Upphitun: Leicester verður undir stjórn Shakespeare

Líklega er fátt meira viðeigandi eftir síðustu viku að stjóri Leicester gegn Liverpool heitir Shakespeare að eftirnafni. Mín kenning er sú að kappinn sá hafi skrifað handritið af síðasta tímabili en gat ekki stillt sig um að láta verkið enda sem harmleik.

Óhætt er að fullyrða að síðasta tímabil er eitt mesta og óvæntasta afrek sem nokkuð lið hefur unnið í íþróttasögunni. Leicester lið Claudio Ranieri vann kraftaverk á draumatímabili þar sem allt sem gat gengið upp og fallið með Leicester féll með þeim.

RanieriFyrir ári síðan er ég nokkuð viss um að allir stuðningsmenn Leicester hefðu tekið því að liðið félli 2017 ef það ynni titilinn 2016. Svona hugsar auðvitað enginn út í þetta núna, árangur er eini gjaldmiðillinn í fótbolta og því er Ranieri heldur betur að kynnast núna. Spurningin er bara hvort þessi harkalega ákvörðun Leicester sé sú rétta. Tíminn mun auðvitað leiða það í ljós en strax í sumar var auðvelt að sjá fyrir sér að verkefnið í vetur væri vitavonlaust.

Þegar Leicester spilaði opnunarleik tímabilsins í hádeginu 13.ágúst var ég í gasklefanum á X-inu í þætti Fotbolti.net. Þar man ég eftir því að hafa spáð Leicester verstu titilvörn í sögu úrvalsdeildarinnar, jafnvel verri en Chelsea í fyrra. Ég spáði þeim reyndar ekki falli og held að þeir falli ekki en þetta tímabil bara getur ekki komið svo mikið á óvart.

Byrjunarlið Leicester lenti nánast ekkert í meiðslavandræðum í fyrra og liðið spilaði leikstíl sem hentaði þeim vel að því leiti að þeir létu andstæðingana um boltann og djöflast við að brjóta þá niður en beittu svo banvænum skyndisóknum þegar færi gafst. Leikstíll sem tók ekki of mikið úr leikmönnum Leicester sem margir hverjir eru ekki byggðir til að spila sama bolta og t.d. Liverpool og Tottenham leggja upp með.

Liðið spilaði fimm leiki aukalega við deildarleiki á síðasta tímabili. Það var fyrirséð að þeir myndu eiga í vandræðum með að halda sama standard í deildinni á sama tíma og liðið tekur í fyrsta skipti þátt í Meistaradeild Evrópu. Það er heldur betur að koma á daginn. Stemmingin og gleðin sem einkenndi Leicester í fyrra er mun meira að finna í Meistaradeildinni í vetur heldur en deildinni heimafyrir.

Leicester tók andstæðinga sína í bólinu allt síðasta tímabil, það var eins og hvert einasta lið vanmæti aðeins Leicester og hreinlega neitaði að trúa því að þeir væru að fara vinna mótið. Þetta hefur heldur betur snúist við í vetur, það gefa allir allt í leikinn gegn meisturunum, sérstaklega þar sem allir andstæðingar Leicester telja sig geta unnið þá.

Lykilmenn hafa misst mikið meira úr af þessu tímabili en því síðasta (deildarleiki). Slíkt kostar öll lið eins og við þekkjum mjög vel. Svona er munurinn á spilatíma hjá Lykilmönnum Leicester miðað við síðasta tímabil:

Leicester

Kasper Schmeichel hefur nú þegar misst úr 1/3 af tímabilinu og munar heldur betur um minna. Miðjumenn og sóknarmenn hafa misst sem nemur 4-7 leikjum núna af fyrstu 25 leikjunum. Það er 10-20% meiri fjarvistir lykilmanna en liðið var að glíma við í fyrra.

Einn lykilmann máttu þeir hinsvegar alls ekki við að missa í eina mínútu og það er auðvitað Kanté, besti leikmaður deildarinnar undanfarin tvö tímabil. Leikstíll Leicester krafðist öðruvísi tegundar af vinnusemi eins og áður sagði en t.d. leikstíll Liverpool gerir en það hefur komið bersýnilega í ljós í vetur að Kanté var þriggja manna maki á miðjunni og lykilmaður fyrir bæði sóknarleikinn og varnarleikinn.

Munurinn á Leicester núna og Leicester í fyrra er eitt skýrast dæmið sem hægt er að finna um mikilvægi varnartengiliða. Miðverðir Leicester virka eins og öldruð gamalmenni í vetur þegar þeir hafa ekki Kanté að djöflast fyrir framan sig og vernda frá hröðum upphlaupum andstæðinganna. Það er ekki tilviljun að “trúðurinn” Luiz hjá Chelsea sé allt í einu orðinn traustasti miðvörðurinn í bransanum. Ef Kanté er á miðjunni, tala ekki um með öðrum varnartenglið eins og Danny Drikwater þarftu að finna aðra leið í gegnum vörn Leicester, eitthvað sem endaði oftar en ekki í kick and hope boltum fram völlinn sem Captein Morgan og Robert Huth nærast á og átu alla með bestu list. Þeir leikmenn sem Leicester keyptu í staðin fyrir Kanté voru ekki í öfundsverðu hlutverki og hafa enganvegin náð að fylla hans skarð. Kanté fékk svipað hlutverk fyrir síðasta tímabil þegar hann fyllti skarð Cambiasso sem var frábær þegar Leicester bjargaði sér ævintýralega frá falli árið 2015.

Sóknarleikurinn saknar Kanté litlu minna en varnarleikurinn enda hafa allir þurft að sinna mun meiri varnarskyldu með takmörkuðum árangri. Danny Drinkwater er ekki lengur efni í landsliðsmann líkt og í fyrra, Mahrez hefur verið hroðalegur og Vardy hefur á löngum köflum verið einn og yfirgefinn upp á topp og varla sést heilu leikina. Hann skoraði reyndar í síðasta leik gegn Liverpool…eftir sendingu frá Lucas.

Brottrekstur Ranieri

Ranieri er fórnarlamb eigin velgengni að miklu leiti, það er ljóst. Eins og ég listaði hér að ofan var mjög margt sem benti til þess að þetta tímabil yrði mjög erfitt hjá Leicester. Þegar hann tók við var liðið nýbúið að bjarga sér á ævintýralegan hátt frá falli og var af flestum spáð svipuðu ströggli árið eftir.

Það er hinsvegar ekki hægt að fara úr því að vinna deildina og tryggja sér sæti í Meistaradeildinni og sætta sig við fall árið eftir. Ekki einu sinni hjá Leicester.

Liðið var í 15.sæti með 20 stig um áramótin, þeir voru þá sex stigum frá fallsæti og hafa aldrei náð meira bili við fallsæti á þessu tímabili. Síðan þá hefur liðið spilað sex deildarleiki og fengið eitt stig, það kom 2.janúar. Liðið hefur ekki skorað eitt mark í þessum leikjum, þrír hafa tapast 0-3 og hinir tveir voru gegn Burnley og Swansea. Liðið vann Everton í bikarnum og sló Derby einnig út eftir aukaleik en datt svo úr þeirri keppni eftir tap gegn Millwall.

Eftir 25 umferðir á síðasta tímabili var Leicester á toppnum með 53 stig, núna eru þeir í fallsæti með 21 stig, 32 stigum minna. Ég væri bara alls ekkert hoppandi kátur sem stuðningsmaður Leicester í þessum aðstæðum og get að mörgu leiti skilið það að þeir ákveði að gera breytingar núna.

Það sem er talið hafa gert útslagið er að leikmenn Leicester virðast hafa fengið nóg af Ranieri í vetur og eru sagðir hafa farið fram á það við eigendurnar eftir leikinn gegn Sevilla að hann færi. Þegar þú missir klefann er þetta vanalega búið og stuðningsyfirlýsing sem Ranieri fékk frá eigendum liðsins 16 dögum áður var álíka marktæk og slíkar yfirlýsingar eru jafnan.

Leicester vann kraftaverk á síðasta tímabili og Ranieri hefur réttilega verið hylltur sem kóngur eftir það. Án þess að vilja draga mikið úr hans afreki má samt alveg hafa það í huga að hann stillti nánast alltaf upp sama liði í fyrra sem er verulega óvenjulegt enda Ranieri með viðurnefnið Tinkerman áður en hann kom til þeirra. Hann byggði ekki upp þetta lið sem skilaði titlinum heldur tók við liði sem bjargaði sér ævintýralega frá falli og hélt áfram þaðan sem frá var horfið tímabilið á eftir. Þeir spiluðu svipaðan fótbolta áfram og það gekk eins og áður segir bókstaflega allt upp.

Ranieri er því kannski ekkert ósnertanlegur að mati forráðamanna og leikmanna félagsins þó hann sé það auðvitað í augum þeirra sem ekki halda með Leicester.

Ég get því alveg skilið hvaðan brottrekstur Ranieri kemur, það er komin örvænting innan félagsins og stjórinn er jafnan fyrsta fórnarlambið í þeim aðstæðum. Af neðstu sex liðunum hafa fjögur skipt um stjóra það sem af er þessu tímabili.

Margir hafa horft í viðbrögð leikmanna Leicester á samfélagsmiðlum eftir að Ranieri var rekinn. Það segir væntanlega eitthvað um stemminguna innanbúðar að það kom ekkert frá neinum þeirra í heilan sólarhring.

Hvort sem hægt er að skilja þennan brottrekstur eða ekki er ljóst að rómantíkin í kringum Leicester dó alveg með brottrekstri Ranieri og virðing fyrir leikmönnum liðsins sömuleiðis. Þeir voru heldur betur tilbúnir að dansa með í fyrra en snúast nú hressilega gegn stjóranum í mótlæti. Ábyrgðin er engu minna þeirra í vetur heldur en Ranieri.

Hinsvegar má spyrja sig hvort þessi hópur sé ekki bara einmitt þar sem búast mætti við að hann væri. Megnið af þessum hóp var spáð fallbaráttu fyrir síðasta tímabil. Það á svo sannarlega aftur við ef við bætum Meistaradeild við leikjaprógrammið umfram hin botnbaráttuliðin. Hvað þá ef við tökum svo Kanté út líka.

Liverpool

Það sem fer aðallega í taugarnar á mér við brottrekstur Ranieri er tímasetningin. Auðvitað þurftu þeir að gera þetta akkurat fyrir leikinn gegn Liverpool. Liðið hefur ekki skorað deildarmark á þessu ári fær núna nýjan stjóra sem oft gefur liðum aukin kraft til skemmri tíma. Leikmenn Leicester þurfa að sanna sig fyrir nýjum stjóra.

Hinsvegar er það engin afsökun fyrir Liverpool, okkar menn eiga að vinna þetta Leicester lið sama hvernig þeir koma stemmdir til leiks. Liverpool spilaði síðast leik daginn eftir Kópavogsfundinn 1662 en síðan þá hefur Leicester spilað útileiki gegn Swansea, Milwall og Sevilla og tapað þeim öllum. Bæði lið fóru vissulega til Spánar nýlega en það kemur í ljós á mánudaginn hvor ferðin var betri undirbúningur fyrir þennan leik.

Byrjunarlið Liverpool ætti að vera óbreytt frá sigrinum gegn Tottenham.
Liðið gegn Leicester

Dejan Lovren er bara nýbyrjaður að æfa af fullum krafti aftur og fór til Þýskalands í viðgerð á meðan rest af hópnum fór á La Manga. Lucas heldur þ.a.l. sæti sínu áfram. Persónulega myndi ég vilja Karius inn fyrir Mignolet en hann eins og Lucas tryggði sæti sitt líklega áfram í leiknum gegn Tottenham.

Wijnaldum var svo eitthvað tæpur í vikunni en að sögn Klopp eru þau meiðsli ekki alvarleg. Samkvæmt ljósmyndum frá æfingu var Henderson ekki með á laugardaginn, það er áhyggjuefni og eins og gott að það sé ekki alvarlegt.

Spá

Þessi leikur er bananahýði af stærri gerðinni eins og við erum farin að þekkja allt of vel. Liverpool hefur tapað fjórum leikjum í vetur og þeir hafa allir verið gegn liðum í neðri helmingi deildarinnar. Þrjú af sjö jafnteflum komu einnig gegn liðum í neðri helmingnum. Liverpool hefur semsagt tapað stigum sem jafngilda sex leikjum gegn liðum í neðri hluta deildarinnar og það eru bara 25 umferðir búnar af mótinu.

Það má svo guð vita hvaða Leicester lið mætir til leiks í þessum leik og þá hvort Shakespeare sé að skrifa þennan leik sem gamanleik eða harmleik.

Liverpool vann fyrri leikinn 4-1 í fyrsta heimaleik tímabilsins á endurbættum Anfield Road. Leicester átti ekki glætu í þeim leik og ég ætla að tippa á sömu úrslit í þessum leik. Okkar menn mæta tilbúnir til leiks og ganga á lagið gegn Leicester. Pressan er á þeim enda hefur brottrekstur Ranieri varpað mjög svo neikvæðu ljósi á leikmenn liðsins. Liverpool undir stjórn Klopp hefur hinsvegar sjaldan fengið eins góðan tíma til að undirbúa næsta leik.

24 Comments

  1. Henderson æfði ekki með liðinu í dag. Líklega ekki með á morgun.

  2. Veit að þetta tengist ekkert umræðunni. En enn og aftur fá Manutd línverðina með sér í lið. Hvernig er hægt að halda með þessu liði, Jesús!!

  3. Flott upphitun.
    Af gefinni reynslu er maður hræddur við þennan leik. Auðvitað. En okkar menn eru úthvíldir á meðan þetta er búið spil hjá Leicester.
    1-3

    Svo er ég að horfa á Wembley. Vonum það besta en ég græt mig í svefn að þeirri tilhugsun að okkar félag mun aldrei keppa um leikmenn á kaliberi Zlatans. Þvílíkur leikmaður og áhrif sem hann hefur á eitt félag.

  4. #3 slatan er skíthæll, aldrei þolað hann og þar sem likir sækja ser lika er utd liklega heppilegasta félagið fyrir hann.

  5. Zlatan skíthæll?

    Hann er cocky og bakkar það upp. Einn af topp 3 fótboltamönnum heims í dag. 35 ára og í ár 38 leikir og hvað 26 mörk!!!
    Googlaðu líka hvað hann gerir utan vallar. Bætum svo við áhrifin sem hann hefur á vinsældir Man Utd. Var núna að tryggja þeim fyrsta titil vetrar. Okkar eigendur vilja ekki svona menn. Kosta of mikið. 250 þúsund pund á viku, money well spent Man Utd! !!

    Þó svo ég sé grjótharður Liverpool maður þá hef ég alltaf dýrkað hann og núna er það ömurlegt að sjá hann hjá Man udt en hann er samt geggjaður forboltamaður

  6. Ógeðslega ósanngjörn úrslit áðan. Djöfull var þetta pirrandi.

  7. Ég veit ekki hvað eg get þolað mörg ár til viðbótar að sjá okkur vinna ekki neitt!! Ár eftir ár eftir ár. Á meðan Manutd tekst alltaf að vinna eitthvað. Ég persónulega hef séð Liverpool hampa einum titli. Ég var mjög ungur þegar við unnum Fa cup og man voða litið eftir þeim degi. Eini bikarinn i þessu12-13 sem stuðningsmaður liverpool hef eg bara upplifað það að hafa séð okkur vinna skíta carling cup. Liverpool Lífið er erfitt!

  8. http://m.fotbolti.net/news/26-02-2017/man-utd-tekur-fram-ur-liverpool-sigursaelasta-lid-englands

    Takk FSG

    Þið töluðuð um að vinna titla hjá Liverpool. Hversu langan tíma þurfið þið? Það er amk ekkert sem bendir til breyttra tíma m.v hvernig þið vinnið hlutina.

    Þið eruð eflaust ekkert svekktir að horfa uppá erkifjendur okkar stiga framúr okkur aftur og aftur en það pirrar okkur stuðningsmenn liðsins (amk hluta okkar, nú er að koma upp kynslóð stuðningsmanna sem sættir sig við 4.sætið sem frábæran arangur) að horfa uppá þetta. Menn segja nei nei nei við borgum ekki 35 ára manni alvöru laun til þess að koma með sigurvilja og sigurhefð, mann sem hefur unnið 30 titla á ferlinum. Nei slíkan mann þarf Liverpool ekki. Við höfum Ragnar Klavan.

  9. Alltaf sama helvítis vælið. Jájá Man utd vann bikar í dag og já Southampton voru alls ekki síðri og mark dæmt af þeim.
    Talað um að við höfum aldrei haft leikmann eins og Zlatan og þarf maður ekki að fara lengra en til Suarez til að sjá betri leikmann að mínu mati.
    Í sambandi við Zlatan og okka þá myndi hann ekki koma til okkar og eru margar ástæður fyrir því.
    Númer 1 hann hentar ekki leikstíl Klopp. Sem vill láta sína leikmenn hlaupa mikið, pressa og búa til usla. Zlatan vill frekar vera á þessu skokki fá boltan í fæturnar og búa eitthvað til.

    Númer 2 Man utd er ríkastafélag heims. Það má alveg skjóta á FSG eins og við viljum en það hafa kynslóðir fæðst án þess að sjá Liverpool vinna mikið á meðan að Man utd hafa verið duglegir að vinna titla. Svo að þeim fer fækkandi sem ungir drengir vilja bara spila fyrir Liverpool heldur eru lið eins og Barcelona, Real, Bayern, Juventus, Chelseaog Man utd komnir framúr einfaldlega vegna árangurs og fjármagns.

    Í sambandi við okkar árangur

    Númer 1 – Við vitum allt um titlaleysi en ég held að það vanti ekki metnaðinn. Á síðasta tímabili var liðið t.d í tveimur úrslitaleikjum en vítakeppni og lélegur síðarihálfleikur kom í veg fyrir að bikar fór á loft.

    Númer 2. Klopp bað stuðningsmenn um að hafa trú á liðinu og það verðum við að gera. Við stjórnum ekki öðrum liðum heldur einungis okkar eigin og ef Man utd, Man City, Chelsea, Tottenham, Arsenal eða liðið sem við erum að fara að spila við á morgun eru að vinna bikara þá er það vegna þess að þau hafa unnið fyrir því (annað hvort með dugnaði, skipulagi, klókindum, hæfileikum, penningum eða bland í poka af öllu þessu) og við þurfum bara að vinna fyrir okkar og hef ég trú að bikarar fara á loft hjá okkar frábæra liði.

    Á morgun er erfiður leikur og verkefni dagsins er að ná í 3 stig og hef ég trú að það takist. Ef við náum meistaradeildarsæti þá auðveldar það okkur að styrkja liði og hef ég trú á að liðið muni setja stefnuna á meistardeildarsæti á þessu tímabili og hef ég trú á að við munum ná því sæti.

    YNWA

  10. Mig langar að koma því að að þrír bestu leikmenn Leicester hafa komið fram um helgina og sagt að þeir hafi ekkert haft með brottrekstur Ranieri að gera og mér finnst þeir eiga að fá kredid fyrir það.
    þessi leikur verður að vinnast ,þó ekki væri nema fyrir það að ég vil okkar menn i meistardeild næsta vetur.Ég vinn á mánudagskvöldum og mér finnst eins og að Liverpool sé alltaf að spila á tíma sem ég get ekki séð þá svo ég þoli ekki mánudagsleiki
    Ég valdi að horfa á Atletico Madrid og Barca í gær í staðinn fyrir Zlatan sem ég hef aldrei þolað sem er ekki auiðvelt ef maður býr í Malmö eins og ég geri.
    Hvílik gæði sem boðið var uppá,hraði og hápressa af báðum liðum og barátta frá fyrstu mín til siðustu. Já og Zuarez ,hann er en þá rosalegur og kanske ætti Liverpool bara að kaupa hann aftur fyrir allt budgetið og borga honum hæstu laun í fótboltaheiminum.
    Held að hann mundi koma til Klopp og hann er jú vinur Cutiniho og Gerrard er kominn heim sem er líka vinur hans.
    Ég held að það væri betra en að kaupa en eitt sumarið nokkra efnilega leikmenn,við eigum nóg af svoleiðis.

  11. Sammála öllu sem Oddi segir.

    Og sammála um að kaupa Suarez aftur og bara borga það sem þarf. Myndi henta leikstíl Klopp fullkomlega.

    Annars mjög góð upphitun. Trúi samt tæplega því sem breska pressan blæs upp hvað varðar brottrekstur Ranieri, engu að síður fáránleg ákvörðun hjá eigendum LC.

    Leikurinn í kvöld verður að vinnast. Tottenham-leikurinn sagði mér ekkert um getu okkar sem liðs, því við gírum okkur alltaf upp í stærri leiki. En ef við vinnum í kvöld og nokkra leiki í röð á móti minni liðunum, þá skal ég fara að trúa því að góðir hlutir séu að gerast aftur.

    Áfram Liverpool!

  12. Veit ekki alveg hvaðan þessi Suarez umræða er komin en er ekki best að halda sig í raunveruleikanum?

    Liverpool þarf einmitt að fara halda þessum leikmönnum, Suarez, Torres, Sterling, Alonso, Mascherano o.s.frv. Vonandi eru Klopp að byggja upp það gott lið að við höldum slíkum mönnum, þeir heita í dag Mané, Coutinho og Firmino.

    Bæta svo við þennan hóp mönnum af sama kaliberi.

  13. Sælir félagar

    Leikurinn í kvöld er einn af öllum leikjum í deildinni sem verður að vinnast. Það er bara þannig að ef árangur á að nást í þessari deild þarftu að vinna helst alla leiki svo þessi er einn af þeim sem verður að vinnast það er svo einfalt.

    Hvað umræðuna um árangur/árangursleysi liðsins er það að segja að lið sem kaupir aldrei annað en unglinga sem eiga að verða góðir nær seint árangri. Ef til vill einhverntíma en það tekur tíma að byggja upp lið þannig.

    Liverpool hefur ekki keypt mikið af leikmönnum sem eru í heimsklassa. Ég man bara eftir Torres og Suarez núna undanfarin ansi mörg ár. Hinsvegar hafa verið keyptir haugar af miðlungsleikmönnum sem skila bara miðlungsárangri. Þar af leiðir er liðið bara með góðan miðlungsárangur á þessum tíma nema meðan Torres og Suarez toguðu okkur nærri titli.

    Ef Liverpool getur ekki keypt heimsklassaleikmenn verður liðið að búa þá til. Gerrard er dæmi um það en hann er líka dæmi um hvað liðið hefur búið til fáa slíka. Að reikna með að liðið komist á hæsta stall með því að búa þessa leikmenn til er í versta falli barnaskapur og í besta falli gífurleg þolinmæði.

    Liðin sem hafa getu og vilja til að kaupa þessa heimsklassamenn verða okkur alltaf framar og þess vegna höfum við verið í kjölfarinu á MU og verðum það áfram með þeirri pólitík sem nú er rekin í leikmannamálun. Við verðum að horfast í augu við það og sætta okkur við það meðan kaupgeta- og vilji eigenda er ekki meiri en raun ber vitni um.

    Leikurinn í kvöld verður að vinnast. Mu er komið algerlega uppí görnina á okkur og eins og þeir eru að spila núna fara þeir framúr okkur ef við vinnum ekki í kvöld. Það væri verulega ömurlegt. Ég sé ekki að þeir tapi mörgum stigum það sem eftir er. Hugsanlega tapa þeir stigum á móti City (vonandi) en ég veit ekki um framhaldið hjá þeim og nenni ekki að skoða leikjaplanið sem Móri er að væla útaf. Ég spái 1 – 4 í leik kvöldsins og ekkert væl.

    Það er nú þannig

    YNWA

  14. Ekki lýst mér á það, Lucas í vörninni móti Vardy og Henderson meiddur.

  15. Nú kvissast það út að henderson sé með brotið bein í fæti og frá í 4-6 vikur. Sé það satt þá er Can líklega að fara að detta inn í byrjunarliðið.
    Af tvennu illu þá vil ég frekar setja Moreno bakvörðinn og Milner inn á miðju.

  16. Ég vil sjá okkur slátra Leicester í kvöld. Ég vona að karma-dísirnar sýni eigendum Leiceister hvaðþað var glæpsamlega rangt að reka Ranieri eftir öskubuskuævintýri síðastu leiktíðar. Í hvaða heimi lifa þessir kallar?

    Annars er ég mjög sammála mönnum hér að ofan. Auðvitað átti Liverpool að vera spila þennan úrslitaleik í gær en ekki S’ton, ég er enn svekktur eftir þau hörmung.

    Sumir hverjir hér (þ.e.a.s. í kommentunum) kölluðu Zlatan elliæran hrokagikk sem var “korter í göngugrindina” og gerðu lítið úr þessum “kaupum” (geri mér grein fyrir því að hann er eflaust á himinháum launum þrátt fyrir að hafa komði frjálst). En maðurinn er ‘one of a kind’ og topp 5 í heiminum kandidat þrátt fyrir aldurinn. Það er afneitun að halda öðru fram – Hvar væri leiktíðin hjá united án hans? Hvar væri leiktíðin hjá okkur ef við hefðum eina týpu af Zlatan / Suarez / Griezmann / Ronaldo í okkar liði?

    Hann dróg vagninn í gær og hann vinnur bikara. Winner. Hvað eru margir winnnerar í LFC?

    Mér er nokk sama þó eitthverjir hérna telji að ‘svona’ leikmenn henti ekki okkar leikstíl og það sé ástæðan, en megin ástæðan er auðvitað helvítis metnaðarleysi hjá eigendum!

    Okkar erkifjendur sem ég nenni ekki að nefna á nafn, sem hafa voru í ruuuuuuuugli síðustu 3-4 ár með Moyes and Van Gaal hafa núna unnið 3 (!) bikara á síðustu 10 mánuðum. Til að strá salti í sárin tóku þeir fram úr okkur í heildarfjölda bikara í öllum keppnum um helgina.

    Þeir eru ekki með betra þjálfara en fjandinn, þeir drógu upp veskið og splæstu í nokkra ‘topp’ leikmenn.

    Er liverpool enn “með” í eitthverjum bikara öðrum en “Wenger Cup” (þ.e.a.s. að ná fjórða sætinu)?!

  17. það er soldið fyrndið að menn séu að agnúast útí eigendurnar hjá liverpool af því að zlatan er í man utd.

    hvar og hvenær kom það til tals að liverpool gæti tryggt sér þjónustu zlatans fyrir 250 þús pund á viku????

    var það einhverntímann möguleiki??

    hvernnig er það eigendunum að kenna að hann fór til eins besta vinar síns hans móra???

    veit ekki betur til en að þeir hafi opnað veskið til að fá leikmenn sem þjálfarinn biður um…

    en hins vegar getur líka verið að leikmenn hreinlega vilja ekki koma til liverpool s.s. draxler og fleiri….

    við höfum klopp og vonandi fer hann að sýna af hverju hann er svona mikils metinn þjálfari… hann er á sinni fyrstu heilu leiktíð með liðið og það er bara drulluflott holning á liðinu í bullandi baráttu um meistaradeildarsæti….. og ég biðst bara forláts en mér er skítsama um litlu bikarana sem eru í boði EF við fáum meistaradeildarleiki á næsta tímabili 🙂

    sorrýmeðmig

  18. Það eru að verða komin jafn mörg komment hér aðf neikvæðni og öfund eins og af jákvæðum kommentum eftir sigurleiki.

    Hef fulla trú á sigri í kvöld (án Henderson nb.) og 3 stig umfram allt.
    Klopp er búinn að gíra upp mannskapinn í 100% einbeitingu og á svoleiðis dögum stenst ekkert lið okkur snúning, það hefur sýnt sig eins og á móti Chelsea, City ofl. Hvað veldur því að hugarfarið er ekki 100% í sumum leikjum er svo þjálfarateymisins að finna út úr og tel að það sé búið að leggja hausinn í bleyti í nokkur tíma út af því.

    Annars sammála tillögu Einars að byrjunarliði okkar í kvöld (Can fyrir Hendo). Treysti Vijnaldum best í djúpann miðjumann í stað Henderson en það er kannski skot í myrkri og Can líklegri í þá stöðu og Vijnaldum framar.
    Sókn er besta vörnin (hefur að vísu ekki alltaf sannað sig í vetur) og 3-0 fyrir okkur 🙂
    YNWA

  19. Voðalegt væl er þetta yfir United-liðinu – alveg upp og niður í gegnum athugarsemdarkerfið við þennan leik okkar manna,sem by the way eiga leik í kvöld.

    Einbeitum okkur að þessum leik,og vonandi löndum við 3 stigum og sýnum að okkur er alvara með það að komast í CL.

    Við fáum ekki almennilega menn í liðið ef við erum úti þar,þannig að hættum þessu væli yfir ZI og styðjum okkar lið and to hell with the rest.

    Vinnum leikinn 4-2!!

  20. #21 það var ósköp einfaldlega ólöglegt mark. Leicester leikmaður hljóp í gegnum teiginn á meðan markspyrna var að berast til Lucasar og setti pressu á hann. Það er einfaldlega ekki leyfilegt. En dómara teymið var ekki vakandi yfir þessu. Liverpool, nota bene domineraði leikinn og vann hann 4-1.

    Á þeim tíma vorum við að blóta því að geta ekki haldið hreinu. Mér er nokk sama hvað þeir setja mörg í kvöld. Við bara verðum að setja fleiri. Stóra spurningin er því ekki hvort Lucas sé í liðinu. Heldur hvort sóknin mæti til leiks.

  21. Ég spái tapi í kvöld. Held þetta verði gríðarlega erfitt gegn sterkari liði en við höfum í dag. Þeir eru englandsmeistarar og það verðum við því miður ekki á næstunni. Held við töpum 0-2. Rosalegt að sjá Zlatan í gær. þvílíkur konungur. Hann er magnaður drengurinn. Við eigum ekki svona leikmenn innan okkar raða. Er byrjaður að halda svolítið mikið með rauðu djöflunum.

Rót vandræðana í vörninni?

Leicester 3 – Liverpool 1