Bruno Cheyrou til Marseille

Skv. frétt Liverpoolfc.tv gæti Bruno Cheyrou verið á leiðinni til Marseille í Frakklandi innan fárra daga. Þá segir Daily Post einnig frá því að Cheyrou sé á förum: Cheyrou agrees terms with Marseille

Skv. frétt D.P. eru Marseille og Liverpool búin að komast að samkomulagi um verð fyrir kappann og nú á hann aðeins eftir að semja um kaup og kjör við franska liðið. Sem ætti ekki að vera mikið mál, þar sem honum er víst mikið kappsmál að komast aftur til Frakklands þar sem hann fær að spila reglulega, uppá að komast í landsliðið fyrir HM 2006.

Eins og ég sagði í stuttri færslu fyrir tveimur vikum, þar sem ég sagði fyrst frá möguleikanum á færslu hans til Marseille, þá er mér í raun nokk sama þótt Bruno Cheyrou fari. Hann hefur ekkert getað fyrir okkur og þótt Gerrard færi og það opnaðist meiri séns á hann að komast inn í byrjunarliðið hjá okkur í vetur efast ég um að hann myndi nýta sér það.

Að mínu mati er Bruno Cheyrou einfaldlega ekki nógu góður til að spila fyrir lið í titilbaráttu á Englandi – og ef rétt reynist að hann sé að fara til Marseille er það eflaust af því að Rafael Benítez er sammála mínu mati. Farið hefur fé betra og allt það…

Annars er í raun gott að taka sér smá frí frá kaupum Chel$ki á ‘you know who’ og pæla í einhverju glaðlegra, eins og brottför Bruno Cheyrou. En fyrir þá sem fá ekki nóg af aðal-slúðursögu mánaðarins, mætti alveg benda á tvær þrusugóðar greinar sem birtust inni á RAWK.com í morgun:

Grein 1: The Big ‘If’: IF Gerrard Leaves Liverpool

Grein 2: The Leaving of Liverpool, or The Colour of Money

Þá er þegar farið að ræða um það hver eigi að verða næsti fyrirliði Liverpool að Gerrard förnum. Að mínu mati kannski eilítið ótímabær og/eða fyndin umræða … en ef ég ætti að segja mitt álit þá er ekki spurning hver eigi að verða næsti fyrirliði Liverpool: Jamie Carragher. Gjörsamlega, algjörlega, nákvæmlega. Hann er bara sá eini sem kemur til greina … að undanskildum Sami Hyypiä, en hann hefur verið að ná sér á strik eftir að hafa losnað undan fyrirliðaskyldunum og ég væri ekki viss um að það myndi gera honum gott að þurfa að taka við fyrirliðabandinu á ný.

Allavega, Stevie G er fyrirliði þangað til annað kemur í ljós. Það verður að teljast líklegt að hann fari úr því hann hefur ekki neitað neinu – hann er í það minnsta að hugsa sig um. Skv. frétt Liverpool 24/7 mun Gerrard ræða við Benítez um framtíð sína og Liverpool um helgina, áður en hann heldur í frí til Karíbahafsins með fjölskyldu sinni. Úr því er aðeins hægt að lesa eitt: ef hann ætlar að fara mun hann segja Benítez og Parry frá því á þessum “fundi” yfir helgina, sem þýðir að á meðan hann er í fríi munu Liverpool og Chel$ki reyna að komast að samkomulagi um kaupverð og/eða leikmannaskipti á meðan hann er í fríi. Hann myndi svo semja sjálfur við Chel$ki þegar hann snýr aftur úr fríi, að því gefnu að liðin komist að samkomulagi.

Hafið í huga að hann á enn 4 og 1/2 ár eftir af samningi við Liverpool og þótt hann vilji fara er ekkert sem segir að liðið þurfi að gefa hann frá sér. Ef þeir vilja setja 45m-punda verðmiða á hann er það í fínu lagi og þá verður Abramovich bara að punga út. Látið það ekki koma ykkur á óvart þótt Liverpool neiti þeim tilboðum sem Chel$ki gera í Gerrard og hann verði bara samt hjá okkur næsta vetur.

Eða… …að Benítez sannfærir Gerrard um að gefa sér a.m.k. eitt ár yfir helgina, sem þýðir að við fáum væntanlega yfirlýsingu um að hann verði áfram strax eftir helgina, um leið og Gerrard heldur í frí með fjölskyldu sinni.

Við sjáum til, eins og undanfarnar vikur getum við lítið annað gert en beðið eftir að annað hvort Gerrard eða Liverpool FC rjúfi þögnina með einhverjum afgerandi ummælum af eða á. Þangað til er þetta allt bara slúður og vangaveltur…

Ein athugasemd

  1. Við skulum líka ekki vera hissa ef við samþykkjum fáránlegt boð sem væri langt undir 50 milljónum punda í Steven Gerrard! Eitthvað segir mér að þessi tromp sem við höfum í höndum okkar snúist algjörlega gegn okkur í restina og Abramovic pungar út “aðeins” svipaðri upphæð og Rio Ferdinand fór á. Það væri hneyksli! En eins og áður hefur verið sagt, þá eru þetta vangaveltur

Duff fyrir Gerrard

Holland í undanúrslit!