Þetta er Djimi Traoré og hann kann sko að sóla!
Allavega, á morgun spilum við við Birmingham City á heimavelli – og það sem þykir kannski fréttnæmast við þennan leik fyrir okkur L’pool-aðdáendum er endurkoma Emile Heskey á Anfield, fyrsta sinn sem hann snýr aftur eftir að hafa verið seldur í vor.
Emile, eða ‘Bruno’ eins og hann var svo oft kallaður, var sennilega einhver elskaðasti og einhver hataðasti leikmaðurinn hjá Liverpool síðustu fimm árin. Eftir að hafa brillerað á sínu fyrsta heila tímabili með okkur, skorað 22 mörk og átt lykilþátt í að vinna þrennuna vorið 2001, þá hreinlega hætti hann að geta rassgat. Því miður. Og þessi “hegðun” hans fyrir framan mark andstæðinganna var svo óskiljanleg að ég sá mig knúinn til að skrifa pistil um málið sem birtist á Liverpool.is, vorið 2003.
En allt kom fyrir ekki, Heskey hélt áfram að spila ömurlega síðasta leiktímabil og virtist vera frelsinu fegnastur þegar hann yfirgaf Liverpool í vor.
Staða Birmingham er svona: þeir hafa ekki skorað síðan árið 1843 í deildinni, Heskey og Dwight Yorke hafa ekkert getað í framlínunni þeirra (ofsalega sakna þeir Forsell) og líkurnar á því að þeir skori á Anfield á morgun eru svona 0.38%.
Sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég er skíthræddur við að Emile Heskey skori á morgun. Það væri bara svo týpískt.
Samt, þótt þeir læði einu inn þá geri ég fyllilega ráð fyrir að við vinnum þennan leik á morgun, sérstaklega þar sem sjálfstraust okkar er í hámarki eftir góðan útisigur á Spáni á miðvikudag.
Eina sem gæti komið sér illa fyrir okkur á morgun er ef að Milan Baros reynist vera meiddur og missir af leiknum. Ef það gerist, þá fær Flo-Po væntanlega stóran séns á morgun … og Mellor væntalega að vera á bekknum.
Líklegt byrjunarlið á morgun er svona:
Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré
García – Alonso – Biscan – Riise
Baros – Kewell
Ef Baros er meiddur kemur Flo-Po í liðið á ný. Nú, ég spái því líka að Biscan haldi sæti sínu í byrjunarliðinu eftir frábæran leik gegn Deportivo. Hamann var ekkert slæmur í þeim leik, reyndar frekar góður, en frammistaða Biscans gerir það að verkum að hann á skilið að spila á morgun. Svo er hann líka betri í sókninni en Hamann og það gæti reynst mikilvægt gegn varnarmúr Birmingham á morgun.
Mín spá: Hvort þeir skora eitt mark eða ekki veit ég ekki, og ég myndi í raun telja það útilokað ef ekki væri fyrir Emile Heskey í liði þeirra. En við vinnum á morgun, ég hef í raun sjaldan verið jafn öruggur fyrir einn leik. Við hljótum að vinna á morgun, ég trúi bara ekki öðru! Ég spái öruggum sigri, svona 3-0 eða 3-1.
Svo minni ég bara alla á að kíkja á Players á morgun, kl. 13:00. Veislan hefst snemma og við hitum ærlega upp fyrir leikinn með útgáfu Afmælisbókarinnar! Endilega fjölmennið!