Framherjamálin.

Úff, þrátt fyrir að það viti allir Púllarar fullvel að þær stöður sem Rafa á eftir að styrkja séu varnarmaður og hægri vængmaður, virðist samt sem fréttir síðustu daga hafi snúist nær eingöngu um vangaveltur varðandi framherjana okkar. Bara svona til að rifja aðeins upp helgina (fyrir þá sem höfðu hugan við annað) þá er þetta staðan:

Milan Baros er að fara frá Liverpool til Schalke í Þýskalandi, væntanlega á láni (Einar verður ekki sáttur). Á meðan er allt að verða vitlaust í höfuðborg Spánar, þar sem Madríd voru að kaupa Julio Baptista OG Robinho, sem þýðir að Michael Owen er nær örugglega á leið heim til Englands á ný … og þá til Man U af öllum liðum! Auðvitað þýðir þetta að það myndast þrýstingur á Rafael Benítez að kaupa Golden Boy aftur til Liverpool, en hann er harður á því að framherjakaup séu EKKI forgangsatriði, auk þess sem Peter Crouch sé fullkomlega nógu góður fyrir okkur eins og er, sem meikar sens því að José Mourinho hlýtur að hafa áhyggjur.

Náðuð þið þessu öllu? Gott. 🙂

Allavega, ég er nokkurn veginn sammála Rafa. Auðvitað myndi ekkert lið í heiminum, nema sennilega Real Madríd, slá hendinni á móti þeirri tilhugsun að hafa Michael Owen í sínum röðum, en því miður höfum við ekki endalaust fjármagn og ef ég á að velja á milli þess að fá góðan hægri kantmann og bráðnauðsynlegan þriðja miðvörð, eða að fá Michael Owen – þá sjöunda framherjann okkar – og þurfa að taka sénsinn á heilu tímabili með bara Hyypiä og Carragher í miðverði, þá er alveg ljóst hvorn kostinn ég vel.

Því miður, St Mike, þú yfirgafst okkur fyrir ári og hugsaðir ekki um hag Liverpool heldur eigin hag, því er lítið annað að gera en að sjá þig ganga til liðs við Man U … MANCHESTER fokking UNITED … og vona svo að Crouch, Cissé og Morientes skori miklu, miklu, MIKLU meira en þú í vetur!

Annars hafði Paul Tomkins mjög áhugaverðar pælingar um Michael Owen. Hvet þá sem þyrstir í dramatík til að lesa nýjasta pistil hans.

Nú, ekki get ég látið mánudaginn líða án þess að minnast á það sem mér finnst vera bestu fréttir dagsins fyrir okkur. Við endurheimtum nefnilega framherja í dag, og nei hann heitir ekki Michael Owen. Þetta er framherji sem, í fjarveru Owen og Baros, getur boðið okkur upp á einstaka eiginleika sem munu nýtast liðinu gríðarlega vel í vetur. Þetta er leikmaður sem var hetja gegn Olympiakos í Meistaradeildinni, vann Southampton á heimavelli fyrir okkur einn síns liðs og var sennilega einn besti ungi leikmaður okkar, þangað til hann meiddist í janúar s.l. Þessi leikmaður heitir Florent Sinama-Pongolle.

Hver þarfnast Michael Owen svo sem?

13 Comments

  1. Sælir félagar!
    Mourinho hefur greinilega áhyggjur af L-pool á næstu leiktíð og er farinn að rappa yfir Gerrard fyrir að hafa ekki komið til Chelskie þegar það bauðst. Heilagur Mikkjáll mun að líkindum (miðað við fréttir í dag) fara til MU og verður að segjast að ef í honum slær einhver vottur af L-pool hjarta þá líður honum varla mjög vel með það. Hann á reyndar möguleika á að verða 4. til 5. framherji RM(fer eftir uppstillingu á þeim bæ) og hugsanlega velur han þann kostinn frekar en MU, vonandi. Í komandi framtíð fær hann svo hugsanlega pláss í framtíðarplönum Sir Rafa. Pongolle er að koma til baka en er auðvitað ekki í neinu formi ennþá en hæfileikarnir eru ótvíræðir og framtíðin er hans ef hann styrkist líkamlega og sleppur við meiðsli. Sú stefna Sir Rafa að styrkja vörnina (miðvörður) og ná í öflugan hægri kantmann er hárrétt. En hvort Stelios er sá maður er ann mál (hugsið ykkur ef við hefðum náð í S.W Philips í þá stöðu) Það verður auðvitað að leggja áherslu á að ná í menn í þessar stöður sem ná máli sem leikmenn á heimsmælikvarða og Stelios er varla framtíðarlausn orðinn 29 ára og verður ekki betri en hann er nú, þ.e. mjög góður miðlungsleikmaður. Ég verð þó að segja að ég treysti Sir Rafa til að leysa þetta mál á viðunandi hátt en tíminn er að verða skammur sem til stefnu er.
    :smile:En verum vongóðir félagar fyrir næstu leiktíð. Evrópumeistarar Liverpool verða engu liði auðveld bráð í vetur
    Baráttukveðjur
    Sigtryggur Karlsson

  2. ManUSA þarfnast Owen. Það yrði fyrsti framherjinn og í raun fyrstu alvöru kaupin hjá Saur Alex í mörg ár sem meikar sense! Owen sveik okkur á sínum tíma og hann var seldur og hann kemur ekki aftur. Við höfum cover fyrir framherjastöðuna og ég er sammála Benitez að það þarf að finnna cover fyrir Carra og Hyypia. Leyfum blöðunum að bulla.

  3. Jamm, Baros er ekki að fara til Schalke. En miðað við orð Paska, umboðsmanns hans, í fréttinni sem þú vísaðir á, er greinilega mjööööög stutt í að eitthvað konkrete heyrist, þannig að það er ljóst að það eru fleiri lið í baráttunni um hann. En hverjir? Aston Villa? West Ham? Eða eitthvað dularfullt lið?

    Þetta verður spennandi að sjá. En ég hef ennþá fulla trú á því að Milan Baros sé búinn að leika sinn síðasta leik fyrir Liverpool ~ og að vissu leyti eru það góðar fréttir að sjá að klúbburinn var ekki reiðubúinn að lána strákinn frá Anfield. Sem hefði verið algjör vitleysa.

  4. HVER gæti komið á hægri kantinn? HVER gæti komið í miðvörðinn!

    Svör óskast strax, ég er orðinn illa óþolinmóður

  5. Ef Owen fer til MU þá verð ég brjálaður 😡 og mun ævinlega líta á hann sem svikara ! ? 😡

    Ég vil Baros burt því að fyrir mér er hann að verða einsog Ankelka í hausnum, þ.e. hraunandi yfir allt og alla og þykist vita meira og betur en aðrir (sorry Einar en því miður þá finnst mér hann ekki passa leikstíl Liverpool) ! Best væri að skipta á honum og Andrade (hjá Depor) – Það væru fín skipti.

  6. Strákar, strákar…

    Heilagur Mikjáll mun ALDREI fara til manjú, ALDREI! Það er álíka líklegt og að phil neville yrði kosinn kynþokkafyllsti karlmaðurinn í Evrópu! Sem sagt ómögulegt!!! 😉

  7. Le Tallec að fara til Sunderland að láni samkvæmt Sky Sports.

    Er verið að fara að kaupa annan sóknarmann eða þýðir þetta að Baros verður áfram?

  8. Mér finnst alveg klassi hvernig Rafa bara hlær að Muhumhu þegar hann er að reyna að hrauna yfir Gerrard.

    Hvílíkur hrokagikkur sem þessi maður er. Gat hann ekki bara unað Gerrard þessa ákvörðun???

    Rafa er sko minn maður……… :biggrin:

  9. Það er akkúrat málið Jón. Móri getur bara alls ekki unað því að Gerrard hafi komist að þessari niðurstöðu.

    Ég fílaði Móra fyrst þegar hann kom í enska boltann en hætti því þegar ég sá hversu rosalega tapsár maðurinn er. Þá byrjar hann að væla og tapar “kúlinu” algjörlega!

Baros á förum til Schalke!

Kaunas á morgun + Annað