Yfir til þín, Milan!

barosfagnar.jpgAllt frá því að Milan Baros var keyptur til Liverpool hefur hann þurft að spila í skugga annarra leikmanna.

Baros var keyptur fyrir 3,6 milljónir punda frá Banik Ostrava af Gerard Houllier (takk, Gerrard) árið 2001. Þá var hann aðeins tvítugur og kaupin féllu í skuggann af því að á [sama blaðamannafundi var Nicolas Anelka líka kynntur til sögunnar hjá Liverpool](http://www.kop.is/gamalt/baros-fundur.jpg).

Baros fékk lítið að spila til að byrja með og fyrstu árin var hann ávallt í skugga Emile Heskey og Michael Owen. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum valdi Houllier alltaf Heskey framfyrir Baros. Milan var auðvitað orðinn fullsaddur af þeirri vitleysu, en þjálfaraskipti sannfærðu hann um að hann myndi eiga fleiri möguleika hjá Liverpool. Það sama var í gangi hjá tékkneska landsliðinu, þar sem hafði alltaf spilað í skugga Jan Koller.


Ansi margt breyttist í sumar þegar Baros varð markahæsti leikmaður EM. En allt kom fyrir ekki. Þegar hann kom aftur til Liverpool var hann aftur í skugga annars leikmanns, nú Djibril Cisse, sem var orðinn dýrasti leikmaður Liverpool allra tíma. Margir sáu fyrir sér að Cisse og Owen myndu vera aðal framherjaparið hjá Liverpool, en sala Owen til Real Madrid breytti því.

Það var þó augljóst að Benitez hafði meira álit á Cisse og Baros var settur á bekkinn í nokkrum leikjum. En að undanförnu hefur Baros verið að koma sterkari og sterkari inn. Hann er markahæsti leikmaður Liverpool á þessu tímabili og hann hefur skorað 3 mörk í síðustu tveim leikum.

Og svo breyttist allt nú um helgina þegar Djibril Cisse meiddist.

Núna er **Baros framherji númer 1**

Það hefur ekki gerst hjá Milan síðan hann var aðalmaðurinn hjá Banik Ostrava. Núna verður hann pottþétt fyrsti framherji, sem Benitez mun velja í liðið og hann verður sá maður, sem allir aðdáendur munu treysta á. Spurningin er bara hvernig Baros mun bregðast við þeirri ábyrgð.


Það hefur sennilega ekki farið á milli mála að við Kristján erum gríðarlega hrifnir af Baros sem leikmanni. Hann hefur sjaldan valdið okkur vonbrigðum, því það má bóka að hann muni berjast einsog ljón fyrir liðið og hann er ávallt duglegur við að skapa sér marktækifæri.

Það, sem er einna helst hægt að kvarta undan varðandi Baros er að hann er oft full eigingjarn og svo hefur nýtingin á færum ekki verið nógu góð. Það mun þó koma með auknu sjálfstrausti.

Ég held því óhræddur fram að Milan Baros sé einn af 10 bestu framherjum í heimi í dag. Við treystum á að hann komi okkur í gegnum erfiða leiki í Meistaradeildinni og Úrvalsdeildinni á næstu vikum og mánuðum.

Þetta byrjar allt á morgun með gríðarlega erfiðum útileik gegn Deportivo í Meistaradeildinni. Eigum við ekki að spá 0-2 fyrir Liverpool, Baros með bæði mörkin 🙂

GÓÐAR Fréttir!

Deportivo í kvöld!