Slúður, ó slúður!

elcapitan.jpg Þriðjudagurinn er runninn upp – og ég er í alveg óstjórnlega góðu skapi. Hmm… af hverju skyldi það vera?

En að fyrirliðanum okkar frátöldum – hvað er þá eiginlega títt þessa dagana í heimi Liverpool-leikmanna, núverandi og verðandi? Jújú, þar sem ekkert var leikið í gær eða í dag á EM hafa blöðin haft lítið annað að gera en að slúðra. Við skulum kíkja á það helsta:

FansFC.com: Liverpool in sensational Spanish swap-deal!
Þessi frétt leiðir líkum af því að Owen, úr því hann vill ekki skrifa undir samning við Liverpool (?), gæti verið á leiðinni til Atletíco de Madrid í skiptum fyrir hinn unga og efnilega Fernando Torres. Ókei, Owen sem sagt vill ekki spila fyrir jafn metnaðarlítið lið og Liverpool (Meistaradeild, toppbarátta, heimsklassaleikmenn) og er því til í að fara til Atletico Madrid (engin Meistaradeild, engin toppbarátta, einn heimsklassaleikmaður sem færi í skiptum fyrir Owen)???

Sure. Næsta frétt…

Soccer365.com: Hargreaves available at right price!
Já, mér líst aaaðeins betur á þessa sögu. Ég veit að Hargreaves er (enn) ekki í sama klassa og Gerrard sem miðjumaður … en ég væri samt mikið meira en til í að fá hann. Hann er fjölhæfur, getur spilað allar stöður á miðju og báða bakverðina og gæti að mínu mati alveg komið á óvart og leyst hægri-kantstöðuna hjá okkur prýðilega. Hann er frábær spyrnumaður, tekur allar hornspyrnur og fyrirgjafir hjá Bayern þegar hann er inná. Ég held að hann gæti orðið frábær kaup fyrir okkur, og vonandi ekki á of háu verði. Góðar fréttir, ef þetta slúður reynist vera rétt.

KopTalk: Ballack reveals Liverpool talks!
Já nú líst mér á! Finnst þetta reyndar ólíklegt … en þá bara af því að Ballack er víst svo hátt metinn af Bayern … nema þá að Hamann fari í hina áttina uppí verðið. En ég væri alveg rosalega mikið til í að sjá Michael Ballack og Steven Gerrard saman á miðjunni hjá Liverpool – með Harry Kewell og Owen Hargreaves á köntunum. Ójá, það væri sko miðja í lagi…

Annars er það helst í fréttum í dag að Valencía hafa kært Rafael Benítez fyrir að hafa ekki virt samning sinn við þá. Hann kærði svo á móti, segir að þeir skuldi honum peninga. Þetta er eitt af þessum málum sem ég hef lítinn áhuga á að lesa um, þeir hóta hvor öðrum með lögsóknum og semja svo um málið áður en það nær inn í réttarsalinn. Þetta tilheyrir fortíð Benítez, sem er ekki það sem við erum að hugsa um. Okkur aðdáendum Liverpool er meira annt um framtíð Benítez.

Þá er það Milan Baros sem allir eru að keppast við að hrósa þessa dagana. Hafið bara í huga að þið heyrðuð það hér fyrst – við Einar vorum manna fyrstir til að þora að spá því opinberlega að Baros yrði stjarna EM og nú, þegar allir aðrir hoppa á vagninn og þykjast alltaf hafa vitað að hann ætti þetta til brosum við Einar bara. 🙂

En allavega, Baros er ákveðinn í að nýta sér þá virðingu sem hann hefur öðlast á EM til góðs fyrir frama sinn hjá Liverpool: Baros wants to impress Benítez – and reach final!
Gott hjá honum … hann á þetta skilið. Ég efast eiginlega ekki um að Benítez mun láta drenginn spila helling í haust, það gæti líka létt álaginu á Cissé sem gæti þurft meira en einn eða tvo leiki til að venjast hraðanum í enska boltanum. Þannig að ég sé Baros fyllilega fyrir mér vera í ómetanlegu hlutverki fyrir okkur næsta vetur. Þ.e. að skora mörk.

Jæja, það dettur eflaust meira slúður inn eftir því sem líður á vikuna – og svo kemur Einar heim á fimmtudag, rétt í tæka tíð til að sjá Baros jarða Grikkina okkur til mikillar ánægju. En þangað til verð ég á slúðurvaktinni.

Góð Grein & Vond Grein…

Juve vilja fá Baros!