Þá er Harry Kewell kominn til Liverpool og því eru allir United stuðningsmenn, sem ég þekki, farnir að halda því fram að hann geti ekkert í fótbolta og sé gríðarlega ofmetinn leikmaður og bla bla bla.
Staðreyndin er sú að Kewell er einhver allra skemmtilegasti og besti leikmaðurinn í ensku deildinni og það er hreint með ólíkindum að hann komi til Liverpool fyrir 1/5 af þeirri upphæð, sem Real Madrid borgaði fyrir David Beckham, þrátt fyrir að Beckham sé 4 árum eldri.
Ég man hreinlega ekki hvenær ég var síðast jafnspenntur fyrir því að leikmaður kæmi til Liverpool. Svei mér þá, ég held að það hafi hreinlega ekki gerst síðan ég var smá strákur og John Barnes kom til liðsins. Undanfarin ár hafa stærstu kaupin hjá Liverpool nefnilega verið á El-Hadji Diouf, Emile Heskey og Dietmar Hamann. Hamann er bestu kaupin úr þeim hópi en hann er ekki beint leikmaður, sem maður yrði mjög spenntur að sjá spila.
Kewell er það góður að hann gæti bætt Liverpool liðið umtalsvert. Allt í einu á maður auðvelt að gleyma martröðinni, sem síðasta keppnistímabil var, og horfa nokkuð bjartsýnn til næsta tímabils. Ég sagði í lok síðasta tímabils að Liverpool þyrfti þrjá leikmenn: hægri bakvörð, vinstri kantmann og framherja. Núna er liðið búið að kaupa Steve Finnan í bakvörðinn og Kewell á kantinn. Helst vildi ég sjá annan framherja koma til liðsins. Eða þá að Houllier myndi heita mér að sama hvað gerðist, þá myndi hann ekki setja Emile Heskey inná. Þá yrði ég líka sáttur.
Það er mér löngu ljóst að það leiðinlegasta við sumarið er að þá er enginn enskur bolti. Ég get ekki beðið þangað til í ágúst eftir að boltinn byrji aftur að rúlla. Þá verður sko gaman.
Hjartað mitt slær í 2. deild um þessar mundir. Erfitt að sætta sig við það en þannig er víst staðan.
Heimilisaðstæður kalla þó á að ég hafi skoðun á Liverpool. Ég vil lýsa yfir ánægju með komu Kewell á kantinn. Ég hef aldrei skilið af hverju Liverpool hefur ekki verið með kantmenn (af viti). Kewell er stórkostlegur leikmaður og ef hann verður heill á næsta tímabili þá er aldrei að vita nema Liverpool verði stórskemmtilegt lið (og þá verður stuð á mínu heimili).
Merkilegt líf – þetta líf.