Lokaupphitun: Úrslitaleikurinn á morgun!

SJÁ EINNIG UPPHITUN: Föstudagur | Laugardagur | Sunnudagur | Mánudagur

Fokking hell. Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu Árið 2005 er á morgun!!! Á … Fokking … Morgun! Fæturnir eru hættir að snerta jörðina, maginn er opinberlega kominn á hvolf, augun geta bara hreyfst lárétt, kærastan er flutt að heiman og mamma búin að afneita okkur bræðrunum og pabba, “You’ll Never Walk Alone” er spilað svo oft að Gerry hringdi í mig í morgun og grátbað mig um að láta sig ekki syngja meira, og síðast en ekki síst þá er ég búinn að útbúa Plan A, B og C til að drepa Einar – og komast upp með það – þegar hann kemur heim frá Istanbúl.

Heppinn, Einar? Við sjáum til með það á föstudaginn!!!

Annars minni ég ykkur, sem eruð minna öfundsjúk, á GSM bloggið hans Einars en hann er búinn að lofa að henda myndum þar inn, ef hann getur sent þær frá Istanbúl.

Hvað með okkur hin? Nú er ég búinn að fjalla um leikinn almennt, Einar um Istanbúl almennt, og svo ég mjög náið um bæði liðin. Hvað er eftir? Jú, að sjálfsögðu á ég eftir að spá fyrir um lokatölur leiksins!!! Ekki hélduð þið að ég myndi sleppa því, í þessum síðasta leik? 😉

Miðað við þær fréttir sem maður hefur fengið undanfarið – Cissé líklegur í byrjunarlið, Crespo hugsanlega meiddur – þá finnst mér líklegast að byrjunarliðin og varamannabekkirnir verði á eftirfarandi hátt:

AC MILAN:

DIDA

CAFÚ – NESTA – STAM – MALDINI

GATTUSO – PIRLO – SEEDORF
KAKÁ
SCHEVCHENKO – INZAGHI

BEKKUR: Abbiati, Costacurta, Kaladze, Brocchi, Crespo, Tomasson, Serginho.

LIVERPOOL FC:

DUDEK

FINNAN – CARRAGHER – HYYPIÄ – TRAORÉ

GARCÍA – ALONSO – HAMANN – RIISE
GERRARD
CISSÉ

BEKKUR: Carson, Josemi, Biscan, Núnez, Smicer, Kewell, Baros.

Eins og ég fór náið í í gær þá finnst mér einhvern veginn sem þetta muni ráðast á því hvort liðið nær betur að skapa sér svæði á miðjunni. Ef okkar menn – Gerrard, Hamann og Alonso – ná yfirhöndinni á miðjusvæðinu og ná að halda boltanum vel sín á milli gætu þeir spilað kantmennina, og þá Cissé, inn í leikinn. En að sama skapi gæti Gattuso jarðað okkar menn og þeir Pirlo og Seedorf eignað sér boltann á miðjunni, sem myndi gera Kaká og Cafú kleift að koma virkir í sín sóknarsvæði og skapa helling fyrir Schevchenko og Inzaghi. Ef það gerist erum við í vondum málum.

En það er nú einu sinni svo að þessi lið búa bæði yfir leikmönnum sem geta unnið svona leik á augabragði. Þannig á það líka að vera – Carragher og Hyypiä gætu jarðað Schevchenko í 89 mínútur, en hann þarf bara að sleppa einu sinni úr gæslu þeirra til að skora sigurmark. Hann er einfaldlega það góður, og það eru margir það góðir í Milan-liðinu. En að sama skapi þarf litli Luis bara að fá einn séns, Stevie G þarf bara eitt skotfæri, Cissé þarf bara einn réttan stungubolta, og þá getur þetta allt fallið okkar mönnum í skaut.

Með öðrum orðum: Leikurinn á morgun verður einfaldlega RAFMAGNAÐUR – búið ykkur undir mest spennandi leik ársins, og sennilega ævinnar fyrir okkur Liverpool-stuðningsmennina, sem erum of ung til að muna eftir síðasta Úrslitaleik.

Að lokum, þá er komið að því, í síðasta sinn á tímabilinu 2004/5…

MÍN SPÁ: Ég hef hugsað þetta mikið síðustu fimm daga, er ég hef skrifað þessar mörgu upphitanir fyrir leikinn, og ég kemst alltaf að sömu niðurstöðu. Af því að fólk býst við varkárni og sterkum varnarleik beggja liða er ég handviss um að okkur verður komið þægilega á óvart. Þetta verður markaleikur og ég spái því að það verði 2-2 eftir 90 mínútna leik, og að úrslitin muni ráðast í framlengingu eða vítaspyrnukeppni! Annað liðið mun komast yfir snemma í leiknum, hitt liðið berjast til baka og skora tvö mörk, en tapa forystunni undir lokin. Hvernig framlenging/vító síðan fer er ómögulegt um að segja, en ég hef það á tilfinningunni að það verði skoruð mörk á morgun, og að það muni bæði lið skora.

Hvort liðið síðan hefur betur? Það er ÓMÖGULEGT að segja til um það. En ég get sagt ykkur það, að ef þetta fellur okkar mönnum í vil þá mun ég gráta af gleði í Hafnarfirðinum. Eins og Einar, eins og ég í febrúar þegar ég fór á leik, þá hafa leikmenn Liverpool FC farið ótrúlega langa leið til að komast að þessu takmarki, og í ljósi þess hvað Xabi Alonso og félagar komust nálægt bikarnum í dag, þá væri ótrúlega sorglegt að sjá þá þurfa að fara heim til Englands á fimmtudag án þess að hafa gripinn með í för.

Xabi, Stevie, Djibrilliant, Milan, Carra Legend, The Dude, Finnan, Djimmy, Johnny Red-boy, Big Sami, Didi “the General”, Luis “Tumi Þumall”, Vlad the lad, Toni “Gypsy Curse” Núnez, José “el toro” Miguel, Scottie boy Carson, við þörfnumst ykkar á morgun! ÞETTA ER YKKAR DAGUR, CARPE DIEM!

ÁFRAM LIVERPOOL!!!!! ÞETTA VERÐUR SVAKALEGT!!!!!!!

10 Comments

  1. Takk Kristján Atli fyrir að lina þjáningar mínar síðustu daga með mælsku þinni…….. :blush:

    Mundu bara félagi að hvernig sem fer á morgun þá munum við bara og þá meina ég bara elska klúbbinn okkar meira í dag en í gær ( ef það er þá hægt…… :blush:)

    Ég fæ magakrampa og svima þegar ég hugsa til þess að kannski vinna okkar menn á morgun…

    Ég eiginlega þori ekki að hugsa þessa hugsun til enda……… hún er svo yndisleg…..

    Áhanghendur annarra stórra liða á Englandi yrðu grænir af öfund næstu árin………..ef ………….

    Hvað sem öllu líður ætla ég að njóta þess að horfa á okkar menn í Úrslitaleik Meistardeildar Evrópu á morgun…….

    Y.N.W.A.

  2. Fjandinn hafi það, Kristján Atli! ég ætla að quote-a þig aðeins so help me God:

    “Með öðrum orðum: Leikurinn á morgun verður einfaldlega RAFMAGNAÐUR – búið ykkur undir mest spennandi leik ársins, og sennilega ævinnar fyrir okkur Liverpool-stuðningsmennina, sem erum of ung til að muna eftir síðasta Úrslitaleik”

    Ok, ég man eftir úrslitaleik okkar þegar Bruce Grobbelaar fór að trúðast í markinu og fór algjörlega með Roma gaurinn á vítalínunni. Ég man meira að segja HVAR ég sat nákvæmlega og pabbi horfði á leikinn með mér (Leedsarinn sá arna!). Þetta eru þó nokkur ár síðan (1983/84 tímabilið) sem þýðir ……FJANDINN HAFI ÞAÐ…ÉG ER ORÐINN GAMALL!!! Að muna eftir fáu úr æsku sinni en að muna eftir svona atviki samt gerir mann að miklum manni!! :laugh:

  3. Ég verð nú að segja… að það að segja að Shevchenko þurfi bara eitt færi, og svo að segja að Gerrard/Garcia/Cisse þurfi bara eitt færi er allt annað.

    Eins langar mig að spyrja að einu… er Rui Costa meiddur eða geriru bara ráð fyrir því að hann sé orðinn svo lélegur að hann komist ekki í hóp?

    Persónulega held ég nú að hann byrji frekar inn á frekar en Filippo Inzaghi, sem er búinn að spila 4 leiki í ár í byrjunarliði, og koma 8 sinnum inn á, 12 leikir samtals, en svona til samanburðar þá hefur Cisse spilað 14 leiki í byrjunarliði, og komið inn á 10 sinnum = 24 leikir.

    Liverpool er talið ólíklegt að tefla fram Cisse vegna þess að hann sé ekki tilbúinn. Inzaghi er búinn að vera meira frá á tímabilinu, og því enn ólíklegra að hann skelli honum í byrjunarliðið í fyrsta sinn í langan tíma í úrslitaleik meistaradeildar Evrópu.

    Ég tel líklegra að hann noti frekar Rui Costa (að því gefnu að hann sé heill) eða Tomasson.

  4. Já maður, ég gleymdi Rui Costa! (lemur sig á ennið) 😯

    Annars er ég engu nær um það hvor byrjar inná, Cissé eða Baros, það kemur bara í ljós … ég er bara að taka mið af því sem fréttamiðlarnir eru að segja í dag, að Cissé sé líklegri. En í sannleika sagt veit ég það ekkert frekar en þið… :confused:

  5. Og JónH – verði þér að góðu. En ég vara þig við, ef þú heldur að upphitun síðustu daga sé eitthvað skaltu kíkja á þessa síðu á morgun. Frá og með hádeginu – þegar ég klára vinnu – og alveg fram að leik, ætla ég gjörsamlega að sleppa mér hér inni.

    Þið munið sjá hvað ég meina á morgun… 😉 …en verið viðbúnir, ég er orðinn svo spenntur að ég vélrita á ljóshraða, og er því ekki ábyrgur orða minna á morgun!

  6. Kannski að Cisse og Baros byrji saman frammi ? hmm ????? einhver möguleiki ? ég giska að þeir byrja báðir saman frammi og vinni vel saman, stúti hreinlega vörninni hjá AC milan, gömlu kallarnir geta ekkert á móti okkar byssu kúlum (baros og cisse) :smile:, ég vona að þetta gerist þá eigum við þennan leik, pottó.

  7. Maður vonar nú að Cisse byrji frammi… hann ætti nú að geta tekið Nesta og Stam allhressilega ef hann á góðan dag.

    Væri líka bara of gaman ef að Cisse myndi skora sigurmarkið á fyrsta tímabili sínu hjá Liverpool.

    NB: Undirritaður þolir ekki Milan Baros, en er aftur á móti einlægur aðdáandi Djibril Cisse 🙂

Þriðjudagur til þrautar

ÚRSLITALEIKUR: DAGBÓK