers vegna? Jú vegna þess að liðið hefur spilað ömurlega í deildinni undanfarið… hefur blómstrað í CL og það hlýtur að fara að smella hjá Rafa og co. Hef trú á því að hann viti hvað hann sé að gera og þessir slöppu leiki hjá LFC séu ákveðinn fórnarkostnaður fyrir mikið og meira…

    S.s. öruggur sigur í dag og styttist í 4. sætið. Reyndar vona ég að þetta verði í síðasta skiptið sem við erum svona spenntir fyrir 4.sætinu því það er algjörlega ósættanlegt að við séum stöðugt í baráttunni um það sæti… Næsta season (aldrei heyrt þetta áður)

    njótið sigursins á eftir…

Juventus (uppfært)

Liðið gegn Everton komið