Ég sá þessa frétt á mánudag, en hef vegna anna ekki getað fjallað um hana fyrr en í dag. En allavega, nú er orðið ljóst að Rafael Benítez mun kalla á erlenda leikmenn til að fylla uppí laus pláss í varaliðinu okkar á næstu leiktíð. Þar sem hann lét nýlega nokkra varaliðsmenn fara á lausum samningi frá liðinu, og þar sem menn á borð við Smicer og jafnvel Biscan munu eflaust yfirgefa liðið í sumar, þá er aðalliðshópurinn okkar orðinn frekar fáliðaður, og því ljóst að auk þess að kaupa nokkrar stjörnur eða toppleikmenn fyrir aðalliðið, þá þarf einnig að fjölga í varaliðinu.
Vandamálið er hins vegar það, að varaliðið okkar var mjög slappt í vetur, enduðu næstneðst í deildinni, og ekki stóð U-18 ára liðið sig betur. Rafa ku vera mjög óánægður með þau leikmannagæði sem honum stendur til boða, og ég held að það geti flestir verið sammála um að hingað til hefur Akademían margrómaða ekki verið að skila nógu mörgum efnilegum leikmönnum upp í aðalliðið.
Hver er þá vandinn? Við munum öll eftir meintu ósætti þeirra Gérard Houllier og Steve Heighway, sem stjórnar Akademíunni, sem leiddi til þess að Houllier keypti eingöngu erlenda, unga leikmenn á borð við Pongolle, Le Tallec, Diouf og Cheyrou og notaði þá fram yfir Akademíustráka á borð við Welsh, Otsemobor og Mellor. Fyrir þetta fékk Houllier mikla gagnrýni, þá aðallega af því að erlendu leikmennirnir þóttu almennt reynast illa, og fannst mörgum hann vera ósanngjarn að gefa ungu “heimamönnunum” ekki tækifæri.
Nú, ári síðar, virðist þessi ákvörðun Houlliers að hluta til hafa reynst rétt, ef marka má viðbrögð Benítez. Það að Rafa skuli vera ósáttur með þann mannsskap sem Heighway og Akademían hafa skilað af sér, og ætla sér að sækja útlenska stráka til að fylla upp í varaliðið á næstu árum, segir manni bara eitt: Houllier gerði rétt í að vera ekki að taka þessa stráka inn á sínum tíma!
Pælið í því, frá því að Steven Gerrard kom inn í liðið, hversu margir hafa komið úr akademíunni síðan þá (1998) ???
Neil Mellor, Stephen Warnock, Zak Whitbread, John Welsh, Jon Otsemobor, Paul Harrison, Richie Partridge, og nú síðast Darren Potter.
Warnock er orðinn fullgildur meðlimur aðalliðsins og hlýtur að teljast sá farsælasti úr Akademíunni síðan Gerrard kom upp, hefði sennilega verið kominn fyrr í liðið ef hann hefði ekki tvífótbrotnað um tvítugt. Neil Mellor verður líka að teljast farsæll meðlimur Akademíunnar, þar sem hann hefur nú leikið fyrir aðalliðið undir stjórn tveggja mismunandi stjóra og skorað hátt í 10 mörk fyrir aðalliðið.
Darren Potter er enn ungur og gæti komið sterkur inn á næstu árum, það sama mætti segja um Zak Whitbread – sem er bandarískur. En hinir? Otsemobor, Harrison og Partridge voru látnir fara í vor, og maður veit ekkert hvað framtíðin hefur að geyma fyrir John Welsh.
Við erum að tala um árangur síðan 1998. Bætið við Sinama-Pongolle og Le Tallec, og þá erum við að tala um 4-5 leikmenn á sjö árum, og enginn þeirra er öruggur með sæti sitt í 16-manna hópnum í dag.
Berið það saman við framleiðnina hjá t.d. Man U á síðasta áratug, og Arsenal það sem af er þessa áratugar. Og spyrjið ykkur síðan, hver er munurinn?
Svar: líklegast það að bæði Man U og Arsenal hafa leitað víðar.
Maður fékk fréttir af því strax síðasta sumar að eitt af fyrstu verkum Rafa var að endurskipuleggja útsendarakerfið, og koma upp njósnurum í Suður-Ameríku og Afríku, en Houllier hafði víst aldrei lagt mikla áherslu á þessar tvær álfur. Þetta virðist strax skila sér, en varaliðið lék tvo æfingaleiki í síðustu viku og léku fjórir nýir leikmenn þessa leiki: einn Spánverji, einn Ghana-búi og tveir Argentínumenn. Þessir fjórir ónefndu leikmenn eru víst allir til reynslu hjá Liverpool, og reyna þessa dagana að vinna sér inn samning við liðið.
Þetta verður allavega spennandi að fylgjast með þróun þessara mála. Það verður nóg að gera í leikmannakaupum/sölum hvað aðalliðið varðar, og svo bætist við þessi væntanlegi gestagangur af reynslu-leikmönnum í allt sumar. Fréttin sem ég vísaði í – skrifuð af Dave Usher sem ku hafa góð sambönd innan Liverpool – segir að það gæti farið svo að allt að 6-8 nýir leikmenn komi til Liverpool í sumar, og annað eins af varaliðsmönnum, flestir þá af yngri og efnilegri kynslóðum og víðsvegar að komnir.
Ef við lítum yfir hópinn okkar í dag mætti segja að eftirtaldir séu varaliðsmenn: Patrice Luzi, David Raven, Zak Whitbread, John Welsh, Anthony Le Tallec, Neil Mellor, Robbie Foy, og svo leikmenn á láni eins og Danny Mannix, Carl Medjani, Bruno Cheyrou og Salif Diao. Jafnvel væri, í ljósi góðrar frammistöðu þeirra sem eiga í samkeppni við þá um stöðu, hægt að segja að Chris Kirkland, Igor Biscan og Antonio Núnez teljist til varaliðsmanna.
Þetta eru samt ekki nærri því nógu margir. Liverpool þarf að eiga sterkan 20-manna hóp, og svo helst 10-15 góða varaliðsleikmenn sem geta allir annað hvort skilað góðu starfi í neyð eða verið efnilegir til framtíðar. Það er því ljóst að það á hellingur af leikmönnum eftir að koma til Liverpool í sumar, bæði “toppleikmenn” og “liðsheildarmenn” …
… þá er bara spurningin, leynist einhver Fabregas á meðal þeirra ungu stráka sem Rafa mun fá til liðs við sig í sumar? Það væri ekki verra. 😉
Fínar pælingar, Kristján.
Kannski ekki úr vegi að benda á grein mína frá því í nóvember um tengt mál: [Barnaræninginn Arsene Wenger](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/11/16/20.11.51/).
Þar talaði ég einmitt um skort á ungum leikmönnum hjá Liverpool og samanburðurinn við lið einsog sérstaklega Arsenal hallar mjög á okkur. Vonandi að Benitez takist að koma þessum málum líka í lag. Það er alveg ljóst að þessi blessaða akademía er ekki að skila nokkrum sköpuðum hlut, allavegana ekki hingað til, þótt að það sé vonandi að það batni í framtíðinni.
Jamm, mundi einmitt eftir henni þegar ég var að skrifa þessa grein. Þetta er náttúrulega spurning um siðferði samt, það er eitt að ‘ala upp’ góða útlendinga alls staðar frá, en það er annað að stela þeim undan nefjum stórliðanna eins og Arsenal hafa gert. Ef við berum saman hvernig þeir eignuðust Fabregas, og hvernig við eignuðumst Cissé … eða Flo-Po og TLT … þá sérðu að annar klúbburinn er viljugur til að vinna með söluklúbbnum, hinn leitast við að stinga undan söluklúbbnum.
En ég er samt feginn að á þessu verður breyting til batnaðar í sumar, okkur sárvantar meiri breidd í ungviðið…
Þetta er hárrétt hjá ykkur, leikskólinn hjá okkar mönnum er ekki að standa sig. Ég held að það veit ekki af afrískum og suður-amerískum innblæstri. John Welsh sem nokkrar vonir voru bundnar við virkar ekki vel á mig. Það er alltaf gaman að sjá unga leikmenn fá sénsinn og spjara sig. Vonandi ber vel í veiði í sumar.