Þetta var ansi hreint magnaður dagur hvað slúður varðar þó ennþá sé nokkuð óljóst hvað nákvæmlega er að gerast, ef eitthvað yfirhöfuð. Það er í stuttu máli verið að orða Henderson og Fabinho nokkuð sterklega frá Liverpool til liða í Saudi Arabíu og eins er jafnvel verið að tala um að Thiago gæti verið á förum.
Það er David Ornstein sem fer fyrir hópi áreiðanlegra blaðamanna sem er að orða bæði Henderson og Fabinho frá Liverpool. Miðað við hvaða blaðamenn eru að fjalla um þetta slúður er nokkuð ljóst að eitthvað er í gangi þar. Thiago er mun minna marktækt ennþá.
Rót vandans
Það er auðvitað enganvegin óskastaða Liverpool að skipta nánst um miðju á einu sumri og ennþá auðvitað óljóst hvort það verði raunin. Hinsvegar hefur ekkert breyst hvað þá staðreynd varðar að Liverpool þarf að gera mjög róttækar breytingar strax í sumar. Rót vandans er að félagið hafði ekki keypt miðjumann síðan 2018 fyrir utan Thiago sem enn hefur ekki náð að spila mikið meira en helming leikja Liverpool yfir heilt tímabil. Tvö sumur í röð var Liverpool sterklega orðað við stór nöfn á miðjuna sem komu hvorugt sumarið og í vetur var einfaldlega komið að skuldadögu.
Fyrir stuttu skoðuðum við miðjuna nokkuð ítarlega og vandamálið hefur blasað við í mörg ár. Klopp á mjög erfitt með að finna stöðugan miðjumann (meiðslalega). Getur verið að stór hluti af vandanum er að Liverpool kaupir of sjaldan miðjumenn og þegar þeir gera það hafa þeir keypt leikmenn með mjög þekkta meiðslasögu (Thiago, Ox).
Aðeins Wijnadum hefur náð að spila meira en 80% af deildarleikjum Liverpool yfir eitt tímabil undir stjórn Klopp.

Af þeim miðjumönnum sem nú þegar hafa yfirgefið Liverpool í sumar skipti enginn þeira neinu stóru máli á síðasta tímabili. Keita spilaði 9% leikja liðsins, Ox náði 10% og byrjaði aðeins einn leik sem miðjumaður. Arthur náði bókstaflega ekki deildarleik, Milner byrjaði fjóra leiki á miðjunni og var nú engin super sub í þessi 24 skipti sem hann kom inná í fyrra. Samanlagt eru þetta um 1.400 mínútur sem Mac Allister ætti að vera búinn að ná að fylla fljótlega eftir áramót. Þetta eru svipað margar mínútur og Jones spilaði á endaspretti síðasta tímabils til að setja þetta í annað samhengi.
Fabinho, Henderson,Thiago og Elliott voru aðalmiðjumenn Liverpool megnið af síðasta tímabili og ég bara skil ekki hvernig það er eitthvað rosalegt stórmál ef félagið ákveður að losa 1-2 af þeim núna strax. Satt að segja hugsa ég að félagið myndi spjara sig ágætlega (með réttum innkaupum) þó þeir færu allir. Auvitað væri best að gera þetta í skömmtum yfir næstu 12 mánuði en gamla góða reglan á enn vel við, látum lappir lykilmanna fara á launaskrá einhverra annarra.
Mest allt síðasta tímabil vorum við að tala um að Liverpool þyrfti að vera meira rutless á leikmannamarkaðnum og losa fyrr vinsæla leikmenn þegar þeir hætta að skila eins vel af sér innanvallar. Út frá þeim vinkli spilar boð í þessa leikmenn nokkuð vel upp í hendurnar á Liverpool.
Þarna erum við að hugsa þetta meira út frá tölfræði þættinum heldur en mannlega þættinum sem er ekki síður mikilvægur í huga Klopp. Það að fá boð í Henderson og selja á nokkrum dögum er meira en að segja það. Það að losa Fabinho er stærra mál innanvallar þar sem hann er ennþá lykilmaður í liðinu.
Jordan Henderson
Persónulega fannst mér fimm ára ofursamningur fyrir 30 ára gamlan Henderson alls ekki merkilegt skref hjá FSG og hafði einmitt áhyggjur af framtíðaráformum félagsins hvað miðjumenn varðar. Langur samningur á Henderson gerði það að verkum að félagið sparar sér kaup á miðjumanni. Fyrir Wijnaldum var fengið jafn gamall leikmaður sem er helmingi oftar meiddur. Þetta var bara lélegt plan hjá Liverpool sem fór illa.
Hendo er fyrir nokkru síðan búinn að missa sítt super power sem var yfirferðin og hlaupagetan. Hann hefur verið frábær leiðtogi fyrir Liverpool og líklega einn besti fyrirliði Liverpool núna í seinni tíð, sérstaklega þegar hann gat sjálfur sett standardinn innanvallar. Auðvitað er missir af öllum þessum frábæru leikmönnum sem eru núna að komast á aldur en er Liverpool klárlega með öflugan hóp fyrir og leikmenn sem ættu vel að vera í stakk búnir til að stíga upp og leiða liðið.
Ef að Henderson fer (eða Fabinho) þarf það auðvitað að vera á forsendum Liverpool, fá fyrir hann pening til að setja í aðra leikmenn og losa um leið stórt pláss á launaskrá. Pláss sem rúmar mun hærri profile og tilbúnari leikmann en t.d. Lavia frá Southampton.
Reynslan sem Henderson býr fyrir er og hefur auðvitað verið mikilvæg en það er miklu mikilvægara að hafa miðjumenn í toppstandi nærri sínum hátindi, sérstaklega í þeim fótbolta sem Klopp vill spila.
Það er annars áhugavert að það sé Gerrard sem er að reyna fá Henderson frá Liverpool því líklega getur engin sett sig betur í hans spor. Henderson hefur vafalaust fengið þau skilaboð fyrir næsta tímabil að hann verði ekki í eins stóru hlutverki og vill ekki verða dragbítur á liðinu. Gerrard hefði sem dæmi sannarlega mátt hætta einu ári fyrr en hann gerði enda það tímabil alls ekki ósvipað síðasta tímabili Liverpool. Gerrard tók ekki vel í þau skilaboð Rodgers að hann yrði í minna hlutverki og ákvað að fara frekar, hann sá svo eftir því seinna.
Að þessu sögðu finnst mér ekkert sjálfgefið að Henderson fari til Saudi Arabíu. Anfield Wrap kom með góðan punkt í dag sem gekk út að það að helstu milljarðamæringar heims væru að eyða peningum sínum helst í upplifanir sem erfitt er að upplifa. Ferð út í geim, á hafsbotninn o.s.frv. Hvað væru þeir til í að borga fyrir að fá að vera fyrirliði Liverpool og partur af enska landsliðinu á stórmóti? Henderson þarf ekki beint peninginn.
Eins mun hann stórskaða ímynd sína taki hann þessu tilboði enda talað mjög fyrir málefnum sem falla rosalega illa að því að búa í Saudi og hjálpa þeim við sín ímyndarþrif. Ímyndin er hugsa ég eitthvað sem er honum töluvert mikilvægt.

Fabinho
Hann gæti verið að fara til sín gamla stjóra líkt og Moby benti á í byrjun mánaðarins
Flest sömu lögmál eiga við um Fabinho nema hann er mikilvægari innan vallar og minna mikilvægur utan vallar. Það væri galið ef Liverpool samþykkir að selja sína einu sexu núna og ætti að þurfa álíka galið tilboð til að svo mikið sem íhuga þann möguleika. Af miðjumönnum Liverpool síðasta vetur er Fabinho sá sem ég myndi selja síðast akkurat núna.
Á sama tíma hefði Liverpool átt að kaupa arftaka hans fyrir ári síðan og reyndu það raunar, sá fór til Real Madríd. Það þyrfti alls ekki að vera neinn heimsendir ef Liverpool tekur tilboði í Fabinho en þá er líka eins gott að sá peningur sé settur í alvöru leikmannakaup. Caicedo væri t.a.m. flottur kostur úr því að Rice virðist ekki vera option. Sala á Fabinho og eitthva svona panic Arhur lánsbull er ekki í boði.
Fabinho var lélegur á síðasta tímabili en hversu mikið af því má skrifa á leik liðsins í heild og stöðugleikann og hlaupagetu samherja hans á miðjunni? Declan Rice hefði líka verið í basli að verja þessa miðju okkar síðasta vetur. Ekki misskilja, Fabinho var út á túni sjálfur og getur ekki skrifað allt á samherja sína.
Hann kom ágætlega til í restina en það er engu að síður líklegt að hann hafi núna toppað sem leikmaður, rétt eins og Henderson og Thiago. Þeir eru ennþá allir mjög góðir leikmenn sem geta verið frábærir af og til en Liverpool þarf að byggja miðjuna og liðið í kjölfarið upp í kringum leikmenn á sínum hátindi eða leikmönnum að nálgast sinn hátind. Höfum verið með allt of marga undanfarið sem eru á leiðinni niður.
Að því sögðu hefur Fabinho verið einn af mínum uppáhaldsleikmönnum hjá Liverpool, ég kallaði eftir alvöru varnartengilið frá því Mascharno fór 2010 þar til Fabinho kom átta árum seinna og með honum var Klopp búinn að fullkomna púslið, Liverpool fór að vinna titla aftur strax í kjölfarið. Sama á við um Henderson og Firmino, báðir leikmenn sem hafa verið í mjög miklu uppáhaldi. Það er samt einhverntíma réttur tími til að kveðja þessa leikmenn áður en töfrar þeirra þverra alveg út.
Thiago
Lykilmaður sem hefur spilað 47% af deildarleikjum Liverpool frá því hann kom fyrir þremur árum. Eruð þið ekki líka kominn með ógeð setningunni “ef hann væri ekki svona mikið meiddur þá…” Liverpool var 3-4 árum of lengi að losna við Keita, Ox, Lallana, Sturridge o.s.frv. Oftar en ekki mjög flottir leikmenn og ennþá betri karakterar sem bara skiptir ekki máli ef þeir geta ekkert spilað. Það er ágætis no dickheads regla þegar kemur að innkaupum hjá Liverpool og hópurinn því upp til hópa skipaður toppmönnum.
Liverpool væri að spila í Meistaradeild Evrópu næsta tímabil ef Thiago gæti spilað 70-85% af leikjum liðsins en ekki tæplega 38% líkt og hann gerði í vetur. Liðinu vantaði fjögur stig uppá og miðjan var í henglum, hans gæði í 30-40% fleiri leikjum hefði nánast örugglega gert gæfumuninn. 70-85% per tímabil er eðlileg krafa á leikmenn hjá öllum öðrum liðum en Liverpool.
Liverpool losaði eina miðjumanninn sem hefur spilað meira en 80% á einu tímabili undir stjórn Klopp fyrir Thiago sem hefur síðan þá spilað um 47% leikja liðsins. Thiago er betri í fótbolta en Wijnaldum, en Wijnaldum var miklu mikilvægari fyrir Liverpool.
Miðjan nú þegar sterkari – óháð sölu á “gömlu” köllunum
Ennþá finnst mér erfitt að sjá þetta gerast og miðað við hvernig dagurinn í dag þróaðist verður fróðlegt að sjá hvaða twist morgundagurinn bíður uppá. Það er mjög ólíkt Liverpool að gera svona róttækar breytingar í einu og þetta virkar eins og áhuginn á Henderson og Fabinho sé nýlegur og komi nokkuð flatt upp á Liverpool. Fabinho og Henderson voru alls ekkert að kveðja stuðningsmenn Liverpool eftir síðasta heimaleik á Anfield í vor t.d. Það þarf samt ALLS EKKI að vera svo bakvið tjöldin að þetta hafi bara verið að koma upp, mögulega er félagið þá mun lengra komið í að fylla þeirra skörð, það hefur í sumar verið talað um 3-4 miðjumenn sem dæmi. Eins gerast svona stór leikmannaviðskipti alla jafna ekki á nokkrum dögum.
Hvort sem einhver eða allir af þeim þremur fari er miðjan hjá Liverpool miklu meira spennandi núna en hún var þegar flautað var af gegn Southampton.
Mac Allister einn og sér fyllir upp í skarð þeirra sem þegar hafa yfirgefið Liverpool og stórbætir Liverpool í leiðinni. Klopp gaf honum nickname strax á fyrsta degi sem gat ekki verið betra fyrir nýjan leikmann Liverpool með eftirnafnið Mac Allister, hann verður auðvitað Gary héðan í frá innan hópsins.
Szoboszlai varð niðurstaðan en ekki Mount sem ég notaði sem dæmi í færslunni fyrir rúmlega mánuði síðan og var ansi umdeildur. Ungverjinn er mun meira spennandi og hefur alla burði til að stórbæta miðjuna hjá Liverpool. Hann er líklega stór ástæða þess að Henderson er að íhuga að segja þetta gott á Anfield.
Ef að þeir eiga bara normal 70-85% tímabil (spilaðar mínútur) er það bylting á því sem Liverpool hefur verið að vinna með og fækkar þörf á miðjumönnum um 2-3 leikmenn. Það er ekki normal að vera með níu miðjumenn og þurfa samt að láta 18 ára pjakk spila 16% af deildarleikjum tímabilsins.
Curtis Jones er svo aftur að fara inn í tímabil sem spennandi valkostur og virðist tilbúinn til að stíga stórt skref uppá við á sínum ferli. Eins og hann var að enda síðasta tímabil og spila með U21 árs liðinu í sumar er hann klárlega kominn framúr Henderson og Elliott á miðjunni. Þannig var það alls ekki megnið af síðasta tímabili.
Trent Alexander-Arnold er ennþá áhugaverð breyta hvað miðjuna varðar því að ef það losnar allt í einu um stöðu varnartengiliðs hjá Liverpool gæti Klopp allt eins talið það betra að kaupa bakvörð og færa Trent meira í það hlutverk sem hann var að brillera í undir lok síðasta tímabils.
Henderson virðist koma undan sumarfríi í toppstandi kjósi hann að vera áfram og taka að sér Milner hlutverkið svokallaða. Samþykki hann það er hann vafalaust að fara spila helling að leikjum rétt eins og Milner gerði.
Thiago fór í aðgerð undir lok síðasta tímabils. Hann nær vonandi fullu pre-season núna og ræður við meira en 38% af tímabilinu. Held ekkert niðri í mér andanum en til að horfa á jákvæðu hliðina þá getur þetta ekki versnað mikið hjá honum. Best er ef miðjan er bara orðin of góð til að hann komist í liðið
Fabinho er svo vonandi ferskur eftir gott frí í sumar og kemur tilbúinn til leiks og fær vonandi alvöru samkeppni um stöðuna (verði hann yfirhöfuð áfram).
Þar fyrir utan á Liverpool ennþá Harvey Elliott sem hefur verið mjög stór partur af plönum Klopp og auðvitað Bajcetic sem sprakk út í fyrra. Það er erfitt að sjá hvar þeir eiga að fá mínútur eins og staðan er núna sem er nokkuð jákvætt vandamál.
Saudi Arabía.
Saudi Arabía er ný breyta í þessu öllu saman og mögulega er þetta bara að koma svona upp úr þurru núna í þessari viku. Það hvert fótboltinn stefnir með þessari rosalegu innkomu Saudi Araba er svo önnur og stærri umræða. Það er statment að fá fyrirliða Liverpool og þeir hafa sannarlega verið að fá til sín nokkuð stór nöfn undanfarið. Megnið er ennþá svona past their peak stórstjörnur í bland við góða leikmenn sem alveg eru í Úrvalsdeildarklassa í toppdeildunum. En það er augljóst að þeir stefna miklu hærra og vilja koma álíka sterkt inn í fótbolta og þeir hafa í Golf og Formúlu 1.
Hvað verða þeir að kaupa eftir 2-3 ár? Kemur tilboðið í Salah á næsta ári? Eru Mbappe, Haaland og álíka ofurstjörnur að fara kjósa þessi lið frekar en Real Madríd eftir hvað mörg ár? Hvenær verður FIFA keppni félagsliða yfir allt tímabilið og mikilvægari en Evrópudeildirnar? HM 2030 er alltaf að fara til Saudi er það ekki?