Sigurður Einar Einarsson heiti ég og er Eyjapeyji sem fæddist á því herrans ári 1981 en það ár varð Liverpool Evrópumeistari svo að það er toppár.
Ég er íþróttafræðingur og er að kenna íþróttir á Selfossi þar sem ég bý með konu minni og tveimur börnum. Ég æfði fótbolta/handbolta með ÍBV upp alla yngri flokka og fór svo að þjálfa fótbolta og hef þjálfað hjá ÍBV, Fram og tók sumar í Vík í Mýrdal með knattspyrnuskóla. Ég tók líka nokkur ár með KFS.

Ég fór að fylgjast með Liverpool af því að bróðir minn og afi (Dóri Ben) voru miklir stuðningsmenn og var fyrsta sterka fótboltaminningin mín þegar ég fer að gráta við að hlusta á Bjarna Fel lýsa leik Liverpool-Arsenal í útvarpinu árið 1989 (ljótt að rifja þetta upp) og má segja að síðan þá hafa úrslit í leikjum Liverpool skipt mig miklu máli. Maður mann eftir 1990 titlinum en þá var bara farið út í fótbolta strax á eftir að hann var kominn í hús og var eins og þetta væri bara eðlilegur hlutur að gerast en þessi eðlilegi hlutur lét bíða eftir sér í 30 ár. Á þessum árum var þetta bara æfa fótbolta, spila fótbolta í frítímanum, lesa match/shoot fótboltablöðin og fylgjast með Liverpool og fólst það í því að fara heim til afa að horfa á leiki. Ekki flókið líf en ég myndi segja fullkomið.
Fyrsta heimsóknin til tengdaforeldranna var árið 2005 og var þá einhver leikur við AC Milan í gangi og má segja að þau fengu að sjá allan pakkann þennan dag og áttuðu þau sig því strax á að fótbolti væri partur af mínu lífi.

Það má segja að ég sé Liverpool og fótboltafíkill en maður missir ekki af leik (þá meina ég aldrei) og er fjölskyldudagskráin oftar en ekki skipulögð í kringum Liverpool leiki. Mitt áhugamál er Liverpool því að ég hef gaman af því að safna bókum og Vhs/dvd/blu ray diskum um liðið en það hefur heldur betur hjálpað til þegar liðið var ekki að standa sig að rifja upp góða tíma.

Ég hef farið nokkrum sinnum á Anfield og stendur staðan í 6 sigrum og einu jafntefli svo að það var engin tilviljun að um leið og ég kom í kop.is gengið að bikararnir komu á færibandi 🙂