Frakkar töpuðu fyrir Grikkjum í kvöld, 1-0, í 8-liða úrslitum EM 2004. Og það sem meira er, þá var það sanngjarn sigur. Þannig að nú eru bæði liðin úr B-riðlinum dottin út í 8-liða úrslitum; Frakkland og England.
Nú spyrja margir sig …… hvað vantaði Frakka svona sárlega í þessari keppni?
Svar:
Það skal enginn segja mér að ef Frakkar hefðu haft Djibril Cissé í þessari keppni hefðu þeir skorað fleiri mörk og gengið betur með lið eins og Grikki og Englendinga, sem þrífast á sterkum og skipulögðum vörnum. Ekki aðeins voru bæði Trézeguet og Henry í miklu óstuði alla keppnina (fyrir utan þessar 10 mínútur gegn Sviss þar sem Henry skoraði tvö mörk) heldur virtist Santini þjálfari ekki treysta Luyindula eða Saha til að koma inn fyrir þá. Hann hefði átt að láta Saha byrja inná fyrir Trézeguet í kvöld, þá er ég viss um að Frakkar hefðu aldrei lent undir í þessum leik. En hann vildi það ekki, enda var hann alla undankeppnina búinn að nota aðallega Henry, Trézeguet og Cissé og augljóst að hann treysti engum öðrum framherjum til að koma í þeirra stað.
Þannig að þegar Cissé fékk 5-leikja bannið sem varð til þess að hann missti af EM í sumar grunaði mig að það gæti farið illa fyrir Frökkum ef svo ólíklega myndi vilja til að Henry og Trézeguet myndu báðir eiga dapra keppni.
Nú – hið ólíklega gerðist. Zidane bar þetta lið á öxlum sér upp úr riðlakeppninni en þá komu Grikkirnir með sitt skipulagða baráttulið og sögðu hingaðogekkilengra! Au revoir, Francois…
Á HM 2006 munu Frakkar skarta nýju framherjapari: Thierry Henry og Djibril Cissé. Og þá, vinir mínir, munum við sjá hættulegri sóknarbolta hjá Frökkum en í síðustu tveim stórmótum til samans … sjáið bara til!
p.s.
Þessi Djibril Cissé sem þið eruð eflaust að spá í hver er … ekki segja neinum en … hann skrifar undir samning við Liverpool á næsta fimmtudag. 😀
Það er alltaf sagt að einn maður vinni ekki keppni fyrir lið þannig að ég held að ef djibril cissé hefði ekki gert það heldur. Frakkar eiga nóg af mönnum og Trézeguet hefur margoft sannað sig sem markaskorari. Málið er bara að hann þarf að fá færi og varnarmannamiðjan hjá Frökkum skapaði akkúrat ekkert í þessari keppni. Þeir hefðu átta að hafa Zidane inn á miðjunni með Vieira og Pires og Rothen á köntunum þá hefði kannski eitthvað skeð hjá þeim. Þó ég sé ekki að gera lítið úr Cissé þá eru Henry, Trézeguet, Saha og Govu líka góðir framherjar sem hefðu gert eitthvað meira hefðu þeir fengið færi til þess.