Liverpool 3 – Aston Villa 0

Klukkan 19:03 birtist liðsskipanin þennan daginn:

Reina (c)

Johnson – Kyrgiakos – Skrtel – Konchesky

Kuyt – Lucas – Meireles – Maxi

N’Gog – Babel

Bekkur: Jones, Kelly, Aurelio, Poulsen, Cole, Jovanovic, Shelvey.

Konan hans El Nino valdi semsagt þetta kvöld til að eignast barn þeirra númer tvö og allt í einu stóð maður frammi fyrir því að sjá mikilvægan deildarleik án T & G & C!

En Hodgson á mitt hrós skilið fyrir það að halda sínu leikskipulagi, spilaði 4-4-2 ólíkt því sem ég reiknaði með fyrir leik og skellti Babel upp á topp eftir flotta frammistöðu í Búkarest. Sýndi pung og það var gleðilegt!!!

Við byrjuðum ferskt, pressuðum hátt á stressað Aston Villa lið, drifnir áfram af grimmd Babel og N’Gog og frábærri samvinnu Meireles og Lucas. Sköpuðum okkur þó ekki færi en þá fengum við fína hjálp þegar slakasti maður vallarins í kvöld Stephen Warnock ákvað að gefa sínu gamla liði hornspyrnu á 14.mínútu. Takk Stephen! Meireles tók hornið, Skrtel skallaði boltann inn í markteiginn þar sem David N’Gog kastaði sér inn í þvögu og skallaði boltann óverjandi í markið, 1-0 og Anfield gladdist.

Aðeins tveimur mínútum síðar var forystan tvöfölduð, góð pressa endaði á því að Lucas fékk boltann inni á miðjunni og stakk honum innfyrir vörnina á Ryan Babel sem var tæpur á því að vera rangstæður, en sem betur fer með Warnock í bakinu, hann lagði boltann vel fyrir sig áður en hann dúndraði boltanum í fjær, 2-0 og maður bara hálf dofinn í sætinu.

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks vorum við með leikinn þar sem við vildum, Aston Villa fékk ekki færi og Babel var næst því að skora þegar hann skaut naumlega framhjá eftir fína sendingu frá Meireles. En hálfleikstalan fín, 2-0 og liðið virkilega að sýna að það getur gert ýmislegt án stóru nafnanna!

Fyrstu mínútur seinni hálfleiks voru erfiðar, Houllier breytti í það að spila með þrjá litla og fljóta, dúndraði fram og ætlaði þeim að éta þá bolta sem detta, við fórum aðeins aftar og maður hafði smá áhyggjur af því að þeir fengju nú að pressa eitthvað, ekki síst eftir að Reina varði frábærlega frá Agbonlahor sem var aleinn í markteignum á 53.mínútu.

En á mínútu 55 var leiknum skellt í lás. Reina greip eina af tugum svifsendinga inn í teiginn, kom honum fljótt í leik á Maxi sem var við miðjuhringinn okkar megin, flutti boltann 30 metra áður en hann sendi á N’Gog sem kom á fullri ferð á varnarmennina og sendi svo snilldar utanfótarsendingu milli tveggja varnarmanna á Maxi Rodriguez sem tók boltann í fyrsta í hornið fjær fyrir framan Kop stúkuna. 3-0 og GAME OVER!

Það sem eftir lifði leiks vorum við nálægt því að setja fleiri mörk, en Brad Friedel og ónákvæmni í færunum varð til þess að við skoruðum ekki fleiri, komumst næst því þegar varið var frá Johnson eftir glæsitilþrif hans og svo var bjargað á línu frá Kyrgiakos. Virkilega jákvætt, þó eilítil neikvæðni hafi komið inn í lokin þegar fyrst Maxi og síðan Soto báðu um skiptingar vegna meiðsla. Vonum að það hafi ekki verið alvarlegt.

Öruggur 3-0 sigur, komnir í áttunda sætið í deildinni og Pepe Reina að setja félagsmet þegar hann hélt hreinu í hundraðasta skipti í efstu deild í 198 leikjum. Gamla metið átti legendið Ray Clemence, 217 leikir. Besti markmaður í heimi!!!

Liðið lék gríðarlega vel í kvöld. Trúi því ekki ef í gang fer umræða um að “hinir hafi bara verið lélegir” og við stútað leiknum þess vegna. Það er komin áræðni, sjálfstraust, vilji og barátta í þetta lið. Upplegg Hodgson var fínt og auðvitað er það eðlilegt að á einhverjum tíma í leikjunum fái hitt liðið að stjórna smá!

Reina var frábær í alla staði, búinn að koma Búkarestklúðrinu úr kollinum og skipti verulegu máli þó oft hafi reynt meira á hann. Soto og Skrtel náðu að spjara sig, þó er Martin karlinn tæpur með boltann í fótunum en samvinna þeirra verður betri og betri. Konchesky átti besta leikinn í rauðu treyjunni, áræðinn í fyrri hálfleik en þegar Downing kom á kantinn á móti honum varð hann passívur og leysti það vel. Um leið og Downing flutti sig frá Johnson varð karlinn sá einn öflugasti sóknarmaðurinn okkar og átti skilið mark eða stoðsendingu í kvöld. Velkominn til baka Glen!

Maxi heldur áfram að gera vel, ekki nokkur ástæða lengur til að pirra sig á hans framlagi. Klókur, duglegur og útsjónarsamur leikmaður sem sómir sér vel í treyjunni. Kuyt karlinn duglegri en allir í liðinu en í kvöld var hann nú sennilega sísti leikmaðurinn okkar. Lucas og Meireles eru algerlega að stimpla sig inn sem frábært miðjupar, léku frábærlega! Virðast þindarlausir, öruggir á boltann og grimmir í tæklingum.

Ryan Babel. Velkominn drengur!!! Viðurkenni fúslega að hafa afskrifað hann, en frábær frammistaða í Búkarest og virkilega ógnandi og flottur leikur í kvöld er enn einu sinni að snúa manni í þá átt að hann eigi meira skilið. David N’Gog hlýtur svo að hætta að pirra fólk. Skoraði í kvöld 19. mark sitt fyrir félagið og átti frábæra stoðsendingu á Maxi.

Svei mér þá. Eftir síðustu leiki er sólin að brjótast út á milli skýjanna. Fyrir 6 vikum fannst mér við þurfa 6 – 8 leikmenn í þetta lið okkar en með frammistöðum í síðustu leikjum finnst mér maður sjá bara nokkuð heilbrigðan hóp manna sem margir hverjir gætu nýst. Núna finnst manni vanta öflugri hafsent og grimmari kantmenn í janúar. Ef liðið og leikmenn halda þessu áfram og bæta sig getur veturinn bara enn orðið skemmtilegur!

Og gleymið því að heitt sé undir Hodgson. Það er að mínu viti ekki nokkrar líkur á því. Voru litlar fyrir kvöldið og engar að því loknu!

Enda þetta á að velja mann leiksins, þar standa fjórir uppúr. Lucas, Meireles, Babel og N’Gog. Ég vel að lokum N´Gog fyrir mark og stoðsendingu en er alveg til að skrifa upp á einhvern hinna þriggja!

Nú fáum við svo hvíld fram á laugardagseftirmiðdag þegar við mætum Newcastle á St. James’ Park. Bring it on!!!

78 Comments

  1. Pepe sló félagsmetið… Búnað halda hreinu í hundrað leikjum…

    Sló Bruce Grobelar og Ray Clemence við…

  2. Einfalt og öruggt. Hodgson er farinn að láta liðið spila mjög vel á heimavelli en hann þarf að fara að vinna útileiki til að tryggja sig í sessi. Fyrr gerist það ekki.

    Maður leiksins að mínu mati, Lucas Leiva. Maxi, Meireles, Ngog og Babel ekki langt undan. Pepe líka maður leiksins fyrir að halda hreinu í 100. leik sínum fyrir LFC fljótar en nokkur annar markvörður. Magnað afrek.

  3. Þessi framistaða var mjög góð hjá Liverpool í kvöld. Miðjan virkaði vel bæði varnarlega og sóknarlega, við sóttum upp kantana (þó meira hægra megin) og sendum boltann nokkrum sinnum fyrir. Sóknin stóð sig frábærlega og var sífeld ógn af Babel og N´gog. Vörnin var traust nema í þetta eina skipti þegar Downing setti boltann fyrir á Agbonlahor. Við pressuðum hátt nær allan leikinn og það borgaði sig þar sem við unnum boltann mun hærra á vellinum en vanalega og leiddi það af sér meiri sóknarhættu.

    Ég er stoltur af liðinu okkar í kvöld og ég verð að hrósa Hodgson fyrir uppstillingu liðsins og leikskipulagið, kallinn á skilið hrós fyrir það sem vel gengur.

  4. Virkilega flottur leikur hjá okkar mönnum í kvöld. Markamennirnir hefðu ekki getað verið betri að mínu mati, snilld að fá Babel inn á þann reikning, Ngog með snilldar mark og virkilega flotta stoðsendingu og Maxinn kláraði mjög vel. Fullkomið hefði verið ef Mireles hefði smellt einu :o) Ánægður með hvað við vorum að spila framarlega núna, þó að ég hefði nettar áhyggur fljótlega í seinni þegar við duttum full aftarlega… en góð teikn á lofti þar. Lucas og Mireles eru virkilega flottir saman á miðjunni, fannst þeir eiga snilldarleik. Eins vil ég hrósa Babel fyrir leikinn, fannst hann nýta sénsinn mjög vel, flottar hreifingar hjá honum þó hann hafi stundum tapað boltanum full klaufa/kæruleysislega…. Over-all Snilld :o)

  5. Góður Mánudagur!!! menn leiksins er klárlega Lukas og Meireles !!! Lukas var hreint stórgóður og Meireles var sá maður sem dró sóknarleikinn að mínu mati!!

    Pepe … frábært að slá metið hjá félaginu í 3-0 sigri og bera fyrirliðabandið í þokkabót 😉

  6. Þetta var glæsilegur sigur. Leikmenn að stíga upp þegar Torres og Gerrard eru fjarverandi sem er bara flott. Ég er sérstaklega ánægður með framlag Babel og Ngog, ekki öfundsvert hlutverk að fylla í og þeir gerðu þetta bara mjög vel. Liðið var líka að spila glæsilega á milli sín og eru greinilega hættir að vera hræddir og dúndra upp í loft.

    Ansi gaman líka að sjá meistara Xabi Alonso í stúkunni. Liverpool spilar alltaf vel í náveru hans.

  7. Veit það ekki, held mér sé farið að lítast nokkuð vel á Liverpool liðið hans Hodgson. Lucas er að verða feykigóður miðjumaður, hann er að vekja Babel af værum blundi og Maxi er líka að lifna við. Skyndisóknirnar eru með því besta sem maður sér og þetta virðist allt vera á uppleið. Ég meina, þrír síðustu deildarleikir hafa verið ansi góðir þótt tveir mótherjar á heimavelli hafi verið frekar slakir. Höfum nú haft lag á því undanfarin ár að tapa fyrir lakari liðunum.

    Verð að koma inn á tvennt í viðbót: Ég er ósammála Einari frá því í upphitun um að við eigum að gera kröfum um 100% árangur í desember. Útileikirnir gegn Newcastle og Blackpool verða þrælerfiðir en ef við spilum eins og í síðustu leikjum þá verður það ekkert mál.

    Svo er það þetta með Newcastle. Þessi klúbbur verður áfram brandari og sorglegur fyrir aðdáendur sína ef þeir ætla að hafa þetta svona áfram. Houghton er búinn að gera fína hluti með þetta lið og algjörlega út í hött að reka hann. Þetta verður til þess að félagið fellur aftur innan fárra ára. Líklega á næsta tímabili.

  8. Virkilega ánæður með þennan þægilega sigur. Það var kraftur í Ryan Babel og loksins sýndi hann hvað hann getur gert. Vona að hann fái aðrar 90 min í næsta leik enda á hann Það skilið. Síðan voru flestir að leika vel og gaman var að sjá Johnson koma endalaust upp völlinn, NGog skora og leggja upp og Maxi nýta dauðafæri.

    En við þurfum að fara að sjá þessa hluti á útivelli líka!

  9. Virkilega góður leikur. Við droppuðum aðeins einu sinni niður í seinni hálfleik en þetta virkaði alltaf öruggt. Margir mjög góðir í kvöld en VÁÁÁ hvað Glen nokkur Johnson er góður sóknarlega séð! Ég er ekki frá því að sending frá Kuyt aftur völlinn geti loksins talist sóknarsinnuð ef hún er aftur á Johnson 🙂

  10. Ég hélt að ég myndi aldrei segja þetta, en Lucas er að verða hörku leikmaður 🙂

  11. Hrein og tær snilld. Ég hef verið að fara á Players í vetur að horfa á leiki og þar hefur ekki gengið vel. Kíkti því á hverfiskránna Ölver og þar gekk betur. Mun fara í mitt sæti og og horfa á minn skjá á Ölver framvegis :=)

    Mikið hrikalega er ég líka sáttur með að Babel sýndi loksins hvað í honum býr. Hann verður að halda svona áfram og berjast eins og ljón um alla bolta. Maður leiksins er samt að mínu mati Lucas Leiva og þvílík virkni í manninum. Annars var liðið allt frá vörn til sóknar að spila fantavel. Ég blæs á það að Villa hafi verið eitthvað lélégir. Þú spilar bara eins vel og andstæðingurinn leyfir. Sanngjarn sigur og afskaplega fallegur sigur í þokkabót !

  12. Glæislega léttur og góður leikur, vonandi að þetta haldi svona áfram.
    Menn eru að koma inn með leiðindar comment eins og að villa séu bara of lélegir… Okey Villa var án margra að sinna bestu leikmanna, en hvað með það? það vantaði Carra,Torres og Gerrard í okkar lið… Kannski voru Villa menn bara svona lélegir afþví við vorum að yfirspila þá og leika okkur að þeim… kannski 🙂

    Maður leiksins að mínu mati er umdeildur maður að nafni Lucas Leiva, Brasilíumaðurinn sem enginn hefur trú á, og sumir halda því fram að Liverpool hafi keypt vitlausan Lucas 🙂
    Hann var frábær í þessum leik og djöfull vona ég að hann haldi áfram á þessari braut!

    En svo er spurningin, Er þetta besti mánudagur í langan langan tíma? 😀

    ÁFRAM LIVERPOOL!

  13. Frábær leikur og loksins gat ég horft á Liverpool spila og ég setið afslappaður á meðan enda var þetta öruggt allan leikinn og enginn hætta.
    Svo var Torres að eignast strák LEO TORRES, vonandi fær hann bara samning strax.

  14. Nafni minn verður aðeins að slaka á neikvæðninni….

    Ef andstæðingar okkar spila ekki vel þýðir það að við megum ekki gleðjast ef við vinnum?

    Ef að við spilum alltaf á móti “slökum” andstæðingum og vinnum með stæl þá getum við bara verið sáttir…

  15. Hodgson er farinn að láta liðið spila mjög vel á heimavelli

    Tja, ef Hodgson hefði fengið að ráða hefðu Carragher, Gerrard og Torres verið í liðinu 🙂 Auk þess væru hvorki Lucas né Babel hjá liðinu (hann reyndi að selja þá á lokadegi gluggans)

    Fín frammistaða en mér finnst samt út í hött að bakka eins og liðið gerði góðan part leiks í stöðunni 2-0 og 3-0. Af hverju ekki að pressa framar þegar það er augljóslega að virka vel þegar liðið fer í þann gírinn?

    Lucas Leiva var góður í þessum leik eins og í flestum leikjum sem hann hefur spilað fyrir Liverpool liðið.

    Við vitum samt að stjórinn getur ekki beðið eftir því að fá tækifæri til að breyta þessari miðju sem er að þrælvirka – Gerrard fær “stöðuna sína” þegar hann kemur aftur.

  16. Kaupa Torres Junior í dag!!! 35 ára samning á borðið áður en hin liðin fara í samkeppni við okkur!

    Lucas, Mereiles, Johnson og Babel voru nokkuð öflugir í kvöld og aldrei þessu vant þá gerði Konchesky ekkert fáranlegt í leiknum. Nokkuð öflugt bara.

  17. Lucas maður leiksins…. hann er búinn að spila rosalega vel á þessu seasoni… eini leikmaðurinn sem er að sýna framför fra því í fyrra

  18. Lucas Leiva maður leiksins, hands down! Er að fíla hann og Meireles alveg í botn þarna á miðjunni, báðir alveg ótrúlega rólegir og solid á boltann og fljótir að senda hann í fætur á mönnum.

  19. Flott 3 stig þó sigurinn hefði alveg mátt vera stærri.

    Núna er framhaldð undir Hodgson komið, hefur maðurinn púng til þess að sækja 3 stig á útivelli? ef svo er þá vinnum við núna 10 leiki í röð og verðum allaveganna komnir í topp 4 um miðjan Janúar ef ekki ofar og hananú.

  20. @Arnar
    Ég myndi nú segja að Maxi sé að spila betur í ár en í fyrra – Hann er búinn að vera að sýna fína takta upp á síðkastið!

    Er hinsvegar sammála með Lucas. Hann er gjörsamlega búinn að láta mig gleyma Mascherano, sakna hans bara ekki neitt…

  21. Mér fannst virkilega gaman að horfa á liðið í kvöld en það sýndi virkilega flotta fótbolta. Það er líka gott að vita til þess að liðið á mikið svigrúm inni til þess að bæta sig í ljósi þess að Gerrard, Torres, Cole og Carra hafa ekki verið uppá sitt besta á þessari leiktíð so far.

    Það verður forvitnilegt að sjá liðið á móti Newcastle og vonandi að liðið nái að fylgja þessum sigri eftir með þremur stigum þar. Það verður gaman að sjá hvernig Newcastle liðið mun mæta til leiks undir stjórn Meistara Peter Beardsley.

  22. Sá fyrri hálfleik og hann var bara mjög góður. Eins mikið og Roy hefur ferið í taugarnar á mér þá hefur hann sett upp með að spila sóknarleik í síðustu deildarleikjum. Ef hann heldur áfram á þessari braut þá hugsanlega get ég sætt mig að hafa þennan mann á hliðarlínunni.

    Flott hvað Maxi er farinn að fá að spila eins og hann gerði alltaf hjá A. Madrid, að vera á köntunum og stinga inn í holuna. Lucas og Meireles eru að gera frábæra hluti á miðjunni.
    Persónulega er ég hrifnari af því að spila Kyrgiakos í vörninni til að ná skallaboltunum þannig ég held að fjarvera Carragher sé engin martröð fyrir liðið.
    Ekki slæmt ef liðið er að ná að mótast í höndunum á Hodgeson… En hann þarf heldur betur að vera á tánnum ef hann ætlar að halda áfram að mjaka sér í rétta átt meðal stuðningsmanna okkar ástkæra liðs!

  23. Sælir félagar

    Ég er að mestu sáttur við leik okkar manna og fannst Lucas helv… góður. Eins var ánægjulegt að sjá Ryan Babel í góðu formi og lét aðeins skína í þá hæfileika sem maður veit að hann hefur. Mætti gjarna gera það oftar annars nokkuð sáttur við alla leikmenn liðsins, meira að segja Konchesky sem var bara býsna góður á köflum. Mikið var ég samt óánægður með skiptinguna Maxi – Aurelio. Þar vildi ég fá Jovanovic inn og pressa eitt mark í viðbót. En samt – sáttur með 3 mörk og 3 stig.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  24. …jákvæð spilamennska….jákvæð úrslit….fleiri stig á útivelli….þá er fjórða sætið alls ekki fjarlægt…

  25. Nokkuð sannfærandi sigur, vel gert. Lucas og Meireles voru öflugir á miðjunni. Mér finnst Ngog einnig vera orðinn líkamlega sterkari sem er nauðsynlegt í EPL. Vil samt sjá Aurelio í stað Koncesky.

    Nú þarf Hodgson að leggja upp með sama skipulag í leikina á útivelli. Þýðir ekki að fara í skotgrafirnar og spila eins og Fulham þegar við erum á útivelli!! En góður sigur í kvöld:)

  26. sæll mummi….

    samála þér… goggi er líka að bæta sig mikið og á vonandi eftir að fá að blómstra hjá liðinu….
    en því miður eru aðrir í liðinu ekki að standa sig eins vel í ár og í fyrra, þá að allt liðið hafi spilað vel í dag….. eg held að men þurfa að fara að sætta sig við að þetta miðvarða par sem við notuðum í dag er það besta sem við höfum

  27. Fínasti leikur hjá okkar mönnum, fyrir þá sem þurfa endilega að míga á sig vegna þess að sumir gleðjast yfir því þegar við vinnum leiki má benda á að fyrir leikinn var ekki mikill munur milli liðana á töflunni, þannig að Aston Villa hafa nánast verið jafnokar okkar manna á tímabilinu.

    Margt jákvætt í þessum leik, Ngog og Babel virkuðu vel saman og fín stemning í liðinu heilt yfir.

    Ég hef fulla trú á sigri í næsta leik líka þar sem Liverpool hafur lengi haft það fyrir vana að vinna Newcastle, oft í miklum og spennandi markaleikjum.

    Svo vil ég bara óska Reina til lukku með árangurinn, 100 leikir án þess að fá á sig mark, á mettíma, og gaman var að sjá Xabi Alanso í stúkunni dúðaðan í kuldaklæðnaði upp fyrir nef : )

    Gleðjumst þegar tilefni er til, það er alveg nóg að vera í fílu þess á milli.

  28. Og gleymið því að heitt sé undir Hodgson. Það er að mínu viti ekki nokkrar líkur á því. Voru litlar fyrir kvöldið og engar að því loknu!

    Í alvöru?

  29. Held það Matti.

    Miðað við það sem Comolli talaði um í viðtalinu eru hann og Hodgson að fara yfir leikmannakaupin í janúar og hrósaði frammistöðu liðsins að undanförnu.

    Henry twittar svo í kvöld og óskar Reina til hamingju með metið og liðinu og þjálfarateyminu fyrir mikilvægt skref upp töfluna. Hef ekki séð einn áreiðanlegan miðil tala á þeim nótum að heitt sé undir karli og held að svo sé ekki. Kannski er það vitlaust – sjáum til.

    Hins vegar held ég að brátt hitni undir Houllier karlinum. Villa minntu mig óþægilega á LFC lið hans síðustu tvö árin hans á Anfield. Halda boltanum og láta hann ganga á milli sín langt úti á velli, svo verið að dúndra háum boltum í teiginn í von um að eitthvað frákastið lendi á góðum stað og úr því verði mark. Baulað á þá í hálfleik og flestir Villa-aðdáendur farnir í leikslok. Hann á auðvitað mína samúð með öll sín meiðsli en þetta lið var að leika eins og lagt var upp með og var allan tímann jafn hugmyndasnautt og LFC liðið lengst af 2003 – 2004. Og svo hljóta allir LFC menn með sómatilfinningu að hætta að ræða Warnock. Sá var slakur í kvöld, maður lifandi!!!

  30. Ég er sammála Einari Erni og ósammála Ívari Erni. Auðvitað eiga stuðningsmenn Liverpool að gera þá kröfu að vinna Blackpool á útivelli, common! Enginn að tala um að það verði léttur leikur en krafan á alltaf að vera sigur, og það á í raun við Newcastle leikinn líka, þetta eru nýliðar, 6 stig og ekkert annað!

    Annars góður leikur í kvöld. Erum að fikra okkur í rétta átt.

  31. Er orðin mjög spenntur fyrir Newcastle leiknum. Veit hreinlega ekki hver á að detta út fyrir Torres en það verður líklega því miður Ryan Babel, sem á það svo sannarlega ekki skilið.

    Vonandi náum við góðu win-streaki núna.
    Og já, Lucas klárlega maður leiksins og er klárlega að stimpla sig inn sem top5 bestu varnarmiðjumönnunum í deildinni.

  32. Mér finnst að kuyt ætti að detta út, þó hann vinni mjög vel þá var hann að eyðileggja sumar sóknirnar með að missa boltann aaaalltof klaufalega frá sér.

  33. Á ekki Gerrard líklega að detta inn í næsta leik líka?? ætli hann og Torres detti þá ekki inn frammi fyrir Ngog og babel? það væri ljótt en það er heldur ekki hægt að slíta þessa miðju hjá Mereles og Lucas. hann hlítur að hafa þá tvo þarna á miðjunni Gerrard fyrir aftan Torres og svo verða Babel, Maxi bara að berjast um vinstri kantinn og Kuyt á hægri. Eða spurnig um að fara bara í hreint 433 lucas,Gerrard, Mereles miðja og Babel, Torres, Ngog frammi. og og og eða Shit veit ekki hvernig á að púsla þessu liði saman of mikið af kantmönnum og framherjum í þessu liði 🙂

  34. Það má deila um margt sem Hodgson hefur gert á þessu tímabili en það má líka hrósa honum fyrir það jákvæða sem hefur breyst í leik liðsins.

    Hodgson er farinn að spila reglulega 4-4-2 leikkerfi, oftar en Benítez gerði allan sinn feril.
    Hodgson er ekki hræddur við að skipta sóknarmönnum inn fyrir sóknarmenn, jafnvel þó við séum yfir, eitthvað sem Benítez gerði nánast aldrei.
    Hodgson lætur einn framherja bíða upp á toppi í varnarhornspyrnum, eitthvað sem Benítez gerði ALDREI.
    Hodgson fagnar mörkum og öskrar á menn, eitthvað sem Benítez gerði nánast aldrei.
    Hodgson notar maður á mann dekkningu í varnarhornspyrnum sem virkar mun betur en svæðisvörnin sem Benítez reyndi allan sinn feril með Liverpool með mjög misjöfnum árangri.

    MOTM: LUCAS LEIVA

  35. Matti. Átta mig illa á þessari Gerrard þráhyggju þinni. Virðist nota hvert tækifæri til að skíta hann út sem miðjumann. Ég held að einu stöðurnar sem Gerrard gæti ekki leikið betur en núverandi leikmenn liðsins séu markmaður (Reina) og striker (Torres). Hann hefur borið þetta lið á herðum sér undanfarin ár og er einn hæfileikaríkasti leikmaður í glæstri sögu Liverpool.

    Lucas og Meireles, og þá sérstaklega Lucas, áttu stórgóðan leik í dag. Og hugsanlega væri snjallt að setja Gerrard í holuna eða á annan hvorn vænginn þegar hann verður fitt miðað við þann mannskap sem er á boðstólnum í dag. En ég get ekki með nokkru móti kvittað undir þá skoðun þína að Gerrard sé slakur miðjumaður, ekki frekar en þá skoðun þína að Roy Hodgson væri fáviti sem ætti umsvifalaust að reka þegar 5 umferðir voru búnar af deildinni.

  36. Smellum bara Gerrard upp á topp með Torres, höldum 4-4-2. Málið leyst

  37. Þar sem það er eðlilegt að hrósa Hodgson fyrir það sem hann gerir vel eftir þennan leik, eins og margir hérna hafa gert, þá er líka gaman að sjá eftirfarandi ummæli:

    “I think we shot ourselves in the foot early doors, we’re still limping but the limps getting better.

    “We’re playing better every game, I think the shape of the team was good throughout and I thought our concentration was good throughout, so it was a comfortable victory but comfortable victories have to be fought as well.” (Komment eftir leikinn, sótt á goal.com).

    Maður getur ekki verið annað en sammála þessu, liðið var hreint út sagt hrikalegt á fyrsta fjórðungi tímabilsins og það má segja að óvissa með eigendur, slæmt persónulegt form manna og svo auðvitað neikvæð taktík Hodgson hafi “skotið það í fótinn”. Þetta sýnir það líka að hann gerir sér grein fyrir þessu og alvarleika málsins.

    Ég er sérstaklega ánægður með eftirfarandi bút “… but comfortable victories have to be fought as well.”, því þetta hefur einmitt verið okkar versta vandamál í gegnum tíðina. Við erum að gera góða hluti í erfiðum stórleikjum þegar mikið er undir, en klikkum á litlu leikjunum sem samt skila jafn mörgum stigum. Öruggir sigrar á heimavelli gegn West Ham, Aston Villa eru dæmi um svona leiki, sem eru að detta inn þessar vikurnar og það er vel.

    Mér finnst reyndar rétt að prófa aðeins að ræða deildarleikina til þessa með því að skipta þeim í þrjá flokka, en þetta er þó ekki mjög vísindalegt og aðeins tilraun til að greina stöðuna aðeins. Að sjálfsögðu er það skilyrði fyrir þessari greiningu að deildin er þannig að öll lið geta verið erfið, sérstaklega á heimavelli, hver sá sem er í vafa um það getur skoðað dreifinguna á úrslitunum og komist að því að flestir geta unnið flesta. Þess vegna er skalinn léleg-meðalgóð lið mjög afstæður.

    a. Útileikir gegn litlum/meðalstórum liðum, neikvæð knattspyrna spiluð, liðið svipur hjá sjón, stundum sleppum við með jafntefli, stundum ekki. Lítill séns á að taka öll stigin með heim. Bolton leikurinn fellur líka inn í þennan flokk, því það var heppnisstimpill á þeim sigri, þótt hann hafi vissulega verið sætur. Niðurstaða: Óviðunandi

    b. “Stórleikir”, gegn topp 5 liðunum; Manchester United, Arsenal, Chelsea, Tottenham, Manchester City. Við erum blessunarlega búin með öll þessi lið og líkt og oft áður hefur liðið náð að sýna rétt andlit í þessum leikjum og í rauninni yfir litlu að kvarta. Arsenal leikurinn var óheppni, Man. City var katastrófa sem átti sér margar ástæður og er ekki hægt að kenna Roy um hana að öllu leyti, enda þurfti hann að breyta um taktík á erfiðum útivelli á síðustu stundu vegna þess að ákveðinn leikmaður “beilaði”. Manchester United leikurinn var illa spilaður á mjög erfiðum útivelli, en liðið sýndi samt mikinn karakter með að koma inn í hann aftur. Chelsea leikinn þarf ekki að ræða. Tottenham var sömuleiðis vel spilaður og ekki mikið yfir honum að kvarta öðru en úrslitunum og það vantaði auðvitað herslumuninn að sækja áfram í seinni hálfleik. Everton leikurinn er síðan stórleikur af augljósum ástæðuml. Hann var auðvitað hræðilegur og spilamennskan í honum var til skammar og ætti heima í flokki a. Niðurstaða: Viðunandi

    c. Heimaleikir gegn litlum/meðalstórum liðum. Það verður ekki tekið af Roy að hann hefur bætt sig klárlega á þessum grundvelli, ólíkt kannski flokk A. En eins og ég nefndi hér áður, þá er þetta flokkurinn sem við höfum átt í mestum vandræðum með. Skorið í síðustu 4 heimaleikjum er 12/12 (!), sem hlýtur að vera besta heimaleikjarecord á 2. fjórðungi deildarinnar. 3 af þeim voru leikir sem við eigum bara að klára, no matter what, en það er líka nákvæmlega það sem hefur gerst – við kláruðum þá. Vissulega var leikurinn á móti Blackpool hræðilegur, sem og jafnteflið við Sunderland, en það jákvæða er að hlutirnir hafa gjörsamlega snúist við hvað það varðar. Anfield er aftur orðið eitt hættulegasta vígið í deildinni og verður það vonandi áfram út leikárið og um alla tíð.
    Niðurstaða: Mikil framför

    Svona er þetta nú. Einhverjir kunna að líta á þetta sem varnargrein fyrir Hodgson, en ég er fyrsti maðurinn til að viðurkenna að hann á enn langt í land. Hann þarf að breyta úrslitunum á útivelli og sýna að liðið geti viðhaldið þessu formi sem það hefur sýnt heima. En við megum ekki taka það af honum að hann er ca. á pari í stórleikjunum og hefur tekist að snúa við heimaleikjunum þannig að liðið spilar mjög sannfærandi bolta (nú síðast í kvöld). Framtíð hans veltur hins vegar, held ég, á flokki a.

  38. Þá er að fylgja þessum sigri eftir !

    Næstu leikir: Newcastle úti, Fulham heima, Blackpool úti, Wolves heima, Bolton heima, Blackburn úti, Everton heima, Wolves úti. Liverpool getur alveg unnið alla þessa leiki. Þetta er gott tækifæri fyrir Hodgson til að sýna að hann eigi skilið “annað” tækifæri frá okkur Liverpool stuðningsmönnum.

  39. Baros, Steven Gerrard er ósköp einfaldlega ekki góður á miðri miðjunni. Það er ástæða fyrir því að stjórar eins og Benitez, Capello og fleiri hafa kosið að nota aðra leikmenn í þeirri stöðu. Gerrard hefur spilað sína bestu leiki á ferlinum annað hvort á hægri kanti eða í holunni.

    Ég held að einu stöðurnar sem Gerrard gæti ekki leikið betur en núverandi leikmenn liðsins séu markmaður (Reina) og striker (Torres).

    Þetta er bara barnalegt.

    En ég get ekki með nokkru móti kvittað undir þá skoðun þína að Gerrard sé slakur miðjumaður, ekki frekar en þá skoðun þína að Roy Hodgson væri fáviti sem ætti umsvifalaust að reka þegar 5 umferðir voru búnar af deildinni.

    Nei, árangurinn er einmitt búinn að vera stórkostlegur síðan ég sagði það 🙂 Liverpool er í áttunda sæti deildarinnar, með eitt mark í plús.

    Það er ljóst að metnaður margra stuðningsmanna hefur hrunið, nú styðja þeir miðlungsklúbb sem trónir fyrir miðri deild og vinnur léleg lið (eða tapar “vel” á útivelli).

    Ég bendi bara á að þrátt fyrir að sigurinn í gær hafi verið nokkuð góður, þá var spilamennskan á köflum afar slök en góð öðrum stundum. Það er einnig staðreynd að stjóri liðsins neyddist til að setja þetta lið á völlinn en ekki sitt lið.

  40. Mascherano hvað? kemst ekki einu sinni í byrjunarlið barca og ákveðnir stuðningsmenn vilja hann aftur. Fatta ekki pointinn í því, Lucas og Meireles eru bara frábært miðjupar. Ég hef sagt það áður og ég segi það enn Mascherano hvað?

  41. “neyddist til að setja þetta lið á völlinn en ekki sitt lið” …. hahahahha … það var til dæmis ekkert sjálfsagt mál að Babel kæmi inn fyrir Torres, en hvaða lið var þetta ef þetta var ekki liðið sem Hodgson valdi ?

    Fáranlegt að reyna að rýra sigurinn af því að það vantar stærstu nöfnin og því ekki liðið sem Hodgson hefði valið ef allir væru heilir. Ég mundi frekar segja að það væri styrkur að vinna án stóru nafnanna og hrósa Hodgson fyrir að spila með tvo frammi gefa Babel sénsinn þar.

  42. Sæll Matti. Gerrard er það hæfileikaríkur að það skiptir ekki öllu máli hvar hann spilar. Hann hefur spilað ýmsar stöður hjá Benitez og Capello. Benitez setti hann stundum á vænginn og samt var hann besti maður liðsins. Hugsanlega segir það eitthvað um samherja hans.
    Menn hafa vitaskuld misjafnar skoðanir á því hver besta staða Gerrard, Ancelotti er a.m.k. hrifinn af honum sem miðjumanni:

    “In Italy, when I played, there were players like [Giancarlo] Antognoni at Fiorentina, Rainer Bonhof in Germany. Today, Gerrard. Full stop. He can be a holding midfielder. He has fantastic shots, passes and skills. He is the complete midfielder,” said Ancelotti.

    “Steven Gerrard er ósköp einfaldlega ekki góður á miðri miðjunni” segir þú. Ég get bara ekki verið sammála því.

    Varðandi hina “barnalegu” skoðun mína að “að einu stöðurnar sem Gerrard gæti ekki leikið betur en núverandi leikmenn liðsins séu markmaður (Reina) og striker (Torres), er fróðlegt að skoða málið. Gefum okkur að þú sért að velja liðið og þurfir að velja á milli Gerrard og þess leikmanns sem lék í gær:

    RM: Kuyt/Gerrard
    LM: Maxi/Gerrard
    CM: Meireles/Gerrard
    CM: Lucas/Gerrard
    RB: Johnson/Gerrard
    LB: Konchesky/Gerrard
    CB: Skrtel/Gerrard
    CB: Kirgi/Gerrard

    Eina skiptið sem ég yrði í vafa hér er með Kirgi. Hvaða leikmönnum héldir þú í sínum stöðum frekar en Gerrard?

  43. Ég hefði sett Gerrard á hægri kant í gær. Aðrar stöður er hann ekki að spila betur en þeir leikmenn liðsins sem voru á vellinum í gær. Hugsanlega vinstri bakvörð.

    Gerrard er frábær leikmaður en liðin sem hann spilar með virka ekki vel þegar hann spilar á miðjunni. Af hverju? Jú, vegna þess að hann hefur ekki það sem góður miðjumaður þarf að hafa – hann hefur ekki þolinmæði og hann velur ekki alltaf besta kostinn. Hann velur miklu frekar erfiðasta kostinn sem gerir það að verkum að hann missir boltann alltof oft fyrir miðjumann. Hann fer líka of mikið úr stöðu, þannig að hann virkar ekki á miðjunni nema með leikmanni sem heldur sér þá þar og fer aldrei af svæðinu (Hamann).

  44. Kemur ekki á óvart. Það er farið að lofsyngja hvern einasta leikmann liðsins. Maxi frændi ykkar hefur ekki átt meira en 200 góðar mínútur samtals með liðinu en var góður í gær og hann er allt í einu orðin leikmaður? Veit að hann er í landsliðinu, eða var… enda þjálfarinn ekkert með allt á hreinu á þeim bænum.

    Lucas er fínn leikmaður í skítavinnunni! Babel á að fá meiri séns, töluvert betri en Ngog. En róum okkur í gleðinni. Einn góður sigur og menn dansa á skýi.

    Jólin eru að koma en slaaaaakir.

    Fergie for life

  45. Let me get this straight. Menn eru actually að diskutera hvort Gerrard sé góður eða lélégur miðjumaður???
    Þetta hlýtur að vera eitthvað grín. Held að ákveðinn aðili ætti að drífa sig á scum chat síðurnar ef þær eru þá til.

  46. Góður leikur hjá okkar mönnum, höfðum öll tök á þessum leik… Villa átti einfaldlega ekki séns… Lucas er að verða fanta góður miðjumaður og hann bara af í þessum leik hvað varðar, sendingar, dugnað og var sífelt vinnandi fyrir liðið…. Nú er bara að vinna Newchastle og þá held ég að við séum að klifra hægt og rólega upp sjálfstraust töfluna hjá okkur og þá verður nýtt ár bara skemtilegt…..

  47. Ég verð nú að vera sammála Matta hérna með hann Gerrard okkar.

    <

    p>
    Gerrard er mjög góður leikmaður en Gerrard hefur líka að hluta til verið okkar besti og versti leikmaður. Það þarf að koma honum fyrir því hann er besti leikmaður liðsins, en af einhverjum ástæðum þá hefur hans besta staða aldrei almennilega fundist.

    <

    p>
    Gerrard er duglegur og ósérhlífinn, en eins og Matti bendir á þá fer hann oft út úr stöðunni og velur frekar erfiðu leiðirnar, eða eins og sagt “He goes for the glory pass…”

    <

    p>
    Ég held að það gæti verið nokkuð öflug miðja að hafa Maxi á vinstri, Lucas og Meireles á miðri miðjunni og svo Gerrard úti á hægri kanti þar sem hann getur flakkað um að vild. Glen Johnson er að vakna og var að koma vel upp í óverlapp á Kuyt í síðasta leik þannig að Gerrard – Johnson combo þar gæti virkað mjög vel.

    <

    p>
    Vandamálið er bara að það þarf að koma Gerrard fyrir því hann er góður og þess vegna hefur hann verið settur á miðja miðjuna, í holuna, vinstri kant, hægri kant, jú hann byrjaði sem hægri bakvörður… 🙂

  48. Að undanförnu hef ég varið Hodgson og bent á að þó að úrslitin hafi ekki verið eins og við vonuðumst eftir að þá væri hann að gera hluti sem margir hafa kallað eftir á blogginu undanfarin ár.

    Ég vil þó taka það fram að ég geri miklar kröfur til liðsins og tel að okkur vanti heimsklassa leikmenn til að lyfta liðinu á hærra plan.

    Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem ég er ánægður með hjá Hodgson.

    1. Hann stillir yfirleitt upp sterkasta liðinu og fáir sem hafa út á uppstillinguna að setja. Í mínum huga skiptir þetta öllu máli. Þeir sem fylgjast grannt með Liverpool eru fljótir að átta sig á því hverjir eru að standa sig og hverjir ekki. Ef þú stendur þig færðu að spila og þú átt alltaf séns á að sanna þig fyrir þjálfaranum. Besta dæmið er Babel sem ég afskrifaði algjörlega fyrir nokkrum vikum síðan. Sama með Lucas sem mér fannst litlu betri en miðlungsleikmaður. Babel á ennþá sénsinn en verður að spila vel oftar . Hann hefur unnið sér inn nokkur tækifæri í viðbót. Lucas er að nálgast það að vera heimsklassa miðjumaður en það er einmitt sá standard sem leikmenn Liverpool þurfa að uppfylla.

    2. Hodgson spilar með tvo frammi. Það má lengi ræða hvaða uppstilling er best en það hefur mikið verið kvartað undan því að fáir leikmenn spili framarlega á vellinum. Við hljótum að fagna því þegar Hodgson spilar með tvo frammi og þó svo að liðið falli stundum full langt til baka þá verðum við að vona að með auknu leikformi geti liðið haldið sér framar á vellinum.

    3. Leikmenn eru að komast í form. Það er einmitt þetta sem ég fíla hvað mest með Hodgson. Hann róterar liðinu sem allra minnst. Það gerir það að verkum að sífellt fleiri leikmenn eru að komast í gott spilform. Maxi og N´gog eru ágætt dæmi um það. Báðir hafa fengið sénsinn og mikinn spilatíma og báðir eru að verða öflugri og öflugri.

    4. Öflug liðsheild. Til að það ná fram góðri liðheild verða menn að fá að spila sem oftast saman. Mín tilfinning er að leikmenn séu farnir að spila hver fyrir annan. Fagna saman þegar mörk eru skoruð og biðja hvorn annan afsökunar á misheppnuðum sendingum. Brosa jafnvel og leikgleðin er að brjótast fram. Þetta finnst mér hið allra besta mál og við verðum að telja það Hodgson og þjálfarateyminu til tekna.

    Ég held að fótbolti sé ekkert sérstaklega flókið fyrirbrygði. Strákar í 6. flokki eru til að mynda fljótir að átta sig á því þegar þjálfarinn velur ekki þá bestu í A-liðið. Þeir eru með þetta nokkuð á hreinu og þegar kosið er í lið eru yfirleitt sömu strákarnir kosnir fyrstir. Svo skynja þeir líka þegar einhver er að bæta sig og á skilið að fá sénsinn. Þegar þjálfari skynjar þetta ekki eins og strákarnir eða leikmenn á hverjum tíma myndast spenna og menn verða óöryggir. Leikmenn spyrja sig þá – hvað á ég að gera til að komast í liðið? Skiptir engu hvort ég spilaði vel í síðasta leik og skoraði mark ég var settur á bekkin. Ég ég kannski að sleikja þjálfarann upp? Fótbolti á að vera einfaldur og til að komast í liðið þarftu einfaldlega að sína að þú eigir þar heima og standa þig vel. Skiptur engu hvað þú heitir eða hefur gert í fortíðinni. Þeir bestu á hverjum tíma fá að spila.

    Tökum Joe Cole sem dæmi. Hann á fínan feril að baki en hefur verið óheppinn með meiðslu upp á síðkastið. Á hann að fara beint í liðið? Nei – hann er langt frá því að vera kominn í sitt rétta form. Babel hins vegar stóð sig vel í síðasta leik og hann átti skilið að fá sénsinn. Svo var fínt að fá Cole inn á til að gefa honum tækifæri til að sanna sig og koma sér í spilform.

    M.ö.o. Hodgson er að gera ágætis hlut með liðið og vonandi heldur hann og liðið sínu striki í desember.

    Áfram Liverpool!

  49. Hössi mér finnst punktur 1, 2 og 3 vera eiginlega sami punkturinn eða að minnsta kosti afleiður af hvort öðrum.

    Auðvitað má reyna að hrósa Roy Hodgson og finna eitthvað gott. En Meginatriðið er að maðurinn kemur hrikalega illa út úr viðtölum, talar niður Liverpool, væntingar, drauma, árangur og metnað. Hann er búinn að segja meira rangt í vitölum heldur en allir forverar hans hjá Liverpool. Alveg sama hvaða þjálfari ætti í hlut sem mundi tala svona um liverpool þá mundi ég vilja sjá hann burt. Hans vera þarna er ekki Liverpool bjóðandi.

  50. Hann (RH) stillir yfirleitt upp sterkasta liðinu

    Ég er algjörlega ósammála þessu. RH stillir upp sínu liði og einu breytingarnar sem hann gerir koma til vegna þess að hann neyðist til að gera þær. Carragher er ekki búinn að eiga gott mót. Samt spilaði hann alltaf þar til hann meiddist. Gerrard var hörmulegur í nokkrumn leikjum. Átti hann á hættu að missa stöðu sína á miðri miðjunni áður en hann meiddist? Torres var skelfilegur í sumum leikjum? Einhver hætta á að detta úr liðinu? Neibb.

    Konchesky virðist öruggur með sæti í liðinu. Hefur hann verið að spila vel? Uh, nei.

    RH stillir upp sterkasta liðinu á pappír en fer ekki eftir frammistöðu leikmanna.

    Held að ákveðinn aðili ætti að drífa sig á scum chat síðurnar ef þær eru þá til.

    Athugasemd B. er nú með níu þumla upp. Ég held ég hætti að tjá mig hér ef þetta er standardinn á umræðunni.

  51. Hér hefur eitthvað verið rætt um mann leiksins,
    flestir á því að Lucas eigi það skilið og svo nefndi Meireles, Babel og Ngog.

    Ég er á því að Lucas hafi enn einn leikinn í vetur spilað frábærlega og klárlega maður leiksins.
    Á opinberu síðunni er svo könnun sem tekur undir þetta, Lucas efstur svo koma Babel, Meireles og svo Ngog. Þetta er í miklum samhljóm við skrif Liverpool-mann hér.

    Hins vegar sá ég að Ngog var valinn hjá Sky og var Barclay’s Man Of The Match.
    Flottur leikur hjá honum en persónulega finnst mér ótrúlegt að horft sé framhjá Lucas, en það er aukaatriði.

    Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er til að velta upp þeirri spurningu hvort Ngog sé að færast upp úr flokknum efnilegur í þann flokk að vera góður leikmaður?
    Hann er aðeins 21. árs gamall, markahæsti leikmaður Liverpool eins og er með 8 mörk (í öllum keppnum) í 22 leikjum (oft á tíðum sem varamaður).

    Hver hefði svosem búist við þessu fyrir leiktíðina.

  52. Hodgson spilar með tvo frammi. Það má lengi ræða hvaða uppstilling er best en það hefur mikið verið kvartað undan því að fáir leikmenn spili framarlega á vellinum. Við hljótum að fagna því þegar Hodgson spilar með tvo frammi og þó svo að liðið falli stundum full langt til baka þá verðum við að vona að með auknu leikformi geti liðið haldið sér framar á vellinum.

    Þetta er svo glórulaus punktur. Liverpool liðið með tvo menn frammi í dag spilar mun aftar á vellinum en Liverpool lið síðustu ára sem hefur bara haft einn mann frammi. 4-4-2 segir ekkert til um það hve framarlega liðið spilar.

    Undanfarin ár hefur Liverpool liðið mætt andstæðinum á þeirra vallarhelmingi. Það sem af er tímabili hefur slík pressa sést sjaldan og þá fyrst og fremst í upphafi leikja. Þetta er auðvelt að sjá þegar leikir eru bornir saman á milli ára, Liverpool liðið í dag vinnur boltann afar sjaldan á vallarhelmingi andstæðinga.

  53. Fínn sigur. Liðið virðist alltaf spila best þegar Gerard er ekki með það sama hefur gerst undanfarinn ár.

  54. Er svakalega sáttur með Lucas. Hann er orðinn svakalega aggressive og fer 100% í alla 50/50 bolta. Mjög gaman að sjá það.

  55. Góður sigur, en Hodgson verður samt að fara, vegna þess að hann er fæddur luser. Svo virðist það vera að smitast í stuðningsmenn Liverpool. Að láta út úr sér að að Liverpool eigi ekki að ætlast til að fá 3 stig á útivelli á móti liðum eins og Newcastle eða Blackpool er fáránlegt. Liverpool á að vera eitt sterkasta lið í heimi og á að vera að berjast á toppnum í Englandi. En Liverpool verður aldrei topplið ef menn fara brosandi af vellinum með 2-1 tap á móti Birmingham á útivelli og segja að þetta sé erfiður útivöllur og focking Birmingham geti eitthvað í fótbolta. Liverpool á ALLTAF að vilja 3 stig og allt annað er óásættanlegt. Hodgson heldur að hann sé að stjórna botnbaráttu liði og er hæst ánægður að vera fyrir ofan miðju. Enda sést þetta á leikmanna kaupum hans (konchesky, Poulsen) núna seinast var verið að orða Liverpool við Clint Dempsey (gæti verið og er vonandi bull) en væri típist fyrir Hodgson. Ef hodgson heldur áfram verðum við bráðum kominr með Titus Bramble í vörnina, Richard Wright í markið, Kieran Richardson sem playmaker, Dempsey og Bobby Zamora í sókinni. Og verðum byrjaðir að sætta okkur við það að Birmingham eru með betra lið en við og séum ánægðir að tapa bara 2-1.
    Hætta focking miðjumoði, kaupa stjörnur og stefna á toppin á að vera það sem Liverpool vill!

  56. Fín umræða.

    Sammála Þórhalli að hluta til hér að ofan, fjarvera Gerrard hefur stundum þýtt það að ólíklegustu menn standa upp. En hins vegar eru líka leikir til þar sem Captain Fantastic hefur bjargað okkur, t.d. Napoli nú nýlega!

    En mér fannst hrikalega jákvætt að sjá liðsskipan gærdagsins klára þennan leik á kortéri. Mjög flott að sjá hjá drengjunum.

    Svo með liðsskipan. Er ekki alveg hugmynd að stilla upp demanti á miðju og sleppa kantmönnum? Lucas aftastur, Meireles og Maxi og síðan Gerrard undir tveim senterum. Væri gaman að sjá það! Ég hef lengi sagt það og segi enn að Gerrard er ekki “hreinn” miðjumaður og þar af leiðandi ekki skynsamlegt að nýta hann inni á miðjunni heldur best að hafa hann fyrir framan hefðbundna miðjumenn eins og t.d. Lucas og Meireles. En hann er góður skapandi miðjumaður!

    Svo er ég ekki að tala um Aston Villa leikinn einan og sér heldur finnst mér liðið vera á allt öðrum stað síðan við lékum gegn Blackburn, reyndar með Stoke leikinn undanskilinn. Það er allt annað “shape” á þessu liði okkar og bara full ástæða til að gleðjast yfir því!

  57. Allt í góðu með þennan sigur en það er ein spurning sem ég vildi fá svar við. Notaði nokkuð Jovanovic klósettið inn á skrifstofu Hodgson og gleymdi að sturta niður, eða gerði hann eitthvað verra??

  58. Vá Matti, þú ert nokkuð góður. Er það bara ég eða tókst þér í alvöru að halda fram Hodgson hafi grætt á þeirri ótrúlegu “heppni” að Torres og Gerrard gátu ekki spilað í gær ? Hef séð nokkur ummæli frá þér hérna og þú ert svona týpa sem er bara alltaf á móti, alveg sama hvað það er.

    Að segja að Gerrard sé bara lélegur miðjumaður punktur, er frekar skrýtin afstaða, sérstaklega í ljósi þess að maðurinn hefur verið talinn einn sá besti slíki í áraraðir af tjaa, öllum heiminum. Það breytir því hins vegar ekkert að ég er alveg sammála þér. Þig vantar bara töfraorðið “líka” þarna. Gerrard er framúrskarandi miðjumaður sem getur leist allar mögulega og ómögulegar stöður þar. Hann er hins vegar líka bara maður með tvær lappir og þar af leiðandi þarf hann á því að halda t.d. að hafa varnarsinnaðan miðjunmann a la Hamann eða Mascherano með sér þegar hann er framliggjandi nú eða aðeins sóknarsinnaðri miðjumann ef hann á að spila aftar á miðjunni, þetta segir sig sjálft. Að stimpla hann sem bara lélegan miðjumann af því hann spilar ekki báðar stöðurnar í sama leiknum er í besta falli kjánalegt.

    Á móti kemur svo auðvitað að það er sennilega rétt hjá þér. Eins og staðan er núna myndi ég setja Stevie á fyrir framan og ef til vill aðeins til hægri (þ.e. bara í nokkuð frjálsri rullu) við Meireles og Lucas og Torres þar fyrir framan. Hann spilar alltaf best þegar hann þarf ekki að hugsa of mikið varnarleikinn og fær nokkurn veginn að gera það sem hann vill. Það hefur vantað síðan Alonso fór því þá þurfti hann allt í einu að fara að dreifa boltanum líka. Nú er hins vegar Meireles mættur í þá stöðu og ætti að vera notaður alltaf sem slíkur. Bottom line-ið er svo auðvitað að við eigum ekki að vera deila um hvar Gerrard á að vera og ekki vera, heldur fagna því að vera með svona leikmann innan raða Liverpool. Svona menn koma ekki oft fram, það er staðreynd.

    Að leiknum þá fagna ég því að Babel virðist loksins vera búinn að finna einhvern tilgang í því sem hann er að gera og skilja kannski í hversu mikilli forréttindastöðu sem ekki ætti að taka sem sjálfsögðum hlut hann er í. Farinn að setja hausinn undir sig og vinna vinnuna sína. Þá uppsker maður yfirleitt eins og maður sáir.

  59. Ég er einn af þeim sem var búinn að afskrifa Hodgson en ég er sammála Hössa í frábæru commenti hér að ofan.

  60. Gerrard er einn besti sóknarsinnaði miðjumaður deildarinnar!! punktur.

  61. 62 Maggi

    “Er ekki alveg hugmynd að stilla upp demanti á miðju og sleppa kantmönnum? Lucas aftastur, Meireles og Maxi og síðan Gerrard undir tveim senterum. Væri gaman að sjá það”

    Ég tek undir þetta hjá þér, gæti verið gaman að sjá hvort þetta myndi virka. Þyrftum þá sennilega að kaupa öflugan, sókndjarfan vinstri bakvörð, sem gæti nýst sem vopn ásamt Johnson upp kantana. Meireles og Lucas gætu þá séð um að detta aðeins til baka og covera fyrir bakverðina þegar þeir bruna upp kantana !

    Þetta myndi líka leysa þetta endalausa kantmannavesen sem hefur verið hjá liðinu, hefur náttulega lengi vantað kantmenn sem geta tekið bakverðina á.

  62. Roy Hodgson langar í Ronaldinho samkvæmt einhverjum ítölskum fjölmiðlum!?

    • Er ekki alveg hugmynd að stilla upp demanti á miðju og sleppa kantmönnum?

    Ef við hefðum jafnvægi a la Cafu og Maldini í bakvörðum þá tæki ég kannski betur í þessa hugmynd, en með þessa bakverði sem við höfum þá megum við ekki við því að fækka á kantinum. Gerrard þá frekar í gömlu frjálsu rulluna út frá hægri kanti.

  63. Mér finnst Liverpool bara nokkuð ferskt lið þessa dagana. Fínir á móti Tottenham en óheppnir. Svo tel ég það styrkleika að West Ham og Aston Villa lýta mjög ílla út á móti okkur.

    Góð kaup í janúar og smá stemmning að þá tökum við CL sæti en þangað til vil ég sjá allt að 100% árangur út desember sem er ágætis sjéns ef liðið mætir svipað semmt og það hefur gert uppá síðkastið.

  64. Matti í 56. Ég held nú að seinni athugasemdin hafi ekki átt við þig heldur leiðindakommentið í 50, þannig að haltu endilega áfram að tjá þig :o) þó ég sé ósammála, eða reyndar vegna þess að ég er ósammála… Gerrard er ekki slakur miðjumaður

    Skemmtilegt að Ronaldinho sé orðaður við Liverpool, ekki í fyrsta skiptið ef ég man rétt. Ég hef ekkert fylgst með honum (á bekknum?) hjá Milan þannig að ég veit ekki hvort hann er búinn á því. Ef hann ákveður að fara til USA, þá er það væntanlega vegna þess að hann hefur lagt metnaðinn á hilluna þótt hann sé ennþá í skónum. Gleymi því aldrei hvernig hann snýtti Terry á Stamford Bridge í CL fyrir fáum árum. Það væri erfitt að gleðjast ekki við að sjá hann í Liverpool búning – a.m.k. áður en leikurinn byrjar. Hvað segja menn sem fylgjast með Milan, er hann bara nafnið?

  65. Virkilega flottur leikur hjá liverpool. Ánægður hvernig Lucas stóð bara allt í einu upp og er að verða þrusuleikmaður. Ánægður að sjá Babel loksins inná, þessi maður á meiri tækifæri skilið að mínu mati, virkilega flottur leikmaður. Glen Johnson frábær, sýndi mikla ógn í seinni hálfleik þegar hann tók varnamenn á og með laglega hælsendingu á Ngog. Er ekki frá því að Glen Johnson sé okkar besti kantmaður? Nei ég segi svona. Ngog og Babel með snilldar samspil og kyntröllið Soto er alltaf hættulegur í föstum leikatriðum og var ekki frá því að stangann inn þarna á tímapunkti. Reina fyrirliði með frábært met og þetta er allt að smella saman þvílikt og annað eins.

  66. Það er enginn ómissandi í knattspyrnu, ekki heldur Torres

Byrjunarliðið komið

Númer á kommentum