Lið ársins í Úrvalsdeild (okkar val)

00001945-image.jpgJæja, þá er maður kominn heim úr helgarfríi. Liðið okkar endaði á sigri og Cissé fullkomnaði öskubuskusögu sína með tvennu, sem boðar bara góða hluti fyrir næstu viku þegar við mætum AC Milan í Istanbúl. Eins og komið hefur fram hér mun Einar fara út á leikinn á meðan ég horfi á hann heima í sjónvarpinu eins og þið hin. Einar = fáviti, ég = saklaust fórnarlamb … og því mun ég áskilja mér rétt til að vera fúll og pirraður út í Einar alla þessa viku! 😉


En allavega, við fengum þá hugmynd að velja okkar lið ársins í ensku Úrvalsdeildinni fyrir tímabilið 2004/05. Hér kemur minn skammtur, Einar bætir svo sínu liði við. Ég ákvað að velja enga Liverpool-menn í mitt lið, einbeita mér frekar að öðrum liðum í deildinni í þetta sinn, en annars hefðu Carragher, Finnan, Alonso og García alveg getað verið í svona liði ársins að mínu mati. En að Liverpool-liðinu undanskildu, þá er þetta 11-manna súperlið Úrvalsdeildarinnar fyrir nýafstaðinn vetur. Leikkerfið er 4-4-2, þannig get ég valið tvo menn í hverja stöðu:

Cech

Lauren – Terry – Gallas – Heinze

Wright-Phillips – Lampard – Cahill – Fabregas

Johnson – Henry

Leikmaður ársins: Frank Lampard, Chelsea.
Efnilegastur: Francesc Fabregas.
Þjálfari ársins: David Moyes, Everton.

Þetta lið finnst mér vera nokkuð augljóst, allavega fannst mér mjög auðvelt að velja bestu mennina í ár. Petr Cech var yfirburðamarkvörður í ár, en annars voru þeir Paul Robinson hjá Tottenham og Gabor Kiraly hjá Crystal Palace góðir.

Chelsea-vörnin var yfirburðavörn í ár en ég er samt ekki nógu hrifinn af Paulo Ferreira, og Wayne Bridge spilaði ekki nóg í vetur til að teljast með. Þá hef ég aldrei fílað Ricardo Carvalho nógu vel, ákvað þess í stað að velja William Gallas með John Terry í vörnina. Gallas er að vissu leyti Carragher-týpa þeirra Chelsea-manna, hann er fjölhæfur og sinnir jafnan þeirri vinnu sem ætlast er til af honum. En hann fær aldrei nógu mikið hrós fyrir frammistöðu sína, að mér finnst, og því ákvað ég að velja hann í þetta lið.

Á hægri kantinn setti ég Shaun Wright-Phillips hjá Manchester City, en mér finnst hann hafa verið yfirburðakantmaður í deildinni í ár. Þar sem mér fannst enginn vinstri kantmaður standa upp úr í ár, og af því að mig sárvantaði pláss fyrir þriðja miðjumanninn, setti ég þar Francesc Fabregas – kaup ársins og án efa leikmaður ársins hjá Arsenal. Hann hefur verið frábær og það er ótrúlegt að hugsa til þess að hann sé enn bara 18 ára gamall. Spánverjar eru heppnir að geta byggt upp landslið í kringum hann og Xabi Alonso á miðjunni.

Þeim við hlið eru Frank Lampard – leikmaður ársins í deildinni að mínu mati – og Tim Cahill, sem er eini leikmaður Everton sem ég væri til í að sjá hjá Liverpool. Ég tel Gerrard enn vera miklu betri en báðir þessir leikmenn, en hins vegar hefur form fyrirliðans okkar valdið vonbrigðum í vetur á meðan þessir tveir – og þá sérstaklega Lampard – hafa blómstrað.

Frammi eru sjálfvaldir hættulegustu framherjar deildarinnar, sem þó eru mjög ólíkir. Andy Johnson bar einn ábyrgð á því að Crystal Palace áttu yfirhöfuð séns á að bjarga sér frá falli á sunnudag, án hans hefðu þeir verið löngu fallnir. Og Thierry Henry sannaði það enn og aftur í vetur, þrátt fyrir að hafa hægar um sig en venjulega, að hann er besti framherjinn í Úrvalsdeildinni. Þó ber ég þá von að Djibril Cissé gæti stolið þeirri tign af honum á næstu árum 😉

Þjálfari ársins, þar kemur bara einn til greina. Á meðan José Mourinho fékk allt upp í hendurnar, Arsene Wenger var með meistaralið á sínum snærum og Alex Ferguson gleymdi að kaupa miðjumann þurfti Moyes að keppa við ótrúlegan mótbyr. Rooney fór í upphafi tímabils og Gravesen í janúar, liðið var á barmi gjaldþrots sl. sumar og spáð falli. En hann fór með þetta lið – þetta ömurlega slappa Everton-lið – alla leiðina í 4. sætið í ár, sem er stórkostlegur árangur. Þegar litið er á hversu lélegt þetta lið er á pappírnum finnst mér ljóst að afrek Moyes er ennþá merkilegra fyrir vikið!

Þannig var nú mitt val.


**Viðbót (Einar Örn)**: Jammmmm… Svona er mitt lið. Ég byrja með Roy Carroll í markinu… nei djók.

Cech

Gallas – Terry – Ferdinand – Heinze

Robben – Lampard – Makelele – Pires

Henry – Johnson

Leikmaður ársins: Frank Lampard, Chelsea
Efnilegastur: Francesc Fabregas, Arsenal
Þjálfari ársins: Jose Mourinho, Chelsea

Ég lenti í mesta baslinu með miðvörð númer tvö, hægri bakvörð og annan framherjann. Ég hefði í raun valið Finnan og Carragher í vörnina, þar sem mér finnst þeir hafa verið frábærir og svo er ég ekki alveg sannfærður um getu Andy Johnson. Vissulega hefur hann skorað og skorað, en ég er ekki alveg viss um hann. En hins vegar, þá fyrir utan hann og Thierry Henry, þá skoraði [enginn framherji fleiri en 13 mörk í vetur](http://uk.sports.yahoo.com/football/fapremiership/scorer.html), sem er með hreinum ólíkindum. Robert Pires og Frank Lampard skora meira en þeir framherjar, sem koma á eftir Johnson og Henry. Johnson skoraði 8 mörkum fleiri en næsti framherji og því hlýtur hann að vera í liðinu.

Líkt og Kristján ætla ég að leyfa mér smá hringl líka með vörnina og setja Gallas í vitlausa bakvarðarstöðu, einfaldlega vegna þess að hann og Heinze hafa verið miklu betri en nokkur hægri bakvörður í deildinni. Ég tel að Robert Pires eigi erindi í liðið, sem og Robben og því erum við alveg ósammála um kantmennina. Ég vel einnig Makalele í staðinn fyrir Cahill.

Við erum sammála um mann deildarinnar og þann efnilegasta, en ósammála um þjálfarann.

Við ætlum að bíða með að tilnefna leikmenn ársins hjá Liverpool þangað til *eftir* úrslitaleikinn í Meistaradeildinni, sem Kristján mun einmitt horfa á í Hafnarfirði.

9 Comments

  1. Einar, þú settir Gallas ekki í vitlausa bakvarðarstöðu.

    Hann er miðvörður að upplagi, en getur spilað bakvörð eins og Carra, nema honum finnst betra að spila í hægri bakverði.

    Jose M. hefur bara verið að spila honum í vinstri bakverði vegna skorts á leikmönnum í þá stöðu.

  2. Jamm ok, en staðan er allavegana vitlaus hjá mér miðað við hvernig tímabilið í ár hefur verið. Það breytir að mínu mati ekki hvaða stöðu menn spiluðu í fyrra eða árin þar áður, eða hvaða þeir stöðu þeir kjósa sjálfir að spila, heldur einungis hvaða stöðu þeir spiluðu í ár. 🙂

    Annars fín ábending.

  3. “…úrslitaleikinn í Meistaradeildinni, sem Kristján mun einmitt horfa á í Hafnarfirði”

    Fáviti. Ég ætla ekki lengur að vera fúll út í þig þessa vikuna – ég ætla að hata þig þessa vikuna!

    Sem eru náttúrulega einu eðlilegu viðbrögðin 🙂

  4. Þú getur nú huggað þig við það Kristján minn að ég mun verða þarna úti til að passa uppá hann :biggrin2:

  5. Þetta er samsæri!!!!!

    *felur höfuðið undir koddanum…

    Neinei, að öllu gríni slepptu þá vona ég að menn skemmti sér vel á þessum leik, og að sjálfsögðu að menn fái að fagna ærlega í miðbæ Konstantínópel að leik loknum.

    Ég verð svo mættur á úrslitaleikinn að ári, annað hvort í Meistaradeildinni eða Evrópukeppni Félagsliða. 😉

  6. Ég ætlaði nú ekkert að vera með neitt diss :blush:

    En annars væri liðið mitt eins og Einars lið, nema ég myndi skipta út :

    Heinze fyrir A. Cole (mér finnst A. Cole yfirburða sóknarbakvörður í deildinni, þó að þetta hafi ekki verið hans besta tímabil finnst mér hann samt sem áður bestur)

    Pires fyrir C. Ronaldo (sem að mér finnst búinn að þroskast gífurlega á þessu tímabili í sambandi við að hætta að sóla alla og gefa frekar fyrir)

    Johnson fyrir Defoe (hann hefur alltaf heillað mig og hefur tekið framförum í ár)

  7. Kristján:
    A) við getum horft á endursýningar
    B) hlustað á “sérfræðingana” tala fyrir, í hálfleik og eftir leik.
    C) getum borgað Visa reikninginn um næstu mánaðarmót
    D) okkur langar náttúrulega ekkert til Tyrklands (minni á Midnight Express)
    E) Sjáum leikinn úr bestu “sætunum”!

    shittur það bætir ekkert upp að vera ekki á leiknum…. við förum bara á næsta ári 🙂

  8. Nákvæmlega Aggi, aðeins einhver sem hefur aldrei upplifað stemninguna á vellinum með Liverpool-liðinu myndi geta talið sjálfum sér trú um að það sé betra að sitja í sófanum en að vera á vellinum.

    En þú segir satt, og ég kem til með að tryggja mig á næsta ári og panta minn miða í febrúar – sama í hvorri Evrópukeppninni við erum. :tongue:

  9. Við sem verðum á Players munum án efa mynda það mikinn stemmara að annað eins hefur ekki sést án þess að ferðast til asíu 🙂

    Usss hvað ég er spenntur!!!

Carson í enska landsliðið

Benitez að reyna að kaupa miðvörð