Roy Hodgson

Nú þegar staðfest hefur verið að 63ja ára Englendingur, Roy Hodgson, verður tólfti framkvæmdastjóri okkar ástkæra klúbbs frá síðari heimsstyrjöld er ekki úr vegi að reyna að velta aðeins fyrir sér hvaða áherslur karl hefur og hvað við megum búast við.

Á mörgum vefmiðlum hefur verið farið yfir heimshornaflakk hans sem stjóri, hér er m.a. ágætis yfirlit frá Sky um það.

Þjálfarinn Roy

Upphaf ferilsins

Ég hef núna síðustu daga leitað til manna sem hafa töluvert fylgst með störfum Hodgson, allt frá því hann fór til Svíþjóðar 1976 og til síðustu ára og reynt að átta mig meira á honum sem þjálfara og karakter.

Roy Hodgson er goðsögn í Svíþjóð. Hann kom til Svíþjóðar 1976 og tók við liði Halmstad, sem spáð var falli. Sænskur fótbolti var þarna í miklum tengslum við suðrænan fótbolta, liðin spiluðu með sweeper og þriggja/fimm manna vörn sem beitti „man marking“.

Roy gerði á þessu breytingar, spilaði strax leikkerfið 442 og beitti svæðisvörn. Það var beinlínis hlegið að þessum breytingum hans í upphafi, en árangurinn kom í ljós heldur betur þegar Halmstad urðu meistarar! Þeim árangri hefur Hodgson oft lýst sem þeim besta sem hann hefur náð sem þjálfari.

Á næstu árum var Halmstad í toppbaráttunni í Svíþjóð og oft í baráttu við lið eins besta vinar hans, Bob Houghton sem á þessum tíma þjálfaði Malmö FF (sem m.a. komst í úrslitaleik European Cup 1979) og einnig stillti upp 442 leikkerfi með svæðisvörn. Þeir félagar voru í upphafi kallaðir „óvinir knattspyrnunnar“ hjá sænskum en í dag telja Svíar þá félaga hafa breytt sænskri knattspyrnu varanlega og áherslur þeirra séu enn þann dag í dag lykilþættir í sænskum fótbolta.

Leikkerfi og áherslur

Roy Hodgson hefur allan sinn þjálfaraferil haldið tryggð við leikkerfið og í raun þær grunnáherslur sem hann lagði hjá Halmstad.

Hann stillir vanalega upp 4-4-2 leikkerfi, þar sem 8 – 10 metrar eiga að liggja milli lína (þ.e. milli varnar-, miðju- og sóknarlínu). Allir leikmenn eiga ákveðin hlutverk varnarlega, varnarleikurinn hefst hjá fremstu mönnum sem eiga að loka á bakverði andstæðingsins og vera fljótir að vinna sig inn í sína varnarlínu.

Liðin hans eru vanalega sett upp á þennan hátt:

Fjögurra manna varnarlína þar sem aginn ríkir. Bakverðir eru varnarmenn en „overlappa“ ef tækifæri gefast. Leggur þó mikið upp úr því að ef þeir tapa bolta sé kantmaður til í svæðisdekkunina og bakvörðurinn vinni hratt til baka.

Á miðjunni spilar hann með djúpan miðjumann með litla sóknarskyldu og aggressívan miðjumann sem stýrir sóknarleiknum. Á köntunum eru svo vængmenn upp á gamla mátann, leikmenn sem vinna sig á bakvið varnir til að krossa boltann.

Frammi hefur svo Hodgson verið með tvo sentera, hann vill hafa „litli – stóri“ skiptingu þar sem mögulegt er með þeim áherslum sem því fylgir, sá litli hlaupi undir þann stóra og éti af honum. Í seinni tíð er kannski frekar hægt að tala um ákveðin hlutverk hvors um sig frekar en hæð og þyngd, þar sem um er að ræða líkamlega sterkan senter með fljótum og teknískum.

Gegnumgangandi í gegnum liðið eru „pör“ leikmanna, hafsentapar, bakverður og vængmaður hvors kants eru par, miðjumannapar og senterapar.

Þessi uppstilling er auðvitað „klassísk“, við getum t.d. rifjað upp gullöldina okkar og þá erum við komin með nákvæmlega svona lið. Þetta hefur leitt til þess að talað hefur verið um að Roy sé af „gamla skólanum“ (ég m.a. talaði um það í athugasemd nýlega) en það pirrar hann mjög mikið. Áður hef ég bent á sænsku byltinguna sem hann átti stóran þátt í en áherslur hans, sérstaklega í varnarleiknum, hafa stöðugt vera að þróast og hann hefur þróað pressuvörn þessa leikkerfis mikið, sem best sást í árangri Fulham í Evrópu í vetur, þar kom hann stórum liðum á óvart með öflugri pressu.

Stebbi kom með frábæran link í athugasemdakerfinu á kop.is þegar tilkynnt var um ráðningu Hodgson sem lýsir mjög vel hvernig hann stillir kerfinu upp, kíkið á það hér.

Varnarlína hans hefur vanalega verið frekar aftarlega á útivöllum, en ýtt ofar á heimavöllum. Hann krefst gífurlegs aga í leikskipulaginu og æfingarnar hans snúast um uppstillingu liðsins og varnir gegn ólíkum aðstæðum sem upp koma í leiknum og hvernig á að sækja upp úr þeim.

Á æfingavellinum

Hann er „æfingavallarstjóri“, líður vel í stuttbuxunum og tekur virkan þátt í æfingum. Hann er ekki mikið fyrir að teikna upp skipulag á blað, heldur stillir upp 11 á móti 11 á æfingum og vinnur taktíkvinnuna á vellinum sjálfum.

Skuggahlaup eru stór þáttur æfinganna, það eru boltalausar æfingar þar sem mönnum er stillt upp út frá því hvar á vellinum boltinn er hjá andstæðingnum, hvernig hann vinnst og hvernig á að sækja þaðan frá (shape-æfingar). Annað sem hann leggur gríðarlega mikið uppúr er að halda bolta innan liðs. Það fer langur tími í það á æfingasvæðum hjá liðum hans, uppáhaldsæfingin þegar hópnum er skipt upp í þrjú lið þar sem tvö þeirra halda boltanum gegn því eina sem á að ná honum.

Leikmenn sem hafa verið hjá honum hafa lýst vikum og mánuðum þar sem þessar æfingar réðu ríkjum bara út í eitt, sem mörgum fannst hundleiðinlegt á æfingasvæðinu en sáu svo í leikjum hversu árangursríkar það var og sættu sig vel við æfingarnar vegna þess.

Hér er t.d. tilvitnun í Simon Davies, leikmann Fulham, um karlinn og æfingarnar:

“Every day is geared towards team shape – and it shows. We would have a little laugh about it now and again, but when he came to Fulham we were fighting relegation.

His management style took us to a Europa League final, so you take it. I don’t want to give any secrets away, but he gets the 11 that he wants for a match and drills everything in that he wants.

It’s defensive drills and certain attacking drills – with no diagrams. It’s all on the pitch with the ball.”

Leikgreiningarstörf og leiðsögn

Roy hefur um langt skeið unnið leikgreiningarstörf í tækninefnd UEFA. Sú nefnd leikgreinir alla leiki úrslitakeppna EM og gefur út skýrslur um leikstíla, nýjungar og breytingar í knattspyrnunni. Hann var valinn sem einn af fulltrúum UEFA til að leikgreina leiki í lokakeppni HM í Þýskalandi 2006 og hefur reglulega verið leikgreinandi fyrir sjónvarpsstöðvar í þeim löndum sem hann hefur unnið í.

Á þessum árum hefur hann verið í miklum samböndum við þekktustu þjálfara heims og álit á honum er gríðarlegt innan þjálfaraheimsins. Hann hefur verið reglulegur fyrirlesari á þjálfararáðstefnum og þar hefur hann ávallt haldið uppi sýn mikilvægi nákvæmra vinnubragða, mikilvægi aga og einfaldleikans. Hann þreytist aldrei á að segja frá könnun sem gerð var í tengslum við einhverja lokakeppnina þar sem að kom fram að helstu þjálfarar Evrópu nýta á bilinu 8 – 9 æfingar í þjálfuninni sem sínar aðalæfingar. Vissulega með tilfærslum í áherslum, en sömu æfingarnar samt!

Hodgson vill því leikmenn sem hlíta aga og fylgja skipulagi. Fulhamliðið hefur síðustu tvö ár verið það lið sem fæst spjöld hefur fengið í ensku deildinni og hann hikar ekki við að skipta leikmönnum út sem eru á gulu spjaldi ef þeir eru komnir á hálan ís. „Eitt af lykilatriðunum í fótbolta er að halda skipulagi“ segir hann oft og þar skiptir auðvitað mestu að halda 11 leikmönnum inni á vellinum!

Agi og man-management

Aginn smitast út frá Hodgson sjálfum. Hann fékk viðurnefnið „nicest man in football“ í Svíþjóð og það hefur haldist við hann síðan. Hann er ákaflega yfirvegaður og ekki skiptir það máli við hvern hann talar, hvort sem það var Paul Ince eða 17 ára Svíi, hann er góðmennskan uppmáluð og stendur við bakið á sínum mönnum. Hann er afar yfirvegaður á hliðarlínunni, telur vinnuna 95% fara fram á æfingavellinum og í uppleggi leikjanna, hann stendur ekki svo glatt og veifar inn skipanir, eða fagnar mörkum af miklum móð. Í hálfleik koma yfirvegaðar útskýringar og ræður um þær áherslur sem eru í gangi, ef þarf að laga þær þá er það gert rólega og án hávaða. Sumir vilja meina að hann hafi aldrei reiðst í klefanum, þó það auðvitað sé nú ekki líklegt.

Hann hefur tilhneigingu til að treysta leikmönnum í langan tíma, leyfir þeim að spila í aðalliði í gegnum erfið tímabil hjá þeim og það hefur valdið vinsældum hjá þeim sem hann treystir, en pirrað þá sem sitja utan aðalliðs þegar illa gengur. Það hefur verið talið ein aðalástæða þess að hann var rekinn frá Blackburn og Udinese á sínum tíma, „dressing room unrest“ í kjölfar þess að margir þeirra sem ekki voru að spila grófu undan honum. En það auðvitað virkar líka afar vel á öðrum tímum, Fulham t.d. átti erfitt lengi í deildinni en leikmennirnir sem hann treysti fóru langt í Europa League út á skipulagið hans og gjörþekkingu á því hvers var af þeim krafist.

Þetta hefur þýtt það að Hodgson hefur yfirleitt ekki verið með stóran hóp leikmanna. Breiddin hjá Fulham var t.d. afar lítil, það sást í þeim leikjum þar sem aðalleikmennirnir voru hvíldir vegna Evrópudeildarinnar. Auðvitað er verið að tala um lítið lið, en það sama var uppi á tengingum hjá Blackburn þegar hann var þar og þeir voru eitt toppliðanna í Englandi, meiðsli haustið 1997 þýddu slæm úrslit sem lítilli breidd var kennt um.

Leikmannakaup

Hodgson hefur vanalega sótt mikið inn á þann leikmannamarkað sem hann þekkir þegar kemur að því að kaupa leikmenn. Hjá Blackburn Rovers voru það Bohinen, Gudmundson og Henchoz, hjá Fulham hefur hann sótt Hangeland, Riise og Nevland til Skandinavíu, Zuberbühler til Sviss og Duff sem hann þekkti frá Blackburn. Hann hefur auðvitað búið lengi í Skandinavíu og hefur lýst því að hann kunni afar vel við „skandinavíska mentalitetið“, sem auðvitað hefur í gegnum tíðina verið lýst sem samfélagi vinnusemi, samkenndar og aga. Lykilþættir í hugsjón Hodgson.

Að lokum

Ég hef legið í netgreinum og öllu mögulegu um karlinn undanfarna daga. Mikið af því sem hér er að ofan kemur eftir samskipti mín við félaga minn Kristján Guðmundsson, þjálfara HB í Færeyjum, sem hefur fylgst lengi með sænskum fótbolta og mönnum tengdum honum. Að auki er hann varaformaður í Knattspyrnuþjálfarafélagi Íslands, á síðu félagsins er m.a. að finna þetta sem er yfirlit erindis sem Hodgson hélt á þjálfararáðstefnu í Porto 1994 og lýsir ágætlega lykilþáttum hans í þjálfuninni.

Kristján er „þjálfunarnörd“ sem liggur yfir þjálfurum, þeirra stíl, æfingum og áherslum. Hann bjó í Malmö 1986 og 1989 og fylgdist náið með Malmö FF þá, þjálfaði þar síðar og fór m.a. í heimsókn sem þjálfari unglingaliðs MFF til Internazionale þegar Roy stjórnaði þar.

Leyfi mér að vitna í tölvupóst sem hann sendi mér þegar ég bað hann um að gefa mér hlutlægt mat á Hodgson. Kristján er alls ekki stuðningsmaður okkar liðs, við skulum átta okkur á því…

Royson (var kallaður það í Svíþjóð) er minn maður, var afar þægilegur í umgengni, hann gaf mér persónulega Inter húfu sem ég á ennþá og sagði öllum að Roy hefði gefið mér, enginn trúði því á Íslandi auðvitað! Ég man það mjög vel að þegar við fórum af stað til Milano þarna um árið hversu vel stjórnarmenn MFF töluðu um hann. Hef alltaf fylgst með honum síðan, vona að Liverpool lendi allavega í öðru sæti á næsta ári…..

Ég fékk svo í gegnum Kristján gott „quote“ frá Svía, sem var lykilmaður með Malmö FF milli 1985 og 1989 og hefur átt mikil samskipti við Hodgson síðar sem þjálfari og forráðamaður sænskra liða.

Þegar sá var spurður í dag við hverju ætti að búast af Hodgson hjá Liverpool svaraði hann:

„Jag upplever Roy som en riktigt stor gentleman. Otroligt noggrann i allt han gör. Har förmågan att alltid få alla att göra sitt bästa.”

Í snarþýðingu:

“Ég upplifi Roy sem alvöru herramann. Ótrúlega nákvæmur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann hefur þann eiginleika að fá alltaf alla í kringum sig til að gera sitt besta“.

Það á eftir að koma í ljós hvað verður, ef þetta er það sem við megum reikna með af karli, þýðir það ákveðnar stefnubreytingar sem kalla á breytingar í leikmannahópi og uppleggi. Ég er algerlega sammála þeirri stefnu félagsins að með brotthvarfi Rafa þurfti það að verða og mikið vona ég að réttur maður hafi verið valinn til starfsins.

Áfram Liverpool og Roy Hodgson!

46 Comments

  1. Velkominn Roy, ég mun styðja þig 100% þó að ég hafi haft efasemdir um þig til að byrja með. Ég vona að þú eyðir þeim efasemdum með verkum þínum.

    Í viðtalinu við opinberu síðuna er Roy mjög “pro” segir allt það rétta á réttum stöðum. Það eina sem ég hef áhyggjur af er eftirfarandi. Þegar hann var spurður af því hvort hann hefði rætt við eigundurna um ” the transfer budget,” svaraði hann. “No, not as such. One thing they made clear to me is we have to work within whatever restraints are in place at the club, but they’ve also made clear that if we were unfortunate to lose somebody then that money would be made available.”

    Það eina sem hægt er að lesa úr þessu viðtali, ef eitthvað, er að það verða engir peningar í boði nema með sölu leikmanna.

    Áfram Liverpool

  2. Við skulum vona að þetta sé ekki of mikið verk fyrir hann, óttast að hann ráði ekki við stórstjörnurnar hjá okkar góða klúbbi.
    Annars sá ég þessa frétt á fótbolti.net

  3. Eins og ég kom inn á áður, alveg þræl keppnis pistill hjá þér Maggi.

    Kall með 4-4-2, vill keyra upp kantana og senda fyrir á tvo sóknarmenn, er af gamla skólanum, þetta getur ekki klikkað 🙂

  4. Frábær pistill, það er bara eins og hann hafi búið í sama húsi og ég allt mitt líf.

    En já mér er bara farið að lýtast betur og betur á kallinn, og ef hann er eins og þessi lýsing gefur til kynna þá lýst mér bara mjög vel á hann!

    En velkomin til Besta klúbb heims Roy!

  5. Þá er komið á hreint af hverju menn vildu losna við Rafael Benitez. Það var til að fá Roy Hodgson.

    Til hamingju með þennan frábæra árangur.

  6. Takk Maggi fyrir þennan yfirgripsmikla pistil.

    Kannski er meira spunnið í kallinn en margir halda. Held þó að þetta velti mikið á því hvort að einhverjir leikmenn ætli sér að dara í dúkkuleik og leika prímadonnur. Vona að leikmenn fylki sér bakvið hann og allir vinni saman að ná árangri á næsta tímabili. Þetta er jú hópíþrótt en ekki dramakeppni.

  7. Góð úttekt á manninum, takk fyrir það.

    Málið er samt að það væri sennilega hægt að gera sveran disaster-pistill fyrir hann líka. Ég ætla setja punkt við neikvæðni í þessum málum og vera bjartsýnn á þetta (a.m.k. fram að fyrsta leik) enda er 4-4-2 leikkerfið kærkomin breyting. Hann er að margra sögn hinn ljúfasti maður og það hefur vonandi góð áhrif á leikmennina, kannski sérstaklega á þá yngri.

  8. Frábær umfjöllun með mörgum góðum punktum.

    Mér líst alltaf betur á Royson því meir sem ég les (var mjög skeptískur í byrjun). Að slá út The Old Lady með Fulham ásamt wolfsburg og Udinese hlýtur að segja eitthvað. Ég er ekki sannfærður að leikkerfið breytist mikið því hann talar líka um framherja fyrir aftan striker (Gerrard) en með nýjum þjálfara koma nýjar áherlsur. Það er klárt.

    Það er nú samt eitt mál sem hefur verið að angra mig nokkuð sl. daga og þar sem þessi ráðning er staðfest vil ég kasta því í loftið:

    Er ekki nokkuð einkennilegt að reka þjálfara og ráða nýjan (sem virðist hafa verið fyrirfram ákveðið hver væri) í miðju söluferli á félaginu?

    Og að Benítez sé ráðinn til Inter 24 tímum eftir brotthvarf?

    Er ekki erfiðara að finna nýjan stjóra þegar óvissa ríkir um eignarhald? Til að mynda voru tímabundnir bankastjórar ráðnir þar til eignarhald bankanna varð ljóst. Nýjir eigendur/kröfuhafar réðu svo nýjan bankastjóra (ekki svo fjarlægur samanburður að mínu mati)

    Ef mér stæði til boða að kaupa félag á borð við LFC þá er alveg klárt mál að ég myndi vilja fá að stýra þessu ferli!

    Það læðist að mér sá grunur að söluferlið sé komið mun lengra á veg komið.

  9. Það er mikið gott að vera búinn að koma þessum málum á hreint og nú geta menn farið að snúa sér að undirbúningi fyrir næsta tímabil…. Ég er sáttur við að fá þennan mann í brúnna og ég er viss um að hann á eftir að gera góða hluti… Samkvæmt heimildum í Englandi er Gerrard himinlifandi yfir að Roy skuli vera orðin stjóri og nú eru stjórnendur Liverpool búnir að gefa út að Gerrard, Torres og Msckerano verði ekki seldir og er það ekki bara það sem allir vildu… Eflaust vildu einhverjir fá annan stjóra og ég vildi sjálfur helst fá Daglish en ég er mjög sáttur við þetta og er viss um að þetta á bara eftir að vera upp á við… Gaman að geta þess að við unnum aldrei deildina meðan við vorum með Calsberg sem styrktaraðila og eigum við ekki bara að segja að þetta verði okkar tímabil núna….

    Áfram Liverpool

  10. Frábær samantekt, full af djúpu innsæi.

    Já…

    Ég hef verið ansi svartsýnn upp á síðkastið, ekki vegna þess að Roy Hodgson sé lélegur stjóri heldur vegna alls hins sem er í gangi. Ég hef ekki fulla trú á því að hann fái mikið af aurum og að hann verði neyddur til að selja bestu mennina.

    En hann er góður kandídat í þetta sem við erum að ganga í gegnum núna og ég vona innilega að Royson nái því mesta sem hægt verður út úr því sem hann hefur. Ég á ekki von á því að hann verði þjálfari í mörg ár en styð hann heils hugar meðan hann sinnir starfi framkvæmdastjóra Liverpool. Nú þarf að fara að vinna í öllu hinu, koma mönnum í stand, styrkja hópinn og slíkt. Við sjáum það fljótlega hvernig þetta verður, hvort menn fari að tínast út, hverslags leikmenn koma og slíkt. Best að bíða í nokkra mánuði með að dæma þetta…

  11. Líst vel á kallin og vona að hann eigi eftir að rífa okkur upp úr lægðinni!

    En kemst ekki hjá því að sjá hversu líkur Benitez hann er….

    hann stendur ekki svo glatt og veifar inn skipanir, eða fagnar mörkum af miklum móð. Í hálfleik koma yfirvegaðar útskýringar og ræður um þær áherslur sem eru í gangi, ef þarf að laga þær þá er það gert rólega og án hávaða.

    Nákvæmlega það sem Benni var hengdur fyrir vantaði allt “motivation” menn hund óánægðir að hann fagnaði ekki mörkum eða sýndi smá “lit”

    Hann hefur tilhneigingu til að treysta leikmönnum í langan tíma, leyfir þeim að spila í aðalliði í gegnum erfið tímabil hjá þeim og það hefur valdið vinsældum hjá þeim sem hann treystir, en pirrað þá sem sitja utan aðalliðs þegar illa gengur. Það hefur verið talið ein aðalástæða þess að hann var rekinn frá Blackburn og Udinese á sínum tíma, „dressing room unrest“ í kjölfar þess að margir þeirra sem ekki voru að spila grófu undan honum. En það auðvitað virkar líka afar vel á öðrum tímum, Fulham t.d. átti erfitt lengi í deildinni en leikmennirnir sem hann treysti fóru langt í Europa League út á skipulagið hans og gjörþekkingu á því hvers var af þeim krafist.

    Kuyt anybody? Lucas?
    Benni var ekki að meika það í deildinni en var frábær í meistaradeildinni til dæmis 2005…

    frábær pistill btw

  12. flottur pistill.

    Núna er bara bíða og sjá hvað býr í Royson. Ég ætla vera bjartsýnn og segja þetta verði gott season. Er alveg til í að hirða norska varnartröllið Hangeland með honum frá Fulham.

  13. Frábær pistill, sá besti sem ég hef lesið á þessari síðu.

    Þessi ráðning á eftir að vera til mikillar gæfu.

  14. Takk fyrir góðan pistil og eins og fleiri nefna þá vinnur hann á en vinnur hann titil?? vonandi

  15. Algjör snilldarlesning, takk fyrir góðan pistil.

    Manni líst ágætlega á Hodgson, þetta er nokkuð “safe” ráðning og hann ætti að minnsta kosti að geta gefið okkur gott Europa League season.

    Maður hefur samt spurt sig undanfarið hvaða þjálfari gæti mögulega haft áhuga á að koma inní þennan Liverpool-sirkus? Er Hodgson slétt sama þó hann fái litla sem enga peninga í nýja leikmenn og H&G bræðurnir verði áfram á kantinum að henda snittum í landakort, eða er e.t.v. salan á klúbbnum komin það langt að hann var fús til að taka við liðinu – þar sem það eru bjartari tímar framundan varðandi eignarhald?

    Ég allavega vona að það síðarnefnda sé nærri lagi!

  16. “Hjá Blackburn Rovers voru það Bohinen, Gudmundson og Henchoz”
    Hver er Guðmundson?

    “Frammi hefur svo Hodgson verið með tvo sentera, hann vill hafa „litli – stóri“ skiptingu þar sem mögulegt er með þeim áherslum sem því fylgir, sá litli hlaupi undir þann stóra og éti af honum”
    Ég var farinn að hugsa um eitthvað allt annað en fótbolta þarna. Kannski bara ég.

  17. Ég veit ekki afhverju en miðað við þessa grein (sem er frábær) þá er ég nokkuð sáttur við að fá Hodgson kallinn (fyrir utan hversu óþjált það er að segja Hodgson).
    Að spila 4-4-2 gleður mig þar sem leikkerfi með einum sóknarmannai hafa pirrað mig mjög mikið eftir að Mourinho kom því í tísku. Það virðist gleymast að hann hafði Robben og Duff með Drogba á toppnum með sér en ekki Kuyt og Riera með Voronin (í sumum tilfellum) á toppnum.
    EFtir að hafa lesið viðtöl við kallinn, umsagnir annara leikmanna og lesið greinar um hann er ég viss um að hann eigi eftir að gera góða hluti.

    Hann er reynslumikill enskur stjóri sem nær miklu úr því sem hann hefur að moða og spilar nokkuð góðan bolta. Hann lifir sig inn í leikinn og er virtur af leikmönnum og kollegum hans. Ég vill spá því hér og núað hann muni ná 3. sætinu á næstu leiktíð og þar af leiðandi í meistaradeildina og að hann muni í þetta skiptið klára úrslitaleikinn í Europa League með stæl og ná í undanúrslit í FA cup.

    En hvernig er þetta. Átti ekki Milan Jovanovic að hafa komið til LFC í dag?

    Áfram Roy! YNWA

  18. Ég er búinn að ákveða það að Roy Hodgson þurfi að gera eitt til maður sé sáttur við hann. Það er að honum takist að gera Liverpool að enskum deildarmeistara. Fyrr verð ég ekki sáttur við þessa ömurlegu ráðningu.

    Enga helvítis miskunn, Liverpool er best og á heima á toppi deildarinnar. Ef hann endar ekki í fyrsta sæti í maí 2011 þá getur tekið pokann sinn og ef titilinn er úti í desember þá skal reka helvítið.

  19. Flottur pistill,takk.
    Allir verða að fá séns og hann fær allan minn stuðning af þeirri einföldu ástæðu að ég elska Liverpool og ég styð það sama hvað.
    Held að hann muni öðlast virðingu leikmanna sem lýsir sér í orðum fyrirliðans okkar að hann sé sá rétti.
    YNWA

  20. Þessi pistill/grein er það besta sem ég hef lesið á þessari síðu og hef engu við að bæta. Meira af þessu og minn af neikvæðni takk.

  21. Það er algjör óþarfi að vera með væntingar en samkvæmt fréttum þá fær hann 15,mill í kaup plús það sem hann selur.
    Vonandi selur hann Benayoun og Mascherano fyrir 30.mill og þá þá er hægt að láta sig dreyma um senter með Torres…

  22. Takk fyrir frábæra grein. Kop.is er náttúrulega bara besta fótboltasíða sem til er! Það þyrfti að vera til sjálfvirkur þýðari yfir á ensku svo hægt væri að halda þessari síðu út á ensku líka. Með þessa úrvalspenna sem skrifa á Kop.is þá yrði þessi síða stór… stór… stór mjög fljótt.

    Mér líst orðið betur á karlinn eftir þessa grein. Fjandakornið… ég er orðinn spenntur. Grefillinn… og ég sem ætlaði að vera ekkert spenntur fyrir þessa leiktíð!!

    YNWA

  23. Flottur pistill hjá þér Maggi, mér lýst vel á að hann fari að spila á færri en betri leikmönnum. Ég var kominn með nett leið á rotation-kerfinu hans Rafa.

  24. Það sem maður er enn að jafna sig á þessari ráðningu þá hef ég komist
    að þeirri niðurstöðu að vera meðvirkur mönnum hér að ofan. Fara með æðruleysisbænina og vona að við komumst í gegnum þennan stórsjó án þess að skútan sökkvi niður í fyrstu deildina.

  25. Já sennilega besti pistill sem ég hef lesið um Royson og ég er sammála flestum hér að maður verður bjartsýnni eftir því sem maður kynnir sér málið betur.

    Eitt sem mér finnst frekar fyndið er að menn hér eru að tala um hann sé svo gamall en voru menn ekki að biðja um Capello, Hiddink, Hitzfeld, Erikson? þeir eru allir komnir yfir 60, Capello og Hiddink eru eldri en Royson.

    Það sem Gummi 19# segir er áhugaverður punktur en maður hefur lesið það á erlendum spjall síðum að salan sé nú þegar genginn í garð og verði tilkynnt eftir 19 júlí. En maður veit ekki hvað er satt þar. Það hafa verið að koma jákvæðar fréttir frá klúbbnum í þessari viku. Þannig að brúnin á manni er farin að lyftast

  26. Ég á bara eitt orð yfir ykkur drengir og það er HÖFÐINGJAR. Takk fyrir þennan pistil sem að var frábær og eins alla hina sem hafa gefið manni góða innsýn í hlutina.

    Mér finnst þessi síða alveg mögnuð og að venju skemmtilegar og fjölbreyttar umræður sem að gefa lífinu lit. Auðvitað erum við ekki öll sammála enda á það ekki að vera þannig og verður aldrei. Misjafnar skoðanir eru einhvað sem að gefa lífinu lit og krydda umræðuna og það er auðvitað það sem gerir þessa síðu svo skemmtilega.

    Eitt sem stingur í augun við skrif sumra hér inni er virkilega slæmt orðaval. Ættu menn að virða þá frábæru vinnu sem að síðunni standa og vanda málfar sitt….

    Mín stæðsta ósk í stöðunni í dag er að það komist ró á og menn fái vinnufrið. Ég hef góða trú á að svo verði og RH komi með sitt dagfarsprúða fars, stappi trúnni og nenninu í leikmenn og ekki síður OKKUR stuðningsmennina 🙂
    Nú er tíminn runninn upp að við sameinumst í jákvæðri umræðu og tölum liðið okkar UPP ekki NIÐUR.
    AMEN…..

    Með vinsemd og virðingu/ 3XG

  27. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæran og upplýsandi pistil Maggi. Það sígur að manni von og öryggi sem ekki hefur verið fyrir hendi síðan ég veit ekki hvenær. Einhvernveginn finnst mér að nú sé botninum náð og við séum lagðir af stað upp aflíðandi brekku velgengni og hamingju.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  28. Frábært að fá þennan pistil. Mjög upplýsandi og vandaður. Ég held að Hodgson gæti vel verið það sem við þurfum núna. Hef nokkuð góða tilfinningu fyrir þessu.

  29. off topic… miðað við að Yaya Toure kostar 28 milljónir punda þá hlýtur Mascherano, sem gegnir svipuðu hlutverki og er mun fremri á því sviði, að kosta amk 35-40 milljónir punda

  30. Stórkoslegur pistill… ekki laust við að maður verði slatta bjartsýnni á þetta eftir þennan lestur , en munum líka að þessi afrekaskrá sem talinn er upp spannar nett 34 ár!! það er slatta tími og gaman væri að sjá svona einhverskonar pistil um það sem miður hefur farið hjá honum. .. en aftur á móti held ég að þetta standi og falli með því hvernig honum tekst til að vinna klefan og tjóðra þessar prímadonnur okkar 😉 hann gæti gert sórkoslega hluti ef leikmennirnir vilja vinna eftir einu og öllu sem hann segir en þetta verður hörmung ef þeir hafa ekki blinda trú á honum..

    en nú er komið lítið ljós við endan á sumrinu .. þetta gæti orðið stórgott tímabil 🙂

  31. Auðvitað er þetta ekki maðurinn sem maður hefði sett fyrstan á blað frekar en flestir aðrir en maður veit svo sem ekki alltof mikið um hann og verður bara að vona það besta. Las samt viðtal við hann í morgun þar sem hann segir að það verði ekki auðvelt að halda Gerrard og Torres en hann muni reyna allt sem hann getur til að halda þeim.

    Við munum berjast með kjafti og klóm að halda okkar bestu leikmönnum, hvort það eru Steven, Fernando, Mascherano eða hver sem er,” sagði Hodgson við enska fjölmiðla.

    „En ég get ekki þvingað þá til að vera áfram. Ég gat bara reynt að sannfæra þá um að ef þeir verða áfram hér þá munum við eiga gott tímabil framundan og að það sé enn frábært að fá að spila fyrir félag eins og Liverpool.”

    „En það þarf að gera meira fyrir Steven en að lofa hinu og þessu. Hann verður að sjá í verki að félagið ætli sér að fá leikmenn í hans gæðaflokki honum við hlið í liðinu.”

    Bíddu getur hann ekki þvingað þá til að vera áfram? eru þessir menn ekki samningsbundnir??’ Svo bætir hann við að Gerrard verði að sjá að félagið ætli sér að fá leikmenn í hans gæðaflokki, bíddu síðast þegar ég vissi eru ekki til peningar til að kaupa leikmenn í sama gæðaflokki og Gerrard er í svo við getum semsagt bókað að Gerrard er farin??? og annað þarf ekki að kaupa góða leikmenn til að Halda Torrres semsagt???

    Finnst líka svoldið spes að hann Hodgson hafi ekki rætt neitt um peninga til leikmannakaupa, eina sem honum var tjáð var að ef hann seldi leikmenn fengi hann að nota þá til að kaupa nýja, þýðir það þá ekki að það verður það eina sem hann fær að spila úr? Einhverjir tala um að hann fái 15 mills plús sölur en honum virðist allavega ekki hafa verið tjáð það kallinum…

    En vonum það besta, vonandi að fleiri spennandi fréttir af sölu á félaginu pompi upp á næstu dögum. Vona að einhver sem á eins og maður segir SAND af seðlum komi og kaupi okkar ástkæra félag og sé tilbúin till að eyða slatta af sandinum í félagið…

  32. Síðan hvernær hefur þjálfari komið fram og sagst hafa eitthvað ákveðið mikið til leikmanna kaupa held það sé nú bara fáránlegt ef hann hefði sagt það.

  33. Hann þarf ekkert að koma fram og segjast hafa einhverja ákveðna upphæð, en hann var spurður útí þetta og þá sagðist hann bara ekkert hafa rætt um það hvort hann fengi yfir höfuð einhverja aura til að eyða, eina sem hann vissi var það að ef hann seldi eitthvað þá gæti hann allavega notað þá peninga. Það er það sem ég er að setja útá. Ef ég væri að taka við liði eins og Liverpool hefði ég viljað vita það æaður hvort ég fengi einhverja aura til þess að styrkja liðið, mundi eigilega finnast það lykilatriði að vita það…

  34. Eigum við ekki að gefa okkur að þessi umræða um peninga til leikmannakaupa hafi farið fram en hann sjái ekki ástæðu til að opna á það fyrir fullum sal af fréttamönnum?

  35. Flottur pistill, Maggi. Ég hef sagt áður að mér litist illa fyrirfram á þessa ráðningu og er að reyna að passa mig að láta ekki „plata“ mig út í einhverja draumóra með jákvæðum skrifum … en manni líður samt aðeins betur við að lesa svona orð um nýja þjálfarann.

  36. Reto Ziegler orðaður við okkur núna. Hann var sérlega frískur með Svisslendinum á HM og átti frábært tímabil með Sampdoria. Amk þarf að kaupa vinstri bakvörð, en spurning með varnarhliðina hjá Ziegler þar sem hann lék lengst af sem kantmaður þangað til hann fór í bakvörðinn.

  37. Takk fyrir fínan pistil.

    Er sáttur við þessa ráðningu og vona að karlinn standi sig hjá Liverpool.
    Við þurfum heldur ekki að örvænta að leikmenn Fulham komi til okkar miðað við það sem var greint frá í morgun. Þ.e.a.s. að það er í hans samningi að hann geti ekki tekið með sér leikmenn frá Fulham samkvæmt fréttum í morgun.

    En já, er sáttur og hef trú á karlinum og hann fær minn stuðning þó ég muni vissulega gagnrýna það sem mér finnist mega fara betur, en gerum við það ekki öll/allir? 🙂

    YNWA

  38. Ef þið horfið á viðtalið við Broughton þá segir hann að Hodgson hafi ekki verið að tala um peninga heldur hafi hann sagt að hann myndi ná meira úr núverandi leikmönnum liðsins.
    Það er einmitt styrkleiki þessa manns, að ná því besta úr leikmönnum.

Broughton vongóður með sölu á klúbbnum

Opinn þráður – HM og Benayoun farinn