Úff, þetta stóð tæpt! Eftir einhvern jafnasta og mest spennandi leik tímabilsins (hvað varðar það að naga neglur allavega) þá skoraði Igor Biscan langþráð sigurmark með skalla á 86. mínútu og við unnum dýrmætan sigur gegn Bolton. Við erum núna búnir að taka 7 stig af síðustu 9 mögulegum í deildinni, í þremur leikjum á heimavelli, og erum aðeins einu stigi á eftir Everton sem eiga leik inni gegn W.B.A. á morgun.
Rafa kom mönnum á óvart varðandi uppstillingu liðsins í dag og ákvað að láta Fernando Morientes byrja á bekknum, þrátt fyrir yfirlýsingar um að hann væri orðinn heill fyrir helgi. Þá sýndi hann að mínu mati mikinn kjark með því að gefa þeim John Welsh og Scott Carson sénsa í dag og þeir þökkuðu traustið. Annars var byrjunarliðið svona:
Finnan – Carragher – Pellegrino – Traoré
Núnez – Welsh – Biscan – Riise
Gerrard
García
BEKKUR: Dudek, Hyypiä, Smicer, Le Tallec, Morientes.
Fyrst um markverðina okkar. Hvort Rafa var að gefa Dudek frí eftir mikil ferðalög með landsliðinu sínu eða hvort hann var að taka hann út úr liðinu vegna frammistöðu undanfarið (hefur samt verið að batna í síðustu leikjum) skiptir ekki öllu máli – ég var engu að síður mjög sáttur við að sjá Scott Carson fá séns í liðinu í dag. Að mínu mati stóð hinn ungi Carson sig með miklum ágætum í dag, varði hvað eftir annað vel og stóðst auðveldlega feiknalega pressu Bolton-manna úr föstum leikatriðum. Hann var einfaldlega öryggið uppmálað í dag og miðað við að við héldum hreinu í þessum leik ætti hann alveg að geta gert fullt tilkall til að fá að halda stöðu sinni gegn Juventus á þriðjudag – þó ég eigi von á að Rafa setji Dudek aftur inn í liðið fyrir þann leik.
Hinn nýliðinn í liðinu í dag var John Welsh, sem var að spila sinn fyrsta leik í Úrvalsdeildinni að ég held. Hann barðist vel og sinnti sínu erfiða hlutverki mjög vel fannst mér og komst frá þessum leik með mikilli prýði. Hann tapaði boltanum aldrei, var duglegur í baráttunni gegn miðjumönnum Bolton og dreifði spilinu vel. Þá átti hann eitt gott skot að marki sem var jákvætt, enda nauðsynlegt fyrir svona ungan strák að hafa sjálfstraust til að láta bara vaða (hann er víst með rosalegan fót, skoraði með neglu fyrir U-21s árs lið Englendinga á þriðjudag). Welsh var tekinn útaf þegar einhverjar 20 mínútur voru eftir fyrir Smicer til að auka í sóknina, sem bar árangur á endanum, en það breytir því ekki að hann stóð sig bara feyknavel í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu og var mjög öruggur í sínum aðgerðum.
Á heildina litið var leikur okkar manna ekki upp á marga fiska, sóknarlega séð. Það var náttúrulega enginn framherji í liðinu í dag og það sást vel – þótt García, Gerrard, Núnez og Riise séu allir af vilja gerðir þá hafa þeir einfaldlega ekki það innsæi varðandi staðsetningar og hlaup sem að menn á borð við Morientes hafa. Það sást best þegar Le Tallec kom inná, en hann er vanur að spila framherja og kann að spila þá stöðu, að þá allt í einu var varnarlína Bolton í vandræðum með hlaup innfyrir og svo framvegis.
Engu að síður fannst mér enginn leikmaður okkar eiga slakan leik í dag. Menn börðust vel og gerðu allt sem þeir gátu til að taka öll þrjú stigin í þessum leik. Ef það er eitthvað sem ég myndi vilja setja út á þá væri það skortur á markskotum í þessum leik – en þegar enginn er framherjinn þá er erfitt að opna glufur fyrir skotfæri í vel skipulagðri vörn Bolton-manna.
Vel á minnst, þetta Bolton-lið er miklu, miklu, miklu massífara en nokkurn tímann Everton-liðið. Mér hefur þótt þeir vera með betra lið en Everton og jafnvel við á köflum í vetur og það sást vel í dag. Þetta var einfaldlega hnífjafn leikur, þótt við værum mestallan tímann að pressa og reyna að ná marki áttu þeir fleiri marktilraunir, heilar tólf hornspyrnur og voru meira með boltann. Þetta hefði hæglega getað orðið Bolton-sigur í dag en sem betur fer datt sigurinn okkar meginn, þökk sé einum manni sem ég held að megi að vissu leyti líkja við þögla hetju í Liverpool-liðinu í vetur.
Igor Biscan hefur verið frábær á köflum fyrir okkur í vetur og ég lýg því ekki, ef einhver átti skilið að stela senunni í þessum mikilvæga leik og skora sigurmarkið, ef einhver átti það inni að fá 15 mínútur í sviðsljósinu, þá var það “Big” Igor. Þegar Gerrard og Traoré spiluðu sig upp að endalínu og Djimi sendi boltann fyrir, þá leit maður inní teig og sá bara hvar rauður risi kom aðvífandi. Ég var byrjaður að fagna áður en Igor snerti boltann með hausnum, það var einfaldlega ekki séns að þessi bolti færi neitt annað en í netið, svo ákveðinn var Króatinn stóri. Ég veit ekki með ykkur en ég vona að Igor fái nýjan samning í sumar, finnst frábært að hafa einn svona fyrirmyndar liðsmann sem spilar hvar sem honum er sagt að spila og kvartar aldrei. Hann verður kannski aldrei lykilmaður á Liverpool-miðjunni en ef menn á borð við Xabi Alonso, Steven Gerrard og Dietmar Hamann meiðast er erfitt að hugsa sér betri “varaskeifu” en Igor.
MAÐUR LEIKSINS: Eins og ég sagði hér fyrr fannst mér liðið í heild sinni leika vel og berjast vel, þrátt fyrir að vera að reyna að sækja sigur undir mjög erfiðum kringumstæðum, framherjalausir. En þegar ég lít til baka finnst mér einn maður standa uppúr og eiga skilið að vera maður leiksins.
Steve Finnan var einfaldlega massífur í þessum leik. Til að byrja með þá var hann í þrígang bjargvættur okkar í þessum leik – fyrst varði hann tvisvar á marklínu í fyrri hálfleik og svo endurtók hann leikinn í þeim síðari. Í einu þrjú skiptin sem Bolton-menn náðu að koma boltanum framhjá Carson var Finnan til staðar og sá til þess að við héldum hreinu. Þess utan þá steig sá írski ekki eitt einasta feilspor í dag og var bæði ósigrandi í varnarhlutverkinu og óstöðvandi þegar hann sótti fram á völlinn. Reyndar fannst mér Djimi Traoré spila mjög vel á báða kanta eins og Finnan (þvílíkur munur að hafa tvo bakverði sem geta bæði varist og sótt, skapar alveg nýja vídd í leik liðsins!) en Finnan stóð einfaldlega uppúr í jöfnu og góðu liði í dag.
Á endanum held ég að það geti allir verið sammála um það að þetta var frábær dagur fyrir Liverpool, þótt liðið hafi oft leikið betur. Við mættum einu erfiðasta liði deildarinnar undir mjög erfiðum kringumstæðum og í raun má segja að heppnin hafi loks verið okkur í vil. Þessi leikur hefði getað tapast á hverri stundu en við héldum hreinu og unnum ómetanlegan 1-0 sigur á liði sem er í baráttu við okkur um Evrópusæti. Nú er bara að bíða og vona að Everton tapi a.m.k. tveimur stigum á morgun! 🙂
**Viðbót (Einar Örn):** IGOOOOOR!!!
Já, Igor Biscan reddaði svo sannarlega helginni fyrir okkur. Ég var búinn að bóka jafntefli, en markið frá honum gæti reynst hrikalega dýrmætt. Það hefði verið verulega slappt að missa flugið eftir Everton leikinn og ná bara jafntefli gegn Bolton.
Ég hefði annars viljað velja báða bakverðina okkar menn leiksins í dag. Mér fannst **Djimi Traore** alls ekki síðri en **Steve Finnan**. Traore var sterkur í loftinu og varðist vel. Bolton menn dældu náttúrulega endalausum boltum inná teiginn og var ég virkilega ánægður með það hvað Scott Carson var öruggur í þessum leik. Held að hann sé núna búinn að verja fleiri skot en Chris Kirkland á tímabilinu.
Annars er þetta Bolton auðvitað alveg klárlega betra lið en Everton og þetta er að mínu mati sterkasta liðið í deildinni fyrir utan Liverpool, Man U, Arsenal og Chelsea. Ég var alltaf skíthræddur um að þeir myndu skora úr þessum horn- eða aukaspyrnum.
En semsagt, frábært að ná að vinna þennan leik þrátt fyrir að hafa ekki spilað með neinn framherja og eftir allar þessar breytingar á liðinu. Með 2 menn úr U-21 árs enska landsliðinu, sem höfðu spilað samtals einn úrvalsdeildarleik fyrir Liverpool gegn Bolton, sem var með sitt sterkasta lið.
Núna er bara að vona að þetta verði gott veganesti fyrir Juventus í Meistaradeildinni á þriðjudaginn. Milan gegn Juventus!!! Milan hefur alltaf betur.
Igor átti svo sannarlega skilið sínar 15 mínútur í sviðsljósinu. Hann er okkar maður, engin spurning.
Málið með Dudek gæti líka verið eitthvað tengt páfanum, kallinn er kaþólikki og gott ef mig rámar ekki í viðtal þar sem Dudek sagði að páfinn væri sá maður sem hann vildi hvað helst hitta …
Annars glæsilegur sigur :biggrin2:
Þrír jákvæðir punktar standa uppi eftir þennan leik:
1. Carson byrjar í marki (og vonandi oftar)
2. John Welsh fær langþráð tækifæri (og vonandi fleiri í kjölfarið)
3. Þrjú stigur í hús framherjalausir.
Það hlýtur að lyfta sjálfstraustinu hjá annars hæfileikalausum Igor “greyið” Biscan að skora þetta mark. Engu að síður mark sem borgar upp slatta af launum sem hann hefur þáð í gegnum tíðina hjá okkur. Takk, Igor.
Þú meinar? Að Dudek sé bara þjáður af svefnleysi þar sem hann vaki allar nætur og biðji fyrir Páfanum?
…gæti verið. :blush:
Úff þetta var erfitt en gaman að lokum. Ég var skít hræddur um að missa stig í þessum leik. Ég er sammála því að Finnan c maður leiksins þrátt fyrir að allir á vellinum hafi barist vel.
Flott að sjá Carson standa sig svona vel í sínum fyrsta leik og Welsh líka.
Nú er bara að vona að everton klikki á morgun og ætla ég að vitna í hetjuna mína hann Homer Simpson ” i’m not a religious man, but if you’re up there superman……. ” :laugh:
Þetta var bara svona smá hugdetta hjá okkur í sambandi við Dudek en hann ku víst hafa verið tæpur í náranum eftir landsleikina ….
Homer Simpson:
Now, I?m not normally a praying man but if you?re up there: Please save me Superman!
Sver það, ég nagaði allar 10 neglurnar ofan í kviku í dag!
Mér finnst þessi sigur í dag og á móti everton aðdáunarverðir miðað við mannskapinn sem við höfum úr að velja.
Mér fannst Smicer og Carsson standa sig best í dag.
Ég legg til að Milan Baros fari til sama rakar og Smicer til að sjá hvort hans spil batnar ekki jafnmikið og það hjá Smicer.
Þessi Smicer, sem spilaði fyrir okkur í dag var einfaldlega allt annar maður.
Það vantaði algjörlega sömu baráttu í Liverpool eins og við sáum gegn Everton, þessi leikur var alveg eins mikilvægur og sá leikur. Sem betur fer komumst við upp með það gegn Bolton.
Bolton átti klárlega ekki minna í þessum leik og hefðu rétt eins getað unnið hann. En við náðum að landa þremur stigum sem bætir fyrir fyrri leikinn gegn Bolton þar sem löglegt mark var dæmt af okkur.
Þetta var alls ekki besti leikur Biscan í vetur en gaman að sjá hann skora. Ég myndi vilja sjá framlengingu á hans samningi.
Vantaði baráttu?
Ég er svo aldeilis … við vorum ekki með framherja. Þessi leikur vannst á baráttunni og viljanum einum saman!
Vantaði baráttu? :rolleyes:
Alveg hreint ótrúlegur endir á þvílíkum baráttuleik.
Þetta Bolton lið er náttúrulega klassa ofar en Everton. Þvílíkt skipulagðir og það verður að segjast að þeir unnu miðjuspilið í það minnsta í fyrri hálfleik.
En það er vörnin okkar eins og hún leggur sig sem er hetja dagsins. Að öllum öðrum ólöstuðum stóðu Finnan og Traore upp úr….. alveg hreint frábær leikur hjá þeim báðum.
Ég dansaði stríðsdans þegar stóri syfjulegi Króatinn kom fljúgandi og gjörsamlega höfuðnegldi boltann í netið… í gegnum klofið á varnarmanni og ég er viss um að ef boltinn hefði stoppað á línunni þá hefði Biscan tekið markmann, varnamann og bolta með sér inn í mark, þvílík var einbeitingin… :biggrin2:
Biscan átti svo sannarlega skilið að skora. Mér fannst hann vera að gefa ákveðin skilaboð til Rafa þegar hann beit í peysuna þegar hann var að fagna. Hann er Rauður hermaður fram í fingurgóma og mér finnst erfitt til þess að hugsa að hann sé að fara frá okkur í sumar.
Vissulega barðist Liverpool liðið, eins vængbrotið og það er þessa dagana. En neistinn sem einkenndi liðið gegn Everton var aldrei til staðar í dag og hann vil ég sjá í öllum leikjum!
Það er eitt sem mig langar að minnast á í sambandi við þennan dag en ég er nú varla að þora því svona til að ég skemmileggi það ekki … en það er að Heppnisfaktorinn er allur að færast yfir á rauðu hliðina :blush:
Dæmin í dag :
Ekki nóg með að Finnan hafi bjargað á línu heldur tekur hann líka seinni boltann sem var ekki af léttari kanntinum og hefði hæglega getað skoppað af kollinum inní netið í stað þess að fara svona nett yfir markið þar sem Gardner kom askvaðandi inní Finnan þegar hann skallaði boltann.
SKALLINN HJÁ CARRA !! Sleikti loftið í kringum stöngina og síðan vill ég meina að þessi skutla Carson í því tilviki hafi komið í veg fyrir að Stelios (að mig minnir) næði boltanum þar sem hann þurfti að taka eitt auka “hopp” fram hjá Scott …
Og svo í þriðja lagi ekki nóg með tímann sem Traore fékk til að gefa fyrir heldur KLOBBINN 😉 á Kevin Nolan, allavega feginn að hann sé ekki innskeifur :laugh:
Jú Igor tókst að klobba kallinn í markinu svona bara uppá auka svekkelsi Bolton manna í dag
:biggrin2:
Ég spyr einfaldlega að einu, hversu mörgum leikjum höfum við verið að “klúðra” í vetur út af akkurat svona heppnis …. Vonum að þetta sé komið á okkar band núna, heppnislega séð 🙂
Traore og Finnan voru bestu menn liðsins, ekki spurning, Finnan bjargaði tvisvar á línu og átti mjög góðan leik.
1. Traore
2. Finnan
3. Carson.
Welsh var að í fyrsta skipti í byrjunarliðinu í PL leik. Hann hefur áður komið inná sem varamaður á móti Arsenal fyrir ca. 1 1/2 ári.
Carson átti hræðilegar fyrstu 15. mín og var heppinn að fá ekki á sig sjálfsmark þegar að staðsetningar skilningur hans brást honum og Carra skallaði framhjá markinu. Hann get lítið sem ekkert varist í hornspyrnum eða aukaspyrnum Bolton manna og var hann örugglega feginn því þegar að flautað var til hálfleiks. Seinni hálfleikurinn var mun betri og var minna að gera fyrir hann, en þegar að þörf var á markvörslu þá skilaði hann sínu þokkalega. John Welsh átti fínan leik og barðist vel. Biscan hvarf, eins og venjulega í deildar leikjum, en ákvað að birtast á lokamínútum leiksins til þess að skora vel þegið mark. Finnan var maður leiksins, ekki spurning um það! Þökk sé honum þá fengum við ekki 3 mörk á okkur í upphafi leiks. Traore spilaði líka vel. Því miður þurfti Smicer að koma inná, en sem betur fer er maðurinn að fara frá félaginu, þá getur hann stundað sín svik og pretti annarstaðar.
Óli Þ – ég er sammála þér. Segi sem minnst um það til að skemma ekki fyrir, en við vorum svo sannarlega heppnir í gær. Hefðum getað tapað þessum leik á hverri mínútu en þetta féll sem betur fer okkar megin. En eftir okkar ótrúlegu óheppni í vetur þá dettur mér ekki í hug að fá samviskubit yfir smá heppni. Við eigum miklu meiri heppni inni heldur en þetta! 🙂
Aron – ég er einfaldlega ekki sammála þér með Carson. Hann hafði mest að gera fyrstu 15-20 mínúturnar í leiknum og hann stóð sig ótrúlega vel. Málið er það að Bolton-liðið er það besta í deildinni í föstum leikatriðum og það sást í gær, þeir unnu alla skallabolta og yfirleitt alla ‘seinni boltana’ líka. Það er ekki hægt að ætlast til þess að Carson sé mættur á vítapunktinn, fjærstöng og nærstöng til að grípa boltana … hann gerði vel í að standa sína vakt og verja það sem kom á markið. Í eina skiptið sem hann varði ekki bolta þá bjargaði Finnan málum … tvisvar.
Og varðandi Carragher-skallann þá tók Jamie hann strax á sig, það sást. Ef menn skoða endursýninguna þá stefnir boltinn í áttina að Carson, hann kemur hlaupandi út og gargar að hann eigi boltann. En Carragher panikkar aðeins, skutlar sér á hann og skallar boltann. Og ég sá ekki betur á endursýningunni en að skallinn hans Carra stefndi beint í netið og hefði orðið fyrirtaks sjálfsmark, ef að Carson hefði ekki náð að verja hann og beina honum framhjá stönginni.
Enn og aftur, Kirkland og Dudek hafa verið algjörar taugahrúgur í sínum leikjum í vetur, og í gær þurfti nýliðinn Carson að standast miklu meiri pressu og miklu meira álag en þeir tveir hafa þurft að gera í nokkrum öðrum leik í vetur. Það hefur einfaldlega ekkert lið í vetur náð að pressa okkur eins og Bolton gerðu fyrstu 20 mínúturnar, en strákurinn stóðst það, varði vel, hélt hreinu og virkaði yfirvegaður og öruggur allan tímann.
Svo fannst mér fyndið undir lok leiksins þegar Bolton-menn áttu þrjú skot að marki í röð sem Carson þurfti að verja, að sjá hann standa upp og húðskamma Carragher og Pellegrino. Þá brosti ég, það fannst mér vera móment sem stráksi gæti verið stoltur af. Þeir eru ekki margir 19-ára markverðirnir að spila annan leik sinn fyrir liðið sem myndu þora að þenja raddböndin við Carra 🙂
>Því miður þurfti Smicer að koma inná
Aron, ég er algjörlega ósammála. Smicer fór hreinlega á kostum. Hver einasta snerting hans var vel heppnuð og hann skapaði mikla hættu. Án efa besta innkoma hans í ár. Ég er alls enginn sérstakur aðdáandi Smicer þessa dagana og er nokkuð viss um að hann fer, en ég leyfi mér þó að hrósa honum þegar hann á það skilið.
Og ég er sammála Kristjáni með Carson. Við höfum vanalega verið að fá á okkur mörk í einu hættulegu sókn andstæðinganna á þessu tímabili. Í þessum leik fengu Bolton hins vegar fullt af tækifærum og nánast endalaust af hornspyrnum, en Carson stóðst alla pressuna.
Þið sjáið líka að svæðisdekkningin (sem átti að vera svo hræðileg í byrjun tímabils, en virðist virka veeel núna) gerir það að verkum að ekki er eins mikið treyst á að markvörðurinn fari út í teiginn og nái í boltann. Horfið til dæmis á muninn á Chelsea og Liverpool. Liverpool menn eru með nánast alla menn að dekka svæði á markteig og því lítið pláss fyrir markmanninn að athafna sig. Því er treyst meira á varnarmennina að þeir klári sína vinnu.
Chelsea hins vegar þá dekka þeir menn (eða þeir gerðu það allavegana á móti Southampton) og treysta því að Chech komi út og grípi boltana. Þetta er bara munur á aðferðum og ekki hægt að segja að önnur þeirra virki betur en hin.
En mér líst gríðarlega vel á Carson. Það er allavegana ljóst að hann er að standa sig miklu, miklu betur en Chris Kirkland. Ég spái því að Dudek og Carson verði markmennirnir okkar á næsta ári.