**Einar Örn**: Svona á þetta að vera. [3-0 sigur](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N146149040925-1652.htm)
Auðveldur sigur hjá Liverpool. Linnulaus sóknarbolti á heimavelli gegn liði, sem Liverpool á að vinna.
Hversu oft undir stjórn Houllier þurftum við að sætta okkur við að Liverpool gat einfaldlega ekki brotið niður lið, sem mættu á Anfield til að verjast?
Norwich mætti á Anfield í dag til að verjast, enda hefur liðið haldið hreinu ansi lengi og lítið skorað, þannig að þeirra helsta von var að ná markalausu jafntefli. Leikmenn Liverpool sáu til þess að það var engin hætta á þeirri niðurstöðu.
Benitez stillti liðinu upp svona:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise
Garcia – Alonso – Hamann – Warnock
Cisse – Baros
Garcia var settur á kantinn, svo maður hélt að hann yrði ekki alveg jafn hættulegur og hann var frammi, en öðru nær. Garcia var frábær, stöðugt ógnandi og vann einnig frábærlega tilbaka. Ég man eftir þónokrum tæklingum, sem hann vann í þessum leik.
Warnock var líka fínn á vinstri kantinum, en þó ekki nærri því jafnmikil ógn og Garcia. Við höfum beðið ansi lengi eftir almennilegri breidd í þetta lið og núna sýnist mér við loksins vera komin með breidd í liðið með Garcia, Kewell, Warnock og hugsanlega Nunez.
Allavegana, Liverpool sótti frá fyrstu mínútu og var með boltann allan tímann. Ég held að Norwich hafi ekki átt eitt skot á Liverpool markið. Baros og Cisse skoruðu báðir mörk með langskotum, sem ætti að laga sjálfstraust þeirra beggja, þar sem þeir hafa verið gagnrýndir talsvert. Luis Garcia skoraði einnig eftir frábæra sendingu frá Cisse.
Allt liðið lék vel, vörnin var traust og Baros og Cisse virtust ná ágætlega saman. Hamann var sterkur á miðjunni. Warnock og þá sérstaklega Luis Garcia léku vel á köntunum.
**Maður leiksins**: Það lék þó enginn eins vel og **Xabi Alonso**. Jedúddamía hvað hann er góður leikmaður! Hann vann alla bolta, sendingarnar voru magnaðar og þá sérstaklega hvernig hann dreifði spilinu á kantana. Það hefur greinilega gleymst að segja honum og Luis Garcia að það eigi að taka menn nokkrar vikur að venjast ensku deildinni 🙂
Það er ljóst að Xabi Alonso mun gera meiðsli Gerrard öllu bærilegri fyrir okkur Liverpool aðdáendur. Þegar þeir fá að spila saman, þá efast ég um að það séu til lið á Englandi (eða í Evrópu) með betri miðjumenn. Alonso getur orðið jafngóður og Steven Gerrard! Já, Xabi Alonso er svo góður!
Benitez gerði nokkrar breytingar í lok leiksins. Hann tók Xabi Alonso útaf hálftíma fyrir leikslok, svo hann gæti hvílt sig fyrir Olympiakos leikinn og einnig fóru Cisse og Warnock útaf. Cisse var víst meiddur en fékk að skjóta úr aukaspyrnu áður en hann fór útaf. Og auðvitað skoraði hann úr aukaspyrnunni.
Benitez setti Diao, Biscan og Traore inná og breytti gjörbreytti liðinu. Prófaði fulltaf leikmönnum í nýjum stöðum. Diao byrjaði á miðjunni og færði sig svo í miðvörðinn. Traore byrjaði í miðverðinum en færði sig svo í bakvörð. Biscan fór inná miðjuna, Garcia fór fram og Finnan á kantinn á meðan að Carragher fór í hægri bakvörðinn. Allt gekk þetta vandræðalaust fyrir sig.
Frábær leikur og þrjú stig gegn erfiðu liði. 3-0 sigur [einsog ég spáði](http://www.kop.is/gamalt/2004/09/25/13.49.21/) og stanslaus sóknarbolti. Við gátum ekki beðið um meira eftir ófarirnar gegn Man U.
p.s. Benitez var ánægður en vildi samt [fleiri mörk](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N146150040925-1744.htm). Gaman að heyra! 🙂
p.p.s. Nigel Worthington hafði þetta um Alonso og Liverpool að segja:
>’But Alonso was in a different class, you would pay good money anywhere in the world to see top class performances like that.
>’We were not on top of our game, but I have to say Liverpool were superb.’
Við hefðum auðveldlega getað unnið þennan leik 6-0.
Viðbót (Kristján Atli): Hversu góður er Xabi Alonso? Vááááá! Ég hef ekki séð jafn afgerandi frammistöðu hjá einum miðjumanni í einhverja mánuði, hvað þá á þessu tímabili! Hann var allt í öllu hjá okkur og ég taldi aðeins tvær sendingar hjá honum sem rötuðu ekki á samherja … önnur þeirra var þvert frá vinstri til hægri á Luis García en var aðeins of löng, hin var stungusending sem Djibril Cissé tókst ekki alveg að ná stjórn á. Að öðru leyti var hann gjörsamlega óskeikull … og hann hlýtur að hafa unnið a.m.k. 10 bolta af andstæðingum í þokkabót! Þvílíkur leikmaður sem við höfum hér…
Þetta var frábær sigur sem minnti í raun margt á sigurinn gegn W.B.A. fyrir tveim vikum. Eins og Einar sagði þá komu Norwich að verjast en – ólíkt því þegar Houllier stjórnaði þessu liði – þá áttu þeir aldrei séns. Barasta aldrei. Þeir voru hreinlega ekki með og ég heyrði þulina oft segja eitthvað eins og “Norwich are playing shadow-chase at the moment” og slíkt, sem gaf til kynna að þeir fengju varla að snerta boltann!
Þetta var hið fullkomna svar við tapinu á mánudaginn, svona á að þagga niður í öllum gagnrýnisröddum! Og frábært veganesti vonar maður fyrir leikinn gegn Olympiakos á þriðjudag … en þá þurfum við á því að halda að vera með sjálfstraustið í lagi!
Þá fannst mér einnig sérlega gaman að sjá bæði Cissé og Baros skora. Eins og ég skrifaði í upphitun fyrir þennan leik þá fannst mér mikilvægt ef þeir gætu báðir náð að setja mark í þessum leik til að koma sér aftur á strik í deildinni og það gekk eftir.
Á heildina litið, frábær leikur. Við erum núna í 7. sæti í deildinni með 10 stig eftir 6 leiki (3 sigrar, 1 jafntefli, 2 töp) og ef við vinnum leikinn sem við eigum inni förum við í 3.-4. sætið ásamt nágrönnunum í Everton. Þannig að þetta er alls ekkert svo slæmt.
Þá höfum við unnið alla þrjá heimaleikina okkar í deildinni hingað til með markatölunni 8-1, sem er frábært. Anfield er að verða virki aftur! Á útivelli höfum við hins vegar aðeins náð einu jafntefli (T’ham) og tapað tveimur (Bolton og United), þannig að ljóst er að við verðum að vera sterkari á útivelli ef við ætlum að blanda okkur í toppbaráttuna!
Samt … maður brosir þessa helgina enda var leikurinn í dag frábær skemmtun! Bring on Olympiakos… 😉
Virkilega gaman að sjá okkar menn yfirspila minni spámenn og gera almenlega útum leikinn fyrir hálfleik 🙂 Eitthvað sem maður hefur saknað í þó nukkurn tíma.
Virkileg góð síða hjá ykkur
Gaman að sjá að Benitez vildi fleiri mörk. Man þegar við unnum Blackburn 4-0 einhverntíman undir Houllier, þá talaði Houllier um að hann vildi ekki að við myndum niðulægja andstæðinginn með of mörgum mörkum. Ég fékk haturssting í magann þann dag út í Houllier. Djöfullsins hálfviti. Já ég sagði djöfullsins hálfviti og sé ekki eftir því. :tongue:
Ótrúlega er miklu skemmtilegra og miklu afslappaðra að fylgjast með liðinu undir stjórn Benitez en nokkurn tímann undir GH. manni er farið að líða aftur vel fyrir leiki og sömuleiðis að fylgjast með leikjunum þar sem maður veit að það verður (nokkurn veginn) spilaður mannsæmandi fótbolti 🙂 :blush:
Áfram Liverpool
OLE!! yeeeesss glæsilegur sigur. djöfull er ég sáttur
Frábært. Frábært. Það liggur eitthvað í loftinu hjá gamla góða Liverpool þessa dagana. Benites er að gera frábæra hluti með liðið okkar. Nú er bara að leggjast á skeljarnar og vona að þeir nái góðum úrslitum í Grikklandi. Þetta verður pottþétt erfiður leikur en ég er sannfærður um að við höfum stuffið sem til þarf. Svo er bara að sjá. Ánægður að heyra metnaðinn í Benites. Fleiri mörk og ekkert hörmungas væl!! 🙂 🙂 🙂
Ég er mjög sáttur vð frammistöðu liðsins á þessu tímabili og einnig með nýja liðsmenn liðsins þ.m.t. Alonso og Garcia. En ég vil samt minna menn á að sleppa sér ekki alveg í lýsingarorðunum því þetta var Norwich City og WBA heima þar á undan. OK, það er plús að við náum að jarða lið sem parkera á rútunni inní sínum eigin vítateig og það hefur í rauninni ekki gerst lengi. En hinsvegar er allt annað að sjá liðið og greinilegt að við komum sterkari til leiks í ár en sl 15 ár. Við verðum bara að vinna stóru liðin líka til að fá eitthvað út úr þessu.