Real Socíedad héldu blaðamannafund laust fyrir hádegi í morgun, þar sem forseti félagsins og Xabi Alonso tilkynntu um brottför Xabi Alonso frá félaginu. Í greininni um fundinn, sem og á fundinum sjálfum, nefna þeir nokkrum sinnum Liverpool á nafn og Xabi segir sjálfur að hann sé búinn að semja við Liverpool. Þannig að það verður ekki meira staðfest en það.
Annars var ég bara mjög hrifinn af því að Xabi skuli hafa viljað halda blaðamannafund til að geta kvatt klúbbinn sem gaf honum sitt fyrsta tækifæri og ól hann upp, gerði hann að leikmanninum sem hann er í dag. Hann tók sérstakt tækifæri til að þakka aðdáendum og stuðningsmönnum Sociedad fyrir og lýsti því jafnvel yfir að hann útilokaði það ekki að hann myndi einhvern tímann síðar snúa aftur til Sociedad.
Svona á að sýna stuðningsmönnum og klúbbi sínum virðingu. Og þið verðið að fyrirgefa, en nýlega yfirgaf okkur leikmaður sem var alinn upp af klúbbnum og á Liverpool FC allan sinn frama að þakka … og viðkomandi leikmaður fór án þess svo mikið sem að segja “takk” á opinberu síðunni. Hann meira að segja laug um að hann væri nálægt því að skrifa undir nýjan samning við okkar lið … en viku seinna var hann kominn til annars liðs og viðurkenndi þá að hann hafi þegar verið kominn í viðræður við nýja liðið sitt þegar hann lét orðin um samningamálin við gamla liðið sitt falla.
Og því sakna ég Owen ekkert, er í raun bara svolítið svekktur að hann skyldi hafa teymt liðið okkar á asnaeyrunum í rúmt ár, farið án þess að þakka fyrir sig eða neitt og það fyrir útsöluverð. Já, útsöluverð. Real eru að fara að eyða 14 milljónum punda í Jonathan Woodgate. Owen kostaði 8 milljónir punda. Finnst ykkur það réttmætt verð? Einmitt.
Allavega, þannig að ég býst við að Xabi Alonso sé þegar þetta er skrifað að standast læknisskoðun í Liverpool og mun því væntanlega skrifa undir í kvöld. Fréttamannafundurinn verður þá nær örugglega haldinn á morgun.
Nú, fyrr í dag sagði ég frá því að Luis García gæti verið á leiðinni til okkar eftir allt saman. En nú eru víst komnar nýrri fréttir en það… skv. Marca er þegar búið að semja við García og segja þeir að Liverpool og Barca eigi aðeins eftir að komast að samkomulagi um hvernig þessar 9milljón Evrur verði greiddar og þá eru kaupin gengin í gegn!
Ég endurtek, Marca er mjög áreiðanlegur miðill og þeir birta yfirleitt ekki slúður … yfirleitt. En þar sem brottför García frá Barca gæti verið góðar fréttir fyrir Real Madríd – og Marca er hliðhollt Real Madríd – þá gæti verið að þessi frétt sé uppspuni sem ætlað er að koma höggi á Barcelona, erkifjendurna sjálfa.
Ég persónulega held ekki og miðað við þessa frétt – sem ég er alveg til í að trúa – þá er García væntanlega að ganga til liðs við okkur bara á morgun eða jafnvel yfir helgina. Hann myndi þá, eins og Xabi Alonso, spila sinn fyrsta leik fyrir okkur gegn Bolton eftir rúma viku. Hversu góð tilhugsun er það?
Að lokum, þá fór Antonio “gypsy curse” Nunez í læknisskoðun í dag og þar kom í ljós að hann verður frá í allt að fjórar vikur! Það er sem betur fer ekki eins langur tími frá og Smicer þarf að sætta sig við … fjórar vikur eru ekki svo mikið, þar sem þetta hefði í raun getað farið miklu verr.
Þannig að ég geri ráð fyrir að svona upp úr miðjum september fari Nunez að spila fyrir varaliðið og gæti komið inn í aðalliðið fljótlega upp úr því.
En ef kaupin á García ganga í gegn eru allt í einu orðnir fjórir Spánverjar í liði Liverpool FC: Josemi, Xabi Alonso, Antonio Nunez og Luis García. Hversu nett væri það?!?!?
Jæja. Ég ætla að hugsa um eitthvað annað en Liverpool í kvöld, þar sem það verður eflaust nóg að gera hjá okkur Einari á morgun að fjalla um fréttamannafundinn til heiðurs Xabi Alonso á Melwood… 😉
Þetta er mjög góðar fréttir, en má ég samt biðja um að þið notið ekki .bmp myndir á síðunni, þar sem t.d. nýjasta myndin er 0.6 mb og gerir síðuna hægvirkari en þarf. 🙂
Sorrí, ég er búinn að laga þetta. Kristján var eitthvað að klikka á þessu. Búinn að breyta myndunum í JPG 🙂