Haukur stóri bróðir, 12 ára „Halldór? Veistu hvað er uppáhaldsliðið mitt?“
Halldór, 8 ára: „Um.. nei, jú, FH?“
Haukur stóri bróðir: „Nei, ekki íslenskt, heldur alvöru. Það er Liverpool. Það er besta lið í heimi“
Smá þögn.
Haukur stóri bróðir: „Halldór, hvað er uppáhaldsliðið þitt?“
Halldór: „Hm… Liverp…“

Og þarna var það komið. Óuppsegjanlegur samningur sálar minnar við myrkan heim knattspyrnunnar. Ég var kominn með uppáhalds lið. Það skyldi aldrei losna við mig og ég skyldi aldrei losna við það.
Næstu ár fylgdist ég einstaka sinnum með fótbolta. Aðallega á vorin þegar það var komið að úrslitum bikarkeppninnar. Mér fannst svolítið eins og það væri árlegur leikur milli Liverpool og Everton. Og alltaf sigraði Liverpool. Ósigrandi. Um daginn fór ég í veiði, og fylgdist með bleikjunni eitt sinn elta fluguna mína og kok gleypti hana svo nálægt fætinum á mér. Það var svolítið eins og þegar ég kok gleypti í framlengingu bikarkeppninnar 1989, þann 20. maí, þegar Ian Rush skoraði fyrra markið sitt á 95. mínútu. Aldrei hafði ég séð jafn glæsilegt mark í beinni útsendingu. Ég mun aldrei geta þakkað Stuart McCall nógu innilega fyrir jöfnunarmörkin sín gegn Liverpool, því án þeirra hefði Ian Rush aldrei gefið mér þessi fallegu augnablik þegar hann kom okkur yfir og að lokum tryggði okkur sigur. Eftir þennan leik var innilega aldrei aftur snúið.

Haukur stóri bróðir, 14 ára: „Halldór? Veistu hvað er uppáhaldshljómsveitin mín?“
Halldór, 10 ára: „Um.. nei, jú, Duran Duran?“
Haukur stóri bróðir: „Nei bjálfinn þinn, það er Depeche Mode, það er besta hljómsveit í heimi!“
Smá þögn.
Haukur stóri bróðir: „Halldór, hvað er uppáhaldshljómsveitin þín?“
Halldór: „Hmm.. Depe…“

Og þarna kom óuppsegjanlegur samningur minn númer tvö. Kominn með uppáhaldshljómsveit. Aldrei skyldi Depeche Mode losna við mig og aldrei ég við Depeche Mode.
Það var því með skemmtilegri stundum lífs míns þegar ég sat í Kop stúkunni með Bjössa mági mínum, 4. desember 2013 og söng með mörgþúsund manns: „I just can‘t get enough, I just can‘t get enough, Luis Suarez!“ og fagnaði innilega með þeim á öllum á 15., 29., 35. og 74. mínútu.
Ég hef verið heppinn með ferðir mínar á Anfield, því ég fékk einnig að finna þytinn af knettinum þegar hann söng í netinu gegn Middlesborough á 51. mínútu 30. apríl 2004, þegar Gerrard skoraði eitt sitt allra fallegasta mark.

Í janúar 1994 í sálfræðitíma í MH. Ókunnugur drengur settist við hliðina á Halldóri og sagði: „Ég heiti Maggi, hvað heitir þú?“
Halldór: „Halldór, en þú?“
Ókunnugi drengurinn: „Maggi, ég var að segja það,.. en hvað er uppáhaldsfótboltaliðið þitt?“
Halldór, sem kannaðist við spurninguna frá því hann var 8 ára, og kunni rétta svarið: „Liverp..“

Og þar með var óuppsegjanlegi samningur númer 3 orðin að veruleika. Halldór svaraði rétt og stóðst persónuleikaprófið. Maggi og Halldór skyldu verða Liverpool áhangendur saman um ókomna tíð. Maðurinn sem dró mig á minn fyrsta leik á Anfield gegn Steaua Bucharest og dró mig inn á ritvöllinn á liverpool.is undir nafninu Biscant. Síðar, þegar Maggi var steggjaður fyrir brúðkaupið sitt, þá lét ég tattúvera Magga í þakkarskyni fyrir þetta allt. Um það má lesa hér.

Rúnar vinnufélagi: „Halldór, veistu hvernig ég fer í og úr vinnunni?“
Halldór: „Um.. nei, jú, ertu ekki á Dodge Ram bíl?“
Rúnar vinnufélagi: „Nei þorskurinn þinn. Ég hjóla næstum allt sem ég fer. Það er hollt og gott og umhverfisvænt. Langbesti ferðakosturinn“.
Smá þögn.
Rúnar vinnufélagi: „Halldór, hvernig ætlar þú að ferðast til og frá vinnu og næstum allt sem þú ferð?“
Halldór: „Hm.. ég ætla að hj…“

Fjórði óuppsegjanlegi samningurinn fæddist þarna fyrir nokkrum árum. Ég hjóla og hjóla, æfi það sem keppnisgrein og ferðast flesta daga þannig til og frá vinnu.
Þetta er hann Halldór. Vatnsberi frá árinu 1976 og deilir afmælisdegi með Steve McManaman. Kvæntur og þriggja barna faðir. Ferlega áhrifagjarn og pikkfastur við Liverpool, Depeche Mode, Magga og hjólið sitt.

YNWA
Halldór