Uppgjör 09/10: Mestu framfarir og bjartasta vonin

Þá er komið að lið númer 3 og 4 í uppgjöri okkar pennanna á Kop.is. Nú er reynt að setja upp jákvæðnis gleraugun og finna þá sem mestar framfarir hafa sýnt á þessu “stórbrotna” tímabili sem var að klárast, og eins að reyna að rýna í hver bjartasti vonarneistinn okkar sé þegar kemur að ungum leikmönnum. Sitt sýnist auðvitað hverjum í þessum málum sem öðrum, en útslitin hjá okkur pennunum voru bara nokkuð afgerandi.


Mestu framfarir

Alls voru 7 leikmenn tilnefndir í þennan flokk, enda voru afar fáir leikmenn liðsins sem sýndu einhverjar framfarir á tímabilinu. Þrjú efstu sætin voru svona:

**3. Alberto Aquilani / Ryan Babel / Emiliano Insúa – 3 stig hver**

Aggi gaf Auilani 2 stig og Einar Örn 1, báðir tilgreindu upprisu Ítalans undir lok tímabilsins sem sína ástæðu. Babú gaf Babel 2 stig og Maggi 1 og það sama var uppi á teningnum hjá þeim, þ.e. breytt viðhorf á seinni hluta tímabilsins. Kristján Atli gaf svo Insúa 3 stigin sín. Ég er nú á því að þriðja sætið í þessum flokki segi afskaplega mikið til um það hversu þunnur þrettándinn var í boði hjá liðinu þegar kom að framförum hjá leikmönnum.

**2. David Ngog – 9 stig**

Kappinn þessi fékk stig hjá öllum pennunum nema Einari Erni, og fékk 3 stig hjá Agga. Það eru allir sammála því að hann er nokkrum númerum of lítill til að fylla í skarð Torres og í rauninni fékk hann of mikla ábyrgð of fljótt. Engu að síður þá sjá menn framfarir hjá honum og mér finnst til að mynda boltamóttaka hjá kappanum vera afar góð. Hann er ungur, en þó ekki á neinum fermingaraldri, og haldi hann áfram að bæta sig, þá gæti hann alveg orðið vel frambærileg varaskeifa á næstu árum. Það sást kannski einna best þegar hann spilaði örfáa leiki með varaliðinu hvað hann var góður þar, var í rauninni í klassa fyrir ofan aðra í því liði (allavega flesta).

**1. Lucas Leiva – 15 stig (af 18 mögulegum)**

Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um þetta val, Lucas sigraði þennan flokk með algjörum yfirburðum. Allir pennarnir með tölu gáfu honum stig, og fjórir af sex settu hann í efsta sætið. Lucas hefur líklegast verið umdeildasti leikmaður Liverpool á tímabilinu, og flestir eru sammála um það að hann og Javier eiga engan veginn heima saman á miðjunni. Lucas hefur þó klárlega tekið miklum framförum og við erum virkilega vel settir með hann sem varaskeifu fyrir Mascherano í framtíðinni. Hann er ennþá ungur, með viljann og baráttuna í lagi og það má alveg sjá glitta í fína tækni og sendingar hjá honum inn á milli. Persónulega finnst mér hann hafa fengið fáránlega mikla gagnrýni á tímabilinu, auðvitað margt sem hægt var að gagnrýna hjá honum, en þetta fór oft á tíðum algjörlega langt fram úr öllu sem getur talist til hófs.

(Aðrir sem fengu stig, Kyrgiakos 2 og Ayala 1)


Bjartasta vonin

Aðeins voru 5 leikmenn sem fengu stig í þessum flokki, og eins og í flokknum fyrir ofan, þá voru úrslitin mjög afgerandi:

**3. Daniel Ayala / Martin Kelly – 5 stig hvor**

Ayala kom mörgum að óvörum og fékk nokkra leiki með aðalliðinu á tímabilinu, þrátt fyrir að vera mjög ungur að árum, sér í lagi þegar verið er að tala um miðvörð. Flestir bjuggust við að San Jose yrði næstur miðvarðanna úr varaliðinu til að koma sér upp í aðalliðið, en það var strax ljóst að meiri trú var á þessum pilti og því San Jose sendur út á láni. Aggi gaf honum 2 stig, en Maggi, SSteinn og Kristján Atli gáfu honum 1 stig hver.

Kelly var ákaflega óheppinn með meiðsli eftir frábæran leik gegn Lyon í Meistaradeildinni. Þetta er líklega sá enski leikmaður sem hefur verið hvað næst því að brjótast almennilega inn í aðalliðið í mörg herrans ár. Stór og sterkur, getur bæði spilað vel sem miðvörður og hægri bakvörður. SSteinn og Kristján Atli gáfu honum 2 stig hvor og Babú henti einu í hann (meiddist reyndar við það).

**2. Emiliano Insúa – 8 stig**

Það er öllum ljóst að hlutverk Insúa varð mun stærra en búst var við fyrir tímabilið. Dossena fór tilbaka með skottið á milli lappanna og Aurelio kom öllum algjörlega í opna skjöldu með því að meiðast síðasta sumar við að gróðursetja fræ í garðinum hjá sér og hélt svo uppteknum hætti í allan vetur. Ábyrgðin var því mikil á Insúa og oft á tíðum fékk hann mikla gagnrýni á sinn leik. Það dylst þó fæstum að stráksi kann að bera boltann upp og á ágætis fyrirgjafir oft á tíðum. Hann þarf að vinna betur í varnarleiknum sínum, en klárlega er þetta efnilegur strákur, hann er ennþá ungur að árum af varnarmanni að vera. Maggi og Aggi settu hann í fyrsta sætið hjá sér og gáfu honum þar með 3 stig, og Einar Örn gaf honum 2 stig.

**1. Daniel Pacheco – 14 stig**

Þessi strákur er ákaflega skemmtilegur og spennandi leikmaður og það kemur því lítið á óvart að hann hafi sigrað þessa kosningu okkar með yfirburðum. Ef stuðningsmenn Liverpool FC á Íslandi geta verið sammála um eitthvað, þá er það líklega að þessi strákur eigi að fá mun fleiri tækifæri með aðalliðinu. En hann er ennþá korn ungur og á framtíðina fyrir sér. Hann minnir mig oft á Luis Garcia, en það er reyndar meira en 10 ára aldursmunur á þeim (þ.e.a.s. þegar þeir spila sinn fyrsta leik fyrir Liverpool). Einar Örn, SSteinn og Kristján Atli gáfu honum allir 3 stig, Maggi og Babú gáfu honum 2 stig og Aggi gaf honum 1 stig. Hann fékk sem sagt stig frá öllum pennum Kop.is.

(Ngog var sá eini þess utan sem fékk stig, en Babú grýtti 3 stigum í hann)

Þá er röðin komin að ykkur lesendur góðir að leggja ykkar mat á þessa flokka og hægt er að ræða hversu gáfulegt/vitlaust þetta val okkar var.

12 Comments

  1. Að Insua skuli komast í annað sætið sýnir e.t.v. hve slæmir valkostir eru til staðar sem “bjartasta vonin”.

    Annars eigið þið hrós skilið fyrir þessar samantektir ykkar þessa daganna Þ=

  2. Já þessi listi segir eiginlega allt sem segja þarf um þetta tímabil. En varðandi stigin til Kyrgiakos að þá skil ég ekki hvernig hann fær stig fyrir framfarir. Mér fannst hann bara góður leikmaður miðað við verð. Hann var aldrei lélegur, og ekki eins og hann sé ungur og upprennandi.
    Hann var bara solid í sínu í vetur.
    Babel fær mitt atkvæði í mestu framfarir, líkt og áður hefur verið nefnt að þá er það hugarfarslega séð. Eftir twitter ævintyrið finnst mér eins og við höfum séð nýjan mann. Hann var farinn að verjast vel til baka, sýna áhuga og verja t.d. liðsfélaga sína (Torres). Vonandi heldur hann áfram á sömu braut.
    Mér finnst ég ekki geta tekið afstöðu til björtustu vonarinnar þar sem ég hef bara lítið séð af þessum leikmönnum svo ég treysti síðuhöldurum fyrir þessu vali.

  3. Takk fyrir pistlana og síðuna,þetta saman mun gera sumarið miklu betra:)

    Sammála þessum samantektum að mestum hluta þó sérstaklega með pacheco,skil bara ekki afhverju hann fékk ekki fleiri mínútur í ár og vonast til að sjá meira af honum á næsta ári (ég hugsa stundum hvort að yngri leikmenn myndu skila meiru með “ákafari” stjóra) og sama með kelly ásamt fleirum.
    Ég hefði sett Glen líka inn sem vonbrigði þ.e fyrir varnarvinnu sína,hann er flottur fram á við og ef ég væri stjóri myndi ég setja hann á kantinn og nota t.d kelly sem bakvörð.
    Annars er ég bara í draumalandinu hér á Kop.is þar sem er hægt að lesa málefnalegar umræður frá þeim sem elska klúbbinn jafn mikið og ég.

    When you walk through a storm
    Hold your head up high
    And don’t be afraid of the dark

    At the end of the storm
    Is a golden sky
    And the sweet silver song of the lark

    Walk on through the wind
    Walk on through the rain
    Though your dreams be tossed and blown

    Walk on walk on with hope in your heart
    And you’ll never walk alone
    You’ll never walk alone

  4. Martin Kelly sýndi þrælgóða takta á móti Lyon og persónulega þá fannst mér það vera það óvæntasta á vertíðinni. Hans taktar í þeim leik gerðu mér eiginlega ljóst hversu fáránleg kaup Johnson voru (þ.e.a.s. miðað við verð). Að vísu held ég að við höfum ekki séð hið rétta andlit Johnsons ennþá.
    Pacheco var að gera fína hluti með varaliðinu en ég sá ekkert frá honum með aðalliðinu svo hægt sé að dæma að vita, nema náttúrulega bringu stoðsendingin á Ngog. Ég hefði viljað sjá Pacheco miklu meira í hópnum og í liðinu á meðan Gerrard, Aquilani og Torres voru meiddir, því þetta er drengur með mun meiri tæknilega getu en t.a.m. Lucas. Hann og Dalla Valle væru löngu komnir sem fastamenn í hópinn ef manager með aðrar áherslur væri við völd.
    Insua var ekki að ráða við þetta stóra hlutverk sem honum var gefið. Lucas var dæmdur allt seasonið því að þetta season var notað grimmt til að koma honum inn í ensku knattspyrnuna og það bitnaði allverulega á sóknarleiknum okkar. Goggurinn var svakaleg vonbrigði líka en það er fyrst og fremst leikstílnum okkar að kenna. Það er bara ekki hægt að ætlast til þess að hann sé einn frammi allann þennan tíma að taka á móti löngu boltunum og eiga svo að klára hlutina upp á sitt einsdæmi. Það var bara til of mikils mælst af stjóranum. Þannig að við höfum heldur ekki séð hversu megnugur Ngog er ennþá. Aquilani hlýtur því titilinn bjartasta vonin í Liverpool treyju og að vera kosinn MOTM af áhorfendum á móti Portsmouth, Fullham, Reading, Atletico og Chelsea, semsagt 5 leikir af 9 byrjuðum. er náttúrulega betri árangur en fólk gerir sér grein fyrir.

  5. Sammála Kidda með Martin Kelly, hann sýndi margt sem lofar góðu þann litla tíma sem hann náði að spila. Hlakka mikið til að fá hann aftur.

    Eins er þetta mögnuð tölfræði með Aquilani, gerði mér engan vegin grein fyrir þessu með 5 MOTM í 9 leikjum inni sem byrjunarliðsmaður…magnað!

  6. mjög sammála ” Kiddi Keagan ” með Aquilani … vona svo sannarlega að hann verði ekki seldur í sumar í einhverri vitleisu því hann á eftir að vera stórkoslegur í holunni sem er sú staða sem hann virkar best í að mínu mati..

    flott samantekt 😉

  7. Úff…. Maður fyllist ekki mikilli bjartsýni ef Insua er næstbjartasta vonin, slakasti vinstri bakvörður af liðum í Evrópusætum í ensku deildinni.

    Hins vegar sé ég ekki hvernig hægt er að gefa Aquilani stig fyrir framfarir, framför þá frá því að vera meiddur eða spila tvær mínútur hér og þar?

    Ætli bjartasta vonin sé ekki Pacheco þó hann hafi ekki skorað enn eða stimplað sig rækilega inn sem má kannski skrifa á fá tækifæri. Maður tekur bara öllum svona “björtum vonum” eins og Pacheco rólega því maður man eftir t.d. Welsh, Partridge, Mellor, frönsku demöntunum o.fl. Held samt áfram að vona.

    Mestu framfarir… Lucas, jú ætli það ekki en sammála um að hann er fínn sem varaskeifa fyrir Mascherano. Hins vegar er afar fátt um framfarir hjá okkar leikmönnum og þeim mun meira um að leikmönnum hafi farið aftur. Babel hefur sýnt afar takmarkaðar framfarir á köflum eins og hans er von og vísa en má samt gefa honum meira kredit fyrir að hafa sýnt “framfarir” eða þroskast andlega.

  8. Vona að það sé í lagi að ég spurji um þetta hérna, en er einhver hérna með sambönd í Rúv eða veit hvort leikirnir á HM í sumar, sem eiga að vera sýnir í Rúv, verða sýndir líka í beinni á ruv.is eins og þegar HM í handbolta var?

  9. Sammála með Pacheco, reyndar eitt af því fáa sem fær mann til að hlakka til næsta vetrar. Ég vona líka að Nemeth komi til baka, væri alveg til í að sjá hvort þeir tveir næðu að blómstra saman eins og þeir gerðu í yngri flokkunum.

  10. Sammála Kidda Keagan ! Vill sjá Pacheco og Dalla Valle í liðinu á næsta tímabili, búinn að fylgjast mikið með þeim tveimur síðustu ár. Einnig sammála um að þeir hefðu fengið fleiri tækifæri undir öðrum stjóra….. 😉

    Áfram LFC !!!

  11. When you walk through a storm Hold your head up high And don’t be afraid of the dark
    At the end of the storm Is a golden sky And the sweet silver song of the lark
    Walk on through the wind Walk on through the rain Though your dreams be tossed and blown
    Walk on walk on with hope in your heart And you’ll never walk alone You’ll never walk alone
    Maður bara næstum tárast….

    Við skulum vona að það sé “golden sky” og “sweet silver song” framundan og hætta að níða hvern annan niður fyrir hin og þessi komment.
    Liðið okkar er að ganga í gegnum storminn en það er okkar að hafa vonina og styðja okkar ástæra lið í gegnum súrt og sætt….og akkúrat núna erum við að tala um gallsúrt!
    En það breytir því nákvæmlega ekki neitt að núna þurfum við að snúa bökum saman “And you’ll never walk alone” ….ef þú ert Liverpool!

    Sammála?

Uppgjör 09/10: Mestu vonbrigðin

Uppgjör 09/10: Leikur ársins og mark ársins