Latest stories

  • Liðið gegn Arsenal.

    Þá hefur Klopp valið liðið sem hann telur geta fært okkur eina stærstu jólagjöfina í ár.

     

    Mignolet

    Gomez – Klavan – Lovren – Robertsson

    Can – Henderson – Coutinho

    Salah – Firmino – Mané

    Bekkur: Karius, TAA, Lallana, Chamberlain, Wijnaldum, Milner, Solanke.

    Mané og Can koma aftur inní byrjunarliðið í stað Chamberlain og Wijnaldum en annars óbreytt lið frá Bournemouth leiknum. Sturridge annaðhvort enn tæpur eða kemst hreinlega ekki í ógnarsterkan hóp.

    Við treystum á RAUÐ Liverpool jól. Koma svo!!! YNWA!

    Við minnum á #kopis myllumerkið og umræðurnar hér að neðan.


     

  • Heimsókn á Emirates völlinn annað kvöld!

    Á morgun er afar mikilvægur dagur fyrir stuðningsmenn Liverpool því þá mun það ráðast hvort jólin okkar verði hátíðleg og gleðileg eða hvort við sitjum hálf grátandi við jólatréð og setjum upp myndarlegt gervi bros. Þetta er atburður sem við getum ekki haft bein áhrif á og setjum allt okkar traust á lítinn hóp einstaklinga.

    Herra Jurgen Klopp og leikmenn Liverpool Football Club það er engin pressa en ánægja okkar er algjörlega í ykkar höndum annað kvöld. Vinnið bara Arsenal og eigum saman gleðileg jól!

    Liverpool mun heimsækja Arsenal og hefja þar með jólahátiðina fyrir fótbolta fíklana.

    Liðin mættust í þriðju umferðinni í haust og fór Liverpool ansi illa með Arsenal í þeim leik og unnu 4-0 á Anfield. Liverpool hefur haft ágætis tak á Arsenal í undanförnum leikjum og má því vel reikna með að Arsenal vilji snúa við taflinu á morgun.

    Staða liðana í deildinni er nokkurn vegin sú sama. Liverpool er í 4.sætinu fyrir leikinn stigi á undan Arsenal og því gæti verið ansi hentugt að vinna leikinn og ná upp smá forskoti á þá.

    Liverpool var á góðu skriði en eftir tvö klaufaleg jafntefli í leikjum sem liðið átti að vinna, gegn Everton og WBA, þá tókst liðinu að snúa við blaðinu og vann öruggan og góðan sigur á Bournemouth í síðasta leik. Arsenal hafa ekki beint verið á skriði undanfarið og verið ósannfærandi á köflum. Síðan þeir rústuðu Huddersfield 5-0 rétt fyrir mánaðarmót þá töpuðu þeir nokkuð stórt gegn Manchester United, gerðu jafntefli við West Ham og Southampton og í síðasta deildarleik unnu þeir 1-0 sigur á Newcastle.

    Arsenal er alltaf Arsenal og þó hafi gengið misvel hjá þeim síðustu mánuði þá eru þeir ávallt skrambi seigir og hafa náð í all mörg stig úr leikjum þar sem stefndi í að þeir myndu tapa stigum. Það er margt fremur ósannfærandi í Arsenal liðinu finnst mér og þá fyrst og fremst það að lykilmenn eins og Alexis Sanchez og Mesut Özil hafa ekki stigið upp fyrir þá þegar á reynir og virðast vera komnir með hausinn annað en þeir mega báðir ræða við önnur félög eftir áramót og þykja líklegir til að fara frá félaginu næsta sumar. Vörnin hjá þeim er ekkert voðalega sannfærandi á köflum og, líkt og við sáum í síðasta leik, þá gæti það spilast vel upp í hendurnar á sóknarsinnuðu liði Liverpool.

    Aaron Ramsey verður ekki með Arsenal á morgun og líklega ekki Oliver Giroud en þeir eru báðir meiddir. Það gæti verið jákvæðar fréttir fyrir Liverpool þar sem Giroud er sterkur í loftinu og hefur oft þau áhrif á lið Arsenal að þeir reyni að koma honum hátt á kollinn á honum – hann hefur líka skorað nokkur mörk gegn Liverpool svo það yrði fínt ef hann verður ekki með!

    Af okkar mönnum er það að frétta að Clyne, Matip og Moreno eru allir enn frá en Sturridge gæti komið aftur inn í hóp eftir meiðsli og veikindi. Danny Ings er aftur kominn í aðalliðshópinn ásamt Adam Lallana og eru það jákvæðar fréttir fyrir þétt og mikilvægt prógram í deildinni á næstu vikum.

    Erfitt er að spá fyrir um byrjunarliðið á morgun en líklega verður það eitthvað á svipaða leið og við höfum séð í undanförnum leikjum. Líklega verður þetta í þessu 4-2-2-2 leikkerfi sem Klopp hefur verið að stilla upp undanfarið en hverjir byrja leikinn er erfitt að segja – og í raun algjört lúxus vandamál!

    Mignolet

    Gomez – Lovren – Klavan – Robertsson

    Mane – Wijnaldum – Can – Coutinho

    Salah – Firmino

    Ég ætla að spá þessu svona en að sama skapi gæti vel verið að Henderson byrji leikinn en í síðasta leik var Gini á bekknum og Can í banni. Þá byrjaði Oxlade-Chamberlain og átti frábæran leik á miðjunni og verðskuldar að halda sæti sínu. Mane byrjaði á bekk en er frábær og ólíklegt að hann byrji tvo leiki í röð á bekknum. Það er afar erfitt að spá fyrir um þetta en það verða amk tveir af Can, Gini og Henderson á miðjunni. Firmino mun byrja upp á topp, Salah verður þarna ásamt Coutinho. Restin gæti orðið hvernig sem er. Við sjáum til en liðið ætti þó að öllum líkindum að vera mjög sterkt – og að mínu mati nógu sterkt til að sækja stigin þrjú á þennan útivöll.

    Arsenal vill spila fótbolta og koma upp völlinn sem vonandi opnar svæði sem Liverpool vill fá og eru hættulegir í. Gangi það eftir þá er ég afar bjartsýnn.

    Áfram Liverpool, vinnum þennan leik og eigum gleðileg jól!

  • Podcast – Þurfum meira á Anfield

    Síðasti þáttur fyrir jól og fjögurra stiga vika að baki. Fórum yfir það helsta sem hefur verið á baugi undanfarið og fengum inn alvöru útvarpsmann til að fara yfir þetta með okkur.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Heiðar Austmann.

    MP3: Þáttur 175

  • Á sama tíma að ári…

    Liverpool liðið er augljóslega í uppbyggingarferli með tilheyrandi vaxtaverkjum. Klopp getur ekki byggt sín lið upp á sama hátt og Guardiola og Mourinho sem fá nánast ótakmörkuð fjárráð og eins og markaðurinn er í dag er ekkert víst að það takist að byggja upp lið sem stenst Man City snúning. Klopp er engu að síður að gera töluvert meira rétt með þennan hóp heldur en rangt og hefur í höndunum hóp sem getur klárlega bætt sig töluvert og við erum að sjá það nánast í hverri viku.

    Eitt það jákvæðasta við byrjun þessa tímabils eru leikir Liverpool gegn liðunum í neðri helmingi deildarinnar. Liverpool er ennþá eitt furðulegasta lið deildarinnar en liðið hefur aðeins náð jafnvægi m.v. síðasta tímabil þegar liðið tapaði ekki leik gegn neinu af toppliðunum en hikstaði illa gegn neðstu liðunum.
    (more…)

  • Bournemouth 0-4 Liverpool

    Sólstrandagæjarnir Coutinho, Salah og Firmino voru mættir á Suðurströndina til að sækja stíft og skora skrautleg mörk. Allt gekk upp og allir voru glaðir.

    Mörkin

    0-1 Philippe Coutinho 20.mín
    0-2 Dejan Lovren 26.mín
    0-3 Mohamed Salah 44.mín
    0-4 Roberto Firmino 66.mín

    Leikurinn

    Okkar menn mættu ferskir til leiks í Bournemouth og  ljóst var frá fyrstu mínútu að það var góður ryþmi og melódía í framlínunni. Hápressan var í háum gír og uppleggið í taktínni var 4-3-3 án bolta en með possession þá sat Gomez aftur til að mynda 3 hafsenta línu með Robertson sem vængmann. Klókt hjá Klopp og taktík sem tikkað vel. Þetta upplegg gerði góða hluti þar sem að snemma leiks vorum við að valda sunnstrendingum alls konar vandræðum. Strax á 11. mín. þá smellti Couthinho skot í innanverða stöng beint úr aukaspyrnu og mínútu síðar þá átti Salah stórhættulegan sprett með vinstri fótar skoti rétt yfir.

    Á 20. mínútu fékk Coutinho boltann rétt við miðlínu, tók smekklegan þríhyrning við Robertson og keyrði svo inn í hjarta varnarinnar, fíflandi mann og annan og lagði hann lúmskt  út við nærstöngina og í netið. Messi sjálfum hefði verið heiður sæmdur af þessu lúxusmarki en vonandi tekst okkur að halda þeim herramönnum sem lengst frá hvor öðrum á næstunni. Það var blóð á tönnunum á Rauðliðum og við gáfum engin grið. Eftir færi hjá Firmino fengum við hornspyrnu og úr henni tóku Púlarar nettan boltatennis í vítateignum. Firmino tókst með naumindum að halda boltanum innan vallar og breytti brilliant björgun í stoðsendingu fyrir flottan skutluskalla hjá Lovren. 0-2.

    Eftir þetta fengu Bournemouth andartaks andrými og nýttu það til að sækja ögn á okkur. Á 37. mín. fengu þeir upphlaup á fámenna miðju, góð sending galopnaði Defoe einan gegn markverði en gamla brýnið var illa brýnt með ryðgaðan kuta og sendi boltann í innanverða stöngina og út. Vel sloppið þar fyrir okkar menn og þetta skellti okkur aftur í sóknargírinn. Oxlade-Chamberlain tók þéttingsfast skot örstuttu síðar og Salah fékk fínt færi  nokkrum mínútum þar eftir. Við uppskárum afrakstur erfiðisins fyrir frábæran fyrri hálfleik þegar að Salah fékk góða sendingu upp hægri vænginn, tók smá dansi-dansi-dúkkan-mín og dæmalaust var markið fínt. Þetta var 20. mark Salah á tímabilinu sem slær met Rush miðað við tímasetningu fyrir jól og jafnar annað met hjá Sturridge miðað við spilaða leiki. Undirstrikar bara hversu stórkostlegur Salah hefur verið fyrir okkur og ein bestu kaup í sögu LFC undirstrikuð.

    0-3 í hálfleik. 1-1 í stangarskotum.

    Seinni hálfleikur byrjaði eins og úrslitin væru ráðin og það var ekki fjarri lagi miðað við fyrri tíð. Draugur síðasta tímabils var þó enn á sveimi frá þeim tíma er við misstum 1-3 vinningsstöðu niður í 4-3 skelfilegheit á tæpum hálftíma og til að reyna að höggva í sama knérunn þá setti Eddie Howe leikmanninn Ryan Fraser inná. Twitter-suðurlandsskjálfti fór um Kop-meistarann Babú útaf þessu og sérstaklega þegar Fraser komst í færi á 55. mínútu en setti í hliðarnetið. En okkar menn keyrðu tempóið aftur upp og fóru að skapa færi að nýju. Oxlade-Chamberlain átti fínan leik á miðjunni og fékk gott uppspil vinstra megin í teignum sem endaði í vinstri fótarskoti í utanverða stöngina á 59. mínútu. Púlarar voru ekki hættir og á 66. mínútu átti Coutinho flotta fyrirgjöf af vinstri vængnum sem Firmino fórnaði nýju aflituðu hárgreiðslunni í til að sneiða hann í netið fram hjá blaðraranum Begovic. 0-4.

    Eftir þetta róaðist leikurinn niður og bæði lið sömdu um stríðslok. Bournemouth til í sleppa við að fá á sig fleiri mörg og Liverpool til í að sleppa við meiðsli með alræmdri róteringu. Hinn Bournemouth-uppaldi Lallana til 12 ára fékk tímanlega innáskiptingu og tjallarnir Solanke og Ings fylgdu í kjölfarið. Sigrinum rúllað heim með þægilegheitum.

    0-4 sigur staðreynd og unnum stangarskotakeppnina líka 1-2.

    Bestu menn Liverpool

    Það voru margir í góðum gír og mikið af hrósi til útdeilingar eftir flottan sigur. Á miðjunni voru Henderson og Oxlade-Chamberlain flottir og gefur manni góða von um að sá síðarnefndi geti spilað þá stöðu mjög vel. Salah og Firmino voru í stöðugu stuði og báðir að skora og skapa með stanslausri ógn. Jafnvel Lovren karlinn á gott hrós skilið fyrir flott mark og að halda markinu hreinu sem stjórnandi varnarinnar. En Coutinho var minn maður leiksins af augljósum ástæðum: stórfenglegt mark og stoðsending í þokkabót.

    Vondur dagur

    Sá eini Púlari sem átti vondan dag er fyrrverandi leikmaður hjá okkur en Jordon Ibe átti afar dapran leik í dag. Staðfesting á því að við höfum gert góða sölu þarsíðasta sumar og við þurfum ekki mikið að efast um það í bili.

    Tölfræðin

    Glæsilegar tölur Salah hafa verið nefndar en í öðrum tölum þá er þetta 12. leikurinn í röð ótapaður og sá 9. í deildinni. Megi það lengi viðhaldast.

    Umræðan

    Púlarar munu anda léttar í dag eftir tvöfaldan jafnteflis-bömmer á heimavelli. Að sumu leyti er þetta fljóta og flinka lið betur sniðið að útileikjum þegar að mótherjinn opnar sig meira en þegar rútunni er lagt í vítateigs-bílastæðið á Anfield. Possession-vaktin segir að við vorum “bara” 56% með boltann sem þýðir venjulega betri niðurstöðu en þegar við höfum boltann um eða yfir 70%. Þetta boðar vonandi gott fyrir næsta útileik á Emirates sem fer fram korteri fyrir Þorláksmessu (7-9-13-viðarbank-anti-jinx).

  • Liðið gegn Bournemouth

    Rauði herinn er mættur á suðurströnd Englands til að sækja heim og sækja gegn gestgjöfunum í Bournemouth. Eftir tvö súr heimajafntefli í röð þá vonumst við Rauðliðar eftir að sóknarlínan okkar hrökkvi aftur í gang. Chelsea og Arsenal unnu sína leiki í gær og við sitjum í 6. sæti áður en að leikur er flautaður á í dag en getum farið upp í 4. sæti með sigri. Það má því ekkert útaf bregða í bardaganum um CL-sætin.

    Liðin hafa verið kunngerð og eru eftirfarandi:

    Bekkurinn: Karius, Milner, Mane, Lallana, Ings, Solanke, Alexander-Arnold.

    Klopp gerir fjórar breytingar frá síðasta leik og inn koma fyrirliðinn Henderson, Gomez, Oxlade-Chamberlain og Mignolet í markið. Sókndjarft lið sem gerir vonandi gæfusamlegt suðurstrandhögg í Bournemouth.

    Af heimamönnum er það helst að frétta að Jordan Ibe byrjar gegn sínum fyrri samherjum og gamla brýnið Jermain Defoe er í framlínunni.

    Come on you REDS! YNWA!

    Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


  • Bournemouth á sunnudaginn

    Síðdegis á sunnudaginn verður flautað til leiks á Dean Court í Bournemouth, þar sem heimamenn munu taka á móti Rauða hernum. Völlurinn hefur reyndar verið kallaður Vitality Stadium upp á síðkastið.

    Við viljum kannski ekki mikið vera að rifja upp leik þessara liða frá því í fyrra á þessum sama velli. Skulum bara orða það svo að Klopp og félagar eigi harma að hefna.

    Andstæðingarnir

    Bournemouth eru sem stendur í 14. sæti deildarinnar með 16 stig, hafa skorað 15 mörk og fengið á sig 20. Leikformið í síðustu 5 leikjum gæti verið betra. Tveir leikir hjá þeim hafa tapast: á móti toppliðunum United og Burnley, en þrír hafa endað með jafntefli. Þar á undan komu svo nokkur ágæt úrslit, eins og 4-0 á móti Huddersfield og 1-0 á móti Newcastle. Þetta er því lið sem er alveg fært um að ná úrslitum, eins og við höfum orðið svo óþyrmilega vör við. Eddie Howe er einn þessara ungu stjóra sem eru að ná aldeilis frábærum árangri, þó vissulega standi hans árangur svolítið í skugganum af því hvar Sean Dyche er staddur með sitt lið. Meira um það í seinni pistlum.

    Okkar menn

    Liverpool kemur inn í þennan leik eftir tvö drullusvekkjandi jafntefli. Gleymum því samt ekki að liðið hefur núna leikið 11 leiki í öllum keppnum án þess að tapa. Jafnframt er vert að minnast þess að deildarkeppnin snýst um að ná sem bestum árangri yfir 38 leiki, og það að vinna 15 leiki í röð eins og City hafa gert er einsdæmi. Breytir því að sjálfsögðu ekki að það er alltaf jafn grautfúlt að tapa stigum. Og þó svo að liðið hafi aðeins tapað tveim leikjum á leiktíðinni, þá eru jafnteflin orðin 7 bara í deildinni. Slíkt gengur auðvitað ekki til lengdar, sérstaklega þar sem í fjórum tilfellum af þessum 7 komst Liverpool yfir (á móti Everton, Chelsea, Newcastle og Watford). Tvö jafnteflin enduðu 0-0 (á móti rútufélögunum WBA og United), og á móti Burnley náðu okkar menn að jafna. Það má lengi leika sér með “ef og hefði”, hvað ef liðið hefði náð að halda fengnum hlut í einhverjum af þessum jafnteflisleikjum? En það þýðir lítið að eyða tíma í það, þessir leikir eru búnir og koma ekki aftur.

    Hvaða leikmenn standa Klopp svo til boða? Tja förum fyrst yfir það hvaða leikmenn koma ekki til greina: Clyne, Matip og Moreno. Semsagt: 3/4 af varnarlínunni. Svo eru aðrir tæpir, ekki ljóst hvort Sturridge er leikfær, Mignolet virðist vera búinn að ná sér. Helsta fréttin er kannski sú að Lallana er kominn á ról og verður að öllum líkindum í hópnum. Verður hann í byrjunarliðinu? Kemur í ljós, en ég hugsa að ég sé ekki einn um að vera farinn að hlakka til að sjá Adam okkar taka nokkra Cruyff-snúninga. Manni hefur fundist vanta svolitla sköpun á miðjuna, og þar kemur Lallana sterkur inn. Klopp mun annars sjálfsagt rótera eitthvað eins og í síðustu leikjum, og við skulum bara vona að læknateymið sé með það á hreinu hver geti spilað 90 mínútur með góðu móti og hver ekki. Svo tekur við 5 daga pása þangað til liðið heimsækir Emirates, svo það mun gefast örlítið ráðrúm til að pústa þangað til.

    En ég ætla allavega að spá eftirfarandi byrjunarliði:

    Mignolet

    Gomez – Lovren – Klavan – Robertson

    Henderson – Lallana – Winjaldum

    Coutinho – Firmino – Mané

    Bekkur: Karius, Alexander-Arnold, Milner, Can, Salah, Oxlade-Chamberlain, Ings

    Eins og áður er þetta svolítið skot í myrkri. Ef eitthvað er að marka fréttir af samningsmálum Can við Juventus þá er hann kominn með annan fótinn til Juventus. Ef ég væri í sporum Klopp myndi ég gefa mönnum eins og Grujic frekar tækifæri frekar en að láta Can taka pláss í byrjunarliðinu eða á bekknum. Þá er vissulega áhyggjuefni hve fáir varnarmenn eru á bekknum, og það er hluti ástæðunnar af hverju Milner og Can eru þar í minni spá. Síðan set ég Ings þarna bara af því að mig langar svo svakalega til að hann nái sér á strik. Líklega er Klopp samt með Solanke framar í röðinni, svo ég yrði ekkert hissa þó hann yrði þarna í staðinn. Ég set svo að lokum Salah á bekkinn þar sem hann var að glíma við eitthvað smá hnjask fyrir stuttu síðan, en ég myndi svo innilega vilja sjá hann koma inn á og setja eins og eitt-tvö.

    Mín spá? Held þetta verði erfiður leikur. Ég vona svo innilega að við fáum eitt stykki aðventusigur í skóinn, segjum 1-2 þar sem Firmino og Henderson skora. Með góðum úrslitum í þessum leik og svo á móti Arsenal næsta föstudag þá verða jólin rauð. Það gerist ekki fallegra.

  • Liverpool 0-0 West Brom

    Leikurinn

    West Brom mætti á Anfield í dag með það markmið að ná í eitt stig og tókst áætlunarverk sitt. Klopp mætti með gríðarlega sterkt lið til leiks í dag en ekki tókst að brjóta á bak skipulagða vörn gestanna. Miðjumenn West Brom sátu meirihluta leiksins rétt fyrir framan varnarlínu sína og gekk mönnum erfiðlega að finna svæði og var hálf vandræðanlegt hversu margar sendingar rötuðu beint til hvítblárra leikmanna. Fyrsta alvöru færi leiksins fékk Roberto Firmino þegar hann fékk góða gegnum sendingu frá Mo Salah en setti boltan rétt framhjá stönginni í fjærhorninu. Coutinho var í afbragðsstöðu ef Firmino hefði rennt boltanum fyrir markið en sé ekkert af því að reyna við þetta færi. West Brom menn ógnuðu lítið en minntu aðeins á sig eftir hálftíma leik þegar Hal Robson-Kanu fann sér svæði á vallarhelmingi Liverpool og hlóð í skot sem endaði í þverslánni. Rétt fyrir hlé var Salah nálægt því að pota inn fyrirgjöf frá Trent en vantaði nokkra sentimetra uppá.

    Seinni hálfleikur var nánast keimlíkur þeim fyrri Liverpool hélt boltanum á miðjum vellinum en ef þeir reyndu að sækja framar var lítið um pláss og sendingarmöguleikar fáir. Menn fóru að reyna allt of mikið af erfiðum boltum og okkur sárvantaði menn til að taka hreinlega af skarið og koma boltanum á markið. Á 50. mínútu áttu West Brom menn sitt besta færi þegar Yacob náði að skalla boltan á markið en Karius gerði vel og varði í horn.

    Atvik leiksins var síðan á 82. mínútu þegar Gomez kom boltanum fyrir markið á Solanke sem hitti boltann illa og hann skoppar upp í hendina á honum og þaðan inn í markið.

    Bestu menn Liverpool

    Það er erfitt að velja menn leiksins eftir svona leik. West Brom liðið má eiga það að þeir vörðust mjög vel og gerðu okkar mönnum erfitt fyrir en með alla þessar kanónur innanborðs vill maður sjá meira en við fengum að sjá í dag. Einna helst fannst mér Emre Can komast ágætlega frá leiknum en hann stýrði miðjunni ágætlega og komst vel frá sínum verkefnum í dag. Ásamt því greip Loris Karius vel inn í þegar á hann reyndi, greip inn í nokkrar fyrirgjafir og átti góða markvörslu.

    Slæmur dagur

    Hvað er að frétta hjá Sadio Mané í undanförnum leikjum? Hann virðist ekki vera í takti við hina sóknarmenn liðsins og virðist eiga pínu erfitt með að vera ekki aðalstjarna liðsins líkt og í fyrra þegar hans var sárt saknað þegar hann var ekki með. Erfitt að segja til sitjandi hér heima en eitthvað virðist vera að angra hann. Einnig átti Klopp ekki góðan dag, það var lítið að frétta í leiknum og hann beið með skiptingar fram á 76. mínútu en ég hefði verið til í að sjá hann skipta fyrr. Að lokum átti ég sjálfur dapran dag en í fljótfærni skrifaði ég að Mignolet hefði verið í byrjunarliði í dag í færslunni hér að neðan þegar það var að sjálfsögðu Karius. Maður er bara orðinn svo vanur þessari deildar og meistaradeildarskiptingu að ég áttaði mig bara ekki einu sinni á því fyrr en nokkrar mínútur voru liðnar af leiknum.

    Umræðan eftir leik

    Þessu fjárans jafntefli!

    West Brom er eina liðið í deildinni sem hefur gert fleiri jafntelfi í deildinni en við. Þetta eru alveg ótrúlega mikið af stigum sem við erum að tapa í leikjum sem við erum yfirleitt betri. Þetta er eitthvað sem þarf að breytast ef liðið ætlar að halda sér í þessari baráttu um meistaradeildarsæti. Sjöunda jafntelfið í ár staðreynd og ég vona að við grátum þessi stig ekki of mikið í vor

    Næsta verkefni

    Næst mætum við Bournemouth á sunnudaginn en þeir hafa átt erfitt uppdráttar undanfarið, ekki unnið í síðustu fimm leikjum vonandi sýna okkar menn flotta takta um helgina.

     

  • Sterkt byrjunarlið gegn West Brom

     

    Eftir að hafa róterað mikið í grannaslagnum gegn Everton mætir Klopp með gríðarlega sterkt lið gegn West Brom. Fab four allir í byrjunarliði en ég hreinlega skil ekki þessa ákvörðun en vonandi skemmtum við okkur þá vel í kvöld.

    Mignolet

    Trent – Klavan – Lovren – Robertsson

    Wijnaldum – Coutinho – Can

    Salah – Firmino – Mané

    Mjög sókndjaft lið í dag og vonandi fáum við flugeldasýningu en minni á hashtaggið #kopis og umræðuna hér fyrir neðan.


     

  • Podcast – Beint í mark

    Upphitun fyrir leikinn gegn WBA er í færslunni fyrir neðan podcast

    Það er við hæfi eftir 7-0 sigur á Spartak að fá tilboð fyrir lesendur Kop.is á Beint í mark spilinu sem kom út nýverið. Maggi Már hjá Fotbolti.net mætti í þátt vikunnar og var heldur betur í jólaskapi. Kristján Atli mætti aftur til leiks eftir nokkurt hlé og SSteinn var á sínum stað nýlentur eftir Kop.is ferð til Liverpool. Hann var á báðum leikjunum í síðustu viku.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn, Kristján Atli og Magnús Már ritsjóri Fotbolti.net

    Lesendur kop.is geta fengið 1.500 kr afslátt af spilinu Beint í Mark sem Maggi Már er meðal útgefanda, allt sem þarf að gera er að fara á beintimark.is og nota kóðann kop.

    MP3: Þáttur 174
    (more…)

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close