Everton á morgun

Ha? Leikur á morgun? Gegn hverjum? Er Grabiner heill og byrjar hann inná? Hvað með Justice Floyd? Er Tom fokking Hicks í marki mótherjanna? Stefnir í svaka rimmu, best að setja sig í startholurnar og lesa eins og þrjár lagagreinar um bresk fyrirtækjalög, kannski með smá dassi af lögbannsúrskurðum í Texas. Þetta verður fjör maður, edge of the seat dæmi, algjörlega. Go Grabiner, Go…

Mikið lifandis skelfingar ósköp er nú ánægjulegt að fá að skrifa þessa upphitun fyrir FÓTBOLTALEIK Liverpool FC. Maður er að verða stórskaddaður í hausnum (OK, meira en venjulega) af þessu lögfræðidrama sem hefur verið í gangi í þessari viku. Var ég búinn að segja hvað ég elska landsleikjahlé mikið? Nei, þetta er bara yndislegt, nú getur maður aftur farið að naga neglurnar yfir því hvort okkar menn geri eitthvað af viti inni á fagurgrænum fótboltavelli, eða hvort þeir ætli að gera hann meira brúnleitan með því að gera slæmt í brók. Vitið þið það, ég gæti hreinlega ekki óskað mér betri endi á svona viku heldur en að snýta þessum bláu á þeirra heimavelli á sunnudaginn. Ég hreinlega myndi líkja því við algleymi (fór reyndar að hugsa það núna þegar ég skrifa þetta, er nú ekki með skilgreininguna á þessu orði alveg á hreinu, læt að samt vaða í þeirri merkingu sem ég vil leggja í það). Sigur gegn “hryðjuverkamönnunum” og svo sigur gegn þessum bláu, báðir á útivelli, í sömu vikunni. Æj, það er eiginlega of gott til að vera satt. Ég var svei mér þá tilbúinn til að fórna 9 stigum til að losna við trúðana, þannig að ef 3 stig kæmu í hús á morgun, þá eru bara komin 12 stig, en, to, tre.

En já, best að njóta þess að skrifa upphitun og hætta umfjöllun um þessa eigendamartröð sem er nú á enda. Derby slagur á morgun, svei mér þá ef ég er ekki farinn að finna fyrir þessum “eðlilega” kvíðahnút í maganum. Var ég einhvern tíman búinn að minnast á það á þessari síðu að ég ÞOLI ekki Everton? Tilhugsunin að vinna þá ekki er hreinlega óbærileg, veit ekkert verra tengt fótboltanum. Yfirleitt fer ég nokkuð vongóður inn í þessa leiki, en ég verð bara að segja það alveg eins og er, ég er hreinlega alls ekki neitt vongóður fyrir morgundaginn. Er skíthræddur um að við náum einungis í þetta eina stig sem ég held að Roy Hodgson sé búinn að sætta sig við fyrirfram. Látið ykkur ekki bregða við að sjá Poulsen og Lucas saman inni á miðjunni á morgun, þegar þið bölvið því, munið bara þetta: “I told you so”.

Það sem hefur farið laaaaaang mest í mínar fínustu taugar með Roy Hodgson er einmitt metnaðarleysið. Hann sagði það blákalt að hann hefði sætt sig við eitt stig fyrirfram úr útileiknum gegn BIRMINGHAM. Hann hefur trekk í trekk sýnt það af sér í fjölmiðlum að hann sé bara nokkuð sáttur við úrslit sem við flokkum sem döpur. OK, gott og vel, við töpum stigum, og leikjum yfir heilu og hálfu tímabilin, en fjandinn hafi það, við erum Liverpool og við förum í ALLA leiki til að sigra þá. Hann bara verður að átta sig á þessari staðreynd. Hann var afar ánægður með að fá tækifæri á að stýra stórliði, nú þarf hann að fara að nýta sér það tækifæri, en umfram allt, þá þarf hann að átta sig á því að nýja starfið er hafið og hann þarf að fara að haga sér sem slíkur. Hann þarf að hætta að labba inn á völlinn í sleik við fröken Fergie, hann þarf að hætta að bugta sig og beygja fyrir því hvað sú smásál segir í fjölmiðlum, hann þarf að svara honum fullum hálsi þegar hann drullar yfir leikmenn Liverpool. Hann þarf að átta sig á því að það er ekki gott í fótboltaleik að sleppa alveg miðjunni, hún er stór partur af leiknum. Hann þarf að átta sig á því að það er hægt að breyta ýmsu í leikjum með því að nota þetta þarna, æj hvað heitir það aftur, jú varamenn…þá meina ég fyrir áttugustu og eitthvað mínútu.

Ég viðurkenni það fúslega að ég var afar skeptískur á hans ráðningu í sumar. Hann vann mig yfir á sitt band, kom flott fyrir áður en tímabilið hófst og svona og ég var algjörlega fús til að gefa honum fullan séns, styðja við bakið á honum eins og öllum öðrum stjórum Liverpool. Núna er komið að því að hann þarf að hjálpa mér í þessu. Ég bara á ferlega erfitt með þetta í dag, hann er að mínu mati að gera nánast allt vitlaust, það eru ekki einn, tveir eða þrír ákveðnir hlutir sem fara í taugarnar á manni, eins og málið hefur verið með aðra stjóra liðsins, heldur er það nánast allt þessa dagana. Undanfarið hefur hann hreinlega verið að gera alla hluti rangt, og það er vont. Hvað er betra en að snúa þessu við á morgun? Hann fær ekki flottara tækifæri til þess að vinna stuðningsmenn Liverpool FC á sitt band. Nú er borðið hreint, allir sky high vegna sigurs í réttarsölum, big derby framundan og sviðið er bara klárt. Kláraðu þetta Roy, stilltu þessu nú upp af alvöru, setjið allt í sölurnar. Þetta er STÓRA prófið þitt Roy, lemdu þína menn áfram, þú þarft varla að mótivera menn mikið, en þú getur bætt nokkrum prósentum við, minna menn á mikilvægið, þetta VERÐUR að vinnast. Út með eins stigs kjaftæðis mal, það eru þrjú stig í boði og þau skulu sótt.

Þá að liðinu. Torres er heill, fyrst og fremst vegna þess að hann spilaði ekki með Spáni í landsleikjahléinu. Held hreinlega að hann þurfi bara að meiðast smávægilega rétt fyrir hvert landsleikjahlé. Agger kom líka skaddaður, hann var ekki heill til að spila síðasta leik Liverpool, en einhvern veginn var hann svo talinn klár til að spila fyrir Danmörk. Úff, var ég búinn að minnast á það hvað…æj, nei sleppi því. Dirk kom svo heim skaddaður úr landsleikjahléinu, annað skiptið í röð, en hann er ekki með neinn venjulegan líkama sá maður, menn bjuggust svo sem við að hann yrði í besta falli frá fram að áramótum, í versta falli út tímabilið, en kappinn sá býst við að byrja að spila aftur í byrjun næsta mánaðar. Aurelio er víst búinn að spila 30 mínútur með varaliðinu án þess að meiðast, búið að verðlauna hann með bikar fyrir það mikla afrek, en leikurinn á morgun verður líklegast of snemma fyrir hann. Konchesky er víst orðinn heill aftur, og við losnum þá væntanlega við það að þurfa að nota Carra í vinstri bakverðinum. Er samt ekkert of viss um hvort sé sterkara fyrir liðið. Svo hef ég bara hreinlega ekki heyrt af fleiri meiðslum. Sem sagt, Kuyt, Agger og Aurelio væntanlega frá keppni, aðrir heilir (líkamlega).

Ég er í of góðu skapi til að nenna að spá neitt í mótherjum okkar, þarf lítið að segja um þá annað en að Gollum ætlar sér örugglega að hefna ófara síðustu ára, vonandi tekst það ekki. Við erum með betra lið en Everton og því skiptir það mestu máli að stilla liðinu okkar rétt upp, fá réttan balance í liðið. Það fæst ekki með því að setja Meireles út á hægri kant og hafa þá Lucas og Poulsen saman á miðjunni. Gerðu það fyrir mig Roy, ekki reyna það bara. Er reyndar skíthræddur um að það verði raunin, en vona svo sannarlega ð það verði ekki. Ég vil fara í gamla góða gírinn, ja gírinn sem skilaði okkur frábæru tímabili 2008-2009, pressa hátt, vera með spilandi menn á miðjunni. Við erum ekki með nógu fljóta menn (fyrir utan Torres) til að elta langa bolta úr vörninni okkar og liggja svona aftarlega. Pressa hátt, láta þessa vinnuþjarka okkar (og nóg erum við með af þeim) hamast í varnarmönnum og aftuliggjandi miðjumönnum. Fá Maxi í hægri kantinn, það er hægt að gagnrýna hann fyrir margt, en mér finnst hann virka best í hápressu, alveg eins og félagi Dirk. Setja Jovanovic vinstra megin, eini alvöru hraði leikmaðurinn okkar fyrir utan Torres og Gerrard, hafa þá Meireles og Gerrard saman á miðjunni og Cole í holunni fyrir aftan Torres. Johnson, Carra, Skrtel og Konchesky í vörninni. Nenni ekki að hafa áhyggur af henni, með því að pressa hátt, þá minnkum við álagið á henni hvort eð er.

En þó að draumalandið virki fínt, þá er raunveruleikinn yfirleitt allur annar. Svona held ég að Roy komi til með að stilla upp liðinu á morgun:

Reina

Johnson – Skrtel – Carragher – Konchesky

Lucas – Poulsen
Meireles – Gerrard – Cole
Torres

Bekkurinn: Jones, Kyrgiakos, Kelly, Spearing, Jovanovic, Maxi og Ngog

Sorry, því miður held ég að ég sé fáránlega nálægt þessu. Vona svo sannarlega ekki, væri algjörlega til í að sjá liðið svona:

Reina

Johnson – Skrtel – Carragher – Konchesky

Meireles- Gerrard
Maxi- Cole – Jovanovic
Torres

En ég ræð ekki, Roy ræður, eina sem maður getur gert er að spá í spilin og vonað. Ég neita að trúa öðru en að menn leggji allt í sölurnar á morgun og að við fáum hörku baráttu. Hana hefur yfirleitt aldrei vantað í leikjum þessara liða og býst ég ekki við að það breytist á morgun. Ég ætla að spá jafntefli ef uppstilling mín hér að ofan er rétt, líklegast 1-1 jafntefli. En ég myndi spá okkur sigri ef við myndum velja mína uppstillingu (surprise, surprise), 1-2. Held að Stevie setji mark, og Torres mun gera slíkt hið sama ef mér verður að ósk minni.

En Poolarar nær og fjær. Á morgun fögnum við, við fögnum nýjum eigendum, við fögnum því að við erum lausir við þá gömlu. Við fögnum því að geta byrjað að ræða um fótbolta á ný. Við fögnum því að framtíðin er björt. Við fögnum því að með einni undirskrift í gær fórum við úr því að vera eitt skuldsettasta félagið í enska boltanum, yfir í það að vera það næst minnst skuldsettasta. Við fönum á morgun, hvar sem við erum, hver sem við erum. En við sem erum á stór Höfuðborgarsvæðinu, af hverju fögnum við ekki saman? Heimavöllur Liverpoolklúbbsins á Íslandi er Players í Kópavogi. Þar ætlum við að fagna á morgun, þar á að mæta snemma, þar skulum við reyna að troðfylla alla salina. Leikurinn er hálf eitt, mæting ellefu, díll? Ég veit að fjölmiðlar verða á svæðinu, við skulum sýna það og sanna hversu öflugur og stór hópur við erum. Hátíð í bæ, látum sjá okkur, sjáum aðra, en fyrst og síðast, fögnum saman, svo er bara að strákanir okkar tryggi það að við getum haldið áfram að fagna eftir leik.

Gleðilega framtíð
YNWA

53 Comments

  1. Er það í alvöru talað, möguleiki að Pullesen byrji þennann leik?? Ef hann verður í byrjunarliði þá verð ég orðlaus. Þá vona ég innilega að samningur Hodgson´s sé við Kop Holdings og hann neiðist til að flytja til bandaríkjanna með glæpamönnunum sem verða ekki nefndir á nafn í mínu lífi héðan í frá.

  2. Held að leikmenn Liverpool girði sig í brók og vinni, 2-1 fyrir okkur.

  3. Vill að Hodgson verði látinn fara eftir leikinn á morgun. Það þarf að stokka hressilega upp í liðinu og hann er ekki maðurinn í það, vantar einhvern mann með púng. Og vonandi með nýjum eigendum förum við aftur á þann stall sem við eigum heima á, toppinn í Evrópu.

  4. Pool. Ættir að geta séð hann á Kaffi Bifröst.

    Spái 2-1 fyrir Everton og Roy verður látinn fjúka af NESV.

  5. Annars verð ég að bæta við að eftir að hafa hlustað á viðtöl við John W. Henry og hans yfirlýsingar um að “listen to fans” og “actions” þá les ég úr því að ef Hodgson misstígi sig meira þá verði hann látinn fjúka og Dalglish fái tækifæri. Hef ekkert meira fyrir mér í þessu en tilfinninguna en þó það!

  6. Menn verða að gera sér grein fyrir því að við höfum ekki verið að spila þetta 4-2-3-1 kerfi sem þið stillið alltaf upp fyrir leiki heldur varnarsinnað 4-1-4-1 þar sem Poulsen er varnartengiliðurinn. Held að þetta sé munurinn á þessu og síðasta tímabili og stærsti þátturinn á bak við slakt gengi okkar!

  7. Spái því að Liverpool vinni 4-3 í miklum baráttuleik og Tony Hibbert verði með þrennu.

  8. Eigum við bara ekki að segja að Hodgson hafi haft góðan tíma núna til að hugsa sinn gang í friði og prófi nú að vera svoldið graður í þessum leik og þeim næstu sem hann fær. Hann hefur kannski séð Dana leikina og áttar sig á að þar er hann með einn fastamann í liðið og hann heitir EKKI Poulsen ! Kannski sá hann líka Portugal á móti íslandi og þar sá hann annann fastamann í sitt lið.

    Vonum að karlinn fari nú að átta sig á því að með nýjum eigendum dugir ekki að vera voða sáttur með 1 stig á heimavelli á móti Workington eða eitthvað álíka. Og síðast en ekki síst vona ég að hann sé farinn að átta sig á því að hann er að stjórna Liverpool FC !!

  9. Margir sögðu að þeir ætluðu ekki að horfa á næsta leik eftir síðasta leik og það sagði ég líka en svona er þetta það verður sko horft og ég trúi ekki öðru en að menn sýni að þetta lið er ekkert verra en í fyrra ég bara trúi ekki öðru en menn girði sig, ég bara trúi ekki öðru já já já. SIGUR EKKERT ANNAÐ. Annars eru úrslit hjá öðrum liðum spúkí, m u gerði jafntefli, þannig að allt getur gerst.Everton 1 Liverpool 3 jess jessssssss

  10. 2-3 fyrir Eina liðinu í Liverpool borg! Gerrard með 1 og Torres 2!

    YNWA!!

  11. Pool nr.4.
    Leikurinn verður sýndur hjá okkur á Kaffi Bifröst 😉

    Með vinsemd og virðingu/3XG

  12. Leikurinn fer 2-1 fyrir Liverpool og við setjum Everton í fallsæti og verða þá 5-6 mant utd

    Það um skína bjartsýn fyrir Liverpool

    Svo þetta verður góður kickstart leikur

  13. Ég hef einhverrahluta góða tilfinningu fyrir þessum leik, kannski er það bleika skýið sem hef verið á síðan í gær sem er að hafa svona áhrif á mig, mögulega.

    Meireles setur 1 ala Laugardalsvöllur og Gerrard smellir svo öðru. Hvort Everton setur 1 eða ekkert gæti mér svo ekki verið meira sama um : )

    Walk on!

  14. Flott upphitun Steini. Er þó ósammála þér með byrjunarliðið í einu atriði, myndi frekar vilja sjá Lucas inni en Maxi og þá með Gerrard framar á vellinum. Svona:

    Reina

    Johnson – Carra – Skrtel – Konchesky

    Meireles – Lucas
    JCole – Gerrard – Jovanovic
    Torres

    Okkar menn hafa byrjað leiktíðina illa en Everton-menn líka og þeir verða með meiðslahrjáð lið á morgun. Það er nákvæmlega engin ástæða fyrir því að sækja ekki á þá.

    Geri samt ráð fyrir svipuðu liði og þú spáir hjá Hodgson. Varnarsinnað, öruggt ofar öllu og fáir sénsar teknir.

    Ég spáði okkur tapi gegn Blackpool og hafði (því miður) rétt fyrir mér. Í mínum augum er þessi leikur á morgun steindautt jafntefli og ég er ekki viss um að það verði skoruð mörk. Vonandi hef ég rangt fyrir mér í þetta sinn.

  15. Ég vona að þetta verði síðasti leikur RH með Liverpool,hann er engann veginn að höndla þetta og ef einhver metnaður er í Henry þá skiftir hann um stjóra mjög fljótlega. Ég var að lesa að Hodgson væri kominn upp á kant við Agger og nefndi hann víst ekki einu sinni þegar hann talaði um meidda leikmenn á blaðamannafundinum fyrir leikinn. Ég vil alla vega frekar halda Agger á Anfield frekar en Hodgson. Ég er hræddur um að Everton komi dýrvitlausir í þennan leik og vinni þar sem okkar menn verði hálfsofandi í byrjun eins og í allt haust og sennilega verður Paulsen þarna inná og það vita allir sem horfa á fótbolta hvað hann getur nema RH. Sorry drengir en það er ekki mikið sem gefur tilefni til bjartsýni með þennann stjóra við hliðarlínuna.

  16. Samkvæmt fréttum á Twitter er þetta byrjunarliðið á morgun:

    Reina

    Carra – Kyrgiakos – Skrtel – Konchesky

    Meireles – Lucas
    Maxi – Gerrard – JCole
    Torres

    Johnson er frá með tognun í læri. Annars er ég nokkuð sáttur við þetta lið ef satt reynist. Jovanovic hefði mátt fá tækifæri en whatever.

    Stend samt við spána. 0-0 þangað til annað kemur í ljós.

  17. Það verður að segjast eins og er : United eru næstum jafn lélegir og Liverpool…sorry

  18. Fyrst að litli bróðir minn fór svona á kostum í marki Akureyrar á móti Fram í dag og tryggði þeim sigur með því að verja m.a. tvö víti (og eitt með öxlinni!!!) þá ætla ég í bjartsýniskasti að spá Liverpool sigur á morgun: 1-3. Algjörlega sannfærður um þetta núna!!! Áfram litli bróðir og áfram Liverpool ávallt!!

  19. Að heyra hvað Roy Hodgson er að segja í viðtalinu á BBC………….þvílíkur viðbjóður maður er svona við það að fara æla. Burt með þennan mann sem fyrst!!! Vonandi verður þetta síðast leikur hans með liðið!!

  20. Eg tengi bjartsyni mina vid leikinn a morgun EKKI vid eigendaskiptin, frekar vid meidslin sem Everton a vid thessa dagana. Samkvæmt BBC eru vandrædin svona hja theim:

    Everton
    Doubtful: Saha (calf)
    Injured: Anichebe (knee), Fellaini & Jagielka (both hamstring), Pienaar (groin), Rodwell (ankle), Saha (calf).

    Ef satt reynist ad Everton verdi an ALLRA thessara leikmanna se eg BARA sigur koma til greina a morgun; med eda an Christian Poulsen i lifinu! Eg spai sigri EF Everton verdur svona bæklad a morgun; 3-1 – Cole 2, Torres 1. Tegar eg er bjartsynn ad tha er eitthvad i gangi!

  21. 2-0 tap. Cahill með skallamark eftir sendingu frá Arteta sem skorar svo úr víti eftir að Skrtel þruma Cahill niður eða reynir að klæða hann úr treyjunni.

  22. Við EIGUM að vinna á morgun Everton klárlega slakt núna þó það skipti yfirleitt engu í þessum geggjuðu leikjum.
    Vona að Hodgson fari að gera eitthvað rétt.
    1-2 Torres,kyrgiakos

  23. mer finnst þetta svona alveg ásættanlegt lið sem Kristján Atli setur upp NR#26.. en af hverju ekki að setja bara N´gog fyrir Maxi ofarlega hægra meigin ! sérstaklega þar sem Carra er í bakverðinum sem er traustari varnarlega en Johnson en á móti hræðilegur sóknarlega! Maxi hefur heldur ekki verið að heilla mig undanfarið, eða alveg fra því hann kom bara. N´gog fyrir Maxi þá væri ég ánægður með fremstu 6 en ég er samt smá taugaóstyrkur með þessa 4 fyrir aftan ef þetta er rétt lið nr#26

  24. Eins leiðinlegt og það er að vera með neikvæða gagnrýni á þjálfarann, þá bara verður hann að fara. Liðið er að spila eina slöppustu taktík sem maður hefur séð, aftur og aftur. Þetta er svo sorglega árangurslaust, sérstaklega vegna þess að við erum ekki með réttu týpurnar af leikmönnum í að spila svona. Margir leikmenn eru hreinlega of góðir til að hanga bara og bíða eftir boltanum – Roy hefur reyndar verið að kaupa leikmenn sem eru nægilega slappir til að komast af í svona kerfi (aftur, leiðinlegt að vera að skrifa svona um leikmenn). Það þarf að breyta um taktík strax, en það eina sem Hodgson segir er að hann ætli ekki að breyta neinu, og já, að hann hafi einu sinni þjálfað Inter…

    Hann bað sjálfur um tíu leiki, hann er búinn með ca. það marga alvöru leiki og það má dæma hann núna. Það eru ekkert nokkrir leikmenn hauslausir, þeir eru það allir og það er aðal manninum að kenna. Ég sannfærðist endanlega um það að það væri rangur maður að stýra liðinu þegar stórkostlegur markmaður var beðinn um að breyta leik sínum í meira “english-style”, ég á aldrei eftir að geta skilið svoleiðis firru.

    Varð að segja þetta upphátt. Hef samt óbilandi trú á liðinu og spái að við náum að skora tvö og það dugi til sigurs. Jafntefli gerir ekki neitt fyrir mig…

  25. bíddu ertu að tala um reina þá ? var hann með of mikinn spanish-style í markinu ?

  26. Ef liðið lítur svona út eins og Twitter segja þá er ekki mikið hægt að setja út á þessa uppstillingu. Við eigum bara að vinna þetta Everton lið. Það er ekki flóknara. Neita að trúa öðru en leikmenn ætli að sýna nýjum eigendum hvaða lið ræður í Liverpool borg. Þetta er topp tími til að fá þennan derby slag. Við klárum þetta. Ég er handviss um það. Hef trú á að Cole verði maður leiksins. Hann þarf að sýna okkur að hann sé launanna virði. 0-2, Cole með bæði. YNWA

  27. Ef við töpum á morgun þá er það síðasti naglinn í líkkistu Roy Hodgson. Trúi ekki öðru og þar sem ég er nú eldheitur stuðningsmaður Liverpool og vil Roy burt þá er vissu hluti af mér sem vil að við töpum á morgun svo fíflið verði látið fara :/ Ég kvelst yfir því að sjá hvernig liðið spilar. Veit það er sick að segja þetta en hey desperate times call for desperate measures…

  28. Það getur ekki annað en verið að eigandaskiptin gefi leikmönnum Liverpool 1000 glyserin í rassgatið og þeir gjörsamlega valtið yfir Everton á morgun og gefi skýr skilaboð að Liverpool er komið til baka.ÁFRAM LIVERPOOL.YOU NEVER WALK ALONE!

  29. þetta er must win á morgun fyrir roy því ef liðið tapar þá vil ég sjá hann fjúka og ég ætla að biðja til gcuðs að poulsen byrji ekki ég meina maðurinn er hægari en allt en annar held ég að við tökum þetta 2-1 joe cole og gerrard með mörkinn YNWA !

  30. Ég vil fá að þakka aðstandendum kop.is fyrir frábæra síðu. Frammistaðan undanfarið er stórkostleg.
    En nú er það leikurinn á morgun, Must vin fyrir Hodgson en mikið meira fyrir leikmenn Liverpool .
    Viljið þið spila fyrir Liverpool áfram og framtíð liðsins, þá mætið þið inn á völlinn á morgun eins og grenjandi ljón og fórnið öllu fyrir Liverppol og rústið Everton. Go on figth for the Reds.

  31. Spái 1-2 sigri Liverpool á morgun, Gerrard og Lucas með mörkin.
    Hef alltaf verið talsmaður þess að gefa knattspyrnustjórum tíma. Þrátt fyrir afleidda byrjun ætla ég að gefa Hodgson séns ti fram að áramótum og ekki vera að væla í hverju einasta kommenti í hans garð. Skil fólk svo sem vel að vera orðið pirrað enda árangur hrikalegur. Fyrir Nokkrum mánuðum var það helvítis Benitez og helvítis Hicks nú helvítis Hodgson og ef við kaupum ekki leikmenn í janúar verður það líklega helvítis Red Socks gaurarnir…
    Ef að árangurinn fer ekki að skána fram á áramótum þá má láta Hodgson fara og þá treystum við nýjum eigendum og þessari stjórn fyrir að ráða nýjan stjóra, þangað til ætla ég að reyna að halda neikvæðnini í lágmarki.
    Takk fyrir frábæra síðu drengir!

  32. Á meðan Roy Hodgson er þjálfari Liverpool hefur hann minn stuðning, það helgast af því að ég er stuðningsmaður Liverpool. Fátt sem pirrar mig meira en “ég hef enga trú á honum en ef hann vinnur þá er þetta svo sem allt í lagi.” Áfram Roy, áfram Liverpool og svo framvegis.

  33. Ef liðið er eins og twitter gefur upp er ég sáttur nema að einu leiti, og er það stór MÍNUS. Að hafa Maxi í liðinu er algjörlega út úr kortinu. Hann er á sama stalli að mínu mati og Josemi. Hef ekki séð manninn gera nokkuð skapaðan hlut með Liverpool, sá allra slakasti í hópnum í dag. Hefði frekar viljað sjá Javanivic, Pacheco og meira að segja Babel fram yfir Maxi. Spái steindauðu jefntefli.

  34. hvernig í ósköpunum fær pirslahöfundur það út að liverpool sé með betri mannskap en everton,eru menn ekki svoltið blindir.

  35. e.f.c., ert þú ekki inni á vitlausri vefsíðu kúturinn minn? Tjáðu þig um Everton-“pirsla”höfundana á þinni síðu og vertu úti

  36. Staðfest lið: Reina, Carragher, Kyrgiakos, Skrtel, Konchesky, Maxi, Meireles, Lucas, Cole, Gerrard, Torres. Bekkur: Jones, Aurelio, Jovanovic, Babel, Ngog, Spearing, Kelly.

  37. Kemur mér ekki á óvart að Kyrgiakos sé í byrjunarliðinu og ég er nokkuð ánægður með það hann var skásti útilleikmaðurinn gegn Blackpool og reyndar líklega okkar hættulegasti sóknarmaður.

  38. Ein besta og skemmtilegasta upphitun sem ég hef lesið fyrir Liverpool leik. Þú færð mitt hrós fyrir hana og þið allir sem standið að síðunni. Þessi síða hefur verið líflína mín, sem og eflaust fleiri poolara, undanfarnar vikur. Ég var svo fáfróður að vita ekki af henni fyrr en fyrir um mánuði síðan og þvílík uppljómun þegar mér var sagt frá henni. Lífið er betra hérna megin við ána!

    En ótrúlega er ég sammála þér Irh – 34. Ég gjörsamlega þoli ekki hvernig Roy virðist vera að reyna að breyta leikstíl sumra leikmanna. Gott dæmi sem þú nefnir með Reina, annað dæmi er að Agger kemst ekki í liðið af því að hann vill helst spila boltanum úr vörninni… já greinilega ömurlegur leikmaður og hentar ekki í lið sem er sátt við stig hér og stig þar. Eins og kom fram í upphituninni þá er Roy, einnig að mínu mati, að gera rosalega margt vitlaust en vonandi breytist það í dag!

    Liverpool kveðja… Bjöddn

  39. 44.
    í alvöru. Gerrard, Reina, Torres, Cole, Meireles. Þarf að segja meira?

Heimaliðið og NESV

Liðið gegn Everton