Newcastle á morgun

Hvað gerir Roy Hodgson á morgun? Útileikur gegn nýliðum Newcastle, einhvern tíman hefði maður sagt fyrir fram að um væri að ræða 3 stig in the bag. Þetta tímabil? Nei, ekki alveg. Stóra spurningin er hvernig lið mætir til leiks á St. James’s Park klukkan 17:30. Verður það lið sem við sáum á útivelli gegn Stoke fyrir ekki svo löngu síðan, eða verður það liðið sem mætti til leiks í fyrri hálfleikinn gegn Tottenham og hefði getað skorað 4 mörk á fyrsta klukkutímanum. Nú reynir á, við VERÐUM að fara að spila vel á útivöllum og það reglulega. Ég ætla rétt svo að vona það að Roy muni hvetja sína menn til að blása til sóknar.

Lið Newcastle hefur á köflum spilað bara nokkuð skemmtilega á þessu tímabili. Ákvörðun eigenda liðsins að reka stjóra þess á þessum tímapunkti er í raun óskiljanleg með öllu, hvað þá þegar menn sáu hver kom í staðinn og fékk 5 og hálfs árs samning. Það þarf að fara alla leið til Joe Harvey til að finna stjóra hjá þeim sem hefur verið lengur í starfi en 5 ár, og var hann að stýra þeim frá 1962-1975. Hvað í ósköpunum hefur Alan Pardew gert til að menn hafi svona mikla trölla trú á kappanum? Chris Hughton kom þeim strax upp í efstu deild og þar sat liðið í 11. sæti þegar hann var rekinn, takið eftir, þeir eru nýliðar í deildinni. Þegar hann var rekinn, þá sat Liverpool FC í 12. sæti. Þetta meikar bara akkúrat ekkert sens. En hvað er maður að spá í því, ekki er Newcastle liðið manns, en maður kennir í brjósti um stuðningsmenn liðsins að þurfa enn og aftur að horfa upp á þann skrípaleik sem hefur verið í gangi þarna.

Newcastle hafa tapað 7 leikjum á tímabilinu, okkar menn hafa tapað 6 stykkjum. Af þessum 7, þá hafa þeir röndóttu tapað 3 á heimavelli, gegn Blackpool, Stoke og Blackburn. Það er því ekki eins og að þessi heimavöllur þeirra sé eitthvað óvinnandi vígi. Vandamálið er að af þessum 6 leikjum sem við höfum tapað, þá hafa 5 tapast á útivelli. Við höfum aðeins unnið einn útileik í deildinni á þessu tímabili. Það er akkúrat þetta sem gerir mann ekkert ofur bjartsýnan. Oft á tíðum hefur það afar jákvæð áhrif á lið að skipta um stjóra. Manni hefur sýnst það oftast eiga við þegar lið hafa verið í ströggli, stjórinn misst klefann og nýtt og ferskt blóð kemur inn. Ætli það sé uppi á teningnum núna? Ekki viss. Manni sýnist að bæði stuðningsmenn Newcastle, sem og leikmenn liðsins, hafi verið afar ósáttir við þessa ákvörðun Mike Ashley eiganda liðsins.

Newcastle eru með alveg ágætis leikmannahóp, leikmenn sem hafa reynslu úr Úrvalsdeildinni. Þeir misstu í rauninni fáránlega lítið af leikmönnum þegar þeir féllu um deild. Þeirra helsta vandamál í gegnum tíðina hefur verið varnarleikurinn og ég held að það sé ennþá málið. Ungur strákur, Williamson, hefur verið að slá í gegn hjá þeim í miðvarðarstöðunni og með honum þar hefur yfirleitt verið hinn argentínski Coloccini. Mér skilst að þeir verði báðir tveir í leikbanni á morgun. Steven Taylor hefur verið mikið úti í kuldanum hjá þeim vegna samningamála, en búast má við því að hann og Sol Campbell standi vaktina. Þarna er strax kominn góður höggstaður á mótherjum okkar. Nolan, Barton og Jónas verða væntanlega lykilmenn þeirra á morgun á miðjunni, hinn síðast nefndi er alveg hreint ótrúlegt ólíkindartól, ég held hreinleg að hann gæti hlaupið stanslaust í ein 15 ár án þess að blása úr nös. Þeirra hættulegasti maður verður þó að teljast Andy Carroll. Stór, sterkur, flinkur og hreint bara hörku efnilegur framherji. Grikkjann á hann strax.

Það er alveg á hreinu, við verðum að nýta okkur þessi varnarvandræði þeirra. Torres ætti að vera laus við fæðingadeildina allavega næstu 9 mánuðina, væri fínt ef hann hefði það í huga næst þegar hann ætlar að fjölga mannkyninu (sem er btw. mjög jákvætt) að framkvæma það c.a. í september. Pælið annar í því ef knattspyrnumenn færu nú í feðraorlof. “Hey Roy, ég er að fara að eignast barn. Er’egg’í lagi það verði bara desember, janúar og febrúar sem ég skýst í frí?”. Það hefur oft á tíðum verið jákvætt að sjá sóknarkafla okkar manna undanfarið, aðeins meiri hraði kominn í þessar aðgerðir okkar manna og verð ég að segja að þriðja markið á móti Villa var tær schnilld. Meira slíkt takk. Mér fannst aftur á móti ekki jákvætt í leiknum gegn Villa, þegar liðið bakkaði eftir að vera komnir í 2-0. Jú, auðvitað gerist það stundum ósjálfrátt að lið bakki, en þetta var ekki þannig “bakk”. Takið eftir því næst þegar þetta gerist, það er svo greinilegt að þetta er fyrirfram ákveðið. Markvörður andstæðinganna er með boltann, rúllar honum út á annað hvort bakvörð eða miðvörð, á meðan sér maður í mynd allt Liverpool liðið jogga í rólegheitum að og flestir aftur fyrir miðjulínuna. Þar er svo tekið á móti þeim. Það eru engin geimflaugavísindi að þegar Liverpool hefur leikið sína bestu leiki, þá hafa þeir verið að setja pressu á bakverðina og miðverðina. Þetta gera flest lið á móti okkur, sér í lagi á útivelli. Stoke leikurinn var hreint út sagt skólabókardæmi um þetta, því miður.

En að okkar mönnum. Engin ný tíðindi þaðan, Stevie ekki ennþá klár í slaginn, Torres búinn að drösla kvinnunni heim af spítalanum og Agger í sínu árlega 3ja mánaða comeback ferli. Önnur meiðsli er ekki vitað um og enginn í banni. Ég býst ekki við því að Roy breyti liðinu mikið, held reyndar að það verði bara ein breyting. Babel missir sæti sitt til Torres. Ekki það, Babel átti einn sinn allra besta leik í nokkur ár gegn Villa á mánudaginn, en Torres er bara fully fit og við geymum hann ekki þegar okkur sárlega vantar 3 stig eins og á morgun. N’gog var algjörlega frábær í síðasta leik og heldur því sæti sínu, enda passar hann mun betur með Torres frammi, að mínum dómi. Ég hefði persónulega viljað sjá Aurelio inn í vinstri bakk á kostnað Konchesky, en ég veit alveg að ég fæ ekki þá ósk uppfyllta. Reyndar átti sá síðar nefndi einn sinn besta leik með Liverpool á mánudaginn. Lucas mun, ásamt Meireles, stjórna spilinu á miðjunni, en ég tel þá tvo hafa verið lykilinn að bættri spilamennsku liðsins undanfarið. Þeir eru að ná virkilega vel saman, og ferlega gaman að sjá Lucas þessa dagana. Strákurinn er bara á leiðinni með að verða virkilega góður knattspyrnumaður. Þegar hann fær að einbeita sér að sínu hlutverki, þá blómstrar hann. Þeir bara smellpassa saman. Í mínum huga var ekki vafi (þrátt fyrir frábæran leik N’gog) að Lucas var maður leiksins gegn Villa.

Ég reikna með að Roy stilli þessu svona upp á morgun:

Reina

Johnson – Kyrgiakos – Skrtel – Konchesky

Kuyt – Lucas – Meireles – Maxi

Torres – N’gog

Bekkurinn: Jones, Kelly, Aurelio, Poulsen, Cole, Babel og Jovanovic

3 stig á morgun, akkúrat ekkert annað kemur til greina. Liðið bara verður að fara að sýna það að þessi útivallarvitleysa sé bara mýta. Eftir sem áður, þá eru menn að spila á freaking grasi. Það eru áfram eitt mark sitt hvorum megin á vellinum. Það er sami fjöldi leikmanna sem tekur þátt í útileikjum okkar og heimaleikjunum. Það er ekki eins og að við séum að tala um að spila á útivelli í Fjarskanistan, liðin eru að spila á Englandi, og það ekki svo langt frá Liverpool borg. Hvað er vandamálið þá? Áhorfendur láta jú í sér heyra, en þeir geta bara ekki verið make or break í venjulegum deildarleik. Þeir eiga að vera orðnir vanir því að hlusta á gargandi áhorfendur, þetta eru ekki guttar sem eru að spila í fyrsta skipti fyrir framan fleiri en 10 stuðningsmenn. Þetta eru atvinnumenn og þeir verða bara að fara að troða því inn í kollinn á sér að það sé alveg hægt að spila fótbolta, þó svæðið sem spilað er á heiti einhverju öðru nafni en Anfield. Það verður að byrja á því að reyna að gera eitthvað smá úr þessu hörmungar tímabili, við þurfum að byrja á því strax á morgun.

Jákvæð merki undanfarið hjá liðinu, plús hallæri í vörn mótherjanna, því ætla ég að leyfa mér að vera bara nokkuð bjartsýnn. Öruggur útisigur og Alan Pardew verður boðinn formlega velkominn til starfa. Eigum við ekki að segja 1-3, Torres kemur með eitt og setur puttann upp í sig, N’gog snarar inn einu og Dirk kallinn klárar málið.

56 Comments

  1. Flott upphitun. Vona svo sannarlega að liðið verði ekki breytt, fyrir utan Torres. Babel kallinn er óheppinn, hann hefði átt að byrja að sýna okkur hvað hann getur aðeins fyrr. Hætt við því að hann verði seldur þar sem markaðsvirði hans er nokkuð hátt ennþá.

    Þetta Newcastle lið virðist vera algjört jójó-lið, eins og svosem okkar menn. Það er því varla hægt að spá fyrir um þennan leik. Spurningin er hvernig stjórabreytingin hefur áhrif á Newcastle-liðið, leikmenn hafa gagnrýnt skiptin opinberlega. Það er athyglisvert.

    Vona að þeir komi annars hugar til leiks og við vinnum þetta örugglega. Það er alls ekki langt í Evrópusætið sem við stefnum að, við komumst upp í fimmta sæti með sigri ef Bolton og Sunderland tapa stigum gegn miðlungsliðum sem þau mæta (Blackburn og Fulham).

    Svo mætast Tottenham og Chelsea og Man U og Arsenal, þannig að eitthvað mun styttast í efstu lið með sigri. En hann þarf þá að koma.

  2. Úff það er erfitt að vera bjartsýnn þegar liðið fer á útivöll enda hefur það sýnt sig að það hefur ekki verið vænlegt til árangurs hingað til, en liðið hefur samt verið að bæta sig og ef þessi útileikur vinnst þá tel ég að liðið verði komið ansi ofarlega á töflunni þegar nýja árið gengur í garð.

    Það gæti reynst okkur vel að mæta Newcastle á þessum tímapunkti enda allt í rugli þarna núna og stuðningsmennirnir þeirra sennilega ekki í miklu stuði enda flestir brjálaðir útí eigandann.

    En ég vona að bæði N’Gog og Babel muni halda sæti sínu í liðinu á kostnað Kuyt sem hefur verið hrikalega slakur í vetur en á móti kemur að Maxi hefur farið rosalega vaxandi í vetur og skorað í 2 seinustu heimaleikjum og er farinn að njóta sín á kantinum.

    Svona vonast ég til að sjá liðið á morgun.

               Torres    N'Gog 
    

    Maxi Meirales Lucas Babel
    Aurelio Soto Skrtel Johnson
    Reina (c)

    1-3 sigur okkur manna.

    p.s frábær upphitun hjá þér.
    Og endilega haldið Einari frá því að gera skýrslur eftir leiki, það hefur virkað hingað til.

  3. EF liðið spilar eins og á móti Tottenham þá ætti þessi leikur að vinnast. En ef Liverpool vinnur ekki þennan leik þá geta þeir bara hætt að spila útileiki og Hodgson ætti þá bara að snúa sér að einhverju öðru.

  4. Já ég tek undir að ég vorkenni stuðningsmönnum Newcastle. Bullið þar á bæ er með ólíkindum. Og ekki eins og Pardew sé einhver gullmoli sem þurfti að komast að.

    Varðandi liðið þá væri eðlilegast að Babel héldi sæti sínu, en nú stendur Hodgson einfaldlega frammi fyrir þægilegu vandamáli. Maxi spilaði mjög vel síðast, miðjan er að smella og skyndilega virðist breiddin fram á við vera orðin nokkuð mikil. Og þá án fyrirliðans. Helst væri það Kuyt okkar sem gæti dottið út fyrir Babel en það er í hæsta máta ólíklegt. Babel verður þó væntanlega fyrstur inn af bekk, vonandi fær hann 30 mínútur og stendur sig vel. Það má þó ekki gleyma því að þetta eru bara tveir leikir sem Babel hefur spilað vel.

    Vonandi sigur en ómögulegt að spá í úrslitin. Kannski verða heimamenn fúlir yfir stjóraskiptunum og geta ekki blautan. Eða hitt, að þeir fírist allir upp og komi trylltir í leikinn. Kannski fer það meira eftir ástandi Newcastle-liðsins hvernig leikurinn fer en hvernig okkar menn spila.

  5. Ef það er eitthvað lið til í úrvalsdeildinni sem Liverpool hefur í mörg ár nánast getað gengið að 3 stigum vísum þá er það Newcastle, og það mun ekki klikka í þetta skiptið.

    Við vinnum þennan leik, en ekkert endilega auðveldlega.

  6. hef trú á að meistari Hodgson nái að snúa útivallargenginu við á morgun… 0-2, El Nino og Ngog

  7. Orðum þetta þannig að meistari Fernando Torres leiðir draumaliðið mitt (sem ég mundi allt í einu eftir fyrir þennan leik).

    Hel mössuð upphitun annars sem ég tek að ég held undir að öllu leiti nema hvað þú talar mikið um Stoke leikinn, eina sem ég man jákvætt úr þeim leik er dýfan hjá Svenna Waage á Players, annað nennir maður ekki að ræða úr þeirri hörmung.

    Vinnum á morgun 1-3

  8. Taka þetta svo strákar Njúkastel!

    Stóra spurningin er hver er með pistilinn á morgun??

  9. Ég heimta 3 stig og vil meina að Babel eigi að vera frammi með Torres í stað gogga !

  10. Held að Babel geti geti ekki jafn mikið á miðjunni og hann getur frammi, en samt finnst mér að N’gog ætti að vera valinn framyfir hann. Hefur verið allt í öllu í seinustu leikjum.

  11. Er miklu hrifari að Torres – Babel heldur en Torres – Ngog

    Annars spái ég 2-4, Carrol með 2; Torres með 2, Babel 1 og Mereiles skorar sitt fyrsta mark.

  12. Við vinnum þennan leik. Leikmannhópur Newcastle er ósáttur við stjóraskiptin enda engin ástæða til að losa sig við Hougton til þess eins að fá Alan Pardew – eiginlega algjörlega glórulaus aðgerð hjá trúðnum sem á klúbbinn! Ég vorkenni stuðningsmönnum Newcastle enda eiga þeir betra skilið en þessi fáránlegu vinnubrögð ár eftir ár. Við tökum þetta 2-1 með sigurmarki á lokamínútum leiksins. Newcastle verður svo að daðra við fallbaráttuna í vetur.

  13. Hugmynd : Hvernig væri ad helstu pennarnir her myndu tippa a urslit allra leikja fyrir hverja helgi og bjoda sidan almennum lesendum ad etja vid sig kappi endrum og eins ?

  14. @16
    Snilldar hugmynd! Skella inn spá þeirra í miðri viku, og svo kommenta lesendur hvað þeir halda. Sá sem að kemst svo næst því að vera með allt rétt fær nafnið sitt birt í næstu spá:)

  15. Lýst betur á Torres – Babel, frekar en Ngog. Babel er meira skapandi, og þarsem Gerrard er ekki með þá vantar skapandi leikmann með Torres annars er hann bara étandi gras.

  16. Það verður spennandi að sjá liðsuppstillinguna á morgun, hver það verður sem fær að vera með Torres frammi, eða hvort að hann verði þar einn. Eina sem ég bið um eru 3 stig og að sjá að liðið er að byggja á því sem hefur batnað síðustu vikur.
    Svo það sem snýr að Newcastle þá vorkenni ég þeim hvað eignarhald á félaginu snertir, ekki ósvipað og við vorum í fyrir nokkrum vikum. Reka efnilegan stjóra sem virtist vera að gera ágætishluti með liðið, en það virtist ekki duga. Eins og bent er á í upphituninni þarf að fara mjög langt aftur til þess að finna stjóra sem var lengur en 5ár hjá þeim, og viti menn Newcastle gera 5ára samning við PARDEW. Hvað það var sem fékk hann til þess að skrifa undir (sennilega peningar) eða hvað það var sem fékk stjórnina til þess að bjóða þessa tímalengd á samning er ofar mínum skilningi.
    Ég las á spjallborði á einhverri síðu úti að stuðningsmenn séu mjög reiðir en kenna sjálfum sér í raun um þetta. Því tryggð þeirra við liðið er það mikil að þeir mæta alltaf og borga sig inn á leiki, kaupa vörur tengdum liðinu sama hversu slæmt gengið er. Og á meðan þeir gera það þá fær þessi blessaði drykkjuhrútur sem á liðið inn peninga og gerir það sem hann vill.

  17. Varðandi komment nr 18 þá verð ég að vera því ósammála á málefnalegum nótum.

    Mér finnst Ngog henta betur með Torres þar sem hann er mun betri í því að fá boltann með mann í bakinu heldur en bæði Babel og Torres – hann er í raun bara að sanna sig ágætlega sem hinn fínasta “batta”striker. Bæði Babel og Torres eru meira fyrir að fá boltann í hlaupinu og stinga sér meðan Ngog vinnur meira til baka og vinnur boltann og skilar honum út á vængina eða á playmakerana á miðjunni. Ef Newcastle mun reyna pressa okkur hátt (eitthvað sem við höfum mætt á hverjum einasta útivelli hingað til) þá er möst að hafa mann eins og Ngog upp á toppnum til að taka við boltanum meðan liðið vinnur sig hærra völlinn. Það er allavega mín skoðun.

    Ein mögnuð staðreynd svona miðað við allt og allt – Ef Liverpool vinnur þennan leik og Man Utd og Arsenal gera jafntefli, þá erum við bara 8 stigum frá toppnum (Ars: 33 – Liv 25) og að fara inn í ágæta jólatörn (allavega miðað við fyrri ár). Það finnst mér með ólíkindum. Mikið grætur maður 2 töpuð stig í Wigan, 3 töpuð í Stoke, 3 gegn Blackpool og allavega 1 á White Hart Lane. Andskotinn.

    Hörður

  18. Ætlaði að fara að challenge-a þetta sem menn eru búnir að vera setja fram hérna varðandi Babel, en það er algjörlega óþarfi, Hörður er bara algjörlega með þetta, eins og talað út úr mínum huga.

    Það er ekki bara nóg að “fíla” Babel, finnst þetta snúast meira um hvernig leikmenn menn eru. Babel er ennþá á “trial” þrátt fyrir að hafa átt tvo góða leiki núna. Vonandi heldur hann þessu áfram, því hæfileikarnir eru óumdeildir, bara ef hausinn er í lagi.

  19. Afsakið smá þráðrán, en vitiði hvaða peninga Liverpool er að fá fyrir augl hjá sér?
    Mér fanst endilega einsog það hefði verið talað um að sá samningur sem Liverpool
    gerði væri sá besti ásamt Man Utd.

    Ástæða þess að ég spyr er sú að Liverpool er ekki talið upp þarna , http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=101236

    😛

  20. Ég ætla að spá því að við höldum áfram að vinna Newcastle 3-0 eins og hefur gerst í undanförnum viðureignum.

    Annars bara pæling … hvað er svona erfitt við að segja leikmönnunum bara að spila eins og gert var í síðasta leik á Anfield? Ég meina, hvaða máli skiptir á hvaða velli er verið að spila? Afhverju þarf eitthvað að nota aðra taktík á útivelli? Hef aldrei skilið þetta.

  21. Babel inn fyrir Kuyt. Annars sammála Ssteini með liðið. Við tökum þetta 1-3. Torres, Babel og Meireles klára þetta fyrir okkur og maður kemst í jólaskap.

  22. Er liðið alveg hætt að leka út degi fyrir leik?

    Okkur hefur auðvitað gengið fáránlega vel með Newcastle hingað til og ég vona að það verði engin breyting þar á. Mjög oft markaleikir og því vonast ég eftir einhverri veislu okkar manna á morgun. Vona að þessi ráðning Newcastle manna á Pardew sitji í leikmönnum og aðdáendum á morgun ( sem verða hugsanlega með mótæli ) og Liverpool taki þetta létt.

    Vil sjá Torres og N Gog frammi saman á morgun en væri svo sem alveg til í að sjá bara Babelinn fá séns þarna hægra megin í stað Kuyt sem virðist hreinlega alveg mega hvíla sig í 3-4 leiki núna.

    Á svo eftir að sjá Joe Cole komast í liðið aftur, hann þarf að fara sína meira og vil einnig hrósa Maxi sem hefur heldur betur verð að bæta sinn leik undanfarið og á hrós skilið fyrir það, sé ekki Cole taka stöðuna hans allaveganna ef Maxi heldur áfram á sömu braut.

    Mín spá er 2-4 á morgun í mjög skemmtilegum leik. Torres setur 2, Maxi 1 og Meireles 1

  23. Liðið er komið inn á RAWK og það er nákvæmlega eins og SSteinn spáði. Torres inn fyrir Babel, annað óbreytt.

    Líst vel áða.

  24. ég spái að óbreytt lið nema að torres kemur inn fyrir babel en hvað um leikinn held ég að hann fari 3-0 þarsem Torres, Raul Merelis og svo supersub Babel

  25. Glæsilegt Kristján, lýst vel á þetta og nú get ég farið inní rúm og sofnað yfir mynd eða eitthvað, var að bíða eftir þessu

  26. Hörður & SSteinn; Eru menn ekki alltaf að tala um þegar Babel á góða leiki þá er hann strax tekinn úr byrjunarliðinu og þessvegna verði aldrei neitt ur honum og ekkert sjálfstraust í myndinni, er það ekki nákvæmlega það sem þið viljið núna? taka hann úr liðinu eftir 2 góða leiki og mark í hverjum, mér finnst Babel ekki vera þessi stungu framheri, sem fær boltann í fæturnar og sprettur að markinu, í þessum leikjum sem ég hef séð er hann hlaupandi til hliðar á markteignum til að gefa stoðsendingar einsog sjá má í evrópuleiknum síðasta. Annars ‘fíla’ ég ekkert Babel frekar en Spearing, finnst hann bara flínkari og meira talent en Ngog, þarsem Ngog er óttaleg hæna. Skil ekkert í manninu að lyfta ekki lóðum og koma smá þykkleika á sig! hann er einsog lítill svartur Crouch.

  27. Ég segi 0-4 fyrir Liverpool. Er bara alveg hrikalega bjartsýnn fyrir þennan leik.
    Meriles með tvo þrumara. Hann hlýtur að farað setja hann. Svo Torres með tvö.

  28. Sammála þeim sem styðja Torres-N´gog comboið og ekkert við það sem áður hefur verið sagt um það að bæta en ég væri alveg til í að leyfa Babel að fá sénsinn fyrir Kuyt á meðan hann er að standa sig.
    En BirgirÞór nr 31 þá finnst mér nú mjög líklegt að hann N´gog sé að lyfta reglulega en sumir eru bara þannig gerðir að þeir hvorki fitna nér breikka eitthvað af ráði af vöðvum.
    En annars segi ég 3-0, Torres 2 og N´gog 1.

  29. Gaman að lesa svona pósta.

    En ég held að það sé kominn tími á að Mireles sýni okkur hvernig á að skora úr langskotum 🙂
    Það sem ég sakna við í liðinu er að menn séu að skora úr langskotum, man alltaf hvað ég ELSKAÐI Patrik Berger, sá maður kunni að smyrja boltanum í netið. Gerrard hefur verið slappur í þessu uppá síðkastið en hefur aftur á móti sýnt okkur að hann kannt að skora fyrir utan teig.

    Ég ætla leyfa mérað segja 0-4. – Torres, Kyrgiakos, Mireles og Maxi 😉

    YNWA!

  30. Alveg sáttur við liðið en samt sammála mörgum um Kuyt > Babel, eins erfitt og það nú er að velja ekki Kuyt. Það er langt síðan Babel tók tvo góða í röð. Það er samt spurning hvort það myndi ekki koma niður á leik Johnson, sem leiðist ekkert að sækja og gerir það vel. Það er a.m.k. stærsta ástæðan sem mér dettur í hug.

    Svo er kominn tími á Aurelio í vinstri bakvörðinn. Konchesky átti sennilega sinn besta leik í Liverpool búning á móti Villa en það var samt ekki nóg, Aurelio er miklu betri. Býður upp á fleiri sóknarmöguleika og er a.m.k. jafn góður varnarlega. Alltaf erfitt að dissa leikmenn Liverpool en mér finnst algjör synd að sjá Aurelio á bekknum á eftir leikmanni sem á ekki heima í þessu liði.

    Hvað um það, leikurinn veltur líklega ekki á einum bakverði og eins og venjulega vinnum við Newcastle í skemmtilegum leik. Gulldrengurinn okkar setur eitt fyrir Leo, Maxi skorar eitt og klúðrar tveimur og Babel klárar þetta stuttu fyrir leikslok. Við fáum á okkur eitt eftir ranglega dæmda auka- eða hornspyrnu og varnarmistök í kjölfarið – Reina gat ekkert gert, 1-3 og Liverpool heldur áfram að dröslast upp á við.

  31. Það eru allar forsendur til að rústa þessum leik.
    Vantar hálfa vörnina hjá Newcastle.
    Þjálfaraskipti sem leikmenn eru opinberlega óánægðir með.
    Svona hlutir eru eitthvað sem þetta Newcastle-djók höndlar ekki, ef Liverpool mætir af krafti í þennan leik þá erum við að tala um þrjú til fjögur núll.

  32. Flott upphitun að vanda maestro!

    Dirk Kuyt á að vera í liðinu í þessum leik þar sem hann og Glen Johnson eru þessa dagana að vinna stöðugt betur saman, eins og sást best í seinni hálfleik gegn Villa. Kuyt er fullkomlega agaður í þessu hlutverki og það er það sem Johnson þarf. Þess vegna væri ekki rétt að setja Babel þarna inn því í 442 er erfitt að vera með tvo argandi aggressíva sömu megin.

    Ég ætla svo að leyfa mér að vera ósammála með Aurelio. Ég sé ekkert í spilunum að hann sé einhver gæðaleikmaður, hann er að mínu mati búinn að missa mikinn hraða og ekki nokkur ástæða til að láta hann fá fullt af mínútum fram að næstu meiðslum. Er á því að Purslow karlinn hafi verið sá sem lét Insua fara og er á því að Hodgson leiðrétti það í janúar og Aurelio verði þá sá squad-player sem mér finnst hann mögulega eiga að vera.

    En ég er fullkomlega sammála því að N’Gog er að verða betri með bakið í markið en áður og á að vera með Torres frammi, þó ég reyndar vilji fá öflugri slíkan framherja í janúar! Koma svo…

  33. Greinin sem Ásmundur #38 vísar í er fróðleg og vekur upp ýmsar spurningar varðandi Cristian Purslow. Hann ýtti Rafa út og þrír ungir og efnilegir leikmenn ,,flopp” að hans mati – og Soto einnig. Lucas, N’Gog og Soto kostuðu samtals um 7,5 milljónir punda ef ég man rétt (Lucas 5, N’Gog 1,5 og Soto 1). Babel síðan 10,5. Hodgson á hrós skilið fyrir að taka ekki mark á Purslow miðað við hvernig þessir leikmenn hafa staðið sig í haust þó ég hafi því miður ekki lengur trú á Babel. Kannski er þarna komin ástæðan fyrir því að Hodgeson sagði í sumar að það þyrfti að endurnýja mikið af leiknannahópnum og skera ,, dead wood”. Upphæðin sem greidd var fyrir leikmennina (að Babel undanskildum) er auðvitað fáránlega lág. Því miður geta Poulsen, Konchesky og Aurelio talist ,,dead wood” eins og staðan er í dag þó það eigi kannski eftir að breytast er líður á veturinn.

  34. “Sometimes I am frightened as a manager that I might get rid of a player who will be good for the club on the basis that there might be a name out there that looks a bit higher than the player you already have at the club.

    “When that player comes in and you work with them for two months, you realise that the name is great and it rings big bells but, in actual fact, he is no better than the player you let go. He maybe even worse.”

    Hmm, kannski Aquilani versus Poulsen og Insua versus Koncheskey ?

  35. Hodgson er að laða það besta fram úr þessum fjórum leikmönnum og reyndar Maxi líka, vona að þetta smiti út frá sér til fleiri leikmanna svo liðið komist á gott skrið.

  36. Ég held að stjóraskiptin leggist það almennt illa í leikmenn Newcastle að þeir tapa 1-3 með glæsibrag, Torres 2 og Kyrgiakos með mörkin

  37. Úrslitin verða eins og þumlarnir við kommentið hans Magga í 39# : )

  38. Afhverju lendir það alltaf á Babel að vera tekinn út?
    Liðið var að spila vel í síðasta leik og Babel skoraði m.a. annars mark. Afhverju ekki að hafa bara óbreytt lið og Torres sem tromp eða kippa Kuyt út fyrir Torres?

    Það á enginn að eiga fast sæti í þessu liði og það er kannski gallinn við þetta. Held að það geri ekki gott fyrir hina leikmennina að sjá Torres, Gerrard eða Cole ganga inní liðið , þrátt fyrir að hinir hafi verið að spila frábærlega.

  39. 45.. Cole virðist reyndar ekki vera að ganga inní liðið núna og á bara ekki von á að hann sé að fara gera það

  40. Hlakka til að sjá hvernig fer á eftir.
    Ánægður með mjög málefnanlega umræðu hjá flestum ykkar.

    Það eru aðeins þrjú stig sem skilja að Newcastle (24-25) og Liverpool (20-19) sem þýðir að þetta gæti orðið skemmtilegur markaleikur. Vona það í það minnsta.

    kv, Toonari.

  41. Ég held að við fylgjum eftir góðum síðasta leik og tökum þetta 0-3 jafnvel bara 0-4 því það eru að koma jól! Meireles loooksins með sitt fyrista mark og Torres með þrennu sem hann tileinkar ný fæddum Torres dreng!

  42. Liðið komið og Ssteinn hefur lesið hugsanir Hodgson, líst ágætlega á liðið.

  43. Þvílík ósanngirni að taka Babel út. Ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist!

    En við vinnum þennan leik 3-0 og Raúl á eftir að smyrjann af löngu færi! 😉

  44. Liverpool: Reina, Johnson, Konchesky, Skrtel, Kyrgiakos, Meireles, Lucas, Kuyt, Maxi, Ngog, Torres. Subs: Jones, Kelly, Aurelio, Poulsen, Cole, Jovanovic, Babel

  45. Liverpool hefur tapað 8 síðustu leikjum eftir að hafa lent 1-0 undir.
    Sjáum hvað setur í seinni hálfleik.

    HT: Newcastle 1 (Nolan) – Liverpool 0

Miðar á leik LFC – Fulham 18. desember

Byrjunarliðið í dag