Liverpool 2 – Charlton 0

riisegoal_lg.jpgGlæsilegt. Öruggur 2-0 heimasigur gegn Charlton.

Við töpuðum tvisvar gegn Charlton á síðsta tímabili, en það var engin hætta á því að það myndi gerast í dag. Liverpool var algjört yfirburðarlið á vellinum frá fyrstu mínútu til þeirrar 90. Eina umkvörtunarefni mitt er að sigurinn hefði átt að vera miklu, miklu stærri. 4-0 eða 5-0 hefðu verið sanngjörn úrslit.

Ég hef sjaldan verið jafn lítið stressaður yfir Liverpool leik. Það var bara spurning um hvenær við myndum skora.

Benitez stillti upp nokkurn veginn sama liði og á móti Deportivo, enda lítil ástæða til að breyta. Eina breytingin var að Josemi var í banni og því kom Steve Finnan inn fyrir hann (og spilaði verulega vel).

Chris Kirkland

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – Hamann – Riise

Baros – Cissé

Einsog ég sagði, þá var bara tímaspursmál hvenær mörkin myndu koma. Og þegar þau komu, þá voru þau svo sannarlega glæsileg. Riise skoraði sitt fyrsta mark í laaaangan tíma á 51. mínútu. Eftir basl í vítateignum fékk Riise boltann fyrir utan teig, tók hann á lofti og smellti honum í vinstra hornið.

Ef markið hjá Riise var glæsilegt, þá var markið hjá Garcia eitt af mörkum þessa tímabils. Alonso gaf á hann við miðjuna, Garcia tók boltann með sér og þrumaði boltanum í boga framhjá Kiely í markinu. Boltinn virtist vera á leiðinni útaf en á miðri leið sveigðu hann í átt að markinu og í netið. Ekki sjens fyrir Kiely. Frábært mark.

Bara smá tölfræði, sem sýnir yfirburðina. Liverpool var með boltann 60% af leiknum. Við fengum 12 horn, Charlton ekkert. Við áttum 18 skot að marki, Charlton 3. Liverpool gjörsamlega yfirspilaði Charlton allan leikinn.

Baros, Sinama-Pongolle, Cisse og Alonso hefðu allir getað skorað í leiknum.

garciafagnarmarki.jpg**Maður leiksins**: Án nokkurs vafa **Luis Garcia**. Frábær leikur. Hann byrjaði á kantinum, en skipti við Cisse í fyrri hálfleik og var besti maður vallarins. Sí skapandi og hættulegur. Kórónaði leikinn með frábæru marki.

Það lék enginn illa fyrir Liverpool í dag og liðið var lygilega jafnt. Nokkrir stóðu þó uppúr. **Djibril Cisse** var frábær á kantinum. Notaði hraðann vel og tók Hermann Hreiðarsson oft í nefið.

**Alonso** og **Hamann** áttu miðjuna algerlega og tóku Murphy m.a. í nefið. Danny Murphy átti típískan leik, það er hann átti fleiri sendingar á mótherja en samherja. Það er í raun magnað að Liverpool skuli ekki hafa skorað eftir þau skipti sem Murphy gaf okkur boltann.

En semsagt mjöööög verðskuldaður sigur, sem var aldrei í hættu. Ennþá erum við **með fullkomin árangur á heimavelli**. Við höfum unnið alla leikina og markatalan á heimavelli í deildinni er: 10-1. Fjórir leikir á heimavelli og fjórir sigrar. Anfield er að verða að virki aftur!

En núna taka við 3 mis-erfiðir útileikir í röð. Millwall næst á þriðjudaginn (þar sem búast má við talsverðum breytingum), svo Blackburn á laugardaginn á Ewood Park og svo svakalegur útileikur gegn Deportivo.

En þetta er gott veganesti.


Viðbót (Kristján Atli): Ég er sammála Einari, þessi sigur var glæsilegur og í raun þróaðist þessi leikur svipað og Deportivo-leikurinn. Hvort að Charlton-menn ætluðu sér það eða ekki veit ég ekki, en þeir voru strax á fyrstu mínútu komnir í hálfgerða nauðvörn og við héldum áfram að pressa þá þangað til á síðustu mínútunum.

Þá átti Luis García algjörlega frábæran leik í dag, en þess fyrir utan langar mig að útnefna nokkra sem mér fannst góðir: Djimi Traoré var enn og aftur frábær í vinstri bakverðinum, Steve Finnan átti flottan leik í hægri bakverðinum, Riise virkaði mjög frískur á vinstri kantinum, Carragher rúlar!!!!, og að lokum fannst mér Sinama-Pongolle eiga mjög sterka innkomu og ef línuvörðurinn hefði ekki dæmt eina kolvitlausa rangstöðu hefði hann getað skorað í dag.

Og eitt að lokum: hversu gaman er það að sjá Rafa Benítez bæta í sóknina í stöðunni 1-0 og 2-0? Eftir að við komumst í 1-0 þá tók hann Riise útaf (vegna þreytu) fyrir sókndjarfari kantmann í Harry Kewell. Þegar við síðan vorum komnir í 2-0 tók hann Milan Baros útaf, en í stað þess að setja t.d. Diao inn og styrkja miðjuna setti hann bara Pongolle inná og gaf honum kortér. Tók síðan Traoré útaf fyrir sókndjarfari bakvörð í Stephen Warnock.

Maður man bara allt of oft eftir því þegar við vorum komnir 1-0 yfir á heimavelli og Houllier bakkaði með liðið. Leikir eins og gegn Portsmouth, Man City, Arsenal, Birmingham og Southampton á heimavelli í fyrra eru góð dæmi um þetta. Við bökkuðum alltaf eftir að við vorum komnir yfir – og stundum jafnvel þrátt fyrir að vera undir (eins og gegn Southampton).

Það er bara gaman að sjá hversu mikill vilji er hjá Benítez til að sækja og vinna afgerandi á heimavelli – og það smitar frá sér inná völlinn og liðið er að pressa andstæðingana fram á síðustu mínútu! Og það er ekki eins og við séum að fá á okkur fleiri mörk í deildinni, þrátt fyrir þessa áherslu á sóknarleikinn. Eitt mark í fjórum heimaleikjum er betri árangur en t.d. hjá Arsenal og jafngóður árangur og hjá Chelsea.

6 Comments

  1. Dálítið skemmtilegt að segja frá því að Riise hefur ekki skorað síðan í feb 2003. Örfáum mín áður en hann skoraði þetta marki þá ræddu ensku þulirnir um að Riise hefði ekki skorað í 1 1/2 ár og væri það væri bara ekki nógu gott fyrir hann sem hefði skorað þau mörg falleg.

    En markið hjá Garcia var hreinasta snilld og það eina “neikvæða” við þennan leik va rað við skildum ekki hafa raðað inn einhverjum 4-5 mörkum. Charlton hafði bókstaflega ekkert fram að færa og voru verri en Norwich sem börðust þó allavega.

  2. Flottur leikur en súrt að nýta ekki fleiri færi. Eins finnst mér visst áhyggjuefni hvað Cisse er oft í fýlu út í samherjana og samvinna hans og Baros er alls ekki nógu góð. En flottur leikur í dag og við klifrum töfluna hægt og bítandi. :biggrin:

  3. Jamm, sammála Kristján með það að Benitez hafi haldið áfram að spila sóknarleik. Það var mjög ánægjulegt.

    Einnig ánægður með að hann tók Baros útaf núna (þrátt fyrir að Baros hafi leikið vel). Það var snjallt, þar sem ég held að það hefði verið slæmt fyrir sjálfstraustið hjá Cisse að vera aftur tekinn útaf.

    Ég held reyndar, Kristinn, að Cisse sé ekki beint í fýlu útí félagana, heldur kannski frekar þá staðreynd að honum gengur ekki alveg nógu vel. Held að hann sé aðallega svekktur útí sjálfan sig.

  4. Bara svo það sé á hreinu, þá er Cissé ekki beint í “fýlu” við einn né neinn inná vellinum. Hann hefur bara sama lundarfar og t.d. Thierry Henry og Christian Vieri þegar kemur að knattspyrnunni. Sumir myndu kalla þetta hroka eða eitthvað álíka, en hvað sem það er þá eru þetta menn sem brosa sjaldan og fagna oftar en ekki með því að steyta hnefum reiðilega framan í andstæðingana eða eitthvað álíka.

    Þannig að endilega, ekki misskilja “fýlusvipinn” á Cissé sem svo að hann sé eitthvað óánægður með eitthvað. Auðvitað verður hann pirraður á meðan hann er ekki að skora, en það er ekkert til að hafa áhyggjur af.

    Ég myndi hafa áhyggjur af því ef hann væri EKKI pirraður með markaleysið.

    En trúið mér, ég hef fylgst með Cissé nógu lengi til að vita að hann brosir bara þegar hann skorar … öfugt við t.d. Ronaldinho, sem brosir alltaf.

    🙂

  5. Sannfærandi sigur í dag. Að vísu átti ég erfitt með að fagna þegar að Riise skoraði. Vonandi verður hann smám saman að jaðarfígúru í liðinu og seldur næsta sumar. Það kæmi mér hreint ekki á óvart. Annars er deginum ljósara að Alonso er frábær leikmaður. Bestu kaup Liverpool í mörg ár. Það verður gaman að fylgjast með hvernig honum og Gerrard gengur að ná saman og ljóst að Gerrard getur lært margt af honum. Vonandi erum við að horfa á síðasta tímabil Hamann og eins óska ég eftir sölu Diao. Þið sem lesið þetta veltið því e.t.v. fyrir ykkur hvers vegna ég fer ekki sérstaklega fögrum orðum um Riise og Hamann. Best að útskýra það. Best að greina strax frá því að ég tel Hamann mun betri leikmann en Riise. Riise byrjaði eiginlega of vel hjá okkar mönnum, skoraði glæsileg mörk og lifir enn á því. Fyrsta mark hans í hvað, 18 mánuði er til vitnis um það. Norsarinn hefur bara annan fótinn til að leika með og andstæðingarnir hlæja bara að sóknartilburðum hans. Norska ævíntýraformið hefur lítið að setja og við sáum oft í dag að Riise er ekki leikmaður sem meistaralið hefur í sínum röðum. Hvað Hamann varðar þá er afar gott að hafa hann í snúnum útileikjum, hann veit hvað hann getur og er skynsamur leikmaður. Á hinn bóginn er hann geysilega takmarkaður. Hann er fyrst og fremst varnarsinnaður miðjumaður og það er fátt sem hann getur betur en Gerrard. Bestu lið samtímans tefla fram miðjumönnum sem bæði geta sótt og varist og Manni getur ekki sótt. Besta dæmið um dómgreindarleysi Húlla var að láta kappann bomba á markið í aukaspyrnum. Manni er hörmuleg skytta þrátt fyrir að geta skotið fast. Tja, niðurstaðan er e.t.v. eftir frekari umhugsun að það er fínt að hafa Hamann til taks en hann er ekki leikmaður sem ber uppi miðjuspil meistaraliðs. Og það er jú það sem við viljum vera.

    Húlli var hrifinn af Murphy. Hann var nánast fastamaður í hans liði. Þið sem sáuð leikinn í dag (og hugsanlega fyrri leiki Charlton) sjáið að þarna er ekki leikmaður í meistaraliði. Hárrétt að selja kappann. Rafa sá það auðvitað eins og skot.

    Annað sem blasti við í dag er hvílík blessun það er að vera lausir við Heskey og Owen. Loksins spilum við knattspyrnu sem er gaman er að horfa á. Þessar endalausu kýlingar á Heskey og Owen gerðu menn auðvita sturlaða. Baros og Cisse eru mun betri leikmenn. Baros er hreint út sagt magnaður leikmaður. Það eru bara fávitar sem hafa slíkan leikmann á bekknum. Húlli lét hann sitja á sprekinu eins og fífl meðan að Heskey hoppaði og skoppaði um allan völl án þess að hafa hugmynd um hvar markið var. Og Cisse, þvílíkur hraði og áræði. Hann er jafn direct og Owen var þegar hann var uppá sitt besta. Reyndar skal ég viðurkenna að hann er ekki jafn djöfullega marksækinn og Owen var, en ég held að kappinn eigi eftir að blómstra hjá okkar mönnum.

    Það er einn leikmaður sem ég hef miklar mætur á um þessar mundir, Jamie Carragher. Það á umsvifalaust að gera hann að fyrirliða liðsins. Gerrard getur tekið við bandinu þegar hann snýr aftur, en Carragher er einfaldlega búinn að vera frábær í miðverðinum.

    Mér sýnist allt stefna í það að við hirðum þriðja sætið í ár. En það er alveg ljóst að við erum með frábæran stjóra og hægt að setja sig í stellingar fyrir enn betrí tíð. Eina sem ég skil ekki er að sá sérdeilils vandaði leikmaður Biscan fái ekki meira að spila 🙂 Spauglaust, þá held ég að þar sé maður sem getur meira en leist aukahlutverk Hammann af.

    Kv Baros.

  6. Frábær leikur, frábær mörk! Guð minn góður þegar Gerrard fer að spila með Alonso á miðjunni!!

    Reyndar er ég doldið ósammála “Baros” hér að framan að við ættum að selja Riise í sumar. Hann er kannski besti vinstri bakvörðurinn en hann leggur sig alltaf 100% fram í leikina og stendur fyrir sínu langoftast. Finnst kannski ekkert merkilegt þótt bakverðir skori ekki nema 2-3 mörk á tímabili.

Byrjunarliðið komið!

Morientes: Ég er svooo ánægður hjá Real